Print

Mál nr. 126/2015

Lykilorð
  • Líkamsárás
  • Einkaréttarkrafa

Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 11. júní 2015.

Nr. 126/2015.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

Berglindi Köru Guðmundsdóttur

(Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl.)

Selmu Rán Heimisdóttur og

(Sigmundur Hannesson hrl.)

Stefaníu Eiri Steinarsdóttur

(Haukur Örn Birgisson hrl.)

(Oddgeir Einarsson hrl. f.h. brotaþola)

Líkamsárás. Einkaréttarkrafa.

Ákærðu voru sakfelldar fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, SE með því að hafa rifið í hár A inni á kvennaklósetti nánar tilgreinds skemmtistaðar og BK og SR fyrir að hafa rifið í hár A og slegið og sparkað í líkama hennar og höfuð utandyra við skemmtistaðinn. Refsing BK og SR var ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Á hinn bóginn þótti rétt að fresta ákvörðun refsingar SE skilorðsbundið í tvö ár þar sem ekki yrði annað ráðið en að atlagan inni á kvennaklósettinu hefði verið unnin í átökum milli A og SE, sbr. 3. mgr. 218. gr. b. laga nr. 19/1940. Með hliðsjón af framangreindu var SE sýknuð af einkaréttarkröfu A en BK og SR, ásamt meðákærðu X í héraði, gert að greiða henni sameiginlega 500.000 krónur í skaðabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. og 11. febrúar 2015 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.

Ákærða Berglind Kara krefst þess aðallega að hún verði sýknuð en til vara að refsing hennar verði látin niður falla eða hún milduð. Í báðum tilvikum krefst hún þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi.

Ákærða Selma Rán krefst krefst þess aðallega að hún verði sýknuð af refsi- og einkaréttarkröfu, en til vara að refsing hennar verði milduð og bótakrafa lækkuð.

Ákærða Stefanía Eir krefst aðallega sýknu en til vara að refsing hennar verði látin niður falla. Í báðum tilvikum krefst hún þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi.

A krefst þess að ákærðu verði sameiginlega gert að greiða sér miskabætur að fjárhæð 1.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt ákæru var ákærðu, ásamt meðákærðu í héraði, X, sem ekki áfrýjaði dóminum fyrir sitt leyti, og Y, gefin að sök líkamsárás með því hafa aðfaranótt 28. mars 2013 í félagi ráðist á brotaþola, ákærðu Y og Stefanía Eir með því að rífa í hár hennar inni á kvennaklósetti skemmtistaðarins [...] í Reykjavík og ákærðu Selma Rán, X, Berglind Kara og Stefanía Eir í kjölfarið að hafa rifið í hár hennar og slegið og sparkað í líkama hennar og höfuð utandyra við skemmtistaðinn, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut rof á hljóðhimnu og mar á höfði, höndum, hálsi og sköflungum. Var háttsemi ákærðu talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Við upphaf aðalmeðferðar fyrir héraðsdómi féll ákæruvaldið frá ákæru á hendur framangreindri Y. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærða Stefanía Eir sýknuð af þeirri háttsemi að hafa veist að brotaþola utan við skemmtistaðinn, en sakfelld fyrir að hafa veist að henni inni á salerni, með þeim hætti sem í ákæru greinir. Ákærðu Berglind Kara og Selma Rán voru sakfelldar samkvæmt ákæru og voru brot allra ákærðu heimfærð í dóminum til 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu Berglindar Köru og Selmu Ránar, heimfærslu brots þeirra til refsiákvæðis og refsingu þeirra. Þá verður þeim gert að greiða brotaþola sameiginlega bætur eins og nánar greinir í dómsorði auk þóknunar réttargæslumanns brotaþola eins og hún var ákveðin í héraði. Einnig er staðfest ákvæði héraðsdóms um greiðslu sakarkostnaðar þeirra að öðru leyti.  

Ákærðu Berglindi Köru og Selmu Rán verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá verður þeim gert, með vísan til 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að greiða óskipt málskostnað brotaþola fyrir Hæstarétti.

II

Um atvik á salerni skemmtistaðarins umrætt kvöld bar vitnið B að ,,eitthvað mikið [hafi verið] að gerast inni á baði“. Hún hafi farið þangað inn og átt í orðaskiptum við brotaþola, sem lokið hafi með því að hún hafi hellt yfir vitnið bjór og verið mjög reið við alla þar inni. Hún hafi verið mjög ölvuð og ekki hafi farið fram hjá neinum að hún hafi verið verið ,,klikkuð“. Það hafi verið æsingur þar inni og stelpur sem þar voru hafi verið mjög æstar vegna brotaþola þar sem hún hefði verið að ,,berja alla frá sér og meiða fólk“. Vitnið nafngreindi stúlku sem rifið hafi í hár brotaþola, en það hafi ekki verið nein ákærðu. Vitnið kvaðst hafa heyrt að rifrildið á salerninu hafi byrjað með því að fyrrgreind Y hafi verið að reka á eftir brotaþola á salerninu en við það hafi brotaþoli reiðst.

Vitnið C lýsti atvikum á þann veg að Y hafi bankað á salernisdyr sem brotaþoli var innan við. Hafi brotaþoli spurt hver væri að banka og Y svarað því. Hafi brotaþoli þá hent eða ýtt Y upp að vegg. Y hafi brugðið og hún farið út. Stelpur sem voru á salerninu hafi reynt að ræða við brotaþola og síðan hafi vinkona vitnisins, fyrrgreind B, komið inn á salernið. Eftir orðaskipti þeirra í milli hafi brotaþoli hellt bjór yfir hana. Einhver stelpa hafi togað í hár brotaþola, en vitnið kvaðst ekki muna hver það var. Þegar vitnið hafi reynt að tala við brotaþola hafi hún klórað það til blóðs í bringu og andlit.

Fyrir dómi bar ákærða Stefanía Eir að hún hafi séð brotaþola og Y vera að rífast á salerninu. Hún hafi farið ,,á milli þeirra“ og óvart ýtt í brotaþola. Brotaþoli hafi reiðst og klórað sig í andlitið. Hafi ákærða þá ýtt henni til baka, en brotaþoli haldið áfram að klóra sig. Ákærða hafi þá rifið í hárið á henni, en síðan farið út af salerninu.

Brotaþoli bar fyrir dómi að upptök átakanna hafi verið þau að Y hafi ráðist á sig á salerninu í kjölfar orðaskipta þeirra í milli. Hafi þá einhver stelpa hótað brotaþola barsmíðum, ef hún ,,hætti ekki að rífa kjaft“. Spurð um hvort hún hafi svarað fyrir sig með höggum eða spörkum, eða með því að toga í hár, kvaðst hún ekki muna það, en ,,örugglega já“. Spurð um hvort hún og ákærða Stefanía Eir hafi verið að kýta á salerninu, togað í hár hvor annarrar og ákærða ,,fengið klórfar“ á kinn, svaraði brotaþoli: „Það, já, það gæti alveg passað sko.“ Hún kvaðst muna eftir því að einhver hafi rifið í hár sitt.

Þegar litið er til framburðar brotaþola, annarra vitna og ákærðu sem rakinn hefur verið og þess að ákærða var sýknuð af þeirri háttsemi sem öðrum ákærðu var gefin að sök utan skemmtistaðarins, er ekki fallist á með ákæruvaldinu að fyrrgreind atlaga ákærðu hafi verið unnin í félagi við aðrar ákærðu. Ekki verður annað ráðið en að atlagan hafi verið unnin í átökum milli brotaþola og ákærðu. Verður ákærða samkvæmt framangreindu sakfelld fyrir þá háttsemi að hafa rifið í hár brotaþola og er sú háttsemi réttilega heimfærð til 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Að því virtu og með vísan til 3. mgr. 218. gr. b. laganna er rétt að fresta ákvörðun refsingar ákærðu eins og nánar greinir í dómsorði. Í ljósi þess sem rakið er um aðdraganda háttsemi ákærðu er hún eins og atvikum er háttað sýknuð af einkaréttarkröfu brotaþola.

Ákærða greiði sakarkostnað í héraði eins og hann var þar ákveðinn, að öðru leyti en því að kostnaður vegna þóknunar réttargæslumanns brotaþola verður ekki felldur á hana. Þá verður áfrýjunarkostnaður hennar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hennar, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, felldur á ríkissjóð, sbr. 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um refsingu ákærðu Berglindar Köru Guðmundsdóttur og Selmu Ránar Heimisdóttur.

Frestað er ákvörðun refsingar ákærðu Stefaníu Eirar Steinarsdóttur skilorðsbundið í tvö ár frá uppsögu dóms þessa að telja og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærða Stefanía Eir er sýkn af einkaréttarkröfu A.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um greiðslu ákærðu Berglindar Köru og Selmu Ránar á einkaréttarkröfu brotaþola er staðfest.

Staðfest er ákvæði héraðsdóms um greiðslu sakarkostnaðar að öðru leyti en því að kostnaður vegna þóknunar réttargæslumanns brotaþola fellur ekki á ákærðu Stefaníu Eir. 

Ákærðu Berglind Kara og Selma Rán greiði málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Þórhalls Hauks Þorvaldssonar og Sigmundar Hannessonar, 496.000 krónur til handa hvorum um sig. Þá greiði þær sameiginlega brotaþola 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu Stefaníu Eirar fyrir Hæstarétti, Hauks Arnar Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Ákærðu Berglind Kara og Selma Rán greiði óskipt 2/3 hluta annars sakarkostnaðar fyrir Hæstarétti, 33.916 krónur, en að öðru leyti greiðist hann úr ríkissjóði.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 8. desember 2014, var höfðað með ákæru, útgefinni 18. júní 2014, á hendur Berglindi Köru Guðmundsdóttur, kt. [...], [...], [...], X, kt. [...], [...], [...], Selmu Rán Heimisdóttur, kt. [...], [...], [...], Stefaníu Eir Steinarsdóttur, kt. [...], [...], [...]og Y, kt. [...], [...], [...], fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 28. mars 2013, í félagi ráðist á A, ákærðu Y og Stefanía Eir með því að rífa í hár hennar inni á kvennaklósetti skemmtistaðarins [...] í Reykjavík og strax í kjölfarið ákærðu Selma Rán, Berglind Kara, X og Stefanía Eir með því að rífa í hár hennar og slá og sparka í líkama hennar og höfuð utandyra við skemmtistaðinn [...], allt með þeim afleiðingum að hún hlaut rof á hljóðhimnu og mar á höfði, höndum, hálsi og sköflungum.

Við upphaf aðalmeðferðar málsins féll ákæruvaldið frá ákæru á hendur Y.

Er háttsemi ákærðu talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdar til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærðu verði sameiginlega dæmdar til greiðslu miskabóta að fjárhæð 1.000.000 króna, auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.  

Verjendur ákærðu Berglindar Köru, Selmu Ránar og Stefaníu Eirar krefjast þess að ákærðu verði sýknaðar af kröfum ákæruvalds og að bótakröfu verði vísað frá dómi eða bætur stórlega lækkaðar. Verjandi ákærðu X krefst þess að ákærða verði dæmd til vægustu refsingar er lög leyfa og að bætur verði lækkaðar. Þá krefjast verjendur málsvarnarlauna sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.  

Málsatvik

       Þriðjudaginn 2. apríl 2013 mætti A ásamt föður sínum á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur fimm stúlkum vegna líkamsárásar sem hún hefði orðið fyrir af þeirra hálfu aðfaranótt fimmtudagsins 28. mars á skemmtistaðnum [...] við [...] í Reykjavík. Lýsti brotaþoli því að hópur stúlkna hefði veist að henni inni á salerni skemmtistaðarins og utan við staðinn skömmu síðar. Nafngreindi hún ákærðu sem árásaraðilana. A lýsti því að stúlkurnar hefðu rifið í hár hennar og veist að henni með höggum og spörkum. Hún hefði misst meðvitund og fallið í götuna við atlöguna. Þegar hún rankaði við sér hefði hún fundið mikið til í hægra eyra, auk þess sem hún hefði verið stokkbólgin á nefi. Hún hefði leitað á slysadeild eftir þetta og hefði komið í ljós að hljóðhimna í hægra eyra var rifin. Hún kvaðst hafa fengið högg á hægra eyrað eftir að stelpurnar hefðu verið búnar að slá og sparka í hana nokkra stund. Hún hefði setið með bakið upp við húsvegg og hefði ein stelpnanna verið með hné sitt fast upp við hálsinn á henni og haldið henni þannig fastri. Stelpan hefði svo sparkað með hné sínu í hægra eyra hennar og kvaðst hún telja að hún hefði misst meðvitund við þetta. Stelpan sem sparkaði í eyra hennar hefði verið ljóshærð, grannvaxin en ekki mjó, og minnti hana að hún hefði verið íklædd gráum eða brúnum buxum og bleikum blaser jakka. 

       Í málinu liggur fyrir læknisvottorð D, sérfræðings á slysa- og bráðamóttöku Landspítala, þar sem fram kemur að A hafi leitað á deildina klukkan 2:03 umrædda nótt. Hún hafi verið með klór á hálsi, grunn hruflsár eftir hálsi upp að kjálka og lítið sár í munnviki vinstra megin. Þá hafi sést rof og þríhyrningslaga gat á hljóðhimnu hægra megin. Á höfði hægra megin við eyra hefði verð mar, 3x4 cm að stærð, og merki um að dregið hefði verið í hár stúlkunnar. Loks hafi hún verið með marblett og hruflsár á báðum sköflungum og klór á höndum.

       Við aðalmeðferð málsins voru lagðar fram upptökur úr öryggismyndavélum skemmtistaðarins í umrætt sinn, inni á staðnum og utan við anddyri. Á upptökunum sjást m.a. átök inni á og við salerni, sem hefjast klukkan 00:57. Sést A þar í hópi stúlkna og virðist sem hún fái í sig högg. Klukkan 1:08 sjást ákærðu Selma Rán og Stefanía Eir ásamt Y ræða saman inni á skemmtistaðnum. Klukkan 1:09 sést A ganga út af veitingastaðnum. Klukkan 1:10 sjást ákærðu X, Stefanía og Selma, ásamt Y og tveimur óþekktum stúlkum ganga út af staðnum og klukkan 1:11 sést ákærða Berglind gera slíkt hið sama. Klukkan 1:14 má sjá ákærðu Berglindi og X ganga aftur inn á skemmtistaðinn. Þá má sjá ákærðu Selmu, ásamt Y koma aftur inn á staðinn klukkan 1:18.

                Við aðalmeðferð málsins greindi ákærða, Berglind Kara Guðmundsdóttir, svo frá að þær ákærða X hefðu komið saman á skemmtistaðinn í umrætt sinn og farið þar inn á salerni. Þar hefðu þær hitt fyrir Y, C og fleiri stúlkur, sem hefðu verið grátandi vegna atviks sem átt hefði sér stað skömmu áður þar sem A kom við sögu. Hefðu X og ákærða Stefanía farið út af salerninu. Ákærða kvaðst hafa gert hið sama skömmu síðar og þá verið í fylgd með Y og ákærðu Selmu. Ákærða kvaðst hafa farið út úr húsinu og hefði hún þá séð stóran hóp fólks við glervegg rétt við anddyrið. Selma hefði verið með henni og hefðu þær séð að eitthvað var að gerast og gengið nær. Selma hefði farið inn í hópinn og kvaðst ákærða jafnfram hafa séð X og Stefaníu þar, en annars hefðu verið þarna yngri krakkar sem hún hefði ekki þekkt. Ákærða kvaðst hafa vitað að fólkið hefði hópast í kringum A og hefði hún séð X slá A í bringuna. Hún kvaðst hafa ætlað að ganga inn í hópinn, en þá hefði vinur hennar komið að og tekið hana frá. Þegar hún losnaði aftur hefði hún farið inn í hópinn og þá séð Selmu halda um höfuð A og öskra á hana. Þegar þarna var komið hefði A setið upp við glerið með krosslagðar hendur. Hún hefði svarað Selmu lágum rómi og horft niður fyrir sig. Það hefði verið sjáanlegt að rifið hefði verið í hár hennar. Þá kvaðst ákærða hafa séð annað fólk sem þarna var slá A, en hún hefði ekki þekkt þau sem það gerðu. Síðan hefði það gerst að A hefði hrækt á Selmu eða kýlt hana. Við þetta hefði Selma reiðst. Hún hefði haldið höndunum utan um höfuð A og „dúndrað“ því nokkrum sinnum í glerið. Þetta hefðu verið nokkur þung högg. Selma hefði síðan sleppt A, sem hefði haft sig á brott, en ákærða kvaðst hafa ýtt við henni þegar hún gekk framhjá, með því að setja hnéð í mjöðm hennar. Ákærða kvað sig jafnframt minna að Selma hefði kýlt A, en kvaðst þó ekki vera viss um það. Hún kvaðst ekki hafa séð Stefaníu þarna á vettvangi og X hefði ekki verið nærstödd þegar Selma veittist að A.

                Ákærða kvaðst ekki hafa séð A veitt hnéspark. Hún kvaðst ekki kunna skýringar á framburði Selmu við yfirheyrslu hjá lögreglu, í þá veru að hún hefði veitt A slíkt hnéspark og kvað það ekki rétt. Þá kvaðst hún ekki heldur kunna skil á framburði Selmu og Y hjá lögreglu um að hún hefði gengið hart fram gegn A. Hún kvaðst hafa séð Stefaníu í hópnum þegar hún kom út og hefði hún þá verið alveg upp við A. Hún hefði vitað að þær A voru að slást, en hún hefði ekki séð hvað þeim fór á milli. Hún hefði þó ekki séð Stefaníu eftir að A var komin upp að glerinu og X hefði ekki verið þar nærstödd á þeim tímapunkti.

                Ákærða kvaðst þetta kvöld hafa verið íklædd svörtum kjól, nælonsokkabuxum, og brúnum leðurjakka.

                Ákærða, X, kvaðst hafa komið inn á salerni skemmtistaðarins eftir að slagurinn þar hefði verið yfirstaðinn og hefði hún séð að stelpur sem hún þekkti voru meiddar. Hún kvaðst hafa reiðst og farið að leita að stelpunni sem hefði gert þetta. Hún hefði séð A utan við staðinn, þar sem hún sat á jörðinni. Ákærða kvaðst hafa rifið hana upp á hárinu og öskrað á hana hvers vegna hún hefði verið að ráðast á vinkonur hennar. A hefði hlegið framan í hana og verið að „biðja um að hún myndi gera eitthvað við hana“. Síðan hefði hóp fólks drifið að og hefðu allir ráðist á A. Hún hefði ekki þekkt þetta fólk, en það hefði slegið og sparkað í A. Ákærða kvaðst hafa sparkað í læri A. Hún kvaðst ekki minnast þess að hafa slegið hana í bringuna, en neitaði því þó ekki. Þá kvað hún strákinn sem hefði fjarlægt Berglindi, E, einnig hafa komið og tekið sig út úr hópnum. Þegar það gerðist hefði A verið komin upp að glugganum og Selma verið nálægt henni og kvað ákærða geta verið að Selma hefði þá haldið utan um höfuð hennar. Ákærða kvaðst ekki hafa séð Berglindi veita A högg, en verið gæti að hún hefði rifið í hana. Hún kvaðst ekkert muna eftir Stefaníu þarna á staðnum. Hún kvað Selmu hafa gengið harðast fram í atlögunni gagnvart A. Hún hefði séð Selmu „negla“ höfði A í glerið. Þá kvaðst hún telja líklegt að hún hefði séð Selmu slá og sparka í A, eins og komið hefði fram hjá henni við yfirheyrslu hjá lögreglu.

Ákærða, Selma Rán Heimisdóttir, kvaðst ekki hafa verið vitni að því sem átti sér stað inni á salerni skemmtistaðarins, en Berglind hefði komið að sækja hana og hefðu þær verið á leið út af staðnum þegar þær hittu Y, sem hefði verið grátandi yfir því sem A hefði sagt og gert. Ákærða kvaðst hafa staldrað við og rætt við Y smástund, en Berglind hefði farið út á undan henni. Þegar hún síðan kom út hefði verið kominn hringur fólks í kringum A og hefðu slagsmál verið í gangi. Ákærða kvaðst hafa hitt F vinkonu sína og hefðu þær farið inn í hópinn. Þar hefðu Berglind og X verið fyrir. A hefði verið komin upp að glerveggnum og hefði X verið henni á vinstri hönd, en Berglind hægra megin. Ákærða kvað þær F hafa reynt að stöðva atlöguna, en án árangurs. Hún kvaðst hafa kropið hjá A og haldið um höfuð hennar, en F hefði haldið um hnakka hennar. Þá hefði X sagt henni að þetta væri stúlkan sem hefði veist að vinkonum hennar inni á salerni. Um þetta leyti hefði E komið að og dregið Berglindi út úr hópnum. Ákærða kvaðst hafa reiðst þegar hún heyrði hvaða stúlka þetta var og hefði hún öskrað á hana af hverju hún hefði gert þetta. Þá hefði A kýlt hana og jafnvel hrækt á hana. Hún hefði fengið blóðnasir við höggið. Ákærða kvaðst þá hafa „bankað“ höfði A tvisvar eða þrisvar, svo að hnakkinn lenti á hönd F. Eftir þetta hefði vin A borið að og hefði hann aðstoðað hana af vettvangi. Ákærða kvaðst hvorki hafa kýlt A né sparkað í hana. Það hefði verið hátt í 30 manna hópur að fylgjast með því sem gerðist og hefðu um 10 manns staðið næst A og slegið og sparkað í hana. A hefði verið með meðvitund þegar hún kom að henni, en verið vönkuð.

Ákærða kvaðst hafa séð X sparka í A, í fótinn að því er hún taldi. Þá hefði Berglind haldið henni niðri með því að þrýsta fótunum niður á hana. Hefði Berglind þrýst hnénu að höfði A. Ákærða kvaðst ekki muna eftir hreyfingunni sjálfri, þegar Berglind gerði þetta, en kvaðst telja líklegast að um hnéspark hefði verið að ræða. Hefði Berglind þrýst hnénu að hægri öxl og hægri hlið höfuðs A. Hún kvaðst ekki hafa þekkt Stefaníu þegar þetta var og því ekki gera sér grein fyrir því hvort hún var í hópnum.  

                Ákærða kvaðst hafa verið í svörtu pilsi, svörtum sokkabuxum og hvítum toppi þetta kvöld.

                Ákærða, Stefanía Eir Steinarsdóttir, kvaðst hafa komið að þar sem A og Y voru að rífast og ýta hvor við annarri inni á salerni. Ákærða kvaðst hafa gengið á milli þeirra, en þá hefði A klórað hana í andlitið. Hún hefði ýtt við A og rifið aðeins í hárið á henni, en A hefði þá klórað hana aftur í andlitið. Ákærða kvaðst hafa farið fram, hitt þar vinkonur sínar og sagt þeim hvað hefði gerst. Hún hefði séð A ganga út af staðnum og farið á eftir henni og spurt hana hvers vegna hún hefði gert þetta. A hefði bara hlegið og ekkert viljað við hana tala. Þá hefði fullt af fólki drifið að, en ákærða kvaðst hafa farið aftur inn í húsið og ekki hafa séð fólkið veitast að A.

                Ákærða kvaðst síðan hafa komið út aftur og þá séð fullt af fólki í kringum A. Hefði Selma þá haldið um höfuð A og verið að tala við hana. Síðan hefði hún séð Selmu slengja höfði A í glerið.

                Ákærða kvaðst ekki geta staðfest að hún hefði séð X sparka í A, eins og hún hefði borið um hjá lögreglu. Hún hefði séð X þarna og hefði hún verið að gera eitthvað, en ákærða kvaðst ekki muna eftir ákveðnu höggi. Spurð um framburð hjá lögreglu þar sem kom fram hjá ákærðu að hún hefði séð Selmu og X sparka í A sagðist ákærða hafa séð þær vera í kringum hana og hefði hún séð einhver högg. Hún hefði jafnframt nefnt X og Selmu þegar hún var spurð hver hefði beitt sér mest í atlögunni, en þær hefðu verið mest í kringum A, og þá Selma ívið meira.

                A kvaðst hafa verið inni á salernisbás þegar einhver hefði farið að berja og sparka í hurðina. Hún hefði farið fram og lent þar í orðaskaki við stelpu. A kvaðst næst muna eftir því að hafa farið út af salerninu og út úr húsinu. Þá hefði komið að henni ein af stelpunum sem voru inni á salerninu, bent henni á rispu á kinninni á sér og sagt rispuna vera eftir hana. Hún kvaðst síðan muna eftir sér þar sem hún lá í jörðinni og rifið var í hár hennar, kýlt og sparkað í hana. Síðan hefði vin hennar, G, borið að og hefði hann dregið hana í burtu.

                A kvað það hafa verið Y og ákærðu Stefaníu sem hún lenti í átökum við á salerninu. Þær hefðu ráðist á hana, rifið í hár hennar og sparkað í hana. Hún kvaðst ekki gera sér grein fyrir því hvor gerði hvað. Hún hefði síðan farið út af staðnum og þá hefði Stefanía komið að henni og sagt: „Sjáðu hvað þú gerðir við mig“ og bent á rispu á kinninni. A kvaðst ekki muna hvort þær Stefanía lentu í frekari átökum. Hún myndi næst eftir sér í jörðinni. Hún kvaðst muna eftir ákærðu X, Berglindi Köru og Selmu þarna og hefðu þær allar verið að ráðast á hana. Þetta hefði byrjað með því að henni var hrint svo að hún féll í jörðina. Síðar hefði hún verið komin upp að vegg og setið þar. Þá hefði hún fengið mörg högg og hefði höfuðið á henni „dúndrast“ ítrekað í vegginn. A kvaðst telja að þetta hefðu verið hnefahögg sem hún fékk í sig, en þetta hefðu verið mörg högg í höfuð og líkama. Hún kvaðst hafa reynt að hlífa andlitinu og taldi sig hafa misst meðvitund um tíma. Skömmu síðar hefði hún verið dregin út úr hópnum. Hún kvað allar stelpurnar sem hún hefði nefnt hafa tekið þátt í árásinni, en ekki gera sér grein fyrir því hver gerði hvað. Þá hefðu fleiri verið þarna og tekið þátt, en hún hefði nafngreint þessar stelpur þar sem hún hefði munað eftir andlitum þeirra. Hún hefði þekkt Berglindi Köru og Stefaníu, en fundið myndir af hinum stelpunum á facebook.

                Borið var undir A það sem komið hafði fram hjá henni við skýrslutöku hjá lögreglu, að ákærðu Stefanía, X, Selma og Berglind Kara hefðu komið á eftir henni út af staðnum. Hefði X rifið í hár hennar og hún fallið í jörðina. Stelpurnar hefðu þá byrjað að slá og sparka í höfuð hennar og líkama. Hún hafi misst meðvitund um tíma, en þegar hún rankaði við sér hefði ein stelpnanna, sem hún hélt að hefði verið Selma, legið ofan á henni og verið með hné sitt á hálsi hennar. Hún hefði fundið mjög til í eyra þegar hún rankaði við sér. A kvaðst ekki muna þetta nú. Þá kvaðst hún ekki muna hver veitti henni höggið sem varð til þess að hún missti heyrnina. Þá var borið undir A það sem fram hafði komið við skýrslutöku hjá lögreglu, að stelpa hefði sparkað með hné sínu í hægra eyra hennar þar sem hún sat við húsvegginn og teldi hún að hún hefði misst meðvitund við það. Hefði hún lýst þessari stelpu sem ljóshærðri og grannvaxinni og minnt að hún hefði verið í gráum eða brúnum buxum og bleikum blaser jakka. A kvað sig ráma í þetta, en ekki muna þetta vel. Hún hefði orðið fyrir miklu áfalli við atlöguna og taldi sig muna þetta illa af þeim sökum. Hún kvaðst þó telja að stelpan í blaser jakkanum hefði hvorki verið Berglind Kara né Stefanía. Hún kvað ákærðu allar hafa verið upp við sig þegar atlagan átti sér stað og hefðu þær allar tekið þátt í henni. Hún myndi ekki hver þeirra veitti henni höggið á eyrað en kvaðst telja að það hefði verið Selma. Hún hefði ekki þekkt Selmu þegar þetta gerðist.

                G kvaðst hafa komið út af staðnum og séð fjórar eða fimm stelpur, sem hann þekkti ekki, veitast að A vinkonu sinni. A hefði verið liggjandi eða krjúpandi upp við húsið og hefðu stelpurnar rifið í hár hennar, sparkað og slegið í andlit hennar og líkama. A hefði ekki veitt neina mótspyrnu. G kvaðst hafa skorist í leikinn, tekið A og farið með hana út í bíl. Hún hefði strax nefnt að henni væri illt í eyranu. Hann kvað margt fólk hafa verið utan við staðinn, en það hefði verið þessi stelpnahópur sem var í kringum A þegar hann kom að.

                Y lýsti því að komið hefði til orðaskipta milli þeirra A inni á salerni eftir að hún bankaði og sparkaði í hurð þar. Hefði A ýtt tvisvar við henni og hún fallið við í síðara skiptið. Y kvaðst hafa farið fram og hitt B vinkonu sína. Þær hefðu farið aftur inn á salernið og þá hefðu fleiri stúlkur verið farnar að rífast þar inni. A hefði hellt bjór yfir B og slegið til hennar. Y kvaðst þá hafa farið út af salerninu og staðið frammi í anddyri. Hún kvaðst hafa vitað að einhver slagsmál væru fyrir utan, en ekki að þau hefðu tengst uppákomunni á salerninu. Hún kvað ákærðu Selmu hafa verið með sér í einhvern tíma í anddyrinu.

                Y kvaðst hafa vitað að ákærðu voru fyrir utan staðinn. Hún hefði farið út alveg í lokin og hefði A þá setið þar fyrir utan. Einhverjir hefðu verið í kringum hana en hún kvaðst ekki muna hvort ákærðu voru þarna. Enginn hefði verið að veitast að A þegar þarna var komið. Borið var undir ákærðu það sem kom fram hjá henni við skýrslutöku hjá lögreglu, um að hún hefði orðið vitni að því að ákærðu Selma, X, Berglind Kara og Stefanía voru að meiða A, hún hefði séð þær lemja A, en ekki vitað hver gerði hvað. Y kvaðst hafa vitað þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglu að þessar stelpur hefðu verið kærðar og því hefði hún nefnt þær. Hún kvaðst nú ekki hafa séð hverjir lömdu A.

B kvaðst hafa farið með Y vinkonu sinni inn á salerni, en þar hefði A verið fyrir og hefði hún kallað Y feita. B kvaðst hafa tekið í A, sem hefði þá hellt yfir hana bjór. A hefði verið reið við alla sem voru þarna inni. C lýsti með áþekkum hætti því sem átti sér stað inni á salerninu. Hún lýsti því að einhver hefði togað í hárið á A, en kvaðst ekki þekkja stelpuna sem það gerði.

E kvaðst hafa komið að þar sem stelpa sat uppi við glugga skemmtistaðarins og hefði verið einhver hiti í fólki. Ákærðu Berglindi hefði borið að, hann hefði séð að „eitthvað var að fara að gerast“, lyft henni upp og tekið hana í burtu. Hann hefði séð að Berglind ætlaði að fara að stelpunni, en stöðvað hana í því. Nokkrar stelpur hefðu verið í kringum stelpuna sem sat. Hún hefði verið grátandi og fólk verið að öskra á hana. H kvaðst hafa komið að staðnum á bifreið og staldrað við í 10 til 15 mínútur. Hún hefði séð ákærðu Berglindi koma gangandi frá húsinu með tveimur öðrum stelpum. Hópur fólks hefði verið þarna fyrir utan, en strákur sem kom þarna að hefði hindrað Berglindi í að fara inn í hópinn. Hún kvaðst ekki hafa séð stelpuna sem verið var að veitast að þarna inni í hópnum.

F kvað þær ákærðu Selmu hafa reynt að róa stúlkuna sem verið var að veitast að. Þá hefði þeim verið sagt að þetta væri stelpan sem veittist að vinkonum þeirra inni á salerni. Við þetta hefði Selma reiðst og ýtt höfði stelpunnar í átt að glerinu, en F hefði verið með höndina á milli svo að höfuðið lenti á henni. Hún kvaðst ekki telja að Selma hefði ýtt höfði stelpunnar af miklum krafti. Síðan hefði komið strákur sem tók stelpuna í burtu. F kvaðst hafa séð stelpuna verða fyrir höggum en ekki geta lýst því nánar. Þá teldi hún að stelpan hefði fengið í sig spörk. Hún hefði legið á jörðinni þegar þetta átti sér stað. Hefðu Berglind Kara og X verið þarna í hópnum og upp við A, en hún hefði ekki séð hvað þær voru að gera.

                D, sérfræðingur á slysa- og bráðamóttöku, gerði grein fyrir áverkum A. Kom m.a fram hjá vitninu að hár stúlkunnar hefði verið gisnara á svæði yfir mari á höfði, auk þess sem þar hefðu verið litlar húðblæðingar, sem væri til marks um að togað hefði verið harkalega í hár hennar. Vitnið kvað rof á hljóðhimnu geta verið alvarlegan áverka þar sem þeir sem fyrir því verði nái ekki alltaf fullri heyrn aftur. Áverki sem þessi komi við högg á eyrað, beint á hlustina, en loftþrýstingur sem af því stafi sprengi hljóðhimnuna. Áverkar á stúlkunni hafi komið vel heim og saman við að hún hafi fengið mörg högg í andlit og líkama og verið klóruð. Hefðu áverkarnir samrýmst lýsingu hennar á því sem gerst hefði. Hún hefði a.m.k. hlotið einhver þung högg. Hún hefði verið með stóran marblett á höfði ofan við hægra eyra og rof á hljóðhimnu, sem stafi af þungum höggum. Þessir áverkar hafi auk þess verið á hættulegum stað, þar sem höfuðkúpubrot og heilablæðing geti hlotist af höggi einmitt á þessu svæði.  

                Þá kom I lögreglumaður fyrir dóminn sem vitni og gerði grein fyrir rannsókn málsins. Verður framburður vitnisins ekki rakinn.

Niðurstaða

                Af framburði ákærðu, vitna og upptöku úr öryggismyndavél skemmtistaðarins verður ráðið að A lenti í átökum við nokkrar stúlkur inni á salerni skemmtistaðarins. Þá hafa ákærðu og vitni borið að í kjölfar þess atviks hafi hópur fólks veist að A utan við skemmtistaðinn. A bar fyrir dóminum að hún myndi eftir ákærðu Berglindi Köru, X og Selmu Rán í þeim hópi og hefðu þær allar verið að ráðast á hana. Þá hefði ákærða Stefanía rifið í hár hennar inni á salerninu.

Ákærða Stefanía hefur kannast við að hafa rifið í hár A inni á salerninu, en borið að það hafi verið eftir að A klóraði hana í andlit. Hvorki meðákærðu né vitni báru um það fyrir dóminum að Stefanía hefði veist að A utan við húsið, utan Berglind Kara, sem kvaðst hafa séð Stefaníu í hópnum alveg upp við A og vitað að þær hefðu verið að slást, en þó ekki séð hvað þeim fór á milli. Með vísan til framangreinds þykir sannað að ákærða Stefanía hafi rifið í hár A inni á salerni skemmtistaðarins, eins og henni er gefið að sök í ákæru. Verður hún sakfelld fyrir þá háttsemi og varðar brot hennar refsingu samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar er ósannað, gegn neitun ákærðu, að hún hafi átt þátt í atlögunni sem átti sér stað gegn A utandyra, svo sem henni er gefið að sök í ákæru og verður hún sýknuð af kröfum ákæruvalds að því leyti.

Fyrir liggur að ákærðu Berglind Kara, X og Stefanía Eir voru allar staddar utan við skemmtistaðinn þegar atlagan að A átti sér þar stað. Hafa ákærðu borið að hópur fólks hafi veist að A utan við staðinn og lýst aðkomu sinni og þætti annarra í árásinni. Að virtum framburði ákærðu og vitna þykir sýnt að ákærðu hafi dregið nokkuð úr eigin hlut í lýsingum sínum. Berglind Kara viðurkenndi fyrir dóminum að hafa ýtt við A með hné þegar hún gekk í gegnum hópinn við lok atlögunnar. Á hinn bóginn bar Selma Rán að hún hefði séð Berglindi halda A niðri meðan á atlögunni stóð og jafnframt þrýsta hné að öxl hennar og höfði hægra megin. Kvaðst Selma jafnframt telja líklegt að um hnéspark hefði verið að ræða. Ákærða X viðurkenndi að hafa rifið í hár A og sparkað í læri hennar, auk þess sem hún hafnaði því ekki að hafa slegið hana í bringu, eins og kom fram í framburði Berglindar Köru. Þá viðurkenndi Selma Rán að hafa „bankað“ höfði A tvisvar eða þrisvar sinnum, þar sem hún sat eða lá, við húsvegg, en ákærða og vitnið F báru þó að höfuð A hefði við þetta lent í handlegg F. Meðákærðu lýstu háttsemi Selmu hins vegar þannig að hún hefði „dúndrað“, „neglt“ eða „slengt“ höfði A í glervegginn og varð ráðið af framburði þeirra að um nokkuð þung högg hefði verið að ræða. Þá bar Stefanía fyrir dóminum að hún hefði séð Selmu og X í kringum A þegar atlagan átti sér stað og einhver högg, en við yfirheyrslu hjá lögreglu hafði hún lýst því að þær hefðu sparkað í A. Loks kvaðst vitnið F hafa komið að þar sem slagur átti sér stað, hefði A þá legið í jörðinni og vitnið séð að hún varð fyrir spörkum. Hefðu Berglind Kara og X verið í hópnum og upp við A, en hún hefði ekki séð hvað þær voru að gera.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður því slegið föstu að ákærðu Berglind Kara, X og Selma Rán hafi allar tekið þátt í atlögunni gegn A utan við skemmtistaðinn í umrætt sinn, þar sem rifið var í hár A og slegið og sparkað í líkama hennar og höfuð. Stóðu ákærðu sameiginlega að líkamsárásinni og bera á henni refsiábyrgð þótt fyrir liggi að fleiri en þær hafi tekið þátt í henni. Við líkamsárásina hlaut A allnokkra áverka, sem í ákæru greinir og staðfest er í læknisvottorði. Af framburði ákærðu og vitna, sem rakinn hefur verið, og upptökum úr öryggismyndavél, verður ekki ráðið að lýsing A á stúlku sem veitti henni hnéspark í eyra komi heim og saman við ákærðu og klæðnað þeirra þetta kvöld. Þykir ósannað að einhver ákærðu hafi veitt A höggið sem olli því að hún hlaut rof á hljóðhimnu og verða þær sýknaðar af kröfum ákæruvalds að því leyti. Að öðru leyti verða ákærðu sakfelldar fyrir þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru. Þykir háttsemin varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.   

Ákærða Berglind Kara er fædd í [...] 1993. Sakaferill hennar hefur ekki áhrif á refsingu. Ákærða X er fædd í [...] 1993, ákærða Selma Rán í [...] 1993 og ákærða Stefanía Eir í [...] 1995. Þær hafa ekki áður sætt refsingu. Af gögnum málsins verður ráðið að Stefanía Eir hafi ásamt fleirum veist að A inni á og við salerni skemmtistaðarins og verður ráðið af myndbandsupptöku úr öryggismyndavél að um nokkuð harkaleg átök hafi verið að ræða. Þá veittust ákærðu Berglind Kara, X og Selma Rán ásamt fleirum að stúlkunni utandyra og var atlaga þeirra að henni gróf og vítaverð. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærðu unnu líkamsárásina saman og jafnframt í félagi við aðra, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá beindist líkamsárásin að 16 ára stúlku og hlaut hún allnokkra áverka af. Samkvæmt framansögðu þykir refsing ákærðu Stefaníu Eirar hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga, en refsing ákærðu Berglindar Köru, X og Selmu Ránar hverrar um sig fangelsi í þrjá mánuði. Rétt þykir að fresta fullnustu refsingar allra ákærðu og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Af hálfu A er þess krafist að ákærðu verði dæmdar til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna. Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærðu samkvæmt a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við ákvörðun miskabóta verður litið til sjónarmiða sem rakin hafa verið varðandi ákvörðun refsingar ákærðu. Verða ákærðu dæmdar til að greiða brotaþola í sameiningu miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur, sem beri vexti sem í dómsorði greinir.

Ákærða Berglind Kara greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þórhalls Hauks Þorvaldssonar hrl., 1.229.000 krónur. Ákærða X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 1.352.890 krónur. Ákærða Selma Rán greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Árnasonar hrl., 1.317.750 krónur. Ákærða Stefanía Eir greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ómars Arnar Bjarnþórssonar hdl., 1.317.750  krónur. Ákærðu greiði óskipt þóknun réttargæslumanns brotaþola, Oddgeirs Einarssonar hrl., 527.100 krónur, og 34.200 krónur í annan sakarkostnað. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Óli Ingi Ólason aðstoðarsaksóknari.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærðu, Berglind Kara Guðmundsdóttir, X og Selma Rán Heimisdóttir, sæti fangelsi í þrjá mánuði.

Ákærða, Stefanía Eir Steinarsdóttir, sæti fangelsi í 30 daga.

Fresta skal fullnustu refsingar allra ákærðu og falli hún niður innan tveggja ára frá birtingu dómsins að telja, haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærðu greiði A óskipt 500.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 28. mars 2013 til 5. október 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærða Berglind Kara greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þórhalls Hauks Þorvaldssonar hrl., 1.229.000 krónur. Ákærða X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 1.352.890 krónur. Ákærða Selma Rán greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Árnasonar hrl., 1.317.750 krónur. Ákærða Stefanía Eir greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ómars Arnar Bjarnþórssonar hdl., 1.317.750 krónur. Ákærðu greiði óskipt þóknun réttargæslumanns brotaþola, Oddgeirs Einarssonar hrl., 527.100 krónur, og 34.200 krónur í annan sakarkostnað.