- Gjafsókn
- Handtaka
- Miskabætur
|
Fimmtudaginn 24. febrúar 2011. |
Nr. 425/2010. |
Sigmundur
Geir Helgason (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) gegn íslenska
ríkinu (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Handtaka. Gæsluvarðhald. Miskabætur. Gjafsókn.
S var handtekinn 4. júlí 2007 og sætti gæsluvarðhaldi frá 5. júlí til 9.
sama mánaðar vegna gruns um að hann hefði framið brot sem varðaði við 2. mgr.
218. gr. almennra hegningarlaga. S var síðan sleppt úr haldi eftir að hafnað
hafði verið kröfu um framlengingu gæsluvarðhalds, en aðrir grunaðir höfðu þá
verið yfirheyrðir og tæknideild lögreglu hafði unnið skýrslu um rannsókn
málsins. S var tilkynnt í maí 2009 að málið hefði verið fellt niður og höfðaði
hann í kjölfarið bótamál á hendur Í. Í héraðsdómi var talið að skilyrði
þágildandi a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála
hefði verið uppfyllt til að S sætti gæsluvarðhaldi enda hafði S ekkert gert til
þess að upplýsa málið eða auðvelda rannsókn þess. Var því ekki fallist á að S ætti
rétt á bótum á grundvelli 176. gr. laga nr. 19/1991. Nægilegt tilefni hefði
verið til þess að úrskurða S í gæsluvarðhald og ekki hefði verið sýnt fram á að
handtaka hans og gæsluvarðhald hefðu verið framkvæmd á óþarflega særandi,
móðgandi eða hættulegan hátt. Ekki var því fallist á að skilyrði væru til þess
að fella bótaábyrgð á Í á grundvelli almennu sakarreglunnar eða 26. gr.
skaðabótalaga. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms var hann staðfestur
af Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. júlí 2010. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. júlí 2007 til 1. nóvember 2009, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Sigmundar Geirs Helgasonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2010.
Mál þetta, sem tekið var
til dóms 25. mars sl., er höfðað með stefnu birtri 29. september sl.
Stefnandi er Sigmundur
Geir Helgason, Suðurgötu 80, Hafnafirði.
Stefndi er íslenska
ríkið.
Stefnandi krefst þess að stefndi
verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 1.000.000 kr. með
vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá
4. júlí 2007 til 10. október 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga
nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar
að skaðlausu úr hendi stefnda, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndi krefst sýknu af
kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins úr hendi stefnanda.
Málsatvik
Lögreglu barst tilkynning
frá fjarskiptamiðstöð 4. júlí 2007, kl 19.07, um að verið væri að ganga í
skrokk á manni í húsnæði vélhjólaklúbbsins Fáfnis, að Hverfisgötu 61,
Reykjavík. Tilkynningin barst frá konu, sem reyndist vera Aðalheiður Ósk
Þorsteinsdóttir, sem skýrði frá því að maðurinn hennar, Adam Bjarki Ægisson,
hefði tengst vélhjólaklúbbnum Fáfni og hefði hún hlustað á barsmíðar á honum í
gegnum farsíma hans.
Lögregla brá skjótt við
og þegar hún kom á vettvang var stefnandi, ásamt Einari Marteinssyni, að ganga
út um dyr á húsinu, en skammt þar frá var nefndur Adam Bjarki.
Utan við húsið tjáði Adam
Bjarki lögreglu að hann hefði verið laminn inni í Fáfnisheimilinu og nefndi
sérstaklega til sögunnar í því efni, tvo menn, þá Einar og ,,Simba“. Skýrði
Adam Bjarki svo frá á vettvangi, að hann hefði ætlað sér að hætta í nefndum
vélhjólaklúbbi og hafi verið að skila fatnaði, merkjum og fleiri munum. Hafi
meðlimir Fáfnis ráðist á sig skömmu áður en lögregla kom á vettvang. Áverkar
voru sjáanlegir á baki og handleggjum Adams Bjarka, og var hann áberandi
haltur, en jafnframt var hann sjáanlega skelkaður, skjálfandi og átti erfitt um
mál.
Stefnandi var handtekinn
ásamt öllum öðrum sem á vettvangi voru, alls níu manns. Var stefnandi færður á
lögreglustöð ásamt öðrum þeim er handteknir voru.
Adam Bjarki tjáði
lögreglu á lögreglustöð að eftir að hann kom í húsnæði Fáfnis hefði hann verið
lokaður inni og Einar og ,,Simbi“, sem vísar til stefnanda, hafi farið að lemja
sig, m.a. með áhöldum. Á líkama Adams voru áverkar og m.a. skófar á baki hans.
Mynstur á skóm stefnanda virtist svara til skófars á baki hans.
Adam Bjarki gaf skýrslu á
lögreglustöð, að kvöldi 4. júlí 2007. Þar kom m.a. fram hjá honum að hann hefði
verið þátttakandi í umræddum vélhjólaklúbbi um skeið, en ákveðið að hætta því.
Það hefði hins vegar mælst mjög illa fyrir hjá forsvarsmönnum klúbbsins og
honum verið bannað það og hann þvingaður til þátttöku eftir að hann hefði
viljað hætta. Hann hafi svo verið boðaður á fund í félagsheimilinu vegna þessa.
Hann hefði verið lokaður inni í herbergi með stefnanda og öðrum manni og hefðu
þeir báðir ráðist að sér, m.a. með barefli, og hefði stefnandi barið sig með
járnröri.
Hafi honum tekist að
hringja til unnustu sinnar, Aðalheiðar Óskar, en síma sinn hefði hann fyrir
fram stillt þannig að það gæti hann gert, aðeins með því að styðja á einn hnapp
og hafi hún þá vitað að hringja ætti á lögreglu.
Tekin var skýrsla af
Aðalheiði Ósk daginn eftir, eða 5. júlí 2007, og skýrði hún frá aðdraganda og
atvikum á sama veg og Adam Bjarki.
Stefnandi sat í
fangageymslu lögreglu frá því að hann var handtekinn 4. júlí 2007 þar til hann
var úrskurðaður í gæsluvarðhald frá 5. júlí 2007 til 9. júlí 2007. Var gerð
krafa um að honum yrði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 3.
september 2007, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.
Var stefnandi látinn laus úr haldi 9. júlí 2007.
Stefnandi var með
réttarstöðu sakbornings meðan á rannsókn málsins stóð, en með bréfi frá 22. maí
2009 hætti lögreglustjórinn í Reykjavík rannsókn málsins, varðandi þátt
stefnanda.
Stefnandi telur að hann
hafi verið látinn sæta ólögmætri handtöku og ólögmætu gæsluvarðhaldi og er mál
þetta höfðað til greiðslu skaðabóta úr hendi íslenska ríkisins vegna þess.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveður að hann
hafi á öllum stigum málsins neitað að tjá sig um málið, enda hafi hann ekkert
sér til sakar unnið. Þannig hafi hann hvorki viðhaft ofbeldi né gert sig
líklegan til að hafa nokkurt ofbeldi í frammi gagnvart meintum brotaþola er
hann var handtekinn 4. júlí 2007 og í kjölfarið úrskurðaður í gæsluvarðhald,
sem hann sætti í fjóra sólarhringa. Telur stefnandi að þessi frelsissvipting,
þ.e. handtaka og gæsluvarðhaldsvist, hafi verið með öllu ólögmæt enda hafi
engin áþreifanleg sönnunargögn legið fyrir varðandi meinta refsiverða háttsemi
stefnanda, önnur en framburður meints brotaþola, sem og óbeinn vitnisburður
Aðalheiðar Þorsteinsdóttur. Telji stefnandi að hvorki hafi verið uppfyllt
skilyrði þágildandi 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála
um að til staðar hafi verið rökstuddur grunur um refsivert brot, sem sætt gæti
ákæru, er hann hafi verið handtekinn 4. júlí 2007, né skilyrði 1. mgr. 103. gr.
sömu laga um fram kominn rökstuddan grun um að stefnandi hafi framið verknað
sem fangelsisrefsing er lögð við. Þá hafi rannsóknarhagsmunir ekki verið slíkir
að réttlætt gætu umrædda frelsissviptingu. Lögreglu hafi þannig verið í lófa
lagið að kalla stefnanda til skýrslutöku síðar án þess að frelsissvipting færi
fram. Hafi frelsissviptingin því verið með öllu óþörf, ólögmæt og gengið langt
út fyrir allt meðalhóf. Stefnandi hafi þannig verið sviptur frelsi í fimm
sólarhringa án haldbærra gagna og röksemda sem réttlætt gætu slíka
frelsissviptingu.
Samkvæmt 5. mgr. 67. gr.
stjórnarskrárinnar skuli sá sem hafi verið sviptur frelsi að ósekju eiga rétt á
skaðabótum. Í 1. málslið 1. mgr. 175. gr. þágildandi laga um meðferð opinberra
mála komi fram að dæma megi bætur ef rannsókn máls á hendur sakborningi hafi
verið hætt, sbr. nú 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Ljóst sé að þetta skilyrði sé uppfyllt og því heimilt að dæma stefnanda bætur.
Samkvæmt 2. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 skuli bæta fjártjón og miska ef því
sé að skipta.
Í 176. gr. laga nr.
19/1991 segi m.a. að dæma megi bætur vegna handtöku, leitar á manni og annarra
aðgerða sem hafi frelsisskerðingu í för með sér, ef lögmæt skilyrði hafi
brostið til slíkra aðgerða eða ef ekki hafi, eins og á hafi staðið, verið
nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær hafi verið framkvæmdar á óþarflega
hættulegan, særandi eða móðgandi hátt. Stefnandi telji að lögmæt skilyrði hafi
brostið til handtökunnar þann 4. júlí 2009 og gæsluvarðhaldsvistar frá 5. júlí
2007 til 9. júlí 2007 og því beri stefnda að greiða honum bætur. Þá telji
stefnandi lengd vistunartímans hafa verið allt of langan og að það eitt nægi
til þess að hann eigi rétt á skaðabótum úr hendi stefnda, sbr. einkum 1. mgr.
101. gr. og 2. mgr. 105. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra
mála.
Í 2. málslið 1. mgr. 175.
gr. þágildandi laga nr. 19/1991, sbr. nú 2. málslið 2. mgr. 228. gr. laga nr.
88/2008, komi fram sú undantekningarregla að fella megi niður bætur eða lækka
þær ef sakborningur hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi
kröfur sínar á. Stefnandi telji að túlka beri þetta ákvæði þröngt, í ljósi
ákvæðis 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar sem kveði á um að hafi maður verið
sviptur frelsi að ósekju, skuli hann eiga rétt til skaðabóta. Sé sú túlkun
einnig í samræmi við ákvæði 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr.
mannréttindasáttmála Evrópu.
Stefnandi bendir á, að
samkvæmt 2. mgr. 175. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra
mála, sbr. nú 5. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, skuli bæði
bæta fjártjón og miska, en stefnandi krefst miskabóta að fjárhæð 1.000.000
króna.
Auk framangreinds geti
ákvæði b-liðar 26. gr. skaðabótalaga um ólögmæta meingerð gegn æru, valdið því
að réttur til miskabóta stofnist vegna aðgerða stefnda, en þar segi meðal
annars að heimilt sé að láta þann sem af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi
beri ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu manns,
greiða miskabætur til þess sem misgert sé við.
Jafnframt leiði af
meginreglu íslensks skaðabótaréttar að stefndi beri skaðabótaábyrgð í málinu
vegna aðgerða sinna.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi bendir á að
skýrslur hafi verið teknar 5. júlí 2007,
af öðrum þeim sem handteknir höfðu verið á vettvangi. Þeir hafi ýmist
neitað að tjá sig eða ekki viljað kannast við það sem Adam Bjarki hafi skýrt
frá. Sá sem Adam Bjarki hafði nefnt sem hinn gerandann, Einar Ingi Marteinsson,
hafi ekki viljað tjá sig neitt um það sem hann var grunaður um og skýrðist
málið ekki við skýrslugjöf hans.
Með framburði Adams
Bjarka, ástandi hans á vettvangi, framburði Aðalheiðar og símtali frá henni til
lögreglu, sem og ummerkjum á líkama Adams Bjarka, hafi verið fram kominn
rökstuddur grunur um að Adam Bjarki hefði orðið fyrir líkamsárás sem gæti eftir
atvikum varðað við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Hafi verið ljóst að
rökstuddur grunur beindist að því að stefnandi ætti þar hlut að máli.
Hafi verið nauðsynlegt
fyrir lögreglu að handtaka stefnanda, sem og alla aðra í félagsheimili Fáfnis
umrætt sinn, enda ljóst að trúverðugur framburður hafi legið fyrir um
líkamsárás, sem aðstæður á vettvangi hafi rennt stoðum undir. Hafi borið
nauðsyn til að handtaka stefnanda til að hindra áframhaldandi brot, til að
tryggja nærveru hans og til að hindra að hann gæti torveldað rannsókn, en ljóst
hafi verið að hann hafi verið undir rökstuddum grun um að hafa framið brot, sem
gæti sætt ákæru og varðað fangelsisrefsingu. Þá hafi jafnframt verið vafalaust
að ekki hafi verið unnt að ljúka afgreiðslu málsins gagnvart stefnanda, strax á
vettvangi, enda um yfirgripsmikið mál að ræða og aðstæður þannig að ómögulegt
hafi verið að ljúka rannsókn. Hafi atvik á vettvangi um margt verið óljós og
málið augljóslega þurft nánari rannsóknar við. Hafi handtakan þannig verið
lögmæt og í samræmi við heimildir lögreglu til slíkrar valdbeitingar.
Hafi verið ljóst að
rannsaka þyrfti alla þætti málsins þar með talið aðdragandann, sem sneri að
úrsögn Adams Bjarka úr Fáfni, sem og að kanna vitneskju allra hlutaðeigandi í
málinu. Af aðstæðum og framburði Adams Bjarka hafi mátt ráða að ætluð árás
hefði á sér yfirbragð fyrir fram skipulagningar, sem og að allir í
félagsheimilinu hefðu a.m.k. vitað um hana fyrir fram, eða jafnvel tekið þátt í
henni sem vitorðs- eða hlutdeildarmenn. Hafi mat lögreglu verið það að
aðdragandi og aðstæður á vettvangi væru þannig að um væri að ræða mjög
alvarlegt mál.
Með úrskurði Héraðsdóms
Reykjavíkur frá 5. júlí 2007 hafi stefnanda verið gert að sæta gæsluvarðhaldi
til 9. júlí 2007, vegna rannsóknarhagsmuna málsins, en ljóst hafi verið að
héldi stefnandi frelsi sínu óskertu, hefði hann öll tök á því að torvelda
rannsókn málsins, s.s. með því að hafa áhrif á vitni og samseka, koma undan
munum og afmá merki um ætluð brot. Mat héraðsdóms um rannsóknarhagsmuni, og
nauðsyn gæsluvarðhalds á grundvelli þeirra, hafi án vafa verið rétt, að mati
stefnda, burtséð frá því að lögregla hafi krafist gæsluvarðhalds til mun lengri
tíma og jafnframt stutt kröfu sína með vísun til 2. mgr. 103. gr. laga nr.
19/1991.
Stefnandi hafi verið
látinn laus 9. júlí 2007, þegar gæsluvarðhaldið sem hann sætti rann út, en þá
hafi lögregla tekið af honum aðra framburðarskýrslu sama dag. Þar hafi
stefnandi neitað að tjá sig. Eftir það hafi stefnandi verið látinn laus.
Stefndi telji að miðað
við umfang málsins hafi stefnandi verið skamman tíma í gæsluvarðhaldi. Um hafi
verið að ræða alvarlega kæru og málið ekki upplýst nema að litlu leyti þegar
stefnanda hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi. Margir menn hafi legið undir
grun þegar í upphafi og jafnframt meðan á gæsluvarðhaldi hans hafi staðið, en
auk þess hafi þurft að afla frekari gagna, s.s. læknisvottorðs.
Þá telji stefndi að
stefnandi hafi sjálfur valdið og stuðlað að þeim aðgerðum sem hann krefjist
bóta fyrir, bæði með háttsemi sinni gagnvart Adam Bjarka og annarri framkomu á
vettvangi, og jafnframt með því að neita að svara spurningum lögreglu við
skýrslugjöf 5. júlí 2007 og stuðla ekki að því að upplýsa málið með því, en það
hefði átt að vera honum vandræðalaust. Hafi stefnanda mátt vera fullljóst
mikilvægi þess að skýra undanbragðalaust og greinilega frá öllu sem varðað hafi
málið, en það hafi hann ekki gert.
Stefnandi hafi verið
látinn laus um leið og ekki voru lengur efni til þess að halda honum áfram í
gæsluvarðhaldi.
Um hafi verið ræða
alvarlegt brot og nokkra sakborninga sem margir hafi neitað að tjá sig.
Stefnandi hafi ekki rennt stoðum undir að lögregla hafi haldið að sér höndum
við rannsókn málsins og bendir stefndi á að unnið hafi verið að rannsókninni án
nokkurra tafa meðan stefnandi sat í gæsluvarðhaldi. Þá hafi þvingunarráðstafanir
ekki verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.
Stefndi kveður kröfu
stefnanda um greiðslu 1.000.000 króna miskabóta algerlega órökstudda. Fjárhæð
kröfunnar sé í miklu ósamræmi við dómvenju á þessu sviði og það ósamræmi sé í
engu rökstutt.
Stefnandi hafi bæði vísað
til bótareglna þágildandi laga um meðferð opinberra mála sem og sakarreglunnar
og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefndi telji að stefnandi hafi ekki sýnt
fram á að skilyrði neinna bótareglna séu uppfyllt. Gildi það jafnt um
bótareglur laga um meðferð opinberra mála, sem og um skilyrði sakarreglunnar og
sé til að mynda ekki sýnt fram á ólögmæta og saknæma háttsemi starfsmanna
stefnda. Ekki sé heldur sýnt fram á að skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga sé fullnægt, hvað varði
ólögmæta meingerð. Liggi ekki fyrir neitt í málinu um sök starfsmanna stefnda,
en í því sambandi breyti engu að rannsókn málsins hafi ekki leitt til ákæru á
hendur stefnanda. Stefndi telji jafnframt að starfsmenn stefnda hafi gætt
meðalhófs í aðgerðum sínum. Ekki verði séð að sýnt hafi verið fram á að
stefnandi hafi mátt þola andlega þjáningu og miska vegna lögmætra aðgerða
lögreglu í því skyni að upplýsa alvarleg brot.
Stefndi telji því að ekki
séu uppfyllt skilyrði neinna þeirra bótareglna sem stefnandi vísi til, en í því
efni taki stefndi fram að ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála veiti
stefnanda ekki rýmri bótarétt en ákvæði 175. og 176. gr. laga nr. 19/1991.
Niðurstaða
Stefnandi hefur höfðað
mál þetta til greiðslu miskabóta úr hendi ríkisins, annars vegar vegna meintrar
ólögmætrar handtöku hans 4. júlí 2007, og hins vegar vegna meints ólögmæts
gæsluvarðhalds sem stefnandi var látinn sæta frá 5. júlí 2007 til 9. júlí 2007.
Samkvæmt frumskýrslu
lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning frá fjarskiptamiðstöð um að
verið væri að ganga í skrokk á manni í húsnæði vélhjólaklúbbsins Fáfnis að
kvöldi 4. júlí 2007. Tilkynnandi var Aðalheiður Ósk Þorsteinsdóttir, sem kvaðst
hafa hlustað á það í gegnum síma, er manni hennar, Adam Bjarka Ægissyni, var
misþyrmt. Fór lögregla á vettvang og handók stefnanda ásamt öllum þeim sem
staddir voru í húsnæðinu. Fyrir utan húsnæðið hitti lögregla fyrir Adam Bjarka
sem tjáði lögreglu að hann hefði verið laminn af stefnanda. Á Adam Bjarka voru
sjáanlegir áverkar á baki hans og handleggjum, auk þess sem hann var haltur og
mjög skelkaður.
Í áverkavottorði Adams
Bjarka frá 5. júlí 2007, sem Hlynur Þorsteinsson sérfræðingur undirritar, kemur
fram að á líkama hans hafi verið dreifðir yfirborðsáverkar, þar á meðal megi
sjá merki um skóför á tveimur stöðum við herðablöð.
Samkvæmt 176. gr.
þágildandi laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 var heimilt að dæma bætur
vegna handtöku og gæsluvarðhalds auk annarra þvingunaraðgerða sem þar eru
taldar upp. Samkvæmt ákvæðinu er skilyrði greiðslu bóta að brostið hafi lögmæt
skilyrði til slíkrar aðgerðar eða, að ekki hafi verið eins og á stóð, nægilegt
tilefni til slíkra aðgerða eða þær hafa verið framkvæmdar á óþarflega
hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.
Í málinu er fram komið að
er lögregla hitti Adam Bjarka á vettvangi, 4. júlí 2007, voru á honum
sjáanlegir áverkar. Frásögn hans um barsmíðar af hálfu stefnanda og annars
manns, í húsnæði Fáfnis, kom heim og saman við þá tilkynningu sem lögreglu
hafði borist frá konu hans, sem kvaðst hafa hlustað á það er gengið var í
skrokk á honum. Þegar framangreint er virt er hvorki fallist á að handtaka
stefnanda hafi verið tilefnislaus né að lögmæt skilyrði hafi brostið til slíkra
aðgerða. Þvert á móti er það mat dómsins að atvik á vettvangi hafi verið með
þeim hætti að handtaka stefnanda hafi verið nauðsynleg og í samræmi við
heimildir lögreglu til slíkrar valdbeitingar, sbr. 1. mgr. 97. gr. þágildandi
laga nr. 19/1991 um meðferð sakamála.
Með úrskurði Héraðsdóms
Reykjavíkur frá 5. júlí 2007 var stefnanda gert að sæta gæsluvarðhaldi til 9.
júlí 2007. Í forsendum úrskurðarins kemur fram að rökstuddur grunur liggi fyrir
um að kærði, þ.e. stefnandi máls þessa, hafi framið brot sem varðað geti
fangelsisrefsingu samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og var
fallist á að hann sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli 1. mgr. 103. gr. laga nr.
19/1991, vegna rannsóknarhagsmuna. Kvöldinu áður en stefnanda var gert að sæta
gæsluvarðhaldi hafði verið tekin skýrsla af Adam Bjarka hjá lögreglu, en þá
tjáði hann lögreglu að stefnandi hefði umrætt sinn ráðist á sig í félagi við
annan mann í húsnæði Fáfnis. Hann hefði ítrekað sparkað í sig og að lokum hefði
hann náð í járnrör og slegið hann með því, mest í bakið. Í skýrslu, sem
Aðalheiður Ósk Þorsteinsdóttir gaf hjá lögreglu 5. júlí 2007, kom fram að Adam
Bjarki hefði stillt símann sinn þannig að hann þyrfti einungis að ýta á einn
takka til að ná símasambandi við hana, áður en hann fór til fundar við
Fáfnismenn að kvöldi 4. júlí, þar sem hann hefði grunað að eitthvað stæði til.
Síminn hefði svo hringt um sjöleytið og hefði hún heyrt að verið var að ganga í
skrokk á Adam Bjarka. Þá hefði hún þekkt rödd stefnanda við þessar aðfarir.
Stefnandi var yfirheyrður
hjá lögreglu 5. júlí 2007. Hann kvaðst ekki geta gefið neina skýringu á því að
Adam Bjarki hefði kært hann og Einar Inga Marteinsson fyrir líkamsárás og kvað
engan hafa gengið í skrokk á Adam Bjarka. Hann kvaðst vera ,,saklaus í þessu
máli“. Þá voru teknar skýrslur af öðrum sem handteknir voru þennan dag í
húsnæði Fáfnis. Þeir ýmist neituðu að tjá sig, eða könnuðust ekki við það sem
Adam Bjarki hafði tjáð lögreglu. Lögregla aflaði úrskurðar um símasamskipti 6.
júlí 2007 og vann að rannsókn á skófatnaði stefnanda og samanburði á skóm hans
og skóförum á baki Adams Bjarka. Þá var gerður samanburður á sári Adams Bjarka
á upphandlegg hans og á járnröri sem lagt var hald á í húsnæðinu þar sem
stefnandi var
handtekinn. Í skýrslu tæknideildar
lögreglu kemur fram að samanburður á skófatnaði stefnanda og skóförum á baki
Adams Bjarka sýni að áverkar hans gætu hafa stafað frá skóm sömu gerðar og
stefnandi var í er hann var handtekinn. Skýrsla tæknideildar er dagsett 9. júlí
2007.
Er stefnandi var
handtekinn, og gert að sæta gæsluvarðhaldi í fjóra daga, var hann grunaður um
að hafa í félagi við annan mann gerst sekur um líkamsárás, og að hafa við þá
árás m.a. notað járnrör. Þannig gat verknaður sá sem stefnandi var grunaður um,
varðað við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Unnið var að rannsókn
málsins á þeim tíma sem stefnandi sat í gæsluvarðhaldi, aðrir grunaðir voru
yfirheyrðir og tæknideild lögreglu vann að rannsókn, sem gerð er grein fyrir í
skýrslu hennar 9. júlí 2007. Stefnandi var svo leystur úr haldi þann dag.
Stefnandi gerði hins
vegar ekkert til þess að upplýsa málið eða auðvelda rannsókn þess. Að áliti
dómsins voru í ljósi framangreinds á þessu stigi málsins uppfyllt skilyrði
a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til þess að stefnanda yrði gert að
sæta gæsluvarðhaldi þann tíma sem það varði. Verður því ekki fallist á að
stefnandi eigi rétt á bótum á grundvelli 176. gr. þágildandi laga nr. 19/1991,
enda lítur dómurinn svo á að stefnandi hafi sjálfur stuðlað að þeim aðgerðum
sem hann reisir kröfur sínar á, sbr. a-lið 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991. Nægilegt tilefni var til þess að
úrskurða stefnanda í gæsluvarðhald og hefur ekki verið sýnt fram á að handtaka
stefnanda og gæsluvarðhald hafi verið framkvæmd á óþarflega særandi, móðgandi
eða hættulegan hátt.
Með vísan til þess sem að
framan er rakið, fellst dómurinn ekki heldur á að skilyrði séu í málinu til
þess að fella bótaábyrgð á hendur stefnda á grundvelli almennu sakarreglunnar
eða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga. Breytir þar engu um að rannsókn málsins
hafi ekki leitt til ákæru á hendur stefnanda.
Stefnandi hefur vísað til
5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, með áorðnum breytingum kröfum sínum til
stuðnings, en eins og ítrekað hefur komið fram í dómum Hæstaréttar veitir
umrætt bótaákvæði ekki ríkari rétt en reglur XXI. kafla laga nr. 91/1991 mæltu
fyrir um.
Samkvæmt framangreindu
verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt
að málskostnaður falli niður milli aðila.
Stefnandi nýtur
gjafsóknar í máli þessu samkvæmt gjafsóknarleyfi frá 26. ágúst 2009.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hans, Arnar Kormáks
Friðrikssonar héraðsdómslögmanns, og ákveðst 450.000 krónur, að meðtöldum
virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Ingveldur Einarsdóttir
héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
DÓMSORÐ:
Stefndi, íslenska ríkið
er sýknað af kröfu stefnanda, Sigmundar Geirs Helgasonar.
Málskostnaður fellur
niður.
Gjafsóknarkostnaður
stefnanda, 450.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.