- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Þriðjudaginn 10. mars 2015 |
Nr. 186/2015. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. mars 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. mars nk. kl. 16.00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi haft til rannsóknar tvö mál þar sem stúlkur undir lögaldri eigi í samskiptum við karlmann á samfélagsmiðlinum snapchat og leiði samskiptin til þess að hann sæki þær á [...] sendiferðabíl og fari með þær heim til sín.
007-2015-[...]
A, faðir B, kt. [...], lagði fram kæru vegna meints kynferðisbrots gegn dóttur hans laugardaginn 9. febrúar sl. B muni hafa upplýst föður sinn um að maður hafi haft samband við sig gegnum samfélagsmiðilinn snapchat og spurt hvort hún vildi koma í myndatöku sem hún hafi samþykkt. Þau hafi mælt sér mót við [...] þar sem kærði hafi sótt hana og farið með hana á heimili kærða. Þegar á heimili kærða hafi verið komið hafi kærði myndað B léttklædda auk þess að taka myndir af rassi hennar eftir að hafa boðið henni 10.000 krónur fyrir slíkt. Að því loknu kveðst B hafa yfirgefið heimili kærða. A hafi jafnframt upplýst að á laugardeginum eftir að hún hafi komið heim til sín, hafi hún farið að kvarta undan magaverk og hausverk og sé enn að kvarta undan magaverk. B hafi ekki upplýst föður sinn frekar. B hafi lýst manninum sem [...] ára þrekvöxnum manni.
007-2015-[...]
C, móðir D, kt. [...], lagði fram kæru á hendur aðila sem hafi sett sig í samband við dóttur hennar miðvikudagskvöldið 4. mars 2015, í gegnum smáforritið Snapchat og hafi í kjölfarið numið D á brott. C kvað D hafa farið út um níu leytið, til þess að fara að ganga. C sagðist hafa sagt henni að vera ekki lengi enda mætti hún ekki vera úti eftir klukkan 22:00. Þegar D hafi ekki skilað sér heim á réttum tíma kvaðst C hafa haft samband við vinkonur hennar sem vissu ekki hvar D var þannig að úr varð að hún hóf leit um hverfið af D, án árangurs. C kvaðst hafa farið heim að nýju og um klukkan 23:00, farið inn á Snapchat reikning D og séð skilaboð frá „[...]“ þar sem fram hafi komið að hann hygðist sækja hana kl. 21:15. C kvaðst hafa sent Snapchat skilaboð á viðkomandi og skrifað að D þyrfti að koma heim annars mundi hún hringja á lögregluna. Hún kvaðst ekki hafa fengið svar og því litlu síðar sendi hún önnur skilaboð þess efnis að hún hefði haft samband við lögregluna. C kvað D hafa komið heim kl. 00:30 og hafi hún þá verið brosandi og hlægjandi. D hafi sagt mömmu sinni að hún hafi kynnst viðkomandi á snapchat sem hafi sótt hana á [...]. D kvaðst ekki muna hvað [...] hafi gert. C kvaðst hafa fundið 5000 krónur í úlpu D sem hún telji að viðkomandi aðili hafi borgað henni vegna þess að D hafi ekki neinn annan aðgang að peningum. Hafi D lýst manninum sem um [...] ára gömlum karlmanni með [...] og um [...] cm á hæð. Barnavernd hafi ekið með D í [...] og hafi hún bent á íbúð á [...] við [...] sem íbúðina sem hún hafi farið inn í. D sé með þroskahömlun og á einhverfurófi.
Í gær hafi lögregla svo farið að [...] í þeim tilgangi að staðsetja íbúðina og hafa uppi á kærða. Í ljós hafi komið að um sé að ræða íbúð á [...] við [...] í [...] sem kærði hafi til umráða og hafi kærði verið handtekinn á vettvangi. Á bifreiðastæði við íbúðina hafi bifreiðin [...] verið, [...] sendlabíll af gerðinni [...], sem kærði kvaðst vera umráðamaður yfir. Í kjölfarið hafi verið framkvæmd leit í íbúð og bifreið kærða.
Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði játað að hafa sett sig í samband við stúlkurnar, mælt sér mót við þær og farið með í íbúð sína. Kærði neiti að hafa brotið gegn þeim kynferðislega en játi að hafa tekið tvær ljósmyndir á síma sinn af annarri stúlkunni full klæddri. Kærði kvaðst hafa tekið myndirnar á síma sem hafi svo orðið ónýtur og muni kærði hafa skipt um síma fyrir tveimur dögum. Kærði kvaðst hafa hent símanum. Kærði neiti að veita lögreglu heimild til að fá aðgang að reikningum hans á snapchat og facebook auk þess sem hann kvað annan mann vera umráðamann „[...]“ á snapchat en kærði hafi komist yfir upplýsingar um notendanafn og lykilorð í partýi. Kærði hafi ekki getað upplýst um hver þessi maður sé. Á þessu stigi liggi því ekki fyrir með hvaða hætti kærði hafi fengið stúlkurnar til sín.
Fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem varði allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins sé á frumstigi. Í málinu liggi fyrir að taka þurfi ítarlegar skýrslur af meintum brotaþolum í Barnahúsi og hafa uppi á mögulegum vitnum. Jafnframt liggi fyrir að rannsaka þurfi ítarlega tölvu- og símagögn sem lögregla hafi undir höndum og fá aðgang að snapchat og facebook aðgangi kærða.
Með hliðsjón af framangreindu sé ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Að mati lögreglu sé ljóst að mikil hætta sé að á því að kærði muni torvelda rannsókn málsins fari hann frjáls ferða sinna, svo sem með því að setja sig í samband við meinta brotaþola eða önnur vitni svo og eyða eða koma undan öðrum sönnunargögnum.
Ætluð brot teljast varða við 193. gr., 1. mgr. 210. gr. a og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða
Að mati dómsins er fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem varðar fangelsisrefsingu. Brot þau, sem kærði er grunaður um, eru talin varða við við 193. gr., 1. mgr. 210. gr. a og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins er á frumstigi og enn á eftir að taka skýrslur af meintum brotaþolum í Barnahúsi og hafa uppi á mögulegum vitnum og hugsanlega samsekum. Það liggur fyrir að kærði hefur neitað að heimila lögreglu aðgang að Snapchat og Facebook reikningum sem kærði hefur notað í samskiptum við stúlkurnar. Kærði hefur borið því við að annar maður sé umráðamaður Snapchat reikningsins sem hann notaði í samskiptum við stúlkurnar en hefur ekki gefið upplýsingar um eiganda hans. Fallist er á með lögreglustjóranum að slíkur aðgangur skipti miklu máli við rannsókn málsins.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið og með hliðsjón af gögnum málsins að öðru leyti þykir því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að fyrirbyggja að hann torveldi rannsókn málsins sbr. a-lið, 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með sömu rökum og hér að framan eru rakin þykir jafnframt nauðsynlegt að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr., sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma. Verður því fallist á kröfur lögreglu eins og í úrskurðarorði greinir.
Arnfríður Einarsdóttir kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 13. mars nk. kl. 16:00 og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.