Mál nr. 678/2017
- Kærumál
- Skýrslugjöf
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu brotaþola um að X yrði gert að víkja úr þinghaldi á meðan hún gæfi skýrslu við aðalmeðferð máls Á á hendur X.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Brotaþoli, A, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. október 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2017, þar sem hafnað var kröfu brotaþola um að varnaraðila skuli vikið úr dómsal meðan hún gefur skýrslu við aðalmeðferð máls sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Brotaþoli krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila gert að víkja úr dómsal á meðan hún gefur skýrslu við aðalmeðferð.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að varnaraðila verði gert að víkja úr þingsal við aðalmeðferð málsins þegar brotaþoli gefur skýrslu.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með ákæru 15. september 2017 höfðaði héraðssaksóknari mál á hendur varnaraðila fyrir brot í nánu sambandi með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 4. október 2016 á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð brotaþola, eiginkonu sinnar, með nánar tilgreindu ofbeldi með þeim afleiðingum að hún hlaut áverka sem lýst er í ákærunni. Er háttsemin talin varða við 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Við þingfestingu málsins 18. október 2017 neitaði ákærði sök og var ákveðið að aðalmeðferð málsins færi fram 13. nóvember sama ár. Af hálfu brotaþola kom fram sú krafa að varnaraðila yrði gert að víkja úr þingsal meðan hún gæfi skýrslu í málinu. Var krafan reist á því að varnaraðili hefði með úrskurði 2. október 2017 verið gert að sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþola til 29. nóvember sama ár. Í því fólst meðal annars að varnaraðila var meinað að veita henni eftirför, nálgast hana á almannafæri eða setja sig í samband við hana með öðru móti.
Samkvæmt 1. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008 á ákærði rétt á að vera við aðalmeðferð máls. Þó getur dómari ákveðið eftir kröfu ákæranda eða vitnis að ákærða verði vikið úr þinghaldi meðan það gefur skýrslu ef dómari telur að nærvera ákærða geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess. Hæstiréttur hefur slegið því föstu að undantekningar frá meginreglunni um rétt ákærða til að vera viðstaddur aðalmeðferð og önnur þinghöld beri að túlka þröngt, sbr. meðal annars dóm réttarins 13. september 2017 í máli nr. 569/2017. Helgast þetta af grundvallarreglunni um réttláta málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur lagagildi eftir lögum nr. 62/1994. Að þessu gættu getur það eitt að varnaraðili sæti nálgunarbanni ekki hindrað að hann verði viðstaddur aðalmeðferð í máli á hendur honum þegar brotaþoli kemur fyrir dóminn til skýrslugjafar. Þá liggja ekki fyrir í málinu sérfræðigögn um að nærvera varnaraðila geti orðið brotaþola sérstaklega íþyngjandi þegar hún hefur skýrslu fyrir dómi. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2017
Brotaþoli hefur krafist þess að ákærða verði vikið úr þingsal meðan hún gefur skýrslu við aðalmeðferð. Byggir brotaþoli kröfu sína á því að 2. október síðastliðinn hafi verið staðfest nálgunarbann er lögreglustjóri hafi lagt á ákærða. Samkvæmt því sé honum bannað að koma í námunda við heimili brotaþola á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt er ákærða bannað að veita brotaþola eftirför, nálgast hana á almannafæri eða setja sig í samband við hana með öðrum hætti.
Ákærði hefur mótmælt kröfunni og telur rétti sínum til að vera viðstaddur aðalmeðferð verði ekki haggað með nálgunarbanninu.
Samkvæmt 1. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008 á ákærði rétt á að vera viðstaddur aðalmeðferð. Samkvæmt 1. mgr. 123. gr. sömu laga getur dómari þó ákveðið að honum skuli vikið úr þingsal meðan vitni gefur skýrslu telji dómari að nærvera ákærða geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess. Brotaþoli byggir ekki á því að nærvera ákærða sé sér þungbær heldur eingöngu á nálgunarbanninu. Hér að framan var inntak nálgunarbannsins rakið. Samkvæmt því er því ætlað að hindra ákærða í að hafa samband við eða koma nálægt brotaþola á heimili hennar eða á almannafæri. Það er niðurstaða dómsins að nálgunarbann geti ekki svipt ákærða rétti til að vera viðstaddur aðalmeðferðina. Það er því ekki fallist á kröfu brotaþola.
úrskurðarorð
Hafnað er kröfu brotaþola um að ákærða verði vikið úr þingsal meðan hún gefur skýrslu við aðalmeðferð.