- Kærumál
- Gæsluvarðhald
- Kæra
- Frávísun frá Hæstarétti
|
Miðvikudaginn 24. júní 2009. |
Nr. 342/2009. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. Kæra. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Í kæru X til Hæstaréttar voru ekki uppfyllt skilyrði í ákvæði 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. júní 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 29. júní 2009 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar á dómþingi 22. júní 2009 var bókað eftir varnaraðila, að viðstöddum verjanda hans, að hann kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Ekki var bókað í þingbók í hvaða skyni kært væri svo sem áskilið er í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Úr þessum annmarka var ekki bætt með skriflegri kæru til héraðsdóms. Af þessum sökum verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2009.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði kærða, X, kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 29. júní nk. kl. 16. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun, skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að í gærkvöld, um kl. 19.30, hafi lögreglunni borist tilkynning um mikið slasaðan mann að nafni X, kt. [...], við A í Reykjavík. Hafi maðurinn verið alblóðugur á höfði og gekkst hann undir aðhlynningu á slysadeild Landspítalans, þar sem hann reyndist vera með augntóftargólfsbrot á báðum augum, þrjá skurði á höfuðleðri, allir langir og gapandi. Þá hafi hann verið með tvo skurði á enni, á neðri vör hafi verið sprungið í gegn fyrir miðju, og innan á vörinni var ílangur og mjög tættur skurður. Auk þessa hafi brotaþoli hlotið marga yfirborðsáverka á höfði, brjóstkassa og útlimum.
Í kjölfarið hafi lögregla farið að B í Reykjavík, þar sem grunur hafi vaknað að brotaþoli hafi þar orðið fyrir árásinni. Þar inni hafi glögglega mátt sjá ummerki eftir líkamsárás, enda blóð víða á veggjum, þvegill, sem hafi verið blautur og blóði drifinn, á gólfi, þá hafi mátt finna blóð á húsgögnum, sjá nánar vettvangsskýrslu tæknideildar. Þá fannst blautt og blóðugt handklæði í ruslatunnu við húsið.
Í B hafi fimm aðilar verið handteknir, þ. á m. kærði, allir grunaðir um aðild að árásinni. Í skýrslutökum lögreglu í dag hafi komið fram að brotaþoli hafi á umræddum tíma verið í herbergi kærða, þar sem hann, kærði og bróðir kærða Y að nafni, sátu að drykkju. Í skýrslutöku kom fram að frá herberginu hafi borist mikill hávaði, sem samanstóð af tónlist, öskrum og “hljóðum líkt og verið væri að berja einhvern.” Heyrst hafi öskur frá brotaþola og eins og hann hafi verið sleginn niður. Þá hafi og skýrt frá því að heyrst hafi í kærða þar sem hann fylgdi brotaþola út úr íbúðinni.
Vinkona brotaþola hafi greint frá því hjá lögreglu fyrr í dag að hún hafi fylgt brotaþola að B í gær. Þau hafi farið þar saman inn, en leiðir skilið. Hún hafi svo stuttu seinna rekist á brotaþola inni í húsinu þar sem hann hafi verið með áverka í andliti. Brotaþoli hafi þá beðið hana um að fara út úr húsinu sem hún og gerði. Því næst kvaðst hún hafa hitt brotaþola þar sem hann kom gangandi eftir A, með handklæði um höfuðið og alblóðugur.
Brotaþoli telji sig hafa orðið fyrir árás fyrir utan húsnæðið og kvaðst hann ekki geta greint frá því hver réðist á hann.
Þá neiti kærði sök, hann kveðst þó hafa verið að B, ásamt brotaþola, en einungis horft þar á sjónvarp og spilað tölvuleiki.
Rannsókn málsins sé á frumstigi, lögregla leiti nú bróður kærða, sem einnig sé sterklega grunaður um aðild að þessu máli og því afar brýnt að kærði fái ekki tækifæri til að spilla rannsókn málsins.
Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu fullnægt, enda kærði undir rökstuddum grun um afbrot, sem fangelsisrefsing er lögð við. Þá megi ætla að gangi kærði frjáls ferða sinna kunni hann að torvelda rannsókn málsins, s.s. með því að skjóta undan munum, afmá merki eftir brot, ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Rannsókn máls þessa er á frumstigi. Gögn málsins benda til þess að brotaþoli, X, hafi orðið fyrir alvarlegri líkamsárás að B þar sem kærði er búsettur. Ummerki um átök voru í herbergi kærða og þar voru blóðblettir á veggjum og húsgögnum. Þá hefur vitni borið að mikill hávaði hafi borist frá herbergi kærða. Samkvæmt þessu og með vísan til greinargerðar lögreglu og hjálagðra gagna er fallist á að kærði sé undir rökstuddum grun um líkamsárás. Ætla má að kærði muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus, en meðal annars er leitað bróður hans sem einnig er grunaður um aðild að líkamsárásinni. Er því fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 um gæsluvarðhald kærða. Verður krafan tekin til greina eins og hún er fram sett, einnig að því er varðar einangrun kærða á meðan á gæsluvarðhaldi stendur skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 29. júní nk. kl. 16. Þá skal kærði sæta einangrun skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.