Mál nr. 797/2015
- Líkamsárás
- Hótanir
- Skilorð
- Skaðabætur
X var sakfelldur fyrir brot gegn 217. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa annars vegar dregið eiginkonu sína A inn á baðherbergi heimilis þeirra, reynt að ýta höfði hennar ofan í klósett, hótað henni með hníf og kastað honum á eftir henni er hún flýði út af heimili þeirra og hins vegar veist að A með ofbeldi og hótunum inni í hjónaherbergi þeirra þar sem hún lá með ungan son þeirra. Var X metið til refsiþyngingar að hann hefði ráðist að eiginkonu sinni á grófan hátt á heimili þeirra og ætti hann sér engar málsbætur. Á hinn bóginn var litið til þess að óútskýrður dráttur hafði orðið á rannsókn málsins. Samkvæmt þessu og með vísan til 1. og 6. töluliðar 1. mgr. 70. gr., 3. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga var refsing X ákveðin fangelsi í sex mánuði en fullnustu þriggja mánaða refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var honum gert að greiða A 700.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. nóvember 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.
Brotaþoli, A, krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 900.000 krónur með sömu vöxtum og dæmdir voru í héraði.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða, heimfærslu brota hans til refsiákvæða og sakarkostnað.
Til þyngingar refsingar ákærða horfir að hann veittist að eiginkonu sinni á grófan hátt á heimili þeirra og á hann sér engar málsbætur. Samkvæmt þessu og með vísan til 1. og 6. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 3. mgr. sömu greinar og 77. gr. laganna er refsing ákærða ákveðin fangelsi í sex mánuði. Í ljósi þess dráttar sem varð á rannsókn málsins og ekki hefur verið skýrður, verður refsing hans bundin skilorði að hluta eins og í dómsorði greinir.
Í ljósi atvika málsins verða miskabætur til handa brotaþola ákveðnar 700.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu þriggja mánaða refsingarinnar og sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði A 700.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 736.027 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gríms Sigurðarsonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2015.
Árið 2015, miðvikudaginn 28. október, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-42/2015: Ákæruvaldið gegn X en málið var dómtekið 1. þ.m.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 14. janúar 2015, á hendur:
,, X, kennitala [...],
[...], [...],
fyrir eftirtalin hegningarlagabrot gagnvart A, þáverandi eignkonu hans og barnsmóður og brot gegn barnaverndarlögum gagnvart B, syni þeirra, á heimili þeirra að [...], [...], svo sem hér greinir.
I.
Fyrir líkamsárás og hótanir, með því að hafa í ágústmánuði árið 2012, dregið A inn á baðherbergi heimilis þeirra, þar sem ákærði reyndi að ýta höfði hennar ofan í klósett og fyrir að hafa jafnframt ógnað henni með hnífi og loks fyrir að hafa kastað hnífi á eftir henni er hún flýði út af heimili þeirra og leitaði ásjár nágranna.
Telst háttsemi ákærða varða við 217. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II.
Fyrir líkamsárás og hótanir gagnvart A og brot gegn barnaverndarlögum gagnvart B, aðfaranótt fimmtudagsins 15. ágúst 2013 með því að hafa veist að A inni í hjónaherbergi þeirra þar sem hún lá með B, kt. [...], hjá sér í rúminu, en ákærði sparkaði í andlit hennar og læri og sló hana einnig í andlit og í maga. Þá hótaði ákærði henni með því að leggja hníf að hálsi hennar og segjast ætla að skera höfuð hennar af gerði hún eitthvað rangt. Með framangreindri háttsemi beitti ákærði son sinn ógnunum og sýndi honum yfirgang og ruddalegt athæfi. Afleiðingar árásar ákærða á A urðu þær, að hún hlaut tognun í hálshrygg, bólgu og eymsli á kinn og kinnbeini, mar á vinstra herðablaði og þreifieymsli á læri.
Telst þessi háttsemi varða við 217. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og við 1. og 3. mgr. 99. gr barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A, kt. [...], er þess krafðist að ákærði verði dæmdur til að greiða brotaþola skaða- og miskabætur að fjárhæð kr. 900.000 með vöxtum skv. 8. gr., sbr. 1. mgr. 4. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 13. júní 2012 og þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu, en síðan með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.“
Undir dómsmeðferð málsins var fallið frá þeim hluta II. kafla ákæru er varðar brot gegn barnaverndarlögum og til samræmis var því fallið frá tilvísun í barnaverndarlög nr. 80/2002 í ákæru.
Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að bótakrafa sæti lækkun. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.
Ákæruliður I
Ákærði neitar sök hann kvað þau A, þáverandi eiginkona hans, hafa deilt þennan dag en A hafi verið að baða son þeirra en beitt hann harðræði, hún hafi barið hann og ákærði hafi reynt að grípa inn í. Upp úr þessu hófst rifrildi milli þeirra. Ákærði lýsti því að þau A hefðu rifist nánast stöðugt í heila viku en ágreiningur þeirra varðaði vilja A til að senda peninga sem þau ekki áttu til [...] og þau hafi rifist vegna þessa. A hefði verið æst og reið og hún hefði tekið reiði sína út á syni þeirra. Ákærði kvað ekkert af því sem lýst er í þessum ákærulið hafa átt sér stað. Ákærða var gerð grein fyrir vitnisburði A meðal annars um að ákærði hefði kastað hnífi á eftir henni greint sinn. Ákærði kvað þetta ekki hafa átt sér stað. Hann hafi aldrei gripið til hnífs í þessari atburðarás.
Ákærði bar við skýrslutöku hjá lögreglu hinn 16. september 2014 að eiginkona hans hefði farið í Kvennaathvarfið en skilið eftir bréf þar sem segir meðal annars að hún njóti aðstoðar móður sinnar og ætla að skapa sér sitt eigið líf. Spurður um ástæðu þess að eiginkona hans fór í Kvennaathvarfið og dvaldi þar samkvæmt gögnum málsins og vitnisburði dagana 8. til 27. ágúst 2012 kvaðst hann ekki hafa vitað hvert hún fór þennan dag en hún hafi verið farin af heimilinu er hann kom heim úr vinnu og hann hafi ekki vitað hvert hún fór. Þetta hafi verið degi eftir rifrildi þeirra sem ákærði lýsti að framan. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa vitað um dvöl konunnar í Kvennaathvarfinu. Hann lýsti leit að henni og að hann hefði athugað börn þeirra í leikskóla. Ákærði kvað tengdamóður sína hafa búið á heimilinu á þessum tíma og hún hafi verið heima er rifrildið sem lýst var að framan átti sér stað.
Vitnið A kvaðst ekki muna atvik frá þessum tíma í smáatriðum en þessi atburður hefði átt sér stað í ágúst 2012. Hún kvað þau ákærða hafa rifist, ákærði hefði rifið í hár hennar og reynt að þrýsta höfði hennar ofan í salernisskál en ákærði hefði dregið hana á hárinu úr holinu og inn á baðherbergið. Ákærði hefði rifið í föt hennar og hún ekki komist frá honum enda ákærði mun sterkari en hún. Hún kvaðst ekki muna alveg röð atvika frá þessum tíma. Hún kvað ákærða hafa farið inn í eldhúsið eftir atburðina á snyrtingunni. Þar hafi hann sótt hníf og kom að henni á baðherberginu. Er hún sá hnífinn varð hún hrædd, öskraði upp og hljóp út. Hún kvaðst hafa orðið mjög hrædd enda hnífurinn ekki venjulegur hnífur heldur „sveðja“ sem ákærði kastaði á eftir henni. Hún hafi þá opnað út og hlaupið niður tröppur í stigagangi en ákærði kastað hnífnum á eftir henni. Hnífurinn snerti hana ekki en lenti í mynd sem brotnaði. Spurð hvort ákærði hefði ógnað henni með hnífnum kvað hún svo ekki hafa verið. Hún óttaðist að ákærði vildi meiða hana. Hún muni ekki hvort foreldrar hennar voru heima þennan dag en móðir hennar hafi búið á heimilinu á þessum tíma. Síðar við skýrslutökuna taldi hún þau ákærða hafa verið tvö í íbúðinni er þessi atburður átti sér stað en fram kom hjá henni að hún mundi þetta ekki vel. Hún kvaðst hafa staðið á stigapalli er C, nágrannakona hennar, opnaði dyr á heimili sínu og bauð henni inn. Tilvik sem þessi hafi átt sér stað í tvö eða þrjú skipti og hún muni ekki einstök atvik sérstaklega. Hún kvað C hafa heyrt er myndin féll af veggnum og brotnaði. Þá kvaðst hún hafa greint C frá því að ákærði hefði beitt hana ofbeldi og C hljóti að hafa heyrt eitthvað af því sem fram fór. Hún kvaðst ekki muna hvort hún leitaði læknis eftir þennan atburð. Hún kvaðst hafa farið í Kvennaathvarfið í kjölfar þessa atburðar og dvalið þar dagana 8. til 27. ágúst 2012. Hún kvaðst hafa rætt þar við lögreglukonu og hafi hún talið það vera kæru af sinni hálfu. Hún kvaðst hafa flutt aftur inn á heimilið en hún hafi óttast að ákærði yrði henni reiður ef hann frétti að hún hefði lagt fram kæru. Hún hefði því farið á lögreglustöðina til að afturkalla kæruna.
Vitnið D, móðir A, kvaðst muna eftir atburðinum sem hér um ræðir. Hún kvaðst hafa setið með sex mánaða son ákærða og A í setustofu íbúðarinnar. Eldri sonur þeirra hafi verið grátandi að bursta í sér tennurnar á baðherberginu. Þegar drengurinn hóf að gráta reiddist ákærði mjög og taldi að ekki væri séð nægilega vel um barnið. Ákærði hefði gripið í hár A sem veinaði er ákærði reyndi að ýta höfði hennar ofan í salernisskál en hún kvaðst hafa heyrt hávaðann þar sem hún sat með barnið í fanginu. Hún kvaðst ekki vita hvernig þau ákærði og A fóru inn á snyrtinguna. Hún fór fram til að athuga hvað væri í gangi og sá hún þá ákærða reyna að ýta höfði A ofan í salernisskálina en hann hafði vafið hár A um hendur sér er hann reyndi að ýta höfði hennar ofan í salernisskálina. Hún kvaðst hafa gert það sem í hennar valdi stóð til að stöðva þetta og koma í veg fyrir að ákærða tækist þetta. Eftir að A komst út af baðherberginu hafi hún sagt ákærða að ef hann gerði eitthvað meira þá myndi hún hringja á lögreglu. Ákærði öskraði þá á A og viðhafði ljótt orðbragð sem hún lýsti. Ákærði hefði spurt A hvort hún hygðist hringja á lögregluna og sagt að hann myndi drepa hana. Síðan hljóp hann inn í eldhúsið þar sem hann tók kjötsveðju úr skúffu. Hún kvaðst ekki hafa séð hnífinn í höndum ákærða er hann kom úr eldhúsinu en athygli hennar hafi verið á barninu sem hún hélt á. Er A sá þetta hljóp hún út úr íbúðinni og niður stigagang en á þeirri leið sá hún ákærða kasta kjötöxinni á eftir A. Hnífurinn hafnaði í mynd á vegg sem féll í gólfið og brotnaði. Vitnið kvaðst í framhaldi af þessu hafa farið til dóttur sinnar. Meðan á þessu gekk hafi C, íbúi á neðri hæð, opnað inn til sín og hleypt þeim mæðgum inn en hún kvað þær báðar hafa verið mjög óttaslegnar. Þær hafi dvalið í íbúð C um hríð. Þær mæðgur hafi síðan annaðhvort strax eða morguninn eftir farið í Kvennaathvarfið en deilur ákærða og A hafi haldið áfram eftir þetta.
Eins og rakið var að framan bar vitnið A um að hún væri ekki viss um hvort móðir hennar hefði verið á heimilinu á þessum tíma. Vitnið kvað þetta misminni hjá A, hún hafi verið á heimilinu og haldið á drengnum eins og hún lýsti. Við skýrslutöku hjá lögreglu 24. mars 2014 kemur fram að vitnið hafi greint frá því að ákærði hefði haldið A hálstaki. Þar er ekki minnst á salernisskálina. Spurð hverju breyttur framburður sætti kvaðst hún hafa greint lögreglu frá þessu eins og lýst var. Hins vegar hafi hún séð það sem hún lýsti og rakið var að framan og er A tókst að rétta úr sér þá hafi ákærði haldið henni upp að veggnum. Spurð hvers vegna hún hafi ekki greint frá því við skýrslutöku hjá lögreglu að ákærði hefði reynt að ýta höfði hennar ofan í salernisskálina kvað hún skýringuna kunna að vera þá að hún hafi verið miður sín og ekki munað atvik nákvæmlega.
Vitnið C kvaðst hafa vaknað við mikil læti frammi á gangi í húsinu á þessum tíma en hún bjó á hæðinni fyrir neðan ákærða og fjölskyldu hans í [...]. Er hún fór fram á gang kom hún að A sem hélt á barni sínu og móður hennar sem var þarna einnig og hélt á barni. Báðar hafi verið á náttfötum, greinilega í uppnámi og hræddar og verið að forða sér. Hún sá að mynd á ganginum hafði brotnað og glerbrotin á gólfinu. Hún kvaðst hafa gert ráð fyrir því að A hefði rekist í myndina á hlaupum undan ákærða en hún viti þetta ekki. Hún hafi spurt hvað hafi gerst og kom fram að A var að forða sér undan ákærða sem væri brjálaður og hann væri svona oft en A hefði komið inn í íbúð vitnisins þar sem hún sýndi áverka á höndum sem hún kvað ummerki eftir ákærða. A kvað hafa komið til rifrildis milli þeirra ákærða og kvað hún þetta tengjast einhverju er varðaði tannburstun eldri sonar hennar. A hafi sagt ákærða hafa kastað hnífi á eftir sér meðan hún hélt á yngra barninu. Hún lýsti samskiptum þeirra A og vitneskju sinni um dvöl A í Kvennaathvarfinu vegna þessa.
Vitnið E lögreglumaður ræddi við A í Kvennaathvarfinu í ágúst 2012. Hún kvaðst tengiliður lögreglu við Kvennaathvarfið og lýsti hún vinnu sinni við þetta. A hafi verið skelkuð og hún hafi verið með lítil börn í Kvennaathvarfinu og móðir hennar hafi einnig verið þar. Hún hafi skrifað dagbók lögreglu um samtal við A og henni hafi verið leiðbeint um mögulegan framgangsmáta málsins. Hún hafi skráð frásögnina eftir A sem greindi frá því að ákærði hefði margsinnis lagt á hana hendur, hótað henni og fleira. Ákærði hafi síðan í byrjun ágústmánaðar 2012 tekið upp hníf er þau voru stödd á heimili sínu og hótað að skera af henni höfuðið. Hún hefði leitað skjóls hjá nágrannakonu. Eftir þetta leitaði hún í Kvennaathvarfið. Hún kvað eldri son sinn hafa orðið vitni að því er faðir hennar hótaði henni með hnífnum.
Niðurstaða ákæruliðar I
Framburður ákærða um þennan ákærulið er ótrúverðugur og er hann ekki í neinu samræmi við það sem vitni hafa borið. Ráða má af vitnisburði A og móður hennar að þær lýsa sama atburði þótt A hafi ekki munað örugglega hvort móðir hennar hafi verið á heimilinu þennan dag. Vitnið A lýsti því hversu hrædd hún varð er ákærði birtist með hnífinn. Þótt vitnið A hafi borið að ákærði hafi ekki ógnað henni beint með hnífnum er ljóst af vitnisburði hennar að háttsemi ákærða með hnífinn vakti hjá henni ótta svo sem lýst er í 233. gr. almennra hegningarlaga, enda hljóp hún undan ákærða, út úr íbúðinni, eins og rakið var og sýndi ákærði henni því hótun í verki. Vitnisburður A og D er trúverðurgur og fær stoð í vitnisburði C og E. Er samkvæmt þessu sannað með þessum vitnisburði að ákærði hafi gerst sekur um háttsemina sem í þessum ákærulið greinir og er háttsemi hans þar rétt færð til refsiákvæða.
Ákæruliður II
Ákærði neitar sök. Spurður um atburð þennan dag kvaðst hann ekki muna hann nákvæmlega nú en hann hafi unnið mikið, bæði dag og nótt, á þessum tíma. Milli klukkan 9 og 10 að kvöldi þessa dags hafi eldri sonur hans verið í rúminu hjá ákærða. Hann hafi vaknað og þurft á snyrtinguna. Þegar hann kom þangað inn hafi kona hans verið í sturtu. Ákærði kvaðst hafa notað salernið en farið aftur inn í svefnherbergið. Er hann var á leið þangað kvaðst hann hafa séð föður A fara inn á baðherbergið og hafi hann komið þaðan út um 10 mínútum síðar. Hann kvaðst hafa spurt A hvað væri í gangi og þetta hefði leitt til rifrildis milli þeirra A sem sagði getað lifað því lífi sem hún vildi sjálf. Foreldrar A hefðu blandað sér í rifrildi þeirra og hefðu þau öll þrjú snúist gegn ákærða. Rifrildið varði í nokkrar klukkustundir en lauk með því að ákærði fór út af heimilinu og heim til systur sinnar en hann kvaðst hafa drukkið einn bjór á heimili sínu fyrir brottförina. Hann hefði komið til baka síðar sama kvöld og þá fengið sér aftur bjór að sögn en rifrildi þeirra A hafi þá haldið áfram. Hann lýsti því sem fram fór á heimilinu meðal annars því að A hefði greint frá því fyrir giftingu þeirra að faðir hennar hefði reynt að misnota hana er þau bjuggu á [...]. Ákærði lýsti því að faðir A hefði verið undir áhrifum áfengis þennan dag, það er 15. ágúst 2013. Hann kvað foreldra A hafa blandað sér aftur í deilur þeirra og þau hafi meðal annars beitt trúarlegum rökum gegn ákærða þar sem hann kvað þau vera múslima en ákærði sé búddisti. Ákærði kvaðst hafa óskað eftir því að foreldrar A blönduðu sér ekki í deilur þeirra hjóna þar sem deilurnar væru þeirra mál. Þegar þessir atburðir áttu sér stað hafi börnin verið sofandi en afskiptasemi foreldranna hafi valdið því að þau vöknuðu. Foreldrarnir hefðu ýtt A og börnunum inn í stofu. Er ákærði reyndi að komast þangað hindraði tengdafaðir hans för hans með því að ýta borði upp að dyrunum svo að ákærði komst ekki í stofuna. Hann kvað engin átök hafa orðið milli sín og tengdaföður síns utan þess sem lýst var er tengdafaðirinn hindraði för ákærða með borðinu. Lögreglan hafi komið er á þessu stóð. Hann hafi neitað beiðni lögreglu um að yfirgefa heimilið. Úr varð að lögreglan ræddi við hann og er hann sagðist ekki eiga í nein hús að venda er lögreglan bað hann um að fara af heimilinu hafi hann verið handtekinn.
Í frumskýrslu lögreglunnar segir að sjá hafi mátt á eiginkonu ákærða, börnum og tengdaforeldrum að þau hafi verið dauðskelkuð við ákærða. Þau hafi skolfið af hræðslu. Spurður um þetta kvaðst ákærði ekki muna eftir því en hann hafi farið niður og rætt við lögregluna eins og lýst var.
Í frumskýrslunni segir enn fremur að áverkar hafi verið sýnilegir á A og tengdaföður ákærða. Spurðum um þetta kvaðst hann ekki muna eftir því.
Í frumskýrslunni segir að ákærði hafi verið nokkuð ölvaður við komu lögreglu. Ákærði kvaðst þegar hafa greint frá áfengisneyslu sinni, það er að hann hefði drukkið tvo bjóra.
Í lögregluskýrslu sem tekin var af A segir hún að ákærði hafi sakað hana um að hafa sofið hjá föður sínum. Spurður um þetta kvaðst ákærði hafa óskað skýringa á því sem gerðist inni á baðherberginu er tengdafaðir hans fór þangað inn er A var þar eins og lýst var.
Gögn málsins bera með sér að A dvaldi í Kvennaathvarfinu frá 15. ágúst 2013. Ákærði kvaðst hafa verið í vörslum lögreglu er A fór og hann ekki getað skýrt ástæðu þess að hún fór í Kvennaathvarfið á þessum tíma. Ákærði var heima er A kom í fylgd lögreglu hinn 29. ágúst 2013 að sækja muni sína en þá dvaldi hún í Kvennaathvarfinu. A hafi ekki komið aftur heim eftir þetta. Ákærði kvaðst aldrei haf beitt A ofbeldi á sambúðartíma þeirra þótt hún hafi tvisvar sinnum farið í Kvennaathvarfið með börnin á þessum tíma. Þau hafi hins vegar rifist mikið á sambúðartímanum og einkum deilt um peningamál.
Vitnið A kvað þau ákærða hafa rifist þennan dag. Hana minnti að hún hefði farið í sturtu á baðherberginu sem hún læsti ekki vegna þess að eldri sonur hennar og aðrir, meðal annars foreldrar, kynnu að hafa þurft að nota snyrtinguna á sama tíma. Ákærði hefði komið inn á baðherbergið og kastað af sér vatni er farið síðan. Næst kom faðir hennar, opnaði dyrnar á snyrtingunni og lokaði þeim aftur. Þegar hún kom út af snyrtingunni var ákærði frammi og hegðaði sér samkvæmt venju, það er af óvirðingu við vitnið og hló „brjálæðislega“ og lét eins og vitnið og faðir hennar hefðu gert eitthvað ósæmilegt inni á snyrtingunni. Hún kvað sér hafa orðið orða vant og ekki getað brugðist við þessum óheyrilegu ásökunum. Einhver tími leið en ákærði hafi verið mjög æstur og loks fór hann af heimilinu. Eftir brottför ákærða lagðist allt heimilisfólkið til svefns. Ákærði hefði síðan komið aftur seint heim og verið ölvaður og hávaðasamur, öskrað og notað ljót orð. Hún hafi setið skjálfandi á rúmstokknum. Ákærði hefði þá komið og tekið að berja hana. Nánar spurð kvað hún ákærða hafa slegið sig hægra megin á höfuð og í eyra. Auk þess að hafa sparkað í höfuð hennar hægra megin er hún sat í rúmi sínu og vinstra læri svo að hún marðist. Þá hafi hann kýlt hana í kviðinn. Meðan á þessu stóð hafi eldri sonur hennar verið í rúminu hjá henni, hann hafi verið sofandi er ákærði kom inn í herbergið en vaknaði við lætin. Yngri sonur hennar svaf í stofunni ásamt móður hennar. Hún kvað son sinn hafa séð ofbeldið sem faðir hans beitti hana. Hún hafi komið fram með barnið í fanginu, móðir hennar hafi sagt ákærða að láta A vera. Ákærði hafi þá hrint móður hennar. Þá hafi faðir hennar komið að og reyndi ákærði að berja föður hennar með borði sem hún lýsti. Faðir hennar komst undan, hljóp inn í stofu og tókst að loka að sér. Hún kvað ákærða hafa haft hníf í hendinni er hann kom öskrandi inn í svefnherbergið, hún kvaðst ekki hafa séð hnífinn strax en síðan hafi hún séð hann. Spurð hvort ákærði hefði ógnað eða hótað henni með hnífnum kvað hún ákærða hafa lagt hnífinn að hálsi hennar og sagt að hann myndi skera höfuðið af henni ef hún gerði eitthvað rangt eins og lýst er í ákærunni. Hún kvaðst hafa farið á sjúkrahús daginn eftir ef hún man rétt. Hún kvað alla á vettvangi hafa skolfið af ótta við ákærða. Lögreglan hafi komið stuttu síðar. Hún kvaðst hafa leitað í Kvennaathvarfið 15. ágúst 2013. Hún kvað sambandi þeirra ákærða hafa lokið eftir þennan atburð.
Vitnið D kvað sífelldan ágreining hafa verið á heimilinu milli ákærða og A en þessi atburður rifjist upp fyrir henni. Hún kvað yngri son A og ákærða hafa verið hjá sér. Þau hafi verið að ganga til náða en ákærði kom seint heim og skellt hurðinni harkalega við komu. Vitnið kvaðst sofa í stofunni við ólæstar dyr. Við hurðarskellinn fór hún fram til að athuga hvað væri í gangi. Hún sá þá ákærða í eldhúsinu og taka hníf sem hún lýsti. Ákærði hafi því næst farið inn í svefnherbergi þeirra A en hún vissi ekki hvað vakti fyrir honum. Skömmu síðar hafi A veinað upp og kallað „mamma mamma“. Er hún heyrði þetta tók hún yngra barnið og hljóð inn í svefnherbergi þar sem A lá grátandi í rúminu. Hún kvað A hafa greint sér frá því að ákærði hefði sparkað í hana, slegið og kýlt. Spurð hvort hún hefði séð ákærða hóta A með hnífnum eins og lýst er í ákærunni kvaðst hún ekki hafa orðið vitni að því. Hún hefði gripið í ákærða og sagt honum að hætta en hann hefði ýtt henni út. Hún kvaðst sjálf hafa veinað upp yfir sig og eiginmaður hennar þá komið fram. Þá hafi ákærði kastað litlu borði að honum en eiginmaðurinn gat borið fyrir sig hendur. Eiginmaður hennar snerist á hæli og fór aftur inn í setustofuna þaðan sem hann kom. Mikil læti, grátur og öskur voru á staðnum. Meðan á þessu stóð kom lögreglan. Hún kvað þær mæðgur hafa farið í Kvennaathvarfið eftir þetta. Spurð hvort hún hefði séð áverka á A kvað hún A hafa haft bólgu hægra megin á andliti sem hafði áhrif á heyrn hennar. Þá hefði A sagt að ákærði hefði slegið sig á höfuðið hægra megin. Þá hefði hún haft stóran marblett ofarlega á vinstra læri. Hún lýsti áhrifum þessa atburða á dóttur sína og andlegri líðan hennar.
Samkvæmt læknisvottorði A er rætt um bólgu á vinstri kinn og kinnbeini. Spurð um skýringar á þessu kvaðst vitnið muna að A hafi verið bólgin hægra megin á höfði. Þá hafi hún séð mar á vinstra læri A og uppi á mjöðm. Samkvæmt læknisvottorði er ekki að sjá neina áverka eða eymsli á vinstri fótlegg. Spurð um skýringar á þessu kvaðst hún muna þetta vegna þess að hún hafi veitt A aðhlynningu.
Vitnið F faðir A kvaðst hafa setið inni í setustofu heimilisins er hann heyrði vein frammi. Hann fór þangað og sá þá eiginkonu sína með yngri son A í fanginu. Er ákærði, sem stóð fyrir aftan eiginkonu vitnisins, varð hans var greip hann borð og reyndi að kasta í vitnið sem gat borið fyrir sig hendur. Hann kvaðst hafa orðið mjög óttasleginn og svimað og farið aftur inn í herbergi sitt og beðið. Skömmu síðar kom lögreglan. Ákærði reyndi að hefta för lögreglu inn í íbúðina en vitnið kvaðst hafa reynt að fá lögregluna til að koma inn. Hann kvaðst ekki hafa séð það sem í ákæru er sagt að hafi gerst inni í svefnherbergi ákærða og A en hann kvaðst ekki hafa farið þangað inn á þessum tíma. Hann kvaðst ekki hafa séð ákærða handleika hníf á þessum tíma. Hann kvað sér ekki hafa verið greint frá því sem gerðist á þessum tíma í íbúðinni. Hann kvaðst ekki hafa séð bólgu hægra megin á andliti A eftir þetta en hún hafi haltrað er hún ræddi við lögregluna. Hann kvað öll sem þarna bjuggu, utan ákærða, hafa farið í Kvennaathvarfið eftir þetta.
Vitnið G, íbúi í [...], lýsti því að hún hafi heyrt ólæti frá íbúð ákærða eftir að hann kom heim seint úr vinnu og hafi verið á mörkum að vera í lagi eins og vitnið komst að orðið. Það hafi verið nokkuð oft að hennar mati og hún hafi heyrt læti í fólki og einnig frá hlutum. Vitnið gat ekki borið sérstaklega um atvik þessa máls.
Meðal gagna málsins er vottorð, dagsett 7.11.2013, sem H sálfræðingur ritaði. Hún lýsti því að hún hefði að beiðni hjúkrunarfræðings talað við A vegna vanlíðan sem hrjáði A á þessu tímabili. Hún hafi rætt við A og veitt henni ráðgjöf og stuðning. Hún staðfesti vottorð sitt þar sem meðal annars kemur fram að A hafi dvalið í Kvennaathvarfinu um hríð vegna líkamlegs og andlegs ofbeldis eiginmanns hennar. A hafi verið í miklu uppnámi á þessum tíma og lýst vanlíðan og kvíða vegna ofbeldis ákærða gegn sér og ótta um að ákærði tæki börnin færi hún frá honum.
Vitnið I, framkvæmdarstýra Kvennaathvarfsins, staðfesti vottorð sem hún ritaði vegna dvalar A í Kvennaathvarfinu 8. til 27. ágúst 2012 og að móðir hennar hafi einnig dvalið í athvarfinu á sama tíma, að minnsta kosti hluta tímans og síðan tímabilið 15. ágúst til 11. október 2013.
Fyrir liggur læknabréf, dagsett 16.8.2013, sem J sérfræðilæknir undirritar. Í læknabréfinu segir m.a.: „[...] árs kona sem segir eiginmann sinn hafa sparkað í sig og lamið á miðvikudagskvöld. Segir nágranna hafa hringt á lögreglu sem kom á svæðið og fjarlægði eiginmann. Hún er nú í kvennaathvarfinu með börnin.
Segir þetta oft hafa gerst áður en hún hafi aldrei hringt á lögreglu né leitað til læknis vegna þess.
Kvartar nú um verki í hálsi, baki og höfði eftir spörk í andlit, verk í hæfra læri auk erfiðleika með svefn.
Skoðun:
Sjúklingur er skúr, vel vakandi og ekki veikindaleg að sjá.
Höfuð: Væg bólga á vinstri kinn og kinnbeini. Eymsli þar yfir.
Augu: Slímhúðir eru eðlilegar. Eðlilegar augnhreyfingar og ljóssvörun beint og óbeint í báðum augum.
HNE: Ekki er aflögun né eymsli á nefi, engin nefblæðing. Getur opnað munn og birið saman eðlilega án verja. Engir áverkar á tönnum né tungu.
Háls: Ekki virðast þreifieymsli yfir hryggjartindum. Væg bólga vinstramegin á hálsi, vöðvar þar spenntir og aumir.
Bak. Ekki þreifieymsli yfir hryggjartindum. Mar sést undir vinstra herðablaði.
Brjóstkassi: Lungahlustun er jöfn og hrein. Eðlileg hjartahlustun. Ekki sár, bólga, mar, aflögun né eymsli á brjóstkassa.
Kviður: Kviður er ekki þaninn og mjúkur og eymslalaus. Ekki sár, mar eða bólga.
Hægri handleggur: Full og eðlileg hreyfigeta, ekki að sjá sár, bólgu, mar aflögun né eymsli. Eðlilegt skyn og blóðfræði í öllum útlim.
Vinstri handleggur: Full og eðlileg hreyfigeta, ekki að sjá sár, bólgu, mar aflögun né eymsli. Eðlilegt skyn og blóðfræði í öllum útlim.
Hægri fótleggur: Full og eðlileg hreyfigeta, eymsli við þreifingu á læri.
Vinstri fótleggur: Full og eðlileg hreyfigeta, ekki að sjá sár, bólgu, mar aflögun né eymsli.
Meðferðaráætlun :
[...] árs kona sem kemur hér eftir heimilisofbeldi, reyndist vera með tognun á hálshrygg og mar á kinn og vinstri herðablaði. Þessi kona er að verða fyrir ítrekuðu ofbeldi, og er mjög einangruð hér. Henni líður mjög illa og þarf á nánari stuðningi að halda. Ráðleggjum henni eindregið að leita til heimilislæknis í framhaldinu, sem gæti þá veitt henni stuðning. Einnig væri mögulega góð hugmynd að hún fengi einhverja sálfræðimeðferð. Haft er samband við kvennaathvarfið og send tilkynning til varnaverndarnefndar. Fær lyfseðil fyrir Imovane vegna svefnvandamála.“
J staðfesti læknabréfið fyrir dómi en læknabréfið var sent til heimilislæknis og mælt fyrir um framhald aðstoðar við A. Hún kvað A hafa greint svo frá að eiginmaður hennar hefði sparkað í sig og lamið hana og kvartaði undan eymslum á sama hátt og lýst er í læknabréfinu.“
Vitnið K lögreglumaður staðfesti frumskýrslu sem hann ritaði vegna þessa atburðar. K kvað tilkynningu hafa borist um hávaða og dynki. Er bankað var upp á hjá ákærða hafi ákærði svarað. Hann hafi strax verið flóttalegur og sagt þau hjón hafa verið að rífast og lögregla ætti ekki erindi þangað. K kvað eiginkonu ákærða, börn og eldri hjón hafa verið í bakgrunni og öll hafi verið mjög skelkuð vægast sagt. Hann kvað fólkið hafa skolfið og börnin einnig. Hann kvað ljóst á þessu að lögreglan þyrfti að grípa þarna inn í, Rætt hafi verið við fólkið og lýsing fengist á því sem gerst hafði, meðal annars að ákærði hefði ógnað fólkinu með hnífi. Þá hafi verið áverkar á eiginkonu ákærða og eldri manninum sem þarna var. Hann kvað eiginkonu ákærða hafa greint frá því sem gerðist og vísaði hann til kafla í frumskýrslu um þetta: „Að sögn A hafi þau búið saman á Íslandi síðan [...]. Mátti skilja á henni að X hafi ítrekað hótað henni lífláti og einnig hótað henni með hníf. Hafi hún ekki kært hann áður en hefur þó þurft að dveljast í Kvennahvarfinu áður. Sjá má í kerfi lögreglu að áður hefur verið tilkynnt um heimilisofbeldi hjá þeim. Hún sagði X hafa farið út um kvöldið of komið seint heim. Hafði hann verið með fráleitar ásakir í garð hennar, m.a. að hún væri í ástarsambandi við föður sinn. Hafði hann barið hana í framan og hótað henni með hníf. D (tengdamóðir) hafi verið svo skelkuð að hún hafði tekið alla hnífana á heimilinu og falið þá. Sýndu þau lögreglu hnífa sem hann X hafði notað til að hóta þeim með. Var frásögn þeirra öll á sama veg.“
Eins og rakið var staðfesti K skýrsluna fyrir dóminum. Ákærði hafi virst undir áhrifum áfengis. Hann hafi verið tregur að ræða við lögreglu en hann hafi rætt við lögregluna fyrir utan heimilið. Eftir það hafi þótt ástæða til að handtaka hann og flytja af vettvangi. Hann kvað eldra fólkið á vettvangi hafa sýnt með látbragði það sem ákærði hefði gert, auk þess sem þau hefðu sýnt hníf sem ákærði ógnaði þeim með.
Vitnið L bjó á hæðinni fyrir ofan ákærða og A á þessum tíma. Hún hafi lítil samskipti haft við þau. Hún kvað A hafa hringt í sig eftir að hún flutti í Kvennahvarfið í ágúst 2013. Hún hafi athugað hvort hún gæti fylgst með ferðum ákærða svo að hún gæti nálgast föt á börnin og komist óhult í húsið. Ástand A hafi ekki verið gott er hún ræddi þetta. Hún hafi bæði verið hrædd og í uppnámi en það hafi verið vegna þess að A hafi staðið ógn af ákærða, eiginmanni sínum, og augljóst að hún var hrædd við hann. Hún kvaðst hafa greint hræðslu hjá A eitt sinn er þær hittust í sameiginlegu þvottahúsi. A hafi haft orð á því að maður hennar gæti reiðst, eða viðhaft álíka ummæli um hann. Hún kvaðst einu sinni hafa farið niður vegna hávaða. Hún hafi hringt bjöllu en þá hafi allt þagnað og ekki verið svarað. Hún lýsti því að hún hefði séð skakkar myndir og eina brotna á ganginum. C, nágrannakona sín, hafi greint sér frá því að ákærði hefði þá elt A, en vitnið kvaðst ekki hafa séð það.
Vitnið M bjó á sömu hæð í sama húsi og ákærði og eiginkona hans á þessum tíma. Hún kvaðst ekki hafa verið í miklum samskiptum við þau. Hún nefndi að einhverju sinni hefði brotnað mynd á ganginum og hún viti ekki hvað varð til þess að hún brotnaði. Hún nefndi að hún hefði eitt sinn vaknað við sársaukaöskur og læti frá íbúð ákærða. Hún hafi heyrt að lögregla bankaði upp á og ákærði fór síðan út í fylgd lögreglunnar.
Vitnið N var íbúi í sama húsi og ákærði og fjölskylda hans á þessum tíma. N lýsti því að hann hafi nokkrum sinnum heyrt hávaðarifrildi og slagsmál og kvenmannsöskur tvisvar sinnum og hafi hann þá hlaupið fram á gang til að athuga hvað væri að gerast. Hann lýsti einu skipti er hann heyrði mikinn hávaða frammi á gangi er hann fór út úr íbúð sinni og hafi hann komið að A á neðsta stigapalli hússins og eldri kona hafi verið með henni. A hafi verið mikið niðri fyrir og er hann spurði hvað væri að hafi A stöðugt haldið fyrir andlit sér og snúið sér undan og lítið viljað segja við vitnið. Þá lýsti hann blettum sem að hann sá á ganginum og hann taldi hafa verið blóðbletti. Í þetta sinn hafi myndir á ganginum verið skakkar og ein myndanna hafi dottið. Hann mundi ekki hvenær þetta var.
Niðurstaða ákæruliðar II
Framburður ákærða er ótrúverðugur og fær nánast að engu leyti samrýmst því sem vitni hafa borið. Vitnisburður A er trúverðugur og fær hann stoð í vitnisburði D og að hluta einnig með stoð í vitnisburði F. Þá fær vitnisburður A einnig stoð í því sem fram kemur í frumskýrslu lögreglunnar og þar með af vitnisburði K sem rakinn var. Þá er vísað til vitnisburðar J sérfræðilæknis og H sálfræðings en vottorð þeirra og vitnisburður rennir frekari stoðum undir vitnisburð A. Að öllu þessu virtu þykir vitnisburður A fá þann stuðning af því sem rakið hefur verið að unnt sé að leggja vitnisburð hennar til grundvallar niðurstöðunni. Samkvæmt þessu er sannað með trúverðugum vitnisburði A, sem fær stoð af vitnisburði og gögnum sem vísað var til og auk þess með stuðningi af öðrum gögnum málsins, en gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemina sem í þessum ákærulið greinir og eru brot hans rétt færð til refsiákvæða í ákærunni að teknu tilliti til breytinga sem gerð var á þessum ákærulið og áður er lýst.
Ákærði hefur ekki áður gerst brotlegur við lög. Við refsiákvörðun er tekið mið af 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga en ákærði braut gegn eiginkonu sinni á heimili þeirra. Ákærða er ákvörðuð refsing með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 3 mánuði. Langur tími er liðinn frá því brotin voru framin og verður ákærði ekki sakaður um dráttinn sem orðið hefur en langan tíma tók að fá vitni til landsins. Þykir því eftir atvikum rétt að fresta fullnutu refsingarinnar skilorðsbundið eins og í dómorði greinir.
A á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Brot ákærða áttu sér stað inni á heimili þeirra A. Að þessu og öðrum gögnum málsins virtum þykja miskabætur til A hæfilega ákvarðaðar 500.000 krónur auk vaxta svo sem í dómsorði greinir en dráttarvextir reiknast frá 6. mars 2014 er mánuður var liðinn frá birtingu bótakröfunnar fyrir ákærða.
Ákærði greiði 814.400 króna réttagæsluþóknun Ingólfs Kristins Magnússonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A.
Hluti sakarkostnaðar er til kominn eftir upphaf aðalmeðferðar og verður ekki dæmt um hann hér, sbr. 2. mgr. 217. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu virtu er ákærða gert að greiða 588.246 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.
Ákærði greiði 814.400 króna málsvarnarlaun Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti.
Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 3 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsing hans niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A, kt. [...], 500.000 krónur í miskabætur auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 1. mgr. 4. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 13. júní 2012 til 6. mars 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 588.246 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.
Ákærði greiði 814.400 króna réttagæsluþóknun Ingólfs Kristins Magnússonar héraðsdómslögmanns.
Ákærði greiði 814.400 króna málsvarnarlaun Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti.