- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Þriðjudaginn 11. nóvember 2014 |
Nr. 719/2014. |
Ákæruvaldið (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Snorri Sturluson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. desember 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2014.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt.[...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 5. desember nk., kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar alvarlega líkamsárás X á A, fyrrum sambýliskonu hans, við heimili hennar að [...] í [...], að morgni laugardagsins 6. september sl. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi hún hitt fyrir brotaþola og dóttur hennar, sem hafi skýrt lögreglu frá því að kærði hefði skömmu áður reynt að keyra brotaþola niður. Brotaþoli hafi verið meidd á fæti og hrufluð á hendi. Lögregla hóf þegar leit að meintum árásarmanni og hafi bifreiðin [...] fundist mannlaus við Miðbakka skömmu síðar en X var handtekin á [...]hótel síðar sama dag. Þá hafi lögreglu borist tilkynning um að ökumaður bifreiðarinnar [...] hefði næstum ekið niður gangandi vegfaranda á gangbraut við Sæbraut í Reykjavík þennan sama morgun.
A, brotaþoli málsins, hafi skýrt frá því í skýrslutöku hjá lögreglu að hún hefði orðið vör við kærða rífast við nágrannakonu hennar utan við hús hennar að morgni laugardagsins 6 september sl. Hún hafi horft á þau út um gluggann og kærði séð hana og sagst myndi drepa hana ef hún myndi blanda lögreglu í málið. Hann hafi síðan kastað skiptilykli í gegn um rúðu á svefnherbergi hennar. Í kjölfarið hafi hún farið út með skiptilykilinn til að ræða við kærða sem hafi verið mjög æstur og farið upp í bifreiðina [...] og ekið á hana, hún hafi dottið og komið sér undan honum en þá hafi hann bakkað og keyrt aftur á hana þar sem hún stóð á gangstétt. Kærði hafi síðan gert þriðju tilraunina en brotaþoli komið sér undan bifreiðinni þá. Sagði brotaþoli að kærði hefði sagt að hann ætlaði að drepa hana.
Lögregla hefur rætt við nokkra aðila sem urðu vitni að framferði kæra, hafi vitni lýst því að þeir hefðu séð kærða, sem þau hafi kannast við sem X, henda skiptilykli í gegnum rúðu á 2. hæð á [...], stuttu síðar hefði brotaþoli komið út með skiptilykilinn og gengið að manninum sem hafi farið upp í bifreið sína og í framhaldi ekið á konuna, bakkað og gert aðra tilraun til að aka á hana aftur strax í kjölfarið. Fram hafi komið hjá vitnum að kærði hefði í 2-3 skipti keyrt á eða gert tilraun til að keyra á brotaþola. Þá hafi komið fram að vitni höfðu heyrt kærða segja við brotaþola að hann ætlaði að drepa hana.
Kærði hefur verið yfirheyrður vegna málsins og játi að hafa verið á vettvangi og að hafa kastað skiptilykli inn um rúðu brotaþola þá kannast hann við að hafa í eitt skipti ekið á brotaþola en getur ekki skýrt hversvegna hann gerði það.
Rannsókn málsins er lokið og hefur Ríkissaksóknari gefið út ákæru vegna þess.
Kærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 7 september sl. sem staðfest var með dómi Hæstaréttar í máli réttarins nr. 593/2014. Þann 12. september sl. var kærði úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna nú síðast 10. október sl.
Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, enda sé kærði undir sterkum grun um að hafa framið brot gegn 211., sbr. 20. gr., og 2. mgr. 218. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað getur allt að 16 ára fangelsi, eða ævilöngu, og er þess eðlis að almannahagsmunir krefjast gæsluvarðhalds.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða
Með nýlegum dómi Hæstaréttar Íslands frá 14. október 2014 í máli nr. 667/2014 var úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur frá 10. október staðfestur og því slegið föstu að fullnægt væri skilyrðum til þess að kærði sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Ekkert hefur verið fært fram er breytir þeirri niðurstöðu. Því er fallist á kröfu lögreglustjórans svo sem greinir í úrskurðarorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 5. desember nk., kl. 16:00.