- Kærumál
- Dánarbú
- Skipti
- Erfðaskrá
|
Miðvikudaginn 10. janúar 2007. |
Nr. 665/2006. |
X(Bjarni G. Björgvinsson hdl.) gegn B C D og E (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Kærumál. Dánarbú. Skipti. Erfðaskrá.
Við einkaskipti á dánarbúi A kom upp ágreiningur hvort arfur, sem honum hafði tæmst fyrir lát hans, skyldi renna til bréferfingja hans eða lögerfingja. Vísað var til þess að á þeim tíma sem erfðaskrá A var gerð hafði honum ekki tæmst þessi arfur og með erfðaskránni ráðstafaði hann ekki þeim eignum, sem hann kynni að eignast síðar. Var því talið að við skipti á dánarbúi A skyldu þeir fjármunir, sem hér um ræðir, renna til lögerfingja hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 29. nóvember 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að arfur, sem tæmdist A heitnum eftir nafngreinda systur hans, skuli við einkaskipti á dánarbúi A renna til sóknaraðila í skjóli erfðaskrár hans frá 23. janúar 2003. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst að arfur þessi falli í hans hlut, hnekkt verði ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og varnaraðilum gert að greiða honum kærumálskostnað.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, X, greiði varnaraðilum, B, C, D og E, samtals 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 29. nóvember 2006.
I.
Aðild og dómkröfur
Krafa sóknaraðila barst dóminum 2. maí 2006. Málið var þingfest 6. júní sl. og tekið til úrskurðar að afloknum munnlegum málflutningi 2. nóvember sl.
Sóknaraðili er X, [kt. og heimilisfang].
Varnaraðilar eru B, [kt. og heimilisfang], C, [kt. og heimilisfang], D, [kt. og heimilisfang] og E, [kt. og heimilisfang].
Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að 3. grein erfðaskrár A verði túlkuð þannig að allir fjármunir í dánarbúi A renni til sóknaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.
Varnaraðilar krefjast þess að viðurkennt verði að við skipti á dánarbúi A, [kt.], sem látist hafi [...] 2004, skuli fjármunir sem hinn látni erfði eftir systur sína, F, renna til varnaraðila sem lögerfingja hans.
Ennfremur krefjast ofangreindir varnaraðilar þess að sóknaraðila verði gert að greiða þeim málskostnað samkvæmt mati dómsins.
G, [kt. og heimilisfang], hálfsystir A heitins, hefur ekki látið málið til sín taka
II.
Málavextir
Málavextir eru þeir að hinn 23. janúar 2003 gerði A erfðaskrá, sem hann undirritaði í viðurvist tveggja votta sama dag og var erfðaskráin færð inn í gerðabók lögbókanda á Eskifirði hinn 6. mars 2003.
Í 1. grein erfðaskrárinnar er mælt fyrir um sölu fasteignar hans til nafngreinds manns á ákveðnu verði, hafi hann áhuga á því að kaupa hana, en að öðrum kosti skuli selja hana á frjálsum markaði og söluverðið í báðum tilfellum ganga til sóknaraðila.
Í 2. grein erfðaskrárinnar er mælt fyrir um sölu bifreiðar og að andvirði hennar skuli ganga til sóknaraðila.
Í 3. grein erfðaskrárinnar segir orðrétt:
“Innistæður mínar, sparifé, á bókum í Landsbanka Íslands hf. skal ganga til [X].”
Loks er 4. grein erfðaskrárinnar svohljóðandi:
“[H], [kt. og heimilisfang], fel ég hér með að sjá um búskipti eftir mig ef hann verður bær til þess eftir minn dag. Öðrum eignum mínum en að ofan greinir, innibúi mínu og persónulegum munum, fel ég [H] að ráðstafa.”
Í október 2004 hafði norsk lögfræðistofa samband við A vegna leyfis til einkaskipta og væntanlegs arfs eftir alsystur hans, F. Veitti A heimild fyrir sitt leyti til einkaskipta á dánarbúi hennar í október 2004. Ekki mun hafa legið fyrir á þessum tíma hversu mikils arfs var að vænta eftir F. Erfðaskrá A var ekki breytt vegna þessa, en A lést í umferðarslysi skömmu síðar eða 4. nóvember 2004.
Hinn 29. júní 2005 var sóknaraðila veitt leyfi til einkaskipta á dánarbúi A og var Bjarna G. Björgvinssyni lögmanni falið að annast skiptin á dánarbúinu.
Arfurinn úr dánarbúi F var greiddur út til lögerfingja hennar hér á landi hinn 15. september 2005 og nam hlutur dánarbús A 6.098.400 krónum. Í ljósi þess að arfur A eftir systur hans F hafði ekki verið hluti af innistæðu á bók hans í Landsbanka Íslands við gerð erfðaskrárinnar þótti upp kominn vafi um túlkun 3. greinar erfðaskrárinnar. Sendi umboðsmaður sóknaraðila því lögerfingjum A heitins bréf dags. 25. janúar 2006 þar sem þeim var kynntur þessi vafi og óskað eftir afstöðu þeirra til þess hvort þau kölluðu eftir arfi úr dánarbúi A vegna arfshluta dánarbúsins eftir F. Svar barst frá umboðsmanni G, hálfsystur A, í febrúar 2005 þar sem fram kemur að hún muni ekki gera tilkall til arfs úr dánarbúi A. Einnig barst bréf frá umboðsmanni varnaraðila, sem eru börn I heitins, bróður A, þar sem þau lýstu tilkalli í arfshluta A eftir systur hans F sem lögerfingjar.
III.
Málsástæður
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að túlka verði erfðaskrá A með hliðsjón af því að vilji hans hafi ótvírætt verið sá að öll peningaleg verðmæti í hans eigu rynnu til sóknaraðila. Hafi það verið staðfest af H, útibússtjóra Landsbanka Íslands á [...], sem hafi verið A heitnum til aðstoðar varðandi fjármál hans og fleira. Í erfðaskránni séu tilgreind sérstaklega þau peningalegu verðmæti, sem renna eigi til sóknaraðila og hafi A ekki átt önnur peningaleg verðmæti á þeim tíma. Fyrir andlát sitt hafi A haft vitneskju um að skipta ætti dánarbúi systur hans í Noregi en ekkert hafi legið fyrir á þeim tíma um eignastöðu þess eða arfshluta. Sóknaraðili telji að ætlun A hafi verið sú að arfshlutinn rynni inn á bankabók hans í Landsbankanum á [...] og að fara ætti með arfinn frá Noregi, sem fallinn hafi verið fyrir andlát A, með sama hætti og aðra fjármuni hans, þ.e. að hann skyldi renna til sóknaraðila í samræmi við 3. grein erfðaskrárinnar.
Um lagarök vísar sóknaraðili til VI. kafla erfðalaga nr. 8/1962 og almennra túlkunarreglna. Þá er vísað til 90. gr. og 123. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.
Varnaraðilar kveðst byggja kröfu sína á 3. mgr. 3.gr. erfðalaga nr. 8/1962. Þeir benda á að A hafi haft heimild til að ráðstafa öllum eignum sínum með erfðaskrá samkvæmt 34. gr. erfðalaga, enda hafi hann ekki látið eftir sig skylduerfingja, sbr. 35. gr. sömu laga. Erfðaskrá hins látna hafi hins vegar ekki náð til allra eigna hans.
Varnaraðilar telji augljóst að efni erfðaskrár hins látna hafi verið í samræmi við raunverulegan vilja hans og að skráin hafi þess vegna hvorki orðið annars efnis en til var ætlast vegna misritunar né misskilnings af neinu tagi. Séu því ekki efni til að túlka hana sóknaraðila í vil á grundvelli 37. gr. erfðalaga, en það lagaákvæði veiti þröngt svigrúm til að túlka erfðaskrár í samræmi við arfleiðsluvilja hins látna ef unnt er að staðreyna hann.
Fyrir liggi arfleiðsluvottorð tveggja votta, sem báðir hafi staðfest með áritun sinni á erfðaskrána að A hafi staðfest að erfðaskráin hefði að geyma vilja hans. Ljóst megi vera að sóknaraðili hefði engan arf hlotið úr dánarbúi hans ef arfleiðsluvilji hans hefði ekki verið staðfestur með þessum ótvíræða og lögformlega hætti. Vilji A til að láta arfinn úr dánarbúi F renna til sóknaraðila hafi ekki verið staðfestur með þessum hætti og hann falli ekki undir neitt ákvæði erfðaskrárinnar. Telji varnaraðilar að af þeirri ástæðu eigi þessi eign að falla til lögerfingja hans samkvæmt 3. mgr. 3. gr. erfðalaga.
IV.
Niðurstaða
Eins og fram hefur komið gerði A erfðaskrá í votta viðurvist hinn 23. janúar 2003, sem færð var inn í gerðabók lögbókanda á [...] hinn 6. mars sama ár. Með erfðaskránni ráðstafaði A meginþorra eigna sinna til sóknaraðila en nafngreindum manni, H, var falið að ráðstafa innbúi og persónulegum munum hans. Óumdeilt er að A var heimilt að ráðstafa öllum sínum eigum með erfðaskrá enda lét hann ekki eftir sig neina skylduerfingja, sbr. 34. og 35. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
Óumdeilt er að í október 2004 hafði norsk lögmannsstofa samband við A vegna leyfis til einkaskipta og væntanlegs arfs eftir alsystur hans F, sem búið hafði í Noregi og látist 18. mars sama ár. Þá er óumdeilt að A veitti leyfi sitt til einkaskipta á dánarbúi systur sinnar í október 2004. Ennfremur er óumdeilt að á þeim tíma hafi ekki legið fyrir hversu mikils arfs væri að vænta eftir systur hans. Þá liggur fyrir að A gerði engar breytingar á erfðaskrá sinni vegna þessa, en hann lést skömmu síðar eða 4. nóvember 2004. Tæpu ári síðar eða 15. september 2005 var arfur eftir F greiddur út og komu rúmlega 6 milljónir króna í hlut dánarbús A.
Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort fjármunir þeir, sem runnu í dánarbú A úr dánarbúi systur hans F eigi að renna til lögerfingja hans í samræmi við lögerfðareglur erfðalaga, enda taki erfðaskráin ekki til þessara fjármuna, eða hvort skýra beri 3. grein fyrrgreindrar erfðaskrár og erfðaskrána í heild með þeim hætti að vilji A hafi ótvírætt staðið til þess að öll peningaleg verðmæti hans rynnu til sóknaraðila þar á meðal arfur, sem honum hafði tæmst í Noregi áður en hann féll frá en hafði ekki komið til útgreiðslu.
Fyrir dóminn komu J, forstöðumaður sóknaraðila og H, útbússtjóri Landsbanka Íslands hf. á [...]. Bar J um það að A hefði oft haft á orði að hann vildi að allar eigur hans rynnu til sóknaraðila. Fyrir dóminn kom einnig H en hann aðstoðaði A við gerð erfðaskrárinnar. Hann sagði að A hefði tekið það sérstaklega fram við sig að það væri einlægur vilji hans að allar eigur hans rynnu til sóknaraðila.
Það er meginregla í íslenskum erfðarétti að við skýringu á erfðaskrám beri að leitast við að staðreynda þann vilja arfleiðanda, sem fram kemur í erfðaskrá hans eða sannað þykir að hafi vakað fyrir honum við gerð hennar.
Ljóst er að með erfðaskránni ráðstafaði A öllum þáverandi eigum sínum, þ.e. fasteign, bifreið og sparifé í Landsbanka Íslands, en eftirlét nafngreindum manni að ráðstafa innbúi og öðrum persónulegum munum. Á þeim tíma sem erfðaskráin var gerð hafði honum hins vegar ekki tæmst arfur eftir systur sína í Noregi og með erfðaskránni ráðstafaði hann ekki eignum, sem hann kynni að eignast síðar. Þá er og til þess að líta að í 3. grein erfðaskrárinnar er sérstaklega tekið fram að innistæður á bókum í Landsbanka Íslands, sem renna skuli til sóknaraðila, sé sparifé. Í ljósi alls framangreinds verður ekki talið að erfðaskráin taki til þeirra fjármuna, sem komu í hlut dánarbúsins eftir F og hefur arfleiðsluvilji A hvað þessa fjármuni varðar því ekki verið staðfestur með lögformlegum hætti. Ber því að fallast á það með varnaraðilum að við skipti á dánarbúi A skuli fjármunir, sem hann erfði eftir systur sína F renna til lögerfingja hans.
Sóknaraðili greiði varnaraðilum 250.000 krónur í málskostnað og er þar með talinn virðisaukaskattur
Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kröfum sóknaraðila, X, er hafnað.
Við skipti á dánarbúi A, [kt.], sem lést [...] 2004, skulu fjármunir sem hinn látni erfði eftir systur sína, F, renna til lögerfingja eftir lögerfðareglum.
Sóknaraðili greiði varnaraðilum, B, C, D og E, 250.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.