Print

Mál nr. 527/2011

Lykilorð
  • Skaðabótaskylda

 

Miðvikudaginn 16. maí 2012.

Nr. 527/2011.

 

Gunnar Júlíus Jónsson

(Gunnar Sólnes hrl.)

gegn

Vegagerðinni

(Hreinn Loftsson hrl.)

 

Skaðabótaskylda.

Ó veitti V framkvæmdaleyfi vegna gerðar Héðinsfjarðarganga að undangenginni lögbundinni meðferð málsins samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og lögum um mat á umhverfisáhrifum. GJ, sem hélt hross á svæðinu, taldi V bera ábyrgð á tjóni sem hann hefði orðið fyrir vegna framkvæmdanna og krafði V um bætur. Í Hæstarétti var GJ ekki talinn hafa sýnt fram á nein atvik í málinu sem leitt gætu til bótaábyrgðar V. Þegar af þeirri ástæðu var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu V.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. september 2011. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 10.065.260 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 8.318.027 krónum frá 24. desember 2009 til 3. október 2010, en af 10.065.260 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun, 417.793 krónur, sem greidd hafi verið áfrýjanda 29. desember 2007. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað, en til vara lækkunar á kröfum áfrýjanda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi hefur ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti. Krafa hans um endurskoðun á ákvæði héraðsdóms um málskostnað kemur því ekki til meðferðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi veitti Ólafsfjarðarbær stefnda 9. september 2005 framkvæmdaleyfi vegna gerðar Héðinsfjarðarganga, en þá hafði farið fram lögbundinn undirbúningur framkvæmdarinnar samkvæmt þágildandi skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Voru engin sérstök skilyrði sett fyrir framkvæmdinni vegna hesthúsabyggðar þeirrar er um ræðir í málinu.

Eftir að Ólafsfjarðarbær hafði leitað til stefnda í því skyni að gert yrði samkomulag við hestamenn vegna þeirrar röskunar sem hefði orðið og yrði á framkvæmdatíma jarðganganna samþykkti stefndi að gera samninga við hestamannafélagið Gnýfara um að bæta hestaeigendum áætlaðan útlagðan kostnað þeirra. Voru gerðir tveir samningar. Sá fyrri tók til tímabilanna 2006 til 2007 og 2007 til 2008 og greiddi stefndi hestamannafélaginu alls 4.800.000 krónur fyrir bæði tímabilin. Síðari samningurinn var gerður fyrir tímabilið 2008 til 2009 og greiddi stefndi félaginu 3.416.000 krónur samkvæmt honum. Áfrýjandi mun hafa fengið greiddar 417.973 krónur úr hendi félagsins fyrir árin 2007 og 2008, en ekkert fyrir árið 2009, enda ekki eftir því leitað af hans hálfu eins og nánar er rakið í héraðsdómi. Er fram komið í málinu að áfrýjandi taldi sig óbundinn af framangreindum samningum hestamannafélagsins og stefnda.

II

Samkvæmt stefnu til héraðsdóms reisti áfrýjandi kröfur sínar á hendur stefnda „einkum á því að þær framkvæmdir sem ráðist var í og hófust snemma árs 2006, hafi valdið honum tjóni sem stefndi sé ábyrgur fyrir samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins.“ Hafi áfrýjandi þurft að flytja hross sín á brott og koma þeim fyrir annars staðar með tilheyrandi kostnaði. Þá hafi áfrýjandi orðið fyrir tjóni af því að geta ekki nýtt hesthús sitt þann tíma sem um sé að ræða, en hann hafi eftir sem áður þurft að reka það áfram í því skyni að takmarka tjón sitt og gæta þess að það skemmdist ekki. Jafnframt hafi hann orðið fyrir ófjárhagslegu tjóni þar sem hann hafi ekki getað sinnt helsta áhugamáli sínu á framkvæmdatímanum. Kröfum sínum til stuðnings vísaði  áfrýjandi meðal annars til skaðabótalaga nr. 50/1993. Áfrýjandi reisir kröfur sínar að auki á því að stefndi hafi viðurkennt bótaskyldu sína með fyrrgreindum greiðslum til hestamannafélagsins Gnýfara.

Stefndi hefur frá upphafi hafnað því að hann beri bótaábyrgð á tjóni því sem áfrýjandi telur sig hafa orðið fyrir vegna framkvæmda við Héðinsfjarðargöng. Til þess að geta beint skaðabótakröfu sinni að stefnda þarf áfrýjandi að sýna fram á að uppfyllt séu skilyrði bótaábyrgðar hans. Áfrýjandi vísar til „almennra reglna skaðabótaréttarins“. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kvaðst hann með þessu vísa til almennu skaðabótareglunnar. Skilyrði hennar er að áfrýjandi sýni fram á að stefndi  hafi valdið honum tjóni með ólögmætum og saknæmum hætti. Svo sem áður er rakið veitti Ólafsfjarðarbær stefnda 9. september 2005 framkvæmdaleyfi vegna gerðar Héðinsfjarðarganga að undangenginni lögbundinni meðferð málsins samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og lögum um mat á umhverfisáhrifum og voru eins og áður segir engin sérstök skilyrði sett fyrir framkvæmdinni vegna umræddrar hesthúsabyggðar. Hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á nein atvik í málinu sem leitt geti til bótaábyrgðar stefnda gagnvart honum vegna framkvæmdanna, hvorki á grundvelli almennu skaðabótareglunnar né öðrum réttargrundvelli. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Eftir þessum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Gunnar Júlíus Jónsson, greiði stefnda, Vegagerðinni, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. júní 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 11. maí 2011, er höfðað af Gunnari Júlíusi Jónssyni, kt. 160654-2959, Ægisbyggð 12, Ólafsfirði, á hendur Vegagerðinni, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 til 7, Reykjavík. 

Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða sér 10.065.260 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 8.318.027 krónum frá 24. desember 2009 til 3. október 2010, en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Frá verði dregin innborgun að fjárhæð 417.793 krónur, sem greidd hafi verið stefnanda hinn 29. desember 2007. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins auk virðisaukaskatts.  

Stefnda krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans. Til vara krefst stefnda þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega en málskostnaður felldur niður.

Málavextir.

Hinn 9. september 2005 veitti bæjarstjórn Ólafsfjarðar stefndu Vegagerðinni framkvæmdaleyfi vegna gerðar Héðinsfjarðarganga en áður hafði bæjarstjórn Siglufjarðar gert svo fyrir sitt leyti. Mál þetta tengist gerð þess hluta ganganna sem liggur frá Ólafsfirði til Héðinsfjarðar. Framkvæmdir við göngin, sprengingar í fjalli og efnisflutningur úr því, hófust tæpu ári síðar. Vestan Ólafsfjarðaróss í Ólafsfirði, skammt frá gangamunna en utan afmarkaðs framkvæmdasvæðis, stóð hesthúsabyggð þar sem hestamenn í Ólafsfirði héldu hross sín. Var þar jafnframt skeiðvöllur.

Fyrir liggur að eftir að framkvæmdir hófust kvörtuðu hestamenn yfir áhrifum þeirra á aðstöðu sína og töldu hana mjög hafa spillzt.

Hinn 29. nóvember 2006 skrifaði Ármann Gunnarsson héraðsdýralæknir Eyjafjarðar- og Skagafjarðarumdæmis bæjarstjórn Fjallabyggðar bréf þar sem segir: „Öllum sem umgangast hesta ætti að vera ljóst, að þeim er afar illa við mikinn hávaða og hvelli.  Það er vegna þess að heyrn hesta er miklu næmari en manna.  Þetta sést m.a. um áramót, þegar hvellir og sprengingar hafa þrásinnis tryllt hross og valdið bæði þeim og öðrum skaða. Nú eftir að gangagerðin hófst með sprengingum og öðrum hávaða kemur í ljós að hestar í hesthúsum Ólafsfirðinga hafa staðið sveittir af angist í húsum inni og þeir sem úti eru kippast til við sprengingarnar. Hér er því greinilega um aðgerðir að ræða sem valda hestunum vanlíðan og jaðra við brot á lögum um dýravernd og reglugerð um aðbúnað hrossa. Þá er og ljóst að mikil umferð stórvirkra vinnuvéla á þessu svæði skapar verulega hættu bæði fyrir menn og hross. Einnig er líklegt að titringur af sprengingum geti aukið snjóflóðahættu á svæðinu. Að framansögðu telur undirritaður einsýnt að ekki sé mögulegt að vera með hross á þessu svæði á meðan á framkvæmdum stendur og sennilega ekki í framtíðinni vegna aukinnar umferðar og þrengingar að aðstöðu hestamanna. Þarf því að vinda bráðan bug að því að finna nýtt framtíðarsvæði fyrir athafnir hestamanna í Ólafsfirði.“

Með bréfi til stefndu, dagsettu 11. janúar 2007, óskaði bæjarstjórn Fjallabyggðar eftir viðræðum við stefndu um lausn á vanda hestamanna, en þeir hefðu þá gert kröfu á hendur sveitarfélaginu um að það kæmi að því að finna slíka lausn.

Hinn 5. október 2007 gerðu stefnda og hestamannafélagið Gnýfari „fyrir hönd eigenda hesthúsa í hesthúsabyggðinni vestan Ólafsfjarðaróss“ með sér samkomulag „um bætur vegna rasks og óhagræðis af völdum framkvæmda við Héðinsfjarðargöng“. Var í samkomulaginu kveðið á um að stefnda endurgreiddi hestamönnum, á grundvelli yfirlits er samningnum fylgdi, „áætlaðan kostnað og bætur vegna aðstöðumissis fyrir október 2006 til maí 2007 og október 2007 til maí 2008. Bótagreiðslurnar miðast við 60 hross og að kostnaðurinn sé kr. 5.000 á hross að meðaltali á mánuði. Samtals eru greiðslur fyrir hvort ár 2.400.000, alls 4.800.000. Reynist kostnaður hestamanna á síðara tímabilinu meiri en áætlunin segir til um verður tímabilið gert upp eftir að því lýkur, samkvæmt framlögðum reikningum.“ Á yfirlitinu sem fylgdi samningnum kemur fram að stefnandi fékk í sinn hlut alls 141.400 krónur sem sundurliðuðust svo, að vegna flutninga fékk hann 14 x 3.000 krónur, alls 42.000 krónur og vegna hagagöngu 14 x 1.500 krónur, 7 x 2.200 krónur og 21 x 3.00 krónur, alls 141.400 krónur. Í málinu liggur tölvubréf formanns Gnýfara til stefndu og kemur þar fram að vegna fyrra samningsárs hafi stefnandi fengið greiddar 141.400 krónur en vegna síðara árs 282.800 krónur.

Í júní 2009 gerðu sömu aðilar með sér nýtt samkomulag sem var sagt vegna kostnaðar af aðstöðumissi veturinn 2008 til 2009. Skyldi stefnda þar greiða hestamönnum, „á grundvelli fyrri samnings“, fyrir hagagöngu vegna aðstöðumissis sjö þúsund krónur að meðaltali á mánuði fyrir hvert hross frá október 2008 til maí 2009. Skyldu greiðslurnar miðast við 61 hross. Innifalið í kostnaðinum væri flutningur til og frá þeim stað þar sem hrossin gengju í haga. Segir í samningnum að alls nemi greiðslurnar 3.416.000 krónum. Samkvæmt tölvubréfi formanns Gnýfara til stefndu krafði stefnandi félagið ekki um greiðslu vegna þessa þriðja samningsárs.

Í málinu liggur fyrir skjal, dagsett 21. desember 2007. Geymir það svolátandi yfirlýsingu stefnanda en ekki er getið um viðtakanda þess: „Undirritaður hafnar samkomulagi því er gert var af Vegagerðinni [...] og Gnýfara [...] þann 5. 10. 2007 fyrir hönd eiganda hesthúsa.

1. Stjórn Gnýfara hafði ekki umboð undirritaðs til þess.

2. Þar er talað um bætur vegna rasks og aðstöðumissis af völdum framkvæmda við Héðinsfjarðargöng.

Sú upphæð sem undirrituðum var úthlutað úr áðurnefndu samkomulagi meðtekur hann sem kostnað vegna hagagöngu og flutnings sinna hrossa tímabilið okt. 2006 – maí 2007 og óuppgerðan kostnað vegna okt. 2007 – maí 2008 samkvæmt reikningi. Undirritaður áskilur sér rétt til kröfu á greiðslu vegna miska og aðstöðumissis frá sept. 2006 – 2009 á ársgrundvelli með vísan til bréfs Héraðsdýralæknis Eyjafjarðar – og Skagafjarðarumdæmis 29. 11. 2006.“

Í málinu liggur fyrir afrit kaupsamnings, dagsetts 22. júlí 1999, þar sem segir að Steinn V. Gunnarsson kaupi hesthús með fasteignamatsnúmer 2154463, Hesthúsahverfi 151335, 25% hluti í hesthúsi nr. 4, af Bjarma A. Sigurgarðarssyni og Ólöfu Ýri Lárusdóttur, og er kaupverð sagt vera 700.000 krónur. Samkvæmt stimpli hefur samningurinn verið móttekinn til þinglýsingar hinn 8. september 1999 og færður í þinglýsingarbækur sýslumanns hinn 7. október 1999.

Í málinu liggur fyrir afrit afsals, dagsetts 15. marz 2007, þar sem segir: „Þar sem Gunnar Jónsson [...] hefur að fullu staðið skil á umsömdu kaupverði fasteignarinnar hesthús með fasteignamatsnúmer 2154463, Hesthúsahverfi 151335, 25% hluti í hesthúsi nr. 4 í hesthús[a]hverfi Ólafsfirði og uppfyllt öll skilyrði kaupsamnings okkar dags. 15. 03. 2007, lýsi ég Gunnar Jónsson löglegan eiganda framanskráðrar eignar og hirðir hann allan arð hennar og greiðir af henni skatta og skyldur sem á hana kunna að verða lagðar.“ Undir þetta ritar Steinn Viðar Gunnarsson sem seljandi en stefnandi ritar á afsalið sem samþykkur afsalshafi. Afsalið var móttekið til þinglýsingar og innfært í þinglýsingabók sýslumannsins á Siglufirði hinn 9. ágúst 2007.

Hinn 18. marz 2010 var Baldvin Kr. Baldvinsson bóndi dómkvaddur sem matsmaður til að svara eftirtöldum spurningum:

„1. Hver er beinn kostnaður matsbeiðanda, [stefnanda], af því að þurfa að flytja hrossin burt af svæðinu og vista þau annars staðar á því tímabili sem um ræðir? Óskast svar matsmanns sundurgreint eftir eftirfarandi þáttum;

a. Kostnaður vegna hagagöngu

b. Kostnaður vegna flutnings

c. Kostnaður vegna eftirlits með hrossunum

d. Kostnaður vegna leigu á hesthúsi

e. Annar kostnaður sem kann að hafa fallið til

2. Hver er kostnaður matsbeiðanda vegna reksturs hesthússins sem hann hefur ekki getað notað á umræddu tímabili?“

Matsgerð hins dómkvadda matsmanns er dagsett 25. ágúst 2010. Segir þar að kostnaður vegna hagagöngu, með umsjónargjaldi og eftirliti sé um 5.000 krónur á mánuði. Miðað við sjö hesta í sjö mánuði á ári sé kostnaðurinn 980.000 krónur.

Kostnaður vegna flutnings til Dalvíkur og frá, en matsmaður kveðst hafa gengið út frá því að hrossin hafi verið flutt til næsta byggðarlags, hafi verið um 10.000 krónur á hvern hest eða samtals 70.000 krónur.

Kostnaður vegna leigu á hesthúsi fyrir einn hest nemi um 25.000 krónum á mánuði með fóðri, spæni og umsjón. Af því sé hrein leiga um 14.600 krónur á mánuði. Sé miðað við sjö hesta í fimm mánuði á ári í fjögur ár sé kostnaðurinn 2.044.000 krónur.

Sem annan kostnað sem kunni að hafa fallið til nefnir matsmaður ferðakostnað milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur. Þar á milli séu 18 kílómetrar. Sé gert ráð fyrir að hestanna sé vitjað þrisvar í viku um tuttugu vikna skeið verði ferðirnar sextíu og eknir kílómetrar 2.160 og þá samtals 8.640 á fjórum árum. Sé miðað við að kostnaður af eknum kílómetra sé 90 krónur sé kostnaðurinn alls 777.600 krónur.

Matsmaður segir að kostnaður stefnanda af því hesthúsi sem staðið hafi ónotað um þriggja ára skeið liggi í beinum kostnaði eins og fasteignagjöldum, vátryggingum, rafmagnskostnaði og hitakostnaði, auk fyrninga og kostnaðar af því fjármagni sem bundið sé í húsinu. Fasteignagjöld nemi 3.675 krónum, vátryggingar 5.090 krónum, kostnaður vegna rafmagns og hita 39.650 krónum, viðhald kosti 100.000 krónur, fyrningar nemi 300.000 krónum og fjármagnskostnaður 500.000 krónum. Alls nemi þetta 948.415 krónum og sé miðað við fjögur ár sé kostnaðurinn 3.793.660 krónur. Segir í matsgerðinni að við mat á fyrningu og fjármagnskostnaði sé „út frá því gengið að verðmæti hesthússins sé um 10 millj. kr.“. Í niðurlagi matsgerðar dregur matsmaður fram niðurstöður sínar svo:

„1. Beinn kostnaður matsbeiðanda af því að þurfa að flytja hrossin burt af svæðinu og vista þau annars staðar er samtals kr. 3.871.600.

2. Kostnaður matsbeiðanda vegna reksturs hesthússins, sem hann hefur ekki getað notað á umræddu tímabili, er samtals kr. 3.793.660.

3. Með vísan í matsbeiðnina frá 1. mars s.l., nánar tiltekið e. lið 1. töluliðar, er það mat undirritaðs, að vegna alls þess rasks og allra þeirra óþægind[a] sem umræddar framkvæmdir matsþola hafa haft fyrir matsbeiðanda, beri að meta honum bætur vegna miska sem nema kr. 50.000 á mánuði í umrædd fjögur ár, eða samtals kr. 2.400.000.

Samtals gera framanskráðir þrír liðir (1 til 3) kr. 10.065.260.“

Málavaxtalýsing, málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi kveðst hafa undanfarin ár átt og haldið hross í hesthúsabyggð Ólafsfirðinga, vestan Ólafsfjarðaráróss, en munni Héðinsfjarðarganga, Ólafsfjarðarmegin, sé rétt ofan svæðisins. Framkvæmdir við gerð ganganna hafi hafizt snemma árs 2006 en í janúar það ár hafi verið tekið til við sprengingar, með tilheyrandi raski og óþægindum fyrir hross og menn. Mikil umferð stórvirkra vinnuvéla hafi enn aukið raskið og ófriðinn. Hinn 29. nóvember 2006 hafi Ármann Gunnarsson héraðsdýralæknir skrifað bæjarstjórn Fjallabyggðar bréf og lýst áhyggju sinni af hrossunum í hesthúsabyggðinni, enda væri þar ófremdarástand og aðstæður allar þannig að eðlilegast væri að fundin yrði leið til þess að vista hrossin annars staðar framvegis. Í kjölfar þessa hafi verið ákveðið að flytja öll hross burt af svæðinu og vista þau annars staðar, þar til fundin yrði varanleg lausn, enda hefði verið ljóst að ófært væri með öllu að halda skepnur á svæðinu, jafnvel eftir að framkvæmdum lyki.

Stefnandi segir að Gnýfari, félag hestamanna í Ólafsfirði, hafi fyrir hönd félagsmanna sinna beitt sér fyrir samningum við stefnda um greiðslur vegna kostnaðar sem af þessu hafi hlotizt og hafi samkomulag verið gert síðla árs 2007. Stefnandi hafi hins vegar lýst því yfir hinn 21. desember það ár að hann ætti ekki hlut að máli enda hefði hann aldrei gefið hestamannafélaginu umboð til að semja fyrir sína hönd. Stefnandi hafi fengið greiddar 417.793 krónur vegna samkomulagsins og hafi hann tekið við þeim sem innborgun á skaðabótakröfu sína.

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína einkum á því  þær framkvæmdir sem hafizt hafi snemma árs 2006 hafi valdið sér tjóni sem stefnda sé ábyrg fyrir samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar. Stefnandi hafi þurft að flytja hross sín af svæðinu og koma þeim fyrir annars staðar með tilheyrandi kostnaði. Þá hafi stefnandi orðið fyrir tjóni af því að geta ekki nýtt hesthús sitt á þessum tíma en hafi þó þurft að reka það áfram í því skyni að takmarka tjón sitt og  gæta þess að það skemmdist ekki. Þá sé ljóst að stefnandi hafi orðið fyrir ófjárhagslegu tjóni enda hafi framkvæmdirnar valdið því að hann hafi á þessum tíma ekki getað sinnt sínu helzta áhugamáli án þess að ferðast yfir í næsta byggðarlag. Stefnandi hafi haldið sjö hross og sinnt þeim af kostgæfni dag hvern, þar til hann hafi orðið að flytja þau af svæðinu þeim til verndar.

Þá kveðst stefnandi byggja á því að samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar beri stefnda bótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir og megi rekja beint til framkvæmdanna. Gangamunninn sé „nánast þvert yfir svæði hestamanna í Ólafsfirði“ þannig að mikið rask og óþægindi fylgi. Stefnda sé opinber aðili sem ekki geti bótalaust skert eigur og lífsgæði borgaranna.

Loks kveðst stefnandi byggja á því að stefnda hafi þegar viðurkennt bótaskyldu með því að semja við hestamannafélagið um greiðslu bóta, en þannig hafi stefnandi fengið hluta kröfu sinnar greiddan.

Stefnandi kveðst vísa til almennra reglna skaðabótaréttar, sbr. lög nr. 50/1993. Þá vísi hann til meginreglna samninga- og kröfuréttar auk laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vegna varnarþings vísi hann til 33. og 41. gr. sömu laga og vegna málskostnaðar til XXI. kafla þeirra. Krafa um virðisaukaskatt sé byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

 Málavaxtalýsing, málsástæður og lagarök stefndu.

Stefnda kveðst í greinargerð sinni mótmæla „einhliða og ófullkominni málavaxtalýsingu stefnanda“, sem ekki gefi rétta mynd af málinu. Sé því sérstaklega mótmælt að ófært hafi verið með öllu að halda skepnur á svæðinu, jafnvel eftir að framkvæmdum lyki. Stefnda segir að rangt sé hjá stefnanda að byrjað hafi verið að sprengja fyrir göngunum í janúar 2006, því framkvæmdir við gangagerðina hafi hafizt með undirritun samnings við verktaka hinn 20. maí það ár og fyrsta sprenging verið hinn 1. nóvember 2006. Eftir því sem verkinu hafi miðað áfram hafi dregið jafnt og þétt úr áhrifum sprenginganna enda séu göngin 6.930 m löng. Áhrifin séu því mest í upphafi, þegar héraðsdýralæknir hafi gefið yfirlýsingu sína í lok nóvember 2006, en síðan dragi verulega úr þeim.

Stefnda kveðst aldrei hafa viðurkennt bótaskyldu til hestamanna vegna framkvæmdanna, hvorki á fundi sem haldinn hafi verið hjá hestamannafélaginu Gnýfara hinn 17. janúar 2007 né síðar. Allt að einu hafi þó, til að koma til móts við hestamenn og að beiðni bæjarstjórnar Fjallabyggðar, verið fallizt á að semja við hestamannafélagið. Hafi það verið gert hinn 5. október 2007 og grundvöllur þess samkomulags verið greiðslur á áætluðum kostnaði og bótum vegna aðstöðumissis frá október 2006 til maí 2007 og frá október 2007 til maí 2008. Með gerð þessa samkomulags hafi stefnda komið sveitarfélaginu Fjallabyggð til aðstoðar, en það hafi borið ábyrgð á aðstöðu hestamanna í sveitarfélaginu og skipulagsmálum þar.

Stefnda segir að yfirlýsing stefnanda, þess efnis að hann hafni samkomulagi Gnýfara og stefndu, hafi aldrei verið send stefndu og sé ekki stíluð til hennar fremur en nokkurs annars. Ekki sé vitað að hverjum henni hafi verið beint. Engin staðfesting sé um móttöku yfirlýsingarinnar. Sé skjalinu mótmælt sem þýðingarlausu í málinu.

Stefnda kveðst mótmæla matsgerð málsins sem ólögmætri og þýðingarlausri sem sönnunargagni, bæði að því er varðar form og efni. Uppfylli hún ekki skilyrði IX. kafla laga nr. 91/1991. Matsmaður muni hafa verið dómkvaddur á dómþingi hinn 18. marz 2010. Stefndu hafi ekki verið afhent gögn í matsmálinu en samkvæmt matsgerðinni hafi matsmaður og lögmaður stefnanda farið saman til Ólafsfjarðar og hitt þar Jón Magnússon, starfsmann stefndu. Svo virðist hins vegar sem lögmaður stefndu, sem tilgreindur hafi verið í matsbeiðni, hafi ekki verið formlega boðaður á matsfund. Þá liggi ekki fyrir að fundargerð hafi verið skráð á matsfundi og skjöl, sem matsmaður hafi haft yfir að ráða, hafi ekki verið lögð fram á matsfundi og stefndu ekki gefinn kostur á að tjá sig um þau, skila athugasemdum eða leggja fram gögn. Hafi slíkt þó verið brýnt þar sem lögmaður stefndu hafi ekki verið á fundinum. Verði ekkert ráðið af matsgerðinni á hvaða gögnum eða forsendum hún sé byggð, sé hún mjög einhliða og lítið sem ekkert rökstudd. Þá fari matsmaður út fyrir matsspurningar með því að meta stefnanda miskabætur án þess að hafa verið falið að gera svo.

Stefnda segir að stefnandi beri alla sönnunarbyrði um að fullnægt sé öllum skilyrðum skaðabótaábyrgðar. Stefna og framlögð gögn séu ekki nægileg til þeirrar sönnunar.

Stefnda segir að skaðabótakrafa stefnanda sé verulega vanreifuð og að dómur verði ekki lagður á hana í þeim búningi sem hún nú sé. Sé ekki greint á hvaða grundvelli stefnda verði gerð ábyrg fyrir tjóni sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir, en í stefnu segi það eitt að málið sé til heimtu skaðabóta og um grundvöll bótaskyldu sé það eitt sagt að framkvæmdir, sem ráðizt hafi verið í, hafi valdið stefnanda tjóni, og vísað til matsgerðar vegna mats á tjónsfjárhæð. Í stefnu sé ekkert fjallað um í hverju hin meinta saknæma háttsemi stefndu, sem hefði getað stofnað bótaskyldu, sé fólgin. Stefnda mótmæli því sem ósönnuðu og órökstuddu að bótaskylda hafi stofnazt með saknæmri háttsemi stefndu eða manna sem hún beri ábyrgð á. Þá sé ekki rökstutt með neinum hætti hvers vegna stefnandi telji sig eiga kröfu um bætur í fjögur ár, eða fram til vors 2010, þegar sprengingum hafi lokið vorið 2009. Þá hafi stefnandi ekki rökstutt að hann eigi rétt á bótum fyrir aðstöðumissi, afskriftir og fjármagnskostnaður þar með talin, fyrir tímabilið 2006 til 2007, en stefnandi hafi ekki eignazt hesthús sitt fyrr en í marz 2007. Stefnda kveðst alfarið hafna því  stefnandi geti gert einkaréttarlegar kröfur vegna eignar sem ekki sé í hans eigu.

Stefnda kveðst alfarið mótmæla því að hún geti borið hlutlæga ábyrgð á meintu tjóni stefnanda. Engin lagafyrirmæli séu um slíkt og stefnandi hafi ekki sýnt á hvaða lagagrundvelli ábyrgð án sakar geti stofnast í því tilviki sem hér ræði um. Krafa stefnanda sé að þessu leyti verulega vanreifuð og beri, þegar af þessari ástæðu, að sýkna stefndu. Séu allar meginmálsástæður stefnanda vera verulega vanreifaðar og ekki studdar haldbærum gögnum og því beri að vísa málinu frá ex officio. Þyki dóminum málið hins vegar tækt til efnisúrlausnar eigi af þessum ástæðum að sýkna stefndu.

Þá kveðst stefnda byggja á því að framkvæmdirnar hafi verið í fullu samræmi við lagafyrirmæli. Þær hafi verið í fullu samræmi við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og eldri vegalög nr. 45/1994 samanber núverandi vegalög nr. 80/2007. Ólafsfjarðarbær hafi árið 2005 gefið út framkvæmdaleyfi, samanber 27. gr. skipulagslaga, og stefnda hafi farið eftir því í framkvæmdum sínum.

Stefnda segir réttindi eigenda hesthúsanna ekki hafa fallið undir eignarnámsákvæði vegalaga enda hafi byggingarnar og réttindin legið talsvert utan vegsvæðis, en hesthúsasvæðið sé afmarkað utan framkvæmdasvæðis. Þá kveðst stefnda hafa komið til móts við athugasemdir og flutt umferð efnisflutningatækja fjær hesthúsabyggðinni þannig að efnisflutningar hafi ekki verið nær henni en um hundrað metra. Framkvæmdir stefndu hafi ekki farið gegn ákvæðum reglugerðar nr. 933/1999 um hávaða, samanber reglugerð nr. 478/2003, samanber núgildandi reglugerð nr. 724/2008, enda hafi ekki verið um íbúðasvæði að ræða. Stefnda kveðst í þessu sambandi benda á, að löggjöfin miðist við að umfangsmiklar byggingarframkvæmdir verði að geta átt sér stað. Samkvæmt gildandi hávaðareglugerð séu slíkar framkvæmdir heimilar jafnvel þó í íbúðahverfi sé og jafnvel í námunda við sjúkrahús, en framkvæmara sé þá ætlað að virða takmörkun framkvæmdatíma yfir daginn. Sé hann ekki bótaskyldur í slíkum tilvikum og verði ekki gert að flytja fólk á brott. Þá kveðst stefnda benda á, að samkvæmt reglugerð nr. 160/2006 um aðbúnað hrossa megi viðvarandi hljóðstig innan hesthúss ekki fara yfir 65 dB, sem sé umtalsvert meira en leyft sé í íbúðarhúsnæði.

Þá segir stefnda að engin gögn hafi verið lögð fram um hljóðstig eða annað ónæði við hesthús stefnanda á því tímamarki. Þegar horft sé til þess og reglugerðar nr. 160/2006 sé ofsagt í bréfi héraðsdýralæknis að brotið hafi verið gegn þeirri reglugerð. Þá veki stefnda athygli á því, að héraðsdýralæknir noti orðin „jaðrar við“, og fullyrði því ekkert í þeim efnum. Sé langur vegur milli þess að aðilar semji um ráðstafanir gegn tilteknu óhagræði, án viðurkenningar á bótaskyldu, og þess að annar aðilinn beri að lögum skaðabótaábyrgð vegna þess. Stefnda kveðst hafna því alfarið sem röngu og ósönnuðu að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga eða reglugerða við framkvæmdina.

Stefnda kveðst hafna alfarið þeim sjónarmiðum að ekki verði unnt að halda hross framar í húsunum vegna nálægðar við umferðarmannvirkin. Séu staðhæfingar um slíkt ósannaðar og hljóti öðru fremur að byggjast á fordómum. Á höfuðborgarsvæðinu sé til dæmis mjög stórt hesthúsasvæði á vegum Gusts í Kópavogi, þar sem hesthús, reiðhöll og skeiðvöllur séu í nokkurra tuga metra fjarlægð frá Reykjanesbraut. Sé umferð um Héðinsfjarðargöng hverfandi í samanburði við Reykjanesbraut.

Stefnda segist vísa á bug hugleiðingum héraðsdýralæknis og matsmanns um framtíðarskipulag hesthúsahverfisins en þær séu ósannaðar og órökstuddar. Matsmaður rökstyðji ekki fullyrðingar sínar heldur segist aðeins vera sannfærður um að ekki hafi verið nokkur möguleiki til að stunda útreiðar, tamningar eða hirða um hross á staðnum eftir að gangagerð hafi hafizt. Segi matsmaður það mat sitt, að til lengri tíma litið sé mjög hæpið að vera með skepnur á þessu svæði þegar umferð verði um göngin. Þetta gefi matsmaður sér eftir stutta skoðun á vettvangi en ekki verði ráðið af matsgerð að hann hafi aflað sér nokkurra sjálfstæðra gagna, svo sem hvernig framkvæmdum hafi verið háttað, hvenær þær hafi hafizt og svo framvegis. Þá kveðst stefnda benda á, að sveitarstjórn Fjallabyggðar hafi ákveðið að hesthúsahverfi verði áfram á sama stað og beri sveitarfélagið ábyrgð á þeirri stefnumörkun. Framangreindar hugleiðingar matsmanns hafi því ekkert gildi og verði kröfur á hendur stefndu ekki reistar á slíkum gögnum.

Þá kveðst stefnda einnig byggja sýknukröfu sína á því, að ósannað sé að meint tjón stefnanda verði rakið til atvika eða aðstöðu sem stefnda beri ábyrgð á, eða teljist sennileg afleiðing framkvæmda stefndu. Beri stefnandi alfarið sönnunarbyrði um að svo sé. Mótmæli stefnda harðlega að matsgerð færi sönnur á að meint tjón stefnanda verði rakið til athafna stefndu.

Stefnda kveðst mótmæla kröfugerð stefnanda og telja hana í ósamræmi við lög og meginreglur skaðabótaréttar. Í fyrsta lagi sé kröfugerð um miskabætur mótmælt. Í stefnu komi ekki fram á hvaða lagagrundvelli stefnandi telji stefndu verða gert að greiða miskabætur. Samkvæmt b lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga sé heimilt að láta þann, er ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða þeim manni miskabætur. Hafni stefnda því alfarið að ákvæði þetta geti átt við um þá stöðu sem uppi sé í málinu, sem varði meintan kostnað vegna tímabundins flutnings hrossa í annað byggðarlag. Stefnandi hafi engin haldbær rök fært fram fyrir miskabótakröfu sinni og ekkert sönnunargildi hafi matsgerð þar, enda hafi matsmanni ekki verið falið að meta slíkt. Í 1. lið matsbeiðni sé matsmanni falið að meta „beinan kostnað“ stefnanda en matsmaður taki upp hjá sjálfum sér að meta annan kostnað til miska svo sem komi fram í niðurlagi matsgerðarinnar. Sé stefndu hulið hvers vegna matsmaður taki upp á þessu enda sé í íslenzkum rétti mikill munur á fjárhagslegu tjóni og ófjárhagslegu. Segir stefnda að svo virðist sem matsmaður hafi orðið fyrir áhrifum af kröfugerð stefnanda, en í bréfi stefnanda til stefndu sé krafizt miskabóta að fjárhæð 2.016.000 krónur. Að mati stefndu sýni þetta glöggt að matsmaður dragi taum stefnanda með svo óhæfilegum hætti að ekki verði byggt á matsgerðinni fyrir dómi. Eitt sé að matsmaður taki upp á því að meta miska en annað að stefnandi geri svo kröfu um hann fyrir dómi. Miskabótakrafa í máli sem þessu sé fordæmalaus og eigi sér ekki stoð í lögum.

Þá segir stefnda matsgerðina gallaða að því leyti að hún meti ekki raunverulegt tjón heldur ímyndað. Stefnandi hafi ekki lagt fram neinar upplýsingar um hvert hann hafi flutt hross sín. Að vísu komi fram í fylgiskjali með einu dómskjala að hann hafi árið 2006 vistað þau á Syðri-Bægisá í Hörgárdal. Ekkert liggi fyrir um hvert hann hafi síðar flutt þau eða hvort þau hafi verið þar allan tímann. Þá liggi fyrir að stefnandi hafi ekki orðið eigandi hesthúss fyrr en í marz 2007. Matsmaður miði við að hrossin hafi verið vistuð á Dalvík en af orðalagi matsgerðar megi ráða að svo hafi ekki verið. Slík matsgerð geti ekki sannað tjón stefnanda og sé að engu hafandi.

Stefnda segist benda á að í samkomulagi við hestamannafélagið Gnýfara sé gert ráð fyrir kostnaðargreiðslum til hestaeigenda fyrir þrjú ár, frá október 2006 til maí 2009. Stefnandi telji sig eiga rétt á greiðslum fyrir fjögur ár og sé því hafnað sem órökstuddu.

Þá segir stefnda að stefnandi krefjist bóta vegna beins kostnaðar við að flytja sjö hross sín af hesthúsasvæðinu, og sé þá átt við kostnað við hagagöngu, eftirlit, flutning, leigu á hesthúsi og annan kostnað, alls 3.871.600 krónur samkvæmt matsgerð. Á sama tíma krefjist stefnandi bóta fyrir rekstur eigin hesthúss, sem hann segi ekki hafi verið notað á tímabilinu, að fjárhæð 3.793.660 krónur. Sé þannig krafizt tvöfaldra bóta sem ekki fái staðizt. Stefnandi hefði alltaf þurft að bera sjálfur rekstrarkostnað eigin húss, hvort sem hrossin séu vistuð þar eða annars staðar. Geti stefnandi eingöngu krafizt greiðslu þess viðbótarkostnaðar sem hann hafi orðið fyrir, takist honum sönnun þess að stefnda beri bótaábyrgð gagnvart honum. Samkvæmt skaðabótarétti sé markmið skaðabótareglna að gera tjónþola eins settan og ekkert tjón hefði orðið. Eins og kröfugerð stefnanda sé úr garði gerð, sé farið fram á að stefnandi beri engan rekstrarkostnað af hrossum sínum og aðstöðu á því tímabili sem um ræði, umfram beinan fóðurkostnað í fimm mánuði á ári meðan hrossin séu á húsi. Slík kröfugerð feli í sér hreina auðgun meints tjónþola og hafni stefnda alfarið að geti staðizt.

Þá segist stefnda hafna tölulegum forsendum matsgerðarinnar. Ósannað sé að stefnandi hafi átt rétt til greiðslna samkvæmt samkomulagi við Gnýfara fyrr en eftir 15. marz 2007 er hann fyrst eigi hesthús. Hljóti að vera óumdeilt að hann geti ekki krafizt bóta vegna aðstöðumissis hesthúss fyrr en eftir þann tíma. Hafi hann leigt aðstöðuna beri honum að snúa sér til eiganda hússins en um það liggi ekkert fyrir í málinu.

Þá verði ekki með skynsamlegu móti séð hvernig matsmaður geti metið hesthús til tíu miljóna króna, en húsið sé samkvæmt fasteignaskrá byggt árið 1982. Eignarhluti stefnanda sé um 60 fermetrar, fasteignamatsverð auk lóðarréttinda 791.000 krónur en endurstofnverð 3.661.000 krónur. Samkvæmt 27. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna skuli fasteignamatsverð vera gangverð umreiknað til staðgreiðslu. Viðmið hefði því öðru fremur átt að vera nær fasteignamatsverði en þó aldrei hærra en endurstofnverð ef markaðsverð væri ekki leitt í ljós. Stefnda kveðst benda á, að matsmaður sé ekki sérfræðingur á sviði fasteignasölu og vandséð sé hvernig hann finni hið háa verðmat og geri stefnda alvarlegar athugasemdir við verðmatsforsendur hans. Megi ráða af orðalagi matsgerðar að matsmaður byggi verðmat sitt ekki á traustum gögnum auk þess sem hann telji verðbreytingu ekki hafa orðið milli ára. Stefnda kveðst til samanburðar benda á gögn sem liggi í málinu um falboðið hesthús á Akureyri, þar sem umbeðið söluverð sé um helmingi lægra á fermetra en matsmaður telji eiga við á Ólafsfirði. Sé fasteignamat þess húss borið saman við fasteignamat húss stefnanda komi í ljós að mat húss stefnanda sé aðeins 40% af fasteignamati þess á Akureyri. Sé alkunna að fasteignaverð á Akureyri sé hærra en á Ólafsfirði. Álit matsmanns sé því ekki byggt á hlutlægum gögnum og sé að engu hafandi.

Þá kveðst stefnda ekki sjá á hvaða grundvelli stefnandi krefjist 10.000 króna greiðslu flutningskostnaðar vegna hvers hross, þegar sjáist í gögnum hestamannafélagsins Gnýfara að félagsmenn reikni að hámarki 3.000 krónur vegna hvers. Þá segist stefnda mótmæla grundvelli útreiknings afnotamissis í heild sinni sem órökréttum og órökstuddum. Verði matsgerð því ekki lögð til grundvallar að þessu leyti.

Stefnda kveðst enn fremur byggja sýknukröfu sína á aðildarskorti. Hestaeigendur hafi gert kröfur á hendur sveitarfélaginu vegna framkvæmdanna enda málið á forræði þess. Stefnda hafi fallizt á, gagnvart sveitarfélaginu, að ganga inn í samkomulag þess við hestamenn og greiða útlagðan kostnað þeirra sem hafi viljað flytja hross sín annað. Þetta hafi öðru fremur verið greiðasemi við sveitarfélagið og skuldbinding stefndu hafi ekki náð lengra en þetta enda hafi stefnda enga ábyrgð borið beint gagnvart hestaeigendum. Sveitarfélagið, sem fari með skipulagsmál, hafi samþykkt framkvæmdirnar án mótmæla af hálfu hesthúsaeigenda og hafi gefið út framkvæmdaleyfi til stefndu, án skilyrða vegna hesthúsahverfisins. Hesthúsahverfið sé utan skilgreinds framkvæmdasvæðis. Sé sveitarfélagið því réttur aðili að meintri bótakröfu stefnanda, samanber meðal annars 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Beri að sýkna stefndu vegna aðildarskorts samanber 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnda segist hafa gert samkomulag sitt við hestamannafélagið Gnýfara í góðri trú. Stefnandi sé þar félagsmaður hafi tekið við greiðslum frá félagi sínu athugasemdalaust og án fyrirvara. Þá virðist stefnandi hafa látið félaginu í té gögn um útlagðan kostnað sinn á fyrsta samningstímabili og hafi það yfirlit verið sent frá gjaldkera félagsins og notað til grundvallar greiðslum. Hafi stefnandi þar í verki viðurkennt gildi samkomulagsins. Ósætti stefnanda kunni að stafa af því að hann telji aðra félagsmenn hafa fengið hærri greiðslur en komið hafi í hans hlut, en slíkt sé þá innanfélagsvandamál sem stefndu komi ekki við. Stefnda hafi mátt ætla að með gerð samkomulagsins væru uppgerðar allar kröfur stefnanda á hendur stefndu. Með því að standa við samkomulagið af sinni hálfu hafi stefnda gert upp allar kröfur hestaeigenda vegna framkvæmdatímans og sé stefnandi þar á meðal. Verði stefnandi að beina kröfum sínum að félaginu um efndir.

Stefnda segir, að verði talið að stefnda beri einhverja skaðabótaábyrgð á meintu tjóni stefnanda, sé þess krafizt að fullt tillit verði tekið til skyldu tjónþola til að takmarka tjón sitt, samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar. Af stefnu og gögnum með henni verði með engu móti ráðið að stefnandi hafi reynt að takmarka tjón sitt og draga úr kröfum á hendur stefnda. Stefnandi hafi til dæmis ekki rökstutt hvers vegna hann hafi ekki flutt hross sín til baka svo fljótt sem verða hafi mátt, þegar verklegar framkvæmdir hafi færzt innan í fjallið og dregið hafi úr sprengingum.

Verði talið að stefnda sé réttur aðili að málinu kveðst stefnda byggja á því að stefnandi geti ekki komið nú með nýjar kröfur umfram það sem samkomulagið hafi náð til. Þá kveðst stefnda benda á, að öflun matsgerðar um meint tjón hafi verið með öllu óþarft enda hafi verið um kostnaðarliði að ræða sem stefnandi hefði einfaldlega getað lagt fram gögn um, svo sem greiðsluviðurkenningar vegna leigu á hesthúsi, hagagöngu, flutningi og slíku. Stefnda kveðst ekki kunna skýringar á því hvers vegna stefnandi leggi ekki fram slík gögn, nema ef vera skuli að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinum útlögðum kostnaði eða þá óverulegum, en vilji freista þess að fá hærri greiðslur með því að láta matsmann meta meint tjón. Kveðst stefnda skora á stefnanda að leggja fram gögn um útlagðan kostnað. Þá kveðst stefnda mótmæla þeim fjárhæðum sem komi fram í matsgerð og séu þær ofreiknaðar, en í matsgerð sé ekki greint frá forsendum að baki útreikningunum.

Stefnda kveðst alfarið mótmæla dráttarvaxtakröfu stefnanda en í stefnu sé engin umfjöllun um hana, hvernig hún sé rökstudd, um upphafstíma vaxta eða hvernig vaxtaberandi höfuðstóll sé fundinn frá mismunandi upphafstíma. Málið sé skaðabótamál og sé því mótmælt að stefnandi geti krafizt dráttarvaxta frá 24. desember 2009 enda skilyrði 9. gr. laga nr. 38/2001 alls ekki uppfyllt. Sé varakrafan í raun svo vanreifuð að vísa beri henni frá dómi ex officio. Hvernig sem á mál sé litið sé þess krafizt að vextir verði ekki dæmdir fyrr en frá dómsuppkvaðningardegi.

Stefnda kveðst krefjast þess, verði ekki fallizt á sýknukröfu sína, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Sé sú krafa rökstudd með sama hætti og aðalkrafa og sérstaklega áréttað að vegna augljósra galla á matsgerð verði ekki byggt á henni fyrir dómi.

Stefnda kveðst krefjast þess, að verði hún talin bera einhverja bótaábyrgð á meintu tjóni stefnanda verði það aldrei talið hærra en forsendur samkomulags stefndu við félagsskap stefnanda, hestamannafélagið Gnýfara hafi verið miðaðar við. Hafi þar verið gert ráð fyrir að hámarksgreiðsla fyrir hvert hross næmi fimm þúsund krónum á mánuði í átta mánuði tímabilin 2006 til 2007 og 2007 til 2008, og sjö þúsund krónur á mánuði tímabilið 2008 til 2009. Stefnda kveðst leggja ríka áherzlu á að aðrir félagsmenn Gnýfara hafi ekki gert athugasemdir við þær greiðslur sem stefnda hafi greitt félaginu og virðist sáttir. Samkvæmt eðli máls og sanngirnisrökum verði stefndu ekki gert að greiða stefnanda hærri fjárhæð eða fyrir lengra tímabil en félagar hans hafi fengið, eða þá fyrir annað tímabil sem stefnandi hafi sannanlega haldið hross á hesthúsasvæði Gnýfara. Í öllum tilfellum beri að draga frá þá greiðslu sem stefnandi hafi fengið frá félaginu, en í stefnu sé viðurkennt að hún nemi 417.793 krónum.

Stefnda kveðst vekja athygli á því að stefnandi krefjist ekki vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga og að ekki séu uppfyllt skilyrði 9. gr. sömu laga, þannig að vaxtagreiðsla komi fyrst til álita frá dómsuppkvaðningardegi.

Stefnda kveðst krefjast málskostnaðar auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Verði stefnukröfur að einhverju leyti viðurkenndar sé þess krafizt að málskostnaður verði látinn falla niður. Verði allt að einu talið að stefnandi eigi rétt á málskostnaði úr hendi stefndu, skuli líta til þess að stefnda hefur ávallt vísað stefnanda á hans eigið félag til að heimta sinn hlut af því sem félagið hafi fengið greitt úr hendi stefndu. Stefnda hafi í góðri trú greitt til hestamannafélagsins Gnýfara og geti stefndi leitað þangað. Þá verði við mat á málskostnaði litið til þess að öflun matsgerðar hafi bersýnilega verið óþörf til sönnunar tjóns enda hefði stefnandi getað sýnt fram á kostnað sinn af vistun hrossa annars staðar en með öflunar matsgerðar, svo sem með framlagningu gagna úr eigin bókhaldi. Þá sé matsgerð með slíkum annmörkum að hún komi að litlu sem engu haldi í málinu.

Stefnda kveðst skora á stefnanda að leggja fram öll gögn sem lögð hafi verið fyrir hinn dómkvadda matsmann. Einnig að leggja fram kaupsamning um hesthús sitt, sem líklega sé frá 15. marz 2007, auk gagna um útlagðan kostnað við hagagöngu, leigu hesthúss og flutning hrossa á því tímabili sem hann geri kröfu um greiðslu fyrir.

Stefnda kveðst vísa til meginreglna eignarréttar og kröfuréttar, samningaréttar þar með talins, almennra reglna skaðabótaréttar, einkum reglna um stofnun bótaréttar, sakarregla og regla um orsakir og sennilega afleiðingu með töldum. Þá vísi stefnandi til laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, nr. 50/1988 um virðisaukaskatt vegna málskostnaðar, nr. 91/1991 um meðferð einkamála en málskostnaðarkrafa sé studd við XXI. kafla laganna, skaðabótalaga nr. 50/1993, skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, laga nr. 7/1998 um mat á umhverfisáhrifum, vaxtalaga nr. 38/2001, laga nr. 103/2002 um búfjárhald og vegalaga nr. 80/2007 auk eldri vegalaga.

Verða nú rakin skýrsla og framburður fyrir dómi eftir því sem ástæða þykir til.

Stefnandi sagði framkvæmdir við Héðinsfjarðargöng hafa hafizt í ágúst 2006 og hefði stefnandi þá verið farinn með hross sín af svæðinu. Þegar bæjarstjórn hefði gefið út framkvæmdaleyfi vegna ganganna hefði hún ekkert samráð haft við stefnanda „sem hestamann eða eiganda hesthúss“, en stefnda hefði fengið leyfið og hefði efnisflutningavegur átt að liggja fimmtíu metra fyrir ofan hesthúsin. Hefðu hesthúsin samkvæmt þessu verið innilokuð af framkvæmdasvæði og útilokað að komast til þeim og frá. Hefði því orðið að ráði að færa efnisflutningaveginn austur fyrir húsin, svo mögulegt væri að halda hross á svæðinu. Þegar sprengingar hefðu hafizt í ágúst 2006 hefði hávaðamengun, umferð stórra bifreiða og titringur, orðið slík að hestamönnum hefði þókt rétt að leita álits dýralæknis á því hvort heimilt væri að halda þar hross. Í framhaldi af því hefði dýralæknir gefið þá yfirlýsingu að hrossahald væri útilokað á svæðinu á meðan á framkvæmdum stæði. Hefði stefnandi þá litið svo á að aðstaðan væri öll ónothæf.

Stefnandi sagði að félag hestamanna á svæðinu hefði leitað samninga við stefnda um bætur vegna þess að menn hefðu ekki getað verið með hross sín á svæðinu. Skyldu menn fá greiddar bætur vegna flutnings hrossanna og uppihalds annars staðar og hefði verið samþykkt í hestamannafélaginu að þeir einir gætu gert reikning sem „virtu bréf dýralæknis og fóru burtu með hrossin.“ Stefnandi hefði síðar orðið þess áskynja að eftir þessari samþykkt hefði ekki verið farið, menn hefðu farið „langt út fyrir þennan ramma við gerð reikninga“ og grunur hefði auk þess verið uppi um að menn hefðu ofskráð hrossafjöldann.  Hefði stefnandi þá tilkynnt gjaldkera félagsins að hann færi sjálfur með sitt samningsumboð og væri félaginu óheimilt að skuldbinda stefnanda. Stefnandi hefði óskað eftir því að fá að sjá reikninga félagsmanna en því hefði verið hafnað og hefði stefnandi þá dagana 3. og 4. október tilkynnt staðgengli bæjarstjóra, Jóni Hróa, að stefnandi færi sjálfur með samningsumboð sitt. Hefði stefnandi óskað eftir því við Jón Hróa að sérstakt samkomulag yrði gert við sig. Þá hefði stefnandi afhent Sigurði Oddssyni starfsmanni stefndu yfirlýsingu um að stefnandi ætti ekki hlut að samningi Gnýfara og stefndu. Greiðslu frá stefndu hefði stefnandi tekið við sem greiðslu upp í kostnað sinn. Stefnandi hefði sagt sig frá öllum nefndum og öðrum trúnaðarstöðum á vegum hestamannafélagsins Gnýfara eftir samningsgerð þess við stefndu, en væri þar enn félagsmaður.

Stefnandi sagði að þrátt fyrir að sprengingum hefði lokið árið 2009 hefði ástandið verið einna verst árið eftir. Þá hefðu menn verið að mala efni og mikil umferð vinnuvéla en hvergi reiðleið inn á svæðið.

Stefnandi var spurður um kaupverð hesthússins, þegar stefnandi hefði yfirtekið húsið frá syni sínum árið 2007. Svaraði hann því til að ekkert mat hefði farið fram á virði hússins, vegna þess að „ég raunverulega skráði þetta bara á son minn í upphafi og þetta var raunverulega bara nafnabreyting.“  Hross hefði stefnandi haft á svæðinu frá árinu 1996 og spurður hvort hann hefði haft þau „í húsi sonar [síns]“ kvað hann já við. Misjafnt væri hversu lengi hrossin væru á húsi, en að jafnaði frá október eða nóvember og fram í júníbyrjun. Á haustin hefði stefnandi haft hrossin á Bægisá, vegna veðurs í Ólafsfirði á þeim árstíma. Eftir að bréf héraðsdýralæknis hefði borizt hefðu hrossin hins vegar verið í haga á Bægisá allan veturinn, en stefnandi hefði verið með þau „heima, inni í sveit, á sumrin“, til að halda þeim við. Hann hefði hins vegar ekki leigt sér hesthús þar heldur eingöngu haft þau í haga. Fóðurkostnaður vegna hvers hross þar hefði verið um sex til átta þúsund krónur á mánuði, en Bægisárbóndi hefði séð um hrossin og gert stefnanda reikning. Stefnandi var spurður hvaða kostnað hann hefði haft að því að gefa hrossunum ef þau hefðu verið áfram í hesthúsunum, og kvað hann þann kostnað fyrst vera mjög svipaðan og við hagagönguna, en nánar spurður kvað hann kostnaðinn einhverju lægri vegna hagræðis við það að sjá um fóðrunina heima í hesthúsinu „og geta fjarstýrt þeim þaðan“.

Vitnið Birgir Guðmundsson kvaðst hafa heyrt árið 2006 að hestamenn hefðu áhyggju af væntanlegum framkvæmdum en innan stefndu hefðu menn haft reynslu af nálægð hesthúsa og miklu meiri umferðar, svo sem í Reykjavík, svo þar hefðu menn ekki talið mikið vandamál á ferð við Héðinsfjarðargöng. Í janúar 2007 hefðu vitnið og Sigurður Oddsson, þáverandi deildarstjóri og fulltrúi verkkaupa við framkvæmdina, verið kallaðir á fund hestamanna nyrðra og þar hefði verið talað um vanlíðan hrossanna og dýralæknir sagt dýrin sveitt af hræðslu. Þegar fundurinn hefði staðið yfir hefði verið sprengt vegna framkvæmdanna og fundarhúsið hefði hrist. Hefðu menn þá séð að „þetta var kannski ekki í lagi“. Í framhaldi af þessu hefðu stefnda og hestamannafélagið samið um að stefnda greiddi þann kostnað sem hestamenn hefðu haft af því að koma hrossunum í gæzlu annars staðar. Vitnið kvaðst ekki vita til þess að ágreiningur hefði orðið um samningsefnið milli stefndu og hestamannafélagsins, þetta hefði gengið „mjög smurt fyrir sig“.

Aldrei hefði verið rætt um að gera samning við hvern og einn hestamann, slíkt hefði verið „vonlaust“. Stefnda hefði talið liggja í augum uppi að semja við hestamannafélagið. Vitnið kvaðst ekki muna til þess að nefnt hefði verið að einhver hestamanna væri utan samningsins.

Vitnið Ármann Gunnarsson fyrrverandi héraðsdýralæknir sagði að fljótlega eftir að gangagerð hefði hafizt, hefðu hestamenn haft samband við sig og lýst áhyggju „og vandræðagangi með hestana“. Vitnið hefði farið á staðinn og orðið vart við að „hestarnir tóku mjög nærri sér sprengingar þarna við göngin“ og hefðu þeir kippzt við, við sprengingarnar. Þá hefði vitninu fundizt aðstæður á svæðinu vera varasamar til útreiða, vegna umferðar stórvirkra vinnuvéla. Hross væru hins vegar misjafnlega viðkvæm fyrir ónæði af umferð og kvaðst vitnið ekki treysta sér til að svara því hvort hrossin á þessu svæði væru viðkvæmari fyrir slíku en önnur. Að sínu mati hefðu sprengingarnar haft meiri áhrif á hrossin, en þau væru afar næm fyrir hávaða, einkum sprengingum. Að tilmælum bæjarstjórnarmanna í Fjallabyggð hefði vitnið svo sent bæjarstjórninni bréf sitt vegna málsins.

Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa bannað notkun húsanna. Þá hefði sér verið kunnugt um að einn hestamaður hið minnsta hefði verið með hross sín á svæðinu, tíu hross eða svo, og hefði vitnið ekki lagzt gegn því, heldur einfaldlega höfðað „til réttlætiskenndar manna með þetta“.

Vitnið kvaðst ekki hafa mælt hljóð, titring eða annað slíkt á svæðinu. 

Vitnið Baldvin Kristinn Baldvinsson bóndi og hrossaræktandi staðfesti matsgerð sem það gerði í málinu. Vitnið kvaðst ekki hafa komið á það svæði sem um ræðir í málinu fyrr en eftir að það var dómkvatt til matsstarfa í marz 2010.

Vitnið kvað ekki hafa verið haldin fundargerð á matsfundi. Aðspurt kvað það sig minna að aðilum hefði verið gefinn kostur á því að leggja fram frekari gögn, alltjent hefði vitnið reynt að leita allra gagna sem það hefði talið varða málið. Á matsfundi hefðu verið, auk vitnisins þau Jón Magnússon frá stefndu, lögmaður stefnanda og eiginkona stefnanda. Vitnið kvaðst hafa boðað lögmann stefndu, Stefán Erlendsson, á fundinn en sá hefði ekki komizt og sent Jón í sinn stað. Vitninu hefði verið ljóst að Jón er ekki löglærður.

Vitnið kvað aðspurt að hugsanlega stæði hvergi í matsbeiðni að matsmanni sé falið að meta hvort unnt væri að stunda hestamennsku á svæðinu á framkvæmdatíma Héðinsfjarðarganga eða síðar. Í matsgerðinni væri mat vitnisins á þessum atriðum, en „það bað mig enginn um þetta kannski“, en sér hefði fundizt eðlilegt að greina frá niðurstöðum sínum um þetta, meðal annars til þess að árétta önnur svör sín.

Þá kvaðst vitnið ekki hafa verið beðið að meta óþægindi sem stefnandi hefði orðið fyrir.

Vitnið kvað svör sín um kostnað við hagagöngu, flutningi og umsjón vera komin til af eigin þekkingu vitnisins sem og þeim upplýsingum sem vitnið hefði aflað sér hjá Bændasamtökunum og Búnaðarsambandi Eyjafjarðar. Vitnið kvaðst telja að það hefði ekki farið fram á greiðsluviðurkenningar eða aðrar upplýsingar um útgjöld frá stefnanda.

Þá sagði vitnið að við mat sitt hefði það ekki gengið út frá því að stefnandi hefði í raun tekið hesthús á leigu. Við mat á verðmæti hesthúss stefnanda hefði vitnið aflað sér upplýsinga hjá fasteignasölum á Akureyri, en vitnið væri ekki sérfrótt á þessu sviði, og hefði niðurstaðan orðið sú að 60 fm hesthús á Ólafsfirði væri um tíu miljóna króna virði. Vitnið hefði hins vegar ekki fengið afrit af kaupsamningi um hesthús stefnanda.

Vitnið sagðist hafa við mat sitt hafa miðað við að stefnandi vitjaði hrossa sinna þrisvar í viku hverri. Hefði það verið mat vitnisins, því líkur væru á að maður sem héldi hross vildi vitja þeirra, en vitnið hefði engar sérstakar upplýsingar haft um ferðalög stefnanda í því skyni.

Vitnið var spurt hvort í matsbeiðni hefði verið spurt um miska sem stefnandi hefði orðið fyrir. Svaraði vitnið því með orðunum: „Ég held nú kannski ekki, en ég leit svo á að þetta væri svona einn liður í því að finna út úr þessu, hvert tjón hans hefði orðið, en ég leit svo á að matsbeiðnin væri til þess að meta hans tjón í þessu máli.“

Vitnið kvaðst hafa við mat sitt á fóðurkostnaði hafa haft í huga að á hverju ári væru sjö mánuðir þar sem hrossin væru ekki á húsi, svo sem kæmi fram í matsgerðinni.

Vitnið Jón Magnússon verkfræðingur hjá stefndu kvaðst hafa verið fulltrúi stefndu sem verkkaupa við gerð Héðinsfjarðarganga. Vitnið sagði að til að koma til móts við hestamenn og minnka ónæði í hesthúsunum hefði verið ákveðið að nota aðra leið og lengri til efnisflutninga, en þá sem gert hefði verið ráð fyrir þegar framkvæmdaleyfi hefði verið veitt. Með þeirri breytingu hefði þungaumferð færzt talsvert fjær hesthúsunum en ella hefði verið. Sú breyting hefði aukið kostnað verktaka sem stefnda hefði bætt honum. Efnislosun hefði staðið yfir á sama tíma og gangagröftur, frá ágúst 2006 til apríl 2009. Sprengingum og þungaflutningi úr göngunum hefði lokið í apríl en möl eftir það verið flutt inn í þau til akbrautargerðar. Ýmis konar aðgerðir hefðu farið fram inni í göngunum þeim til styrktar, eftir að greftri og þungaflutningum hefði lokið. Þetta hefði staðið út ágústmánuð. Hins vegar hefði framkvæmdasýsla ríkisins unnið að gerð snjóflóðavarnargarðs á svæðinu frá sumri 2009 til sumars 2010.

Vitnið kvaðst hafa setið matsfund vegna máls þessa og gert það að beiðni Stefáns Erlendssonar lögmanns stefnda. Fundurinn hefði aldrei verið settur formlega og honum aldrei slitið formlega. Vitnið hefði mætt á tilsettum tíma og þangað hefðu matsmaður og lögmaður stefnanda komið akandi. Gengið hefði verið um hesthúsið ásamt konu stefnanda og hefði vitnið verið þar í um hálfa klukkustund þar til það hefði farið og skilið aðra eftir á staðnum. Kvaðst vitnið engar spurningar hafa fengið frá matsmanni um framkvæmdatíma eða annað í þeim dúr. Vitnið sagðist ekki hafa óskað eftir að koma athugasemdum á framfæri á fundinum. Það hefði sjálft sinnt matsstörfum sem þessum og hefði þá gefið aðilum kost á að koma slíkum athugasemdum á framfæri síðar áður en matsgerð væri lokið, og hefði gert ráð fyrir að það yrði gert hér.

Vitnið sagði að áhrif sprenginga væru mjög mismunandi eftir því hvernig gangagerðinni miðaði inn í fjallið. Þær sprengingar sem gerðar væru við gangagerð væru mjög ólíkar því sem þekktastar væru, svo sem þegar höft væru sprengd. Við sprengingar inni í göngum væri kappkostað að sem minnst áhrif yrðu á bergið út fyrir það „snið“ sem verið væri að sprengja í. Áhrif þar út fyrir minnkuðu gæði bergsins. Yrði titringur frá slíkum sprengingum mun minni en frá hefðbundnum sprengingum. Í upphafi gangagerðar, þegar unnið væri við gangamunna, þá yrði titringur og hávaði. Þegar komið væri fjögur til fimm hundruð metra inn í bergið þá yrðu menn alveg örugglega ekki varir við titring við gangamunna. Í logni væri hins vegar hugsanlegt að menn yrðu vegar varir við hreyfingu loftmassa, en ekki í vindi. Eftir því sem gangagerðinni yndi fram, því lengri yrði loftmassinn og áhrifin því minni.

Gangagerðin hefði hafizt í ágúst 2006 og í desember  það ár hefðu menn verið komnir þrjú hundruð metra inn í fjallið Ólafsfjarðarmegin. Í lok desember 2007 hefðu menn verið komnir 2,1 kílómetra en í lok desember 2008 komnir 4,4 kílómetra, í apríl 2009 þegar greftri hefði lokið þá hefðu þeir verið komnir 5,1 kílómetra.

Vitnið kvaðst telja að í ársbyrjun 2007 hefðu titringur og sprengingar hætt að finnast við hesthúsin. Hávaði hefði enn getað heyrzt þá, en það væri mjög breytilegt eftir veðri. Væri hávaðinn alls ekki svo mikill að menn þyrftu að hlífa heyrn sinni. Kvaðst vitnið telja að þegar komið væri tvo kílómetra inn í bjargið væri hávaðinn ekki meiri en svo að hljóð úr hefðbundnu útvarpstæki myndu yfirgnæfa hann. Vitnið sagði að þá gengi verk vel ef menn næðu að sprengja tvisvar á sólarhring. Hver sprenging tæki þrjár sekúndur og heyrðust fjórir hvellir í hverri sprengingu.

Vitnið sagði að við hvern metra inn í bjargið þyrfti að fara út með tuttugu og fimm rúmmetra af efni. Væri það nálægt bílfarmi. Eftir hverja sprengingu reyndu menn að flytja efnið sem allra fyrst út, því mestur tíminn færi í undirbúning næstu sprengingar. Tæki hugsanlega um klukkustund að tæma eftir hverja sprengingu.

Vitnið var spurt hvort vera mætti að hross fyndu titring þó menn gerðu það ekki. Kvaðst vitnið þá styðjast við mælingar sem gerðar hefðu verið með jarðskjálftamælum.

Vitnið Sigfús Ólafur Helgason kvaðst hafa á þessum tíma setið í stjórn Landssambands hestamanna. Stjórn hestamannafélagsins Gnýfara hefði beðið stjórnina um aðstoð vegna þeirra vandamála sem upp hefðu komið vegna gangagerðarinnar og hefði vitninu verið falið málið. Fyrir hefði legið umsögn dýralæknis að óæskilegt væri að hafa skepnur á svæðinu og hefði vitnið talið eðlilegt að fylgja því. Sjálft hefði vitnið verið þarna fljótlega eftir að framkvæmdir hefðu hafizt, orðið vitni að sprengingu, og kvaðst vitnið ekki hefðu viljað hafa sín hross þar. Skiptar skoðanir hefðu verið meðal hestamanna í Ólafsfirði um það hvort rétt væri að hafa hesta í húsunum á framkvæmdatímanum. Sumir hefðu farið með hross sín en aðrir orðið eftir. Aldrei hefði verið bannað að hafa hesta á svæðinu.

Vitnið Ásgeir Logi Ásgeirsson sagði að jarðgangagerðin hefði leitt til rasks fyrir þá hestamenn í Ólafsfirði, en bæjaryfirvöld hefðu veitt framkvæmdaleyfi án samráðs við hestamenn. Vitnið hefði þá þessum tíma verið formaður hestamannafélagsins Gnýfara. Þegar hestamenn hefðu orðið þess varir að framkvæmdirnar hefðu meiri áhrif en þeir hefðu gert ráð fyrir, hefðu þeir illa treyst sér til að halda skepnur á svæðinu. Hefði stefnda þá samþykkt að greiða hestamönnum þann kostnað sem þeir hefðu af hagagöngu hrossanna og flutningi þeirra þangað. Vitnið, stefnandi og Ásgrímur Pálmason hefðu skipað fyrstu viðræðunefnd hestamanna en síðar hefði hún breytzt, en stefnandi væri mikið á sjónum. Haldinn hefði verið félagsfundur þar sem samningurinn hefði verið kynntur. Allan tímann hefði verið haft mikið samráð við félagsmenn og lögð mikil áherzla á að hafa sem breiðasta samstöðu félagsmanna og hesthúsaeigenda.

Vitnið sagði að sér væri kunnugt um að „meðal annars“ einn nafngreindur hestamaður hefði haldið hross sín á svæðinu á framkvæmdatímanum. Langflestir hefðu hins vegar farið með hrossin.

Vitnið Ásgrímur Pálmason formaður Gnýfara sagði að samið hefði verið við stefndu um greiðslu kostnaðar vegna flutnings hrossa og hagagöngu og hefði stefnda kallað eftir upplýsingum um útlagðan kostnað. Einhverjir félagsmanna hefðu gert kröfu um greiðslu annars kostnaðar, svo sem vegna tamningar eða girðingar, en félagið hefði ekki fallizt á það. Vitnið sagði sér hafa verið kunnugt um að stefnandi hefði verið ósáttur við hvernig haldið hefði verið á samningamálunum. Vitnið kvaðst telja þá samningar sem gerðir hefðu verið við stefndu binda þá sem hefðu skrifað undir þá. Sumir hesthúsaeigendanna hefðu ekki verið í félaginu.

Vitnið kvað sér ekki kunnugt um að félagsmenn hefðu leigt sér önnur hesthús á meðan þeir notuðu ekki sín eigin. Flestir hefðu komið til baka haustið 2009. Einhverjir hefðu verið allan tímann með hross sín á svæðinu en vitnið kvaðst telja að það hefði gengið illa og aðstæður verið slæmar.

Niðurstaða.

Stefnandi kveðst hafa fengið greiddar 417.793 krónur vegna samnings stefndu við hestamannafélagið Gnýfara og líti hann svo á, að sú greiðsla sé innborgun á kröfu sína á hendur stefndu. Stefnda mótmælir því ekki að stefnandi hafi fengið þetta greitt. Verður miðað við að stefnandi hafi fengið umrædda fjárhæð greidda. Ágreiningur málsins snýst um hvort stefnandi eigi, eftir að hafa þegið umrædda fjárhæð, lögvarinn rétt til frekari greiðslna úr hendi stefndu.

Samkvæmt afsali, sem móttekið var til þinglýsingar og innfært hinn 9. ágúst 2007, eignaðist stefnandi umrætt hesthús á grundvelli kaupsamnings sem í afsalinu er sagður dagsettur hinn 15. marz 2007. Stefnandi mun sjálfur hafa litið svo á að hann hafi í raun verið eigandi hússins fyrr, þótt húsið hafi formlega verið skráð á son hans, seljandann samkvæmt afsalinu. Því til stuðnings var lagt fram í málinu afrit greiðsluseðils brunatryggingar hússins á árinu 2006 þar sem stefnandi er skráður greiðandi. Ekki verður hins vegar fram hjá því horft að fyrir liggur þinglýst afsal þar sem stefnandi er sagður eignast húsið með þeim hætti sem rakið er, og er afsalið undirritað bæði af skráðum seljanda, Steini V. Gunnarssyni, og stefnanda sjálfum. Í málinu liggur fyrir kaupsamningur þar sem Steinn kaupir eignina árið 1999 en ekkert formlegt um að hún hafi horfið úr hans eigu fyrr en með afsali því sem rakið hefur verið. Steinn var ekki leiddur fyrir dóminn. Greiðsluseðill vegna tryggingariðgjalds er ekki eignarréttarheimild sem haggar þinglýstum kaupsamningi eða afsali. Samkvæmt öllu þessu er óhjákvæmilegt að líta svo á í máli þessu að Steinn hafi verið eigandi umrædds húss þegar framkvæmdir við Héðinsfjarðargöng hófust en stefnandi hafi svo eignazt húsið svo sem rakið hefur verið.

Ekkert er um það í málinu að Steinn hafi framselt stefnanda kröfu sem hann kunni að eiga á hendur stefndu og ekki á slíku byggt.

Rakið hefur verið bréf héraðsdýralæknis sem hann ritaði eftir að hafa kynnt sér aðstæður á hesthúsasvæðinu snemma á framkvæmdatímanum. Ljóst er að héraðsdýralæknir bannaði ekki not húsanna og fyrir virðist liggja að alltjent einn hestamaður hafi nýtt húsin undir hesta sína á framkvæmdatímanum. Allt að einu álítur dómurinn að í ljósi bréfs héraðsdýralæknis og framburðar hans fyrir dómi, sem fái einnig stoð í framburði Birgis Guðmundssonar, verði að líta svo á, að á þeim tíma, í árslok 2006, hafi aðstæður í hesthúsahverfinu verið slíkar að ekki verði með sanngirni ætlazt til þess af hestamönnum að þeir hefðu haldið áfram að halda hross sín þar. Stefnandi ber hins vegar sönnunarbyrði fyrir því, að það ástand hafi staðið jafn lengi og hann byggir á, en stefnda mótmælir því sem ósönnuðu. Vitnið Ármann Gunnarsson héraðsdýralæknir kvað sprengingar hafa haft meiri áhrif á hrossin en umferð ökutækja. Af framburði Jóns Magnússonar fyrir dómi þykir mega ráða, þrátt fyrir að vitnið Jón sé starfsmaður stefndu, að mjög dragi úr því hversu áberandi sprengingar inni í fjalli verði utan fjalls, eftir því sprengt er innar í fjallinu. Samningar stefndu og hestamannafélagsins Gnýfara þykja vekja vísbendingu um að samningsaðilar hafi álitið það ástand vara út samningstímann, til maí 2009. Engar stoðir þykja hins vegar vera fyrir því að svo hafi verið lengur þó ýmis önnur verk hafi verið unnin vegna gangagerðarinnar eftir að sprengingum lauk. Samkvæmt vitnisburði Ásgríms Pálmasonar formanns Gnýfara fyrir dómi sneru flestir hestamanna aftur með hross sín haustið 2009.

Matsspurningar og matsgerð hafa verið rakin. Ekki liggur fyrir fundargerð af matsfundi. Matsgerð verður ekki talin til sönnunar um atriði sem ekki voru borin undir matsmann í matsbeiðni, svo sem um hugsanlegan miska stefnanda, sem ekki telst til beins kostnaðar sem fallið hafi til.

Eins og áður segir, snýst mál þetta um það hvort stefnandi hafi orðið fyrir meira tjóni en svo, að það megi teljast fullbætt með þeim greiðslum sem hann hefur þegar fengið, og ef svo er, hvort hann eigi lögvarða kröfu til þess að stefnda bæti honum það tjón. Af hvorutveggja ber hann sönnunarbyrði.

Stefnandi sundurliðar kröfu sína svo, að hann krefst 3.872.600 króna vegna beins kostnaðar síns af því að þurfa að flytja hrossin burt af svæðinu og vista þau annars staðar, 3.793.660 króna vegna reksturs hesthúss síns, sem hann hafi ekki getað notað „á tímabilinu“ og loks 2.400.000 króna miskabóta. Verður nú hugað að þessu.

Stefnda skoraði á stefnanda að leggja fram gögn um útlagðan kostnað sinn vegna hagagöngu og flutnings, svo sem úr eigin bókhaldi. Stefnandi hefur ekki gert það, en byggir kröfu sína um greiðslu beins kostnaðar á matsgerð sem rakin hefur verið. Að mati dómsins veikir það kröfuna um greiðslu útlagðs kostnaðar verulega að engin gögn séu í málinu um að sá kostnaður hafi verið lagður út. Augljóst er, að hefðu hrossin verið áfram í hesthúsi á Ólafsfirði hefðu þau þurft fóður eftir sem áður. Ekki getur komið til mála að stefnandi fái bættan fóðurkostnað að öðru leyti en því sem telja mætti sannað að slíkur kostnaður hefði orðið meiri vegna þess að hrossin hefðu verið fóðruð annars staðar. Ekkert liggur fyrir í gögnum málsins um það hvaða kostnað ætla hefði mátt að stefnandi hefði haft af því að annast sjálfur fóðrun hrossanna í hesthúsi. Matsgerð þykir ekki taka af tvímæli um þetta atriði. Skýrsla stefnanda sjálfs um þetta fyrir dómi hefur áður verið rakin. Telja verður að stefnanda hefði átt að vera í lófa lagið að afla og leggja fram gögn um það hvaða kostnað hann hefði greitt vegna hagagöngu hrossa sinna, sem og um það hver væri líklegur kostnaður við fóðrun hrossanna í heimahesthúsinu. Þegar horft er til alls framanritaðs þykir stefnandi ekki, gegn andmælum stefndu, hafa fært sönnur á það tjón sem hann telur sig hafa haft vegna fóðrunar hrossa sinna í haga.

Í stefnu segir að framkvæmdirnar hafi valdið því að stefnandi „gat ekki sinnt sínu helsta áhugamáli umræddan tíma og hvorki sinnt hrossunum né riðið út þann tíma, án þess að leggja á sig ferðalag í næsta byggðarlag.“ Segir að stefnandi hafi sinnt hrossunum „af kostgæfni á hverjum degi, eða allt þar til hann neyddist til þess að flytja þau burt af svæðinu til verndar heilsu þeirra.“ Liggur ekkert fyrir um það í gögnum málsins, og verður ekki ráðið af framburði vitna, hvernig hann hafi stundað hestamennsku eftir að hrossin voru komin í haga og hvern kostnað hann hafi þá haft af því. Er ekki byggt á því sérstaklega í stefnu að stefnandi hafi haft kostnað af því að stunda hestamennsku sína á þeim tíma sem hrossin hafi verið í haga. Matsgerð þykir ekki færa sönnur á hvaða kostnað stefnandi hafi í raun haft af ferðalögum vegna almennrar hestamennsku og útreiða.

Matsmaður mat kostnað stefnanda af því að leigja hesthús í fjögur ár alls 2.044.000 krónur og er sú fjárhæð innifalin í mati matsmanns á beinum kostnaði stefnanda „af því að þurfa að flytja hrossin burt af svæðinu og vista þau annars staðar“. Er á þeim lið matsgerðar byggt í kröfugerð stefnanda. Ekkert liggur fyrir í málinu um að stefnandi hafi í raun leigt sér hesthús heldur þvert á móti, en fyrir dómi kvaðst hann eingöngu hafa haft hrossin í haga á þeim tíma sem málið varðar. Verður hann ekki talinn eiga rétt á bótum vegna leigu hesthúss.

Stefnandi krefst bóta vegna reksturs eigin hesthúss á þeim tíma sem hann hafi ekki getað notað það vegna framkvæmdanna. Eins og áður er rakið er óhjákvæmilegt að líta svo á að stefnandi hafi eignazt húsið á árinu 2007. Verður þar með að líta svo á, að þegar hann hafi fyrst orðið eigandi hússins hafi það ástand þegar verið orðið sem hann telur hafa gert húsið ónothæft. Ekkert liggur fyrir um að hann hafi fengið framselda hugsanlega kröfu fyrri eiganda vegna slíks ástands, en hann hefur ekki lagt fram kaupsamning milli þeirra feðga. Hafi húsið verið ónothæft vegna framkvæmda stefndu, verður að álíta að það hafi þegar verið orðið ónothæft þegar stefnandi eignaðist það. Þykir stefnandi ekki hafa, með því að eignast umrætt hús á þeim tíma sem hann gerði það formlega, orðið fyrir tjóni af því að þurfa að reka hús sem hann ekki hafi getað notað. Þykir ekki unnt að ætla honum bætur vegna þess að þessi húseign hans hafi verið honum ónothæf.

Stefnandi krefst miskabóta að fjárhæð 2.400.000 krónur. Eins og áður segir verður matsgerð ekki metin til sönnunar því að stefnandi hafi orðið fyrir miska vegna framkvæmda stefndu við Héðinsfjarðargöng. Þykir sem miski stefnanda sé með öllu ósannaður í málinu, en ekki þykir hafa verið sýnt fram á að framin hafi verið ólögmæt meingerð gegn friði, frelsi, æru eða persónu stefnanda.

Eins og áður segir hefur stefnandi fengið greiddar 417.793 krónur sem komu frá stefndu í gegn um hestamannafélagið Gnýfara. Eins og áður segir þykja ekki hafa verið færðar sönnur á það, hvern útlagðan kostnað stefnandi hefur í raun haft af því að hafa hross sín í haga. Hrossin voru flutt frá hesthúsinu í Ólafsfirði og í haga, en ekki liggur fyrir hvaða kostnaður hlauzt af því, en einhver hefur hann verið, en eins og rakið var taldi matsmaður kostnað vera 70.000 krónur af því að flytja hrossin milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur. Engar sönnur hafa verið færðar á að stefnandi hafi orðið fyrir öðru því fjártjóni sem hann gerir kröfu um. Þegar á allt framanritað er horft, þykir stefnandi ekki hafa fært sönnur á það að hann hafi orðið fyrir fjártjóni sem næmi meira en þeim 417.793 krónum sem hann hefur þegar fengið greiddar. Þykir þegar af þeirri ástæðu verða að sýkna stefndu af fjárkröfum hans í málinu.

Þegar á málavexti og aðstæður allar er horft þykir mega ákveða að málskostnaður falli niður milli aðila.

Málið fluttu héraðsdómslögmennirnir Ásgeir Örn Jóhannsson fyrir stefnanda og Einar Farestveit fyrir stefndu. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Þorsteinn Davíðsson kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefnda, Vegagerðin, er sýkn af kröfum stefnanda, Gunnars Júlíusar Jónssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.