- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Miðvikudaginn 26. nóvember 2014. |
Nr. 755/2014.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stæði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 8. desember 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili er undir rökstuddum grun um brot sem varðar fangelsisrefsingu samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2014.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 8. nóvember 2014 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að að kvöldi 23. nóvember sl. hafi lögreglu borist tilkynning um slasaðan mann að [...]. Þegar lögreglan hafi komið á vettvang hafi komið í ljós að þar hafði maður verið stunginn í brjóstholið. Tveir menn hafi verið á vettvangi með manninum. Er lögregla hafi enn verið á vettvangi hafi kærði komið ásamt öðrum manni á vettvang og hafi þeir sagst ætla að heimsækja húsráðanda. Hafi þeir verið handteknir í þágu rannsóknar málsins.
Við handtökuna hafi blóðblettir verið á gallabuxum sakbornings. Þá hafi hann verið bólginn á handarbaki og marinn á hægri sköflungi.
Í málinu liggi fyrir framburður vitnis sem lýsir því að þegar hann hafi vaknað að [...] í gærmorgun þá hafi menn verið í íbúðinni og sagði það geta hafa verið kærði og annan mann, en hann sagði kærða jafnframt búa í íbúðinni.
Samkvæmt framburði vitna liggur fyrir að kærði hafi verið á vettvangi þann 23. nóvember áður en brotið hafi verið framið. Þá hafi hann komið á vettvang stuttu eftir að brotið var framið, þá hafi verið blóð á klæðnaði hans. Á grundvelli þessa telji lögreglan rökstuddan grun fram kominn um að kærði hafi átt þátt í framangreindu broti.
Í skýrslutöku af kærða hafi hann verið tvísaga um margt, t.d. hvar hann hafi farið úr strætisvagni sem hann sagðist hafa tekið til baka, hvar annar sakborningur málsins hafi verið staddur í íbúðinni þegar hann hlaut sár á höfði, og hvort einstaklingur sem tengist málinu hafi verið í íbúðinni fyrr um daginn eða um kvöldið, en sakborningur segi hann hafa verið hjá þeim fyrr um daginn, en fyrr í skýrslutökunni sagðist hann hafa verið sofandi á þeim tíma.
Rannsókn á tilraun til manndráps standi nú yfir. Rannsóknin sé á frumstigi. Lögregla telji brýnt að sakborningur sæti gæsluvarðhaldi því ætla megi að hann muni ella torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni.
Sakarefni málsins sé talið varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu geti varðað fangelsi ævilangt ef sök sannist. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur er vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Niðurstaða:
Að mati dómsins er fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi átt þátt í því broti sem að framan er lýst. Vísast um það efni til atvikalýsingar í greinargerð lögreglunnar. Ætlað brot varðar við 211. gr. almennra hegningalaga. Er því fyrir hendi skilyrði 1. málsliðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir því að sakborningur sæti gæsluvarðhaldi. Rannsókn málsins er á frumstigi og af gögnum þess má sjá að framburður sakbornings er óljós á köflum og ber ekki saman við framburð annarra í ýmsum atriðum. Þá liggja engar trúverðugar skýringar fyrir á áverkum hans og blóði í fatnaði. Er því fallist á það með lögreglu að rannsóknarhagsmunir standi til þess að fallast megi á gæsluvarðhaldskröfuna sbr. a-liðar 1. mgr. 95. gr. Af sömu ástæðu er fallist á að nauðsynlegt sé að sakborningur sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Verður því fallist á kröfur lögreglu eins og greinir í úrskurðarorði.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Sakborningur, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 8. desember 2014 kl. 16:00. Þá skal sakborningur sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.