Print

Mál nr. 496/2014

Lykilorð
  • Ávana- og fíkniefni
  • Skilorð
  • Upptaka

Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 18. desember 2014.

Nr. 496/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)

gegn

Símoni Einarssyni

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Ávana- og fíkniefni. Skilorð. Upptaka.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um ákvörðun refsingar S, sem á grundvelli játningar var sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni kannabisplöntur, marihúana og hass og að hafa um nokkurt skeið ræktað áðurgreindar plöntur. Var refsing S ákveðin fangelsi í níu mánuði, þar af sex mánuðir bundnir skilorði, og nánar tilgreindir munir dæmdir upptækir.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. júlí 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst refsimildunar.

Ákærði kveðst hafa framið brotið sem hann er ákærður fyrir meðan hann neytti fíkniefna. Segist hann hafa algjörlega snúið við blaðinu eftir að upp komst um brotið. Því til staðfestu hefur ákærði lagt fram ný skjöl hér fyrir dómi þar sem meðal annars kemur fram að hann hafi nýverið lokið grunnnámi í háskóla í rekstrarverkfræði og leggi nú stund á meistaranám í orkuverkfræði. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

 Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Símon Einarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 234.042 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2014.

                Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 2. júlí 2014, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 20. maí 2014, á hendur Símoni Einarssyni, kt. [...], [...], [...], fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, föstudaginn 6. september 2013, að [...] í [...], haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 351 kannabisplöntu, 175,70 g af marijúana og að [...] í [...], haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 8 kannabisplöntur, 7,32 g af marijúana og 0,70 g af hassi, og hafa um nokkurt skeið fram til þess dags ræktað greindar plöntur. 

                Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Krafist er upptöku á samtals 359 kannabisplöntum, 0,70 g af hassi og samtals 183,02 g af marijúana, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Þá er krafist upptöku á 10 ballestum, 2 led ljósum, 6 rakatækjum, 1 kælielementi, 11 ballestum, 1 vatnskerfi, 17 gróðurhúsalömpum, 10 viftum, 7 loftsíum, 5 loftblásurum, 2 PH mælum, 10 tímarofum, 1 ljósmæli, 1 hraðastilli á viftu, 4 vatnskössum, 1 ræktunarperu, og 3 Led lömpum, með vísan til 7. mgr. 5. gr. sömu laga, en þessir munir voru notaðir til framleiðslu kannabisplantnanna.

                Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

                Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

                Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

                Ákærði er fæddur í mars 1988. Hann hefur ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir að hafa staðið að nokkuð umfangsmikilli framleiðslu kannabisefna, sem ætluð voru til sölu og dreifingar. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði, en fresta skal fulln­ustu 6 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Upptæk eru dæmd 359 kannabisplöntur, 0,70 g af hassi, 183,02 g af marijúana, 20 ballest, 2 led ljós, 6 rakatæki, kælielement, vatnskerfi, 17 gróðurhúsalampar, 10 viftur, 7 loftsíur, 5 loftblásarar, 2 PH mælar, 10 tímarofar, ljósmælir, hraðastillir á viftu, 4 vatnskassar, ræktunarpera og 3 Led lampar, samkvæmt lagaákvæðum sem í ákæru greinir.

                Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 75.300 krónur, þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Svanhvítar Yrsu Árnadóttur hdl., 62.750 krónur, og 570.716 krónur í annan sakarkostnað. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Katrín Ólöf Einarsdóttir saksóknarfulltrúi.

                Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

                Ákærði, Símon Einarsson, sæti fangelsi í 9 mánuði, en fresta skal fulln­ustu 6 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Upptæk eru dæmd 359 kannabisplöntur, 0,70 g af hassi, 183,02 g af marijúana, 20 ballest, 2 led ljós, 6 rakatæki, kælielement, vatnskerfi, 17 gróðurhúsalampar, 10 viftur, 7 loftsíur, 5 loftblásarar, 2 PH mælar, 10 tímarofar, ljósmælir, hraðastillir á viftu, 4 vatnskassar, ræktunarpera og 3 Led lampar.

                Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 75.300 krónur, þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi málsins, Svanhvítar Yrsu Árnadóttur hdl., 62.750 krónur, og 570.716 krónur í annan sakarkostnað.