Print

Mál nr. 694/2015

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

                                     

Miðvikudaginn 14. október 2015.

Nr. 694/2015.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi

(Margrét Harpa Garðarsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Snorri Sturluson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. október 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. október 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 23. október 2015 klukkan 15 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Krafa sóknaraðila um frávísun málsins frá Hæstarétti er byggð á því að í kæru varnaraðila sé ekki tilgreint á hvaða ástæðum kæran sé reist, sbr. 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Á þetta verður ekki fallist, enda er nægjanlega tilgreint í kærunni að hún sé reist á því að rannsóknarhagsmunir séu ekki fyrir hendi, sbr. a. lið 1. mgr. 95. gr. sömu laga. Af þessum sökum verður frávísunarkröfunni hafnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. október 2015.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur gert þá kröfu að X, kt. [...], til lögheimilis að [...],[...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 allt fram til kl. 15:00 föstudaginn 23. október nk.

                Þess er krafist að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu.

                Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað.

                Í greinargerð lögreglu segir að með vísan til fyrirliggjandi gagna sé kærði undir rökstuddum grun um að hafa átt aðild að a.m.k. ellefu lögreglumálum sem séu til rannsóknar hjá embætti lögreglustjórans á Suðurlandi, á tímabili sem hafi hafist eftir miðnætti aðfaranótt þess 8. október sl. og staðið fram til þess að lögregla handtók kærða upp úr hádegi þann sama dag, í gær.

                Er kærði hafi verið handtekinn í gærdag, ásamt samferðamanni sínum, hafi þeir verið staddir í bifreiðinni [...], við Systrakaffi á Kirkjubæjarklaustri. Í bifreiðinni hafi fundist nokkurt magn þýfis, sem strax hafi reynst mögulegt að tengja að einhverju leyti við einstök mál er komið höfðu upp fyrr þann sama dag og sem séu jafnframt til rannsóknar hjá embætti lögreglustjórans á Suðurlandi. Við eftirgrennslan lögreglu hafi komið í ljós að umrædd bifreið hafi verið tilkynnt stolin fyrr þennan sama dag, og sé kærði þ.a.l. grunaður í því máli líka (007-[...]).

                Skömmu eftir handtöku kærða og samferðamanna hans hafi stúlka verið handtekin í sumarhúsi að [...] í Skaftárhreppi. Í sumarhúsinu hafi verið að finna nokkurt magn þýfis, sem strax hafi reynst mögulegt að tengja að einhverju leyti við einstök mál er komið höfðu upp fyrr þann sama dag, og sem séu líka til rannsóknar hjá embætti lögreglustjórans á Suðurlandi. Tvö vitni hafi borið um að þeir hafi að morgni þess 8. október séð pallbifreið af gerðinni [...] fyrir utan umrætt sumarhús, sem framangreind stúlka hafi fundist sofandi í er lögregla kom á vettvang í umrætt sinn. Þá hafi tveir karlmenn verið á gangi umhverfis bifreiðina. Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að um sé að ræða bifreið sömu tegundar og svipað hafi að öðru leyti til þeirrar bifreiðar sem kærði hafi ásamt samferðamanni sínum verið handtekinn í. Þá hafi vitnin upplýst um að á palli bifreiðarinnar hafi verið mikið magn muna, sem hafi samræmst því hvernig aðkoma lögreglu hafi verið að bifreiðinni umrætt sinn.

                Umrædd mál sem nú þegar séu til rannsóknar hjá lögreglu, og kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa átt aðild að, séu eftirfarandi: 007-2015-58139, 318-2015-11540, 318-2015-11541, 318-2015-11542, 318-2015-11543, 318-2015-11544, 318-2015-11550, 318-2015-11552, 318-2015-11560, 318-2015- ?, 318-2015- ?. Þá séu lögreglu ennþá að berast upplýsingar um mál sem kærði kunni að tengjast, enda mjög skammt liðið frá því að ætluð brotahrina kærða hafi hafist og nýjar upplýsingar stöðugt að koma fram, bæði utan að og við rannsókn.

                Lögregla vinni nú hörðum höndum við að upplýsa framangreind mál, en rannsókn þeirra allra sé eðlilega á algjöru frumstigi. Um sé að ræða yfirgripsmikla rannsókn, enda brotavettvangar víða, mikið magn þýfis hafi fundist í fórum kærða og grunaðra samverkamanna sem ennþá eigi eftir að rannsaka frekar, skrá og tengja við ólíka brotavettvanga, vitni eigi eftir að yfirheyra, rannsaka þurfi hlut hvers og eins grunuðu í ætluðum brotum, auk þess sem lögreglu séu ennþá að berast upplýsingar um brot sem ætla megi að kærði og samferðamenn hans eigi aðild að. Þá megi gera ráð fyrir að upplýsingar um slíkt haldi áfram að berast lögreglu eftir því sem líður á helgina, enda sé alls ekki útilokað að kærðu hafi farið á fleiri staði þ.á m. sumarhús, sem ekki hafi ekki verið tilkynnt til lögreglu enda hafi húsráðendur ekki uppgötvað það ennþá. Teknar hafi verið myndir af ætluðu þýfi og rituð um það skýrsla, en um sé að ræða mikið magn ætlaðs þýfis, sem lögreglu hafi ennþá ekki unnist tími til þess að útbúa munaskrá vegna. Þá séu fyrir hendi augljósir rannsóknarhagsmunir kærða og samferðamanna hans að bera sig saman, en eins og mál þetta liggi fyrir sé ekki mögulegt að gera upp á milli þátttöku einstakra aðila í málunum. Öll eigi þau nokkurn sakaferil að baki og eigi ólokin mál í lögreglukerfinu.

                Ekki hafi reynst unnt að taka skýrslu af kærða og samferðamönnum hans fyrr en um hádegi í dag, sökum þess að þau hafi öll verið undir miklum vímuefnaáhrifum. Í stuttri skýrslutöku af kærða hafi hann alfarið neitað sök og kvaðst ekkert kannast við þau brot sem hann sé grunaður um að eiga aðild að. Þá hafi hann haft afar ótrúverðugar skýringar á tilkomu þeirrar bifreiðar sem hann hafi verið farþegi í er hann var handtekinn umrætt sinn.

                Með vísan til langs sakaferils kærða og fyrirliggjandi gagna um ætluð brot sé það mat lögreglustjóra að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing sé lögð við, að hann muni næst hljóta óskilorðsbundinn dóm. Þá sé til þess að líta að kærði hafi fengið reynslulausn í febrúar síðastliðnum, vegna dóms er hann hlaut í september 2014 og hafi að hluta til lokið afplánun á.

                Með vísan til framangreinds, fyrirliggjandi gagna og tilvísaðra rannsóknarhagsmuna, svo og með vísan til a.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sé þess farið á leit að framangreind krafa um gæsluvarðhald nái fram að ganga. Nái krafa þessi fram að ganga sé þess óskað að varnaraðila verði gert með úrskurði að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Forsendur og niðurstaða

                Samkvæmt því sem að framan greinir og að virtum rannsóknargögnum verður fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um auðgunarbrot skv. XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, í framangreindum málum lögreglu, en við brotum sem hann er grunaður um liggur allt að 6 ára fangelsi samkvæmt nefndum ákvæðum.

                Rannsókn málanna er skammt á veg komin og ljóst að mati dómsins að kærði geti torveldað rannsókn málanna, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni, haldi hann frelsi sínu, en af því hefur hann augljósa hagsmuni sé hann sekur um þau brot sem hann er grunaður um, en hann neitar sök. Er þannig fullnægt skilyrðum a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þá þykir ekki vera sýnt að kærða verði aðeins gerð fésektarrefsing eða skilorðsbundin fangelsisrefsing miðað við aðstæður, verði hann fundinn sekur um þau brot sem hann er grunaður um, sbr. 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

                Frá því að kærði var handtekinn liðu meira en 24 klukkustundir uns hann var leiddur fyrir dómara. Sá dráttur sem á því varð þykir þó hafa verið nægilega réttlættur af hálfu lögreglustjóra en vísað hefur verið til þess að ástand kærða hafi verið á þann veg að ekki hafi verið unnt að taka af honum skýrslu fyrr, en drátturinn var ekki umfram þau tímamörk sem getið er í niðurlagsákvæði 94. gr. laga nr. 88/2008. Kærði hefur vísað til þess að honum hafi ekki verið birt upplýsingablað fyrir handtekna menn frá Innanríkisráðuneytinu. Ekki getur þetta komið í veg fyrir að krafa lögreglustjóra nái fram að ganga.

                Ber því að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og krafist er, en kröfunni þykir í hóf stillt.

                Að virtum rannsóknarhagsmunum ber að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu skv. 2. mgr. 98. gr. og b lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

                Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 23. október 2015 kl. 15.00.

Kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu.