Print

Mál nr. 644/2014

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

                               

Föstudaginn 3. október 2014.

Nr. 644/2014.

 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stæði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason   og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. október 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. október 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 6. október 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um gæsluvarðhald varnaraðila. Þá er staðfest sú niðurstaða úrskurðarins að varnaraðili sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. október 2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 6. október nk. kl. 16.  Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Kröfu sína byggir lögreglustjóri á a. lið 1. mgr. 95. gr.  og b. lið 1. mgr. 99. gr.  laga um meðferð sakamála nr. 88/2008

Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að fimmtudaginn 25. september síðastliðinn hafi lögreglan fundið og lagði hald á mikið magn af amfetamíni, um 438 grömm, við húsleit á heimili meðkærða, Y, að [...] í [...]. Farið hafi verið í húsleitina í kjölfar þess að meðkærði hafi verið handtekinn um kl. 21 í miðbæ [...] með tvær kúlur af amfetamíni sem vógu samtals 30,84 grömm. Við húsleitina hafi einnig verið lagt hald á vog og svarta teiprúllu, sams konar teip og efnin sem kærði hafi verið með í miðbæ [...] hafi verið pökkuð inn í. Þá hafi verið lagt hald á 390.000 krónur sem hafi verið í umslagi í svefnherbergi og skrifblokk þar sem fram hafi komið upplýsingar sem virðist tengjast fíkniefnamisferli. Í ruslafötu í íbúðinni hafi mikið magn verið af saurmenguðum umbúðum, þ.e. einingum/kúlum sem hafi verið teipaðar með nokkrum litum. Einingarnar hafi verið nokkra sentímetra langar og búið að skera þær til helminga. Í einingunum hafi verið efnisleifar og hafi sami litur verið á efnisleifunum og á efninu í fæðubótadunknum.

Í skýrslutöku af kærða Y sem fram hafi farið 26. september sl. kvaðst hann hafa fengið greitt fyrir geyma efnin á heimili sínu. Hann kvað aðila með símanúmerið [...] hafa hringt í sig og þeir hist, þar sem maðurinn hafi afhent honum peningagreiðslu. Kvaðst hann hafa sótt efnin seinnipart laugardags 20. september sl. til manns í [...], nánar tiltekið að [...]. Kvaðst hann ekki hafa átt að selja þau en hann hafi átt að afhenda þau. Varðandi fíkniefnin sem hann hafi verið með er lögregla hafi handtekið hann í miðbæ [...] kvaðst hann hafa ætlað að afhenda aðila þau sem hann vissi ekki hvað héti. Varðandi umbúðirnar sem hafi fundist í ruslinu kvað hann þær ekki vera frá sér. Var Y úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi til 3. október nk. með tilliti til rannsóknarhagsmuna.

Í bifreið Y hafi lögreglan fundið gulan minnismiða þar sem búið var að rita tvö símanúmer og peningafjárhæð auk textans “bottlangagata fyrir neðan”.

Nú hefur komið í ljós að annað símanúmerið tilheyrir aðila sem flutti efnin til landsins.  Hafi sá aðili verið handtekinn í gær og hafi hann viðurkennt alla sína aðild að málinu. Hitt símanúmerið [...] var einnig ritað á miðann. Í gær hafi lögreglan framkvæmt húsleit á heimili kærða X, sem býr í innst í botnlangagötu ([...]) og fundið þar og lagt hald á síma sem sé með símanúmerið [...].  Hafi X verið yfirheyrður í dag og neitað hann allri aðild að málinu.

Kærði sé undur rökstuddum grun um aðild að fíkniefnainnflutningi og sölu- og dreifingu fíkniefna. Rannsóknin málsins sé á frumstigi. Lögregla telji ljóst að fleiri aðilar tengist þessu máli og þurfi að hafa upp á þeim og taka af þeim skýrslur. Að mati lögreglu megi ætla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að ræða við samverkamenn og hafa áhrif á framburð þeirra eða koma undan munum. Rannsókn málsins sé því á viðkvæmu stigi og afar brýnt að krafa lögreglustjóra verði tekin til greina,

Sakarefnið varði við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 173. gr. a. alm. hgl. en brot gegn því ákvæði varðar allt að 12 ára fangelsi.

Það sé því nauðsynlegt með vísan til alls framanritaðs og gagna málsins að öðru leyti að kærði verði með vísan til a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 gert að sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 6. október nk. kl. 16.00 og til að sæta einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið, svo og rannsóknargagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er á frumstigi. Gangi kærði laus má ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins með því að skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Samkvæmt þessu telst fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og er krafa lögreglustjóra því tekin til greina eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.  Jafnframt er fallist á að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 6. október nk. kl. 16:00.

Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur.