- Kærumál
- Kæruheimild
- Frestur
- Frávísun frá Hæstarétti
|
Fimmtudaginn 4. apríl 2013. |
Nr. 221/2013. |
Ákæruvaldið (Björn Þorvaldsson saksóknari) gegn X (Hörður Felix Harðarson hrl.) Y (Gestur Jónsson hrl.) Z og (Ragnar Halldór Hall hrl.) Þ (Karl Axelsson hrl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Frestur. Frávísun frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X, Y, Z og Þ um að fresta aðalmeðferð í sakamáli sem ákæruvaldið hafði höfðað gegn þeim. Kærunni var vísað frá Hæstarétti þar sem úrskurðurinn sætti ekki kæru samkvæmt gagnályktun frá s. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 27. mars 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2013 þar sem synjað var kröfu varnaraðila um „að horfið verði frá ákvörðun um aðalmeðferð málsins 11. apríl nk. og þess í stað ákveðið nýtt þinghald í málinu eftir 6-8 vikur þar sem verjendum gefist kostur á að bregðast við nýjum gögnum frá ákærandanum, eftir atvikum með framlagningu nýrra gagna.“ Um kæruheimild er vísað til 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess aðallega að framangreind krafa þeirra verði tekin til greina. Til vara krefjast þeir þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Í kröfugerð varnaraðila felst að fyrirhugaðri aðalmeðferð málsins 11. apríl n.k. verði frestað. Samkvæmt s. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 sæta kæru til Hæstaréttar úrskurðir héraðsdóms um að frestur skuli veittur. Samkvæmt gagnályktun frá þessu ákvæði sæta ekki kæru úrskurðir þar sem slíkri kröfu er hafnað. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.
Það athugast að kæra þessi er að ófyrirsynju.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2013.
Með ákæru, dagsettri 16. febrúar 2012, höfðaði sérstakur saksóknari, samkvæmt lögum nr. 135, 2008, sakamál á hendur ákærðu fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og fyrir brot gegn 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108, 2007. Var mál þetta þingfest 7. mars í fyrra en aðalmeðferð hefur verið ákveðin 11. apríl nk. með samþykki málflytjenda í tölvuskeytum 17. desember sl. Með tölvuskeyti til málflytjendanna 19. desember var boðað til aðalmeðferðar hinn 11. apríl nk. og gerðu þeir ekki athugasemd við það. Hinn 7. mars sl. var kveðinn upp úrskurður þar sem synjað var kröfu ákærðu um það að aðalmeðferð í málinu yrði frestað.
Verjendur ákærðu hafa krafist þess að horfið verði frá því að hafa aðalmeðferð í málinu og þingað verði í því eftir 6 til 8 vikur til „þar sem verjendum gefist kostur á því að bregðast við nýjum gögnum frá ákærandanum, eftir atvikum með framlagningu nýrra gagna“. Er því haldið fram að fjölmörg ný gögn hafi komið fram í málinu, sem ákæruvaldið aflaði og lögð voru fram 7. mars sl. Þeirra á meðal sé samningur (á ensku), m.a. milli [...] og [...], þar sem sá síðarnefndi gangist undir að greiða slitabúinu jafnvirði nokkurra milljarða króna vegna skuldbindinga sinna við [...]. Feli samningurinn í sér fullnaðaruppgjör á skuldbindingum hans við [...]. Jafnframt hafi ákærandinn lýst því yfir í þinghaldinu að þrjú vitni á vitnalista ákæruvaldsins í málinu myndu ekki gefa skýrslur fyrir dómi en vitni þessi hafi annast samningsgerð af hálfu [...] í viðskiptunum við [...] sem eru tilefni ákærunnar. Ekki sé of mikið sagt að þessar upplýsingar breyti verulega grundvelli sakamálsins sem byggst hafi á forsendum um blekkingar og sýndarviðskipti. Hafi verjendur óskað frests til þess að kynna sér hin nýju gögn og hvernig þeir ættu að bregðast við framlagningu þeirra. Af endurriti þingbókar í málinu sjáist að ákvörðun um aðalmeðferð málsins hafi ekki verið tekin og enginn verjenda hafi lýst því yfir að gagnaöflun af hálfu sakborninga sé lokið. Séu skilyrði 4. mgr. 165. gr. laga um meðferð sakamála 88, 2008 til þess að dómari geti ákveðið aðalmeðferð því ekki uppfyllt.
Ekki sé alls kostar nákvæmt sem segi í forsendum úrskurðarins 7. mars að verjendur hafi krafist þess að aðalmeðferð yrði frestað, þótt vissulega hafi komið fram af þeirra hálfu að þeir teldu ekki tímabært að ákveða tíma fyrir aðalmeðferð.
Niðurstaða
Aðalmeðferð í máli þessu var ákveðin fyrir 14 vikum með samþykki allra málflytjenda í tölvuskeyti og í framhaldi af því var tilkynnt um hana sérstaklega í skeyti til verjendanna, sem þá gerðu enga athugasemd. Nokkuð kveður að því í rekstri sakamála að aðalmeðferð sé ákveðin utan réttar og til hennar boðað með tölvuskeyti. Helgast það af því að rekstur sakamála er hraður og jafnframt af ýmsum ófyrirséðum forföllum sem heyra til þeim flokki mála. Verður heldur ekki séð af 4. mgr. 165. gr. laga um meðferð sakamála að skylt sé að bóka þá ákvörðun í þingbók, þótt það sé reyndar oft gert.
Vegna ákvæðis 4. mgr. 165. gr. laga um meðferð sakamála varð að skilja samþykki verjenda um aðalmeðferðina í tölvuskeytum til dómarans í desember svo að gagnaöflun væri lokið af þeirra hálfu. Jafnframt ber að hafa það í huga að dómari ræður rekstri máls, þ.á m. því hvenær aðalmeðferð skuli fara fram. Getur það ekki verið á valdi málsaðila að tefja fyrir henni með því að geyma sér það að lýsa gagnaöflun lokið.
Krafa verjendanna er reist á því að nauðsynlegt sé að hafa þinghald í málinu eftir 6-8 vikur þar sem verjendum gefist kostur á að bregðast við nýjum gögnum frá ákærandanum, eftir atvikum með framlagningu nýrra gagna. Ekki verður séð að þau gögn sem lögð hafa verið fram í málinu frá því að aðalmeðferð var ákveðin í því séu svo mikil að vöxtum eða þess eðlis að þau réttlæti það að hafa sérstakt þinghald í málinu, eins og krafist er, og fresta jafnframt aðalmeðferðinni í því.
Með vísan til þess sem rakið hefur verið ber að synja kröfu verjenda ákærðu um það að horfið verði frá ákvörðun um aðalmeðferð málsins 11. apríl nk. og að þess í stað ákveði dómari nýtt þinghald eftir 6-8 vikur þar sem verjendum gefist kostur á að bregðast við nýjum gögnum frá ákærandanum, eftir atvikum með framlagningu nýrra gagna.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Synjað er kröfur verjenda ákærðu um það að horfið verði frá ákvörðun um aðalmeðferð málsins 11. apríl nk. og þess í stað ákveðið nýtt þinghald í málinu eftir 6-8 vikur þar sem verjendum gefist kostur á að bregðast við nýjum gögnum frá ákærandanum, eftir atvikum með framlagningu nýrra gagna.