Print

Mál nr. 147/2006

Lykilorð
  • Ávana- og fíkniefni
  • Framleiðsla
  • Vopnalög
  • Upptaka

Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. desember 2006.

Nr. 147/2006.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Lúðvík Eiríkssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni. Framleiðsla. Vopnalög. Upptaka.

L var í félagi við annan mann sakfelldur fyrir framleiðslu á 110,8 gr. af amfetamíni, og vörslur á tilgreindu magni af vökvum og efnum sem tengdust framleiðslunni og innihéldu amfetamín, metamfetamín og efnið P-2-NP. Þá var L einnig sakfelldur fyrir vörslur á 64,18 gr. af amfetamíni, 193 amfetamíntöflum og loftskammbyssu á heimili sínu og 0,45 gr. af amfetamíni og 10,71 gr. af hassi í bifreið sinni. Talið var að ekki væri komin fram sönnun þess að L hafi ætlað það amfetamín sem hann var sakfelldur fyrir framleiðslu á og 64,18 gr. af því amfetamíni sem hann var sakfelldur fyrir vörslur á, að öllu leyti til sölu. Refsing L var ákveðin með hliðsjón af eindregnum brotavilja hans, alvarleika brotanna, játningu á sakargiftum að talsverðu leyti og aðstoð við lögreglu, sem og 1., 3. og 6. tölulið 1. mgr. og 2. mgr. 70. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. L var dæmdur til 14 mánaða fangelsisvistar og til að sæta upptöku á loftskammbyssu, fíkniefnum, vökvum og efnum sem tengdust fíkniefnaframleiðslu og munum sem notaðir höfðu verið til ólögmætrar meðferðar fíkniefna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 2. febrúar 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu. 

Ákærði krefst sýknu af því að hafa ætlað til sölu 110,8 grömm af amfetamíni, sem hann var sakfelldur fyrir framleiðslu á samkvæmt héraðsdómi, og að hafa ætlað til sölu í ágóðaskyni þau 64,18 grömm af amfetamíni, sem um getur 1. tölulið II. kafla ákæru. Þá krefst hann að refsing verði að öðru leyti milduð og sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

Ekki verður talið að fram sé komin sönnun þess að ákærði hafi ætlað ofangreind fíkniefni að öllu leyti til sölu. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara, 46.354 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir báðum dómstigum, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Ákærði verður einnig dæmdur til að greiða annan sakarkostnað í héraði, 295.815 krónur.

Dómsorð:

       Héraðsdómur skal að vera óraskaður um annað en sakarkostnað.

         Ákærði, Lúðvík Eiríksson, greiði áfrýjunarkostnað málsins, 46.354 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, í héraði og fyrir Hæstarétti samtals 622.500 krónur. Ákærði greiði annan sakarkostnað í héraði 295.815 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 22. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 1. júlí 2005 á hendur Lúðvík Eiríkssyni, kt. 140962-2609, Vesturvör 27, Kópavogi, og X fyrir eftirtalin brot:

I.

Ákærðu báðum fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa um nokkurt skeið fram til 25. nóvember 2003 staðið saman að framleiðslu á a.m.k. 110,83 g af amfetamíni í söluskyni á ofangreindu heimili ákærða Lúðvíks og haft í vörslum sínum á sama stað 8.836 g af vökva og hlaupkenndum efnum og 300 ml af vökva sem í greindist amfetamín og að hluta til metamfetamín auk 1.788 g af efnum sem innihéldu 1-phenyl-2-nitro-1-propene (P-2-NP), en lögregla lagði hald á efnin við húsleit 26. sama mánaðar.

Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 4. gr., 4. gr. a. og 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 10/1997, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

II.

Ákærða Lúðvík fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa haft fíkniefni í vörslum sínum þann 25. nóvember 2003 sem hér greinir:

1. Á ofangreindu heimili sínu 64,18 g af amfetamíni ætluðu til sölu í ágóðaskyni og 193 stk. af 5 mg amfetamíntöflum ávísuðum á A, en lögregla fann efnin við húsleit 26. sama mánaðar.

2. Í bifreiðinni JR-810 á Bústaðavegi í Reykjavík 0,45 g af amfetamíni og 10,71 g af hassi, sem lögregla fann við leit á ákærða.

III.

Ákærða X fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa 25. nóvember 2003 í bifreiðinni JR-810 á Bústaðavegi í Reykjavík haft í vörslum sínum 0,04 g af amfetamíni, sem lögregla fann við leit á ákærða.

Brot skv. II. og III. lið eru talin varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga nr. 65/1974, sbr. 6. gr. laganna, að því varðar ákærulið II,2, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

IV.

Ákærða Lúðvík fyrir vopnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 25. nóvember 2003 átt og haft í vörslum sínum loftskammbyssu af gerðinni B án þess að hafa skotvopnaleyfi, en lögregla fann og lagði hald á vopnið við húsleit á framangreindu heimili ákærða.

Þetta er talið varða við 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr., vopnalaga nr. 16/1998.

V.

Ákærða X fyrir hótanir, með því að hafa á tímabilinu frá 15. október 2004 til 22. apríl 2005 í níu skipti hótað C og D, með tölvupósti og skrifum á heimasíður þeirra og nafngreindrar frænku D, en skrif þessi voru til þess fallin að vekja ótta hjá C og D um líf þeirra og velferð:

1.        Föstudaginn 15. október 2004: “Ég drep þig þegar ég næ þér og í það er mjög stutt.”

2.        Fimmtudaginn 2. desember 2004: “Í dag veit ég um  1stk. E + C + F sem eru búnir að vinna sér inn þokkalega flengingu og hver er nú betri en maðurinn m vöndinn.”

3.        Laugardaginn 4. desember 2004: “Ég klára þetta mál einfaldlega og kem svo og tek í lurginn á ykkur fyrir heimskuna.”

4.        Fimmtudaginn 9. desember 2004: “Niðurtalningin sýnir einfaldlega hvað eru margir dagar í að þessu lífi ljúki sem þú ætlaðir þér að eignast með því að ræna barnið þitt. Eftir að henni lýkur stígur þú inn í alveg nýtt líf, sem búið er að skipuleggja fyrir þig.”

5.        Föstudaginn 10. desember 2004: “Sona getur þú talið sjálfur. Núll daginn þinn, sunnudaginn, væri skynsamlegt hjá þér að nota til þess að biðja fjölskyldu þína fyrirgefningar á því hvað þú ert mikið ómenni. Á mánudaginn verður þú staddur á nákvæmlega mínus einum degi í lífi þínu.”

6.        Föstudaginn 10. desember 2004: “Ef allt gengur smurt (og leðrað) þá mæti ég stundvíslega í afmælið hans G, þá verður búið að losa þig við C fyrir fullt og allt ... p.s. þetta eru ekki kenningar lengur, þetta er verklegt.”

7.        Laugardaginn 26. febrúar 2005: “Núna geturðu hringt og vælt í lögreglunni því að nú er ekki bara verið að hóta ... barnaníðingur, núna ertu í alvöru hættu.”

8.        Laugardaginn 26. febrúar 2005: “Á næstu dögum eða vikum koma til með að hafa samband við þig menn sem  gætu verið í Hells Angels, eða öðrum ámóta karlaklúbbum. Bara sona til að halda ... við efnið, þeir eiga það sameiginlegt að vera meinilla við barnaníðinga.”

9.        Föstudaginn 22. apríl 2005: “D og sérstaklega C ... Og C þegar málið er frágengið sleppur þú ekki lifandi út úr evrópu.”

Þetta er talið varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

VI.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Að því er varðar ákærða X er þess krafist til vara að hann verði dæmdur til að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga.

Jafnframt er þess krafist að gerð verði upptæk skv. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 samtals 175,5 g af amfetamíni, 193 töflur af amfetamíni og 10,71 g af hassi og jafnframt 8.836 g af vökva og hlaupkenndum efnum og 300 ml af vökva, sem í greindist amfetamín og metamfetamín, auk 1.788 g af efnum, sem innihéldu 1-phenyl-2-nitro-1-propene, og skv. 1. mgr. 37. gr. vopnalaga er krafist upptöku á framangreindri loftskammbyssu.  Þá er þess krafist skv. 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 að ákærði Lúðvík sæti upptöku á 2 eldföstum mótum (JO7, K02) og hvítum diski (K01) sem notað var til ólögmætrar meðferðar fíkniefna.

Verjandi ákærða Lúðvíks krefst vægustu refsingar er lög leyfa og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.

Verjandi ákærða X krefst vægustu refsingar er lög leyfa og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.

Óhjákvæmilegt þykir að rekja framburð ákærða Lúðvíks að því er varðar háttsemi skv. I. og II. kafla ákæru í tvígang um tiltekin atriði. Gætir því endurtekningar hér á eftir í I. og II. kafla dómsins.

I. kafli ákæru.

Í lok september 2001 höfðu lögreglunni í Reykjavík borist upplýsingar um að ákærði Lúðvík Eiríksson væri hugsanlega viðriðinn framleiðslu á fíkniefnum og að sú starfsemi færi fram á heimili hans að Vesturvör 27 í Kópavogi. Í kjölfar þess leitaði lögregla eftir úrskurði dómstóla um heimild til að hlusta og hljóðrita símtöl úr og í síma­númer er ákærði hafði yfir að ráða. Með úrskurði 13. nóvember 2003 var lögreglu heimiluð leit á heimili ákærða að Vesturvör 27. Þriðjudaginn 25. nóvember 2003 hafði lögregla afskipti af ákærða sem ökumanni bifreiðarinnar JR-810. Með ákærða í bif­reiðinni voru meðákærði X og annar einstaklingur. Þar sem grunur lék á um ölvun við akstur voru ákærðu og farþegi færðir á lögreglustöð. Við leit fundist í fórum ákærða Lúðvíks 10,71 g af hassi. Þá fundust í bifreiðinni 0,45 g af amfetamíni. Þá fundust á ákærða X 0,04 g af amfetamíni.

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003 fór fram í húsleit að Vesturvör 27 í Kópa­vogi. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að húsnæðið að Vesturvör 27 sé að hluta iðnaðarhúsnæði og að hluta íbúðarhúsnæði. Íbúð ákærða Lúðvíks hafi verið merkt. 03.06. en hún hafi verið um 50 fermetrar að stærð. Húsnæðið hafi skipst niður í forstofu, salerni, sameiginlega stofu og eldhús, svefnherbergi og aukaherbergi. Á stofu­borði hafi verið hvítt efni á veggflísaplötu sem lögregla hafi talið verið amfeta­mín. Í aukaherbergi hafi mátt sjá fjöldann allan af glervörum, tilraunaglösum, plast­brúsum, plastslöngum og ýmsan annan búnað til framleiðslu á amfetamíni. Mikið af vörum hafi innihaldið óþekktan vökva. Í eldhúsi hafi verið glervara með óþekktum vökvum og ýmsar umbúðir er hafi innihaldið hvítt efni, sennilega amfetamín og grunnefni til íblöndunar. Fram kemur að ákærði Lúðvík hafi borið að hann hafi verið að gera tilraunir með að búa til amfetamín. Starfsmenn tæknideildar lögreglu komu á vettvang, sem og starfsmenn Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum. Að ráðleggingum starfsmanna Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum hafi verið haft samband við Slökkvilið Reykjavíkur, þar sem ástæða hafi verið til að óttast efni á staðnum vegna brunahættu og lífrænna leysi- og ætiefna. Lögregla lagði hald á varning í íbúðinni er talinn var hluti af tilraunum til amfetamínframleiðslu.

Ákærði Lúðvík var úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna rannsóknar málsins mið­viku­daginn 26. nóvember 2003. Var hann látinn laus úr varðhaldinu miðviku­daginn 10. desember 2003. Ákærði X var sömuleiðis úrskurðaður í gæslu­varð­hald vegna rannsóknar málsins miðvikudaginn 26. nóvember 2003. Var hann einnig látinn laus úr varðhaldinu miðvikudaginn 10. desember 2003.

Í skýrslu lögreglu um haldlagða muni eru færð tilvik merkt A 01 til A 04, B 01 til B 19, C 01 til C 14, D 01 til D 06, E 01 til E 09, F 01 til F 65, G 01 til 16, H 01 til H 81, I 01 til I 26 og J 01 til J 61. Samkvæmt efnaskýrslu tæknideildar hafi efnin verið litaprófuð 22. desember 2003 og eftirfarandi niðurstöður komið fram:

Efnaskrárnúmer 10-2003-831:

Nr. 1, sýni merkt J 48, 1,25 g af amfetamíni.

Nr. 2, sýni merkt J 49, 0,19 g af amfetamíni

Nr. 3, sýni merkt J 50, 0,85 g af amfetamíni.

Nr. 4, sýni merkt J 51, 0,14 g af amfetamíni.

Nr. 5, sýni merkt J 52, 0,60 g af amfetamíni.

Alls 3,03 g af amfetamíni.

Efnaskrárnúmer 10-2003-832:

Nr. 1, sýni merkt I 12, 2,40 g af amfetamíni

Nr. 2, sýni merkt I 12, 2,39 g af amfetamíni.

Nr. 3, sýni merkt I 12, 4,88 g af amfetamíni

Nr. 4, sýni merkt I 12, 27,11 g af amfetamíni

Nr. 5, sýni merkt I 13, 11,41 g af amfetamíni

Nr. 6, sýni merkt I 21, 168,66 g af óþekktu efni til

Nr. 7, sýni merkt I 24, 108,62 g af amfetamíni

Nr. 8, sýni merkt I 25, 0,22 g af amfetamíni

Nr. 9, sýni merkt I 26, 14,95 g af amfetamíni.

Alls 171,98 g af amfetamíni og

168,66 g af efni sem ekki hafi verið skilgreint.

Efnaskrárnúmer 10-2003-850:

Nr. 1, sýni merkt J 09, 193 stykki af amfetamíntöflum.

Rannsóknarstofa í lyfja- og eiturefnafræðum hefur 15. og 19. janúar 2004 ritað matsgerðir vegna sýna er lögregla lagði hald á við rannsókn málsins. Samkvæmt matsgerð frá 15. janúar hafi sýni úr efnaskrárnúmeri 10-2003-832 verið rannsökuð. Sýni nr. 4 hafi verið rannsakað og niðurstöður bent til þess að amfetamín hafi að mestu verið í formi amfetamínsúlfats. Magn amfetamínsbasa í sýninu hafi verið 20%, sem samsvari 27% af amfetamínsúlfati. Úr sama efnaskrárnúmeri hafi sýni merkt nr. 6 verið hvítt duft, 5,85 g að þyngd. Sýnið hafi innihaldið blöndu af sykrum, en engin þekkt lyf eða ávana- eða fíkniefni. Úr sama efnaskrárnúmeri hafi sýni merkt nr. 7 verið fölbleikt duft 5,51 g að þyngd. Efnapróf hafi bent til þess að amfetamín hafi þar að mestu verið í formi amfetamínsúlfats. Magn amfetamínbasa hafi verið 10%, sem samsvari 14% af amfetamínsúlfati. Úr sama efnaskrárnúmeri hafi sýni merkt nr. 9 verið gulleitt duft 3,16 g að þyngd. Efnapróf hafi bent til þess að amfetamín hafi þar að mestu verið í formi amfetamínsúlfats. Magn amfetamínbasa hafi verið 48%, sem samsvari 65% af amfetamínsúlfati.

Samkvæmt matsgerð frá 19. janúar hafi sextán ílát merkt G 01 til G 16 verið rannsökuð. Úr ílátunum, sem hafi innihaldið tvo vökvafasa, hafi fasar verið aðskildir og mældir sérstaklega. Botnfall hafi verið síað frá, þurrkað og þvegið. Að því loknu hafi sýni verið tekin úr öllum ílátunum, mismunandi fösum og botnfalli. Í framburði sakborninga hafi komið fram lýsing á vel þekktu framleiðsluferli fyrir amfetamín. Þeirri framleiðslu megi skipta í tvennt. Fyrri hlutinn sé framleiðsla á 1-phenyl-2 nitro-1-proppe (P-2-NP) úr bensaldehýði og nitróetan, en það sé meðal annars þekkt milli­efni í framleiðslu amfetamíns og metamfetamíns. Því efni sé lýst sem gulum kristöllum. Seinni hlutinn sé afoxun P-2-NP í amfetamín í lausn með ál-saltsýru-kvikasilfursblöndu. Að lokum sé amfetamínið hreinsað úr hvarfablöndunni og fellt út sem amfetamínsúlfat.

Ljóst sé að innihald sex íláta, þ.e. G 01, G 02, G 12 til G 14 og G 16 tengist fyrri hluta framleiðsluferlisins. Þau innihaldi öll sama efnið, sem niðurstöður rannsókna bendi eindregið til að sé 1-phenyl-2-nitro-1-propene (P-2-NP). Gera megi ráð fyrir að ílát G 01 og G 02 innihaldi hvarfablöndu úr fyrri hluta framleiðsluferlisins. G 12 til G 14 innihaldi etanóllausn P-2-NP, sem líklegt sé að tengist hreinsun og endurútfellingu P-2-NP og gera megi ráð fyrir að kristallar sem komi fram séu nothæft hráefni í seinni hluta framleiðsluferlisins. Ílát G 16 hafi innihaldið þurra kristalla P-2-NP, sem sé tilbúið hráefni í seinni hluta framleiðsluferlisins.

Í innihaldi íláta G 03 til G 08 og G 11 hafi greinst amfetamín og tveimur þeirra, G 05 og G 08, einnig metamfetamín. Því megi telja víst að innihald þeirra tengist síðari hluta framleiðsluferlisins. Í ílátum G 04 og G 07 hafi verið hlaupkennt súrt efni og megi gera ráð fyrir að innihaldið sé hvarfblanda úr seinni hluta fram­leiðsluferlisins, áður en hafist sé handa við hreinsun amfetamíns úr blöndunni. Þrjú ílátanna, G 03, G 05 og G 11, hafi innihaldið tvo vökvafasa og tengist því líklega úrhlutun amfetamíns úr hvarfablöndunni yfir í lífrænan leysi, sem sé hluti af hreinsun amfetamíns. Loks hafi tvö ílát, G 06 og G 08 líklega innihaldið afganga úr hreinsunarferlinu. Miðað við þær niðurstöður sé ljóst að á staðnum hafi verið tvær hvarfablöndur, þ.e. G 04 og G 07, af seinni hluta framleiðsluferilsins og þrjú ílát, eða G 03, G 05 og G 11, sem hafi innihaldið blöndu sem bendi til hreinsunar á amfetamíni úr hvarfablöndum. Innihald þessara fimm íláta tengist því allt framleiðslu á amfetamíni og greinilega hafi fleiri en ein hvarfablanda verið í vinnslu á sama tíma.

Að lokum hafi þrjú ílát hvorki innihaldið amfetamín né P-2-NP. Í íláti G 09 hafi verið brennisteinssýra, sem nota megi til að fella út amfetamínsúlfat og tengist því lokaskrefi framleiðsluferlisins. Í íláti G 10 hafi verið ,,toluene”, sem sé lífrænt leysi­efni sem nota megi m.a. við úrhlutun amfetamíns úr seinni hvarfablöndunni. Það geti líka verið notað í öðrum hlutum framleiðsluferlisins. Að lokum hafi ílát merkt G 15 innihaldið sápu, sem hugsanlega hafi verið notuð til hreinsunar á þeirri glervöru sem notuð hafi verið í framleiðslunni. Með matsgerð rannsóknarstofunnar fylgir excel skrá þar sem efni þessi eru sundurliðuð miðað við þyngd, lýsingu á efni og innihaldi. 

Ákærði Lúðvík Eiríksson var fyrst yfirheyrður af lögreglu 26. nóvember 2003. Við það tilefni kvaðst ákærði viðurkenna að hafa framleitt amfetamínsúlfat. Hann hefði ekki dreift því til annarra eða selt það. Kvaðst ákærði hafa framleitt efnið þar sem honum hafi ekki líkað það amfetamín er væri á boðstólum á Íslandi. Auk þess kvaðst ákærði hafa áhuga á efnafræði. Ákærði kvað ýmislegt ,,dót” hafa verið í íbúð sinni að Vesturvör 27 sem tengdist áhuga hans á efnafræði, ekki endilega framleiðslu á amfetamíni. Eitthvað af búnaðinum hafi verið notaður til framleiðslu á amfetamíni. Inni í bakarofni hafi verið um 20 g af hreinu amfetamínsúlfati, á eldhúsbekk vökvi sem félli til við framleiðslu amfetamíns, efni í ísboxi innpakkað í álpappír sem hægt væri að breyta í amfetamín. Í herberginu hafi verið amfetamínbasi í vökvaformi. Í bakarofni hafi verið amfetamín sem búið hafi verið að blanda í ,,lactosa”. Í efri skáp hafi verið efni sem ákærði hafi fengið ,,hjá einhverjum manni.” Efnið hafi verið í tveim staukum og plastpoka.

Ákærði kvað meðákærða hafa tekið þátt tilraunum til framleiðslu amfeta­mínsins og verið viðstaddur allar tilraunir nema þá fyrstu, sem hafi mistekist algerlega. Alls hafi verið gerðar sex tilraunir til framleiðslu. Kvaðst ákærði hafa átt öll grunnefnin sem hafi þurft til framleiðslunnar. Ákærði kvaðst hafa byrjað á því að búa til ,,Nistrostyren” úr Benzaldehyd og Nitroetan, og sem hvata hafi ákærði notað butylamin og cyklohexylamin. Eftir það hafi þurft að afoxa Nitrostrynið sem gert hafi verið með þeim hætti að virkja ál með kvikasilfurclórýði þannig að úr hafi orðið álamalgam. Hafi ákærði notað saltsýru til að gera það súrt. Út úr því kæmi amfetamín með fullt af aukaefnum. Eftir það væri amfetamínið hreinsað með því að gera það ýmist súrt eða basískt. Afurðin væri að lokum prófuð með því að taka efnið í nefið. Fyrsta tilraunin hafi mistekist en í þeirri næstu hafi verið skipt út metanóli yfir í etanól. Afraksturinn hafi verið milli 8-10 g af hreinu amfetamíni. Hafi ákærði prufað eitthvað af amfetamíninu sjálfur og verið ,,nokkuð sáttur” við útkomuna. Umrætt efni væri síðan blandað niður í um 15% styrkleika. Ekkert af efninu hafi verið selt og hafi megnið af því verið í íbúðinni er lögregla hafi framkvæmt þar leit.

Ákærði kvaðst neyta amfetamíns sjálfur. Hafi hann byrjað neyslu sína 18 ára og notað fíkniefni nokkuð stöðugt. Hafi hann selt amfetamín, þó ekki úr eigin framleiðslu. Hafi hann selt efnið fyrir annan mann, sem ákærði kvaðst ekki vilja nafngreina. Ekki hafi verið ákveðið fyrir fram hve mikið ákærði hafi átt að bera úr býtum fyrir hvert selt gramm. Kvaðst ákærði hafa verið að fá til sín allt frá 1.000 krónum og upp í 4.000 krónur fyrir hvert gramm. Af því hafi síðan farið kostnaður, m.a. vegna íblöndunarefna. Ákærði kvaðst hafa drýgt efnið til helminga með mjólkursykri. Ákærði kvaðst upp á síðkastið hafa fjármagnað fíkniefnaneyslu svo og aðra framfærslu með sölu fíkniefna. Lögregla hafi fundið efni í efri skáp í eldhúsi í íbúðinni. Um væri að ræða efni er ákærði hafi verið að selja fyrir ónefnda einstaklinginn. Hafi ákærði pakkað efnunum í plastpoka. Er undir ákærða var borið að lögregla hafi lagt hald á 193 stykki af 5 mg amfetamíntöflum ávísuðum á A kvað ákærði töflurnar ekki tengjast tilraunastarfseminni. Þá tengdust amfetamíntöflurnar ekki ,,nafni á glasinu.” Er undir ákærða voru bornar matsgerðir Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum frá 15. og 19. janúar 2004 kvaðst hann ,,sáttur við þessa niðurstöðu.” Þá kvað hann þá lýsingu á framleiðsluferlinu er fram kæmi í matsgerðunum vera rétta lýsingu á framleiðsluferlinu. 

Að kröfu lögreglustjórans í Reykjavík gaf ákærði skýrslu fyrir dómi 10. desember 2003. Bar hann að miðað við þá reynslu sem ákærðu hefðu hefði ,,þetta” ef til vill skilað um 50-60 g af hreinu amfetamínsúlfati. Er lögregla hafi framkvæmt húsleit hafi ákærðu verið búnir að búa til um 20 g af amfetamínsúlfati. Ákærðu hafi verið búnir að blanda megninu af því með um 15% styrkleika. Ákærði bar að meðákærði hafi tekið þátt í framleiðslunni en um hafi verið að ræða sameiginlegt verkefni sem ákærðu hafi tekið sér fyrir hendur. Engin hlutverkaskipting hafi verið ákveðin. Hráefnin hafi þó stafað frá ákærða. Er ákærði var inntur eftir hvernig ætlunin hafi verið að skipta afurðum kvað ákærði þeim mundu hafa verið skipt til helminga. Ákærði kvaðst viðurkenna að hafa selt fíkniefni fyrir aðra. Kvaðst ákærði hafa haft viðurværi sitt í einhvern tíma af því að ,,selja áfram eitthvert amfetamínafbrigði að ég tel.” Kvaðst ákærði ef til vill hafa fengið um fimm til sex stóra skammta af amfetamíni, sem hann hafi sett niður í 20 g einingar. Kvaðst ákærði hafa selt megnið af efnunum beint úr bíl sínum á Reykjavíkursvæðinu.

Við þingfestingu málsins fyrir dómi bar ákærði að hann teldi verknaðarlýsingu í I. kafla ákæru rétta og að hann mótmælti ekki magntölum í þeim ákærulið. Framleiðslan hefði ekki verið í söluskyni og héldi hann uppi vörnum á þeim grund­velli. Kvaðst ákærði hafa verið að framkvæma tilraunir með að framleiða amfetamín. Kvaðst hann ekki vita hvað meðákærði hafi verið að gera. Þeir hafi ekki verið í samstarfi um framleiðslu á efnum og hafi hvor um sig útvegað sér þau efni er þeir hafi þurft til sinna starfa. Ákærði kvað ómögulegt að ákvarða afkastagetu í framleiðslu­ferlinu. Hafi ýmis framleiðsluferli átt eftir að fara af stað er lögregla hafi framkvæmt húsleit að Vesturvör 27. Hafi ákærði ekki verið með neinar væntingar um afraksturinn en framleiðslan hafi ekki verið gerð í þeim tilgangi að fá eitthvað magn af efnum út. Tilgangurinn hafi aðallega verið að búa til hreint amfetamín til eigin neyslu. Að öðru leyti hafi starfsemin farið fram af hreinum áhuga ákærða á efnafræði. Ákærði kvaðst kjósa að tjá sig ekki um hvar hann hafi fengið 64,18 g af amfetamíni er lögregla hafi lagt hald á og fram kæmi í 1. tl. II. kafla ákæru. Hafi hann ekki verið búinn að ákveða hvað hann ætlaði að gera við það efni. Einn möguleiki hafi verið að nota efnið til samanburðar við þau efni er ákærði fengi út úr tilraunum sínum. Kvaðst ákærði því alfarið mótmæla því að hann hafi staðið að framleiðslu á fíkniefnum í söluskyni. Undir ákærða var borin lögregluskýrsla frá 2. desember 2003 þar sem hann á bls. 6 er inntur eftir því hvort hann hafi selt fíkniefni. Ákærði kvað það svar er hann hafi gefið lögreglumanninum vera rétt. Þá var borin undir ákærða lögregluskýrsla frá 9. desember 2003 þar sem hann á bls. 3 var inntur eftir því hvort hann fjármagni fíkni­efna­neyslu sína svo og framfærslu með því að selja öðrum fíkniefni. Ákærði kvað lögreglumanninn hafa fært í skýrsluna það svar sem ákærði hafi gefið. Hann hafi þó misskilið spurninguna að því er varðaði ,,framfærslu”. Hið rétta væri að hann hafi afhent öðrum amfetamín, en eingöngu hafi um lítið magn verið að ræða. Á þessum tíma hafi hann starfrækt einkahlutafélag og hafi hann verið með tekjur úr þeim rekstri. Undir ákærða var borin skýrsla hans fyrir dómi 10. desember 2003 og svar um að ákærði hefði viðurværi sitt í einhvern tíma af því að selja áfram eitthvað amfetamínafbrigði. Ákærði kvaðst ekki skilja orðið ,,viðurværi”. Hið rétta væri að hann hefði fengið einhverja peninga fyrir sölu á efnum. Hann hafi hins vegar misskilið orðið ,,viðurværi” með sama hætti og hann hafi misskilið orðið ,,framfærsla”.   

Ákærði X var fyrst yfirheyrður af lögreglu 26. nóvember 2003. Kvaðst hann hafa kynnst meðákærða um tveim árum fyrir handtöku lögreglu. Þá hafi ákærða vantað amfetamín og leið legið til meðákærða. Í framhaldi hafi ákærðu neytt amfetamíns af og til saman. Hafi ákærði sett sig í samband við meðákærða um mitt ár 2003 til að kanna hvort meðákærði ætti amfetamín. Í kjölfarið hafi þeir átt nokkra fundi saman þar sem m.a. hafi verið rætt um að reyna að búa til amfetamín. Kvaðst ákærði hafa haft vitneskju um að meðákærði ætti ýmsar glervörur til fram­leiðslu á amfetamíni. Hafi þeir tekið til við að gera tilraunir með að búa til amfetamín. Hafi þeir framkvæmt alls sex tilraunir. Úr þeim hafi komið eitthvað af amfetamíni og kvaðst ákærði telja að efnið hafi verið nokkuð gott. Hafi þeir staðið að framleiðslunni í íbúð meðákærða að Vesturvör 27 í Kópavogi. Kvaðst ákærði neyta fíkniefna og hafa verið með eitthvað af efni á sér úr framleiðslu þeirra er lögregla hafi haft afskipti af þeim. Kvaðst ákærði einungis hafa staðið að framleiðslunni til að afla sér amfetamíns til eigin neyslu. Hann hafi hins vegar ekki komið nálægt dreifingu eða sölu fíkniefna. Ákærði var á ný yfirheyrður af lögreglu 28. nóvember 2003. Bar hann að upphaflega hafi meðákærði átt tiltekið magn af grunnefnum og hafi þeir ákveðið að framleiða úr því efni. Ef til kæmi að selja amfetamínið hefði það fallið í hlut meðákærða, enda félli slík starfsemi ,,ekki að minni manngerð.” Ákærði kvað fyrstu tilraun hafa mistekist en hana hafi ákærði ekki verið viðstaddur. Kvaðst ákærði telja að þeir hafi verið búnir að búa til um 300 g af grunnefnum. Hafi þeir engan mælikvarða haft á gæði þess amfetamíns er þeir hafi búið til. Væntingarnar hafi verið þær að grunnefnið myndi skila allt upp að 40% af amfetamínsúlfati. Fyrstu tilraunir hafi ekki gefið gott efni, en í seinni skiptin hafi það hins vegar verið nokkuð gott. Ákærðu hafi ekki tekist að búa til alveg hreint amfetamín, hvítt og laust við öll aukaefni. Kvaðst ákærði telja að ekkert efni hafi verið selt er lögregla hafi framkvæmt húsleit að Vesturvör 27. Kvaðst ákærði ekki hafa lagt neina fjármuni í framleiðsluna. Hafi framlag hans verið fólgið í vinnu. Hafi meðákærði ákveðið að blanda ákærða í vinnuna þar sem ákærði hafi haft tilteknar hugmyndir um hvernig unnt væri að auka framleiðnina og gæðin. Ákærði kvaðst hafa notað fíkniefni um einu sinni í viku. Hafi hann eingöngu notað amfetamín. Kvaðst ákærði einungis hafa fengið efni hjá meðákærða og hafi hann reynt að ,,sníkja” sem mest af efnum. Hafi hann helst ekki notað þau ef hann hafi þurft að borga fyrir þau.

Að kröfu lögreglustjórans í Reykjavík gaf ákærði skýrslu fyrir dómi 10. desember 2003. Kvaðst ákærði viðurkenna að hafa gert tilraunir með að framleiða amfetamín að Vesturvör 27 í Kópavogi. Ákærðu hafi staðið saman að þeim tilraunum. Meðákærði hafi séð um að afla hráefna, en mikið af þeim hafi meðákærði átt. Kvaðst ákærði hafa gert sér vonir um að 15-40% af amfetamínsúlfati kæmi út úr framleiðslunni. Kvaðst ákærði telja að ákærðu hafi framleitt um 200 g af hráefni og hafi verið reiknað með að fá úr þeim um 15-40% af súlfati. Hafi ákærði ætlað að ,,taka sér” eitthvað af sínu uppáhaldsefni en að meðákærði myndi ,,bara sjá um afganginn og hann hefði þá væntanlega greitt mér vinnulaun ef til hefði komið.” Um það hafi ákærðu rætt lauslega.

Við þingfestingu málsins fyrir dómi bar ákærði að hann teldi verknaðarlýsingu í I. kafla ákæru rétta og að hann mótmælti ekki magntölum í þeim ákærulið. Framleiðslan hafi ekki verið í söluskyni og héldi hann uppi vörnum á þeim grundvelli. Kvað hann 110,83 g af amfetamíni er lögregla hafi lagt hald á ekki hafa verið hreint amfetamín. Niðurstöður í matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum frá 15. janúar 2004 þar sem efnasýni lögreglu nr. 7 sýni m.a. fram á það. Það fram­leiðsluferli er ákærðu hafi stuðst við hafi miðað við fræðilega útkomu. Í framkvæmd hafi það þó ekki staðist að því er varðaði magntölur er geti komið út úr slíkri framleiðslu. Færi það eftir aðstæðum hverju sinni. Ákærðu hafi framkvæmt fjórar eða fimm tilraunir og hafi reynslan úr þeim gefið á milli 10 til 20 g. af hreinu amfetamíni úr hverri tilraun. Efni úr framleiðsluferlinu væri síðan kristallað yfir í amfetamínsúlfat. Efnið væri síðan þynnt út með mjólkursykri, eða laktósa, áður en það væri notað. Áðurnefnt efnasýni lögreglu nr. 7 hafi verið þynnt út með mjólkursykri. Ákærði kvað rétt vera að lögregla hafi lagt hald á 8.836 g af vökva og hlaupkenndum efnum og 300 ml af vökva sem í hafi greinst amfetamín og metamfetamín. Ekki lægi fyrir hve mikið af hreinu amfetamíni hafi verið í þessum efnum og væri það í samræmi við niður­stöður á bls. 2 í matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum frá 19. janúar 2004. Einnig gæti staðist að lögregla hafi lagt hald á 1.788 g af efnum sem hafi innihaldið P-2-NP efnum. Efnið hafi ekki verið hreint og eitthvað af því uppleyst í alkóhóli.

Ákærði kvað engan sérstakan hafa átt frumkvæði að framleiðslu efnanna. Hafi ákærðu einfaldlega orðið ásáttir um að framleiða efni. Ákærði hafi útvegað tæki og efni til framleiðslunnar. Hafi engin hlutverkaskipting verið ákveðin. Undir lokin hafi meðákærði orðið þreyttur á starfseminni og ákærði þá séð um framleiðsluna. Þeir félagar hafi tekið á bilinu 30 til 60 g af amfetamíni úr framleiðslunni. Lögregla hafi lagt hald á 300 ml af hráefni í formi vökva. Úr því hafi verið unnt að framleiða í mesta lagi 20% af efni og í minnsta lagi 10%. Efni það sem hafi komið út hafi væntanlega verið selt þar sem ákærðu hafi ekki þurft að vera með slíkt magn undir höndum fyrir þá sjálfa. Væntanlega hafi fallið í hlut meðákærða að selja efnið þar sem ákærði hafi ekki haft áhuga á slíkri sölu. Tilgangur með framleiðslunni hafi því verið að eignast fíkniefni og peninga.  

H lyfjafræðingur staðfesti matsgerðir Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum frá 15. og 19. janúar 2004. Kvað hún starfmenn rannsóknar­stofunnar hafa verið kallaða á vettvang í kjölfar húsleitar lögreglu að Vesturvör 27 í Kópavogi. Í íbúðinni hafi verið mikið af dóti. Ýmis tæki og tól hafi verið þar sem og leysiefni og ýmis efni. Starfsemi hafi greinilega verið í gangi er lögregla hafi farið inn í íbúðina. Greinilegt hafi verið að ýmsar breytingar hafi verið gerðar á íbúðinni til að framleiðsla gæti farið fram. Tilraunir hafi greinilega staðið yfir í einhvern tíma.

Rannsóknarstofan hafi fengið til umsagnar hluta af framburðum ákærðu og teikningar er þeir hafi sett niður á blað við lögreglurannsóknina. Hafi tilgangurinn verið að athuga hvort framleiðsla á amfetamíni hafi farið fram í íbúðinni. Það fram­leiðslu­ferli er ákærðu hafi stuðst við væri þekkt aðferð við framleiðslu á amfetamíni og ekki flókin efnasmíð. Upplýsingar um ferlið væri hægt að nálgast víða, t.a.m á internetinu. Einstaklingar með þekkingu á efnafræði gætu því gert tilraunir með framleiðslu. Tilteknum upphafsefnum væri blandað saman og þau látin hvarfast. Úr því fengist milliefni sem þyrfti að hreinsa. Það efni væri notað áfram og úr því fengið efni. Um væri því að ræða tveggja þrepa hvarf. Fyrri hluti framleiðsluferlisins væri óvissara en það síðara. Báðir hlutar framleiðsluferlisins gætu verið í gangi á sama tíma. Öllu ferlinu væri þó hægt að ljúka á einhverjum dögum. Efnið P-2-NP hafi verið á vettvangi, en efnið væri milliefni í framleiðsluferli amfetamíns. Magn efnisins hafi verið 1.788 g. Erfitt væri að fullyrða hve mikið af hreinu nothæfu milliefni kæmi út úr því magni. Ákærðu hafi borið að þeir hafi framkvæmt 6 tilraunir, en þar af hafi ein mistekist. Um 10 g af amfetamínsúlfati hafi getað komið úr hverri blöndu og í seinni hluta tilrauna um 40 g miðað við framburð ákærðu. Efnismagnið væri því á bilinu 40-60 g í það heila. Rannsóknarstofan hafi fengið efnasýni nr. 7 frá lögreglu til rann­sóknar. Niðurstöður kæmu fram í matsgerð rannsóknarstofunnar frá 15. janúar 2004. Svo sem þar kæmi fram hafi magn amfetamínbasa verið 10% sem samsvari 14% af amfetamínsúlfati. Glúkósi og laktósi væru ekki hluti af framleiðsluferlinu sem bendi til að efnið hafi verið þynnt niður í algengan styrk á amfetamíni sem ætlað væri til neyslu. Að því er varðaði matsgerðina frá 19. janúar kæmi fram að til rannsóknar hafi verið 7 ílát þar sem amfetamín hafi fundist. Sýni G 04 og G 07 hafi verið hlaupkennd. Um hafi verið að ræða blöndu úr seinni hluta framleiðsluferlisins. Önnur efni hafi verið lífræn leysiefni sem hafi innihaldið amfetamín. Engar styrkleikamælingar hafi verið framkvæmdar og óvíst hvað þau efni hafi leitt af sér.

I rannsóknarlögreglumaður staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins. Kvaðst hann hafa stjórnað rannsókninni á sínum tíma og farið á vettvang. Greinilegt hafi verið að framleiðsla á amfetamíni hafi staðið yfir er lögregla hafi framkvæmt húsleit að Vesturvör 27. Nokkra daga hafi tekið að flokka þau efni niður er hafi verið í herbergi í íbúðinni. Einnig hafi verið mikið af dóti í eldhúsi. Lögregla hafi fundið fullunnið efni, m.a. í bakarofni í íbúðinni. Þá hafi einnig fundist efni er augljós­lega hafi ekki verið hluti af framleiðslunni, en greinilegur litamunur hafi verið á því efni og þeim er framleidd hafi verið á staðnum. Hafi það komið heim og saman við þann framburð ákærða Lúðvíks hjá lögreglu að hann hafi verið með efni hjá sér er hann hafi verið að selja fyrir annan mann. Þetta efni hafi verið geymt í eldhús­innréttingu í eldhúsi íbúðarinnar. Efnið hafi verið gulleitt, á meðan annað efni í fram­leiðslunni hafi verið bleikt á litinn. Sími hjá ákærða Lúðvík hafi verið hleraður á þessum tíma. Af þeim hlerunum hafi lögregla ráðið að ákærði væri að selja fíkniefni. I kvað ákærðu báða hafa verið samstarfsfúsa og hafa lagt sig fram við að aðstoða lögreglu og skýra það framleiðsluferli er þeir hafi notast við.

Niðurstaða:       

Ákærðu hafa báðir viðurkennt að hafa staðið að tilraunum til að framleiða amfetamín og lýst yfir að efnismagn sem tilgreint er í ákæru sé rétt. Þeir hafa synjað fyrir að hafa framleitt efnið í söluskyni og hafa haft uppi fyrirvara um hve mikið af amfetamíni unnt hafi verið að framleiða með þeirri aðferð er þeir hafi notað. Ákærðu hafa báðir lýst því framleiðsluferli er þeir hafi stuðst við. Fram kemur að ferlið hafi verið tveggja þrepa, þar sem tiltekin efnablanda hafi verið látin hvarfast svo úr yrði milliefnið P-2-NP. Það milliefni hafi aftur verið látið hvarfast svo úr yrði amfetamín­súlfat. Súlfatið hafi síðan þurft að hreinsa með því að gera ýmist súrt eða basískt. Afraksturinn yrði amfetamín. Ákærðu bera báðir að gerðar hafi verið sex tilraunir til framleiðslu á amfetamíni og hafi sú fyrsta mistekist. Bera þeir einnig að þeir hafi gert ráð fyrir að fá á bilinu 10 til 20 g af hreinu amfetamínsúlfati úr hverri tilraun. Þá hafa þeir lýst yfir að þeir hafi reiknað með að blanda í efnið mjólkursykri eða glúkósa.

H lyfjafræðingur á Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefna­fræðum hefur staðfest að sú aðferð er ákærðu hafi stuðst við sé þekkt við framleiðslu á amfetamíni. Þá hafi efni er lögregla hafi lagt hald á og Rannsóknarstofa í lyfja- og eiturefnafræðum fengið til rannsóknar staðfest að þetta framleiðsluferli hafi verið í gangi að Vesturvör 27. Hafi hluti haldlagðra efna komið úr fyrri hluta framleiðslu­ferlisins en önnur efni úr því síðara. Einnig hafi lögregla lagt hald á efni sem tengist framleiðslu á amfetamíni, svo sem etanóllausn, brennisteinssýru og sápu.

 Í ákæru er ákærðu í fyrsta lagið gefið að sök að hafa um nokkurt skeið fram til 25. nóvember 2003 staðið saman að framleiðslu á a.m.k. 110,83 g af amfetamíni í söluskyni á heimili ákærða Lúðvíks að Vesturvör 27 í Kópavogi. Efnaskýrslur lögreglu nr. 10-2003-831 og 10-2003-832 tilgreina efni sem lögregla lagði hald á og færði í hendur Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum. Þá geta matsgerðir rannsóknarstofunnar frá 15. og 19. janúar 2004 um niðurstöður prófana og ályktanir þær sem H gerði grein fyrr í réttinum. Lögregla hefur lagt hald á efni sem merkt hafa verið J 48, J 49, J 51, J 52 og I 24 í munaskrá lögreglu. Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglu frá 5. janúar 2004 um haldlagningu muna, merkt II-2.1, bls. 47 í rannsóknargögnum málsins, er ekki tilgreint sérstaklega hvar efni merkt J 48, J 49, J 51 og J 52 hafi fundist. Efni merkt I 24 fannst hins vegar í eldföstu móti í bakarofni, sbr. skýrsla lögreglu um haldlagningu muna frá 26. nóvember 2003, merkt II-2.1, bls. 34 í rannsóknargögnum málsins. Efni þessi eru tilgreind nr. 1, 2, 4 og 5 í efnaskýrslu nr. 10-2003-831 og nr. 7 í efnaskýrslu nr. 10-2003-832 að því er varðar I 24. Nema þau samtals 110,80 g, en ekki 110,83 g svo sem ákæra miðar við. Verður í niðurstöðu miðað við 110,80 g. Samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum frá 19. janúar 2004 er stærstur hluti þessa efnis, eða 108,62 g, merkt nr. 7 í efnaskýrslu. Er um að ræða efni er fundust í bakarofni. Samkvæmt matsgerðinni innihélt efni þetta amfetamín, glúkósa og laktósa. Bentu efnapróf til að amfetamínið væri að mestu í formi amfetamínsúlfats. Hafi mælingar gefið til kynna að magn amfetamínsúlfats hafi numið 14%. H hefur borið að niðurstaða rannsóknarinnar hafi þar með leitt í ljós að ákærðu hafi verið búnir að blanda efnið með venjubundnum aukaefnum, svo sem glúkósa. Þar með liggur fyrir að efnið er ekki hreint amfetamín og verður að telja styrkleika 110,80 g af amfetamíni hafa miðast við styrkeika sem gjarnan er við sölu á amfetamíni.

Í annan stað er ákærðu gefið að sök að hafa haft í vörslum sínum 8.836 g af vökva og hlaupkenndum efnum, 300 ml af vökva sem í greindist amfetamín og að hluta metamfetamín og loks 1.788 g af efnum, sem innihéldu P-2-NP. Matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum 19. janúar getur um ílát með efnum er rannsóknarstofan fékk til rannsóknar og tengjast framleiðsluferlinu. Samkvæmt skrá er fylgir matsgerðinni og merkt er R-03380, eru sýni merkt G 03, G 04, G 05, G 06, G 07 og G 11 samtals 8.836 g af vökva og hlaupkenndum efnum. Kemur fram að amfetamín hafi greinst í þeim. Í matsgerðinni er talið víst að efnin tengist síðari hluta framleiðsluferlisins. Sýni nr. G 08 er glerflaska með 300 ml af rauðbrúnum tærum vökva sem inniheldur amfetamín. Í matsgerðinni er rakið að efnið hafi líklega verið afgangur úr hreinsunarferli. Loks kemur fram í skrá R-03380 að sýni nr. G 01, G 02, G 12, G 13, G 14 og G 16 hafi innihaldið P-2-NP en þau hafi vegið samtals 1.788 g. Samkvæmt matsgerðinni tengjast þau fyrri hluta framleiðsluferlisins. Er það í samræmi við þann framburð ákærðu og H að fyrri hluti framleiðsluferlisins skili af sér milliefninu P-2-NP, sem síðan fari inn í síðari hluta ferlisins. H bar fyrir dómi að engar styrkleikamælingar hafi verið framkvæmdar á þessum efnum og óvíst hvað þau hafi leitt af sér.  

Við skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndu ákærðu báðir að hafa staðið sameiginlega að tilraunum við framleiðslu á amfetamíni. Ákærði X hefur fyrir dómi borið um atvik á sama veg. Ákærði Lúðvík hefur hins vegar fyrir dómi synjað fyrir að um samstarf hafi verið að ræða með þeim félögum. Þegar litið er til framburða ákærðu hjá lögreglu og með vísan til afdráttarlauss framburðar ákærða X verður slegið föstu að þeir hafi unnið að framleiðslunni í félagi. Ákærði Lúðvík bar við lögregluyfirheyrslu að hann hafi neytt fíkniefna nánast samfellt frá 18 ára aldri. Jafnframt hafi hann selt fíkniefni fyrir aðra og gerði nokkra grein fyrir tilhögun þess. Kvaðst hann hafa framfleytt sér með sölu fíkniefna og hafa haft viðurværi sitt að hluta af sölunni. Ákærði X bar að efni þau er ákærðu hafi gert ráð fyrir að fá úr framleiðslunni yrðu meiri en svo að þeir hefðu not fyrir þau öll sjálfir. Hafi verið rætt lauslega um að selja hluta afrakstursins. Þegar litið er til þessara atriða og horft til þeirra ráðstafana er ákærðu höfðu ráðist í til að koma framleiðsluferli amfetamíns í gang, m.a. með því að afla sér viðamikils búnaðar og hráefna og ráðast í breytingar á húsnæði, verður ekki við annað miðað en að þeir hafi haft áform um að selja a.m.k. hluta af afrakstrinum. Ákærðu verða samkvæmt þessu sakfelldir fyrir framleiðslu á 110,8 g af amfetamíni í söluskyni. Jafnframt verða þeir sakfelldir fyrir vörslur á 8.836 g af vökva og hlaupkenndum efnum og 300 ml af vökva sem innihéldu amfetamín og metamfetamín. Loks verða þeir sakfelldir fyrir vörslur á 1.788 g af efnum sem innihéldu P-2-NP. Eru brot ákærðu rétt heimfærð til refsiákvæða í I. kafla ákæru.

II. kafli ákæru.

1. tl.

Ákærði bar við skýrslugjöf hjá lögreglu að hann neytti amfetamíns. Hafi hann byrjað neyslu 18 ára og notað fíkniefni nokkuð stöðugt. Hafi hann selt amfetamín, þó ekki úr eigin framleiðslu. Hafi hann selt efnið fyrir annan mann, sem ákærði kvaðst ekki vilja nafngreina. Ekki hafi verið ákveðið fyrir fram hve mikið ákærði hafi átt að bera úr býtum fyrir hvert selt gramm. Kvaðst ákærði hafa verið að fá til sín allt frá 1.000 krónum og upp í 4.000 krónur fyrir hvert gramm. Af því hafi síðan farið kostnaður, m.a. vegna íblöndunarefna. Ákærði kvaðst hafa drýgt efnið til helminga með mjólkursykri. Upp á síðkastið hafi ákærði fjármagnað fíkniefnaneyslu svo og aðra framfærslu með sölu fíkniefna. Lögregla hafi fundið efni í efri skáp í eldhúsi í íbúðinni. Um væri að ræða efni er ákærði hafi verið að selja fyrir ónefnda einstakl­inginn. Efnið hafi verið í tveim staukum og plastpoka. Hafi ákærði jafnan pakkað efnunum í plastpoka. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 21. janúar 2004 bar ákærði, er fjólubláir plaststaukar í rannsóknargögnum merktir I 12, I 13, I 25, I 26 og efni í plastpoka merkt J 50 hafi verið amfetamín sem ekki hafi tengst tilraunum ákærðu við framleiðslu á fíkniefnum. Um hafi verið að ræða amfetamín er ákærði hafi tekið við frá aðila er hann vildi ekki gefa upp hver væri. Er ákærði gaf skýrslu fyrir dómi 10. desember 2003 kvaðst hann viðurkenna að hafa selt fíkniefni fyrir aðra. Kvaðst ákærði hafa haft viðurværi sitt í einhvern tíma af því að ,,selja áfram eitthvert amfetamín­afbrigði að ég tel.” Kvaðst ákærði ef til vill hafa fengið um fimm til sex stóra skammta af amfetamíni, sem hann hafi sett niður í 20 g einingar. Kvaðst ákærði hafa selt megnið af efnunum beint úr bíl sínum á Reykjavíkursvæðinu.

Við þingfestingu málsins viðurkenndi ákærði vörslur á 64,18 g af amfetamíni skv. 1. tl. II. kafla ákæru. Efnið hafi ekki verið ætlað til sölu. Ákærði kvaðst kjósa að tjá sig ekki um hvar hann hafi fengið umrædd 64,18 g af amfetamíni. Hafi hann ekki verið búinn að ákveða hvað hann ætlaði að gera við það efni. Einn möguleiki hafi verið að nota efnið til samanburðar við þau efni er ákærði fengi út úr tilraunum sínum. Kvaðst ákærði því alfarið mótmæla því að hafa staðið að sölu fíkniefna. Undir ákærða var borin lögregluskýrsla frá 2. desember 2003 þar sem hann á bls. 6 er inntur eftir því hvort hann hafi selt fíkniefni. Ákærði kvað það svar er hann hafi gefið lögreglu­manninum vera rétt. Þá var borin undir ákærða lögregluskýrsla frá 9. desember þar sem hann á bls. 3 var inntur eftir því hvort hann fjármagni fíkniefnaneyslu sína svo og framfærslu með því að selja öðrum fíkniefni. Ákærði kvað lögreglumanninn hafa fært í skýrsluna það svar sem ákærði hafi gefið. Hann hafi þó misskilið spurninguna að því er varðaði ,,framfærslu”. Hið rétta væri að hann hafi afhent öðrum amfetamín, en eingöngu hafi verið um lítið magn að ræða. Á þessum tíma hafi hann starfrækt einkahlutafélag og hafi hann verið með tekjur úr þeim rekstri. Undir ákærða var borin skýrsla hans fyrir dómi 10. desember 2003 og svar um að ákærði hefði viðurværi sitt í einhvern tíma af því að selja áfram eitthvað amfetamínafbrigði. Ákærði kvaðst ekki skilja orðið ,,viðurværi”. Hið rétta væri að hann hafi fengið einhverja peninga fyrir sölu á efnum. Hann hafi hins vegar misskilið orðið ,,viðurværi” með sama hætti og hann hafi misskilið orðið ,,framfærsla”.

I rannsóknarlögreglumaður bar að lögregla hafi fundið fullunnið efni, m.a. í bakarofni, í íbúð ákærða að Vesturvör 27. Þá hafi einnig fundist efni er augljóslega hafi ekki verið hluti af þeirri framleiðslu er ákærði hafi viðurkennt að hafa haft með höndum, en greinilegur litamunur hafi verið á því efni og þeim er framleidd hafi verið á staðnum. Hafi það komið heim og saman við þann framburð ákærða hjá lögreglu að hann hafi verið með efni hjá sér er hann hafi verið að selja fyrir annan mann, sem ákærði hafi ekki viljað nafngreina. Þetta efni hafi verið geymt í eldhúsinnréttingu í eldhúsi íbúðarinnar. Efnið hafi verið gulleitt, á meðan annað efni í framleiðslunni hafi verið bleikt á litinn. Sími hjá ákærða hafi verið hleraður á þessum tíma. Af þeim hlerunum hafi lögregla ráðið að ákærði væri að selja fíkniefni.

Ákærði bar að 193 stykki af amfetamíntöflum, er lögregla hafi lagt hald á í íbúðinni, hafi ekki tengst ,,nafni á glasinu.” Þær hafi verið eign A. Hafi hún einhverju sinni beðið ákærða um að geyma töflurnar. Þær hafi þess vegna ekki verið í vörslum ákærða.

A kvaðst hafa beðið ákærða Lúðvík um að geyma fyrir sig amfetamíntöflur er lögregla hafi lagt hald á að Vesturvör 27. Hún hafi ekki viljað geyma töflurnar á sér og því beðið ákærða um að geyma þær. Hafi hún umrætt sinn hitt ákærða úti á götu. Kvaðst A fá slíkar töflur ávísaðar hjá lækni, en til hans færi hún mánaðarlega. Kvaðst hún telja að hún hafi komið heim til ákærða tvisvar sinnum.

I rannsóknarlögreglumaður bar að amfetamíntöflur er lögregla hafi lagt hald á hafi fundist í lyfjaboxi sem hafi verið merkt A. Töflurnar hafi fundist í lyfjahirslu í íbúðinni, sem sennilega hafi staðið á eldhúsborði. Hirslan hafi verið lokuð, en ekki læst. 

Niðurstaða:

Ákærði Lúðvík bar við lögregluyfirheyrslur að tiltekin efni er lögregla hafi lagt hald á hafi ekki tengst tilraunum til amfetamínframleiðslu. Hafi efnin verið í eldhúsinnréttingu í eldhúsi. I rannsóknarlögreglumaður bar að tiltekin efni hafi fundist í eldhúsi í fjólubláum plaststaukum og plastpoka, sem ekki hafi haft sama lit og önnur efni er lögregla hafi lagt hald á. Efni þessi eru merkt nr. 3 í efnaskrá 10-2003-831 og nr. 1 til 5 og 8 til 9 í efnaskrá 10-2003-832. Nema þau samtals 64,18 g af amfetamíni. Svo sem rakið hefur verið viðurkenndi ákærði við yfirheyrslur hjá lög­reglu og í skýrslu sinni fyrir dómi 10. desember 2003 að hafa selt fíkniefni fyrir annan mann sem hann vildi ekki nafngreina. Hann hafi sjálfur notað amfetamín reglulega, haft viðurværi sitt af sölu slíkra efna og hafa framfleytt sér að hluta af henni. Þá bar meðákærði að hann hafi í einhverjum tilvikum leitað til ákærða um kaup á amfetamíni og hafi þau kynni orðið upphaf að hugmyndum þeirra um framleiðslu á amfetamíni. Með vísan til þessa framburða og þess að frágangur og litur efnanna gaf til kynna að þau tengdust ekki framleiðslu ákærðu, verður slegið föstu að 64,18 g af amfetamíni er lögregla lagði hald á og voru í vörslu ákærða, hafi verið ætluð til sölu í ágóðaskyni.

Ákærði hefur synjað fyrir að hafa haft vörslur á 193 amfetamíntöflum er lögregla lagði hald á og merktar voru A. Hann hefur þó viðurkennt að efnin hafi verið á heimili ákærða, en þar hafi þau verið geymd í lyfjahirslu. A kom fyrir dóminn og bar að hún hafi fengið ákærða til að geyma þessar töflur fyrir sig. Við það verður að miða að vörslur á greindum amfetamíntöflum séu hverjum manni óheimilar samkvæmt 2. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. gr., sbr. 14. reglugerðar nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002, nema undanþágur séu veittar þar frá. A var óheimilt að afhenda ákærða þessar töflur og biðja hann um að geyma þær. Hefur ákærði framið öll brot sem tilgreind eru undir 1. tl. II. kafla ákæru og eru þau þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

2. tl.

 Ákærði Lúðvík hefur játað sök samkvæmt 2. tl. II. kafla ákæru. Með vísan til þeirrar játningar hans, sem samræmist gögnum málsins, verður hann sakfelldur samkvæmt þessum kafla og er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

III. kafli ákæru.

Ákærði X hefur játað sök samkvæmt III. kafla ákæru. Með vísan til þeirrar játningar hans, sem samræmist gögnum málsins, verður hann sakfelldur samkvæmt þessum kafla og er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

IV. kafli ákæru.

Ákærði Lúðvík hefur játað sök samkvæmt IV. kafla ákæru. Með vísan til þeirrar játningar hans, sem samræmist gögnum málsins, verður hann sakfelldur samkvæmt þessum kafla og er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

V. kafli ákæru.

Með bréfi 10. desember 2004 til lögreglustjórans í Reykjavík fór J lögfræðingur þess á leit að lögregla myndi krefjast þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að lagt yrði bann á grundvelli XIII. kafla laga nr. 19/1991 við því að ákærði X myndi raska friði C, D og tveggja drengja þeirra, þannig að hann kæmi ekki nærri heimili þeirra, veitti þeim eftirför, heimsækti þau eða setti sig með einu eða öðru móti í samband við þau. Fram kemur að C, D og börn þeirra hafi á þeim tíma búið í Danmörku þar sem þau hafi verið við nám. Þá var um leið kærð hótun af hálfu ákærða um að lífláta C, sem sett hafi verið fram í tölvubréfi 15. október 2004. Er í bréfi J raktir þeir málavextir að ákærði væri gamall kunningi D, en þau hafi verið ,,kærustupar” þegar þau hafi verið 15 ára gömul. Eftir að hún hafi hætt með ákærða hafi hún árin á eftir farið að heyra utan af sér að ákærði væri að bera út að hann væri enn með henni. Hafi ákærði m.a. heimsótt föður D undir því yfirskini að hann væri tengdasonur hans, en þá hafi D verið orðin 22ja ára. Eftir að D hafi gengið á ákærða með þetta hafi hann viljað meina að þau hafi ,,sofið saman”. Þar sem D hafi ekki viljað kannast við það hafi hún hætt að ræða við ákærða. Um það leyti hafi C kynnst D og þau fljótlega tekið upp sambúð. Í júní 2002 hafi þau flutt til Danmerkur. Þá hafi ákærði haft samband við D, í kjölfar andláts fyrrverandi kærasta hennar, og tilkynnti henni að hann væri faðir yngsta sonar hennar, G. Hafi það kallað fram hörð viðbrögð hjá C og D. Ýmsar hótanir hafi gengið á milli. Að lokum hafi verið ákveðið að ákærði myndi kosta DNA rannsókn þar sem úr þessu atriði yrði skorið. Þar sem ekki hafi verið unnt að fá slíka rannsókn á Íslandi án dómsúrskurðar hafi ákærði kosið að láta E prófessor sjá um rannsóknina. Niðurstöður hafi staðfest að C væri faðir drengsins. Þrátt fyrir þá niðurstöðu hafi ákærði ekki látið sér segjast og tekið til við að saka C og D um að hafa látið falsa niðurstöðurnar. Þar sem ,,engu tauti” hafi verið við ákærða komið hafi C og D alfarið hætt að svara bréfum frá honum. Jafnframt hafi háttsemi hans verið kærð til lögreglu. Í kjölfarið hafi ákærði verið kallaður fyrir lögreglu. Hafi hann lofað að láta af háttsemi sinni. Um tveimur klukku­stundum síðar hafi ákærði sent þeim tölvubréf með hótunum. Í desember 2002 hafi þau fengið símhringingu frá ákærða þar sem hann hafi greint frá því að hann hafi verið að koma til Danmerkur en hann ætlaði að ,,ná fram rétti sínum hvernig svo sem hann færi að því”. Af þeim sökum hafi þau tekið sig upp og flutt í annan bæjarhluta, fengið leynisímanúmer og verndað heimilisfang. Daginn eftir að þau hafi flutt hafi þau frétt af því að sést hafi til ákærða þar sem hann hafi verið að líta inn um glugga á fyrrum dvalarstað þeirra. Einnig hafi hann gengið um hverfið og spurst fyrir um hvert þau hafi flutt, ásamt því að leggja nokkur bréf til þeirra í póstkassa. Hafi þau lagt fram kæru á hendur ákærða vegna bréfanna en málið verið fellt niður þar sem ákærði hafi flutt til Íslands áður en unnt hafi verið að hefjast handa við rannsókn. Með þessu hafi fjölskyldan verið komin í felur fyrir ákærða. C hafi haft opið netfang í skóla sínum í Danmörku og ákærði nýtt sér það og reglulega sent honum hótanir. Haustið 2004 hafi C fengið enn fleiri bréf frá ákærða, þar á meðal beinar morðhótanir. Þann 30. nóvember 2004 hafi D opnað ,,bloggsíðu” sér til gamans. Þrem dögum síðar hafi ákærði verið búinn að finna síðuna og tekið til við að skrifa alls konar aðdróttanir inn í gestabók síðunnar. Afleiðingar alls þessa hafi verið slæmar fyrir fjölskylduna. Drengirnir væru skelfingu lostnir, en þeir hafi þurft að skipta tvisvar sinnum um skóla, hverfi og vini vegna áreitanna. Hafi ákærði m.a. sent eldri syni þeirra bréf, sem og móður C. Einnig hafi hann sent ýmsum skólafélögum C bréf. Hann hafi vanið komur sínar til Íslendingafélagsins í K í Danmörku þegar hann hafi verið þar. Þar hafi hann ófrægt fjölskylduna. Í ríflega 2 ár hafi C og D ekki á nokkurn hátt svarað ákærða. Hafi þau á tímabilinu fengið yfir 150 bréf frá honum, ásamt því að hann hafi hringt. Í niðurlagi bréfsins kemur fram að fjölskyldan muni flytja til Íslands sumarið 2005 en þá ljúki námi úti. Sé fjölskyldunni farið að kvíða fyrir, en þau óttist um líf sitt og heilbrigði. Miðvikudaginn 25. maí 2005 hafði lögregla samband við C, sem þá var enn búsettur í Danmörku. Var kærubréfið frá 10. desember 2004 borið undir hann. Staðfesti C að allt er fram kæmi í bréfi væri rétt.

Er ákærði var yfirheyrður af lögreglu kvaðst hann mótmæla því að hafa hótað C lífláti. Bar hann að flest það er fram hafi komið í kærubréfi C væri rangt. Kvaðst hann hafa farið til Danmerkur, en ætlunin hafi verið að flytja þangað. Hafi hann komið við í K til þess að bjóða C og D upp á aðra DNA rannsókn. Hafi hann skilið miða eftir á hurð þar sem þau hafi búið. Þar sem dyrabjöllu hafi ekki verið svarað hafi ákærði kíkt á glugga. Eftir það hafi hann bankað hjá nágrönnum en þar hafi hann fengið þær upplýsingar að C og fjölskylda hafi flutt úr húsnæðinu. Kvaðst hann neita að tjá sig um hvort hann hafi sent C tölvupóst 15. október 2004 með eftirfarandi skilaboðum: ,,Ég drep þig þegar ég næ þér og í það er mjög stutt.” Þá kvaðst ákærði neita að svara staðhæfingum lögreglu um tiltekin skrif inn á heimasíður C eða D. Í lok skýrslutökunnar kvaðst ákærði vilja ítreka að hann færi fram á að fallist yrði á að framkvæmd yrði önnur rannsókn á faðerni, sem framkvæmd yrði í öðru landi en á Íslandi. Er ákærði var  yfirheyrður um sakarefnið síðar kvaðst hann vilja breyta fyrri framburði sínum. Kvaðst hann játa að hafa skrifað þær færslur inn á ,,bloggíður” er hann var grunaður um að hafa ritað. Kvaðst ákærði ekki vilja tjá sig um skilaboðin frá 15. október 2004: ,,Ég drep þig þegar ég næ þér og í það er mjög stutt.” Hann hafi þó sent skilaboðin.

Fyrir dómi kvaðst ákærði viðurkenna að hafa sent skilaboð samkvæmt 1. tl. V. kafla ákæru. Í þeim hafi falist hótanir. Ákærði kvaðst einnig hafa sent skilaboð samkvæmt 2. til 9. tl. V. kafla ákæru. Í ummælum er ákærði hafi viðhaft undir 2. tl. hafi falist að ákærði hafi verið að boða að hann myndi ,,draga” E, C og D í réttarsal þar sem þau myndu þurfa að standa fyrir máli sínu. Ákærði væri maðurinn með vöndinn í því efni og ,,flenging” væri tilvísun til afdrifa málsins fyrir dómi. Hafi ákærði ekki ætlað að flengja C, heldur notað myndlíkingu. Í ummælum er ákærði hafi viðhaft undir 3. tl. um að hann tæki í lurginn á þeim hafi falist að hann myndi ,,skammast út í” C og D. Ummæli er ákærði hafi viðhaft undir 4. tl. hafi verið sett fram í þeim tilgangi að hræða C. Hafi þau verið rituð til að vekja ótta hjá honum. Í ummælum er ákærði hafi viðhaft undir 5. tl. um að C yrði staddur á nákvæmlega mínus einum degi í lífi sínu hafi ekki falist tilvísun til dauða. Hafi ákærði verið að vísa til fyrsta dags í breyttu lífi, en á þessum tíma hafi ákærði verið að vinna að því að ná C og D ,,í réttarsal.” Í ummælum er ákærði hafi viðhaft undir 6. tl. um að búið yrði að losa G við C fyrir fullt og allt hafi falist að ákærði væri þá búinn að ,,koma upp um” C og fletta ofan af ráðabruggi hans. Í ummælum er ákærði hafi viðhaft undir 7. tl. um að C væri í alvöru hættu hafi falist að hætta yrði á að komið yrði upp um hann. Ákærði hafi áður fengið símtal þar sem honum hafi borist upplýsingar um C og E. Ummæli, er ákærði hafi viðhaft undir 8. tl. um að mönnum í Hells Angels væri meinilla við barnaníðinga, hafi verið sett fram til að hræða C. Í ummælum er ákærði hafi viðhaft undir 9. tl. um að C slyppi ekki lifandi út úr Evrópu hafi falist hótun.

C kvað fjölskylduna hafa flutt til Danmerkur vegna náms. Þau hafi flutt aftur heim til Íslands í júní 2005. Ákærði hafi flutt til Danmerkur í desember 2002. Hafi hann um leið gert C og fjölskyldu aðvart um að hann væri kominn út. Kvaðst C telja að ákærði hafi búið úti þar til um mitt ár 2003. Ákærði hafi sent sér og fjölskyldu sinni ýmsar hótanir á árinu 2004. Hafi hann ekki linnt látum m.a. með símhringingum og hafi fjölskyldan þurft að færa sig um set í Danmörku til að forðast ákærða. Hafi þau flutt innanbæjar og þurft að ,,losa sig við” hluta vinahópsins af þessum sökum. Hafi þau á tilteknum tíma talið að áreiti ákærða væri lokið og D fengið sér ,,bloggsíðu.” Ákærði hafi þegar áttað sig á síðunni og ritað inn á hana ýmsar hótanir. C kvað börn sín vera mjög hrædd við ákærða vegna hótana hans. Þá hafi D greinst með kvíðaröskun vegna háttsemi ákærða. Allt í fari ákærða hafi gefið C ástæðu til að óttast hann. Hafi þau orðið mjög hrædd. Eftir að ákærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna árásar á E hafi fjölskyldunni liðið betur. Nytu drengir C lífsins í dag. Ákærða hafi verið sleppt úr gæsluvarðhaldi á sínum tíma og hafi drengirnir brugðist þannig við að þeir hafi ekki þorað út úr húsi. 

Að því er varðaði einstaka töluliði ákæru kvaðst C hafa skilið skilaboð samkvæmt 2. tl. V. kafla ákæru þannig að ákærði ætlaði að gera C og fjölskyldu eitthvert líkamlegt mein. Hafi hann þegar gert lögreglu aðvart um skilaboðin. Eftir langvinnar hótanir hafi tiltekin merking verið lögð í þessa orðsendingu frá ákærða. Að því er varðaði 3. tl. hafi C talið að ákærði ætlaði að beita líkamlegu ofbeldi. Að því er varðaði 4 tl. hafi C búist við að ákærði ætlaði að vinna fjölskyldunni skaða. 5. tl. hafi C skilið sem hótun um dauða. Hafi hann einnig óttast að ákærði myndi ráða barni sínu bana. 6. tl. hafi C skilið þannig að ákærði ætlaði að drepa sig. 7. tl. hafi C skilið þannig að ákærði ætlaði að gera sér eitthvað. 8. tl. hafi C skilið þannig að ákærði hefði ráðið einhverja til að meiða sig. Í 9. tl. hafi C talið felast hótun um dauða. 

D kvaðst vera gift C og ættu þau tvo drengi sem væru í dag 14 og 9 ára. Ákærði hafi fullyrt að þau hafi sofið saman á árum áður. Kvaðst D hafa neitað því og ákærði þá beitt hana líkamlegu ofbeldi. Hafi hún náð að flýja af vettvangi í það sinnið. Fjölskyldan hafi flutt til Danmerkur. Ákærði hafi haldið áfram að ofsækja fjölskylduna og flutt út í lok árs 2002. Hafi það leitt til þess að fjölskyldan hafi orðið að flytja og af þeim ástæðum orðið að taka eldri drenginn úr skóla. Hafi það haft slæm áhrif á drenginn. Fjölskyldan hafi þá fengið verndað heimili í Danmörku. Framferði ákærða hafi því haft mjög slæm áhrif á fjölskylduna. Börn hennar og C hafi orðið mjög hrædd og sjálf hafi D greinst með kvíðaröskun. Fái hún lyf vegna sjúkdómsins. Þá eigi hún erfitt með svefn. Sé allt þetta tilkomið vegna ákærða, sem hafi áreitt hana frá því hún var unglingur. Kvaðst D óttast ákærða mjög. Einnig hafi hún óttast að hann myndi ræna öðrum dreng þeirra. Þá hafi hún óttast að ákærði myndi drepa C. Eldri sonur þeirra hafi á tímum sofið með hníf undir kodda til varnar ákærða. Ákærði hafi sent drengnum sms símaskilaboð um að hann vissi hvar fjölskyldan byggi. D kvað ákærða enn senda sér og fjölskyldu sinni bréf, nú frá Sogni. Ekki væru í þeim bréfum hótanir en efni þeirra væri algert ,,bull.” Bréfin tengdust D, C og E prófessor. Ekki kvaðst hún óttast ákærða á meðan hann væri í öryggisgæslunni. Að því er varðaði einstaka ákæruliði kvað D hótanir hafa falist í 2. tl. V. kafla ákæru, en hann hafi þar hótað að lemja C. 3. tl. hafi hún túlkað sem ofbeldishótun. Að því er varðaði 4. tl. hafi hún talið að ákærði væri að hóta því að drepa C í það sinnið. Sama ætti við um 5. tl. V. kafla ákæru. Kvaðst hún hafa skilið 6. tl. þannig að ákærði hafi verið að vísa til ástands eftir að hann hafi drepið C. Hótun um ofeldi hafi falist í 7. tl. Ákærði hafi dvalið í Danmörku, eins og áður hafi komið fram. Hafi fjölskyldan talið að í 8. tl. hafi falist að ákærði hafi náð sambandi við einhverja menn á meðan hann hafi verið úti, gagngert til að ráðast á C. Að því er varðaði 9. tl. kvaðst D hafa litið svo á að ákærði væri að hóta að drepa C. 

L geðlæknir staðfesti geðrannsókn er hann framkvæmdi á ákærða. Kvað hann rannsóknina að miklu leyti hafa snúist um hugarástand ákærða gagnvart E. Hluti af rannsókninni hafi varðað hótanir er ákærði hafi sett fram gagnvart E, C og D. Málin hafi í raun öll verið samtvinnuð.

M geðlæknir gerði viðamikla grein fyrir högum ákærða á Réttargeðdeildinni að Sogni. Kvað hann deildina veita vistmönnum tiltekna meðferð. Gæti hún verið fólgin í lyfjameðferð, viðtölum, þátttöku í virkni o.s.frv. M kvað ákærða ekki sæta lyfjameðferð í öryggisgæslunni, en hann kysi að taka ekki lyf þar sem hann teldi sig ekki glíma við geðsjúkdóm. Ávinningur af þvingaðri lyfjameðferð næði ekki að upphefja þá ókosti sem slík meðferð hefði. Ákærða væri ekki sérlega virkur í meðferð á deildinni, en M og X ræddu engu að síður talsvert saman.   

Niðurstaða:

Ákærði X hefur viðurkennt að í tölvupósti samkvæmt 1. tl. V. kafla ákæru hafi falist hótanir. Jafnframt hefur hann viðurkennt að hótanir hafi falist í ummælum undir 4., 7. og 8. tl. V kafla ákæru. Að öðru leyti hefur hann synjað fyrir að í einstökum skrifum undir V. kafla hafi falist hótanir en hefur gefið sínar skýringar á efni skilaboðanna. C og D komu bæði fyrir dóminn. Lýstu þau þeirri ógn er þeim stafaði af ákærða og þeim skilaboðum er hann hefði sent þeim. Bar sú lýsing þess augljós merki að C og D hafi verið mjög óttaslegin, eftir endurtekin skrif ákærða og sífelldar tilraunir af hans hálfu til að ná til þeirra. Hafa þau borið um þjáningar er fjölskyldan hafi upplifað á undanförnum árum vegna þessa, sem hafi m.a. leitt til þess að D hafi greinst með kvíðaröskun. Ákærði hefur alla tíð verið ósáttur við niðurstöðu DNA rannsóknar sem á árinu 2002 útilokaði hann föður að barni D og C. Áráttuhegðun hans hefur að verulegu leyti beinst að E prófessor sem hafði umsjón með tilteknum þáttum DNA rann­sóknar­innar. Var ákærði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 8. september 2005 í málinu nr. S-1027/2005 sakfelldur fyrir alvarlega líkamsárás og hótanir á gagnvart E. Þeir atburðir áttu sér stað á fyrri hluta árs 2005. Þegar til alls þessa er litið eru engin efni til annars en að telja að C og D hafi haft raunhæfa ástæðu til að óttast ákærða og að þau hafi upplifað tölvupóst frá honum og skrif á heimasíður þeirra sem hótanir í sinn garð. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt V. kafla ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði Lúðvík er fæddur árið 1962. Hann gekkst 30. maí 2003, 28. október 2004 og 20. apríl 2005 undir sáttir fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Að öðru leyti skiptir sakaferill hann ekki máli fyrir niðurstöðu þessa máls. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir framleiðslu á 110,8 g af amfetamíni í söluskyni. Einnig hefur hann verið sakfelldur fyrir vörslur á 64,18 g af amfetamíni sem hann hafi ætlað til sölu. Þá hefur hann verið sakfelldur fyrir vörslur á 193 töflum af amfetamíni á heimili sínu og 0,45 g af amfetamíni og 10,71 g af hassi er fundust í bifreiðinni JR-810. Hann hefur verið sakfelldur fyrir vopnalagabrot, með því að hafa haft loftskammbyssu í vörslum sínum án þess að hafa skotvopnaleyfi. Loks hefur ákærði verið sakfelldur fyrir vörslur á tilgreindu magni af vökvum og hlaupkenndum efnum sem innihéldu amfetamín og að hluta til metamfetamín og efni sem innihélt efnið P-2-NP, en þessi efni komu öll úr fyrri og seinni hluta framleiðsluferlis við tilbúning amfetamíns. Ekki liggja fyrir óyggjandi upplýsingar um hve mikið magn af amfetamíni hafi getað orðið afrakstur fullnaðrar framleiðslu úr þessum efnum. Þá liggur fyrir að vökvar þessir voru ekki styrkleika­mældir. Verður við fátt annað miðað en framburð ákærðu, sem bera að þeir hafi gert sex tilraunir til að framleiða amfetamín, ein þeirra mistekist og að þeir hafi reiknað með að hver tilraun gæfi af sér 10 til 20 g af hreinu amfetamíni. H hefur borið að þessar staðhæfingar ákærðu geti staðist, en hún hefur talið að ákærðu hafi getað náð út úr framleiðslunni á bilinu 40 til 60 g af hreinu efni. Ef það efni hefði verið drýgt með hefðbundnum hætti með mjólkursykri hefði afraksturinn aldrei orðið undir 100 g af neysluhæfri vöru, en sennilega nærri 200 g, þar sem reikna má með að efnið yrði drýgt umtalsvert. Þá verður við ákvörðun refsingar einnig horft til þess framferðis ákærða að framleiða sjálfur amfetamín, sem til stóð að selja, en það þykir bera vott um eindreginn brotavilja. Brot samkvæmt ákæru eru öll framin áður en ákærði gekkst undir sáttir á árunum 2004 og 2005. Ber því að tiltaka refsingu sem hegningarauka samkvæmt 78. gr. laga nr. 19/1940. Brot ákærða eru alvarleg, en þau varða hættulegt fíkniefni. Hann hefur að talsverðu leyti játað sök og aðstoðað lögreglu við að varpa ljósi á það framleiðsluferli er ákærðu studdust við. Með vísan til þessa, sem og 1., 3. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr., sbr. og 2. mgr. laga nr. 19/1940, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 14 mánuði. Til frádráttar komi gæsluvarðhald er ákærði sætti á meðan á rannsókn málsins  stóð.

L geðlæknir framkvæmdi geðrannsókn á ákærða X og er rannsóknin dagsett 20. maí 2005. Í samantekt kemur fram að um sé að ræða nær 34 ára gamlan einhleypan karlmann sem undanfarin þrjú ár hafi verið fastur í því að hann sé faðir ákveðins drengs. Gerðar hafi verið blóðprufur sem hafi útilokað ákærða sem föður drengsins en hann sé sannfærður um að svik séu í tafli. Niðurstöður blóðrann­sókna séu falsaðar. Ákærði hafi búið sér til skýringakerfi sem styðji þessa hugsun hans. Mikil heift og reiði sem hafi af hans hálfu beinst að foreldrum drengsins og E lækni. Vaxandi hótanir í garð E frá haustinu 2004 hafi endað með árás á E. Saga um amfetamínneyslu og stundum ofneyslu sé hjá ákærða. Hugsanir ákærða einkennist af ofstæki og þráhyggju og séu með mjög miklum ranghugmyndablæ, heift hans hafi farið stöðugt vaxandi. Það sé mat L, eins og ástand ákærða sé, að full ástæða sé til að taka hótanir hans gagnvart E alvarlega. Ákærði hafi aldrei leitað sér aðstoðar út af vandamálum sínum eftir því sem best sé vitað. Amfetamínneysla hans geti átt þátt í aðsóknarranghugmyndum en líklegt sé að orsakaþættir aðsóknarhugmyndarinnar séu fleiri. Mjög mikilvægt sé að ákærði fái viðeigandi læknis- og geðlæknismeðferð. Á þessu stigi sé sjúkdómsinnsæi hans ekkert og hann hugsanlega verulega hættulegur umhverfi sínu. Sé því brýnt að hann fái viðeigandi geðlæknismeðferð samhliða öryggisgæslu. Er það álit L að ákærði sé haldinn alvarlegri hugvilluröskun (delusional disorder) og hafi þess vegna verið á undanförnum mánuðum ófær um að stjórna gerðum sínum. Það sé mat L að ákærði sé enn hættulegur öðrum og brýna nauðsyn beri til að hann fái viðeigandi meðferð. Á meðan slík meðferð fari fram sé mikilvægt að ákærði sæti öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Læknisfræðilegar ástæður mæli gegn því að refsing geti borið árangur. Samvinna við ákærða hafi verið takmörkuð í geðskoðuninni. Veikindi hans skýri ósamvinnuþýði hans enda sé sjúkdómsinnsæi hans ekkert.

Að ósk ákærða voru geðlæknarnir N og O dómkvaddir til að leggja sérstakt mat á sakhæfi ákærða. Í matsgerð geð­læknanna, frá 2. september sl. kemur fram, að ákærði hafi með öllu hafnað að eiga viðtöl við geðlæknanna. Af þeim ástæðum hafi matsmennirnir ekki getað framkvæmt sjálfstæða geðrannsókn. Matsmenn hafi hins vegar kynnt sér rækilega fyrirliggjandi málsgögn. Af þeim gögnum verði ekki séð að tilefni sé til að draga í efa réttmæti niðurstöðu L geðlæknis. Telji matsmenn að tiltæk gögn málsins, sem varpað geti ljósi á geðhagi ákærða, bendi til þess að hann sé haldinn alvarlegri hugvilluröskun (l. psychosis paranoides persistens / paranoia querulans, e. delusional disorder). Að því gefnu álykti matsmenn að geðhagir ákærða hafi um langt skeið verið með þeim hætti að hann hafi verið ófær um að stjórna gerðum sínum. Af sömu ástæðu beri einnig að álykta að refsing geti ekki borið árangur. Þá álykti matsmenn, á grundvelli tiltækra gagna, að geðhagir ákærða hafi jafnframt verið með þeim hætti að hann geti talist hættulegur öðrum um ófyrirsjáanlegan tíma. Reynslan sýni að einstaklingar með alvarlega hugvilluröskun, af því tagi sem um ræði, paranoia querulans, gefi sjaldan eða aldrei upp á bátinn viðleitni sína til að ná fram fyrirætlan sinni eða kröfu. Velþekkt dæmi séu um að slíkt ferli hafi varað árum og jafnvel áratugum saman. Matsmenn telji því brýnt að ákærði sæti öryggisgæslu og fái meðferð á viðeigandi stofnun.

Með vísan til þess er hér að framan er rakið um geðhagi ákærða, hótana hans í garð C og D og niðurstöðu héraðsdóms í málinu nr. S-1027/2005 telur dómurinn ekki varhugavert að slá föstu, að andlegt ástand ákærða hafi verið það sjúkt á seinni hluta árs 2004 að hann hafi þá verið ófær um að stjórna gerðum sínum og sé því ósakhæfur. Ber því að sýkna hann af refsikröfu ákæruvaldsins, sbr. 15. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði situr nú í öryggisgæslu á grundvelli 62. gr. laga nr. 19/1940. Er óþarft að árétta þá gæslu hér.

Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru upptæk gerð til ríkissjóðs efni og áhöld sem í ákæru greinir, sem og loftskammbyssa, sem þar er tilgreind.

Um sakarkostnað og málsvarnarlaun fer svo sem í dómsorði greinir. Hefur þá verið litið til yfirlits lögreglustjóra um sakarkostnað og útgjalda vegna ferðakostnaðar vitnis. Einnig hefur verið tekið tillit til þess að sá hluti sakarkostnaðarins er varðar ákærða X greiðist úr ríkissjóði. Hefur virðisaukaskatti verið bætt við dæmd málsvarnarlaun.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Eyjólfur Eyjólfsson fulltrúi lögreglu­stjórans í Reykjavík.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Lúðvík Eiríksson, sæti fangelsi í 14 mánuði. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 26. nóvember 2003 til 10. desember sama ár.

Ákærði, X, er sýkn af refsikröfu ákæruvaldsins.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 175,47 g af amfetamíni, 193 töflur af amfetamíni og 10,71 g af hassi, 8.836 g af vökva og hlaupkenndum efnum, 300 ml af vökva, sem í greindist amfetamín og metamfetamín, 1.788 g af efnum sem innihéldu 1-phenyl-2-nitro-1-propene, 2 eldföst mót (JO7, K02), hvítur diskur (K01) og loftskammbyssa, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði Lúðvík greiði 519.915 krónur í sakarkostnað, þar með talin máls­varnar­laun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns  224.100 krónur.

Sakarkostnaður að fjárhæð 593.160 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Sveins Andra Sveinssonar hæsta­réttarlögmanns, 297.345 krónur.