Print

Mál nr. 29/2009

Lykilorð
  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Rannsókn

Föstudaginn 30

 

Föstudaginn 30. janúar 2009.

Nr. 29/2009.

Ríkislögreglustjóri

(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari)

gegn

X

(Kristín Edwald hrl.)

Kærumál. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur. Rannsókn.

X kærði úrskurð héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfu um það aðallega að úrskurðað yrði að rannsókn ríkislögreglustjóra vegna meintra brota X gegn lögum um tekjuskatt og fleiri lögum yrði dæmd ólögmæt en til vara að mælt yrði fyrir um að H yrði skylt að víkja sæti við rannsókn málsins. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, kom fram að orðalag 75. gr. laga nr. 19/1991 yrði ekki skilið öðruvísi en svo að forsenda þess að ágreiningur yrði borinn undir dómstóla væri að viðkomandi mál væri til rannsóknar hjá lögreglu eða ákæruvaldi. Mál X var til rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra þegar krafan barst dóminum en þeirri rannsókn var lokið og ákæra hafði verið gefin út þegar málið var tekið til úrskurðar í héraðsdómi. Var héraðsdómur því staðfestur um að vísa kröfum X  frá dómi.  

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. janúar 2009 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2009 þar sem vísað var frá dómi kröfum varnaraðila um það aðallega að úrskurðað yrði að rannsókn ríkislögreglustjóra í máli nr. 006-2004-76 teldist ólögmæt, en til vara að mælt yrði fyrir um að Helga Magnúsi Gunnarssyni, saksóknara efnahagsbrota við embætti ríkislögreglustjóra, yrði skylt að víkja sæti við rannsókn málsins. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka kröfur hennar til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í því sakamáli sem höfðað hefur verið gegn varnaraðila á hún þess kost að láta reyna á þau atriði sem hér um ræðir. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2009.

I.

   Með bréfi til dómsins 19. nóvember 2008 hefur Kristín Edwald hrl., f.h., X kt. [...], [heimilisfang], krafist þess, aðallega, að dómurinn úrskurði að rannsókn ríkislögreglustjóra á máli nr. 006-2004-00076 sé ólögmæt, en til vara að Helga Magnúsi Gunnarssyni, saksóknara efnahagsbrota við embætti ríkislögreglustjóra, sé skylt að víkja sæti við rannsókn málsins. Þá er þess krafist að ríkissjóður greiði allan málskostnað sóknaraðila vegna rannsóknar ofangreinds máls, svo og kostnað vegna þessarar kröfu, að mati dómsins.

   Af hálfu ríkislögreglustjóra er þess aðallega krafist að kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi, en til vara að þeim verði hafnað.

II.

   Í bréfi lögmanns sóknaraðila kemur fram að sóknaraðili hafi haft stöðu sakbornings vegna rannsóknar á svokölluðu [...] frá því í lok ágúst 2002, og hafi tvær ákærur verið gefnar út í því máli. Í fyrra málinu hafi sóknaraðili verið meðal ákærðu, en verið sýknuð af kröfum ákæruvaldsins með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 181/2006. Í síðara málinu hafi sóknaraðili hins vegar ekki verið meðal ákærðu, en endanlegur dómur í því máli hafi gengið í Hæstarétti 5. júní 2008, mál nr. 385/2007. Fram kemur einnig í bréfi sóknaraðila að 17. september 2003 hafi ríkislögreglustjóri sent skattrannsóknarstjóra ríkisins samantekt um þau atriði sem talin voru veita sterka vísbendingu um skattalagabrot sóknaraðila og nokkurra annarra sakborninga. Hafi skattrannsóknarstjóri hafið rannsókn á málinu 14. nóvember 2003, en að því loknu vísað málinu í heild til ríkislögreglustjóra með kæru 12. nóvember 2004.

   Með bréfi til ríkissaksóknara 8. júlí 2008 krafðist sóknaraðili þess að rannsókn máls nr. 006-2004-00076 yrði hætt. Ríkissaksóknari svaraði bréfi lögmannsins um hæl, og er frekari grein gerð fyrir bréfaskiptum lögmannsins og ríkissaksóknara í bréfi lögmannsins til dómsins. Þann 22. október 2008 tilkynnti ríkissaksóknari sóknaraðila að hann hefði ákveðið að veita settum ríkislögreglustjóra frest til að taka ákvörðun um framhald málsins til 15. desember 2008.

   Af ofangreindu tilefni telur sóknaraðili sig knúna til að leita réttar síns fyrir dómstólnum, og gerir þær kröfu sem að framan greinir.

III.

   Aðalkrafa sóknaraðila byggist á því að rannsókn á máli sóknaraðila, sem nefnt er einu nafni [...] í bréfi sóknaraðila, hafi staðið óhæfilega lengi yfir, eða allt frá því húsleit var gerð hjá A 28. ágúst 2002. Með því hafi verið brotið gegn rétti sóknaraðila til fljótvirkrar málsmeðferðar í skilningi 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Tvisvar hafi þó verið ákært í málinu, án þess að sakarefni þessa þáttar málsins hafi verið ákæruefni. Kröfu sinni til stuðnings vísar sóknaraðili til forsendna í dómi Hæstaréttar í máli nr. 385/2007, en einnig til bréfs ríkissaksóknara, sem er meðal gagna málsins, þar sem tekið sé undir sjónarmið sóknaraðila um að rannsókn málsins hafi dregist mjög.  

   Í öðru lagi er krafa sóknaraðila á því reist að settur ríkislögreglustjóri hafi ekki lagt sjálfstætt mat á rannsóknina. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 661/2006 hafi skipuðum ríkislögreglustjóra verið gert að víkja sæti við rannsókn þessa máls, og annar einstaklingur settur sem ríkislögreglustjóri við rannsókn málsins. Telur sóknaraðili að sá einstaklingur hafi hins vegar engin afskipti haft af rannsókn málsins. Þvert á móti megi sjá af gögnum málsins að saksóknari efnahagsbrota og næsti undirmaður skipaðs ríkislögreglustjóra, Helgi Magnús Gunnarsson, hafi einn verið í fyrirsvari málsins, bæði gagnvart verjendum og ríkissaksóknara. Með slíku fyrirkomulagi telur sóknaraðili að engin trygging sé fyrir rétti sakborninga til réttlátrar málsmeðferðar.

   Varakrafa sóknaraðila, um að Helga Magnúsi Gunnarssyni, saksóknara efnahagsbrota við embætti ríkislögreglustjóra, sé skylt að víkja sæti við rannsókn málsins, er á því byggð að hann hafi verið svo viðriðinn rannsókn svonefnds [...] allt frá upphafi þess, að hann sé vanhæfur til að stýra rannsókn þessa máls. Til stuðnings þeirri kröfu vísar sóknaraðili sérstaklega til þess að í því máli sem þegar hafi verið rekið á hendur sóknaraðila og fleirum, Hæstaréttarmál nr. 181/2006, hafi Helgi Magnús Gunnarsson verið vitni ákæruvaldsins, en einnig til þess að honum hafi nú, af settum ríkislögreglustjóra, verið falið að leggja mat á gildi þeirrar rannsóknar sem hann hafi sjálfur unnið að og stýrt að nokkru leyti.

   Kröfur ríkislögreglustjóra byggjast á því að lokið sé rannsókn á þætti sóknaraðila í máli þessu og hafi ákæra verið gefin út á hendur henni. Því séu ekki lengur forsendur til þess að fjalla um kröfur sóknaraðila, sem byggi á 75. gr. laga nr. 19/1991, sbr. nú 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008. Ákvæðið sé bundið við rannsóknarathafnir lögreglu eða ákæranda, svo og ágreining um réttindi sakbornings og málsvara hans, en veiti ekki heimild til þess að bera slíkan ágreining undir dómara þegar rannsókn sé lokið og ákæra hafi verið gefin út. Verði sóknaraðili að bera kröfur sínar undir þann dómara sem fari með málið samkvæmt ákærunni. Því beri að vísa kröfum sóknaraðila frá dómi, en hafna þeim ella.

   Að loknum munnlegum málflutningi 12. janúar sl. var krafa sóknaraðila tekin til úrskurðar.

IV.

   Mál þetta var þingfest 24. nóvember 2008 og voru þá til rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra ætluð brot sóknaraðila gegn skattalögum. Í þinghaldi þann dag fékk ríkislögreglustjóri frest til 8. desember til að skila greinargerð í málinu. Sá frestur var síðar framlengdur til 19. desember, að ósk ríkislögreglustjóra og með samþykki sóknaraðila. Daginn áður, 18. desember, gaf settur ríkislögreglustjóri út ákæru á hendur sóknaraðila og fleiri aðilum fyrir ætluð brot á lögum um tekjuskatt og fleiri lögum. Verður ekki annað ráðið en að ákæran sé reist á þeirri rannsókn sem sóknaraðili í máli þessu gerir kröfu um að úrskurðuð verði ólögmæt.

   Eins og áður greinir var í 75. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, heimild til að bera undir dómara ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda, sbr. nú 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Orðalag ákvæðisins verður ekki skilið öðruvísi en svo að forsenda þess að ágreiningur verði borinn undir dómstóla sé að viðkomandi mál sé til rannsóknar hjá lögreglu eða ákæruvaldi. Málið, sem hér um ræðir, var til rannsóknar hjá ríkislögreglustjóra þegar krafa sóknaraðila barst dóminum. Þeirri rannsókn er hins vegar lokið, eins og að framan er rakið, og hefur ákæra verið gefin út og falin ákveðnum dómara til meðferðar. Eftir þann tíma verður aðeins fjallað um rannsóknina og hæfi þeirra sem hana önnuðust í tengslum við meðferð málsins fyrir þeim dómara. Verður ekki annað séð en að sóknaraðili eigi við vörn málsins þess kost að koma að öllum sömu kröfum og gerðar eru í máli þessu. Samkvæmt því verður öllum kröfum sóknaraðila í máli þessu vísað frá dómi.

   Ingimundur Einarsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

   Kröfum sóknaraðila X, er vísað frá dómi.