- Nytjastuldur
- Þjófnaður
- Refsiákvörðun
- Skilorð
|
Fimmtudaginn 8. nóvember 2007. |
Nr. 172/2007. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari) gegn Þór Rúnari Þórissyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Nytjastuldur. Þjófnaður. Refsiákvörðun. Skilorð.
Þ var sakfelldur fyrir nytjastuld með því að hafa tekið bifreið í heimildarleysi og ekið henni þar til hann missti stjórn á henni með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan vegar og gjöreyðilagðist. Þá var hann einnig sakfelldur fyrir þjófnað með því að hafa stolið úr bifreiðinni bílageislaspilara og MP3 spilara. Þ játaði brot sín skýlaust og áfrýjaði málinu einungis til refsilækkunar. Með brotunum rauf Þ skilorð eldri dóms, þar sem hann hafði verið dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi, og var sá dómur tekinn upp og honum ákvörðuð refsing í einu lagi fyrir bæði málin, sem þótti hæfilega ákveðin átta mánaða fangelsi. Í ljósi upplýsinga um betri hegðun Þ og breyttar fjölskylduaðstæður og að teknu tilliti til þess að hann hafði bætt það tjón sem hann hafði valdið var fallist á að refsingin yrði skilorðsbundin að öllu leyti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. febrúar 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst refsiþyngingar.
Ákærði krefst mildunar á refsingu og að hún verði skilorðsbundin.
Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu og ákvörðun refsingar.
Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Þar er staðfest að ákærði hefur stundað reglubundið vinnu frá 2. janúar 2006 og fær hann góða umsögn vinnuveitenda. Þá er fram komið að fjölskylduaðstæður hans hafa breyst, en hann býr nú í Danmörku með sambúðarkonu og barni þeirra. Þegar til þessa er litið sem og þess að hann hefur bætt það tjón sem hann olli, þá þykir mega skilorðsbinda refsingu hans að fullu.
Samkvæmt málskostnaðaryfirliti leiddi engan kostnað af meðferð málsins í héraði og ekki er annar kostnaður af áfrýjun málsins en málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði. Samkvæmt 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal ákærði greiða helming þeirrar fjárhæðar, en helmingur skal greiddur úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Ákærði, Þór Rúnar Þórisson, sæti fangelsi í átta mánuði, en fullnustu refsingarinnar skal frestað og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, skulu vera 186.750 krónur. Ákærði greiði helming þeirrar fjárhæðar, 93.375 krónur, en hinn helmingurinn greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 9. febrúar 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. febrúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Seyðisfirði, útgefinni 22. desember 2006, á hendur Þór Rúnari Þórissyni, [...], óstaðsettum í hús í Hafnarfirði, en með dvalarstað að Grænukinn 28, Hafnarfirði “fyrir nytjastuld, eignaspjöll og þjófnað, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 19. nóvember 2006 tekið bifreiðina UN-[...] í heimildarleysi frá Dynskógum á Egilsstöðum og ekið henni þaðan í gegnum Egilsstaði og eftir Upphéraðsvegi áleiðis inn í Fljótsdal, uns hann missti stjórn á bifreiðinni, með þeim afleiðingum að bifreiðin hafnaði utan vegar og gjöreyðilagðist skammt frá bænum Strönd við Upphéraðsveg og jafnframt stolið úr bifreiðinni bílageislaspilara af tegundinni JVC að verðmæti um 15.000 krónur og MP3 spilara af tegundinni Samsung að verðmæti um 25.000 krónur.
Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr., 1. mgr. 257. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1956, lög nr. 82/1998 og lög nr. 30/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Þá krefst eigandi bifreiðarinnar UN-[...], A, [kt.], þess að ákærði greiði honum skaðabætur vegna tjóns sem hann olli á bifreiðinni, að fjárhæð kr. 604.689,-, auk vaxta skv. 7. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi þann 19. 11. 2006, en síðan auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.”
Um málavaxtalýsingu er skírskotað til ákæru.
Ákærði játaði brot sín skýlaust fyrir dóminum eins og þeim er lýst í ákæru. Þykir með játningu ákærða sem á sér stoð í gögnum málsins sannað að ákærði hafi gerst sekur um nytjastuld og þjófnað eins og þeim brotum ákærða er lýst í ákæru málsins. Ósannað þykir hins vegar að ákærði hafi valdið spjöllum á bifreiðinni UN-[...] af ásetningi, en samkvæmt gögnum málsins missti ákærði stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún fór út af veginum og valt. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að ákærði hafi misst vald á bifreiðinni vegna þess að hann ók of hratt miðað við aðstæður og verður sú háttsemi rakin til gáleysis hans. Með því að ósannað þykir að ákærði hafi velt bifreiðinni og valdið spjöllum á henni af ásetningi verður þessi háttsemi hans ekki heimfærð undir 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga og er hann því sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins að því er varðar eignaspjöll.
Háttsemi ákærða að öðru leyti er hins vegar réttilega heimfærð til 1. mgr. 244. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 82/1998.
Ákærði hefur þrívegis áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Hinn 30. júní 2004 gekkst ákærði undir greiðslu sektar og sviptingu ökuréttar fyrir brot gegn 2. mgr. 44. gr. umferðarlaga. Hinn 13. júlí sama ár var ákærði dæmdur í 3 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir þjófnað, gripdeild, tilraun til þjófnaðar, brot gegn 246. gr. almennra hegningarlaga, eignaspjöll og brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöf. Jafnframt var ákærða gert að greiða sekt. Hinn 25. nóvember 2004 var ákærði dæmdur í 5 mánaða fangelsi fyrir skjalafals, skilorðsbundið í 3 ár, og var dómurinn frá 13. júlí tekinn upp og ákærða gerð refsing í einu lagi fyrir bæði málin.
Með brotum sínum nú hefur ákærði rofið skilorð dómsins frá 25. nóvember 2004. Ber því með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga að taka upp þann dóm og ákveða refsingu í einu lagi fyrir bæði málin í samræmi við 77. gr. almennra hegningarlaga.
Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði hefur frá upphafi gengist greiðlega við brotum sínum og er það honum til refsimildunar. Til þess er hins vegar einnig að líta að ákærði hefur áður gerst sekur um þjófnað og önnur auðgunarbrot. Með hliðsjón af framangreindu þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði. Rétt þykir að fresta fullnustu 5 mánaða af refsivistinni og að sá hluti refsingarinnar falli niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Enginn sakarkostnaður hefur hlotist af málinu og dæmist hann því ekki.
Við þingfestingu málsins samþykkti ákærði bótakröfu eiganda bifreiðarinnar UN-[...] eins og hún er sett fram í ákæru. Er ákærði því dæmdur til að greiða A, [...], bætur að fjárhæð 604.689 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. nóvember 2006 til 6. febrúar 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri.
Dómsorð:
Ákærði, Þór Rúnar Þórisson, sæti fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu 5 mánaða af refsivistinni og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A 604.689 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. nóvember 2006 til 6. febrúar 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.