Print

Mál nr. 726/2016

Ákæruvaldið (Einar Tryggvason saksóknari)
gegn
X (Erling Daði Emilsson hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Framsal sakamanns
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun innanríkisráherra um framsal X til Póllands var staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. október 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2016, þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðuneytisins 10. ágúst sama ár um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Engin efni eru til að draga í efa að héraðsdómari hafi skilið þann enska texta sem fylgdi með framsalsgögnum og því verið óþarft að þýða hann yfir á íslensku, svo sem heimilt er eftir 3. mgr. 12. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Samkvæmt 1. gr. Evrópusamningsins um framsal sakamanna frá árinu 1957, sem Ísland fullgilti 1984 og Pólland 1993, eru aðilar skuldbundnir til framsals að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Samkvæmt framsalsbeiðni pólskra yfirvalda var óskað eftir framsali varnaraðila vegna gruns um brot gegn pólskum hegningarlögum, sem talin voru upp í sjö liðum. Varnaraðili hefur kannast við að framsalsbeiðnin og gögn þau, sem með henni fylgdu, varði sig. Engin rökstudd ástæða er til að ætla að  framsalsbeiðnin fullnægi ekki grunnreglum íslenskra laga um rökstuddan grun, refsiverða háttsemi eða lögfulla sönnun, sbr. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984.

Í málinu liggur fyrir úrskurður héraðsdóms í Tczew í Póllandi 28. desember 2011 um 14 daga varðhald í kjölfar handtöku varnaraðila ásamt eftirlýsingu saksóknara þar í landi 30. janúar 2012 og standa ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 því ekki í vegi fyrir framsali varnaraðila. Sex þeirra brota, sem vararaðila eru gefin að sök, varða meira en eins árs fangelsi að íslenskum lögum og er þar með fullnægt skilyrði 1. mgr. 3. gr. fyrrgreindra laga til framsals. Jafnframt er sök ófyrnd í þessum málum samkvæmt 81. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en fyrningarfrestur samkvæmt pólskum lögum var rofin í síðasta lagi 30. janúar 2012 með áðurnefndri eftirlýsingu saksóknara, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984. Af því leiðir að fullnægt er ákvæði 1. mgr. sama ákvæðis um að sök varnaraðila sé ófyrnd. Rétt þykir taka fram að eftir 4. mgr. 3. gr. laganna er framsal til meðferðar máls fyrir fleiri verknaði en einn heimilt þótt skilyrði samkvæmt 1. til 3. mgr. sömu greinar séu einungis uppfyllt að því er varðar einn verknað.

Mat innanríkisráðherra á grundvelli 7. gr. laga nr. 13/1984 verður ekki endurskoðað, enda hafa engar líkur verið leiddar að því að það hafi ekki farið fram með réttum og málefnalegum hætti. Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun réttargæslumanns varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

                                                         Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Erlings Daða Emilssonar héraðsdómslögmanns, 248.000 krónur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2016

                Mál þetta var þingfest 6. október sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 20. sama mánaðar. Sóknaraðili er ríkissaksóknari, en varnaraðili er X, kt. [...], pólskur ríkisborgari, búsettur að [...], [...], en með lögheimili að [...], [...].

                Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 10. ágúst 2016 um að framselja varnaraðila til Póllands. Varnaraðili krefst þess að ákvörðun innanríkisráðuneytisins verði felld úr gildi. Að auki er þess krafist að hæfileg þóknun skipaðs réttargæslumanns verði greidd úr ríkissjóði.

                                                                                  I.

                Í greinargerð sóknaraðila frá 26. september 2016 kemur fram að samkvæmt framsalsbeiðni dagsettri 19. mars 2015 hafi verið óskað eftir framsali varnaraðila, með vísan til Evrópuráðssamnings um framsal sakamanna, vegna gruns um refsiverða háttsemi. Þar kemur fram að hjá saksóknaraembætti í Tczew sé til meðferðar mál þar sem varnaraðili sé grunaður um refsiverða háttsemi sem lýst er í sjö liðum (liðir I-VII) sem nánar eru raktir. Sönnunargögn saksóknara í málinu sýni fram á að allar líkur séu fyrir því að varnaraðili hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og hafi framburðir vitna og álit sérfræðinga í sálfræði, réttarlæknisfræði, tölvunarfræði og rithandarsamanburði staðfest það. Varnaraðili hafi fengið senda kvaðningu á lögheimili sitt í tvígang á árinu 2011 en ekki sinnt henni þrátt fyrir móttöku hennar. Þá liggi fyrir í málinu úrskurður héraðsdóms í Tczew, frá 28. desember 2011, um 14 daga varðhald varnaraðila í kjölfar handtöku. Á þessum forsendum hafi saksóknari í Tczew gefið út eftirlýsingu á hendur varnaraðila, dags. 30. janúar 2012. Með framsalsbeiðninni fylgir framangreindur úrskurður héraðsdóms frá 28. desember 2011, eftirlýsing saksóknara, dags. 30. janúar 2012, og viðeigandi lagaákvæði.

                Þann 28. janúar 2016 kynnti lögreglustjóri varnaraðila beiðnina og var tekin af honum skýrsla. Í greinargerðinni er rakið það helsta sem fram kom í skýrslu varnaraðila en að öðru leyti vísað til gagna málsins. Þar er m.a. haft eftir honum að hann hefði verið yfirheyrður af lögreglunni í Póllandi vegna einhverra þeirra mála sem vísað væri til í framsalsbeiðninni. Hann kannaðist við að hafa móttekið kvaðningu frá pólskum yfirvöldum en neitaði sakargiftum og hafnaði framsali. Að öðru leyti er vísað til gagna málsins. Fram kemur að honum hafi verið kynnt efni 7. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984.

                Sóknaraðili sendi innanríkisráðuneytinu gögn málsins ásamt álitsgerð sinni um lagaskilyrði framsals þann 30. mars sl. Voru skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984, um refsiramma hins meinta saknæma verknaðar, talin uppfyllt varðandi alla liði framsalsbeiðninnar að undanskildum lið IV sem uppfylli ekki skilyrði refsiramma 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984. Þá lágu fyrir upplýsingar frá pólska dómsmálaráðuneytinu um að ákvörðun héraðsdómstóls í Póllandi um „pre-trial detention“ í máli varnaraðila, væri ígildi handtökuskipan dómara í samræmi við a-lið 2. mgr. 12. gr. samnings Evrópuráðsins um framsal frá árinu 1957. Því væru skilyrði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 uppfyllt. Þá væri sök ófyrnd samkvæmt íslenskum lögum, sbr. 9. gr. laganna samkvæmt liðum I, III, V, VI og VII. Sök væri fyrnd samkvæmt lið II en til samræmis við 2. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984, og með hliðsjón af pólskum hegningarlögum, hafi fyrningarfresturinn rofnað þegar varnaraðili var eftirlýstur af saksóknara innan fyrningarfrests brotsins. Efnisskilyrði framsals sé samkvæmt framangreindu uppfyllt.

                Innanríkisráðuneytið varð við framsalsbeiðninni með ákvörðun frá 10. ágúst 2016. Fram kemur í forsendum ráðuneytisins að það endurskoði ekki niðurstöðu ríkissaksóknara um skilyrði framsals. Ráðuneytið lagði heildstætt mat á aðstæður varnaraðila með tilliti til sjónarmiða mannúðarákvæðis 7. gr. laga nr. 13/1984 og mat þær svo að ekki þættu nægjanlegar ástæður fyrir hendi til að réttmætt væri að synja um framsal á grundvelli ákvæðisins. Einnig vísaði ráðuneytið til þess að varnaraðili væri grunaður um hegningarlagabrot í Póllandi og hafa pólsk yfirvöld metið það svo að þau hafi hagsmuni af því að fá hann framseldan til meðferðar málsins þar í landi. Taldi ráðuneytið engin gögn fram komin sem leiddu til þess að rökstudd ástæða væri til þess að ætla að framsalsbeiðnin og meðfylgjandi gögn þættu ekki fullnægja grunnreglum íslenskra laga um rökstuddan grun, refsiverða háttsemi eða lögfulla sönnun sakar, sbr. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984. Þá væru íslensk stjórnvöld skyldug, án frekari könnunar á sönnunaratriðum, til að leggja erlendan dóm eða ákvörðun um handtöku eða fangelsun til grundvallar við meðferð máls.

                Varnaraðila var kynnt ákvörðun ráðuneytisins þann 13. september 2016 hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Þann sama dag krafðist varnaraðili úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur skv. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 13/1984.

                                                                               II.

                Samkvæmt 1. gr. Evrópuráðssamnings um framsal sakamanna frá 1957, sem Ísland og Pólland hafa fullgilt, eru aðilar hans skuldbundnir til framsals að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í 1. gr. laga nr. 13/1984, um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, segir að framselja megi þann sem í erlendu ríki er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Fram kemur í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laganna að 1. gr. og aðrar greinar frumvarpsins leggi ekki skyldu á íslensk stjórnvöld til framsals. Hins vegar geti verið skylt að framselja mann samkvæmt gagnkvæmum framsalssamningum, og er í dæmaskyni tilgreindur áðurnefndur Evrópuráðssamningur frá 1957.

                Með hliðsjón af ofangreindu er það meginregla að íslenskum stjórnvöldum beri að verða við kröfu pólskra yfirvalda um framsal, enda séu þá uppfyllt önnur skilyrði laga nr. 13/1984.

                Samkvæmt 1. gr. laga nr. 13/1984 er heimilt að framselja mann ef hann er í erlendu ríki, grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Varnaraðili er grunaður um brot sem refsiverð eru í Póllandi, bæði samkvæmt almennum hegningarlögum og sérlögum.

                Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 er framsal því aðeins heimilt að verknaður eða sambærilegur verknaður geti varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Háttsemi sú sem varnaraðili er grunaður um að hafa framið í heimalandi sínu telur sóknaraðili að varði við 155. gr., 1. mgr. 217. gr., 225. gr., 233. gr. b, 248. gr. og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í sumum tilvikum jafnframt við 22. gr. laganna. Einnig 2. mgr. 54. gr. höfundarlaga nr. 73/1972 og 98. gr. og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Refsing samkvæmt ákvæðunum varðar allt að frá 1 árs fangelsi til 8 ára fangelsi. Aðeins brot gegn 1. mgr. 217. gr. varðar allt að eins árs fangelsi.

                Varnaraðili byggir jafnframt á því að ekki liggi fyrir með nægilega skýrum hætti að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 3. gr., sbr. 3. mgr. 12. gr., laga nr. 13/1984 enda liggi ekki ljóst fyrir að tekin hafi verið ákvörðun um að varnaraðili skuli handtekinn eða fangelsaður fyrir meint brot.

                Í þessu sambandi skal vísað til þess sem fram kemur í greinargerð sóknaraðila, svo og gagna málsins sem liggja fyrir í enskri þýðingu sem dómari telur sér vel fært að þýða. Um er að ræða úrskurð héraðsdóms í Tczew og staðfestingu pólska dómsmálaráðuneytisins á því að ígildi handtökuskipunar hafi verið gefin út á hendur varnaraðila þar sem hann hafi ekki sinnt kvaðningum um að mæta á skrifstofu saksóknara í Tczew. Að þessu virtu telur dómurinn sýnt fram á að uppfyllt séu skilyrði ofangreindra lagaákvæða.

                Af hálfu varnaraðila er á því byggt að þau gögn sem hafi borist frá pólskum yfirvöldum liggi ekki fyrir í íslenskri þýðingu. Slíkt sé skylt sbr. 1. og 3. mgr. 12. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, ella geti ekki farið fram könnun á því hvort skilyrði framsals séu uppfyllt.

                Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 88/2008 er þingmálið íslenska. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins skal skjali á erlendu tungumáli að jafnaði fylgja þýðing á íslensku að því leyti sem byggt er á efni þess í máli nema dómari telji sér fært að þýða það. Sóknaraðili hefur lagt fram gögn frá pólskum yfirvöldum, þ.e. á frummáli hans, sem þýdd hafa verið ytra yfir á ensku eins og venja er. Dómari telur sér vel fært að þýða hin ensku skjöl sem eru á skiljanlegri ensku. Þá er til þess að líta að varnaraðili kom í fylgd lögmanns í skýrslutöku til lögreglu 28. janúar 2016 og er bókað í skýrslu að honum hafi verið sýnd framsalsbeiðni frá Póllandi og fylgiskjöl. Engar athugasemdir af hálfu varnaraðila voru bókaðar af því tilefni.

                Með hliðsjón af ofangreindu og að virtum gögnum málsins er á það fallist með sóknaraðila að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 fyrir framsali varnaraðila varðandi öll ofangreind refsiákvæði að undanskyldri 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

                Engin haldbær rök eru færð fyrir því að meint brot varnaraðila uppfylli ekki skilyrði 5. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 og á það sér ekki stoð í gögnum málsins.

                Samkvæmt 9. gr. laga nr. 12/1984 er framsal óheimilt ef sök eða dæmd refsing er fyrnd eða að öðru leyti fallin niður samkvæmt íslenskum lögum. Sök varnaraðila er ófyrnd samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga, í öllum ofangreindum tilvikum nema varðandi brot gegn 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, 2. mgr. 54. gr. höfundarlaga og 254. gr. almennra hegningarlaga en refsing samkvæmt ákvæðunum varðar allt að 2 ára fangelsi til 4 ára fangelsi. Í þeim tilvikum væri sök fyrnd samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga.

                Í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 12/1984 segir að berist beiðni um framsal frá ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu skuli lög þess ríkis gilda um rof fyrningarfrestsins. Fallist verður á það með sóknaraðila að líta verði svo á að málsmeðferð hafi hafist í síðasta lagi 30. janúar 2012 þegar varnaraðili var eftirlýstur af saksóknara í Póllandi. Í samræmi við ákvæði almennra hegningarlaga í Póllandi rofnaði fyrningarfrestur vegna ofangreindra lagaákvæða er málsmeðferð hófst. Að öllu framansögðu virtu verður fallist á það með sóknaraðila að skilyrði 1. mgr. 9. gr. laga nr. 12/1984 séu uppfyllt.

                Í þinghaldi 20. október sl. lagði sóknaraðili fram yfirlit yfir mál úr lögreglukerfi (LÖKE) en samkvæmt því eru skráð í ákærumeðferð umferðarlagabrot varnaraðila frá 31. júlí sl. hjá Lögreglustjóranum á Suðurlandi. Ákæra hefur hins vegar ekki verið gefin út. Stendur 1. mgr. 10. gr. laga nr. 12/1984 því ekki í vegi fyrir framsali og vísast um það til dóms Hæstaréttar í máli nr. 432/2012.

                Varnaraðili byggir einnig á því að 7. gr. laga nr. 12/1984 eigi að koma í veg fyrir að fallist verði á kröfu sóknaraðila. Samkvæmt ákvæðinu koma þar einkum til mannúðarástæður, svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður. Með ákvörðun frá 10. ágúst sl. tók innanríkisráðuneytið rökstudda afstöðu til þess hvort mannúðarástæður fyrrnefnds lagaákvæðis eigi að leiða til þess að kröfu um framsal verði hafnað. Mat ráðuneytisins er að ekki séu nægar ástæður fyrir hendi til að réttmætt sé að synja um framsal á grundvelli ákvæðisins. Þetta mat ráðuneytisins verður ekki endurskoðað, enda hafa hvorki verið leiddar að því líkur að aðstæður varnaraðila hafi ekki verið metnar með réttum og málefnalegum hætti, né að ekki hafi verið gætt meðalhófs við töku ákvörðunarinnar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að 10. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin við meðferð málsins.

                Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að hafna beri kröfum varnaraðila. Verður ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 10. ágúst 2016, um að framselja varnaraðila til Póllands, því staðfest.

                Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist þóknun réttargæslumanns og annar sakarkostnaður málsins úr ríkissjóði. Réttargæslumaður lagði tímaskýrslu sína fyrir dóminn. Með hliðsjón af umfangi málsins í heild, m.a. á rannsóknarstigi, þykir þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Erlings Daða Emilssonar hdl., hæfilega ákveðin 550.000 krónur.

                Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

                                                               Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Staðfest er ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 10. ágúst 2016, um að framselja varnaraðila, X, til Póllands.

                Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Erlings Daða Emilssonar hdl., 550.000 krónur.