Print

Mál nr. 155/2010

Lykilorð
  • Kærumál
  • Lögreglurannsókn
  • Hæfi
  • Stjórnsýsla

Mánudaginn 19. apríl 2010.

Nr. 155/2010.

Ákæruvaldið

(Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari)

gegn

X

(enginn)

Kærumál. Lögreglurannsókn. Hæfi. Stjórnsýsla.

X var ákærð fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa slegið lögreglumann, sem var við skyldustörf, hnefahögg í andlitið. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi, með vísan til 5. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008, þar sem sýslumaðurinn á Selfossi hafi verið vanhæfur til að fara með rannsókn þess með vísan til 6. töluliðar 1. mgr. 3. gr. laga nr. 37/1993. Í dómi Hæstaréttar kom fram að nýrri 7. mgr. hafi verið bætt við 8. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 en hún mæli fyrir um að lögreglustjórar og aðrir þeir sem fari með lögregluvald megi ekki rannsaka brot ef þeir eru vanhæfir til þess samkvæmt stjórnsýslulögum, sbr. þó 5. mgr. 5. gr. Starfsmenn þess lögreglustjóra, sem vanhæfur sé, geti þó rannsakað mál undir stjórn annars lögreglustjóra nema þeir séu sjálfir vanhæfir til af fara með málið samkvæmt stjórnsýslulögum. Talið var að lögreglumaðurinn, sem X var gefið að sök að hafa ráðist á, hefði verið vanhæfur til að starfa við rannsókn málsins, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, en eftir viðteknum skýringum á ákvæðum þessarar lagagreinar hafi það þó engin sjálfkrafa áhrif á hæfi sýslumanns sem yfirmanns lögreglumannsins eða samstarfsmanna. Þótt aðstæður hafi hér verið með þeim hætti að ætlað brot hafi átt sér stað á starfsstöð lögreglunnar á Selfossi og talið hafa beinst að einum starfsmanna sýslumanns, valdi slík starfstengsl því ekki ein út af fyrir sig að hann hafi verið vanhæfur til að fara með rannsókn málsins. Í málinu hafi ekki verið vísað til annarra atvika til stuðnings því að draga mætti óhlutdrægni sýslumanns með réttu í efa. Þá væri þess og að gæta að ríkissaksóknari, en ekki sýslumaðurinn á Selfossi, hafi gefið út ákæru í málinu og verði dómur í því reistur á sönnunargögnum, sem færð séu fram við meðferð þess fyrir dómi, en ekki á lögreglurannsókn umfram það sem heimilað sé í 3. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 4. mars 2010, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins höfðu lögreglumenn afskipti af varnaraðila 12. október 2008 á tilteknu veitingahúsi á Selfossi vegna ölvunar hennar og átaka, sem hún átti þar hlut að. Í frumskýrslu lögreglu kom fram að hún hafi verið fjarlægð af staðnum og færð á lögreglustöðina þar sem reynt hafi verið að róa hana. Með því að það hafi ekki tekist hafi orðið að vista hana í fangaklefa. Þegar lögreglumenn færðu hana þangað hafi hún slegið einn þeirra, Tinnu Jóhönnudóttur, í andlitið og hafi höggið komið ofan við augabrún. Lögreglan á Selfossi annaðist rannsókn málsins, en við hana voru teknar skýrslur í júlí og ágúst 2009 af varnaraðila, Tinnu og samstarfsmanni hennar og aflað læknisvottorðs varðandi meiðsl Tinnu. Í október var gerð upplýsingaskýrsla þar sem fram kom að hún hygðist ekki leggja fram bótakröfu á hendur varnaraðila. Málið virðist hafa verið sent ríkissaksóknara í desember 2009. Með ákæru hans 27. janúar 2010 var varnaraðila gefið að sök brot gegn valdstjórninni með því að hafa áðurnefndan dag slegið lögreglumanninn Tinnu hnefahögg í andlit á lögreglustöðinni að Hörðuvöllum 1 í Árborg, þar sem Tinna hafi verið við skyldustörf, með þeim afleiðingum að hún hafi hlotið bólgukúlu, mar og eymsli hægra megin í andliti við augabrún, en þessi háttsemi var talin varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Mál þetta var á grundvelli ákærunnar þingfest fyrir Héraðsdómi Suðurlands 19. febrúar 2010. Í þinghaldinu var fært til bókar að dómari teldi rétt að taka málið til úrskurðar um hvort því yrði vísað frá dómi „vegna tengsla brotaþola og rannsóknaraðila.“ Héraðsdómari vísaði svo málinu frá dómi með hinum kærða úrskurði á þeim forsendum að sýslumaðurinn á Selfossi hafi verið vanhæfur til að fara með rannsókn þess.

Í málinu er varnaraðila gefið að sök brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, sem veitir meðal annars lögreglumönnum sérstaka réttarvernd sem opinberum starfsmönnum. Hér stendur svo á að samstarfsmenn brotaþola í málinu önnuðust rannsókn málsins í umboði og undir stjórn sýslumannsins á Selfossi. Með 234. gr. laga nr. 88/2008 var nýrri 7. mgr. bætt við 8. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og er hún svohljóðandi: „Lögreglustjórar og aðrir þeir sem fara með lögregluvald mega ekki rannsaka brot ef þeir eru vanhæfir til þess samkvæmt stjórnsýslulögum, sbr. þó 5. mgr. 5. gr. Starfsmenn þess lögreglustjóra, sem vanhæfur er, geta þó rannsakað mál undir stjórn annars lögreglustjóra nema þeir séu sjálfir vanhæfir til af fara með málið samkvæmt stjórnsýslulögum.“ Í 2. mgr., sbr. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sem lög nr. 88/2008 leystu af hólmi, sagði að ríkissaksóknari færi með ákæruvald eða fæli öðrum að fara með það þegar svo stæði á að lögreglustjóri væri vanhæfur. Ákvæði þetta sneri aðeins að hæfi lögreglustjóra til að fara með ákæruvald, en í þeim lögum voru á hinn bóginn engar reglur um hvernig með skyldi fara ef lögreglustjóri væri vanhæfur til að fara með rannsókn máls. Um það giltu því á þeim tíma reglur 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Til þeirra er nú beinlínis vísað í 7. mgr. 8. gr. lögreglulaga, sem fól þannig ekki í sér efnislega breytingu að þessu leyti frá eldri lögum. Eins og fyrr segir önnuðust starfsmenn sýslumannsins á Selfossi rannsókn á ætluðu broti varnaraðila, sem beindist gegn starfsfélaga þeirra og undirmanni sýslumannsins. Lögreglumaðurinn, sem varnaraðila er gefið að sök að hafa ráðist á, hefði verið vanhæfur til að starfa við rannsókn málsins, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, en eftir viðteknum skýringum á ákvæðum þessarar lagagreinar hefur það þó engin sjálfkrafa áhrif á hæfi sýslumanns sem yfirmanns lögreglumannsins eða samstarfsmanna. Ákvæði 1. til 4. töluliðar 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga koma að öðru leyti ekki til álita við mat á hæfi sýslumannsins eða undirmanna hans til að fara með rannsókn málsins og heldur ekki fyrirmæli 5. töluliðar, enda er því ekki borið við að sýslumaður eða þeir, sem unnu að rannsókninni, hafi átt sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta. Samkvæmt 6. tölulið sama lagaákvæðis verður starfsmaður vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru að öðru leyti en um getur í 1. til 5. tölulið aðstæður sem fallnar eru til að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Þótt aðstæður hafi hér verið með þeim hætti að ætlað brot hafi átt sér stað á starfsstöð lögreglunnar á Selfossi og talið hafa beinst að einum starfsmanna sýslumanns, valda slík starfstengsl því ekki ein út af fyrir sig að hann hafi verið vanhæfur til að fara með rannsókn málsins. Í málinu hefur ekki verið vísað til annarra atvika til stuðnings því að draga megi óhlutdrægni sýslumannsins með réttu í efa. Þá er þess og að gæta að eins og áður greinir gaf ríkissaksóknari, en ekki sýslumaðurinn á Selfossi, út ákæru í málinu og verður dómur í því reistur á sönnunargögnum, sem færð eru fram við meðferð þess fyrir dómi, en ekki á lögreglurannsókn umfram það sem heimilað er í 3. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Með vísan til þessa alls verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 4. mars 2010.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 19. febrúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 27. janúar 2010 á hendur X, kt. [...], [...], [...], „fyrir brot gegn valdstjórninni, aðfaranótt sunnudagsins 12. október 2008, á lögreglustöðinni Hörðuvöllum 1, Árborg, með því að hafa slegið lögreglumanninn Tinnu Jóhönnudóttur, sem var við skyldustörf, hnefahögg í andlitið, með þeim afleiðingum að hún hlaut bólgukúlu, mar og eymsli hægra megin í andliti við hægri augabrún.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 101/1976 og 1. gr. laga nr. 25/2007.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Við þingfestingu málsins 19. febrúar sl. tók dómari fram að þeir annmarkar kynnu að vera á rannsókn málsins að vísa bæri því frá dómi. Var málið tekið úrskurðar sama dag eftir að sakflytjendur höfðu tjáð sig um málefnið.

Í frumskýrslu lögreglunnar á Selfossi kemur fram að lögreglumenn hafi haft afskipti af ákærðu rétt eftir miðnætti aðfaranótt 12. október 2008 vegna ölvunar og átaka er hún hefði lent í inni á veitingastaðnum [...] á [...]. Hafi hún verið færð á lögreglustöðina á Selfossi. Þar sem illa hafi gengið að róa hana niður hafi verið talið nauðsynlegt að færa hana í klefa og láta hana þar sofa úr sér áfengisvímuna. Þegar lögreglumenn hafi verið að færa hana inn í klefann hafi ákærða slegið lögreglukonu högg í andlitið sem hafi lent ofan við vinstri augabrún.

Rannsókn á máli þessu virðist ekki hafa hafist fyrr en með skýrslutökum af brotaþola, ákærðu og samstarfsmanni brotaþola í júlí og ágúst 2009. Skýrslutökur og rannsókn málsins að öðru leyti önnuðust samstarfsmenn brotaþola og verður ekki annað ráðið af rannsóknargögnum en að þeir hafi gert það í umboði og undir stjórn yfirmanns síns, Sýslumannsins á Selfossi.

Í 7. mgr. 8. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er kveðið á um að lögreglustjórar og aðrir þeir sem fari með lögregluvald megi ekki rannsaka brot ef þeir eru vanhæfir til þess samkvæmt stjórnsýslulögum. Kemur og fram að starfsmenn þess lögreglustjóra sem vanhæfur er geti ekki rannsakað mál nema rannsókn fari fram undir stjórn annars lögreglustjóra, enda séu þeir ekki sjálfir vanhæfir til að fara með málið samkvæmt stjórnsýslulögum. Telja verður að Sýslumaðurinn á Selfossi hafi verið vanhæfur til að fara með rannsókn máls þessa með vísan til 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt því, og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í málinu nr. 59/2010, verður máli þessu vísað frá dómi með vísan til  5. mgr. 26. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Allur sakarkostnaður, þar með talin þóknun skipaðs verjanda ákærðu, Sigurðar Sigurjónsonar hrl., 48.820 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Allur sakarkostnaður, þar með talin 48.820 króna þóknun skipaðs verjanda ákærðu, Sigurðar Sigurjónsonar hrl., greiðist úr ríkissjóði.