Print

Mál nr. 705/2017

Ákæruvaldið (Björn Þorvaldsson saksóknari)
gegn
X (Óttar Pálsson hrl.), Y (Reimar Pétursson hrl.) og Z (Björgvin Þorsteinsson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Hæfi dómara
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X, Y og Z um að meðdómsmaður viki sæti í máli Á gegn þeim.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 9. nóvember 2017, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2017, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að meðdómsmaðurinn Ingimundur Einarsson dómstjóri víki sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að fyrrgreind krafa þeirra verði tekin til greina.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Þau viðskipti með hlutabréf, sem meðdómsmaður sá, er hér um ræðir, átti við A hf. og B hf. og lýst er í hinum kærða úrskurði geta ekki leitt til þess að hann sé vanhæfur til meðferðar þessa máls, sem varðar ætluð brot í starfsemi C hf. Þá geta þau hlutabréfaviðskipti, sem meðdómsmaðurinn átti við síðastnefnda bankann og greinir í úrskurði héraðsdóms, heldur ekki valdið vanhæfi hans. Samkvæmt þessu og þar sem varnaraðilar hafa ekki bent á önnur atvik eða aðstæður, sem geti verið til þess fallnar að draga óhlutdrægni meðdómsmannsins með réttu í efa, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008, verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.    

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2017.

Með ákæru embættis sérstaks saksóknara 10. febrúar 2014 voru ákærðu gefin að sök umboðssvik og hlutdeild í umboðssvikum í tengslum við lánveitingar C hf. til félaganna D ehf. og E ehf., í nóvember 2007 og janúar 2008.

Í þinghaldi 8. nóvember sl. höfðu ákærðu uppi þá kröfu að meðdómsmaðurinn Ingimundur Einarsson dómstjóri, sem þá hafði verið kvaddur til setu í dómi, viki sæti í málinu vegna vanhæfis. Sækjandi krafðist þess að kröfum ákærðu, um að meðdómsmaðurinn víki sæti, yrði hafnað. Málið var flutt um kröfur ákærðu og sækjanda 8. nóvember sl. og tekið til úrskurðar í framhaldi.

Ákærðu byggja kröfu sína um að hinn sérfróði meðdómsmaður víki sæti á g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.   

Krafa ákærðu er á því reist að fjárhagslegir hagsmunir dómstjórans sem tengist sakarefni málsins gefi ákærðu réttmæta ástæðu til að draga óhlutdrægni hans, sem meðdómsmanns í málinu, í efa. Við mat samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum megi horfa til eðlis þeirra fjárhagshagsmuna dómara sem um tefli, til umfangs þeirra og þess tímabils sem þeir hafi staðið yfir. Þótt aldrei hafi á slíkt tilvik reynt, að því er séð verði, hljóti einnig mega horfa til þess að dómari hafi vanrækt tilkynningarskyldu á fjárhagshagsmunum. Fjárhagshagsmunir dómstjórans hafi falist í eignarhaldi á hlutum í C hf., A hf. og B hf. Við athugun þessara atriða hafi komið í ljós að eðli þessara fjárhagshagsmuna, umfang þeirra og tímabilið sem þeir hafi staðið yfir gefi ákærðu réttmætt tilefni til að efast um óhlutdrægni hans. Það sé heldur ekki til þess fallið að auka trúverðugleika skipunar dómstjórans sem meðdómanda að ákvörðun um úthlutun málsins til hans hafi verið tekin af honum sjálfum, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 og 3. mgr. 18. gr. laga nr. 15/1998.

Að því er eðli fjármuna varðar hafi fjárfesting dómstjórans í hlutabréfum bankanna verið áhættufjárfesting. Í 7. gr. reglna nr. 463/2000 sé lögð sérstök skylda á dómara að tilkynna eignarhald sitt á hlutum í félögum. Þetta hljóti að helgast af því að eignarhald á hlutum teljist áhættufjárfesting. Fjárfestar hafi yfirleitt sérstaka tiltrú á stjórnendum félaga og framtíð þeirra. Reynist ákvarðanir misráðnar verði hluthafar félaga fyrstir fyrir tapi. Við slíkar aðstæður hverfi tiltrú á stjórnendum félaga. Þegar til umfjöllunar dómara komi atriði er varði stjórntök á félagi, þar sem dómari hafi átt hagsmuna að gæta sem hluthafi, sé full ástæða til að horfa til eðlis hlutafjár. Algengt sé að hlutafélög sem starfi á sama markaði séu rekin með samsvarandi hætti og svipuðum aðferðum. Komi slíkar ákvarðanir hjá einu félagi til skoðunar sé full ástæða til að horfa til þess sameiginlega áhættueðlis við mat á umfangi áhættu dómara. Með vísan til þessa megi einnig líta á tap dómstjórans af eignarhlutum í B og A við mat á umfangi áhættu hans.  

Að því er varðar umfangið hafi dómstjórinn við skipun sem dómari átt 25.544 hluti í C, 25.501 hlut í A og 26.182 hluti í B. Verðmæti þessara hluta í dagslok 15. nóvember 2007 hafi verið 4.154.262 krónur. Dómstjórinn hafi selt hluti sína í A og B 2. október 2008. Þá hafi virði þeirra rýrnað um 1.343.245 krónur. Hlutir í C hafi ekki verið seldir heldur farið forgörðum og virði lækkað um 661.590 krónur. Samtals hafi dómstjóri því orðið fyrir gengistapi á tímabilinu frá 15. nóvember 2007, til þess tíma er hlutirnir voru seldir eða þeir urðu verðlausir, að fjárhæð 2.004.835 krónur. Þetta tap sé verulegt sé það metið t.a.m. með hliðsjón af launum dómara. Hafi tapið af eignarhlut í C 15. nóvember 2007 nálega numið fullum mánaðarlaunum dómara fyrir skatt. Sé tapið af eignarhlut í hinum bönkunum tekið með hafi tapið numið nálega þreföldum launum dómara fyrir skatt.  

Að því er varði tímabil fjárfestinga hafi fjárfestingar dómstjórans staðið yfir á því tímabili sem sakarefni málsins taki til og atvik máls hafi að öðru leyti umtalsverða þýðingu fyrir mögulegt viðhorf dómstjórans til þess taps sem hann hafi orðið fyrir. Ákæruvald tefli því fram að viðskiptin sem ákært sé fyrir hafi verið sérstakur liður í aðgerðum sem ætlað hafi verið að villa um fyrir fjárfestum í C. Tengsl á milli þessa sakamáls og máls nr. [...] séu nokkuð augljós. Ákæruvald höfði til þess að sú háttsemi sem ákæra taki til hafi verið liður í markaðsmisnotkun sem hafi verið ætlað að villa um fyrir fjárfestum í hlutum í C. Í dómi Hæstaréttar í svokölluðu [...] máli hafi verið álitið að C hafi orðið fyrir stórfelldu tjóni af aðgerðum sem ákærða Y hafi verið kennt um. Brot hans hafi verið stórfelld og beinst m.a. að þeim sem átt hafi í viðskiptum á skipulegum verðbréfamarkaði. Þá haldi ákærðu því fram að horfa verði jafnframt til þess taps sem dómstjórinn hafi orðið fyrir vegna viðskipta með hluti í B og A. Viðskiptaaðferðir bankanna hafi verið samsvarandi um margt og vonlítið að einn gæti staðið meðan hinir féllu.

Þá hafi dómstjórinn vanrækt í verulegum atriðum tilkynningarskyldu samkvæmt 7. gr. reglna nr. 463/2000. Hafi hann ekki tilkynnt um fjárhagshagsmuni sína fyrr en með tilkynningu 10. mars 2017 eða liðlega 10 árum frá því borið hafi að senda tilkynninguna. Slíkur dráttur hljóti í öllu tilliti að teljast verulegur. Tilkynningarskyldan og ræksla hennar hafi að markmiði að varðveita traust og trúverðugleika dómskerfisins og tiltrú aðila á óhlutdrægni dómara. Hafi dómari vanrækt að tilkynna fjárhagshagsmuni megi álíta slíkt sérstaka ástæðu til að draga óhlutdrægni viðkomandi dómara í efa.

Loks sé til þess að líta að ákvörðun um kvaðningu dómstjórans til setu í dómi hafi verið hans eigin ákvörðun, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 og 3. mgr. 18. gr. laga nr. 15/1998. Sú staðreynd sé heldur ekki til þess fallin að ljá málinu aukinn trúverðugleika.

Sækjandi vísar til þess að hagmunir þeir er dómstjóri hafi átt í hlutabréfum í C hf., B hf. og A hf. hafi verið óverulegir. Geti þeir þar af leiðandi ekki leitt til vanhæfis dómstjórans. Fjárfestingar hans hafi verið í mörgum félögum og misstórar. Í dag séu þessir fjárhagslegu hagsmunir ekki lengur til staðar og geti því ekki haft áhrif. Sé því engin ástæða fyrir ákærðu til að draga óhlutdrægni dómarans með réttu í efa.

                Niðurstaða:  

                Samkvæmt g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 er dómari, þar á meðal meðdómsmaður, vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. 

                Dómstjóri, sem er meðdómsmaður í máli þessu, átti á árinu 2008 hlutabréf í C hf., A hf. og B hf. að verðmæti ríflega tvær milljónir króna. Hafði virði þeirra bréfa lækkað frá því á árinu 2007 vegna gengistaps. Tap dómstjórans af eignarhlutum í þessum þremur bönkum nam um tveimur milljónum króna og var hlutur hans í C hf. í því tilliti metinn á liðlega 650.000 krónur.

                Hlutabréf í félögum þessum voru á almennum markaði, bæði fyrir fagfjárfesta og almenning. Verður að telja að hagsmunir dómstjórans, í ljósi þeirra fjárhæða er um ræðir og þegar hliðsjón er almennt höfð af launum héraðsdómara, hafi verið óverulegir í öllu venjulegu tilliti. Geta þessir fjárhagslegu hagsmunir ekki verið til þess fallnir að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa, þó svo dómstjóri hafi keypt einhverja þessara hluta á því tímabili er ákæra tekur til í málinu.

Þó svo tilkynningarskyldu samkvæmt reglum nr. 463/2000 hafi ekki verið gætt getur sú niðurstaða ekki leitt til þess að ástæða sé til að draga óhlutdrægni dómstjórans með réttu í efa. Var ekki um slíkar fjárhæðir að ræða að leita hafi þurft heimildar nefndar um dómarastörf fyrir því að eiga þessa hluti. Þurfti einungis að tilkynna um þá. 

                Ákærðu hafa ekki bent á önnur atvik eða aðstæður sem geti verið til þess fallnar að draga óhlutdrægni meðdómsmannsins með réttu í efa, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Verður kröfu um að meðdómandinn víki sæti hafnað.

Úrskurð þennan kveða upp Símon Sigvaldason héraðsdómari, sem dómsformaður og meðdómsmennirnir Ingimundur Einarsson dómstjóri og Hrefna Sigríður Briem viðskiptafræðingur.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Hafnað er kröfu ákærðu, X, Y og Z, um að meðdómsmaðurinn Ingimundur Einarsson dómstjóri víki sæti í málinu.