Print

Mál nr. 8/2004

Lykilorð
  • Fiskveiðibrot
  • Umboðssvik
  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Upptaka

Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. september.2004.

Nr. 8/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Agnari Norðfjörð Hafsteinssyni og

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

Margeiri Jóhannessyni

(Reynir Karlsson hrl.)

 

Fiskveiðibrot. Umboðssvik. Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Upptaka afla.

A, framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins B ehf., og M skipstjóri voru dæmdir fyrir brot gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með því að hafa haldið nánar tilteknum skipum til veiða án lögboðinna aflaheimilda. Báru þeir ábyrgð á að nægar aflaheimildir væru fyrir hendi vegna þess fiskafla sem veiddur var í umræddum veiðiferðum. Þá var A jafnframt dæmdur fyrir umboðssvik og brot gegn lögum um virðisaukaskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Var refsing A ákveðin þriggja mánaða fangelsi og 18.000.000 kr. sekt í ríkissjóð, en refsing M tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og 800.000 kr. sekt í ríkissjóð. Á hinn bóginn var kröfu um upptöku andvirðis hins ólögmæta afla á hendur A og M hafnað. Hvorugur þeirra átti hinn ólögmæta afla og ekkert lá fyrir um það hvort einhver ágóði kom í þeirra hlut, og ef svo var hve mikill. Þar sem ekki naut við skýrrar lagaheimildar til upptöku þegar svo stóð á varð kröfu um upptöku andvirðis hins ólögmæta afla ekki beint að A og M persónulega.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Helgi I. Jónsson dómstjóri.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds. Krefst ákæruvaldið nú staðfestingar héraðsdóms á sakfellingu og refsiákvörðun er varðar ákærðu Agnar Norðfjörð Hafsteinsson og Margeir Jóhannesson. Þess er einnig krafist að héraðsdómur verið staðfestur á hendur þeim og A að því er varðar kröfu um upptöku samkvæmt I. til III. lið A ákæru og þeim gert að sæta þeirri upptöku óskipt.

Ákærði Agnar krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð.

Ákærði Margeir krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara að refsing verði milduð og hún skilorðsbundin.

I.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi varðar I. og III. liður A kafla ákæru ætluð brot ákærðu Agnars Norðfjörð Hafsteinssonar og Margeirs Jóhannessonar og fleiri nafngreindra manna gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar nr. 57/1996, lögum um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 og lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 79/1997, öllum með áorðnum breytingum. Í I. lið er ákærða Agnari, sem framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins U ehf., er gerði út fiskiskipið m/b Gróttu RE 26, A, stjórnarformanni félagsins og ákærða Margeiri, sem skipstjóra á skipinu, gefið að sök að hafa haldið skipinu án lögboðinna aflaheimilda til dragnótaveiða í atvinnuskyni í nánar tilgreindar veiðiferðir á tímabilinu 10. mars 2001 til 5. apríl sama árs. Í II. lið er ákærða Agnari, sem framkvæmdastjóra sama útgerðarfélags, er gerði út fiskiskipið m/b Klettsvík SH 343, gefið að sök að hafa haldið skipinu án lögboðinna aflaheimilda til netaveiða í atvinnuskyni í 89 veiðiferðir á tímabilinu 9. nóvember 2001 til 6. apríl 2002. Fyrrnefndur A, stjórnarformaður félagsins og skipstjóri í umræddum veiðiferðum, var einnig sakaður um þessa háttsemi. Þá er í III. lið ákærða Margeiri, sem skipstjóra á fiskiskipinu m/b Bervík SH 143, sem gert var út af X ehf., því félagi og nafngreindum framkvæmdastjórum og stjórnarformönnum þess, gefið að sök að hafa haldið skipinu til dragnótaveiða í atvinnuskyni í 28 veiðiferðir án lögboðinna aflaheimilda á tímabillinu frá 1. desember 2001 til 26. febrúar 2002. Heildarafla skipanna og afla, sem veiddur var umfram aflaheimildir í áðurnefndum veiðiferðum, er nánar lýst í ákæru og hinum áfrýjaða dómi, en eins og þar kemur fram er ekki ágreiningur um þann þátt málsins.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi voru ákærðu Agnar, Margeir og A sakfelldir fyrir þá háttsemi, sem þeim var gefin að sök í áðurnefndum liðum ákæru. Ákærði A unir dómi. Með héraðsdómi var þeim öllum dæmd refsing og gert að sæta upptöku andvirðis ólögmæts afla, eins og þar er nánar rakið.

II.

Ákærði Agnar neitar sakargiftum. Hann reisir kröfu sína um sýknu á að hann hafi enga ábyrgð borið á því að ekki hafi reynst vera nægar aflaheimildir fyrir hendi vegna umræddra veiðiferða. Meðákærði A hafi átt að sjá um þann þátt, en sjálfur hafi hann annast fisksölu á vegum U ehf. og ekki orðið framkvæmdastjóri félagins fyrr en 17. desember 2001, er breyting var gerð á stjórn og framkvæmdastjórn þess. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi var ákærði Agnar skráður framkvæmdastjóri U ehf. 17. desember 2001, svo sem fram kemur í útskrift úr hlutafélagaskrá, en félagið var úrskurðað gjaldþrota 24. júlí 2002. Samkvæmt tilkynningu 4. september 2000 til hlutafélagaskrár hafði hann haft prókúru fyrir félagið fram að þeim degi. Hann fullyrti við yfirheyrslu við rannsókn málsins 2. október 2002, er hann var spurður um stjórn og starfsemi félagsins rekstrarárið 2001, að hann hafi verið framkvæmdastjóri þess, en eiginkonur þeirra A, sem skráðar voru í stjórn félagsins á fundi þess 4. september 2000, hafi „ekki komið neitt að rekstrinum, heldur hafi nöfn þeirra verið notuð til uppfyllingar til  skráningar hjá Hlutafélagaskrá.“ Er sá framburður í samræmi við framburð meðákærða A við rannsókn og meðferð málsins. Sagði A við yfirheyrslu hjá lögreglu 16. september 2002 að eiginkonur þeirra beggja „hafi ekkert haft með nein mál að gera fyrir U ehf. á þessum tíma eða frá byrjun ársins 2001“, en ákærði Agnar hafi verið framkvæmdastjóri á því ári. Gaf hann þá skýringu fyrir dómi á því, að Agnar hafi ekki verið skráður í stjórn félagsins allt rekstrarárið 2001, að sá síðarnefndi hafi verið gjaldþrota og þeir talið það „skaða fyrir fyrirtækið.“ Þeir hafi tekið þá ákvörðun sameiginlega að skrá hann í stjórn í desember 2001 þar sem eiginkonur þeirra „komu ekkert að þessu ... komu ekkert að rekstri undir einum eða neinum kringumstæðum.“ Ákærði Agnar var yfirheyrður hjá skattrannsóknarstjóra 26. mars 2002 meðal annars í tilefni af rannsókn á ætluðum brotum hans og meðákærða A vegna vanskila U ehf. á greiðslu virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilsins nóvember til desember 2001. Við þá yfirheyrslu sagði hann að nafngreindur starfsmaður á skrifstofu félagins hafi séð um gerð virðisaukaskattskýrslunnar fyrir þetta tímabil og bókhald félagsins undir sinni stjórn.

Þegar litið er til eindregins framburðar ákærða við rannsókn málsins hjá lögreglu og skattrannsóknarstjóra, sem fær stoð í framburði meðákærðu A og Margeirs við rannsókn málsins og fyrir dómi, þess að ákærði hafði áður haft prókúru fyrir félagið og að öðru leyti til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á þá niðurstöðu hans að sannað sé að ákærði hafi í raun verið framkvæmdastjóri U ehf. á þeim tíma, sem um er getið í I. og II. lið A kafla ákæru, og að hann bæri ábyrgð á að nægar aflaheimildir væru fyrir hendi vegna þess fiskafla, sem veiddur var í umræddum veiðiferðum. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða Agnars og heimfærslu brota hans til refsiákvæða að öðru leyti en því að 25. gr. laga nr. 38/1990 var breytt með 12. gr. laga nr. 85/2002.

Ákærði Margeir neitar sakargiftum. Er sýknukrafa hans einkum á því reist að ekki sé við hann að sakast heldur útgerðarfélagið X ehf., sem gerði út skipið, að ekki hafi verið hirt um að nægar aflaheimildir væru fyrir hendi, enda sé það á ábyrgð útgerðarinnar að sjá um það. Hafi ákærði ekkert haft með stöðu aflamarks á skipinu að gera og forsvarsmenn útgerðarinnar sagt honum að alltaf hafi „átt að laga kvótann“. Þá sé það ein af grundvallarreglum fiskveiðistjórnunarkerfisins að aflaheimildir séu framseljanlegar og færanlegar milli skipa. Vísar ákærði í því efni meðal annars til 12. gr. laga nr. 38/1990. Alvanalegt sé að útgerðir leigi eða kaupi „veiðiheimildir (aflamark) á skipin eftir því sem mögulegt er hverju sinni.“ Þannig fari skipin „oft til sjós án aflamarks en leigja svo aflamark eftir því sem þörf er á.“ Sú venja hafi skapast að menn tryggi sér oft „aflaheimildir/aflamark“ eftir á, sbr. 14. gr. laga nr. 57/1996 með áorðnum breytingum. Verði að skýra ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996 í ljósi 14. gr. laganna og með hliðsjón af þeirri grundvallarreglu að aflaheimildir séu framseljanlegar. Kveðst ákærði hafa gert allt sem í hans valdi stóð til að fylgjast með því að nægilegar aflaheimildir væru fyrir hendi í veiðiferðunum. Hann hafi aldrei fengið viðvörun frá Fiskistofu aðra en símskeyti 21. febrúar 2002 um tilkynningu um fyrirhugaða sviptingu veiðileyfis. Varakröfu sína um sýknu reisir ákærði Margeir á sömu sjónarmiðum og aðalkröfu, en bendir jafnframt á að gera verði greinarmun á sakarefninu í I. og III. lið ákæru þar sem áðurnefndri 14. gr. laga nr. 57/1996 hafi verið breytt með lögum nr. 24/2001, sem hafi tekið gildi 7. maí sama árs. Fram að þeim tíma hafi tilkynningar einungis verið sendar útgerð en ekki skipstjórnarmönnum. Því beri að sýkna ákærða af fyrri liðnum, þar sem lagabreytingin hafi ekki tekið gildi fyrr en eftir það tímabil, sem fjallað er um í þeim lið.

Í áðurnefndri 14. gr. laga nr. 57/1996 er mælt fyrir um sviptingu almenns veiðileyfis skips að undangenginni tilkynningu Fiskistofu til útgerðar og skipstjóra, bendi upplýsingar Fiskistofu til að skip hafi veitt umfram aflaheimildir sínar í einhverri tegund. Hafi fullnægjandi aflaheimildir ekki verið fluttar til skipsins innan fjögurra daga tekur sviptingin gildi. Verði aflaheimildir skips að liðnum fresti auknar þannig að afli skips á veiðiárinu rúmist innan þeirra skal því veitt leyfi að nýju. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laganna er á hinn bóginn óheimilt að hefja veiðiferð á skipi, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni nema það hafi aflaheimildir, sem telja má líklegt að dugi fyrir afla í ferðinni með hliðsjón af þeim veiðarfærum sem notuð eru. Þótt ákvæði 14. gr. laga nr. 57/1996 heimili að veittur sé frestur til að lagfæra aflaheimildastöðu skips áður en gripið er til fyrirhugaðrar sviptingar almenns veiðileyfis breyta þau engu um fortakslaust bann 2. mgr. 3. gr. við því að veiðiferð verði hafin þegar svo stendur á sem í ákvæðinu greinir. Er fallist á með héraðsdómara að ákærða Margeiri hafi sem skipstjóra borið að fylgjast með því hvort skipin Grótta RE 26 og Bervík SH 143 hefðu fullnægjandi aflaheimildir til að veiða þann fisk sem til stóð í þeim veiðiferðum, sem um getur í I. og III. lið ákæru. Gat ákærða engan veginn dulist að sá mikli afli sem veiddist var langt umfram aflaheimildir, sem hann mátti telja líklegt að dygðu fyrir aflanum. Verður samkvæmt framansögðu fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að ákærði beri á því refsiábyrgð samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996 að skipunum var haldið til veiða án þess að ganga úr skugga um að nægar aflaheimildir væru fyrir hendi, sbr. og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 12/2000, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 1534. Eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í hinum áfrýjaða dómi með sömu leiðréttingu, sem áður er getið varðandi heimfærslu brota ákærða Agnars til refsiákvæða.

III.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að sakfella ákærða Agnar fyrir brot þau, sem honum eru gefin að sök í B og C kafla ákæru.

Við ákvörðun refsingar ákærða Agnars er litið til þess að þáttur hans í brotunum var minni en meðákærða A, sem var stjórnarformaður félaganna U ehf. og T ehf. og sá að mestu um að útvega skipum félaganna aflaheimildir. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsóms verður staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærðu Agnars og Margeirs.

Ákærðu hafa báðir mótmælt kröfum ákæruvalds um upptöku á ætluðum ávinningi af brotum þeirra, meðal annars með vísan til þess að þeir hafi hvorugur átt hlut í umræddum útgerðarfélögum og engan ávinning fengið í sinn hlut. Þá séu lagaákvæðin, sem kröfur um upptöku byggjast á, hvorki skýrar né ótvíræðar heimildir um að gera megi upptækt andvirði ágóða hjá þeim, sem engan eignarrétt hafi haft á umframaflanum eða andvirði hans. Gera verði jafnríkar kröfur til skýrleika ákvæða sem fjalla um refsingar og önnur viðurlög og þeirra, sem fjalla um hina refsiverðu háttsemi.

Í ákæru er þess krafist að „ákærðu verið gert að þola upptöku ávinnings af brotum sínum, ólöglegum afla, eða peningafjárhæð sem svarar til andvirðis ... ólöglegs afla að mati dómkvaddra matsmanna“. Er ekki ágreiningur í málinu um mat hins dómkvadda matsmanns á andvirði hins ólöglega afla. Ljóst er að aflinn var seldur og er hann því ekki fyrir hendi sem slíkur og verður þar af leiðandi ekki gerður upptækur. Engin gögn liggja heldur fyrir um að sett hafi verið trygging af hálfu útgerðarfélaganna fyrir greiðslu andvirðis hans.

Fram er komið að hvorugur ákærðu áttu hinn ólögmæta afla. Ekkert liggur heldur fyrir um það hvort einhver ágóði kom í þeirra hlut, og ef svo var hve mikill. Í þeim upptökuákvæðum, sem ákæruvaldið vísar til í ákæruskjali, er hvergi að því vikið að beita megi upptöku hjá öðrum en þeim, sem hlotið hefur ágóða af brotinu. Þar sem ekki nýtur við skýrrar lagaheimildar um þetta verður kröfu um upptöku andvirðis hins ólögmæta afla ekki beint að ákærðu persónulega. Samkvæmt framansögðu ber að hafna kröfu ákæruvalds um upptöku á hendur ákærðu Agnari og Margeiri.

Ákærðu, Agnar og Margeir, verða dæmdir til að greiða helming sakarkostnaðar sem þá varðar í héraði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda þeirra þar fyrir dómi, en hinn helmingurinn greiðist úr ríkissjóði.

Áfrýjunarkostnaður málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu, Agnars og Margeirs, fyrir Hæstarétti, greiðist að jöfnu úr ríkissjóði og af ákærðu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjanda þeirra, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærðu, Agnars Norðfjörð Hafsteinssonar og Margeirs Jóhannessonar, en kröfum ákæruvalds um upptöku á hendur þeim er hafnað.

Allur sakarkostnaður í héraði sem varðar ákærðu, Agnar og Margeir, greiðist að hálfu af þeim og að hálfu úr ríkissjóði. Ákvæði héraðsdóms um málsvarnarlaun skipaðra verjenda þeirra er staðfest.

Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu af ákærðu, Agnari og Margeiri, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Agnars fyrir Hæstarétti, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur og skipaðs verjanda ákærða Margeirs fyrir Hæstarétti, Reynis Karlssonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 31. október 2003.

                Jón H. Snorrason saksóknari hjá Ríkislögreglustjóranum gaf út ákæru í máli þessu 26. júní 2003, og var málið höfðað með birtingu hennar og fyrirkalls fyrir ákærðu á tímabilinu 24. til 31. júlí s. á. Málið var þingfest 20. ágúst sl. og tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 10. október 2003.

                Ákærðir eru Agnar Norðfjörð Hafsteinsson, kennitala 300763-4489, Háseylu 9 K, Reykjanesbæ; A; B; Margeir Jóhannesson, kennitala 240759-2259, Brekkugötu 4 Vogum, Vatnsleysustrandarhreppi; C; D, og eftirtalin einkahlutafélög: V ehf.; X ehf.; Y ehf.; Z ehf..

Ákært er fyrir ætluð lögbrot svo sem segir í ákæru:        

,,A.

Fyrir brot gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

I.                     Á hendur ákærðu A, Agnari Norðfjörð Hafsteinssyni og Margeiri Jóhannessyni.

                Ákærðu A sem stjórnarformanni og Agnari Norðfjörð sem framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins U ehf., sem úrskurðað var gjaldþrota 24. júlí 2002, sem gerði út m/b Gróttu RE 26, skipaskrárnúmer 1171, og ákærða Margeiri sem skipstjóra á skipinu er gefið að sök að hafa haldið því til dragnótaveiða í atvinnuskyni í 7 veiðiferðir frá J auk veiðiferða þar sem í 12 skipti var landað af afla skipsins í gáma á tímabilinu frá 10. mars til 5. apríl 2001 án lögboðinna aflaheimilda, en í veiðiferðum þessum var afli skipsins samtals 80.299 kg af slægðum þorski, 43.382 kg af slægðri ýsu, 763 kg af slægðum skarkola og 764 kg af slægðri þykkvalúru og sólkola umfram aflaheimildir skipsins.

II.                   Á hendur ákærðu Agnari Norðfjörð Hafsteinssyni og A.

                Ákærðu Agnari Norðfjörð sem framkvæmdastjóra og A sem stjórnarformanni útgerðarfélagsins U ehf. sem átti og gerði út m/b Klettsvík SH 343, skipaskrárnúmer 1170, og A sem skipstjóra á skipinu er gefið að sök að hafa haldið því til netaveiða í atvinnuskyni í 89 veiðiferðir frá J á tímabilinu frá 9. nóvember 2001 til 6. apríl 2002 án lögboðinna aflaheimilda, en að loknum veiðiferðum þessum var afli skipsins samtals 114.965 kg af slægðum þorski, 1.177 kg af slægðri ýsu, 1.042 kg af slægðum steinbít, 1.104 kg af slægðum skötusel og 4.497 kg af slægðum skarkola umfram aflaheimildir skipsins.

III.                 Á hendur ákærðu A, D, Margeiri Jóhannessyni og X ehf.

                Ákærða A sem framkvæmdastjóra og stjórnarformanni til 3. janúar 2002 og D sem stjórnarformanni og framkvæmdastjóra frá þeim tíma, í útgerðarfélaginu X ehf. sem átti og gerði út m/b Bervík SH 143, skipaskrárnúmer 259, og ákærða Margeiri sem skipstjóra á skipinu er gefið að sök að hafa haldið því til dragnótaveiða í atvinnuskyni í 28 veiðiferðir frá Patreksfirði og J á tímabilinu frá 1. desember 2001 til 26. febrúar 2002 án lögboðinna aflaheimilda, hvar af 7 ferðir voru farnar fyrir 3. janúar 2002, en að loknum veiðiferðum þessum var afli skipsins samtals 73.844 kg af slægðum þorski og 46.411 kg af slægðri ýsu umfram aflaheimildir skipsins, hvar af 7.646 kg af slægðum þorski og 1.227 kg af slægðri ýsu voru veiddar umfram aflaheimildir skipsins fyrir 3. janúar 2002, en 66.198 kg af slægðum þorski og 45.184 af slægðri ýsu voru veiddar umfram aflaheimildir skipsins eftir 3. janúar 2002.

IV.                 Á hendur ákærðu D, B og V ehf.

                Ákærðu D sem stjórnarformanni og A sem framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins V ehf. sem gerði út m/b Storms SH 333, skipaskrárnúmer 586, og ákærða A sem skipstjóra á skipinu er gefið að sök að hafa haldið því til netaveiða í atvinnuskyni í 10 veiðiferðir frá Rifi og J á tímabilinu 23. mars til 4. apríl 2002 án lögboðinna aflaheimilda, en að loknum veiðiferðum þessum var afli skipsins samtals 118.806 kg af slægðum þorski og 4.046 kg af slægðum skarkola umfram aflaheimildir skipsins.

V.                   Á hendur ákærðu D, A og Y ehf.

                Ákærða D sem stjórnarformanni og framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Y ehf., sem gerði út m/b Sigurvon BA 55, skipaskrárnúmer 1343, og ákærða A sem skipstjóra á skipinu er gefið að sök að hafa haldið því til dragnótaveiða í atvinnuskyni í 3 veiðiferðir frá Bíldudal dagana 5., 6. og 7. nóvember 2002 án lögboðinna aflaheimilda, en að loknum veiðiferðum þessum var aflinn samtals 14.641 kg af slægðum þorski, 3.844 kg af slægðri ýsu, 408 kg af slægðum ufsa, 1.154 kg af slægðum karfa og 223 kg af slægðri þykkvalúru umfram aflaheimildir skipsins.

VI.                 Á hendur ákærðu C, A og Z ehf.

                Ákærða Sigurði sem stjórnarmanni og framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Z ehf. sem gerði út m/b Sandafell ÍS 82, skipaskrárnúmer 1812, og A sem skipstjóra á skipinu er gefið að sök að hafa haldið því til dragnótaveiða í atvinnuskyni í 3 veiðiferðir frá J dagana 7., 8. og 9. desember 2002 án lögboðinna aflaheimilda, en í þessum veiðiferðum skipsins var aflinn samtals 6.373 kg af slægðum þorski umfram aflaheimildir skipsins.

Brot ákærðu samkvæmt I. – VI. lið, A. kafla ákæru teljast varða við 2. mgr. 3. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 23. gr. laga nr. 57, 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, sbr. 225. gr. laga nr. 82, 1998, 2. og 4. mgr. 7. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 38, 1990, um stjórn fiskveiða, sbr. 6. gr. laga nr. 36, 1992, 195. gr. laga nr. 82, 1998 og 2. og 12. gr. laga nr. 85, 2002 og 3. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. og 17. gr. laga, nr. 79, 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. 239. gr. laga nr. 82, 1998.

Um refsiábyrgð V ehf., X ehf., Y ehf. og Z ehf. vísast auk framangreinds til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 57, 1996, 1. mgr. 25. gr. a laga nr. 38, 1990 og 1. mgr. 18. gr. laga nr. 79, 1997.

B.

Á hendur ákærðu A og Agnari Norðfjörð Hafsteinssyni fyrir umboðssvik.

Með því að hafa svo sem lýst er í A. kafla ákæru lið I. haldið m/b Gróttu RE 26, sem U ehf. hafði á leigu frá eiganda þess, til veiða frá 10. mars til 5. apríl 2001 í 7 veiðiferðir auk veiðiferða þar sem í 12 skipti var landað af afla skipsins í gáma án lögbundinna aflaheimilda, og aflað samtals 80.299 kg af slægðum þorski, 43.382 kg af slægðri ýsu, 763 kg af slægðum skarkola og 764 kg af slægðri þykkvalúru og sólkola umfram aflaheimildir skipsins og umfram ákvæði leigusamningsins, og gert eigendur skipsins bundna af því að kaupa aflaheimildir sem þessu nam til að rétta af stöðu aflaheimilda skipsins.

Brot ákærðu samkvæmt B. kafla ákæru telst varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

C.

                Á hendur ákærða A og Agnari Norðfjörð Hafsteinssyni.

I.                     Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

1.  Fyrir brot framin í rekstri U ehf.

Ákærðu A sem stjórnarformanni og Agnari Norðfjörð sem framkvæmdastjóra U ehf., er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Sýslumanninum í Stykkishólmi skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins á árinu 2001 sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Árið 2001

Nóvember - desember                                kr.                                415.385                                                   kr.                                 415.385

                                                                                                                                                                Samtals:                                kr.                                415.385

2.        Fyrir brot framin í rekstri T ehf.

Ákærðu A sem stjórnarformanni og Agnari Norðfjörð sem framkvæmdastjóra T ehf., er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Sýslumanninum í Stykkishólmi skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins á árinu 2001 samtals að fjárhæð 11.323.174 og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Árið 2001

Mars - apríl                                 kr.                                5.285.124

September                                 kr.                                583.055

Október                                kr.                                2.075.675                                               

Nóvember                                kr.                                2.960.894

Desember                                kr.                                418.426                                                   kr.                                 11.323.174

                                                                                                                                                                Samtals:                                kr.                                11.323.174

Brot ákærðu samkvæmt I. lið, C. kafla ákæru töluliðum 1 og 2 telst varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

I.                     Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

1.  Fyrir brot framin í rekstri U ehf.

                Ákærðu A og Agnari Norðfjörð er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Sýslumanninum í Stykkishólmi skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna U ehf. á árinu 2001 samtals að fjárhæð kr. 1.019.682 og sundurliðast sem hér segir:

Greiðslutímabil:

Árið 2002

Janúar                                kr.                                528.453

Febrúar                                kr.                                491.229                                                   kr.                                1.019.682

                                                                                                                                                                Samtals:                                kr.                                1.019.682

2.        Fyrir brot framin í rekstri T ehf.

                Ákærðu A og Agnari Norðfjörð er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Sýslumanninum í Stykkishólmi skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna T ehf. á árinu 2001 og 2002 samtals að fjárhæð kr. 4.486.248  og sundurliðast sem hér segir:

Greiðslutímabil:

Árið 2001

Júní                                 kr.                                511.900

Júlí                                 kr.                                1.882.333

Ágúst                                kr.                                605.981

Nóvember                                kr.                                92.844

Desember                                kr.                                521.578                                                   kr.                                3.614.636

Árið 2002

Janúar                                kr.                                479.110

Febrúar                                kr.                                392.502                                                   kr.                                871.612

                                                                                                                                                                Samtals:                                kr.                                4.486.248

Brot ákærðu samkvæmt II. lið, C. kafla ákæru töluliðum 1 og 2 telst varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

D.

                Kröfugerð

                Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar fyrir framangreind brot.

                Skaðabótakrafa

                L, gerir kröfu um að ákærða A stjórnarmanni U ehf. verði gert að greiða bankanum skaðabætur vegna brota sem umgetur í I. lið A. kafla og B. kafla ákæru samtals að fjárhæð kr. 15.773.875 auk dráttarvaxta frá 27. nóvember 2001.

                Krafa um upptöku ólögmæts afla

                Þess er krafist, með vísan til 3. töluliðar 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, og 2. og 3. mgr. 16. gr. laga nr. 79, 1997, að ákærðu verði gert að þola upptöku ávinnings af brotum sínum, ólöglegum afla, eða peningafjárhæð sem svarar til andvirðis eftirtalins ólöglegs afla að mati dómkvaddra matsmanna:

                         I.      Ákærðu A, Margeiri og Agnari Norðfjörð á afla samkvæmt I. kafla ákæru 80.299 kg af slægðum þorski, 43.382 kg af slægðri ýsu 763 kg af slægðum skarkola og 764 kg af slægðri þykkvalúru og sólkola.

                       II.      Ákærðu A og Agnari Norðfjörð á afla samkvæmt II. kafla ákæru 114.965 kg af slægðum þorski, 1.177 kg af slægðri ýsu, 1.042 kg af slægðum steinbít, 1.104 kg af slægðum skötusel og 4.497 kg af slægðum skarkola.

                     III.      Ákærðu samkvæmt III. kafla ákæru. Ákærðu Margeiri, A og X ehf. verði gert að þola upptöku á andvirði 7.646 kg af slægðum þorski, 1.227 kg af slægðri ýsu, og ákærðu Margeiri, D og X ehf. á andvirði 66.198 kg af slægðum þorski og 45.184 kg af slægðri ýsu eða samtals 73.844 kg af slægðum þorski og 46.411. kg af slægðri ýsu.

                     IV.      Ákærðu B, D og V ehf. á afla samkvæmt IV. kafla ákæru 118.806 kg af slægðum þorski og 4.046 kg af slægðum skarkola

                       V.      Ákærðu A, D og Y ehf. á afla samkvæmt V. kafla ákæru 14.641 kg af slægðum þorski, 3.844 kg af slægðri ýsu, 408 kg af slægðum ufsa, 1.154 kg af slægðum karfa og 223 kg af slægðri þykkvalúru.

                     VI.      Ákærðu A, C og Z ehf. á afla samkvæmt VI. kafla ákæru 6.373 kg af slægðum þorski."

                   Þannig hljóðar ákæruskjalið.

Matsgerð

Með matsbeiðni sem Héraðsdómi Vesturlands barst 27. ágúst 2003, óskaði ákærandi eftir því að dómurinn kveddi til sérfróðan mann ,,til að meta peningalegt verðmæti afla þess sem ákærðu eru sakaðir um af hafa aflað [og] talinn er ólöglegur." Hinn 5. september kvaddi dómari til F, framkvæmdastjóra Fiskmarkaðar [...] hf. í J, til að gera hið umbeðna mat.

Í matsgerð gerir matsmaður svofellda grein fyrir matinu: ,,Við matið lagði matsmaður til grundvallar markaðsverð á seldum afla á fiskmarkaði. Miðaði matsmaður við sambærilegan afla, þe. sömu fisktegundir í sama ástand, þe. sömu stærðar, jafngamlan, veiddan á svipaðri veiðislóð og lönduðum á sömu höfnum og þar með sömu markaðssvæðum og téður afli. Er allur afli umreiknaður í slægðan afla, nema karfinn sem ávallt er hafður óslægður í viðmiðunum. Ástæðan fyrir því að matsmaður miðar við markaðsverð er einfaldlega sú að það er það verð sem að mati matsmanns sýnir rétt peningalegt virði margtéðs afla. Einnig er það það verð sem er sambærilegt við það verð sem fengist hefði ef ákæruvaldið hefði gert aflann upptækan við löndun og selt á fiskmarkaði í sínu nafni, eins og fordæmi eru fyrir, einnig eru fordæmi fyrir því að sýslumenn hafi gert tilkall til aflaverðmætis afla sem seldur er á fiskmarkaði áður en kemur að uppgjörsdegi og fiskmarkaður  því greitt aflaverðmætið út til viðkomandi embættis. Í slíkum tilfellum fá embættin andvirði aflans greitt út að frádregnum sölukostnaði viðkomandi fiskmarkaðs og því sýnir matsmaður það andvirði sérstaklega í töflunni hér að neðan."  Matsmaður kom fyrir dóm og staðfesti matsgerð sína.

 

Tilvik í ákæru

Tímabil löndunar

Veiðarfæri

Fisktegund

Veiddur afli (kg)

Verð pr. Kg.

Heildaraflaverðmæti

Heildaraflaverðmæti

A,I

10.03.01.-05.04.01.

Dragnót

Þorskur

 80.299     

 130     

 10.438.870     

að frádregnum

A,I

10.03.01.-05.04.01.

Dragnót

Ýsa

 43.382     

 152     

 6.594.064     

sölukostnaði

A,I

10.03.01.-05.04.01.

Dragnót

Skarkoli

 763     

 181     

 138.103     

 

A,I

10.03.01.-05.04.01.

Dragnót

Þykkvalúra

 764     

 305     

 233.020     

 

Samtals tilvik A, I

 

 

 

 125.208     

 

 17.404.057     

 16.613.989      

 

 

 

 

 

 

 

 

A, II

09.11.01-06.04.02

Net

Þorskur

 114.965     

 245     

 28.166.425     

 

A, II

09.11.01-06.04.02

Net

Ýsa

 1.177     

 200     

 235.400     

 

A, II

09.11.01-06.04.02

Net

Steinbítur

 1.042     

 161     

 167.762     

 

A, II

09.11.01-06.04.02

Net

Skötuselur

 1.104     

 237     

 261.648     

 

A, II

09.11.01-06.04.02

Net

Skarkoli

 4.497     

 232     

 1.043.304     

 

Samtals tilvik A,II

 

 

 

 122.785     

 

 29.874.539     

 28.587.469     

 

 

 

 

 

 

 

 

A, III

01.12.01-02.01.02

Dragnót

Þorskur

 7.646     

 253     

 1.934.438     

 

A, III

03.01.02-26.02.02

Dragnót

Þorskur

 66.198     

 250     

 16.549.500     

 

A, III

01.12.01-

02.01.02

Dragnót

Ýsa

 1.227     

195

 239.265     

 

A, III

03.01.02-

26.02.02

Dragnót

Ýsa

 45.184     

255

 11.521.920     

 

Samtals tilvik A, III

 

 

 

 120.255     

 

 30.245.123     

 28.945.127     

 

 

 

 

 

 

 

 

A, IV

23.03.01-04.04.01

Net

Þorskur

 118.806     

198

 23.523.588     

 

A, IV

23.03.01-04.04.01

Net

Skarkoli

 4.046     

165

 667.590     

 

Samtals tilvik A. IV

 

 

 

 122.852     

 

 24.191.178     

 23.131.392     

 

 

 

 

 

 

 

 

A, V

5.6. og 7.11. 2002

Dragnót

Þorskur

 14.641     

219

 3.206.379     

 

A, V

5.6. og 7.11. 2002

Dragnót

Ýsa

 3.844     

204

 784.176     

 

A, V

5.6. og 7.11. 2002

Dragnót

Ufsi

 408     

78

 31.824     

 

A, V

5.6. og 7.11. 2002

Dragnót

Karfi

 1.154     

71

 81.934     

 

A, V

5.6. og 7.11. 2002

Dragnót

Þykkvalúra

 223     

305

 68.015     

 

Samtals tilvik A, V

 

 

 

 20.270     

 

 4.172.328     

 3.990.232     

 

 

 

 

 

 

 

 

A, VI

7.8. og 9. 12.02

Dragnót

Þorskur

 6.373     

189

 1.204.497     

 

Samtals tilvik A, VI

 

 

 

 6.373     

 

 1.204.497     

 1.151.537     

                Kröfugerð verjenda fyrir hönd ákærðu

Af hálfu ákærða Agnars Norðfjörð Hafsteinssonar er þess krafist aðallega að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Í báðum tilvikum er þess krafist að sakarkostnaður verði allur lagður á ríkissjóð, þ. m. t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda að mati réttarins.

Af hálfu ákærða A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar vegna brota skv. ákæruliðum  A, I; A, II og A, III og C-hluta ákæru, með fyrirvara um fjárupphæðir, og að ákærði verði sýknaður af ákæruliðum A, V og A, VI og B-hluta ákæru og skaðabótakröfu skv. D-hluta. Krafist er að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, en til vara að hluta, þ. á m. málsvarnalaun verjanda fyrir dómi og við lögreglurannsókn.

Af hálfu ákærðu B og D og einkahlutafélaganna V, Y og X, voru hafðar upp þessar kröfur:

Að ákærði D verði sýknaður af háttsemi skv. III. kafla A-hluta ákæru og af háttsemi skv. IV. kafla. Komi til sakfellingar skv. V. kafla A-hluta ákæru, verði ákærða ekki gerð refsing. Krafist er sýknu af kröfum um upptöku afla skv. D-hluta ákæru, III, IV. og V. tölulið.

Að ákærði B verði sýknaður af A-hluta, kafla IV, og einnig kröfum í D-hluta, IV tölulið.

Að ákæru á hendur X ehf. verði vísað frá  dómi.

Að ákærðu V ehf. og Y ehf. verði sýknuð af öllum kröfum ákæruvalds.

Verjandi ákærðu B og D og einkahlutafélaganna V, Y og X, krefst þess að allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð. Verjandi krefst málsvarnarlauna vegna hvers aðila um sig fyrir vörn fyrir dómi og fyrir réttargæslu.

Af hálfu ákærða Margeirs Jóhannessonar er þess krafist aðallega að ákærði verði sýknaður af öllum refsikröfum ákæruvaldsins og jafnframt að kröfu um upptöku skv. D-hluta ákæru, I. og III. lið, verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að ákærði hljóti vægustu refsingu sem lög leyfa og verði þá sýknaður af upptökukröfum. Verjandi krefst málsvarnarlauna að mati dómsins.

Af hálfu ákærðu C og Z ehf. er þess krafist að ákærðu verði bæði sýknuð af kröfum ákæruvaldsins, þ. m. t. af upptökukröfu. Hann krefst þess að málsvarnarlaun að mati dómsins og annar sakarkostnaður verði greiddur af ríkissjóði.

Um A-hluta ákæru

Inngangur: Tildrög þessa máls eru sem hér segir: Upphaf áæruliðanna í A-hluta ákæru voru kærur frá Fiskistofu til ríkislögreglustjórans. Þetta á þó ekki við um ákærulið I í A-hluta, þar sem upphaf máls var kæra frá L hf., en sá ákæruliður er þó sem aðrir reistur á gögnum frá Fiskistofu.

                Hálfdán Daðason lögreglumaður var rannsóknari máls þessa hjá ríkislögreglustjóranum. Hann kom fyrir dóminn sem vitni og lýsti því hvernig hann hefði unnið úr þeim gögnum sem fyrir lágu.  Tölur um veiðiferðir í öllum ákæruliðunum eru byggðar á aflayfirliti sem hann vann yfir aflamarksstöðu viðkomandi skips þann tíma sem ákæruliður tiltekur og veiðiferðir á þeim tíma. Hann kvaðst yfirleitt hafa byrjað að vinna út frá stöðubréfi Fiskistofu sem gefið hefði verið út eftir síðustu löndun. Hann hefði síðan fengið upplýsingar frá Fiskistofu um allan landaðan afla, fyrir hvern einasta dag, og hefði þannig reiknað sig aftur í tímann. Aflamarksstaðan hefði verið leiðrétt eftir löndunum. Tillit hefði verið tekið til aflamarksfærslna bæði af og frá skipinu og einnig (í ákærulið A, I eingöngu) til útflutnings í gámum. Einnig væri reiknaður inn í dæmin hlutur undirmálsfisks, sem sem draga mætti frá aflamarkinu. Vitnið lýsti þessu nánar í smáatriðum. Svona hefði hann reiknað aftur í tímann. Þannig hefði verið fundinn fjöldi veiðiferða þar sem skip hefði ekki haft fullnægjandi aflaheimildir. Útreikningar þessir hefðu stemmt við stöðubréf Fiskistofu, sem væru yfirleitt tvö í hverjum mánuði.  Hálfdán sagði að menn hefðu bent á að á tilteknum dögum hefðu þeir á aflaskráningarkerfi Fiskistofu, Lóðsinum, fengið uppgefna tölu sem passaði ekki við þessa útreikninga. Landanir kæmu oft inn í Lóðsinn seint og illa. Rannsóknarinn sagði til skýringar að hjá Fiskistofu væri ekki unnt að fá stöðubréf aftur í tímann.

                Fram kom hjá verjendum ákærðu að ekki væri ágreiningur um að rannsóknarinn hefði fært rétt af þeim frumgögnum sem hann hafði um landanir, aflamarksfærslur og fleira, inn á yfirlitin. Niðurstöðutölur í ákæruliðunum í A-hluta ákæru um neikvæða aflamarksstöðu í lok tímabila voru ekki rengdar. Efasemdir komu hins vegar fram um aðferð rannsóknara, þ.e. þá aðferð að reikna frá síðasta stöðubréfi Fiskistofu og síðan aftur tímann. Kom fram að þetta kynni að hafa leitt til þess að veiðiferðir, þegar aflamarksstaðan hefði verið neikvæð, hefðu orðið fleiri en rétt væri. Hálfdán var spurður hvort verið gæti að það fengjust færri veiðiferðir með neikvæða aflamarksstöðu ef reiknað væri fram í tímann, en ekki aftur, eins og gert var. Hann kvaðst ekki vilja fullyrða um það, en hann teldi það afar ólíklegt.

                Það er álit dómara að hér skipti máli að ekki hafa verið bornar brigður á niðurstöðutölur um aflamagn skipa umfram heimildir, en ekki hvort vera kunni að einhverju skeiki um fjölda veiðiferða, en ekki hefur það þó, að mati dómara, verið gert líklegt. Þá hafa heldur ekki verið gerðar athugasemdir við þau tímabil sem tiltekin eru í ákæruliðunum, nema hvað fram er komið að síðara tímamark greinir ekki endilega frá síðasta löndunardegi, heldur miðast það við síðasta útgefið stöðubréf.

                Um ákærulið A, I

                Þáttur ákærða Agnars Norðfjörð Hafsteinssonar: Ákærði neitaði sök. Hann kvaðst ekki hafa verið framkvæmdastjóri U ehf. á þeim tíma sem ákæruliðurinn tiltekur. Meðákærði A hefði verið framkvæmdastjóri á þessum tíma. Á þessum tíma kvaðst ákærði hafa séð um fisksölu fyrir U ehf. Hann hefði ekki verið í stjórn félagsins og ekki starfað á skrifstofu þess.

                Samkvæmt útskrift úr Hlutafélagaskrá voru skv. fundi í U ehf. 4. september 2000 þessir menn í stjórn félagsins: G, stjórnarformaður, A og H meðstjórnendur. A var framkvæmdastjóri. Ákærða Agnars Norðfjörð er ekki getið. Í skýrslu sem ákærði gaf fyrir lögreglu 2. október 2002 var hann spurður um þessa útskrift út Hlutafélagskrá, og var þá þetta eftir honum haft: ,,Agnar segir skjalið ekki greina rétt frá stjórn félagsins fyrir rekstrarárið 2001. Hann segir að A hafi verið stjórnarformaður og hann sjálfur hafi verið framkvæmdastjóri U ehf. Agnar segir að þær G og H hafi ekki komið neitt að rekstrinum. heldur hafi nöfn þeirra verið notuð til uppfyllingar til skráningar hjá Hlutafélagakrá."

                Samkvæmt annarri útskrift úr Hlutafélagaskrá verður breyting á stjórn og framkvæmdastjórn U ehf. á fundir 17. desember 2001. Þá skipa stjórn félagsins ákærði A og G, en framkvæmdastjóri er ákærði Agnar Norðfjörð.

                Ákærði var spurður um skýringar á ofangreindum framburði sínum fyrir lögreglu. Hann sagði að þetta hefði bara verið misskilningur hjá sér. Hann hefði mistúlkað þetta og ekki verið í standi til að hugsa þetta rökrétt. Hann hefði talið að það gilti fyrir árið að hann hefði verið skráður framkvæmdastjóri á árinu 2001. En hann hefði á þessu ári ekki verið með prókúru fyrir félagið og aldrei með prókúru í banka. Hann hefði ekki farið með fjármálastjórn fyrir félagið.

                Í annarri skýrslu sem ákærði gaf fyrir lögreglu 13. maí 2003 var hann spurður hver hefði séð um daglegan rekstur U ehf. og hver hefði tekið fjárhagslegar ákvarðanir fyrir félagið þegar það var með Gróttu RE-26 á leigu: ,,Agnar segir að það hafi verið hann og A. Agnar segir að sitt svið hjá félaginu hafi verið fisksala en A hafi séð um allt er vék að kvótamálum hjá félaginu. Hann segist ekki hafa starfað í J, heldur hafi hans starfsaðstaða aðallega verið heima hjá honum í K." Fyrir dóminum bar ákærði að hann hefði ekkert ákvörðunarvald haft um útgerð skipsins Gróttu.

                Meðákærði Agnars Norðfjörð, A, var fyrir dóminum spurður hver hefði verið raunveruleg staða hans og ákærða Agnars Norðfjörð hjá U ehf. eftir fund í félaginu 4. september 2000. Hann sagði að staðan hefði verið sú, að þeir ákærði Agnar hefðu ,,unnið þessi mál í sameiningu alla tíð burtséð frá skráningu í félögunum". Hann vísaði í þessu sambandi til framburðar síns fyrir lögreglu 16. september 2002: ,,A segir að í stjórn U ehf. á því tímabili sem fjallað er um eða febrúar, mars og apríl 2001, hafi hann og Agnar Norðfjörð Hafsteinsson verið í stjórn U ehf. Hann segist hafa verið stjórnarformaður en Agnar hafi verið framkvæmdastjóri."  Þegar meðákærða var bent á að skv. útskrift úr Hlutafélagaskrá hefði ákærði Agnar Norðfjörð ekki orðið framkvæmdastjóri fyrr en 17. desember 2001, sagði meðákærði að hann hefði kannski ekki verið í stjórn, en ,,hann starfaði bara með mér". Í skýrslu sem tekin var fyrir lögreglu af meðákærða 6. maí 2003 var hann spurður hver hefði séð um daglegan rekstur U ehf. og hver hefði tekið fjárhagslegar ákvarðanir fyrir félagið á þessu umrædda tímabili, þegar félagið var með Gróttu RE-26 á leigu. Svar: ,,A segir að hann og Agnar Norðfjörð hafi séð um daglegan rekstur U ehf. og tekið fjárhagslegar ákvarðanir fyrir félagið." Meðákærði staðfesti þetta fyrir dóminum.

                Meðákærði var fyrir dóminum spurður hvenær gengið hefði verið frá þeirri verkaskiptingu milli hans og ákærða Agnars Norðfjörð, sem hann hefur nú lýst. Hann sagði að það hefði verið gert um leið og félagið var stofnað. Ástæðan fyrir því að það hefði ekki verið gengið formlega frá því að ákærði Agnar væri framkvæmdastjóri hefði verið sú að hann hefði verið gjaldþrota. Þess vegna hefði kona hans, H, farið í stjórn. Ákærði staðfesti að formlega hefði þessu verið breytt á fundi 17. desember 2001.  Meðákærði bætti við, aðspurður, að það hefði ekki verið glögg verkaskipting milli hans og ákærða, Agnars. Þeir hefðu tekið ákvarðanir sameiginlega, mikið gegnum síma. Ákærða hefði verið ljós aflamarksstaða skipsins Gróttu.

                Meðákærði A sagði að það hefði verið hann sem að mestu hefði séð um það fyrir U ehf. að leigja kvóta fyrir Gróttu.

                Meðákærði Margeir Jóhannesson var fyrir dóminum spurður hverjir hefðu verið fyrirsvarsmenn félagsins sem hann hefði átt samskipti við. Hann sagði: ,,Þeir voru það báðir." Hann hefði þó átt meiri samskipti við meðákærða A en ákærða Agnar Norðfjörð. A hefði verið ,,meira á staðnum". Hann kvaðst þó ekki geta svarað því hver hefði séð um að leigja kvóta á skipið. Þeir hefðu báðir átt þátt í að ráða hann sem skipstjóra. Þeir hefðu farið allir þrír saman til að kaupa skipið Bervík SH 143 (ákæruliður A,III).

                Niðurstaða: Af skýrslum þeim sem ákærði Agnar Norðfjörð gaf fyrir lögreglu er greinilegt að hann taldi sig bera fulla ábyrgð til jafns við meðákærða A á rekstri U ehf. á þeim tíma sem ákæruliðurinn tekur til, þrátt fyrir það að hann væri ekki formlega skráður framkvæmdastjóri félagsins fyrr en 17. desember 2001. Framburður hans fyrir dóminum um það, að þessi framburður hans fyrir lögreglu væri rangur, þykir dómara ekki trúverðugur né heldur skýring hans á því hvers vegna hann hefði borið rangt. Framburður hans fyrir lögreglu kemur hins vegar vel heim við það sem meðákærðu, A og Margeir Jóhannesson, báru fyrir dóminum. Því þykir dómara sannað að ákærði Agnar Norðfjörð hafi í raun verið framkvæmdastjóri U ehf. á þeim tíma sem  ákæruliðurinn tiltekur. Sem slíkur ber hann ábyrgð á þeim fiskafla umfram veiðiheimildir sem þar greinir. Ákærði hefur engar brigður borið á efnisatriði ákæruliðarins, og ekkert er fram komið í málinu sem bent gæti til þess að þar gæti ranglega verið farið með magntölur umfram veiðiheimildir.

                Að þessu athuguðu telur dómari að ákærði Agnar Norðfjörð sé sannur að þeirri sök sem á hann er borin í ákæruliðnum.

                Þáttur ákærða A: Ákærði játaði sök sína samkv. þessum ákærulið. Hann kvaðst þó ekki vita hver margar veiðiferðirnar hefðu verið, sagðist ekki hafa aðstöðu til að meta hve margar þær hefðu verið án þess að skipið hefði kvóta. Hann kannaðist við að hafa verið stjórnarformaður U ehf., sem hefði gert skipið Gróttu RE-26 út á umræddu tímabili, 10. mars til 5. apríl 2001. Hann kannaðist við að afli umfram aflaheimildir hefði verið sá sem í ákæruliðnum greinir. Dómari telur að með þessum framburði ákærða sé fram komin afdráttarlaus játning á því broti sem á hann er borið í ákæruliðnum. Gögn málsins styðja þessa játningu. Ákærði er sannur að sök.

                Þáttur ákærða Margeirs Jóhannessonar: Ákærði neitaði sök. Hann kannaðist við að hafa verið skipstjóri á Gróttu RE-26 á þeim tíma sem ákæruliðurinn tekur til, sagði þó að skipið hefði hætt veiðum um viku fyrir 5. apríl 2001, hann myndi dagsetninguna ekki nákvæmlega. Hann var spurður hvort niðurstöðutölur ákæruliðarins um afla umfram aflaheimildir væru réttar eða rangar. Hann kvaðst ekki geta borið um það, hann hefði aldrei séð neinar tölur um þetta. Hann var þá spurður hvað hann hefði vitað um aflamarksstöðu skipsins þann tíma sem hann var skipstjóri. Hann kvaðst hafa vitað ósköp lítið, hann hefði vitað að lítill kvóti hefði verið á því. Hann kvaðst ekkert vita um leigusamning U ehf. við Haförn ehf. um skipið. Hann hefði ekki haft eftirlit með því hvort skipið hefði nægar aflaheimildir, hann hefði treyst útgerðinni til að annast það.

                Ákærði var spurður hvort hann hefði ekki litið á það sem sitt hlutverk að fylgjast með aflamarksstöðu skipsins. Hann sagði að það væri rosalega erfitt fyrir skipstjórnarmann að fylgjast með henni. Útgerðin seldi aflann hingað og þangað, m. a. til útlanda í gámum. Eina leiðin fyrir skipstjóra til að fylgjast með þessu væri í gegnum Lóðsinn hjá Fiskistofu [þ.e. aflaskráningarkerfi Fiskistofu. Innskot dómara.], en það hefði hann ekki gert. Hann hefði á þessum tíma átt heima í Hafnarfirði, en hann hefði dvalist um borð í skipinu þegar hann var við róðra frá J. Hann hefði ekki haft tölvu um borð nema siglingatölvu, ekki með nettengingu. Faxtæki hefði verið bilað. Upplýsingar þær sem hann hefði fengið um aflamarksstöðu hefðu komið frá útgerðinni. Ákærði sagði að eftirlit skipstjóra með aflamarkstöðunni væri erfitt m.a. vegna þess að það væri sífellt verið að leigja kvóta inn á skipið. Hann hefði þó vitað gróflega hve mikið hann hefði veitt, en hann hefði ekki getað séð hvaða aflaheimildir hefðu komið inn á skipið í staðinn. Hann sagðist hafa verið hjá þessari útgerð, U ehf., hálft annað ár, og þetta hefði alltaf gengið snurðulaust.

                Niðurstaða: Skipstjóri ber víðtæka ábyrgð á því skipi sem hann stjórnar, á siglingu þess og öllum búnaði og að starfsemi um borð í því fari að lögum, sbr. t. a. m. 6. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og mörg önnur ákvæði í þeim lögum og sjómannalögum nr. 35/1985. Ótvírætt verður að telja að skipstjóri beri ábyrgð á því að fiskiskip hefji ekki veiðiferð nema skip hans hafi aflaheimildir sem telja má líklegt að dugi fyrir afla í ferðinni, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996  um umgengni um nytjastofan sjávar. Skipstjóra ber að halda afladagbækur sk. 15. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, og verður ekki annað séð en færsla þeirra ætti að auðvelda skipstjóra að fylgjast með aflamarksstöðu skips. Ekki verður fallist á það með ákærða að það hafi verið mjög erfitt fyrir hann sem skipstjóra að fylgjast með því hvort skipið Grótta hefði aflaheimildir til að veiða þann fisk sem til stóð að fiska fyrir hverja sjóferð, að minnsta kosti ekki svo erfitt að miklu munaði frá réttu lagi. Í þeim ákærulið sem hér um ræðir, A, I, fiskaði ákærði mikið magn af fiski umfram aflaheimildir, um 80 tonn af slægðum þorski og 43 tonn af slægðri ýsu auk skarkola og þykkvalúru. Slíkur umframafli gat ekki farið fram hjá ákærða ef hann hefði viðhaft eðlilega gát við veiðarnar.

                Að þessu athuguðu telur dómari sannaða sök ákærða samkv. þessum ákærulið.

                Um ákærulið A, II

                Þáttur ákærða Agnars Norðfjörð Hafsteinssonar: Ákærði neitaði sök. Hann kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri U ehf. frá 17. desember 2001. Hann kvaðst hafa verið skráður sem slíkur samkv. beiðni meðákærða A. Hann kvaðst hafa séð um fisksölu fyrir félagið. Hann hefði ekki komið að því að afla veiðiheimilda fyrir félagið og hefði ekki þekkt til þess þáttar í rekstrinum.

                Ákærði var spurður hvort hann hefði efnislegar athugasemdir að gera við þennan ákærulið. Hann kvaðst ekki hafa þekkingu til þessa að gera athugasemdir. Í skýrslu sem tekin var af ákærða fyrir lögreglu 13. maí 2003 um efni þessa ákæruliðar var borin undir ákærða samantekt rannsóknarans um aflamarksstöðu Klettsvíkur SH-343. Þetta er skráð í lögregluskýrsluna: ,, Samkvæmt þessari samantekt virðist skipinu hafa verið haldið samtals í 89 veiðiferðir á tímabilinu 9. nóvember 2001 til 6. apríl 2002, með neikvæða aflamarksstöðu. Hann er spurður hvort hann vilji tjá sig um þessa samantekt eða hvort hann rengi hana á einhvern hátt. Agnar segist ekkert hafa að athuga varðandi þessa samantekt. Hann segist þó alls ekki hafa vitað til þess að skipinu hafi verið haldið til veiða í allar þessar veiðiferðir án þess að hafa til þess nægar heimildir. Agnar segist vita til þess að bæði þeir hjá U ehf. og fjöldi annarra útgerðarmanna hafi farið til sjós með litlar veiðiheimildir og jafnvel farið fram yfir veiðiheimildastöðuna en þeir hafi alltaf reddað þeim málum fljótlega með því að leigja til skipanna heimildir. Stundum hafi Fiskistofa sent skeyti um að staðan væri orðin neikvæð og þá hafi menn leigt til sín heimildir. Hann segir að aðferðin hafi verið sú að menn fylgdust með aflaskráningarkerfinu ,,Lóðsinn" hjá Fiskistofu og gert [svo] út eftir þeim upplýsingum sem þar var að hafa. Hann segir að oft hafi ,,Lóðsinn" sýnt mönnum betri stöðu en hún var þar sem upplýsingar um landaðan afla kom misjafnlega fljótt inn í það kerfi."

                Ákærði sagði að hann og meðákærði A hefðu aldrei rætt neitt saman um aflaheimildir, eða kvótastöðu, skipsins Klettsvíkur. Það hefði alveg verið á könnu meðákærða að sjá um kvótamálin. Hann kvaðst ekki vera klár á því hver hefði verið skipstjóri skipsins á þeim tíma sem ákæruliðurinn tiltekur, þ.e. frá 9. nóvember 2001 til 6. apríl 2002.

                Við rannsókn þessa máls fyrir lögreglu voru teknar skýrslur af ákærða 3. október 2002 og 13. maí 2003.  Í fyrri skýrslunni var ákærði spurður hverjir hefðu tekið fjárhagslegar ákvarðanir hjá U ehf. og hverjir hefðu séð um daglegan rekstur félagsins. Hann sagði að hann og meðákærði A hefði tekið allar fjárhagslegar ákvarðanir varðandi félagið og séð sameiginlega um daglegan rekstur þess. Fyrir dóminum sagði ákærði að það væri ekki rétt að hann hefði séð um daglegan rekstur félagsins og hann hefði heldur ekki tekið fjárhagslegar ákvarðanir í nafni þess. Ákærði var spurður um skýringu á framburði sínum fyrir lögreglu. Hann kvaðst hafa talið að af því að hann hefði verið skráður framkvæmdastjóri á þessu ári, þá væri það samkvæmt lögum þannig að hann hefði átt að sinna daglegum rekstri og taka fjárhagslegar ákvarðanir.

                Sækjandi vitnaði til þess að í skýrslu ákærða fyrir lögreglu 3. október 2002 er þetta haft eftir honum: ,,Agnar segist vilja taka það fram að það sé ekki rétt sem fram kemur í kærunni [þ.e. kæru Fiskistofu] að skipinu hafi verið haldið til veiða án veiðileyfis, hinsvegar sé rétt að skipinu hafi verið haldið til veiða án þess að hafa til þess aflaheimildir." Ákærði var spurður á hverju hann hefði byggt þennan framburð, ef hann hefði ekki þekkt neitt til aflamarksstöðu skipsins. Hann kvaðst hafa heyrt þetta hjá meðákærða A.

                Sækjandi vísaði einnig til þess að í sömu skýrslu fyrir lögreglu var ákærði spurður hvers vegna hann sem framkvæmdastjóri félagsins hefði látið halda skipinu út í samtals 12 sjóferðir án þess að hafa til þess aflaheimildir. ,,Agnar segir að meiningin hafi verið að leigja til skipsins aflaheimildir eins og alltaf hafði verið gert. Hann segir að vinnureglur hafi verið þær hjá kvótalitlum skipum að leigja til þeirra aflaheimildir daginn fyrir sviptingu veiðileyfis og það hafi verið meiningin í þessu tilfelli. Staða fyrir tækisins hafði hinsvegar versnað það mikið á þessu tímabili og í ljós kom að ekki reyndist fjárhagslega geta til að leigja til skipsins aflaheimildir og nú er svo komið félagið er komið í gjaldþrotaskipti." Ákærði var spurður á hverju hann hefði reist þennan framburð sinn. ,,Á því sem mér var sagt," svaraði ákærði. Hann sagðist hafa trúað því að meiningin hefði verið að leigja til skipsins aflaheimildir og því tryði hann enn. Hann hefði vitað að það gilti um kvótalausa báta að allir hefðu verið ,,að vinna eftir svipuðum leiðum". Hann sagðist ekki geta skýrt þennan framburð sinn frekar, nema hvað hann hefði ekki haft með kvótaleigu fyrir skipið að gera. En hann hefði vitað að það hefði þurft að leigja kvóta fyrir skipið eftir hendinni.

                Meðákærði A sagði í skýrslu sinni fyrir dóminum að staða ákærða Agnars Norðfjörð hefði ekki breyst neitt eftir 17. desember 2001, þegar hann var skráður framkvæmdastjóri. Honum hefði verið kunnugt um aflamarksstöðu Klettsvíkur þann tíma sem ákæruliðurinn tiltekur. Þeir hefðu rætt mikið um stöðu mála, þótt hann, þ.e. meðákærði A, hefði þekkt betur til en ákærði, þar sem hann starfaði í J. Þeir hefðu rætt mikið saman í síma, og svo hefði hann verið mikið í Reykjavík.

                Í skýrslu sem tekin var fyrir lögreglu 30. september 2002 var meðákærði spurður hver hefði tekið ákvörðun um að Klettsvík SH-343 skyldi haldið til veiða þrátt fyrir að skipið hefði ekki til þess aflaheimildir. Svar var þannig bókað: ,,A segir að þeir Agnar Norðfjörð hafi tekið þessa ákvörðun sameiginlega." Þetta staðfesti ákærði fyrir dóminum sem rétt.

                Niðurstaða: Dómari telur ótrúverðugar skýringar ákærða fyrir dóminum á því hvers vegna hann hafi borið rangt í skýrslum sínum fyrir lögreglu. Með vísan til framburðar hans þar, framburðar meðákærða A fyrir dóminum og framburðar meðákærða undir ákærulið A, I, Margeirs Jóhannessonar, telur dómari sannaða sök ákærða Agnars Norðfjörð samkvæmt þessum ákærulið. Athuga ber að ákærði var formlega skráður framkvæmdastjóri U ehf. frá 17. desember 2001.

                Þáttur ákærða A: Ákærði játaði sök skv. þessum ákærulið, en sagðist þó ekki geta staðfest að fjöldi veiðiferða væri réttur. Hann sagðist ekki hafa verið skipstjóri á skipinu Klettsvík SH-343 nema í 28 daga á því tímabili sem um ræðir í ákæruliðnum. Hann kvaðst enga ástæðu hafa til að rengja niðurstöðutölur um afla fram yfir aflaheimildir.

                Samkvæmt lögskráningarskjali, sem frammi liggur, var ákærði skipstjóri á Klettsvík SH-343 frá 14. mars til 8. apríl 2002. Ákærði staðfesti að þetta væri rétt.

                Þá sagði ákærði að skipinu hefði ekki verið haldið til veiða eftir að það var svipt veiðileyfi.

                Ákærði sagði aðspurður kannast við að hafa sem skipstjóri fengið símskeyti frá Fiskistofu um sviptingu veiðileyfis, en hann kannaðist ekki við að hafa sem slíkur fengið senda aðvörun frá Fiskistofu.

                Með játningu ákærða A, sem er studd öðrum málsgögnum, er sönnuð sök hans samkvæmt þessum ákærulið. Þó ber að athuga að veiðiferðir hans sem skipstjóra voru miklu færri en talið er í ákæruliðnum.

                Um ákærulið A, III

                Þáttur ákærða A:                 Ákærði játaði sök skv. þessum ákærulið. Hann kvaðst þó ekki geta staðfest fjölda veiðiferða. Hann sagðist enga ástæðu hafa til að rengja að rétt væri greint frá afla umfram veiðiheimildir. Hann sagði það rétt vera að hann hefði selt X ehf. 3. janúar 2002 meðákærða D, en hann hefði komið að rekstri félagsins áfram. Hann hefði gert Bervík SH-143 eftir 3. janúar.

                Með skýlausri játningu ákærða, sem studd er öðrum málsgögnum, er sönnuð sök ákærða, A, samkv. þessum ákærulið.

                Þáttur ákærða D:                 Ákærði neitaði sök. Hann kvaðst ekki hafa verið stjórnarformaður [og framkvæmdastjóri] frá 3. janúar 2002, eins og sagt er í ákæruliðnum. Það hefði staðið til að hann keypti X ehf. en það hefði gengið til baka. Hann var þá spurður hver væri skýringin á að tilkynning um breytta eignaraðild hefði verið send Hlutafélagaskrá, móttekin þar 8. maí 2002.  Samkvæmt fram lögðu vottorði Hagstofu Íslands væri ákærði stjórnarmaður og framkvæmdastjóri X ehf. frá 3. janúar 2002. Ákærði kvaðst hafa ætlað að kaupa félagið, en það hefði verið hætt við. Spurður um hvenær hætt hefði verið við, sagði hann að það hefði verið fljótlega eftir 3. janúar. Hann kvaðst ekki geta gefið skýringu á hvers vegna tilkynningin til Hlutafélagaskrár hefði þá verið send. Hann hefði ekki sent hana. Hann hefði aldrei komið að rekstri þessa félags.

                Ákærði kvaðst ekki geta tjáð sig um magntölur afla umfram aflaheimildir.

                Við rannsókn þessa máls fyrir lögreglu var tekin skýrsla af ákærða D 31. október 2002. Framburður hans þar var nokkuð á annan veg en fyrir dómi. Honum var kynnt vottorð Hlutafélagaskrár þar sem  fram koma upplýsingar um stjórn og starfsemi X ehf. skv. samþykktum þann 3. janúar 2002, sbr. hér að framan. Ákærði var spurður hvort skjalið greindi rétt frá stjórn og starfsemi X ehf. fyrir rekstrarárið 2002. Svarið var þannig bókað: ,,D segir skjalið greina rétt frá stjórn og starfsemi X ehf. fyrir rekstrarárið 2002." Litlu síðar er skráð í skýrsluna: ,,D er spurður um hver hafi tekið fjárhagslegar ákvarðanir hjá félaginu og séð um daglegan rekstur þess. D segist sjálfur hafa tekið fjárhagslegar ákvarðanir hjá félaginu og séð um daglegan rekstur þess." Fyrir dómi sagði ákærði að þessi framburður hans fyrir lögreglu væri rangur. Þegar hann var spurður um skýringu á þessum ranga framburður sagði hann:  ,,Ég hef bara misskilið hann." Aðra skýringu kvaðst hann ekki geta gefið. Í skýrslu ákærða fyrir lögreglu er ennfremur þetta skráð: ,,D er spurður hvers vegna hann, sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri X ehf.,  útgerðarfélags Bervíkur SH-143, hafi látið halda skipinu til veiða í allar veiðiferðir á árinu 2002, án þess að hafa til þess aflaheimildir. D segist hafa talið útgerð Bervíkur SH-143, HH hafa haft nægjanlegar veiðiheimildir." Hann var fyrir dóminum spurður á hverju hann hefði byggt þetta svar,  fyrst hann hefði ekki haft þekkingu á rekstrinum eða haft með hann að gera. Ákærði kvaðst ekki vilja svara þessu.

                Meðákærði A sagði í skýrslu sinni fyrir dóminum að það væri rétt að hann hefði selt X ehf. 3. janúar 2002 ákærða D, en hann, A, hefði komið að rekstri félagsins áfram. Hann hefði gert út Bervík SH-143 eftir 3. janúar. Meðákærði sagði að aðkoma ákærða D að einkahlutafélaginu A hefði verið lítil sem engin eftir 3. janúar 2002. Félagið hefði aldrei verið formlega afhent. Í raun hefði staða sín hjá félaginu ekki breyst, hann hefði verið framkvæmdastjóri áfram. Þegar til hefði átt að taka hefði staða félagsins verið orðin svo slæm að aldrei hefði orðið af því að meðákærði hefði tekið við skipinu Bervík SH-343. Hann kvað það sína skoðun að ákærði D bæri ekki með neinum hætti ábyrgð á því sem honum væri gefið að sök í þessum ákærulið. Meðákærði kvaðst hafa séð um að Hlutafélagaskrá væri send tilkynning um breytta eignaraðild að X ehf., móttekna 8. maí 2002. Hann ítrekaði að ákærði D hefði að engu leyti komið að rekstri félagsins að því er ákæruefnið varðaði.

                Meðákærði Margeir Jóhannesson var spurður um þátt ákærða D samkvæmt þessum ákærulið. Hann sagði  að hann hefði séð ákærða D í fyrsta sinni við aðalmeðferð málsins, og hann hefði aldrei fyrr heyrt hann nefndan.

                Niðurstaða: Framburður ákærða fyrir dóminum fær stuðning af framburði hinna tveggja meðákærðu. Verður að telja ósannað að hann hafi komið að útgerð skipsins Bervíkur SH-143 á þeim tíma sem ákæruliðurinn tiltekur, þrátt fyrir að formlega hafi hann verið orðinn eigandi að X ehf. 3. janúar 2002 og þrátt fyrir að framburður hans fyrir lögreglu hafi verið á annan veg. Verður ákærði D sýknaður af kröfum ákæruvaldsins samkv. þessum ákærulið.

                Þáttur ákærða Margeirs Jóhannessonar: Ákærði neitaði sök. Hann kannaðist við að hafa verið skipstjóri á Bervík SH-143 þann tíma og farið þær veiðiferðir sem ákæruliðurinn tiltekur. Hann var spurður hvað hann hefði vitað um aflamarksstöðu skipsins á þessum tíma. Hann sagði að því hefði verið hagað þannig að leigður hefði verið til skipsins kvóti jöfnum höndum, eins og þurft hefði að nota. Hann kvaðst ekki hafa vitað um aflamarksstöðu skipsins nákvæmlega og hefði ekki haft aðstöðu til að fylgjast með henni. Hann kvaðst þó aðspurður hafa leitað upplýsinga hjá útgerðinni um aflsmarksstöðuna og ávallt verið sagt að hún væri í lagi. Hann hefði á hverjum degi talað við annað hvort meðákærða A eða Agnar Norðfjörð.

                Aðspurður kvaðst ákærði aldrei hafa fengið neina aðvörun frá Fiskistofu aðra en símskeyti með hótun um veiðileyfissviptingu. Þegar hann hefði fengið slíkt skeyti á Bervík SH [Fiskistofa sendi skeytið 21. febrúar 2002. Aths. dómara.] hefði hann haft samband við útgerðina. Hann kvaðst ekki hafa haft heimild til að leigja sjálfur kvóta á skipið.

                Meðákærði A sagði í skýrslu sinni fyrir dóminum að ákærði Margeir hefði ekki haft með að gera aflamarksstöðu skipsins, en hann vissi ekki hvaða vitneskju hann hefði haft um hana. Það hefði alltaf átt að laga kvótann og það hefði Margeiri verið sagt. Margeir hefði þó vitað að skipið hefði verið kvótalaust þegar hann hefði ráðið sig sem skipstjóra í upphafi. Hann hefði verið með skipið árið á undan. Þá hefði verið leigð inn á skipið 1.800 tonn og það hefði Margeir veitt.  Meðákærði sagði að ákærði Margeir hefði ekki átt hlut í X ehf.

                 Niðurstaða: Skipstjóri ber víðtæka ábyrgð á því skipi sem hann stjórnar, á siglingu þess og öllum búnaði og að starfsemi um borð í því fari að lögum, sbr. t. a. m. 6. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og mörg önnur ákvæði í þeim lögum og sjómannalögum nr. 35/1985. Ótvírætt verður að telja að skipstjóri beri ábyrgð á því að fiskiskip hefji ekki veiðiferð nema skip hans hafi aflaheimildir sem telja má líklegt að dugi fyrir afla í ferðinni, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996  um umgengni um nytjastofan sjávar. Skipstjóra ber að halda afladagbækur sk. 15. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, og verður ekki annað séð en færsla þeirra ætti að auðvelda skipstjóra að fylgjast með aflamarksstöðu skips. Ekki verður fallist á það með ákærða að það hafi verið mjög erfitt fyrir hann sem skipstjóra að fylgjast með því hvort skipið Bervík hefði aflaheimildir til að veiða þann fisk sem til stóð að fiska fyrir hverja sjóferð, að minnsta kosti ekki svo erfitt að miklu munaði frá réttu lagi. Í þeim ákærulið sem hér um ræðir, A, III, fiskaði ákærði mikið magn af fiski umfram aflaheimildir, nær 74 tonn af slægðum þorski og rúm 46 tonn af slægðri ýsu. Slíkur umframafli gat ekki farið fram hjá ákærða ef hann hefði viðhaft eðlilega gát við veiðarnar. Dómari lítur svo á að það hafi verið skylda ákærða að fylgjast sjálfstætt með aflamarksstöðu skipsins; hann geti ekki borið fyrir sig að fyrirsvarsmenn útgerðarinnar hafi sagt honum að skipið hefði nægar aflaheimildir.

                Að þessu athuguðu telur dómari sannaða sök ákærða samkv. þessum ákærulið.

                Þáttur ákærða X ehf.:  Að mati dómara eru ekki rök til þess að vísa ákæru á hendur þessum ákærða frá dómi. Með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 57, 1996, 1. mgr. 25. gr. a laga nr. 38, 1990 með áorðnum breytingum og 1. mgr. 18. gr. laga nr. 79, 1997 ber að sakfella þennan ákærða fyrir brot samkvæmt þessum ákærulið.

                Um ákærulið A, IV

                Þáttur ákærða D: Ákærði neitaði sök skv. þessum ákærulið. Hann kvaðst hafa talið að nægar aflaheimildir væru á skipinu Stormi SH-333. Hann kannaðist við að hafa verið stjórnarformaður í félaginu V ehf., en meðákærði A hefði verið framkvæmdastjóri og skipstjóri á Stormi. Ákærði kannaðist við að það hefði verið hans hlutverk að hafa umsjón með aflamarksstöðu skipsins. Þegar hann var spurður um hvort niðurstöðutölur ákæruliðarins um veiði umfram heimildir væru réttar, sagðist hann ekki geta svarað til um það. Hann var þá spurður á hverju hann hefði byggt það álit að aflaheimildir skipsins hefðu verið nægar. Hann sagði að búið hefði verið að leigja kvóta á bátinn þegar V ehf. keypti hann. Hann sagðist ekki hafa fylgst nógu grannt með, en hefði treyst á að aflamarksstaðan væri í lagi. Ákærði sagði að meðákærði A hefði verið framkvæmdastjóri bara að nafni til. Hans hlutverk hefði ekki verið að sjá um að báturinn hefði kvóta.

Meðákærði B sagði í skýrslu sinni fyrir dóminum að það hefði komið í hlut ákærða D að fylgjast með aflamarksstöðu skipsins á þeim tíma sem ákæruliðurinn tiltekur.

Niðurstaða: Ákærði D ber ábyrgð á því sem stjórnarformaður V ehf. á þeim tíma sem ákæruliðurinn tiltekur að skipið Stormur SH-333 veiddi langt umfram aflaheimildir sínar. Ákærða er engin vörn í því að hann hafi talið að skipið hefði nægar aflaheimildir. Ákærði er sannur að sök.

Þáttur ákærða B:                 Ákærði kannaðist við að efnisatriði ákæruliðarins væru rétt. Hann kannaðist við að hafa verið framkvæmdastjóri V ehf., sem gerði út Storm SH-333, og jafnframt skipstjóri á bátnum á þeim tíma sem ákæruliðurinn tiltekur. Hann sagði jafnframt að á þeim tíma sem um ræðir hefði hann ekki vitað að hann væri að fara fram úr aflaheimildum. Hann kvaðst ekki hafa fengið nein skeyti eða tilkynningar um það.

                Ákærði sagði að 1. september [2001] hefði V ehf. keypt bátinn Storm. Honum hefði fylgt 180 tonna þorskígilda aflamark. Hann kvaðst hafa talið, þegar hann var stjórnarformaður V og skipstjóri á bátnum, að nóg væri eftir af aflaheimildum. Síðan hefði meðákærði D tekið við sem stjórnarformaður, og það hefði verið talið að nóg væri eftir af aflaheimildum. Hann sagði að það hefði komið í hlut meðákærða D að fylgjast með aflamarksstöðu skipsins á þeim tíma sem ákæruliðurinn tiltekur. Hann hefði engar upplýsingar fengið um stöðuna. Hann kveðst hafa haldið afladagbók en ekki dregið veiddan afla frá aflamarki skipsins. Hann hefði aldrei tekið saman afla hvers mánaðar. Hann hefði ekki spurt meðákærða D um stöðuna.

                Niðurstaða: Ákærði ber sem framkvæmdastjóri V ehf., sem gerði út skipið Storm SH-333 á þeim tíma sem ákæruliðurinn tiltekur, og sem skipstjóri skipsins ábyrgð á því að skipið veiddi mjög mikið umfram aflaheimildir. Ótvírætt verður að telja að skipstjóri beri ábyrgð á því að fiskiskip hefji ekki veiðiferð nema skip hans hafi aflaheimildir sem telja má líklegt að dugi fyrir afla í ferðinni, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996  um umgengni um nytjastofan sjávar. Ákærði bar að hann hefði haldið afladagbók, sbr. 15. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, og verður ekki annað séð en færsla hennar hefði átt að auðvelda honum að fylgjast með aflamarksstöðu skips. Dómari fellst ekki á að ákærði geti borið fyrir sig að hann hafi talið að skipið hefði nægar aflaheimildir. Honum átti að vera í lófa lagið að fylgjast með aflamarksstöðunni, a.m.k. svo að ekki skeikaði mjög miklu. Í þeim ákærulið sem hér um ræðir, A, IV, fiskaði ákærði mikið magn af fiski umfram aflaheimildir, nær 119 tonn af slægðum þorski og rúm 4 tonn af slægðum skarkola. Slíkur umframafli gat ekki farið fram hjá ákærða ef hann hefði viðhaft eðlilega gát við veiðarnar. Dómari lítur svo á að það hafi verið skylda ákærða að fylgjast sjálfstætt með aflamarksstöðu skipsins; hann geti ekki borið fyrir sig að það hefði komið í hlut meðákærða D að fylgjast með henni. Þá telur dómari að fjarska ótrúverðugur sé sá framburður ákærða að hann hefði ekki hafa fengið nein skeyti eða tilkynningar um að hann væri að fara fram úr aflaheimildum. Kjartan Sólberg Júlíusson, forstöðumaður lögfræðisviðs Fiskistofu, kom fyrir dóminn sem vitni. Hann bar að símskeyti, þar sem boðuð væri veiðileyfissvipting, væri sent bæði skipstjóra og útgerðaraðila skips. Slíkt skeyti bærist alltaf skipstjóra, því að skip sem væri í útgerð, væri út á sjó.  Það væri lesið upp í síma af strandarstöð. Það bærist alltaf til viðkomandi skips. Hins vegar gæti verið að útgerðarmaður væri ekki viðlátinn á útgerðarstað. Þennan framburð áréttaði vitnið með því að segja að það væri útilokað að skipstjóra bærist ekki slíkt skeyti.

                 Að þessu athuguðu telur dómari sannaða sök ákærða samkv. þessum ákærulið.

                Þáttur ákærðu V ehf.: Með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 57, 1996, 1. mgr. 25. gr. a laga nr. 38, 1990 með áorðnum breytingum og 1. mgr. 18. gr. laga nr. 79, 1997 ber að sakfella þessa ákærðu fyrir brot samkvæmt þessum ákærulið.

                Um ákærulið A, V

                Þáttur ákærða D.:                 Ákærði játaði skýlaust brot sitt, eins og því er lýst í þessum ákærulið. Með þeirri játningu, sem studd er öðrum málsgögnum, er sönnuð sök hans samkv. þessum ákærulið.

Þáttur ákærða A: Ákærði neitaði sök skv. þessum ákærulið. Hann kannaðist við að hafa verið skipstjóri Sigurvonar BA-55 þá daga sem ákæruliðurinn tiltekur. Hann kvaðst enga ástæðu hafa til að rengja tölur um afla umfram veiðiheimildir. Hann kvaðst ekki hafa vitað betur en að færður hefði verið kvóti á skipið og að Fiskmarkaður [...] hefði átt að gera það. Það hefði honum verið sagt, og Fiskmarkaðurinn hefði verið búinn að jánka því. Það hefði átt að gerast áður en veiðiferðirnar þrjár voru farnar. Hann hefði ekki vitað um neikvæða stöðu aflamarks fyrr en menn Fiskistofu hefðu komið um borð þriðja veiðidaginn og tjáð honum að skipið væri komið í mínus. Þá hefði hann hætt veiðum og skipið hefði verið svipt veiðileyfi.

                Ákærði sagði að Sigurvon BA-55 hefði verið eitt hinna svokölluðu kvótalausu skipa. Hann sagði, aðspurður, að stjórnvöld hefðu ekki skipt sér af því, þótt skip færi til veiða án aflaheimilda, ef því væri útvegaður kvóti innan þriggja daga. Hann sagði einnig að það væri ekki ákvörðun skipstjóra heldur útgerðar hvar afla væri landað. Afla Sigurvonar í þeim þremur veiðiferðum sem ákæruliðurinn tiltekur hefði verið ekið frá Bíldudal í fiskmarkað á Patreksfirði. Ákærði sagðist vita til þess að í þessu tilviki hefði verið samningur milli fiskmarkaðarins og útgerðar um að markaðurinn útvegaði skipinu kvóta.

                Ákærði var spurður hver hefði verið staða meðákærða, D, hjá Y ehf. Ákærði kvaðst ekki vita það. Aðspurður hver ráðið hefði hann sem skipstjóra, sagði hann að það hefðu verið meðákærði D og A sonur hans. Hann sagði að hann héldi að það hefði verið D sem átt hefði að hafa samband við Fiskmarkaðinn um kvótakaup, en sjálfur hefði hann fyrr haft samband við E starfsmann markaðarins, en hann, ákærði, hefði verið búinn að vera með skipið nokkurn tíma áður. Bæði E og F [framkvæmdastj. Fiskmarkaðar [...], sem áður mun hafa heitið Fiskmarkaður [...]. Innskot dómara.] hefði verið kunnugt um samkomulag um útvegun kvóta.

                Ákærði staðfesti skýrslu sem hann gaf fyrir lögreglu 14. janúar 2003. Þar kemur fram að hann er spurður hver hafi tekið fjárhagslegar ákvarðanir hjá Y ehf. og hverjir hafi séð um daglegan rekstur: ,,A segist ekki vita neitt um þetta en segist hafa unnið hjá D sem hafi séð um útgerð Sigurvonar BA-55."

                Ákærði sagði að aflamarksstaða Sigurvonar BA-55 hefði verið löguð eftir þá þrjá daga sem ákæruliðurinn tekur til. Hann hefði róið bátnum eftir það. Hann sagði að fiskmarkaðurinn mundi hafa lagfært kvótastöðuna.

                Meðákærði D kvaðst í skýrslu sinni fyrir dómi ekki hafa upplýst ákærða A um aflamarksstöðu skipsins. Hann sagði að fiskmarkaðurinn hefði átt að sjá um að leigja kvóta til skipsins Sigurvonar. Það hefði verið munnlegur samningur um það. Ákærði A hefði vitað af þeim samningi. Samningurinn hefði verið á þá lund að markaðurinn leigði kvóta til skipsins í stað þess afla sem landað væri, en leiguverðið yrði síðan dregið frá söluverði aflans. Það hefði verið farið á sjó án aflaheimilda með það fyrir augum að aflamarksstaðan yrði leiðrétt eftir löndun.

                Meðákærði D gaf skýrslu fyrir lögreglu 8. janúar 2003 vegna þessa máls. Hann var fyrir dóminum spurður um eitt atriði í þeirri skýrslu: ,,D segist kannast við að hafa sagt A skipstjóra á Sigurvon BA-55, að búið hafi verið að laga aflamarksstöðu skipsins áður en A hélt skipinu til veiða þann 5. nóvember sl." Meðákærði staðfesti þetta fyrir dóminum.

                 Niðurstaða: Dómari vísar til þess sem hér að framan ritað um ábyrgð skipstjóra í umfjöllun um ákæruliði A, I; A, III og A, IV. Dómari lítur svo á að það hafi verið skylda ákærða að fylgjast sjálfstætt með aflamarksstöðu skipsins; hann geti ekki borið fyrir sig að fyrirsvarsmenn útgerðarinnar hafi sagt honum að skipið hefði nægar aflaheimildir. Afli umfram heimildir samkv. þessum ákærulið er meiri en svo að ákærði geti borið fyrir sig að hann hafi ekki vitað betur en aflaheimildir væru fyrir hendi. Hann verður því sakfelldur.

                Þáttur ákærðu Y ehf.: Með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 57, 1996, 1. mgr. 25. gr. a laga nr. 38, 1990 með áorðnum breytingum og 1. mgr. 18. gr. laga nr. 79, 1997 ber að sakfella þessa ákærðu fyrir brot samkvæmt þessum ákærulið.

                Um ákærulið A, VI

                Þáttur ákærða C: Ákærði neitaði sök. Hann kannaðist við að hafa verið stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Z ehf., sem gert hefði út Sandafell ÍS 82 á þeim tíma sem ákæruliðurinn tekur til. Hann hefði haft með það að gera að sjá til að aflaheimildir skipsins væru nægar. Hann sagði að það væri rangt að skipinu hefði verið róið dagana 7., 8. og 9. desember 2002 án þess að aflamark þess dygði fyrir afla í þessum veiðiferðum. Skipið hefði haft nægar aflaheimildir.

                Ákærði gaf þessar skýringar á afstöðu sinni: Hann sagði að fiskveiðistjórnunarkerfið á Íslandi byggðist á því að allir bátar sem hefðu veiðileyfi mættu veiða. Ákveðnar tegundir væru bundnar í aflamarki og aðrar ekki. Tveir þriðju væru bundnar í aflamarki, en einn þriðji ekki, og sér væri heimilt að stunda þær veiðar óheftar. Þar að auki hefði skipið haft aflamark í kvótabundnum tegundum. Ef einhverjar kvótabundnar tegundir hefðu verið veiddar, sem ekki hefði verið aflamark fyrir, þá hefði það verið lagað eftir á, eins og ráð væri fyrir gert í fiskveiðistjórnunarlögum. Færanleiki frá einni tegund til annarrar, flutningur á aflamarki fram og til baka,  væri hornsteinn þeirra laga. Hvernig ætti að vera hægt að veiða ef ekki væri unnt að laga kvótastöðu, ef veiddist tegund sem ekki væri aflamark fyrir?

                Ákærði var spurður hvort skipið Sandafell hefði haft aflamark í þorski þegar farnar voru veiðiferðirnar 7., 8. og 9. des. 2002. Ákærði sagði: ,,Það hefur ekkert með þetta að gera." Hann sagði að hinn 4. des. 2002 hefði staðan verið þannig að skipið hefði veitt 172 kg af þorski umfram aflaheimild. Þessa stöðu hefði hann lagað 5. des., leigt 1.000 kg af þorski og 1.000 kg af ýsu.  Þetta aflamark hefði verið leigt hjá Kvóta- og skipasölunni 5. des. og verið faxað til Fiskistofu 9. des. og fært þá á Sandafell, en síðan hefði þetta verið tekið af bátnum aftur, en sett síðan á hann aftur. Báturinn hefði farið til veiða 6. des. Hann kvaðst ekki lögum samkv. vera skyldugur til að eiga aflaheimildir í þorski. Samkv. 7. gr. fiskveiðistjórnunarlaganna væri öllum sem hefðu veiðileyfi heimilt að veiða tegundir sem ekki væru bundnar aflamarki. Ákærða var bent á að afli umfram veiðiheimildir væri skv. ákæruliðnum 6.373 kg af þorski, svo að 1.000 kg af þorski og 1.000 kg af ýsu jafnaði ekki þá tölu. Ákærði sagði að aflamark upp á tonn í þorski og tonn í ýsu hefði að öllu venjulegu dugað í þær veiðiferðir sem ákæruliður tiltekur.

                Ákærði var spurður hvað hann hefði getað reiknað með miklum þorskafla í veiðiferð. Hann sagðist hafa haldið Sandafelli út til veiða frá J fyrir 7. desember, og meðalafli í veiðiferð hefði verið 600 - 700 kg samtals af öllum tegundum. Það sem gerst hefði í veiðiferðunum þremur 7. - 9. des. hefði verið, að í síðustu veiðiferðinni hefði verið reynt að fiska sandkola og ,,aukategundir".  Í einu kasti hefðu þá aflast 4 - 5 tonn af þorski, frekar smáum, sem alls ekki hefði verið leitað eftir. Til þess að leiðrétta þessi mistök, sagði ákærði, að hann hefði landað öllum þessum þorski sem ,,Hafró"afla. Hann hefði merkt hann þannig við löndun um kvöldið. Fiskmarkaður hefði tekið aflann. Daginn eftir hefði allur aflinn verið seldur á uppboði. Honum hefði þá verið sagt að það hefði enginn ,,Hafró"afli verið. Hann hefði þá sagt fiskmarkaðinum að þetta væru mistök sem yrði að leiðrétta. Fiskmarkaðstjórinn hefði farið á vigtina og ætlað að leiðrétta þetta, en Fiskistofa hefði neitað. Ákærði sagði að merkimiðar mundu hafa fokið af fiskkörum. Fyrst þetta hefði ekki gengið kvaðst ákærði hafa haft annað úrræði lögum samkvæmt, að leiðrétta kvótastöðuna, og það hefði hann gert.

                Ákærði var spurður hvernig hann fylgdist með aflamarksstöðu skipsins. Hann sagðist gera það eins og allir aðrir, með því að fara inn á heimasíðu Fiskistofu, á Lóðsinn. Ef hann sæi að bátur sem hann gerði út hefði farið yfir aflaheimildir leigði hann þær eins fljótt og kostur væri. Hann sem útgerðarmaður gæti ekki fylgst öðruvísi með aflamarksstöðunni, þegar bátur væri að landa hér og þar út um landið. Flestar vigtir á landinu væru beintengdar Lóðsinum. Í einhverjum tilvikum kæmu upplýsingar um afla ekki inn á Lóðsinn fyrr en tveimur til þremur dögum eftir löndun. Ef það kæmi fyrir að farið væri fram úr aflaheimildum væri staðan leiðrétt eins og lög gerðu ráð fyrir. Þetta gerðu allir. 

                Ákærði sagði að meðákærði A hefði engin afskipti haft af aflamarksstöðu skipsins. Hann hefði upplýst meðákærða um stöðuna og sagt honum að nægilegt aflamark væri á skipinu.

                Í málinu liggur fyrir skjal Fiskistofu (útskrift af heimasíðu 15. apríl 2003) um aflamarksfærslu af Mýrafelli ÍS 123 (1811) yfir á Sandafell ÍS 82 (1812). Aflamarkið er 1.000 kg í þorski og 1.000 kg í ýsu. Dagsetning færslunnar er 11. desember 2002. Ákærði ber að hann hafi leigt þetta aflamark 5. desember og faxað upplýsingar um leiguna til Fiskistofu 9. des. Fram hefur verið lögð skrifleg yfirlýsing Árna Guðmundssonar framkvæmdastjóra Kvóta- og skipasölunnar ehf., svo hljóðandi: ,,Hér með staðfestist að C f/h Z ehf. óskaði eftir því föstudaginn 06. des 2002 að Kvóta og skipasalan ehf. útvegaði sér aflamark í eftirfarandi fisktegundum fyrir mb Sandafell ÍS 82 sknr. 1812: Þorskur 1000 kg og ýsa 1000 kg. Sama dag tjáði undirritaður C að Kvóta og skipasalan ehf. hefði aflamark eins og um var beðið og var þetta sett í hefðbundið vinnuferli hjá Kvóta og skipasölunni ehf. Ósk um flutning var send á faxi til Fiskistofu mánudaginn 09. des 2002. Staðfesting um flutning aflamarksins barst miðvikudaginn 11. desember." Ekki hafa verið bornar brigður á framburð ákærða um þetta atriði máls né heldur á framanritaða yfirlýsingu.

Þá hefur verið af hálfu ákærða lögð fram svohljóðandi yfirlýsing E sölustjóra [...] (Fiskmarkaðar [...]), dags. 19. ágúst 2003: ,,Ég undirritaður staðfesti hér með að útgerðarmaður Sandafells ÍS 82 sknr. 1812 C hafði samband við Fiskmarkað [...] þann 11 12 2002 vegna löndunar Sandafells þann 10 12 2002 til þess að athuga hvort löndunin 4900 kg þorskur hafi ekki verið viktuð sem hafró afli. Vegna veðurs þá virðist sem merkingar á hluta af körunum hafi fokið af við akstur inn í hús markaðarins þannig að þessi tiltekni afli fór ekki á hafró. Ég undirritaður reyndi að leiðrétta þetta á hafnarvog Jur en Fiskistofa bannaði leiðréttingu." Þegar skjal þetta var lagt fram í dóminum var eftirfarandi bókað í þingbók: ,,Sækjandi tekur fram að hann hafi ekki athugasemdir við þessa yfirlýsingu að því leyti sem hún tekur til þess að ákærði C hafi óskað eftir staðfestingu á því að hann hafi landað tilteknum afla sem ,,Hafróafla”. Sækjandi lítur svo á að í yfirlýsingunni felist ekki afstaða E til þess hvort þessi tiltekni afli hafi verið merktur sem ,,Hafróafli”."

Niðurstaða: Dómari telur að leggja verði til grundvallar niðurstöðu um þennan ákærulið, að ákærði hafi leigt til Sandafells ÍS 82 aflamark sem numið hafi 1.000 tonn í þorski og 1.000 tonn í ýsu og að aflamarkstilfærslan hafi verið tilkynnt Fiskistofu 9. desember 2002. Einnig verði að miða við að ákærði hafi gert ráðstafanir til að afli sem nam 4.900 kg af þorski yrði landað sem svokölluðum ,,Hafró"afla, þ.e. afla hvers verðmæti legðist til Hafrannsóknastofnunar, en drægist ekki frá aflamarki skipsins, sbr. bráðabirgðákvæði nr. XXIX laga nr. 38/1990, sbr. 7. gr. laga nr. 129/2001. Athuga ber að afli umfram aflaheimildir samkvæmt ákæruliðnum var 6.373 kg af slægðum þorski. Þá ber enn að athuga að samkv. 14. gr. laga nr. 57/1996 fá útgerðarmenn og skipstjórar þrjá virka daga til að lagfæra aflastöðu skips eftir að skeyti um boðaða leyfissviptingu er sent út, þ.e.a.s. þeir hafa þrjá virka daga til þess að lagfæra aflaheimildir. Atvik máls teygja sig yfir helgi. Að öllu þessu samandregnu telur dómari að sýkna beri ákærða C af kröfum ákæruvaldsins.

Þáttur ákærðu A og Z ehf.: Það leiðir af því sem hér er að framan ritað að sýkna ber þessa ákærðu af kröfum ákæruvaldsins.

Heimfærsla brota samkvæmt A-hluta ákæru undir lagaákvæði

                Í ákæru eru brot samkvæmt þessum hluta ákæru rétt færð undir lagaákvæði. Athuga ber þó á ákærandi vísar til 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 38/1990, en rétt hefði verið að vísa til 20. gr. laganna, sbr. 195. gr. laga nr. 82/1998 og 27. gr. laga nr. 57/1996, þar sem 12. gr. laga nr. 82/2002 um breytingu á þessari lagagrein tekur ekki gildi fyrr en 1. september 2004. Um refsiábyrgð lögaðila gildir á sama hátt 1. mgr. 20. gr. a laga nr. 38/1990, sbr. 28. gr. laga nr. 57/1996.

Um B-hluta ákæru

Kæra L hf.:  Með bréfi, dags. 27. nóvember 2001, kærði Garðar Garðarsson hrl. f.h. L hf. stjórnarmenn U ehf. (G, ákærða A og H) til ríkislögreglustjórans fyrir brot á lögum um stjórn fiskveiða og 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, um umboðssvik. Málavextir voru í bréfinu sagðir þeir að þann 6. febrúar 2001 hefði U ehf., sem leigutaki, og útgerðarfélagið Haförn [ehf.], sem leigusali,  gert með sér leigusamning um leigu á fiskiskipi, Gróttu RE-26. Leigutíminn hefði verið frá 12. febrúar til 12. maí 2001. Í 4. gr. samningsins hefði komið fram að einu aflaheimildirnar sem skipið leigðist með væru 10.000 kg af steinbít. Í 8. gr. hefði verið tekið fram að leigutaka væri kunnugt um uppboðsmeðferð á skipinu. Leigusamningurinn liggur frammi. Hinn 15. mars 2001 hefði kærandi, L hf., eignast Gróttu RE á nauðungaruppboði. Eftir uppboðið hefði komið í ljós að skipið hefði veitt langt umfram veiðiheimildir, og er í bréfinu vitnað til stöðubréfs Fiskistofu frá 21. maí 2001, sem rannsóknari málsins byggði á það aflayfirlit sem er grundvöllur þessa hluta ákæru. Atvikalýsing þessi er gögnum studd og verður að teljast rétt.

Hinn 5. júní 2001 ritaði L hf. U ehf. bréf. Þar er sagt að Fiskistofa hefði krafist þess að leigðar yrðu þær veiðiheimildir til Gróttu sem upp á vantaði. Er þess krafist að ,,U ehf. geri nú þegar ráðstafanir til að leigja þær veiðiheimildir sem á vantar." Gefinn var frestur til 8. júní 2001. Segir í þessu bréfi að ,,eftir þann tíma mun L grípa til nauðsynlegra úrræða og eftir atvikum leigja sjálfur þær heimildir sem á vantar og krefja yður um allan kostnað . . ." Þessu bréfi svaraði lögmaður U ehf. með tölvubréfi 21. sama mán. Þar segir að U ehf. telji sér ekki skylt ,,að greiða þá kröfu sem L hf. gerir á hendur félaginu. Byggist afstaða umbj. okkar m.a. á því að félagið hafi ekki verið útgerðaraðili þess skips sem hér um ræðir þegar umræddar veiðar fóru fram. Þar að auki liggur ekki fyrir að L hafi orðið fyrir tjóni."

Framburður  ákærða Agnars Norðfjörð Hafsteinssonar: Ákærði neitaði sök samkvæmt þessu hluta ákæru. Hann kvaðst aðspurður ekki þekkja til þess hvort aflamarksstaða skipsins Gróttu RE- 26 hefði verið svo neikvæð sem fram kemur í ákæruhlutanum. Hann kannaðist við að skipið hefði verið leigt af Haferni ehf. Hann sagði að hann og meðákærði A hefðu aldrei rætt um aflamarksstöðu skipsins. Nánar má vísa til framburðar ákærða undir ákærulið A, I hér að framan, þar sem hér er um sömu atvik að ræða.

                Ákærði var spurður hvort hann kannaðist við leigusamning um skipið Gróttu RE-26. Hann sagðist kannast við að skipið hefði verið tekið á leigu. Hann kvaðst ekki hafa komið að gerð þess samnings, ,,ekki að mig minnir," sagði hann. Hann var þá spurður hvort honum hefði verið kunnugt um að skipið hefði samkv. samningnum einungis haft aflaheimildir fyrir 10 tonn af steinbít. Hann neitaði því, sagðist ekki hafa verið klár á hvernig þessi samningur var nákvæmlega. Hann hefði ekki komið að gerð samningsins.

                Framburður ákærða A:  Ákærði neitaði sök skv. þessum hluta ákæru. Hann kannaðist við leigusamning milli Hafarnar ehf. og U ehf. um skipið Gróttu RE-26 og að hann hefði undirritað samninginn. Hann kannaðist við að skipinu hefði fylgt til leigutakans aflamark í steinbít, 10.000 kg.  Hann kvaðst ekki rengja þær magntölur sem fram koma í ákæruhlutanum um afla umfram heimildir. Hann sagði að þessi neikvæða staða aflamarks hefði fylgt skipinu til loka fiskveiðiársins. Hann sagði að engir samningar hefðu verið við leigusalann um að skipið mætti fara fram úr aflaheimildum.

                Ákærði var spurður hvort honum hefði verið tilkynnt um uppboðskaup L á Gróttu RE-26, eða hvort hann hefði vitað af þeim kaupum. Hann kvaðst ekki hafa vitað af þeim fyrr en eftir uppboðið, hann myndi þetta ekki nákvæmlega. Hann sagði, aðspurður, að uppboðskaupandi hefði haft samband við hann til að biðja hann að hætta veiðum eða gera aðrar ráðstafanir.

                Ákærði kannaðist við að L hf. hefði krafið U ehf. um að kaupa aflaheimildir á Gróttu, eftir að hann eignaðist skipið, sem U hefði ekki fallist á, vegna fjárskorts, sagði ákærði.

                Í B-hluta ákæru eru atvik um útgerð og veiðar Gróttu RE-26 hin sömu og lýst er í I-lið A-hluta ákæru. Þeim er hér rétt lýst.

                Ákærði A var stjórnarformaður U ehf. á þeim tíma sem ákæruhlutinn tekur til. Í umfjöllun um ákærulið A, I hér að framan er komist að þeirri niðurstöðu að ákærði Agnar Norðfjörð hafi í raun verið framkvæmdastjóri U ehf. á þeim tíma sem sem ákæruliðurinn tiltekur. U ehf. var útgerðaraðili skipsins, og bera ákærðu báðir ábyrgð á útgerð félagsins á umræddum tíma.

                Ákærðu er gefið að sök að hafa brotið gegn 249. gr. almennra hegningarlaga. Þar segir: ,,Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi."

                Ákærðu misnotuðu þá aðstöðu sem þeir höfðu sem stjórnendur U ehf. til að gera út skipið Gróttu RE-26, sem var í eigu annars aðila, L hf., með því að láta skipið veiða mikinn fiskafla umfram veiðiheimildir. Með þeim verknaði þeirra varð L bundinn til að leigja veiðiheimildir til skipsins, annars missti skipið veiðileyfi og eigandi mátti búast við sektum. Afli skipsins í útgerð ákærðu var svo langt umfram heimildir að óhætt er að slá því föstu að um vísvitandi ákvarðanir ákærðu var að ræða. Því telst sönnuð sök beggja ákærðu  samkvæmt B-hluta ákæru. Brot þeirra er í ákæru rétt fært undir lagaákvæði.

                Um C-hluta ákæru

                Tildrög ákæru: Með bréfi, dags. 14. ágúst 2002, vísaði skattrannsóknastjóri ríkisins til efnahagsbrotdeildar ríkislögreglustjórans niðurstöðum sínum í máli ákærðu, Agnars Norðfjörð Hafsteinssonar og A, vegna vanskila U ehf. og T ehf. á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti. Segir í bréfinu að tilefni rannsóknar skattrannsóknarstjóra megi rekja til ábendingar sýslumanns Snæfellinga um ætluð brot þessara skattaðila. Rannsóknin hafi hafist formlega 21. mars 2002 og ,,lokið með gerð meðfylgjandi skýrslna". Framhaldsrannsókn ríkislögreglustjórans og síðan ákæra eru byggð á rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins.

                Framburður ákærða A: Ákærði játaði brot sín skv. ákæruliðunum fjórum í þessum ákæruhluta. Hann sagðst þó ekki játa að fjárhæðin í ákærulið C, I, 2, ætti að nema kr. 11.323.174, heldur ætti upphæðin að vera kr. 8.347.588, vegna þess að inn á skuldina hefðu verið greiddar kr. 2.975.586, eins og fram kæmi í fram lagðri skýrslu skattrannsóknarstjóra.

                Ákærði var spurður um meintan þátt meðákærða Agnars Norðfjörð að brotum skv. C-hluta ákæru. Hann sagði að þeir, hann og meðákærði Agnar, hefðu verið með bókara  sem séð hefði um að gera skýrslur, en þeir hefðu síðan séð um að greiða þegar peningar hefðu verið til, ef þeir hefðu verið til. Hann var þá spurður hvort meðákærði hefði þekkt stöðu mála hjá félögunumm U og T. Hann kvaðst telja það.

                Í skýrslu sem ákærði gaf fyrir lögreglu 16. september 2002 er haft eftir honum að hann sjálfur og meðákærði Agnar Norðfjörð hafi borið ábyrgð á fjármálastjórn og öllum skattskilum U ehf. vegna rekstartímabilsins nóvember 2001 til og með febrúar 2002. Hann bar á sama veg um T ehf. að því er varðaði rekstartímabilið mars 2001 til  og með febrúar 2002. Skýrsluna staðfesti ákærði fyrir dóminum.

                Ákærði var þá spurður hver hefði verið með tékkhefti fyrir félögin U og T. Hann kvaðst hafa verið með það, en enginn annar. Hann kvaðst hafa séð um að greiða skatta. Um stöðu félaganna í árslok 2001 sagði ákærði að hún hefði verið erfið en þó í lagi. Hann hefði ekki gert meðákærða sérstaklega grein fyrir stöðu félaganna, en hann hefði vitað um hana.

                Ákærði var spurður um ástæður þess að rekstur U ehf. og T ehf. fór að ganga illa á síðari hluta ársins 2001 og á árinu 2002. Hann sagði að sumarið 2001 hefðu bátar á vegum þessara félaga fiskað vel. Þá hefði fiskur verið flakaður í svokallaðan pækil. Flökin hefðu síðan verið send suður í I til að láta lausfrysta þau. Þau hefðu verið höfð of lengi í pækli, hefðu súrnað og skemmst. Þarna hefði orðið ,,tap upp á gríðarlegar tölur", milli 30 og 40 milljónir króna. Í framhaldi af þessu hefðum ,,við" farið að selja afurðir beint til SÍF (ekki í umboðssölu). Þá hefði myndast stór skuld virðisaukaskatts. Félögin hefðu líka tapað á gjaldþroti viðskiptavina. þar hefði tapast fé sem hefði átt að nota til að leigja kvóta.

                Aðspurður kvaðst ákærði ekki sitja eftir með neinn hagnað af starfsemi þessara félaga, nema síður væri. Hann væri ekki orðinn gjaldþrota, en hann yrði það. Hann væri eignalaus.

                Framburður ákærða Agnars Norðfjörð Hafsteinssonar: Ákærði neitaði sök samkvæmt öllum liðum í þessu hluta ákæru, bæði varðandi meint brot gegn lögum um virðisaukaskatt og einnig meint brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

                Nánar um ákærulið C, I, 1. Ákærða var bent á að hann hefði verið skráður framkvæmdastjóri U ehf. frá 17. desember 2001. Standa hefði átt skil á virðisaukaskattinum skv. þessum ákærulið 5. febrúar 2002. Ákærði kvaðst hafa verið skráður framkvæmdastjóri, en hann hefði ekki séð um daglegan rekstur og hefði ekki haft prókúra á reikninga félagsins. Hann hefði ekki vitað um skattskil félagsins.

                Í skýrslu sem ákærði gaf fyrir lögreglu 2. október 2002 var hann spurður hver hefði annast daglega fjármálstjórn U ehf., þ.m.t. borið ábyrgð á hvers kyns skattskilum vegna vsk-tímabilsins nóv.-des. 2001 (gjalddagi 05. febrúar 2002) og vegna launatímabilanna janúar og febrúar 2002 (á eindaga 05. febrúar og 05. mars 2002). Svar: ,,Agnar segir að eins og lög gera ráð fyrir hafi það verið framkvæmdastjórinn og stjórnarformaðurinn eða þeir Agnar og A sem hafi borið ábyrgð á fjármálstjórn félagsins og borið ábyrgð á fjármálastjórn félagsins og borið ábyrgð á hverskyns skattskilum vegna ofangreindara rekstrartímabila." Þegar þetta var borið undir ákærða vísaði hann til fyrri framburðar, um A-hluta ákæru, m.a. þessa: Hann kvaðst hafa talið að af því að hann hefði verið skráður framkvæmdastjóri á þessu ári, þá væri það samkvæmt lögum þannig að hann hefði átt að sinna daglegum rekstri og taka fjárhagslegar ákvarðanir.

                Um  ákæruliði C, I, 2; C, II, 1 og C, II, 2 svaraði ákærði til á sama veg og um ákærulið C, I, 1. Samkvæmt fyrirliggjandi vottorði Hlutafélagakrár var ákærði Agnar skráður framkvæmdastjóri T ehf. samkvæmt samþykkt fundar í félaginu 17. desember 2001. Í skýrslu þeirri sem vitnað var til hér að framan, sem ákærði gaf fyrir lögreglu 2. október 2002, var hann spurður á sama veg um rekstur T ehf. og um rekstur U ehf. og gaf sömu svör: ,,Agnar segir að eins og lög gera ráð fyrir hafi það verið framkvæmdastjórinn og stjórnarformaðurinn eða þeir Agnar og A sem hafi borið ábyrgð á fjármálstjórn félagsins og borið ábyrgð á hverskyns skattskilum vegna ofangreindara rekstrartímabila." 

                Fyrir dóminum bar ákærði ítrekað að hann hefði ekki haft með að gera fjárreiður hvorki fyrir U ehf. né T ehf. Hann hefði aldrei undirritað nein skjöl eða skuldbindingar fyrir þessi félög. Hann hefði ekki haft neinar heimildir í bankastofnunum til að skuldbinda félögin. Starfsstöð sín hefði verið, meðan hann starfaði fyrir þessi félög, á heimili sínu í K. Hann kvaðst ekki vera eigandi að hlutum í U ehf. eða T ehf. Hann hefði ekki haft með kvótaleigu að gera. Starf hans fyrir T ehf. hefði verið fólgið í fisksölu. Hann hefði sjaldan komið á vettvang félaganna á Snæfellsnesi, svona einu sinni mánuði til að kíkja á afurðir í sambandi við sölu.  Þá neitaði ákærði því, aðspurður, að honum hefði verið kunnugt um fjárhagslega stöðu félaganna, þegar hann var skráður framkvæmdastjóri 17. desember 2001. Honum hefði ekki verið kunnugt um vanskil á vörslusköttum.

                Niðurstöður:  Ákærði A hefur játað brot sín samkvæmt öllum fjórum ákæruliðunum í þessum kafla ákæru. Hann hefur þó ekki viðurkennt að vanskil sem hann ber ábyrgð á samkv. ákærulið C, I, 2, ættu að nema kr. 11. 323.174, heldur ætti upphæðin að vera kr. 8.347.588, vegna þess að inn á skuldina hefðu verið greiddar kr. 2.975.586, eins og fram kæmi í fram lagðri skýrslu skattrannsóknarstjóra. Síðasti gjalddagi þeirra greiðslna virðisaukaskatts, sem ákært er fyrir vanskil á, var 5. febrúar 2002, þ.e. gjalda fyrir desember 2001. Innágreiðslan var samkvæmt tilvitnaðri skýrslu skattrannsóknarstjóra og samantekt rannsóknara lögreglu greidd eftir þann tíma, eða 26. mars 2002. Ekki er ágreiningur um að greitt hafi verið eftir gjalddaga. Brotið var fullframið þegar ekki voru staðin skil á skattinum á gjalddaga. Sú fjárhæð sem ákærði ber ábyrgð á er því kr. 11.323.174 eins og segir í ákæru.

                Játning ákærða A er studd öðrum málsgögnum. Hann er sannur að sök samkvæmt öllum fjórum ákæruliðunum í C-hluta ákæru.

                Í umfjöllun um ákæruliði I og II í A-hluta ákæru og um B-hluta ákæru hefur ákærði Agnar Norðfjörð verið sakfelldur þar sem hann hafi sem framkvæmdastjóri í raun og skráður framkvæmdastjóri U ehf. frá 17. desember 2001 borið ábyrgð á atvinnurekstri félagsins. Greinilegt er að starfsemi og rekstur þessara tveggja félaga, U og T, hefur verið mjög samofinn. Verður því ekki hjá því komist að fella sök á ákærða Agnar Norðfjörð fyrir brot samkv. öllum fjórum ákæruliðunum í C-hluta ákæru.

                Brot ákærðu eru rétt færð undir lagaákvæði í ákæru.

                Ákvörðun refsinga

                Ákærði Agnar Norðfjörð Hafsteinsson hefur í dómi þessum verið sakfelldur fyrir brot samkvæmt I. og II. ákærulið A-hluta, B-hluta og öllum fjórum ákæruliðum C-hluta ákæru. Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði einu sinni áður sætt refsingu, árið 1987, og hefur hún ekki áhrif hér.

                Niðurstaða um sakfellingu ákærða er á því byggð að hann hafi sem framkvæmdastjóri borið ábyrgð á þeim ákvörðunum sem teknar voru f.h. hlutafélaganna U (I. og II. liður A-hluta, B-hluti og ákæruliðir I,1 og II, 1 í C-hluta ákæru) og T (ákæruliðir I, 2 og II, 2 í C-hluta ákæru), bæði þegar hann var formlega skráður sem slíkur og einnig þegar hann var það í raun án þess að vera skráður framkvæmdastjóri (ákæruliður A, I, og að nokkru leyti C-hluti ákæru). Við ákvörðun refsingar tekur þó dómari tillit til þess að telja verður upplýst að ákærði hafi ekki haft jafnvirka aðstöðu til að stjórna félögum þessum og meðákærði A.  Samkvæmt skýrslu A fyrir dóminum var hann með tékkhefti fyrir félögin U og T, en enginn annar. Hann kvaðst hafa séð um að greiða skatta.

                Við ákvörðun refsingar verður tekið tillit til þess að brot ákærða skv. I. og II. lið A-hluta ákæru voru stórfelld og augljóslega framin af ásetningi. Hið sama gildir um C-hluta ákæru.

                Refsing ákærða þykir dómara hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi, og auk þess verði honum gert að greiða 18.000.000 króna sekt í ríkissjóð, en 12 mánaða fangelsi komi í stað sektar ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

                Ákærði A er sakfelldur fyrir brot samkvæmt I, II, III. og V. ákærulið A-hluta ákæru, B-hluta og öllum fjórum ákæruliðum C-hluta ákæru. Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði tvisvar áður sætt refsingu, árin 1989 og 1993, og koma hafa þær refsingar ekki áhrif hér.

                Brot ákærða eru stórfelld. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi, og auk þess greiði ákærði 20.000.000 króna sekt í ríkissjóð, en 12 mánaða fangelsi komi í stað sektarinnar ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

                Ákærði B er sakfelldur fyrir brot samkv. IV. ákærulið A-hluta ákæru. Þessi ákærði á að baki langan sakaferil samkv. sakavottorði. Frá árinu 1984 til ársins 2001 hefur hann 15 sinnum sætt refsingu fyrir ýmis hegningarlaga- og umferðarlagabrot. Næstsíðasta refsingin var samkvæmt dómi 28. maí 1998, 90.000 króna sekt fyrir brot gegn 231. gr. almennra hegningarlaga, en síðast hlaut hann refsingu með lögreglustjórasátt 16. október 2001, 60.000 króna sekt fyrir brot gegn lögum um lögskráningu sjómanna.

                Brot ákærða verður að teljast stórfellt. Refsing ákærða þykir dómara hæfilega ákveðin eins mánaðar fangelsi, en rétt þykir honum að fullnustu þeirrar refsingar verði frestað, og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu þessa dóms, ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Auk þessa er rétt að ákærða verði gert að greiða 600.000 króna sekt í ríkissjóð, en 56 daga fangelsi komi í stað sektarinnar, ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

                Ákærði Margeir Jóhannesson er sakfelldur fyrir brot samkvæmt I. og III. ákærulið A-hluta ákæru. Hann hefur fjórum sinnum áður sætt refsingu, þar af þrisvar á árabilinu 1977 til 1985, en þær refsingar skipta ekki máli hér. Hinn 25. janúar 2002 gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun í Héraðsdómi Vestfjarða, 1.200.000 króna sekt fyrir brot gegn 4. gr. og G-lið 5. gr., sbr. 16. gr. laga nr. 79/1997, og 1. mgr. 4. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 38/1990. Ekki liggur fyrir að í því máli hafi verið um ásetningsbrot að ræða. 

                Refsing ákærða Margeir þykir dómara hæfilega ákveðin tveggja mánaða fangelsi, en rétt þykir að fullnustu þeirrar refsingar verði frestað og að hún falli niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu þessa dóms, ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Auk þessa greiði ákærði 800.000 króna sekt í ríkissjóð, en 72ja daga fangelsi komi í stað sektarinnar, ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms.

                Ákærði D er sekur fundinn um brot samkvæmt IV. og V. lið A-hluta ákæru. Hann á að baki langan sakferil skv. sakavottorði, frá árinu 1960 til ársins 1988, sem ekki kemur hér til álita. En eftir  það tímabil hefur hann einu sinni verið dæmdur til refsingar, í 70.000 króna sekt fyrir brot á lögum nr. 35/1993, lögum nr. 112/1984 og lögum nr. 40/1977.

                Dómara þykir refsing ákærða D hæfilega ákveðin 800.000 króna sekt í ríkissjóð, en 72ja daga fangelsi komi í hennar stað, ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

                Einkahlutafélögin V, Y og X hafa öll verið sakfelld með vísan 24. gr. laga nr. 57/1996, 20. gr. a laga nr. 38/1990 með áorðnum breytingum, og 18. gr. laga nr. 79/1997.  Hæfilegt þykir að þeim verði hverju fyrir sig ákvörðuð sekt í ríkissjóð að fjárhæð kr. 400.000.

                Um D-lið ákæru, kröfur um upptöku, bótakrafa

                Með vísan til þeirra lagaákvæða sem tilgreind eru í ákæru ber dómara að verða við kröfum ákæranda um upptöku þess ávinnings sem ákærðu, þeir sem sakfelldir hafa verið, hafa haft af brotum í máli þessu. Fiskafli verður ekki gerður upptækur, og ber að leggja til grundvallar matsgerð hins dómkvadda matsmanns, enda hefur hún í engu verið rengd.

                Í sóknarræðu sinni gat sækjandi þess að rétt væri að leggja til grundvallar nettóverð afla fremur en brúttóverð, skv. matsgerð, og verður svo gert. Niðurstöður um upptöku verða hér raktar í sömu röð og ákæruliðir í D-hluta ákæru.

                Ekki eru að mati dómara rök til þess að vísa frá dómi upptökukröfum á hendur ákærða Margeiri Jóhannessyni samkv. kröfu verjanda hans, sbr. I. og III. lið D-hluta ákæru.

                Við málflutning var því hreyft af hálfu ákærðu D, B og V ehf. að upptaka vegna afla umfram aflaheimildir samkvæmt IV. ákærulið í A-hluta ákæru hefði þegar farið fram. Meðal gagna málsins er bréf Fiskistofu til V ehf. vegna Storms SH 333 (586) þar sem tilkynnt er um álagningu sérstaks gjalds vegna ólögmæts sjávarafla á fiskveiðiárinu 1. september 2001 til 31. ágúst 2002, skv. 2. mgr. 1. gr., 1. mgr. 2. gr. og 3. gr. laga nr. 37/1992. Gjaldið er að fjárhæð kr. 20.086.234. Forstöðumaður lögfræðisviðs Fiskistofu, Kjartan Sólberg Júlíusson, kom fyrir dóminn sem vitni. Hann var spurður um þetta gjald. Hann sagðist, aðspurður, halda að þetta gjald hefði ekki farið í innheimtu, en væri þó ekki viss um það. Greiðsla hefði ekki borist, en hann gæti ekki svarað því hvort farið hefði verið með málið í aðfarargerð. Hann sagði að þarna væri um að ræða gjald vegna ólögmæts sjávarafla Storms í lok fiskveiðiárs. Dómari lítur svo á að álagning þessa sérstaka gjalds skipti ekki máli hér, hvort sem gjaldið hefur verið innheimt eða ekki. Beiting dómara á fyrirmælum 2. mgr. 16. gr. laga nr. 79/1997 hljóti að vera óháð slíkri stjórnvaldsekt.

                Afstaða dómara til krafna ákæruvaldsins um upptöku er þessi:

I.                    Dæma ber ákærðu Agnar Norðfjörð Hafsteinsson, A og Margeir Jóhannesson til að sæta in solidum upptöku á andvirði 80.299 kg af slægðum þorski, 43.382 kg af slægðri ýsu, 763 kg af slægðum skarkola og 764 kg af slægðri þykkvalúru og sólkola, samtals kr. 16.613.989.

II.                  Dæma ber ákærðu Agnar Norðfjörð Hafsteinsson og A til að sæta in solidum upptöku á andvirði 114.965 kg af slægðum þorski, 1.177 kg af slægðri ýsu, 1.042 kg af slægðum steinbít, 1.104 kg af slægðum skötusel og 4.497 kg af slægðum skarkola, samtals kr. 28.587.469.

III.                Dæma ber ákærðu A, Margeir Jóhannesson og X ehf. til að sæta in solidum upptöku á andvirði 7.646 kg af slægðum þorski, 1.227 kg af slægðri ýsu, samtals kr. 2.080.273. Einnig ber að dæma ákærðu Margeir og X ehf. in solidum til að sæta upptöku á andvirði 66.198 kg af slægðum þorski og 45.184 kg af slægðri ýsu, samtals kr. 26.864.854. Þar sem ákærði D hefur verið sýknaður af ákærulið A, III, verður hann og sýknaður af upptökukröfu skv. þessum lið.

IV.                Dæma ber ákærðu B, D og V ehf. til að sæta in solidum upptöku á andvirði 118.806 kg af slægðum þorski og 4.046 kg af slægðum skarkola, samtals kr. 23.131.392.

V.                   Dæma ber ákærðu A, D og Y ehf. til að sæta in solidum upptöku á andvirði 14.641 kg af slægðum þorski, 3.844 kg af slægðri ýsu, 408 kg af slægðum ufsa, 1.154 kg af slægðum karfa og 223 kg af slægðri þykkvalúru, samtals kr. 3.990.232.

VI.                Þar sem ákærðu A, C og Z ehf. hafa verið sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins samkvæmt ákærulið A, VI, verða þeir sýknaðir af upptökukröfu samkv. þessum lið.

Bótakrafa: Lögmaður bótakrefjanda, L hf., kom fyrir dóminn og skýrði bótakröfuna á hendur ákærða A. Lögmaðurinn lækkaði bótakröfuna, þannig að höfuðstóll verður kr. 13.669.035. Krafist er dráttarvaxta frá 1. júlí 2001. Auk þess er krafist innheimtukostnaðar, kr. 613.609.  Um atvik máls vísast til umfjöllunar um B-hluta ákæru hér framar í dóminum.

Í greinargerð bótakrefjanda fyrir bótakröfunni segir að hún styðjist einkum við sakarregluna og aðrar almennar reglur skaðabótaréttar innan og utan samninga. Með því að veiða langt umfram lögbundnar heimildir hafi kærðu [stjórn U ehf. Innskot dómara.] skuldbundið kæranda, þ.e. L hf., fjárhagslega. Fiskistofa hafi krafist þess að leigðar yrðu þær heimildir sem upp á vantaði, og þar sem kærðu hafi ekki sinnt ósk kæranda um að leigja þær veiðiheimildir sem á vantaði, hafi kærandi verið nauðbeygður til að kaupa þær sjálfur. Kærðu hafi verið fullljóst að greiða þyrfti fyrir veiðar umfram heimildir og U ehf. hafi notið alls hagnaðar af veiðum umfram heimildir.

Dómari telur að bótakrefjandi hafi sýnt fram á að ákærði A hafi valdið bótakrefjanda tjóni með ólögmætri og saknæmri háttsemi. Um fjárhæð bótakröfu er ekki deilt. Verður ákærði A dæmdur til að greiða L hf. bótakröfuna svo sem hún er fram sett. Krafist er innheimtukostnaðar. Dómari fellst á þá kröfu og þykir hæfilegt að dæmdar verði kr. 100.000 í innheimtukostnað.

                Sakarkostnaður

                Dæma ber ákærðu, þá er sakfelldir hafa verið, til að greiða sakarkostnað svo sem hér segir:

                Ákærði Agnar Norðfjörð Hafsteinsson greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., sem skulu vera 320.000 krónur auk virðisaukaskatts.

                Ákærði A greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hrl., sem skulu vera 370.000 krónur auk virðisaukaskatts. Er þá tekið tillit til réttargæslu verjanda við rannsókn fyrir lögreglu.

                Ákærðu B og D og einkahlutafélögin V, Y og X greiði óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hrl., sem skulu vera 400.000 krónur auk virðisaukaskatts, og er þá tekið tillit til réttargæslu verjanda við rannsókn fyrir lögreglu.

                Ákærði Margeir Jóhannesson greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Baldurssonar hdl., 300.000 krónur auk virðisaukaskatts.

                Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu C og Z ehf., Guðmundar Óla Björgvinssonar hdl., skulu vera 300.000 krónur auk virðisaukaskatts, og skulu þau greiðast úr ríkissjóði.

                Allur annar sakarkostnaður greiðist þannig: Ákærði A greiði 1/3 hluta, en 2/3 hlutar greiði óskipt ákærðu Agnar Norðfjörð Hafsteinsson, Margeir Jóhannesson, B, D og einkahlutafélögin V, Y og X.

                Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð

                Ákærði Agnar Norðfjörð Hafsteinsson sæti þriggja mánaða fangelsi. Ákærði greiði 18.000.000 króna sekt í ríkissjóð, en 12 mánaða fangelsi komi í stað sektar ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Ákærði A sæti 6 mánaða fangelsi. Ákærði greiði 20.000.000 króna sekt í ríkissjóð, en 12 mánaða fangelsi komi í stað sektarinnar ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Ákærði er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins samkvæmt VI. lið í A-hluta ákæru.

Ákærði Margeir Jóhannesson sæti tveggja mánaða fangelsi, en fullnustu þeirrar refsingar skal fresta og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu þessa dóms, ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði greiði 800.000 króna sekt í ríkissjóð, en 72ja daga fangelsi komi í stað sektarinnar, ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms.

Ákærði B sæti eins mánaðar fangelsi, en fullnustu þeirrar refsingar skal fresta, og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu þessa dóms, ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Ákærði greiði 600.000 króna sekt í ríkissjóð, en 56 daga fangelsi komi í stað sektarinnar, ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

                Ákærði D greiði 800.000 króna sekt í ríkissjóð, en 72ja daga fangelsi komi í hennar stað, ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa. Ákærði er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins samkvæmt III. lið A-hluta ákæru.

                Ákærðu C og Z ehf. eru sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins á hendur þeim í þessu máli.

                Ákærðu Agnar Norðfjörð Hafsteinsson, A og Margeir Jóhannesson sæti in solidum upptöku á andvirði 80.299 kg af slægðum þorski, 43.382 kg af slægðri ýsu, 763 kg af slægðum skarkola og 764 kg af slægðri þykkvalúru og sólkola, samtals kr. 16.613.989.

                 Ákærðu Agnar Norðfjörð Hafsteinsson og A sæti in solidum upptöku á andvirði 114.965 kg af slægðum þorski, 1.177 kg af slægðri ýsu, 1.042 kg af slægðum steinbít, 1.104 kg af slægðum skötusel og 4.497 kg af slægðum skarkola, samtals kr. 28.587.469.

                 Ákærðu A, Margeir Jóhannesson og X ehf.  sæti in solidum upptöku á andvirði 7.646 kg af slægðum þorski, 1.227 kg af slægðri ýsu, samtals kr. 2.080.273.

                Ákærðu Margeir Jóhannesson og X ehf. sæti in solidum upptöku á andvirði 66.198 kg af slægðum þorski og 45.184 kg af slægðri ýsu, samtals kr. 26.864.854.

                Ákærðu B, D og V ehf. sæti in solidum upptöku á andvirði 118.806 kg af slægðum þorski og 4.046 kg af slægðum skarkola, samtals kr. 23.131.392.

                Ákærðu A, D og Y ehf. sæti in solidum upptöku á andvirði 14.641 kg af slægðum þorski, 3.844 kg af slægðri ýsu, 408 kg af slægðum ufsa, 1.154 kg af slægðum karfa og 223 kg af slægðri þykkvalúru, samtals kr. 3.990.232.

                Ákærði D á að vera sýkn af kröfu ákæruvaldsins um upptöku samkvæmt III. lið í D-hluta ákæru.

                Ákærðu A, C og Z ehf. eiga að vera sýknir af kröfum ákæruvaldsins um upptöku samkvæmt VI. lið í D-hluta ákæru.

                Ákærði A greiði L hf. kr. 13.669.035 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. júlí 2001 til greiðsludags og kr. 100.000 í innheimtukostnað.

                Ákærði Agnar Norðfjörð Hafsteinsson greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 320.000 krónur auk virðisaukaskatts.

                Ákærði A greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hrl., 370.000 krónur auk virðisaukaskatts.

                Ákærðu B, D og einkahlutafélögin V, Y og X greiði óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hrl., 400.000 krónur auk virðisaukaskatts.

                Ákærði Margeir Jóhannesson greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Baldurssonar hdl., 300.000 krónur auk virðisaukaskatts.

                Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu C og Z ehf., Guðmundar Óla Björgvinssonar hdl., 300.000 krónur auk virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.

                Allur annar sakarkostnaður greiðist þannig: Ákærði A greiði 1/3 hluta, en 2/3 hluta greiði óskipt ákærðu Agnar Norðfjörð Hafsteinsson, Margeir Jóhannesson, B, D og einkahlutafélögin V, Y og X.