- Kærumál
- Vitni
|
Miðvikudaginn 19. nóvember 2014. |
Nr. 734/2014.
|
Ákæruvaldið (Kári Ólafsson fulltrúi) gegn X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Kærumál. Vitni.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu Á um að vitni gefi skýrslu fyrir dómi í gegnum síma.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. nóvember 2014, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að vitnið A, með dvalarstað í [...], gefi skýrslu fyrir dómi í gegnum síma í máli sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðila. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að vitninu verði gert að koma fyrir dóm og gefa skýrslu.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 14. nóvember 2014.
Mál ákæruvaldsins gegn X, kennitala [...], [...], [...] var tekið til úrskurðar 7. nóvember síðastliðinn.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu útgefinni 20. maí 2014 á hendur X fyrir þjófnað, fjárdrátt, fjársvik, tilraun til fjársvika, skjalafals og eignaspjöll. Er ákæruskjalið alls 27 blaðsíður og tölusettir ákæruliðir númer I - XVIII.
Í þinghaldi í málinu 7. þ.m. setti ákæruvaldið fram þá kröfu að símaskýrsla yrði tekin af vitninu A við aðalmeðferð málsins en vitnið er á vitnalista ákæruvaldsins skráð með dvalarstað í [...]. Ákærði krefst þess að hafnað verði kröfu ákæruvaldsins um að heimilað verði að taka símaskýrslu af vitninu.
Ákæruvaldið vísar til þess að vitnið hafi um tveggja ára skeið hafst við í [...]. Vitnið hafi gefið skýrslu fyrir lögreglu í gegnum síma eða Skype forrit og sé tilbúið til að gefa skýrslu símleiðis fyrir dómi. Um sé að ræða ákærulið XVII, sem varði meint fjársvik, til vara fjárdrátt, gagnvart [...], mál lögreglu nr. 007-2012-[...]. Eins og gögn málsins beri með sér sé um að ræða fjölmörg vitni sem ætlunin sé að leiða fyrir dóm vegna ætlaðra brota ákærða samkvæmt þessum ákærulið og muni niðurstaða málsins engan veginn ráðast af framburði vitnisins einum og sér. Skilyrði 4. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála séu uppfyllt enda verður skýrslunni ekki viðkomið með öðru móti. Fullyrti ákæruvaldið að vitnið myndi ekki yfirgefa [...] þar sem það ætti yfir höfði sér framsal til annars ríkis héldi það sig ekki innandyra í [...]. Hversu lengi vitnið muni dvelja í [...] sé ekkert hægt að segja til um.
Ákærði gerir þá kröfu að vitninu A verði gert að gert að gefa skýrslu fyrir dómi í eigin persónu. Við munnlegan flutning málsins um þennan hluta málsins vísaði verjandi ákærða til forsendna í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 519/2002 og taldi þær eiga að öllu leyti við í máli því sem hér væri til úrlausnar. Þá bæri að horfa til þess að A væri lykilvitni í málsvörn ákærða í málinu. Hann hefði verið nánasti yfirmaður ákærða og veitt honum heimild til þess að framkvæma það sem honum sé gefið að sök að hafa gert í leyfisleysi. Með hliðsjón af því telji ákærði að framburður vitnisins hafi mikla þýðingu í málinu og að vitnið verði að koma fyrir dóm til skýrslugjafar. Ekkert liggi fyrir um að vitnið geti ekki komið fyrir dóm í málinu. Vitnið sé statt í [...] þaðan sem greiðar flugferðir séu til Íslands. Kveðst ákærði vísa í þessu sambandi til lagareglu um milliliðalausa sönnunarfærslu í sakamálum sem eigi sér meðal annars stoð í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá sé í d. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans kveðið á um þann skýra og ótvíræða rétt ákærða til þess að láta leiða vitni og spyrja vitni og fá svör við þeim spurningum í eigin persónu vitnisins fyrir dómi. Þessi réttur verði best tryggður með því að vitnið kom fyrir dóminn til skýrslugjafar.
Niðurstaða:
Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem veitt var lagagildi með samnefndum lögum nr. 62/1994, ber öllum réttlát málsmeðferð fyrir dómi. Reglan um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi, sbr. ákvæði 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, er að sönnu þýðingarmikil og stuðlar að því að tryggja slíka málsmeðferð fyrir dómi. Af þessari reglu leiðir að vitni eiga almennt að koma fyrir dóm til skýrslugjafar í málum þar sem skera á úr um sekt eða sýknu þess sem ákærður hefur verið. Á þessu eru þó undantekningar sem um er fjallað í 2. og 3. mgr. nefndrar 111. gr. laga nr. 88/2008. Þá er í 4. mgr. 116. gr. sömu laga að finna það frávik frá meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu að sé vitni statt fjarri þingstað eða það hafi sérstakt óhagræði af því að koma fyrir dóm geti dómari ákveðið að skýrsla verði tekin gegnum síma eða annað fjarskiptatæki, enda verði skýrslutöku hagað þannig að allir sem staddir eru á dómþingi heyri orðaskipti vitnisins. Verður þessari heimild þó ekki beitt ef ætla má að úrslit máls geti ráðist af framburði vitnisins.
Skilja verður málatilbúnað ákæruvaldsins og þær upplýsingar sem fram hafa komið um aðstæður vitnisins á þann veg að A eigi þess ekki kost að koma fyrir dóminn til skýrslugjafar í málinu og sé að því leyti ófús til að koma til landsins. Verður við það að miða að sú leið sé ekki fær miðað við aðstæður vitnisins sem er erlendur ríkisborgari og lýtur ekki íslenskri lögsögu. Því á hvorutveggja við í málinu að vitnið er statt fjarri þingstað og hefur sérstakt óhagræði af því að koma fyrir dóminn til skýrslugjafar. Vitnið er tilgreint á vitnalista ákæruvaldsins meðal átta annarra vitna sem ætlunin er að gefi skýrslu fyrir dómi vegna sama ákæruliðar. Af því þykir mega draga þá ályktun, án þess að með því sé nokkru slegið föstu um vægi framburðar vitnisins, gefi það skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins, að framburður þess muni ekki einn og sér ráða úrslitum um niðurstöðu varðandi þann ákærulið sem um ræðir. Ekki verður fallist á það með verjanda ákærða að aðstæður séu hina sömu í máli þessu og áðurgreindu Hæstaréttarmáli nr. 519/2002, enda var í því um að ræða brotaþola og annað vitni sem voru einu vitni ákæruvaldsins í málinu.
Samkvæmt þessu þykja að mati dómsins vera fyrir hendi skilyrði 4. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að taka skýrslu af vitninu A gegnum síma og verður því tekin til greina krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að vitnið A gefi skýrslu fyrir dómi í málinu gegnum síma.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að vitnið A, með dvalarstað í [...], gefi skýrslu fyrir dómi gegnum síma, er tekin til greina.