Print

Mál nr. 110/2013

Lykilorð
  • Kærumál
  • Rannsókn
  • Vitni

                                              

Föstudaginn 22. febrúar 2013.

Nr. 110/2013.

Seðlabanki Íslands

(Gizur Bergsteinsson hrl.)

gegn

X og

Y

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

Kærumál. Rannsókn. Vitni

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X og Y um að skýrslur yrðu teknar fyrir dómi af fimm einstaklingum vegna kröfu X og Y um að úrskurðað yrði að tiltekin rannsóknaraðgerð S væri ólögmæt og að lokað yrði fyrir aðgang að gögnum á haldlagðri tölvu og öllum afritum þeirra eytt. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms. Vísað var til þess að vegna fyrri niðurstöðu Hæstaréttar í máli er laut að sömu rannsóknaraðgerðum væri bersýnilega tilgangslaust að taka skýrslur fyrir dómi af viðkomandi einstaklingum. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 15. febrúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2013, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila þess efnis að A, C, D, E og G gæfu skýrslu fyrir dómi í máli um lögmæti tiltekinnar rannsóknaraðgerðar. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þeir krefjast einnig kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2013.

         Dómari hefur ákveðið að málflutningur fari fram 15. febrúar nk. um kröfu sóknaraðila þess efnis að úrskurðað verði að „yfirstandandi rannsóknaraðgerð SÍ, sem hófst á tímabilinu 19. júlí til 27. ágúst 2012 og stendur enn, og felst í þeirri aðgerð að brjótast inn á og skoða lokuð svæði“ á tilgreindri tölvu, sé ólögmæt, og að varnaraðila verði gert að loka aftur fyrir aðgang að „framangreindum gögnum og eyða öllum afritum“ sem kunni að hafa verið gerð af gögnum á hinu lokaða svæði tölvunnar. Sóknaraðili hefur krafist þess að fimm einstaklingar gefi skýrslu í ágreiningsmáli þessu, sem rekið er fyrir dómi á grundvelli 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008. Varnaraðili mótmælir því að þeir fái að gefa skýrslu. Ágreiningur þessi var tekinn til úrskurðar eftir að aðilum hafði í dag verið gefinn kostur á því að reifa sjónarmið sín.

         Í 3. mgr. 106. gr. laga nr. 88/2008 segir að aðili geti krafist þess, eftir því sem ástæða er til, að munnlegar skýrslur verði teknar fyrir dómi við meðferð máls samkvæmt XV. kafla laganna. Tekur dómari afstöðu til slíkrar kröfu að gættu ákvæði 3. mgr. 110. gr. laganna, en þar segir að telji dómari bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar, geti hann meinað aðila um sönnunarfærslu. Dómari telur að þetta verði að meta með hliðsjón af kröfugerð sóknaraðila og úrlausnum dómstóla um þá rannsókn varnaraðila sem málið lýtur að.

         Sóknaraðili hefur óskað eftir því að A gefi skýrslu í málinu þar sem hann geti borið um samskipti, sem átt hafi sér stað, þegar bókhaldskerfi B hf. og tengdra félaga, hafi verið afritað og afhent varnaraðila, sem og C, starfsmann B hf., sem hafi komið að afrituninni og afhendingu kerfisins. Þá hefur sóknaraðili krafist þess að D, lögreglufulltrúi, gefi skýrslu, en hann mun hafa útbúið og ritað undir upplýsingaskýrslu um afhendingu bókhaldskerfisins. Sóknaraðili fer einnig fram á að E, starfsmaður F, gefi símaskýrslu, þar sem hann hafi greint tollskýrslur allra útflytjenda [...] á tilteknu tímabili. Að lokum fer sóknaraðili fram á að G, yfirmaður bókhalds sóknaraðila, gefi símaskýrslu á þýsku vegna staðhæfinga í greinargerð varnaraðila um að bókhald sóknaraðila sé fært af B hf.

         Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 30. október 2012 í máli nr. 659/2012 var staðfestur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. október sama ár, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að heimild varnaraðila samkvæmt dómsúrskurði frá 27. mars 2012 hafi náð til þess að afrita bókhaldskerfi B hf. og tengdra aðila í heild. Engu breytti í því sambandi þó að í því kerfi hafi verið fært bókhald annarra félaga en þeirra sem dómsúrskurðurinn frá 27. mars 2012 tók til og að starfsmenn tölvufyrirtækis, sem annaðist afritun kerfisins, hafi lokað aðgangi að lyklum sem geymdu bókhald þeirra. Ekki þótti heldur þörf á sérstökum dómsúrskurði til að athuga gögn sem afrituð höfðu verið og afhent varnaraðila með aðgangshindrun. Því var kröfum B hf. og félaga, sem staðhæft var að ættu bókhaldupplýsingar á þeim svæðum kerfisins sem lokað hafði verið fyrir aðgang að, vísað frá dómi. Með hliðsjón af þessari niðurstöðu verður að telja bersýnilega tilgangslaust að leiða vitni, sem er ætlað að bera um tilhögun á afritun gagnanna og afhendingu þess til varnaraðila, sem og vitni sem er ætlað að upplýsa hver færði bókhald sóknaraðila. Í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í dómi frá 30. maí 2012 í máli nr. 357/2012 hefur heldur ekki þýðingu fyrir úrlausn þessa máls að vitni beri um efnislegar forsendur húsleitarinnar í öndverðu. Af þessum sökum og með vísan til 3. mgr. 106. gr., sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 verður að hafna kröfu sóknaraðila um að framangreindir einstaklingar gefi skýrslu í ágreiningsmáli þessu.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

         Hafnað er kröfu sóknaraðila, X og Y, þess efnis að A, C, D, E og G, gefi skýrslu í máli þessu.