Print

Mál nr. 431/2012

Lykilorð
  • Skjalafals
  • Flóttamannasamningur
  • Áfrýjun
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Réttlát málsmeðferð
  • Rannsókn
  • Stjórnsýsla
  • Aðfinnslur

                                     

Fimmtudaginn 15. nóvember 2012.

Nr. 431/2012.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)

gegn

Bilal Fathi

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

Skjalafals. Alþjóðasamningur um stöðu flóttamanna. Áfrýjun. Lögvarðir hagsmunir. Réttlát málsmeðferð. Rannsókn. Stjórnsýsla. Aðfinnslur.

B var ákærður fyrir skjalafals með því að hafa í kjölfar komu sinnar til landsins framvísað við lögreglu í blekkingarskyni frönsku vegabréfi sem reyndist grunnfalsað. B játaði háttsemina en með vísan til 1. mgr. 31. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, sem Ísland er aðili að, krafðist hann þess að sér yrði ekki gerð refsing. Ekki var talið að B hefði leitt að því viðhlítandi rök eða lagt fram gögn um að lífi hans eða frelsi væri ógnað í heimalandi hans þannig að hann teldist flóttamaður í merkingu 1. gr. samningsins sbr. og 1. og 2. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu B því staðfest. Hæstiréttur fann að því að B hefði ekki verið veitt réttarstaða sakbornings er „viðtalsskýrsla“ var tekin af honum þar sem hann hafði stöðu vitnis. Taldi Hæstiréttur að á því tímamarki hefði legið fyrir rökstuddur grunur um að B hefði með framvísun vegabréfsins gerst sekur um refsiverða háttsemi. Héraðsdómur yrði þó ekki ómerktur vegna þessa þar sem B hefði engin haldbær rök leitt að því að vörn hans í málinu hefði verið áfátt af þessum sökum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. júní 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða og ákvörðun refsingar.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að málinu verði „vísað frá dómi eða vísað heim til löglegrar meðferðar að nýju.“

I

Samkvæmt gögnum málsins kom ákærði hingað til lands með flugi frá Osló 25. apríl 2012 og við vegabréfaeftirlit á Keflavíkurflugvelli að morgni þess dags framvísaði hann frönsku vegabréfi nr. 09EU11131. Bréfið bar með sér gildistíma frá 22. september 2009 til 21. september 2019 og það sagt gefið út á nafn Rachid Hamdad sem fæddur væri í París 16. nóvember 1993. Er ákærði framvísaði vegabréfinu vöknuðu grunsemdir lögreglu um að hann fullnægði ekki skilyrðum fyrir komu til landsins. Ástæða þótti til að gera fíkniefnaleit í farangri ákærða í leitarklefa tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli en ekkert saknæmt fannst. Þessu næst var ákærði færður í biðherbergi á varðstofu lögreglunnar á Suðurnesjum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, og er þangað kom kvaðst ákærði í samtölum við lögreglumenn heita Bilal Fathi og vera fæddur [...] 1996 í Algeirsborg í Alsír. Þar sem ákærði var á sextánda ári samkvæmt þeim fæðingardegi sem hann gaf upp, var haft samband við fulltrúa barnaverndarnefndar sem óskaði eftir frekari upplýsingum og í framhaldinu var sú ákvörðun tekin af lögreglustjóranum á Suðurnesjum að vista ákærða í fangaklefa embættisins við Hringbraut í Keflavík þar sem ekki var aðstaða til vistunar í landamærastöðinni á Keflavíkurflugvelli.

Í skýrslu lögreglu um framangreindar aðgerðir kemur fram að daginn eftir komu ákærða til landsins hafi að gefnu tilefni verið sendur tölvupóstur til finnskra lögregluyfirvalda með fyrirspurn um hver væri staða ákærða í Finnlandi. Svar mun hafa borist samdægurs frá finnskum lögregluyfirvöldum þar sem tekið var fram að ákærði væri hælisleitandi í Finnlandi en ekki væri búið að afgreiða hælisumsókn hans. Einnig sagði í svarinu að í Finnlandi hefði ákærði gefið upp sama nafn og fæðingardag og hann gerði hér á landi, en finnskum yfirvöldum hefði ekki tekist að sannreyna fæðingardag og aldur ákærða. Rannsókn í þá veru væri hins vegar í gangi.

Lögreglan á Suðurnesjum framkvæmdi rannsókn á vegabréfi því er ákærði framvísaði við komuna hingað til lands. Í skýrslu lögreglunnar 26. apríl 2012 segir að vegabréfið sé grunnfalsað, það er falsað að öllu leyti. Lögreglan tók skýrslu af ákærða daginn eftir. Héraðsdómslögmaður var viðstaddur skýrslutökuna ásamt túlki og starfsmanni barnaverndarnefndar. Í skýrslunni sem dagsett er 30. apríl 2012 segir að ákærði „[heiti] fullu nafni Bilal Fathi, [sé] fæddur [...]1996 og [sé] frá Alsír. Hann sagðist vera í hælismeðferð í Finnlandi en ákvað að koma til Íslands í leit að betra lífi. Bilal kvaðst óska formlega eftir pólitísku hæli á Íslandi.“

Enn var tekin skýrsla af ákærða hjá lögreglu 30. apríl 2012 og kemur þar fram að viðstaddur skýrslugjöf hafi verið Unnar Steinn Bjarndal héraðsdómslögmaður auk túlks og fulltrúa barnaverndarnefndar. Þá segir: „Bilal var bent á að honum væri ekki skylt að svara spurningum er brotið varðaði. Brýnt var fyrir honum að skýra satt og rétt frá þeim atriðum er hann ætlaði að tjá sig um. Þá var sakborningi kynntur réttur hans á verjanda og var Unnar Steinn Bjarndal, hdl, tilnefndur verjandi Bilal. Unnar var viðstaddur yfirheyrsluna en Bilal og Unnar Steinn töluðust einslega saman áður en yfirheyrslan hófst.“ Við skýrslugjöf játaði ákærði að hafa framvísað fölsuðu vegabréfi, er maður einn í Finnlandi, Íraki sem hann þekkti ekki, hefði látið sér í té, en ákærði kvaðst aðspurður sjálfur ekki eiga vegabréf. Ákærði kvað bróður sinn og móður búa í Alsír og er hann var spurður um ferðaleið sína til Íslands kvaðst hann hafa búið í Marokkó og farið þaðan til Svíþjóðar, Finnlands, aftur til Svíþjóðar, síðan til Noregs og þaðan til Íslands. Til Íslands kvaðst hann hafa komið til að hefja nýtt og betra líf. Er ákærði var spurður hvort hann hefði hlotið refsidóma í heimalandi sínu kvað hann svo ekki vera. Þá kvaðst hann heldur ekki hafa hlotið refsidóma í öðrum löndum eða komist í kast við lögin á annan hátt.

Mál þetta var höfðað með ákæru 30. apríl 2012 sem þingfest var sama dag og var dómur kveðinn upp samdægurs. Með dóminum var ákærða gert að sæta fangelsi í einn mánuð og hann dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar. Ákærði var samkvæmt gögnum málsins áfram vistaður á lögreglustöðinni í Keflavík frá dómsuppsögu 30. apríl 2012 til 3. maí sama ár og síðan á fósturheimili á vegum Barnaverndarstofu frá þeim degi til 15. sama mánaðar. Honum var 10. maí 2012 veitt reynslulausn skilorðsbundið í eitt ár.

Með bréfi Útlendingastofnunar 23. maí 2012 til tannlæknadeildar Háskóla Íslands var óskað eftir aldursgreiningu á tönnum ákærða í tilefni umsóknar hans um hæli sem flóttamaður hér á landi. Í skýrslu tannlæknadeildar um aldursgreiningu á ákærða 4. júní 2012 kemur fram að hann mætti til skoðunar 23. maí sama ár ásamt fulltrúa barnaverndarnefndar, túlki á arabísku og fulltrúa Útlendingastofnunar. Í skýrslunni er meðal annars lýst aðferðum við aldursgreininguna, sjúkrasögu ákærða, skoðun og greiningu, greiningu röntgenmynda og aldursgreiningu. Í niðurstöðukafla segir: „Það er mat okkar að nokkuð jafnar líkur séu á því að Bilal Fathi sé eldri eða yngri en 18 ára. Við teljum nánast útilokað að hann sé 16 ára og útilokað að uppgefinn aldur standist.“

II

Krafa ákæruvalds um að málinu verði vísað frá Hæstarétti er í fyrsta lagi á því reist að ákærði hafi við uppsögu héraðsdóms 30. apríl 2012 gefið bindandi yfirlýsingu um að hann yndi dómi. Í endurriti úr þingbók þann dag segir meðal annars svo: „Dómsorðið er lesið í heyranda hljóði að dómþola, verjanda hans, túlki og sækjanda viðstöddum. Dómþoli lýsir því yfir að hann uni dóminum. Vegna eðli málsins telst dómurinn birtur.“  Í fyrsta málslið 3. mgr. 185. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er kveðið á um að sæki ákærði þing við uppkvaðningu dóms telst dómur birtur gagnvart honum, enda standi honum þegar til boða endurrit dómsins. Ákvæði þetta er fortakslaust. Jafnframt verður að líta svo á að ákærði geti ekki fallið frá áfrýjun héraðsdóms svo bindandi sé fyrr en hann hefur átt þess kost að kynna sér efni dómsins. Ekki kemur fram í endurriti úr þingbók vegna þinghaldsins 30. apríl 2012 að endurrit dómsins hafi þá staðið ákærða til boða. Sú yfirlýsing ákærða sem bókuð var og fram kemur í endurriti að hann uni dómi, gat því ekki bundið hendur hans til áfrýjunar og var áfrýjun af hans hálfu 21. maí 2012 því í samræmi við lög. Verður af þeirri ástæðu ekki fallist á með ákæruvaldinu að vísa beri málinu frá Hæstarétti fyrir þær sakir að ákærði hafi með bindandi yfirlýsingu fallið frá rétti sínum til áfrýjunar.

Í annan stað reisir ákæruvaldið frávísunarkröfu sína á því að ákærði hafi þegar afplánað refsingu samkvæmt hinum áfrýjaða dómi og hafi af þeirri ástæðu ekki lögvarða hagsmuni af því að fá mál sitt endurskoðað. Eins og rakið er í kafla I hér að framan var ákærða 10. maí 2012 veitt reynslulausn á 15 daga eftirstöðvum refsingarinnar skilorðsbundið í eitt ár. Afplánun héraðsdóms er samkvæmt þessu ekki að fullu lokið og því hefur ákærði lögvarða hagsmuni af því að leyst verði efnislega úr máli hans hér fyrir dómi og verður því ekki á þessa málsástæðu ákæruvaldsins fallist.

III

Kröfu ákærða um að málinu verði „vísað frá dómi eða vísað heim til löglegrar meðferðar“ verður að skilja sem kröfu um ómerkingu héraðsdóms. Sú krafa er á því reist að verulegir ágallar séu á dómsmeðferð málsins sem leitt hafi til þess að ákærði hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.

Til stuðnings framangreindri ómerkingarkröfu bendir ákærði á fjölmörg atriði og þá einkum eftirfarandi: Í fyrsta lagi að hvorki verði séð af ákæru málsins, bókunum dómara né endurriti hins áfrýjaða dóms að ákæra í málinu hafi formlega verið birt fyrir honum, svo sem mælt sé fyrir um í 1. til 3. mgr. 156. gr. laga nr. 88/2008. Hann hafi því ekki haft nægan tíma og aðstæður til að undirbúa vörn sína. Í öðru lagi verði ekki séð að ákærði hafi verið spurður fyrir dómi hvort hann óski eftir verjanda og þá hverjum, sbr. 4. mgr. 156. gr. sömu laga. Í þriðja lagi hafi lögregluskýrslur ekki verið lagðar fram í heild í málinu heldur einungis útdráttur úr þeim. Ákærði og verjandi hans í héraði hafi ekki haft aðgang að geisladiskum, sem líklega hafi að geyma skýrslur ákærða, og verjandi ákærða fyrir Hæstarétti hafi ekki fengið afrit af útskrift geisladiskanna. Af þessu leiði að ekki verði á þessum gögnum byggt í málinu af hálfu ákæruvaldsins. Í fjórða lagi beri þingbók ekki með sér að ákærði hafi sérstaklega verið spurður að því hvort hann játi efni ákærunnar rétt, sbr. 1. mgr. 163. gr. laga nr. 88/2008. Í fimmta lagi sjáist ekki að ákærða hafi verið kynnt efni framlagðra skjala svo sem áskilið sé í sömu málsgrein. Í sjötta lagi beri þingbók ekki með sér að ákærði hafi átt þess kost að ráðfæra sig við skipaðan verjanda þar sem ekkert hlé hafi verið gert á þinghaldinu. Í sjöunda lagi sýni þingbók ekki að fjallað hafi verið í sókn og vörn um stöðu ákærða sem hælisleitanda á Íslandi. Í áttunda lagi sé ekkert vikið að ungum aldri ákærða þegar kemur að ákvörðun refsingar, þótt í þingbók og forsendum dómsins sé miðað við að ákærði sé 15 ára að aldri. Í níunda lagi beri þingbók ekki með sér að dómari hafi gefið ákærða kost á að krefjast aðalmeðferðar í málinu í samræmi við 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008. Í tíunda lagi sýni endurrit úr þingbók ekki með hvaða rökum héraðsdómari hafi talið sér heimilt að fara með málið sem játningarmál samkvæmt sömu lagagrein. Í ellefta lagi beri þingbók ekki með sér að dómari hafi kynnt ákærða rétt hans til áfrýjunar héraðsdóms, fresti í því sambandi og hvort ákærði óskaði eftir fresti til að leita sér ráðgjafar um áfrýjun. Í tólfta lagi hafi ákæruvaldið ekki sinnt þeirri skyldu samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008 að gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu ákærða og sektar, til dæmis ekki gert grein fyrir þýðingu þess fyrir niðurstöðu málsins að ákærði hafði sótt um hæli sem pólitískur flóttamaður. Í reynd hafi sú skylda hvílt á héraðsdómara að gæta þessa atriðis af sjálfsdáðum en þeirri skyldu hafi ekki verið sinnt.

Við úrlausn þess hvort framangreind atriði varði ómerkingu héraðsdóms er fyrst að líta til þess sem segir í endurriti úr þingbók Héraðsdóms Reykjaness 30. apríl 2012 er mál ákærða var þar þingfest og dæmt. Þar segir meðal annars svo þegar gerð hefur verið grein fyrir fyrirtekt málsins, framlagningu skjala og hver sæki þing af hálfu ákæruvalds: „Í dóminn er mættur ákærði, Bilal Fathi, fd. [...] 1996, ríkisborgari Alsír, og eru honum afhent afrit af skjölum málsins. Með ákærða mætir Unnar St. Bjarndal hdl. sem að ósk ákærða er skipaður verjandi hans í málinu. Þá er mættur Ahmed Hafez Awad sem túlka mun fyrir ákærða á arabísku það sem fram fer í þinghaldinu. Hann hefur áður túlkað fyrir dómi og ... heitið að rækja starfann eftir bestu getu og samvisku. Gætt er ákvæða 1. mgr. 114. gr. laga nr. 88/2008. Þá er ákærða bent á að honum er heimilt að ráðfæra sig við verjanda sinn meðan á þinghaldinu stendur. Gerð er grein fyrir ákæru. Ákærði viðurkennir skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Með því að ákærði hefur játað brot sitt skýlaust og dómari telur ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans sé sannleikanum samkvæmt er ákveðið að fara með málið að hætti 164. gr. laga nr. 88/2008. Sækjandi og verjandi ákærða tjá sig í stuttu máli um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga og leggja málið að svo búnu í dóm. Málið er tekið til dóms og í því kveðinn upp svohljóðandi [dómur] ... Dómsorðið er lesið í heyranda hljóði að dómþola, verjanda hans, túlki og sækjanda viðstöddum.“

Samkvæmt fyrsta málslið 1. mgr. 158. gr. laga nr. 88/2008 er mál þingfest þegar ákæra og önnur málsgögn af hálfu ákæruvalds eru lögð fram á dómþingi. Í öðrum málslið kemur fram að þingfesta má mál þótt fyrirkall hafi ekki verið gefið út ef ákærði sækir þing. Þar sem ákærði sótti þing eins og áður er rakið þegar mál ákæruvaldsins á hendur honum var þingfest 30. apríl 2012 þurfti ekki að gefa út sérstakt fyrirkall til hans. Í þinghaldinu umræddan dag játaði ákærði samkvæmt því sem fram kemur í endurriti úr þingbók skýlaust alla þá háttsemi sem honum er gefin að sök og taldi dómari ekki ástæðu til að draga í efa að játningin væri sannleikanum samkvæm. Var dómara því heimilt samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 að taka málið þegar til dóms, enda krafðist hvorugur aðila þess að fram færi aðalmeðferð samkvæmt 166. gr. sömu laga. Í endurriti úr þingbók kemur fram að gætt hafi verið ákvæða 114. gr. laga nr. 88/2008. Endurritið ber og með sér að við þingfestingu mætti ákærði ásamt Unnari St. Bjarndal héraðsdómslögmanni, sem að ósk ákærða var skipaður verjandi hans, og var þannig fullnægt skilyrði 4. mgr. 156. gr. laga nr. 88/2008. Þá er einnig bókað að ákærða sé bent á að honum sé heimilt að ráðfæra sig við verjanda sinn meðan á þinghaldinu stendur. Í endurritinu kemur fram að ákærða var við fyrirtekt málsins afhent afrit málsskjala, sem auk ákæru voru bréf lögreglustjórans á Suðurnesjum 30. apríl 2012 til Héraðsdóms Reykjaness þar sem málið var afhent dómstólnum til meðferðar, og skjalaskrá lögreglu ásamt fylgiskjölum. Jafnframt kemur fram að ákærða var gerð grein fyrir ákæru og að hann hafi játaði þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Var því fullnægt áskilnaði fyrri málsliðar 1. mgr. 163. gr. laga nr. 88/2008. Af framangreindu leiðir að meðferð máls þessa fyrir héraðsdómi var annmarkalaus um þau atriði sem hér voru nefnd. Samkvæmt því og þar sem haldlaus eru önnur þau rök, sem ákærði teflir fram til stuðnings ómerkingarkröfu sinni og áður er gerð grein fyrir, verður ekki fallist á kröfu ákærða um ómerkingu héraðsdóms af þeirri ástæðu að meðferð málsins fyrir héraðsdómi hafi verið áfátt og hann af þeim sökum sætt réttarspjöllum, enda naut hann sem fyrr segir aðstoðar verjanda við þá meðferð.

IV

Til viðbótar þeim tólf atriðum, sem ákærði reisir ómerkingarkröfu sína á og rakin eru í kafla III hér að framan, byggir ákærði á því að hann hafi með ólögmætum hætti verið sviptur frelsi á grundvelli 2. mgr. 18. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, þar sem fimm dagar hafi liðið frá því afskipti yfirvalda hófust af honum og þar til hann var færður fyrir dómara. Hafnar ákærði því að heimilt sé samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði að svipta mann frelsi í allt að sjö daga án dómsúrskurðar. Sú lagaheimild sem eigi við sé 7. mgr. 29. gr. laganna, en þar sé mælt fyrir um heimild til að handtaka útlending og úrskurða í gæsluvarðhald að tilteknum skilyrðum fullnægðum. Þar sem þeirri heimild hafi ekki verið beitt sé með öllu óljóst hver hafi verið réttarstaða ákærða frá 25. til 30. apríl 2012. Ákærði hafi því sætt ólöglegri frelsissviptingu umrætt tímabil og það leitt til þess að honum hafi ekki gefist tækifæri til að undirbúa vörn sína í málinu á viðunandi hátt.

Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 96/2002 kemur fram að hver sá sem kemur til landsins skal þegar í stað gefa sig fram við landamærastöð eða við næsta lögregluyfirvald, og samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna skal útlendingur sem til landsins kemur hafa vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki, nema annað sé ákveðið í reglum sem ráðherra setur. Heimilt er samkvæmt a. lið 1. mgr. 18. gr. laganna að vísa útlendingi frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum frá komu fullnægi hann ekki reglum sem settar eru um vegabréf, vegabréfsáritun eða komu til landsins. Er samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nægjanlegt að meðferð máls hefjist innan sjö sólarhringa frestsins. Í þessum lögmælta farvegi var mál ákærða frá því hann kom til landsins 25. apríl 2012. Vistun ákærða við landamærastöðina á Keflavíkurflugvelli í fangageymslu lögreglunnar í Keflavík á þessu tímabili var því upphaflega í samræmi við fyrrgreind ákvæði laga nr. 96/2002, sbr. 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og f. lið 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Skýrsla um rannsókn á vegabréfi því er ákærði framvísaði við komu sína hingað til lands 25. apríl 2012 lá fyrir degi síðar og næsta dag þar á eftir var tekin „viðtalsskýrsla“ af ákærða þar sem hann virðist hafa haft stöðu vitnis. Í ljósi niðurstöðu rannsóknar lögreglu á vegabréfinu lá hins vegar á þessu tímamarki fyrir rökstuddur grunur um að ákærði hefði með framvísun vegabréfsins gerst sekur um refsiverða háttsemi. Þar sem rannsóknin var þá þegar farin að hafa áhrif á stöðu ákærða bar við skýrslutöku þessa að veita honum réttarstöðu sakbornings, sbr. fyrri málslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 88/2008, þar sem segir að sakborningur sé sá maður sem borinn sé sökum eða grunaður um refsiverða háttsemi. Af þessu leiddi að heimilt var samkvæmt 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 og 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 að handtaka hann, en þá bar án undandráttar að leiða hann fyrir dómara, sbr. 1. mgr. 94. gr. síðarnefndra laga og fyrsta málslið 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar. Væri hann ekki jafnskjótt látinn laus hefði dómara borið áður en sólarhringur var liðinn í samræmi við 1. mgr. 94. gr. laga nr. 88/2008, sbr. og annan málslið 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, að ákveða með rökstuddum úrskurði hvort ákærði skyldi sæta gæsluvarðhaldi. Þessa var ekki gætt heldur var ákærði eftir skýrslugjöfina 27. apríl 2012 áfram vistaður með þeim hætti sem áður er rakið, og ber að átelja það. Ágalli þessi getur þó ekki varðað ómerkingu hins áfrýjaða dóms, þar sem ákærði hefur engin haldbær rök að því leitt að vörn hans í málinu hafi verið áfátt af þessari ástæðu.

V

Atvikum á Keflavíkurflugvelli sem áttu sér stað í kjölfar komu ákærða til landsins 25. apríl 2012 er lýst í kafla I hér að framan. Eins og þar er rakið hefur ákærði, sem kveðst vera fæddur í Alsír og hafa verið búsettur í Marokkó, játað fyrir héraðsdómi háttsemi þá sem honum er gefin að sök í ákæru. Hann krefst hins vegar sýknu af broti á 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þar sem óheimilt sé að beita hann refsingu samkvæmt 1. mgr. 31. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna sem fullgiltur hefur verið af Íslandi, sbr. auglýsingu nr. 74/1955 í A-deild Stjórnartíðinda það ár.

Samkvæmt framangreindu ákvæði samningsins skulu aðildarríki ekki beita refsingum gagnvart flóttamönnum vegna ólöglegrar komu þeirra til landsins eða vistar þar, ef þeir koma beint frá landi þar sem lífi þeirra eða frelsi var ógnað í merkingu 1. gr., og koma inn í lönd þeirra eða eru þar án heimildar. Er þá skilyrði að flóttamenn gefi sig tafarlaust fram við stjórnvöldin og eins og orðrétt segir í niðurlagsákvæði 1. mgr. 31. gr. samningsins „beri fram gildar ástæður fyrir hinni ólöglegu komu sinni eða vist þar.“ Ákærði hefur játað skýlaust að hafa framið brot það sem honum er gefið að sök. Gögn sem lögð hafa verið fram í málinu bera með sér að sú játning er sannleikanum samkvæm. Að því virtu hefur ákæruvaldið axlað þá sönnunarbyrði sem á það er lögð í 108. gr. laga nr. 88/2008. Í ljósi þessa og með hliðsjón af tilvitnuðu orðalagi 1. mgr. 31. gr. samningsins er það ákærða að leiða líkur að því að engu að síður beri að leysa hann undan refsingu af þeirri ástæðu sem hér um ræðir. Áfrýjandi hefur engin viðhlítandi rök leitt að því eða lagt fram nein gögn um að lífi hans eða frelsi væri ógnað í Alsír eða Marokkó sem teljast vera heimalönd hans í skilningi fyrrgreinds alþjóðasamnings, ef hann sneri þangað aftur, þannig að hann teljist vera flóttamaður í merkingu 1. gr. samningsins, sbr. og 1. og 2. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002.

Af öllu framangreindu leiðir að staðfest verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða. Með vísan til forsendna dómsins verður refsing ákærða staðfest.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal óraskaður vera.

Ákærði, Bilal Fathi, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 298.483 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 282.375 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 30. apríl 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Suðurnesjum 30. apríl 2012 á hendur Bilal Fathi, fæðingardagur [...] 1996, ríkisborgara Alsír, „fyrir skjalafals, með því að hafa, þann 25. apríl 2012, við vegabréfaeftirlit á Keflavíkurflugvelli framvísað gagnvart landamæralögreglu í blekkingarskyni grunnfölsuðu frönsku vegabréfi nr. 09EU11131.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar er lög leyfa. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um hæfilega þóknun sér til handa.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að hann er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

Samkvæmt dómaframkvæmd þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í einn mánuð. Með vísan til eðlis brotsins og hliðsjón af almennum varnaðaráhrifum refsinga eru ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 ber ákærða að greiða sakarkostnað málsins. Um er að ræða þóknun verjanda hans sem er hæfilega ákveðin

80.000 krónur, að meðtöldum virðisauka­skatti.

Dóm þennan kveður upp Gunnar Aðalsteinsson, héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Bilal Fathi, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærði greiði í sakarkostnað 80.000 krónur, sem er þóknun verjanda hans, Unnars St. Bjarndal hdl.