Print

Mál nr. 49/2013

Lykilorð
  • Miskabætur

Fimmtudaginn 23. maí 2013.

Nr. 49/2013.

Skarphéðinn Óskar Jónasson

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Soffía Jónsdóttir hrl.)

Miskabætur.

S höfðaði mál gegn Í og krafðist bóta vegna inngöngu lögreglu á heimili hans þar sem hann var með gistiheimili. Byggði S á því að friðhelgi heimilis hans hafi verið rofin og að lögreglan hafi gerst sek um húsbrot. Í málinu lá fyrir að lögreglunni hafði verið falið að birta sektargerð fyrir konu sem talin var hafa dvalarstað á gistiheimili S. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að lögreglan hafi átt lögmætt erindi í fasteign S. Hún hafi auk þess haft réttmæta ástæðu til að ætla að þar væri rekið gistiheimili, m.a. vegna skiltis í glugga hússins sem hafi gefið það til kynna. Var ekki fallist á að brotið hafi verið gegn friðhelgi S eða að fram hafi farið húsleit á heimili hans. Þá féllst dómurinn ekki á að um húsbrot hafi verið að ræða. Var lögreglan talin hafa gætt meðalhófs í hvívetna. Bótakröfu S var því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. janúar 2013. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. maí 2012 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum var veitt í héraði.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Skarphéðinn Óskar Jónasson, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 24. október 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. október sl., var höfðað 3. maí 2012.

Stefnandi er Skarphéðinn Jónasson, [...], [...].

Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhváli við Lindargötu í Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins, en til vara er þess krafist að krafa stefnanda verði lækkuð verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

I.

Af hálfu stefnanda er atvikum lýst svo að stefnandi búi einn í eigin húsnæði að [...], [...]. Um sé að ræða tveggja hæða parhús, tæpir 190 fermetrar að stærð.

Þann 8. janúar 2011 hafi stefnandi vaknað við umgang á heimili sínu og þegar hann kannaði hvað olli hafi komið í ljós að tveir lögreglumenn, frá lögreglunni af Suðurnesjum, voru við leit á heimilinu. Stefnandi hafi beðið lögreglumennina tafarlaust um að yfirgefa húsnæðið enda í heimildarleysi þar inni.

Lögreglumennirnir hafi hins vegar virt að vettugi kröfur stefnanda og haldið áfram leit. Aðspurðir sögðust þeir leita A, kt. [...] en þeim hefði verið falið það verkefni að birta henni sektargerð. Jafnframt sögðust lögreglumennirnir hafa heimildir fyrir því að [...]  væri dvalarstaður hennar.

Þann 14. janúar 2011 hafi stefnandi leitað á lögreglustöðina í [...], verulega ósáttur, og óskað skýringa á hinni óskýrðu og ólögmætu húsleit er framkvæmd hefði verið á heimili hans. Enga bókun hafi verið að finna hjá lögreglunni vegna þessa máls.

Með bréfi dags. 8.3.2011 hafi lögmaður stefnanda sent lögreglu bréf þar sem kallað var eftir upplýsingum og svörum frá lögreglu vegna þessa máls.

Með bréfi dags. 18.4.2012 hafi lögreglan loks svarað fyrir húsleitina. Þar segi að lögreglan hafi komið að opnum dyrum í gistiheimili sem þar sé rekið. Lögreglan hafi gengið þar inn og leitað A. Hafi stefnandi brugðist illa við og skipað þeim að yfirgefa húsnæðið sem þau hafi svo gert að lokum.

Það sé rangt sem segir í svarbréfi lögreglunnar að á [...] sé rekið gistiheimil. Vissulega sé heimild til slíks reksturs en engin slíkur rekstur sé þar í gangi eða á þeim tíma sem brotið var framið. Hins vegar hafi á sínum tíma verið rekin heimagisting yfir sumartímann.

Vissulega þekkist stefnandi og A og hafði A gist á heimili hans og fengið að geyma þar muni í sinni eigu en hafði ekki lykla að eigninni. Hins vegar hafi þetta ekki verið dvalarstaður eða heimili A. Um hafi verið að ræða heimili stefnanda sjálfs.

Með bréfi dags. 12.5.2011 hafi stefnandi krafist þess að honum yrðu greiddar bætur vegna hinnar ólögmætu húsleitar á heimili hans. Með bréfi ríkislögmanns, dags. 20.9.2011 hafi kröfunni verið hafnað með vísan til þess að ekki hafi verið um eiginlega húsleit að ræða heldur hefðu lögreglumenn farið þarna inn í góðri trú. Jafnframt sé ekki að finna neinn rökstuðning fyrir miskabótakröfu stefnanda til handa.

Með vísan til ofangreinds sé stefnanda því nauðugur sá kostur einn að höfða mál þetta á hendur íslenska ríkinu og krefjast bóta vegna hinnar ólögmætu húsleitar.

II.

Af hálfu stefnda er málsatvikalýsingu stefnanda mótmælt sem rangri. Málavextir eins og þeir horfa við stefnda eru þeir að lögreglunni á Suðurnesjum hafi verið falið að hafa upp á tiltekinni konu og birta henni sektargerð í sakamáli sem ljúka mátti með ákvörðun viðurlaga, án útgáfu ákæru, skv. XXIII. kafla laga nr. 88/2008. Tveimur lögreglumönnum embættisins hafi verið fengið þetta verkefni þann 8. janúar 2011. Lögreglumennirnir hafi farið að þekktum dvalarstað konunnar að [...]  í [...], en þar sé rekið gistiheimili. Þegar að var komið hafi verið opið inn í íbúðina, þar sem gistiheimilið er til húsa og hafi lögreglumennirnir því gengið þar inn og kallað hvort einhvern væri þar að finna, en ekkert svar fengið. Hafi lögregla síðan gengið rakleitt að herbergi því sem konan var talin dveljast í, en þar hafi enginn verið sjáanlegur. Stefnandi hafi þá komið niður af efri hæð hússins og innt lögreglumennina eftir því hvernig stæði á veru þeirra í húsinu. Honum hafi verið greint frá því að allt hafi staðið opið og að lögregla ætti erindi við konuna. Lögregla hafi orðið við beiðni stefnanda um að fara út úr gistihúsinu.

Nokkru eftir að lögregla hafði yfirgefið gistihúsið hafi þeir ekið fram á konuna þar sem hún var á gangi á [...] með hundinn sinn og var henni þar birt sektargerðin. Konan kvaðst dvelja að [...].

Þann 14. janúar 2011 hafi stefnandi komið á skrifstofu Sveinbjörns Halldórssonar, lögreglufulltrúa og kvartað undan meintri ólögmætri leit lögreglu. Stefnandi kvaðst vera ósáttur og óskaði skýringa. Um leið og málavextir lágu fyrir hafi stefnanda verið skýrt frá þeim.

Þann 8. mars 2011 hafi lögmaður stefnanda ritað lögreglunni á Suðurnesjum bréf og tilkynnt að stefnandi hafi falið honum að gæta hagsmuna sinna vegna afskipta lögreglu af stefnanda og heimili hans. Var þess óskað að lögregla afhenti afrit allra gagna málsins. Erindi stefnanda hafi verið svarað með bréfi þann 18. apríl 2011, ásamt skýringum Skúla Jónssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns og dagbókarfærslu.

Þann 12. maí 2011 hafi stefnandi krafist greiðslu miskabóta að fjárhæð 750.000 krónur auk lögmannsþóknunar vegna ólögmætrar húsleitar á heimili hans.

Í svarbréfi ríkislögmanns, þann 20. september 2011, hafi bótakröfunni verið hafnað þar sem lögregla hafi verið í góðri trú um að henni væri heimilt að kanna hvort konan sem þeir áttu erindi við væri þar innan dyra, en engin leit hefði farið fram.

III.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu, en skýrslur vitna gáfu rannsóknarlögreglumennirnir Atli Már Halldórsson og María Pálsdóttir.

Stefnandi kvaðst hafa búið í 8-9 ár í umræddri fasteign. Hann hefði rekið þar heimagistingu yfir sumarið, en aldrei að vetri til. Hann hefði ekki verið með neinn rekstur árið 2011. Hann hefði búið einn í húsinu. Engin móttaka hefði verið í húsinu, aðeins herbergi og eldhús. Þetta hefði verið venjulegt heimili. Umræddan dag hefði hann verið staddur á efri hæð hússins og haft opið niður. Hann hefði heyrt umgang niðri, svaka læti. Hann hefði stokkið inn í eldhús til að finna eitthvað til að verja sig með og stokkið niður á neðri hæðina. Hann hefði haldið að um innbrotsþjófa væri að ræða. Hann hefði séð tvær dökkar verur sem hafi reynst vera lögreglumenn. Hann hefði spurt þá hvað um væri að ræða og hefði hann hálfpartinn verið yfirheyrður. Hann hefði ítrekað beðið um að þau færu. Þau hafi spurt hann um A og ekki farið fyrr en þau höfðu fengið einhver svör. Lögreglumennirnir hefðu ekkert gert vart við sig áður en þeir komu inn. Hann hefði orðið var við það ef svo hefði verið. Útidyrnar hefðu verið lokaðar en ólæstar. Hann kvað húsið ekki hafa verið dvalarstað A. Hún hafi engan aðgang átt að því.

Vitnið Atli Már Helgason rannsóknarlögreglumaður kvað þau Maríu Pálsdóttur rannsóknarlögreglumann hafa farið inn í fasteign stefnanda til að birta manneskju sem þau vissu að bjó þar sektarboð. Þetta hafi verið gistiheimili og hafi útidyr verið opnar, en þau hafi þó bankað áður en þau fóru inn. Þeim hafi verið sagt  að þetta væri gistiheimili. Þau hafi verið á leið út er stefnandi kom ofan af efri hæðinni ósáttur og bað þau að fara út. Þau hafi orðið við því. Þau hafi ekki farið inn í nein herbergi. Þau hafi komið inn í anddyri þar sem voru herbergi og bankað. Hurð eins herbergis hafi verið opin en enginn verið þar inni.

Vitnið María Pálsdóttir rannsóknarlögreglumaður kvað þau Atla Má hafa farið inn í gistiheimilið til að birta sektargerð fyrir A. Þau hafi áður bankað en enginn komið til dyra. Dyr hafi verið opnar, einnig  herbergi A. Lögregla hefði áður haft afskipti af A og þá í þessu sama herbergi. Hún hefði séð muni í eigu A í herberginu. Hún kvað þau hafa vitað að þarna var rekið gistiheimili en í glugga hússins hafi verið skilti sem á stóð gistiheimili. Stefnandi hefði komið niður í anddyrið og spurt um erindi þeirra. Þau hafi sagst  hafa ætla að hitta A.

IV.

Stefnandi byggir málssókn sína á því að samkvæmt ákvæði 1. mgr. 71. gr. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands skuli allir njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í því felist að ekki megi leita í húsakynnum manns án samþykkis nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild.

Liggi ekki fyrir samþykki húseiganda sé ljóst að lögreglu séu tæmandi taldar heimildir í ákvæðum laga til húsleitar. Vissulega hafi ekki verið um að ræða húsleit í skilningi sakamálalaga líkt og segi í bréfi ríkislögmanns, en þar sé heimild til húsleitar að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Það réttlæti engu að síður ekki ólögmætt húsbrot lögreglunnar. Það að lögregla hafi farið inn í góðri trú breyti hér engu um. Lögreglu hafi verið með öllu óheimil inngangan. Lögreglumennirnir höfðust við í óleyfi og fóru ekki út þrátt fyrir bein tilmæli. Lögreglan hafi í raun framið húsbrot.

Lögreglu hafi með öllu verið óheimilt að leita á heimili stefnanda án hans samþykkis. Lögreglan hafi ekki leitað eftir samþykki hans heldur gengið beint inn á heimilið og hafið leit. Lögreglu hefði verið í lófa lagið að banka að dyrum enda var stefnandi heimavið. Með þessu hafi lögreglan ekki einungis brotið gegn skýrum ákvæðum stjórnarskrár heldur einnig gegn meginreglu stjórnsýsluréttar um meðalhóf.

Með broti þessu hafi lögreglan brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnanda. Hver og einn skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Slík mannréttindi séu tryggð með ákvæðum 71. gr. stjórnarskrár og ákvæði 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu er var lögfestur hér á landi með lögum nr. 62/1994. Segi jafnframt í ákvæði 2. mgr. 8. gr. að opinber stjórnvöld skulu eigi ganga á rétt þennan nema samkvæmt því sem lög mæli fyrir um og nauðsyn beri til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra. Augljóst sé að skilyrði ákvæðins eru ekki uppfyllt af hálfu lögreglunnar.

Með broti þessu hafi stefndi brotið með ólögmætri meingerð gegn stefnanda. Bótakrafa stefnanda byggi á ákvæði b liðar 26. gr. skaðabótalaga og geri stefnandi þá kröfu fyrir dóminum að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags.

Stefnandi byggir kröfu sína á ákvæðum Stjórnarskrár Íslenska lýðsveldisins nr. 33/1944, Mannréttindasáttmála Evrópu er var lögfestur með lögum nr. 62/1994,  skaðabótalögum nr. 50/1993, ákvæðum einkamálalaga nr. 91/1991 og meginreglum stjórnsýsluréttar.. Um vexti vísast til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Kröfur um  málskostnað á ákvæðum einkamálalaga nr. 91/1991 og lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

V.

Af hálfu stefnda er þeirri málsástæðu stefnanda að framkvæmd hafi verið leit í húsnæði hans algjörlega vísað á bug. Lögregla hafi gengið inn í gistihús það sem stefnandi rekur til að freista þess að ná fundi íbúa, sem vitað var að dvaldi í einu herbergja gistihússins.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að engin leit átti sér stað á heimili stefnanda, né í vistarverum konunnar. Lögregla hafi ekkert tilefni haft til slíkrar leitar, enda hafði konan sem lögreglan átti erindi við þegar gengist við því broti sem sektargerðin laut að og mál hennar því að fullu upplýst og engin þörf á frekari rannsókn þess. Þar að auki hafi verið vitað að konan hafði aðsetur í gistihúsinu að [...] og því engin ástæða til að gera sérstaka leit að henni.

Þegar lögreglu bar að [...], þar sem stefnandi rekur gistiheimili, hafi útihurð verið opin og engin svarað þegar þeir börðu að dyrum. Að hafðri hliðsjón af þeirri staðreynd sem og lögbundnu hlutverki lögreglu geti það vart talist óeðlilegt að kannað væri hverju það sætti. Það hafi því verið aðstæður á vettvangi sem leiddu til inngöngu lögreglu á gistiheimilið. Engin leit hafi átt sér stað, engir munir verið hreyfðir og lögregla hafi yfirgefið húsnæðið þegar stefnandi krafðist þess. Meðalhófs hafi verið gætt.

Þá séu að auki ekki fyrir hendi skilyrði b- liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í ákvæðinu sé fólginn áskilnaður um að ólögmætri meingerð sé af ásetningi eða gáleysi beint gegn þeim, sem miskabóta krefst. Skilyrði ákvæðisins séu ekki fyrir hendi í þessu máli, enda sé ljóst af gögnum þess að það verkefni sem starfsmenn stefnda höfðu með höndum snéri á engan hátt að stefnanda málsins, heldur laut það að því að hitta fyrir áðurgreinda konu sem dvaldist í einu þeirra herbergja sem stefnandi hefur til útleigu. Því sé mótmælt sem röngu, órökstuddu og ósönnuðu að starfsmenn stefnda hafi í störfum sínum brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnanda. Stefnandi reki gistiheimili í húsnæðinu og því margskonar fólk sem þar gengur um bæði almenn rými og einstök herbergi. Sú athöfn stafsmanna stefnda að ganga, að gefnu tilefni, inn í gistiheimilið, hafi ekki falið í sér neina ólögmæta meingerð per se, né gagnvart stefnanda.

Stefnandi reki gistiheimili. Starfsmönnum stefnda hafi verið sú staðreynd kunn sem og að kona sú sem þeir freistuðu að hitta fyrir þann 8. janúar 2011 gisti þar. Því sé mótmælt sem röngu, órökstuddu og ósönnuðu að stefnandi reki ekki gistiheimili að [...] eða að engin slíkur rekstur sé í húsinu yfir vetrartímann. Stefnandi hafi ekki tilkynnt leyfisveitanda, Sýslumanninum í Keflavík, að hann sé hættur rekstri og reki starfsemi sína að [...] einvörðungu yfir sumartímann. Þá gefi rekstarleyfi stefnanda ekki til kynna að um árstíðabundna opnun sé að ræða. Þau gögn sem stefndi hafi lagt til málsins, bendi þvert á móti til þess að gistiheimilið sé opið árið um kring.

Í réttarframkvæmd hafi bætur samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga verið metnar að álitum. Engu að síður þurfi bótakrefjandi að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni og í hverju það tjón sé fólgið. Meint tjón stefnanda sé með öllu ósannað og beri því að sýkna stefnda af bótakröfunni þegar af þeirri ástæðu.

Þá sé ósannað að meint tjón stefnanda verði rakið til sakar starfsmanna stefnda. Starfsmenn stefnda hafi átt lögmætt erindi við konu sem þeir vissu að dvaldist á gistiheimili því sem stefnandi rekur, sbr. XXIII. kafla sakamálalaga nr. 88/2008. Þegar enginn svaraði kalli þeirra hafi það verið fullkomlega eðlileg ráðstöfun af hálfu starfsmanna stefnda að kanna hverju það sætti, t.d. hvort konan hefði ekki heyrt til þeirra. Engin leit af nokkru tagi hafi farið fram í húsnæðinu, hvorki í almennu rými þess né í herbergi konunnar. Þegar lögreglumennirnir hittu konuna ekki fyrir í herbergi hennar inni í gistihúsinu stóð ekki annað til en að hverfa á braut og freista þess að hitta hana síðar, sem kom ekki til þar sem þeir mættu henni á förnum vegi. Engri saknæmri hegðun hafi hér verið til að dreifa, heldur hafi starfsmenn stefnda verið að sinna lögboðnum starfsskyldum sínum í góðri trú.

Verði ekki fallist á framangreindar sýknukröfur stefnda, sé það sjálfstæð sýknuástæða að stefnandi sé ekki réttur aðili að málinu, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Verði talið að stefndi hafi með háttsemi starfsmanna sinna bakað sér bótaskyldu hljóti réttur aðili að kröfugerðinni að vera áðurgreind kona, enda hafi verkefni stafsmanna stefndu lotið að því að birta henni sektargerð og hafi svo háttað til að lögregla fór inn í herbergi þar sem hún dvaldist. Konan hafi engar athugasemdir gert.

Þeirri málsástæðu stefnanda, að starfsmenn stefndu hafi framið húsbrot, sé algjörlega vísað á bug sem rangri og órökstuddri. Engin slík háttsemi hefur verið sönnuð og vilji stefndi í þessu samhengi árétta að hvorki stefnandi, né áðurnefnd kona hafa kært meint húsbrot starfsmanna stefnda til ríkissaksóknara.

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda geri hann þá kröfu að bætur til stefnanda verði lækkaðar verulega.

Stefnandi krefjist miskabóta að fjárhæð 1.000.000 krónur en krafan sé með öllu órökstudd. Stefndi mótmæli fjárhæð kröfunnar sérstaklega, enda sé hún í miklu ósamræmi við dómvenju á þessu sviði og það ósamræmi í engu rökstutt né útskýrt hvers vegna bætur til stefnanda ættu að vera miklu hærri en bætur í sambærilegum málum.

Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé mótmælt sem órökstuddri og ósannaðri. Að mati stefnda skortir verulega á rökstuðning og gögn varðandi ætlað tjón stefnanda og hugtaksskilyrði 9. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 um fullnægjandi upplýsingar til að meta tjónsatvik því ekki fullnægt. Verði fallist á bótaskyldu stefnda telji hann að miða beri upphafsdag dráttarvaxta við dómsuppsögu.

Stefndi vísar til áðurgreindra lagaraka er varða sýknukröfu og lækkunarkröfu. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

VI.

Óumdeilt er í máli þessu að lögreglunni á Suðurnesjum var falið að hafa upp á tiltekinni konu og birta henni sektargerð í sakamáli sem ljúka mátti með ákvörðun viðurlaga, án útgáfu ákæru, skv. XXIII. kafla laga nr. 88/2008 og að tveimur lögreglumönnum embættisins var fengið þetta verkefni þann 8. janúar 2011. Lögreglumennirnir fóru að [...] í [...], en þar töldu þeir dvalarstað konunnar vera, en þar hafði lögregla áður haft afskipti af konu þessari. Lögreglumennirnir töldu sig hafa vitneskju um að þarna væri rekið gistiheimili, enda var skilti í glugga hússins sem gaf það til kynna. Það þykir auk vættis lögreglumannanna sannað með framlagningu gagna. Lögreglumennirnir áttu lögmætt erindi í umrædda fasteign.

Þrátt fyrir gagnstæðan framburð stefnanda verður að byggja á framburði lögreglumannanna um að þeir hafi knúið dyra áður en þeir fóru inn í húsið en engin svör fengið. Þar sem opið var inn í íbúðina, þar sem gistiheimilið er til húsa, gengu lögreglumennirnir þar inn og gengu síðan að herbergi því sem konan var talin dveljast í, en þar var enginn sjáanlegur. Er þeir voru á leið út mun stefnandi hafa komið niður af efri hæð hússins og innt lögreglumennina eftir því hvernig stæði á veru þeirra í húsinu. Honum var greint frá því að allt hafi staðið opið og að lögregla ætti erindi við konuna. Lögregla varð síðan við beiðni stefnanda um að fara út úr gistihúsinu.

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að lögreglu hafi verið óheimilt að leita á heimili hans án hans samþykkis og í raun gerst sekir um húsbrot. Byggir stefnandi á ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu og byggir hann miskabótakröfu sínu á því að með broti stefndi hafi með ólögmætri meingerð brotið gegn stefnanda. þessu er mótmælt af hálfu stefnda.

Eins og áður getur áttu lögreglumenn lögmætt erindi við konu þá sem talið var að dveldist í húsnæði stefnanda, sem lögreglumennirnir höfðu réttmæta ástæðu til að ætla að væri gistiheimili, m. a. vegna skiltis í glugga hússins sem gaf það til kynna. Eins og áður getur þykir sannað með vætti lögreglumannanna að þeir hafi knúið dyra áður en þeir gengu inn um ólæstar útidyrnar. Er ekki fallist á það teljist óeðlilegt eða andstætt lögum af lögreglumönnunum að ganga með þeim hætti inn í hús stefnanda, sem þeir höfðu réttmæta ástæðu til að ætla að væri rekið sem gistiheimili, til að sinna lögmætu erindi sínu við framangreindan kvenmann.

Því ber að hafna að lögreglumennirnir hafi framkvæmt einhvers konar leit í húsnæði stefnanda þótt þeir hafi svipast um eftir umræddri konu. Þá þykir og fráleitt að halda því fram að um hafi verið að ræða húsbrot af hálfu lögreglumannanna. Er þeirri málsástæðu jafnframt hafnað með öllu. Er því ekki fallist á að lögregla hafi brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnanda. Þykja lögreglumennirnir hafa gætt meðalhófs í hvívetna.

Auk þess sem skilyrði b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 fyrir bótaábyrgð þykja ekki vera fyrir hendi þar sem ekki þykir hafa verið um ólögmæta meingerð af ásetningi eða gáleysi að ræða gagnvart stefnanda, þykir stefnandi ekki hafa sannað að hann hafi orðið fyrir tjóni.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er niðurstaða dómsins sú að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Stefnanda var veitt gjafsókn í máli þessu. Skal allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Páls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 450.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Við ákvörðun þóknunar lögmanns stefnanda er tekið mið af viðmiðunarreglum Dómstólaráðs samkvæmt tilkynningu ráðsins nr. 5/2009, en samkvæmt þeim skal þóknun lögmanns í gjafsóknarmálum vera 10.000 krónur án virðisaukaskatts fyrir hverja klukkustund.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af öllum kröfum stefnanda, Skarphéðins Óskars Jónassonar, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Páls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 450.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.