- Eignaspjöll
- Landamerki
- Eignarréttur
|
Fimmtudaginn 28. febrúar 2013. |
Nr. 427/2012.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn X (Magnús Guðlaugsson hrl.) |
Eignaspjöll. Landamerki. Eignarréttur.
X var sýknaður af ákæru um meiri háttar eignaspjöll með því að hafa valdið spjöllum á og svipt lögmæta eigendur yfirráðum yfir landspildu, sökum þess að vafi lék á um eignarrétt að spildunni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. júní 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd.
Ákærði krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi. Til vara krefst hann sýknu af kröfu ákæruvaldsins, en að því frágengnu refsimildunar.
I
Í ákæru eru ákærða gefin að sök stórfelld eignarspjöll samkvæmt 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 „með því að hafa í júní 2010, sem bóndi á bænum A í [...], valdið spjöllum á og svipt lögmæta eigendur yfirráðum yfir u.þ.b. 0,72 hektara spildu sem er hluti af landi nr. 178681 sem liggur að jörðinni A, og er í þinglýstri eigu B, C og D, en ákærði færði ca. 165 metra langa landamerkjagirðingu, sem afmarkaði landspilduna frá landi A, um það bil 50 metra til austurs, og stækkaði land sitt sem því nam. Hann gróf auk þess tæplega 190 metra langan skurð frá norðri til suðurs í landspilduna sem hann yfirtók, vestan nýja girðingarstæðisins, og plægði restina af yfirteknu landspildunni í sundur.“
Ákærði heldur því fram að um hafi verið að ræða framkvæmdir á eignarlandi sínu sem honum hafi verið heimilar.
II
Með kaupsamningi 29. júní 1994 keypti ákærði jörðina A af föður sínum E. Kaupverð var 8.800.000 krónur en hluti af þeirri greiðslu skyldi verða „með 50 fm fullbúnu timburhúsi sem afhendist 1/12 94 ásamt 7,5 ha. landsspildu, sbr. meðfylgjandi uppdrátt ... kr. 4.200.000,-“. Við kaupin var einungis hluti landspildunnar, sem undanþegin skyldi sölunni, afmarkaður frá jörðinni með girðingu, en dregin var lína á framangreindan uppdrátt sem sýna átti mörkin og virðist hann ekki hafa verið hnitasettur. Þá um haustið munu faðir ákærða og mágur, með vitund ákærða, hafa reist girðingu og var lega hennar að líkindum í samræmi við línu þá sem dregin hafði verið á uppdrættinum. Í skriflegri yfirlýsingu feðganna 24. janúar 1995 var, með vísan til kaupsamningsins, staðfest að faðir ákærða hefði „fengið afhenta landspildu 7,5 ha. að stærð ásamt íbúðarhúsi sbr. uppdrátt sem fylgdi kaupsamningnum.“ Hinn 25. ágúst 1995 afsalaði faðir ákærða til áðurnefndra dætra sinna „7,5 ha. landspildu ... í landi A, [...], ásamt öllu sem fylgir og fylgja ber þ.m.t. 50 fm. hús sem á landspildunni stendur. Nánar er um að ræða landspildu sem undanskilin var við sölu jarðarinnar A til sonar míns, X, sbr. meðfylgjandi uppdrátt.“ Afsal fyrir jörðinni var gefið út til ákærða 20. ágúst 1997 „að undanskildu eftirtöldu: Um 50 m2 timburhúsi (heilsárshúsi), ... sem byggt var á jörðinni 1994 ásamt ferhyrntri lóð kringum húsið sem afmarkast þannig; ... Þá er einnig undanskilin 7,5 ha. landspilda samkvæmt uppdrætti sem fylgdi kaupsamningi aðila, dags. 29. júní 1994.“ Í yfirlýsingu föður ákærða 19. maí 1998, er hann nefndi viðauka við afsal, sagði meðal annars: „Með afsali útgefnu 25. ágúst 1995 afsalaði ég undirritaður ... til dætra minna ... 7,5 ha. landspildu í landi A í [...] ásamt 50 fm. húsi sem samkvæmt afsalinu var vegna misskilnings sagt standa á landspildunni. Nánar var um að ræða landspildu sem undan var skilin við sölu jarðarinnar til sonar míns X. Ofangreint hús stendur hinsvegar ekki á framangreindri landspildu heldur á sérstakri lóð sem einnig var undanskilin við sölu jarðarinnar til sonar míns, X sbr. afsal dags. 20. ágúst 1997. ... Hér með staðfestist að afsalið til dætra minna sem útgefið var 25. ágúst 1995 átti einnig að taka til ofangreindrar lóðar og er lóðinni því hér með afsalað til þeirra.“
Með bréfi 27. ágúst 1998 staðfesti landbúnaðarráðuneytið þá skiptingu á jörðinni A „sem fram kemur í afsali dags. 20. ágúst 1997“ þar sem ákærða var afsöluð jörðin „ásamt mannvirkjum, gögnum og gæðum að undanskildum nánar tilgreindum landspildum, sbr. og meðfylgjandi teikningu dags. 6. mars 1998.“ Virðist síðastgreind teikning sambærileg framangreindum uppdrætti sem vísað var til við kaup ákærða á jörðinni.
Ákærði kvaðst hafa látið gera svokölluð túnkort, að líkindum í september 2009, vegna fyrirhugaðrar ræktunar á landi sínu norðan og vestan við landspildu systra sinna. Hafi þá komið í ljós að væri miðað við girðingu sem lokið var við að reisa haustið 1994 teldist land systra hans 8,22 hektarar eða 0,72 hekturum stærra en um hefði verið samið. Af þeim sökum hafi hann fært girðinguna á þann hátt sem greinir í ákæru og síðan grafið þann skurð sem um ræðir og plægt landið. Ákærði kvaðst ekki hafa haft samráð við systur sínar um framkvæmdirnar þar sem samkomulag þeirra í millum hafi ekki verið gott á þessum tíma. Í kjölfar framkvæmdanna lögðu systur hans fram kæru til lögreglu og höfðuðu jafnframt einkamál á hendur honum með kröfu um að viðurkenndur yrði eignaréttur þeirra að spildu þeirri sem um ræðir í ákæru, samhliða því að krefjast aðfaragerðar til að fá aðgang að neysluvatni.
Með kaupsamningi og afsali 9. júlí 2012 seldu systur ákærða honum „fasteignina A land [...], [...], sem er einbýlishús úr timbri alls 50,5 fermetrar skv. fasteignaskrá, byggt árið 1994 ásamt tilheyrandi eignarlóðarréttindum og öllu sem eigninni fylgir og fylgja ber og A land [...],[...], sem er eignarlóð 7,5 hektarar skv. fasteignaskrá.“ Samkvæmt sérstöku samkomulagi systkinanna „um lok ágreinings“ gerðu sama dag skyldu systurnar fella niður framangreind einkamál sem og „önnur ágreiningsmál er hafa verið milli aðila og varða jörðina A eða tilfæringar henni tengdar, svo sem vatnslagnir, girðingar, gróður, umferðarrétt og annað sem upp hefur komið á undanförnum árum og sem snertir ofangreindar eignir sem X kaupir af systrunum.“
III
Ákærði reisir aðalkröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi einkum á því að telja megi að ekki sé lengur fyrir hendi krafa systra hans um að sakamál yrði höfðað á hendur honum. Þá séu rannsóknargögn lögreglu ekki skýr um hvort umþrætt 0,72 hektara landspilda hafi nokkru sinni komist í eigu systra ákærða. Gögn málsins bera hvorki með sér að slík afturköllun hafi komið fram áður en dómur var kveðinn upp í héraði, eins og áskilið er í 2. mgr. 144. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, né er það gert að skilyrði málshöfðunar fyrir brot gegn 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga að brotaþoli krefjist hennar. Þá lúta önnur rök fyrir frávísunarkröfu ákærða að efnisvörnum málsins. Verður henni því hafnað.
Af hálfu málsaðila er við það miðað að á uppdrátt þann sem vísað er til í framangreindum kaupsamningi 29. júní 1994 og afsali 20. ágúst 1997 hafi eiginkona ákærða dregið fríhendis línu frá norðri til suðurs er afmarka átti landið frá þeirri spildu sem undanskilin skyldi vera sölunni. Þá er fram komið að það hafi hún gert eftir mælingar þeirra hjóna samhliða kaupunum. Við rannsókn málsins fékk lögregla Atla Gunnar Arnórsson verkfræðing til þess meðal annars að hnitasetja núverandi og fyrra girðingarstæði og reikna út hvort misræmi væri á milli orða kaupsamningsins 29. júní 1994 og uppdráttar sem honum fylgdi um stærð landspildu þeirrar sem undanþegin átti að vera við kaup ákærða á jörðinni. Samkvæmt greinargerð verkfræðingsins 27. október 2011, sem hann staðfesti fyrir dómi og ekki er vefengd af aðilum málsins, er uppdrátturinn ekki í samræmi við orð kaupsamningsins að þessu leyti. Verði miðað við girðingarstæðið, eins og það var áður en ákærði færði girðinguna, var spilda sú sem systur ákærða kveða að komist hafi í sína eigu 25. ágúst 1995 rúmlega 8,2 hektarar í stað þeirra 7,5 hektara sem kaupsamningur og afsal kvað á um. Þótt ákærði hafi hvorki hreyft andmælum við því að girðingin var reist á árinu 1994, í samræmi við útlínur afmörkunar á uppdrætti er fylgdi kaupsamningi hans um jörðina, né andmælt í 15 ár legu girðingarinnar þá verður samkvæmt framansögðu og að virtri 108. gr. laga nr. 88/2008 við það miðað að slíkur vafi hafi verið á eignarrétti umþrættrar 0,72 hektara spildu að sönnun skorti um það grunnskilyrði 257. gr. almennra hegningarlaga að hún hafi verið í eigu annarra en ákærða er hann réðist í þær framkvæmdir sem í ákæru greinir. Verður ákærði því sýknaður af kröfu ákæruvalds.
Eftir þessum úrslitum málsins verður allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti lagður á ríkissjóð. Niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð málsvarnarlauna verjanda ákærða verður staðfest. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti verða ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvalds.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði sem ákveðin voru í héraðsdómi, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Magnúsar Guðlaugssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 27. mars 2012.
I
Mál þetta sem tekið var til dóms 17. febrúar sl., var höfðað af lögreglustjóranum á Sauðárkóki með ákæru dagsettri 14. nóvember 2011 á hendur X, fæddum [...], til heimils að A, [...], „fyrir stórfelld eignaspjöll, með því að hafa í júní 2010, sem bóndi á bænum A í [...], valdið spjöllum á og svipt lögmæta eigendur yfirráðum yfir u.þ.b. 0,72 hektara spildu sem er hluti af landi nr. 178681 sem liggur að jörðinni A, og er í þinglýstri eigu B, C og D, en ákærði færði ca. 165 metra langa landamerkjagirðingu, sem afmarkaði landspilduna frá landi A, um það bil 50 metra til austurs, og stækkaði land sitt sem því nam. Hann gróf auk þess tæplega 190 metra langan skurð frá norðri til suðurs í landspilduna sem hann yfirtók, vestan nýja girðingarstæðisins, og plægði restina af yfirteknu landspildunni í sundur.
Telst þetta varða við 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“ Í ákæru var tekin upp einkaréttarkrafa en frá henni var fallið undir rekstri málsins.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara, komi til sakfellingar, vægustu refsingar sem lög frekast heimila. Þá krefst hann þess að sakarkostnaður þar með talin málsvarnarlaun greiðist úr ríkissjóði.
II
Málavextir
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu hringdi F á lögreglustöðina á Sauðárkróki 16. júní 2010 og tilkynnti fyrir hönd konu sinnar, B, og systra hennar eignaspjöll og skemmdaverk sem unnið hafði verið á landi systranna. Haft er eftir F að ákærði hefði lagt undir sig hluta af landi þeirra systra og unnið á því spjöll. Þá hefði ákærði fært landamerkjagirðingu u.þ.b. 50 metra til suðurs á 200 metra löngum kafla og þannig stækkað land sitt um nálægt 10.000 fermetrum. Auk þessa hefði hann grafið skurð frá austri til vesturs í landi sem hann yfirtók og plægt restina.
Lögreglumenn fóru á vettvang og tóku ljósmyndir af vettvangi og þá eru í skýrslu lögreglu skýringar á ljósmyndunum.
Hinn 14. júní 2010 kom B á lögreglustöðina á Sauðárkróki í þeim tilgangi að leggja fram kæru á hendur ákærða vegna tjóns sem hún taldi að ákærði hafi valdið á landi sem hún er eigandi að ásamt tveimur systrum sínum. Í skýrslu lögreglu er haft eftir B að ákærði hefði fært girðingu, sem afmarkaði land þeirra, til suðurs með þeim afleiðingum að land þeirra systra minnkaði um nálægt einum hektara. Auk þessa hafi hann grafið skurð í landið og plægt afganginn af því. Krafðist hún þess að ákærða yrði gert að sæta refsingu vegna þessa auk þess sem hún áskildi sér rétt til að leggja fram bótakröfu á hendur honum.
Í lok aprílmánaðar 2010 er tekin lögregluskýrsla af ákærða vegna málsins. Þar er m.a. haft eftir honum að hann hafi fært girðinguna og plægt landið vegna þess að hann telji sig eiga það. Hann kvaðst hafa látið mæla spilduna sem systur hans eiga og þá hafi komið í ljós að hún sé stærri en hún átti að vera miðað við það sem fram kemur í afsali til hans fyrir jörðinni. Ákærði kvaðst ekki hafa rætt við systur sínar áður en hann ákvað að ráðast í þessar framkvæmdir.
Hinn 27. júlí 2011 var síðan tekin lögregluskýrsla af F. Þar er m.a. höfð eftir honum lýsing á því við hvað var miðað þegar girðing var reist um spildu systranna á sínum tíma en hún hafi verið reist árið 1994 og þá hafi verið stuðst við teikningu sem faðir systranna og ákærða, E, og ákærði höfðu gert. Haft var eftir F að spildan hafi aldrei verið mæld nákvæmlega heldur áætlað að hún væri 7,5 hektarar að stærð.
Við rannsókn málsins var leitað til Verkfræðistofunnar Stoðar ehf. á Sauðárkróki og starfsmaður þar fenginn til að mæla umrædda spildu nákvæmlega. Það var gert og liggja frammi í málinu nákvæm kort af landinu.
III
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna eins og efni eru til.
Ákærði greindi frá því að þegar hann var að rækta land sitt hafi hann vantað túnkort og leitað til G og beðið hann um að útvega það. Við skoðun hafi komið í ljós að spilda sú sem systur hans eru skráðar fyrir væri mun stærri en segir í kaupsamningi. Þannig hafi komið í ljós að hún var vitlaust girt. Í september 2009 hafi hann fært girðinguna eftir mælingum G enda hafi hann talið sig eiga landið. Í júní 2010 hafi hann grafið skurð til að þurrka mýrina og í framhaldi af því plægt landið til ræktunar. Ákærði kvaðst ekki hafa nefnt það við systur sínar að hann teldi spildu þeirra of stóra enda hafi hann talið það þýðingarlaust. Ákærði kvað spilduna hafa verið mælda þegar kaupsamningur var gerður um jörðina en það hafi hann gert ásamt eiginkonu sinni en hann vissi ekki hvort þær mælingar voru til. Þegar spildan var undanskilin á sínum tíma hafi verið þarna hólf að hluta til. Hólfið hafi síðan verið stækkað á árinu 1994 eftir að hann keypti jörðina. Faðir hans og F hafi stækkað hólfið með nýrri girðingu. Ákærði taldi að blá lína sem dregin er á kort á skjali 15/4 sé nærri því að vera þar sem girðingin var áður en hann færði hana. Ákærði kvaðst ekki hafa hreyft andmælum við stærð spildunnar fyrr vegna þess að hann hafi á árinu 1998 séð kort, gert af H, hjá búnaðarsambandinu, og á það sé ritað að stærð spildunnar sé 7,5 hektarar og hann hafi ekki haft ástæðu til að rengja það. Hann hafi ekki fyrr en eftir nýjar mælingar á árinu 2009 haft ástæðu til að ætla að spildan væri stærri en hún átti að vera samkvæmt kaupsamningi. Ákærði kvaðst hafa fært girðinguna á þessum stað vegna þess að það hafi legið beint við enda hafi ekki verið girðing á þessum stað á árinu 1994 en girðing hafi verið reist þarna á því ári. Ákærði lýsti því að landið sem hann tók til ræktunar hafi verið frekar blautir móar.
Vitnið C, systir ákærða, bar að hún hafi fengið upplýsingar um málið fljótlega eftir að systir hennar komst að þessu. Vitnið kvaðst vita að ákærði og eiginkona hans hafi alfarið séð um að gera uppdráttinn og hann og faðir þeirra hafi síðan gengið frá málinu.
Vitnið B, systir ákærða, bar að faðir hennar hafi selt ákærða jörðina árið 1994 en haldið eftir spildu sem sögð var 7,5 ha að stærð á teikningu. Teikning af spildunni hafi fylgt kaupsamningi og taldi vitnið að sú teikning kæmi frá ákærða. Faðir hennar og F eiginmaður hennar hafi reist girðinguna í samræmi við teikninguna og þá taldi hún líklegt að ákærði hafi komið að þeirri vinnu einnig með því að leggja til rafmagnsvír. Vitnið bar að á sínum tíma hafi ekki verið deilt um staðsetningu girðingarinnar heldur hafi allir verið sammála um staðsetningu hennar. Raunar hafi hún ekki vitað um neinar deilur fyrr en ákærði færði girðinguna. Hún kvaðst hafa tekið eftir því að búið var að færa girðinguna í júní 2010. Vitnið staðfesti að girðingin hafi verið á þeim stað sem merkt er með blárri línu á skjali 15/1 í skjalaskrá lögreglu. Þá lýsti vitnið því hvernig girðing var við hólfið á árinu 1994 þegar ákærði keypti jörðina.
Vitnið D, systir ákærða, kvaðst hafa orðið vör við að búið var að færa girðinguna í júní 2010. Vitnið kvaðst vita til þess að það hafi verið kappsmál hjá föður hennar að ljúka við að girða spilduna strax um haustið árinu 1994 þegar hann seldi ákærða jörðina enda hafi hann viljað hafa sitt á hreinu. Vitnið kvaðst ekki vita hver eða hverjir aðstoðuðu föður hennar við girðingarvinnuna en eftir hennar bestu vitund var óumdeilt hvar girðingin átti að vera. Vitnið kvaðst ekki geta svarað því hver gerði túnkortið sem fylgdi kaupsamningi en taldi víst að það stafaði frá ákærða og eiginkonu hans.
Vitnið F, mágur ákærða, kvaðst hafa aðstoðað tengdaföður sinn seinnipart árs 1994 við að girða af spilduna sem undanskilin var við sölu jarðarinnar. Girðingin hafi í raun verið framhald eldri girðingar og lýsti vitnið staðsetningu eldri girðingarinnar og einnig því hvar ný girðing var sett. Vitnið bar að stór steinn hafi verið út við þjóðveginn og við hann hafi verið miðað. Að sögn vitnisins þurfti að gera teikningu af spildunni til að fá hana tekna unda jörðinni og það hafi verið gert á árinu 1998 af H en hann hafi eingöngu stuðst við eldri teikningu sem vitnið kveðst ekki vita hver gerði en hann gruni þó að það skjal stafi frá ákærða og eiginkonu hans. Vitnið kvað spilduna ekki hafa verið mælda á sínum tíma heldur hafi verið miðað við steininn sem hann nefndi fyrr svo og að ekki þyrfti að brúa skurð sem er við skurð í landinu og nefndi hann ákveðinn punkt í því sambandi. Girðingin hafi ekki verið sett nær skurðinum en svo að fara mætti með tæki milli hennar og enda skurðarins. Talan sem við er miðað, 7,5 hektarar, sé ágiskun. Vitnið taldi að ákærði hefði aðstoðað við að setja rafmagnsvír ofan á girðinguna á sínum tíma og þá hafi ekki verið nokkur ágreiningur um staðsetningu girðingarinnar. Vitnið kvaðst ekki vita hver ritaði inn á teikninguna stærð landsins en taldi að eiginkona ákærða hefði gert það. Að sögn vitnisins var ákærði búsettur í A á þeim tíma sem girðingin var reist og hann á þeim tíma verið heimavið og samkomulag í raun mjög gott.
Vitnið I, eiginkona ákærða, kvaðst hafa ritað á kort sem merkt er 5/3 í gögnum málsins en hún taldi að þetta kort hafi verið eina kortið sem til var á sínum tíma í A. Hún kvaðst ekki vita hvort þetta kort fylgdi kaupsamningi á sínum tíma. Hún bar að upp hafi komið á síðustu stundu áður en þinglýsa átti kaupsamningi að kort þyrfti að fylgja og þá hafi þetta kort verið dregið fram. Hún kvaðst þó ekki viss um hvort nákvæmlega þetta kort fylgdi á sínum tíma en það hafi þó að öllum líkindum verið líkt þessu korti.
Vitnið Atli Gunnar Arnarsson staðfesti mælingar sem hann gerði vegna rannsóknar málsins og þá lýsti hann á greinargóðan hátt hvernig sú vinna var framkvæmd. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt við ákærða áður eða á meðan verkið var unnið.
IV
Niðurstaða
Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa valdið tjóni á landi og fært girðingu eins og lýst er í ákæru. Fyrir dóminum játaði ákærði háttsemi þá sem honum er í ákæru gefin að sök en hann taldi háttsemina ekki varða hann refsingu enda teldi hann að hann væri eigandi þess lands sem hann raskaði.
Af gögnum málsins má ráða að ákærði keypti jörðina A af föður sínum á árinu 1994. Við kaupin var skilin undan landspilda sem í kaupsamningi er sögð vera 7,5 hektarar að stærð. Spildan var þegar kaupin fóru fram girt að stærstum hluta en strax haustið 1994 var hólfinu lokað með girðingu en það verk unnu aðallega faðir ákærða og mágur. Meðal gagna málsins er kort sem fylgdi kaupsamningi um jörðina en þar er spildan sem var undanskilin afmörkuð. Útlínur þeirrar afmörkunar eru í samræmi við legu girðingarinnar eins og hún var upphaflega. Eiginkona ákærða bar að hún hafi ritað á kortið og má því fullyrða að það hafi verið í vörslum þeirra hjóna áður en það var sent til þinglýsingar. Með hliðsjón af þessu, því að ákærði hreyfði ekki andmælum við legu girðingarinnar í 15 ár og því að ákærða var kunnugt um að faðir hans kom að afmörkun spildunnar verður ekki annað ráðið en að ákærða hafi mátt vera ljóst hver lega spildunnar átti að vera. Í ljós kom við nákvæma mælingu að spildan var 0,72 hekturum stærri en hún var sögð í kaupsamningi þannig að misræmi er milli þess sem segir í kaupsamningi og stærðar spildunnar í raun. Hér er hins vegar um óverulegan mun að ræða og verður við það að miða að spildan sem girt var á sínum tíma hafi verið undanskilin við kaupin þó stærð hennar hafi ekki verið nákvæmlega rétt skráð í kaupsamningi.
Að teknu tilliti til atvika allra er það mat dómsins að ákærða hafi mátt vera ljóst að spildan sem hann tók til eigin nota og umbylti með þeim hætti sem lýst er í ákæru var ekki hans eign heldur systra hans og hefur hann því með háttsemi sinni gerst sekur um eignaspjöll. Þegar horft er til þess með hvað hætti ákærði spillti landinu og þess að tjón af háttsemi hans liggur ekki fyrir með sannanlegum hætti er það mat dómsins að háttsemi ákærða varði við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu en refsing hans þykir hæfilega ákveðin 80.000 króna sekt til ríkissjóðs en sex daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna.
Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber að dæma ákærða til að greiðslu alls sakarkostnaðar. Samkvæmt yfirliti sækjanda nam sakarkostnaður á rannsóknarstigi 300.625 krónum en sá kostnaður er tilfallinn vegna vinnu sérfræðinga við mælingar á landinu. Þessi kostnaður telst með vísan til c. liðar 216. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 til sakarkostnaðar. Þessum kostnaði til viðbótar eru málsvarnarlaun Jóns Sigfúsar Sigurjónssonar héraðsdómslögmanns sem þykja hæfilega ákveðin 225.900 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til þess tíma sem fór í ferðalag verjanda vegna flutnings málsins.
Af hálfu ákæruvalds sótti málið Birkir Már Magnússon fulltrúi lögreglustjórans á Sauðárkróki.
Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsuppsaga hefur dregist en sakflytjendur hafa lýst því yfir að þeir telji endurflutning óþarfan.
Dómsorð:
Ákærði, X, greiði 80.000 króna sekt til ríkissjóðs en sæti fangelsi í sex daga verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna.
Ákærði greiði sakarkostnað að fjárhæð 526.525 krónur þar með talin 225.900 króna málsvarnarlaun Jóns Sigfúsar Sigurjónssonar héraðsdómslögmanns.