- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Föstudaginn 1. nóvember 2013. |
Nr. 693/2013.
|
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi) gegn X (Unnar Steinn Bjarndal hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og einangrun meðan á því stæði var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. október 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. október 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. nóvember 2013 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að vægari úrræðum verði beitt, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili er samkvæmt gögnum málsins undir rökstuddum grun um brot gegn 4. mgr. 2. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni eða 2. mgr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en sú háttsemi getur varðað fangelsisrefsingu. Samkvæmt því og þar sem uppfyllt eru að öðru leyti skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um gæsluvarðhald og 2. mgr. 98. gr. sömu laga um einangrun meðan á því stendur verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. október 2013.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að X, fd. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. nóvember 2013, kl. 16:00 og að á þeim tíma verði kærða gert að sæta einangrun.
Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að lögreglunni hafi borist tilkynning frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar skömmu eftir hádegi þann 29. október 2013, um að kærði hafi verið tekinn til nánari skoðunar af tollvörðum og í farangri hans hafi fundist glerflaska sem kærði tjáði tollvörðum að væri rauðvínsflaska er innihéldi rauðvín. Er tollverðir hugðust skoða flöskuna betur kastaði kærði henni í gólfið með þeim afleiðingum að flaskan brotnaði og vökvi flöskunnar flaut um gólf. Gaus upp mikil lykt af vökvanum sem ekki virtist vera rauðvín. Var ákveðið að kalla til slökkvilið við hreinsun og sýni tekin af vökvanum til frekari rannsóknar hjá rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum við Háskóla Íslands. Var niðurstaða greiningarinnar sú að vökvinn væri afar sterkur amfetamínbasi, ætlaður til framleiðslu fíkniefna. Vísar lögreglustjóri nánar til meðfylgjandi rannsóknargagna málsins.
Þá segir í greinargerðinni að rannsókn máls þessa sé á frumstigi. Kærði hafi neitað sök og sagt að í flöskunni væri léttvín, rauðvín. Lögregla vinni nú að því að rannsaka aðdragandann að ferð X hingað til lands og tengsl hans við hugsanlega aðra vitorðsmenn á Íslandi og eða erlendis, auk annarra atriða sem lögregla telji að séu mikilvæg vegna rannsóknar málsins. Að mati lögreglu sé framburður kærða afar ótrúverðugur og hafi hann ekki verið samvinnuþýður. Eftir sé einnig að afla rannsóknarúrskurða, s.s. upplýsingar um síma hans sem hann hafi neitað lögreglu að rannsaka hann. Lögregla telji að vökvinn sem fannst í fórum kærða hafi verið ætlaður til framleiðslu fíkniefna hér á landi sem átt hafi að fara í sölu og dreifingu hér á landi. Þá telji lögregla einnig, miðað við það magn vökvans til framleiðslu fíkniefna kunni ætluð háttsemi kærða að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Þá telji lögregla að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus. Þá telji lögregla að ætla megi að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar verði hann ekki úrskurðaður í gæsluvarðhald en kærði mun samkvæmt eigin framburði ekki hafa nein tengsl við Ísland.
Þess sé krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88, 2008.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a- og b- liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr.a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. nóvember 2013 og að kærði sæti einangrun á þeim tíma.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst aðallega að henni verði hafnað og til vara að vægari úrræðum verði beitt og til þrautavara að gæsluvarðhaldstíminn verði styttur.
Eins og rakið hefur verið kom ákærði með eins lítra flösku til landsins sem reyndist innihalda sterkan amfetamínbasa sem ætlaður er til framleiðslu fíkniefna. Með hliðsjón af ofangreindu telur dómurinn líkur á að brot hans, verði sekt sönnuð, varði við 173. gr. a laga nr. 19/1940 svo og lög nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Er rannsókn lögreglu á algjöru frumstigi en kærði hefur reynst ósamvinnuþýður, m.a. neitað að gefa upplýsingar um síma sinn en eftir er að rannsaka hugsanlega samverkamenn hans hér á landi og erlendis. Þá verður tekið undir það með lögreglu að frásögn kærða um tilgang ferðar hans til landsins er ótrúverðugur. Telur dómurinn skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, um gæsluvarðhald, fullnægt og ekki tilefni til að taka varakröfur kærða til greina.
Með vísan til þessa er krafa lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi til 13. nóvember 2013, kl. 16:00 tekin til greina og að á þeim tíma sæti kærði einangrun.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. nóvember 2013, kl. 16:00. Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.