- Kærumál
- Skipulag
- Stjórnsýsla
- Kröfugerð
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
Mánudaginn 23. ágúst 2010. |
Nr. 415/2010. |
Þórir J. Einarsson ehf. (Guðbjarni Eggertsson hdl.) gegn Reykjavíkurborg (Gunnar Eydal hrl.) |
Kærumál. Skipulag. Stjórnsýsla. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli Þ ehf. gegn Reykjavíkurborg var vísað frá dómi án kröfu. Í málinu krafðist Þ ehf. þess að felld yrði úr gildi samþykkt borgarráðs um samþykki varðandi losunarstað á H fyrir jarðvegsefni og að viðurkennt yrði að jarðvegslosun á H, á grundvelli samþykkis borgarráðs, væri ólögmæt. Þá krafðist hann þess að Reykjavíkurborg yrði gert skylt að viðlögðum dagsektum að stöðva jarðvegslosun á H og að viðurkennd yrði skaðabótaskylda vegna losunarinnar. Þ ehf. byggði m.a. á því að héraðsdómari hafi hafnað kröfu um frávísun með úrskurði 15. janúar 2010. Talið var að þar sem hinn kærði úrskurður hafi einkum verið reistur á því að forsendur hafi breyst vegna breytinga á deiliskipulagi hafi héraðsdómari við þær aðstæður ekki verið bundinn af fyrri úrskurði, sbr. 3. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991. Fallist var á með Þ ehf. að nýtt deiliskipulag væri reist á þeirri forsendu að fyrri ákvarðanir um losunarsvæði og magn hafi verið gildar. Þ ehf. hafi því lögvarða hagsmuni af því að fá efnisúrlausn um kröfu sína um að felld verði úr gildi samþykkt borgarráðs um losunarstað fyrir jarðvegsefni á H og kröfu sína um að Reykjavíkurborg yrði að viðlögðum dagsektum skylt að stöðva jarðvegslosun á H. Krafa Þ ehf. um að viðurkennt yrði að jarðvegslosun á H væri ólögmæt væri ekki sjálfstæð krafa heldur forsenda fyrir fyrstu kröfu hans. Skorti hann því lögvarða hagsmuni af því að fá sjálfstæða úrlausn um hana. Þá var fallist á með héraðsdómi að Þ ehf. hafi ekki reifað nægilega í héraðsstefnu í hverju ætlað tjón hans felist, hver skaðabótagrundvöllurinn væri og hvers vegna og tengsl ætlaðrar bótaskyldrar háttsemi Reykjavíkurborgar og tjóns hans. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi að því er varðaði frávísun á fyrstu og þriðju kröfu Þ ehf. en staðfestur að því er snerti frávísun á annarri og fjórðu kröfu hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Málavextir eru raktir í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram keypti sóknaraðili landskika á Hólmsheiði 9. september 2005. Kröfur í málinu reisir hann á atvikum er lúta að samþykkt borgarráðs 3. apríl 2001 um losunarstað fyrir jarðvegsefni á Hólmsheiði skammt frá landskika hans. Í fundargerð borgarráðs um framangreinda samþykkt segir svo: ,,Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 26. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 28. s.m. varðandi losunarstað á Hólmsheiði fyrir jarðvegsefni og auglýsingu að breyttu deiliskipulagi. Jafnframt lagt fram bréf embættis borgarverkfræðings frá 30. f.m. vegna málsins. Samþykkt.“
Í tilvitnuðu bréfi borgarverkfræðings kemur fram að lagt sé til við borgarráð að opnaður verði nýr losunarstaður fyrir jarðefni á Hólmsheiði og að heimilt verði að losa 100.000 m³ jarðefnis ,,samhliða því sem unnið verður að áætlun um mótun svæðisins. Áætlunin verði tilbúin 1. maí n.k. Gert er ráð fyrir allt að 1.5 milljón rúmmetrar rúmist á svæðinu.“ Losunarsvæðið var afmarkað í uppdrætti sem mun hafa fylgt bréfi gatnamálastjóra 6. mars 2001 er lagt var fyrir borgarráð. Jarðvegslosun mun hafa hafist í kjölfar samþykktar borgarráðs. Ekki kemur fram í samþykktinni hver stærð losunarsvæðisins skyldi vera en af gögnum málsins má ráða að það hafi verið 20 hektarar.
Borgarráð samþykkti 15. nóvember 2007 breytingu á deiliskipulagi á hluta Hólmsheiðar, sem meðal annars fól í sér stækkun á losunarsvæðinu um 12 hektara og að auka mætti magn þess jarðvegs sem heimilt væri að losa um 2.5 milljónir m³. Auglýsing um breytt deiliskipulag fyrir hluta Hólmsheiðar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 29. nóvember 2007. Nokkru síðar var gefið út framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar í samræmi við breytinguna. Sóknaraðili kærði framangreinda ákvörðun borgarráðs, 15. nóvember 2007, og eftirfarandi samþykkt skipulagsráðs varnaraðila um að veita framkvæmdaleyfi, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Úrskurðarnefndin felldi báðar samþykktirnar úr gildi 24. júlí 2008 þar sem deiliskipulagið, eins og því var breytt í nóvember 2007, samrýmdist ekki gildandi svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 og gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur fyrir sama tímabil um landnotkun á þessum hluta Hólmsheiðar.
Í kjölfar úrskurðanna hófst varnaraðili handa um að fá samþykktar breytingar á framangreindu svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Reykjavíkur. Umhverfisráðherra auglýsti 23. febrúar 2010 slíkar breytingar. Borgarráð samþykkti 25. mars 2010 tillögu að deiliskipulagi á Hólmsheiði vegna afmörkunar á svæði til jarðvegsfyllingar og var hún birt í B-deild Stjórnartíðinda skömmu síðar. Nýtt framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði var gefið út af skipulagsstjóra varnaraðila 12. maí 2010.
II
Kröfur sóknaraðila fyrir héraðsdómi voru í fyrsta lagi að felld yrði úr gildi samþykkt borgarráðs 3. apríl 2001 um samþykki varðandi losunarstað á Hólmsheiði fyrir jarðvegsefni, í öðru lagi að viðurkennt verði að jarðvegslosun á Hólmsheiði á grundvelli samþykktarinnar sé ólögmæt, í þriðja lagi að varnaraðila verði gert skylt að viðlögðum 50.000 króna dagsektum frá dómsuppsögu er renni til sóknaraðila að stöðva jarðvegslosun á Hólmsheiði og í fjórða lagi að viðurkennd verði skaðabótaskylda varnaraðila vegna jarðvegslosunar á Hólmsheiði.
Niðurstaða héraðsdóms um að vísa málinu frá dómi án kröfu er einkum á því reist að sóknaraðili hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um fyrstu og þriðju kröfu sína vegna þess að með ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi á árinu 2010, eftir að málið var höfðað í héraði, hafi ákvörðun borgarráðs 3. apríl 2001 verið felld úr gildi. Frávísun annarrar og fjórðu kröfu sóknaraðila er reist á öðrum forsendum.
Sóknaraðili reisir kröfur sínar, um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, í fyrsta lagi á því að þar sem héraðsdómari hafi hafnað kröfu varnaraðila um frávísun málsins í úrskurði 15. janúar 2010 hafi hann ekki mátt vísa málinu frá dómi, eins og gert sé með hinum kærða úrskurði, en fyrri úrskurðurinn er að mati sóknaraðila reistur á sömu sjónarmiðum og til umfjöllunar eru í hinum kærða úrskurði. Hafi héraðsdómari ekki skýrt það sem sóknaraðili telur vera breytta afstöðu til þess hvort málið hafi verið vanreifað af hálfu sóknaraðila fyrir héraðsdómi. Svo sem áður greinir er hinn kærði úrskurður einkum reistur á því að forsendur hafi breyst vegna breytinga á deiliskipulagi sem auglýstar voru í mars 2010 og framkvæmdaleyfis sem veitt var í kjölfar þeirra. Héraðsdómari var við þær aðstæður ekki bundinn af fyrri úrskurði, sbr. 3. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991.
Sóknaraðili reisir kröfu sína um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi í öðru lagi á því, að forsendur deiliskipulagsins sem samþykkt var af borgarráði 25. mars 2010 séu þær að hið nýja deiliskipulag miði við að losunarsvæði jarðvegs á Hólmsheiði verði stækkað og sé það því reist á þeim grundvelli að samþykkt borgarráðs 3. apríl 2001 sé gild. Losunarsvæðið samkvæmt hinu nýja deiliskipulagi sé því viðauki við það sem áður var ákveðið. Þannig segi í forsendum deiliskipulagsins 25. mars 2010 meðal annars: ,,Jarðvegsfylling. Fyrirliggjandi samþykkt um losun á jarðvegi gerði ráð fyrir 1.5 milljón m³ á 20 ha. Tillaga að deiliskipulagi fyrir svæðið gerir ráð fyrir stækkun á svæðinu í 32 ha og viðbótarmagn til losunar verði 2.5 milljónir m³ umfram þá 1.2 milljón m³ sem áætlað er að hafi verið fluttir á svæðið.“
Fallist er á með sóknaraðila að deiliskipulagið sem samþykkt var í borgarráði 25. mars 2010 hafi verið reist á þeirri forsendu að með því hafi verið aukið 12 hekturum lands við það 20 hektara losunarsvæði, sem ákveðið var með samþykkt borgarráðs 3. apríl 2001 og gert ráð fyrir að magn losunarefna mætti auka frá því sem ákveðið var 2001. Hið nýja deiliskipulag er því reist á þeirri forsendu að fyrri ákvarðanir um losunarsvæði og magn hafi verið gildar. Samkvæmt þessu hefur sóknaraðili lögvarða hagsmuni af því að fá efnisúrlausn um kröfu sína um að felld verði úr gildi samþykkt borgarráðs 3. apríl 2001 um losunarstað fyrir jarðvegsefni á Hólmsheiði og kröfu sína um að varnaraðila verði að viðlögðum dagsektum skylt að stöðva jarðvegslosun á Hólmsheiði.
Önnur krafa sóknaraðila um að viðurkennt verði að jarðvegslosun á Hólmsheiði sé ólögmæt er ekki sjálfstæð krafa heldur forsenda fyrir fyrstu kröfu hans. Skortir hann því lögvarða hagsmuni af því að fá sjálfstæða úrlausn um hana og verður fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að vísa þeirri kröfu frá héraðsdómi. Jafnframt er fallist á með héraðsdómi að sóknaraðili hafi ekki reifað nægilega í héraðsstefnu í hverju ætlað tjón hans felst, hver skaðabótagrundvöllurinn sé og hvers vegna og tengsl ætlaðrar bótaskyldrar háttsemi varnaraðila og tjóns sóknaraðila. Verður því staðfest frávísun héraðsdóms á fjórðu kröfu sóknaraðila.
Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður úr gildi felldur um frávísun á fyrstu og þriðju kröfu sóknaraðila en staðfestur að því er snertir frávísun á annarri og fjórðu kröfu hans.
Varnaraðili greiði sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi um frávísun á kröfum sóknaraðila, Þóris J. Einarssonar ehf., um að felld verði úr gildi samþykkt borgarráðs 3. apríl 2001 um samþykki varðandi losunarstað á Hólmsheiði fyrir jarðvegsefni og að varnaraðila, Reykjavíkurborg, verði skylt að stöðva jarðvegslosun á Hólmsheiði að viðlögum 50.000 króna dagsektum frá dómsuppsögu er renni til sóknaraðila. Lagt er fyrir héraðsdómara að taka þessar kröfur sóknaraðila til efnismeðferðar.
Úrskurðurinn er staðfestur um frávísun á kröfum sóknaraðila um að viðurkennt verði að jarðvegslosun á Hólmsheiði á grundvelli samþykktar borgarráðs 3. apríl 2001 sé ólögmæt og um að viðurkennd verði skaðabótaskylda varnaraðila vegna jarðvegslosunar á Hólmsheiði.
Varnaraðili greiði sóknaraðila kærumálskostnað, 200.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2010.
I
Mál þetta var höfðað 27. maí 2009 og dómtekið 14. maí 2010. Stefnandi er Þórir J. Einarsson ehf., Skaftahlíð 38, Reykjavík, en stefndi er Reykjavíkurborg, Ráðhúsinu við Tjarnargötu, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru að felld verði úr gildi samþykkt borgarráðs, dagsett 3. apríl 2001, um samþykki varðandi losunarstað á Hólmsheiði fyrir jarðvegsefni og að viðurkennt verði að jarðvegslosun á Hólmsheiði, á grundvelli samþykkis borgarráðs hinn 3. apríl 2001, sé ólögmæt. Þá er þess krafist að stefndu verði gert skylt að viðlögðum 50.000 króna dagsektum frá dómsuppsögu, er renni til stefnanda, að stöðva jarðvegslosun á Hólmsheiði. Loks er gerð sú krafa að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna jarðvegslosunar á Hólmsheiði. Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum málskostnað.
Dómkröfur stefnda eru hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi þess að stefananda verði gert að greiða honum málskostnað.
II
Málavextir eru þeir helstir að stefnandi er eigandi lóðar á Hólmsheiði nánar tiltekið landnúmer 113435 og fastanúmer 205-7541 en lóðina ásamt sumarhúsi keypti hann með kaupsamningi 9. september 2005. Hafa aðilar staðið í deilum vegna losunar jarðvegs á vegum stefnda í nágrenni við landsspildu stefnanda.
Með bréfi, dagsettu 6. mars 2001, beindi gatnamálastjóri erindi til skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur um að nýta jarðveg sem til félli í borgarlandinu til landmótunar á Hólmsheiði. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 28. mars 2001 var staðsetning losunarsvæðisins samþykkt og málinu vísað til borgarráðs. Með bréfi borgarverkfræðings til borgarráðs hinn 30. mars 2001 var lagt til að opnaður yrði nýr losunarstaður fyrir jarðefni á Hólmsheiði. Samkvæmt fundargerð borgarráðs frá 3. apríl 2001 var meðal annars bókað:
„Lagt er fram bréf skipulagsstjóra frá 26. f.m., sbr. samþykkt skipulags- og byggingarnefndar 28. s.m. varðandi losunarstað á Hólmsheiði fyrir jarðvegsefni og auglýsingu að breyttu deiliskipulagi. Jafnframt lagt fram bréf embættis borgarverkfræðings frá 30. f.m. vegna málsins. Samþykkt.“
Í kjölfar framangreindrar afgreiðslu borgarráðs hófst jarðvegslosun og landmótun á Hólmsheiðarsvæðinu. Sex árum síðar taldi stefndi fyrirsjáanlegt að þörf væri fyrir stækkun losunarsvæðisins og hófst hann handa við að vinna deiliskipulag fyrir svæðið sem gerði ráð fyrir að losunarstaðurinn yrði stækkaður. Hinn 13. júlí 2007 tók skipulagsráð Reykjavíkur fyrir tillögu að deiliskipulagi hluta Hólmsheiðar. Var um að ræða 12 ha stækkun til suðurs á svæði því er áður hafði verið deiliskipulagt vegna jarðvegsfyllingar og yrði heimilað að urða 2,5 milljónir m³ jarðvegs til viðbótar. Á fundi ráðsins 7. nóvember 2007 var tillagan lögð fram og samþykkt með breytingum. Afgreiðsla skipulagsráðs var staðfest á fundi borgarráðs 15. nóvember 2007. Samþykkti skipulagsráð Reykjavíkur hinn 16. apríl 2008 að gefa út framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði og var það gefið út hinn 17. apríl 2008. Stefnandi kærði framangreinda afgreiðslu ráðsins til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Með úrskurði uppkveðnum 24. júlí 2008 feldi úrskurðarnefndin ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 15. nóvember 2007 úr gildi þar sem hún samrýmdist ekki ákvæðum 2. mgr. 23. gr. og 7. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Var hið kærða deiliskipulag ekki talið samrýmast ákvæðum svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og gildandi aðalskipulags Reykjavíkur um landnotkun. Sama dag felldi úrskurðarnefndin útgefið framkvæmdaleyfi úr gildi þar sem með vísan til niðurfellingar deiliskipulags ætti leyfið ekki stoð í skipulagi, sbr. 4. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Stefndi kveðst hafa verið ósammála niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar en þar sem svo langan tíma tæki að reka mál til ógildingar hafi hann hafist handa við að vinna endurskoðaða tillögu að deiliskipulagi svæðisins samhliða breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 ásamt samsvarandi breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur 19. ágúst 2009 var tillögum að breytingu á svæðis- og aðalskipulagi og deiliskipulagstillögu vísað til borgarráðs sem samþykkti erindin á fundi sínum 27. ágúst 2009. Telur stefndi að með þessum tillögum hafi verið komið til móts við fyrrgreinda niðurstöðu úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.
Umhverfisráðherra auglýsti hinn 23. febrúar 2010 breytingar á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024, „græni trefillinn“, Reykjavíkurborg, Mosfellsbær, Kópavogsbær, Garðabær og Hafnarfjarðarkaupstaður. Sama dag auglýsti umhverfisráðherra breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, Hólmsheiði („græni trefillinn“)-losunarstaður jarðvegs. Með bréfi 16. apríl 2010 skoraði stefnandi á umhverfisráðherra að afturkalla framangreindar stjórnvaldsákvarðanir sínar 23. febrúar 2010.
Á fundi sínum 25. mars 2010 samþykkti borgarráð tillögu að deiliskipulagi á Hólmsheiði vegna afmörkunar á svæði til jarðvegsfyllingar. Með auglýsingu um nýtt deiliskipulag og breytingar á deiliskipulagi í Reykjavíkurborg 25. mars 2010 tilkynnti skipulagsstjóri Reykjavíkurborgar að í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 hafi borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkt deiliskipulag fyrir Hólmsheiði vegna afmörkunar á svæði til jarðvegsfyllingar fyrir tímabundna losun á ómenguðum jarðvegi og að skipulagið öðlist þegar gildi. Stefnandi hefur með bréfi 5. maí 2010 kært þessa ákvörðun borgarráðs til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingamála.
Hinn 12. maí 2010 samþykkti skipulagsráð Reykjavíkur að gefa út framkvæmdaleyfi til jarðvegslosunar á Hólmsheiði og var framkvæmdaleyfið gefið út sama dag.
Stefndi krafðist þess í upphafi aðallega að máli þessu yrði vísað frá dómi en með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2010 var þeirri kröfu hafnað.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að málsmeðferð við samþykki borgarráðs hinn 3. apríl 2001 fyrir losunarstað á Hólmsheiði fyrir jarðvegsefni hafi ekki verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og/eða skipulagsreglugerðar hvað framsetningu slíkra skipulagsbreytinga varðar eða í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga. Ekki hafi verið lögð fram deiliskipulagstillaga til synjunar eða samþykktar og hún svo auglýst í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga. Brjóti þessi málsmeðferð gegn þeirri meginreglu að við gerð skipulagsáætlana skuli tryggja samráð við þá sem hagsmuna eigi að gæta, sbr. 4. mgr. 9. gr. laganna og grein 3.2. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Efnisinnihald samþykkisskilmálanna sé óskýrt meðal annars hvað varði samþykkta stærð svæðisins, skilyrði þess og magn jarðvegs sem heimilað sé til losunar. Telji stefnandi að samþykki borgaráðs frá árinu 2001 samræmist á engan hátt þeim kröfum sem gera verði til skýrleika slíkra skipulagsákvarðana, meðal annars varðandi kynningu og/eða auglýsingu þess og skýrleika stjórnvaldsákvarðana almennt. Samþykki borgarráðs sé því ólögmætt, bæði vegna efnis- og formannmarka sem á því sé. Þá séu málsmeðferðarreglur skipulags- og byggingarlaga, meðal annars hvað varði andmælarétt, virtar að vettugi en brot á andmælarétti í stjórnsýslunni, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, leiði undantekningalítið til ógildingar ákvörðunar og þá feli brot á andmælarétti einnig í sér brot á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. gr. laganna.
Þá byggi stefnandi auk þess á því að sú jarðvegslosun sem farið hafi fram á Hólmsheiði á vegum stefnda og fyrir tilstuðlan hans fari í bága við aðalskipulag Reykjavíkur 1996-2016 og 2001-2024, skipulags- og byggingarlög ásamt skipulagsreglugerð. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 73/1997 sé landið allt skipulagsskylt. Bygging húsa og annarra mannvirkja ofan jarðar og neðan og aðrar framkvæmdir og aðgerðir sem hafi áhrif á umhverfið og breyti ásýnd þess skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. ákvæði 43. gr. laganna um veitingu byggingarleyfis og ákvæði 27. gr. um veitingu framkvæmdaleyfis. Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skuli gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar. Jafnframt segi í 7. mgr. 9. gr. sömu laga að svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir skuli vera í samræmi innbyrðis. Með vísan í framanritað sé ljóst að fyrrgreind ákvæði séu ekki uppfyllt þar sem ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir svæðið og ekkert deiliskipulag hafi verið lagt til grundvallar samþykki borgarráðs frá árinu 2001. Þá segi í 27. gr. sömu laga að meiri háttar framkvæmdir, sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi eða efnistöku, skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum þar sem það eigi við. Óheimilt sé að hefja slíkar framkvæmdir sem ekki séu háðar byggingarleyfi samkvæmt IV. kafla fyrr en að fengnu framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarfélags. Sé alveg ljóst að þær framkvæmdir, sem tengist jarðvegslosun á Hólmsheiði, falli undir ákvæði 27. gr. um framkvæmdaleyfi enda séu þær meiri háttar og feli í sér umtalsverða breytingu á ásýnd landsins. Þá hafi ekkert framkvæmdaleyfi verið gefið út vegna framkvæmdanna. Með vísan til 7. mgr. 9. gr. og 27. gr. skipulags- og byggingarlaga séu jarðvegslosanir stefnda efnislega ólögmætar.
Helsta málsástæða stefnda hafi verið að jarðvegslosun á Hólmsheiði rúmist innan landnotkunarheimilda í aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2001. Þessum fullyrðingum hafi stefnandi hafnað og hafi bæði úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og skipulagsstofnun verið honum sammála. Í aðalskipulagi Reykjavíkur sé umrætt svæði skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota og segi þar að á slíkum svæðum sé gert ráð fyrir útivistariðkun af ýmsum toga og mannvirkjagerð í tengslum við útivistarnotkun á svæðinu, sbr. bls. 28 í aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016. Jafnframt sé svæðið innan hins svonefnda græna trefils en í greinargerð með svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sé græni trefillinn skilgreindur sem skipulagt útivistarsvæði þar sem skiptist á skógur og opin svæði. Segi þar að litið sé á græna trefilinn sem frístundarsvæði þar sem lögð sé áhersla á gott aðgengi. Meginreglan sé að þar skuli ekki reisa byggð nema í sérstökum tilgangi og á völdum stöðum.
Nánar sé gerð grein fyrir landnotkun umrædds svæðis, bæði í greinargerð svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulags Reykjavíkur og sé áhersla þar lögð á að svæðið sé til skógræktar og útivistar og þröngar skorður reistar við annars konar landnotkun. Þá séu Hólmsheiði og Reynisvatnsheiði svæði sem falli undir almenna borgarvernd samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 en þau svæði og byggð hafi borgarstjórn samþykkt að vernda vegna náttúru, umhverfis, útivistar eða menningarsögulegs og listræns gildis, sbr. bls. 84 í aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2019. Þá segi að í einstaka tilfellum geti borgarstjórn leyft vissa starfsemi eða framkvæmdir sem tengist eðli og hlutverki svæðanna og séu í þágu almennings. Allar stærri framkvæmdir eða breytingar á afmörkun svæðanna verði deiliskipulagðar og tillögurnar kynntar samkvæmt skipulagsreglugerð.
Jarðvegslosun sú sem hafi átt sér stað á svæðinu sé umfangsmikil starfsemi. Hafi hún nú varað í 7 ár og með deiliskipulagstillögunni, sem felld hafi verið úr gildi, hafi svæðið átt að vera jarðvegslosunarsvæði í það minnsta í 10 ár í viðbót. Henni fylgi mikil umferð stórra flutningabifreiða og hafi starfsmenn borgarinnar staðfest það að á tímabili hafi tvær vörubifreiðar losað jarðveg á mínútu. Þá felist í þessu meðal annars notkun vinnuvéla, umfangsmikil breyting á ásýnd lands, fok jarðefna og hætta á mengun líkt og komið hafi á daginn. Hafi starfsemi þessi um margt haft lík umhverfisáhrif og efnistaka og sé fráleitt að halda því fram að hún fái samrýmst ákvæðum svæðis- og aðalskipulags um landnotkun á umræddu svæði. Í þessu sambandi sé meðal annars vísað til greinar 4.9 í gildandi skipulagsreglugerð. Þá sé að mati stefnanda fráleitt að fallast beri á starfsemina á svæðinu með þeim rökum að jarðvegslosun sé ekki tilgreind sem sérstakur landnotkunarflokkur í skipulagsreglugerð, enda breyti sá annmarki engu um eðli og áhrif starfseminnar. Þá séu allir sammála um það að efnistöku þurfi að sýna í skipulagi og það sama eigi að gilda um jarðvegslosun sem þessa. Um hana gildi að meginstefnu sömu lögmál enda um jarðvegslosun í stórum stíl í langan tíma að ræða sem leiði til breytts landslags. Þá sé ljóst að framkvæmdir þessar hafi ekkert með útivist að gera og geri í raun það að verkum að ómögulegt sé að nota svæðið til útivistar vegna ágangs, umferðar og mengunar.
Aðgerðir stefnda brjóti gegn lögvörðum hagsmunum stefnanda sem felist meðal annars í því að sumarhúsalóð stefnanda sé ónothæf og hafi verið það síðastliðin ár. Vegna ónákvæmrar stjórnsýslu og brota á stjórnsýslulögum við samþykki borgarráðs árið 2001 sé með öllu óljóst hvað felist í jarðvegslosun á Hólmsheiði og hvað hafi verið samþykkt. Við eftirgrennslan stefnanda hafi fengist þau svör í upphafi að um væri að ræða öryggismön vegna hitaveitugeyma en ekki að um væri að ræða umfangsmikla jarðvegslosun sem standa ætti yfir í fleiri ár. Jarðvegslosunarsvæðið sé í næsta nágrenni við landareign stefnanda og skilji um 60 metrar þar á milli. Vegna annmarka á meðferð málsins hjá stefnda hafi stefnanda og öðrum þeim sem kynna hafi viljað sér málið, verið óhægt um vik þar sem engin deiliskipulagstillaga hafi verið til um framkvæmdirnar og hafi auglýsing um gildistöku skipulagsins ekki verið birt í Stjórnartíðindum. Ekki liggi fyrir nákvæmar upplýsingar um það magn af jarðvegi sem flutt hafi verið á vegum stefnda en það sé mjög mikið og hafi Hrólfur Jónasson á framkvæmda- og eignarsviði Reykjavíkurborgar staðfest að svæðið sé við það að fyllast miðað við meint samþykki frá árinu 2001 eða 1,5 milljón m³. Mikið jarðrask hafi fylgt þessum flutningum þar sem notast sé við þungavinnuvélar og þá fylgi þessu hávaði, fok jarðefna, gífurleg breyting á ásýnd lands og fjallasýn o.fl. Við úrlausn máls þessa breyti engu hvort stefndi hafi hafið vinnu við breytingar á aðalskipulagi þar sem það hafi ekki tekið gildi og hafi því enga þýðingu í málinu. Auk þess sem breyta þurfi svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og deiliskipuleggja þurfi svæðið og gefa út framkvæmdaleyfi að nýju. Megi ljóst vera að hér sé um að ræða, ef til þess komi, verulega breytingu á svæðis- og aðalskipulagi sem þurfi ítarlega kynningu og auglýsingu auk þess sem frestir til athugasemda séu rúmir.
Rétt sé að benda á skilyrði þau sem umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar hafi sett fram um að jarðefni sem fyrirhugað sé að nota séu hrein og ómenguð af mannavöldum. Nú sé það svo að menguðum jarðvegi hafi verið fargað á svæðinu. Hafi starfsmenn Reykjavíkurborgar staðfest það, nú síðast á fundi í byrjun september 2009 og hafi verið vísað til þess að fjarlægja eigi þann jarðveg án þess að nokkuð hafi verið framkvæmt. Meðal annars sé um að ræða olíumengaðan jarðveg en í vettvangsferð, sem farin hafi verið að ósk úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingamál, hafi bersýnilega komið í ljós að nokkur mengun sé á svæðinu sem meðal annars felist í plasti og plastílátum auk rafmagnsvíra og annars óþrifnaðar. Þessi losun mengaðs jarðvegs geri það að verkum að framkvæmdin falli undir ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum en fyrrgreind skilyrði hafi að mati stefnanda verið virt að vettugi. Í þessu sambandi sé vert að benda á ákvæði 11-b í 2. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum.
Stefnandi telur að þær óleyfisframkvæmdir sem gerðar hafi verið á svæðinu skerði mjög friðhelgi og grenndarrétt hans og annarra jarðeigenda á svæðinu. Þessar umfangsmiklu framkvæmdir hafi leitt til þess að möguleikar forsvarsmanns stefnanda og fjölskyldu hans til að nýta sumarbústað félagsins og landssvæðið skerðist verulega og auk þess möguleikar þeirra til útivistar og grenndarréttar sem forsvarsmaður stefnanda hafi gert ráð fyrir að njóta en jarðvegslosun hafi verið framkvæmd á jaðri sumarhúsabyggðar. Hvað eftir annað hafi stefnandi þurft að hrökklast burt af lóð sinni vegna áreitis og sé svo komið að hann geti ekki hugsað sé að dvelja þar þó slíkt sé nauðsynlegt til að vökva og hlúa að gróðri sem sé mikill á landareign hans. Stefnandi hafi hugsað sér að byggja nýtt sumarhús á lóðinni, laga aðkomu, taka inn rafmagn, sem komið sé að lóðarmörkum og bora eftir ómenguðu vatni. Þessi áform hafi nú orðið að engu vegna yfirgangs stefnda en stefnandi hafi nú á nokkrum árum orðið vitni að því að nágranni hans hafi byggt fjall, mengað vatn, eytt gróðri, fuglalífi og náttúrunni allt í kringum lóð hans.
Þá sé bent á álit umboðsmanns Alþingis nr. 727/1992 þar sem segi: „Þar sem skipulag er bindandi bæði fyrir stjórnvöld og almenning um framtíðarnot tiltekins svæðis og er almennt ætlaður langur gildistími, verður að vanda til þess. Hönnun og bygging mannvirkja er meðal annars reist á forsendum, sem fram koma í skipulagi. Verður almenningur því að geta treyst því, að festa sé í framkvæmd skipulags og að því verði almennt ekki breytt, nema veigamiklar ástæður mæli með því. Ber þar að taka tillit til réttmætra hagsmuna þeirra, er breyting skipulags varðar. Skal hér áréttað, að skipulag er í senn stjórntæki stjórnvalda um þróun byggðar og landnotkun, og trygging almennings fyrir því, að allar framkvæmdir innan marka skipulags séu í samræmi við það.“
Stefnandi hafi hagsmuni af því að umræddar framkvæmdir verði metnar ólögmætar af dómstólum, enda gæti slík úrlausn orðið grundvöllur bótakröfu á hendur stefnda. Um heimild til að gera viðurkenningarkröfu sé vísað til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 auk meðal annars 33. gr. skipulags- og byggingarlaga ásamt almennum reglum skaðabótaréttarins utan samninga.
Vegna kröfu sinnar um stöðvun framkvæmda vísar stefnandi til þess sem að framan segi um ógildi samþykkis borgarráðs frá 3. apríl 2001 og ólögmæti jarðvegslosunar á Hólmsheiði. Í ljósi þessa krefjist stefnandi þess að stefnda verði gert með dómi að stöðva alla frekari jarðvegslosun á Hólmsheiði og sé meðal annars vísað til 1. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga auk annarra ákvæða laganna og skipulagsreglugerðar. Kröfu um dagsektir kveðst stefnandi byggja á dómafordæmum og 4. mgr. 114. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Þá kveðst stefnandi vísa til annarra sjónarmiða sem fram komi í þeim athugasemdum og kærum sem stefnandi og lögmaður hans hafi sett fram í máli þessu og komi fram í framlögðum dómskjölum, einkum dómskjölum nr. 20 og 26 auk annars sem fram komi í úrskurðum úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál í málum nr. 167/2007 og 31/2008 og erindi skipulagsstofnunar á dómskjali nr. 33.
Á Hólmsheiði/Reynisvatnslandi séu fjölmörg sumarhús og skipulagðar frístundajarðir. Upp úr 1960 hafi lönd verið skipulögð og jarðir seldar til frístundarbyggðar. Áratugum seinna hafi stefndi keypt Reynisvatnsland. Krafa stefnanda um stöðvun jarðvegslosunar og að allt jarðrask verði afmáð komi heim og saman við hagsmuni og réttindi sumarhúsaeigenda almennt að geta notið og nýtt eignir sínar og hafi félag landeigenda á svæðinu, Græðir, meðal annars barist fyrir réttindum landeigenda en án nokkurs árangurs vegna yfirgangs stefnda.
Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1993, einkum ákvæða 9., 12., 16., 23., 25., 26., 27., 33. og 56. gr., og þá sé vísað til ákvæða skipulagsreglugerðar og almennra réttarvörslusjónarmiða. Þá vísar hann til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglna skaðabótaréttarins. Um dagsektarkröfu vísar hann til 2. ml. 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og kröfu um málskostnað styður hann við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991. Hvað snertir varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Stefndi kveður að málsmeðferð samþykkis borgarráðs 3. apríl 2001 hafi að öllu leyti verið lögmæt og í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og/eða skipulagsreglugerðar að því er varði framsetningu slíkra skipulagsbreytinga. Þá mótmælir hann því að brotið hafi verið gegn meginreglum stjórnsýslulaga og því að ekki hafi verið lögð fram deiliskipulagstillaga til synjunar eða samþykkis sem auglýsa skyldi í samræmi við 25. gr. laganna. Hafi losun jarðvegs á svæðinu upphaflega verið heimiluð á grundvelli aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 og hafi borgarráð samþykkt á fundi sínum 3. apríl 2001 ákveðin skilyrði um losun auk þess sem staðsetning og mörk losunarsvæðis hafi verið ákvörðuð. Hafi ekki verið forsendur til að skilgreina efnislosunina sérstaklega í aðalskipulagi þar sem ekki sé tilgreindur sérstakur landnotkunarflokkur fyrir slíka starfsemi í skipulagsreglugerð. Enn fremur hafi verið litið til þess að losun jarðvegs sé ekki ósamræmanleg framtíðarnýtingu svæðisins sem skógræktar- og útivistarsvæðis, sbr. samþykkt skilyrði um losun. Skipulags- og byggingarlög kveði ekki á um það með hvaða hætti skuli meðhöndla efnislosun í skipulagsáætlun. Stefndi hafi því fylgt þeirri stefnu, sem venja hafi verið á þeim tíma sem ákvörðunin var tekin, að samþykkja losun jarðvegs með heimild í aðalskipulagi. Stefndi hafi því enga breytingu verið að gera á skipulagsáætlun, hvorki deili-, aðal- eða svæðisskipulagi. Ákvæði skipulags- og byggingarlaga hafi því ekki átt við ákvörðun borgarráðs. Verði því vart annað séð en að stefnandi byggi á því að borgarráði hafi borið að taka aðra ákvörðun en það gerði og það eitt og sér geti ekki ógilt ákvörðunina. Þau ákvæði sem stefnandi vísi til máli sínu til stuðnings fjalli öll um gerð skipulagsáætlana. Borgarráð hafi að engu leyti verið að fást við gerð skipulagsáætlunar á fundi sínum hinn 3. apríl 2001 heldur eingöngu að heimila ákveðna framkvæmd með heimild í aðalskipulagi. Eigi því ákvæði þau er stefnandi vísi til ekki við í máli þessu.
Stefndi kveður fullyrðingar stefnanda, um að efnisinnihald samþykkisskilmála borgarráðs hafi verið óskýrt, ekki með neinum hætti rökstuddar. Komi skilmálarnir fram í tillögu borgarverkfræðings 30. mars 2001 sem borgarráð hafi samþykkti á fundi sínum 3. apríl 2001. Í erindinu komi skýrt fram að lagt sé til að heimiluð verði losun á 100.000 m³ jarðefnis. Sé gert ráð fyrir allt að 1,5 milljón m³ rýmist á svæðinu sem afmarkað hafi verið á uppdrætti og sé í töluliðum 1-5 rakin skilyrði umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur. Hafni stefndi því alfarið að nokkuð sé óskýrt í þessu efni og enn síður að slíkur óskýrleiki geti haft í för með sér að ákvörðunin sé ógildanleg.
Þá mótmælir stefndi því að brotinn hafi verið á stefnanda andmælaréttur. Stefnandi hafi keypt lóðarskika sinn með kaupsamningi 9. september 2005 og hafi hann því aldrei verið aðili að stjórnsýslumálinu árið 2001. Eigi stefnandi því engra hagsmuna að gæta varðandi málsmeðferð stefnda og sé fráleitt að halda því fram að hann hafi átt einhvern andmælarétt. Séu ásakanir að þessu leyti ósannaðar og órökstuddar.
Hafi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 kveðið á um nokkur nýmæli. Eitt þeirra hafi verið að finna í 47. gr. frumvarpsins þar sem í fyrsta skipti hafi verið kveðið á um nýja leyfisveitingu vegna framkvæmda, þ.e. framkvæmdaleyfi. Ákvæði 27. gr. núgildandi laga hafi komið nýtt inn með 22. gr. laga nr. um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 og skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997 með síðari breytingum. Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til laganna segi um 22. gr.:
„Í 1. mgr. er kveðið á um það hvenær afla þurfi framkvæmdaleyfis sveitarstjórna, þ.e. vegna meiri háttar framkvæmda sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess og vegna annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Þannig þarf ætíð að afla framkvæmdaleyfis vegna matsskyldra framkvæmda og er það ekki breyting á því sem gilt hefur. Ekki er heimilt að hefja þær framkvæmdir sem tilgreindar eru í ákvæðinu fyrr en að fengnu framkvæmdaleyfi sveitarstjórna. Sé framkvæmd byggingarleyfisskyld fer um hana skv. IV kafla laganna og þarf þá ekki að afla framkvæmdaleyfis.“
Framkvæmdaleyfisskyldar ákvarðanir séu nánar skilgreindar í ákvæði 9.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Þar segi að meiriháttar framkvæmdir sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess, skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum, þar sem það eigi við. Séu meiriháttar framkvæmdir, við götur, holræsi, vegi og brýr, aðrar en göngubrýr í þéttbýli, jarðgöng, flugbrautir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, hafnir, virkjanir, efnistöku, sorpförgun og aðrar meiriháttar framkvæmdir sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess, háðar framkvæmdaleyfi.
Í 3. mgr. ákvæðis 9.1 í skipulagsreglugerðinni segi jafnframt að með meiriháttar framkvæmdum í 2. mgr. sé átt við framkvæmdir sem vegna eðlis eða umfangs hafi veruleg áhrif á umhverfið. Það eigi til dæmis við um framkvæmdir sem farið hafa í mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, en einnig skuli höfð hliðsjón af framkvæmdum tilgreindum í viðauka II með reglugerð um mat á umhverfisáhrifum.
Stefndi telur að sú tímabundna jarðvegslosun sem hér sé um deilt geti á engan hátt fallið undir ákvæði 27. gr. skipulags- og byggingarlaga sbr. og ákvæði 9.1 í skipulagsreglugerð. Losunin falli ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Ekki sé um að ræða umtalsverð umhverfisáhrif eins og lögin kveði á um heldur eðlilega mótun lands sem í kjölfarið verði grætt og nýtt til útivistar. Verði þessari losun jarðvegs ekki jafnað við meiriháttar framkvæmdir við stórkostleg mannvirki á borð við þau sem talin séu upp í skipulagsreglugerð. Beinlínis sé gert ráð fyrir því að við mat á því hvað sé meiri háttar framkvæmd í skilningi laganna sé litið til framkvæmda sem falli undir lög um umhverfismat og viðauka II við reglugerð um mat á umhverfisáhrifum nr. 1123/2005. Stefndi hafnar því alfarið að tímabundin aðgerð sem þessi sé háð framkvæmdaleyfi enda hvergi nafni nefnd í þeim ákvæðum sem fjalli um slík leyfi. Þá megi geta þess að skipulagsstofnun sé sammála framanröktum sjónarmiðum, sbr. bréf 11. ágúst 2008 til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar.
Þá telji stefndi að tímabundin losun jarðefna sem nýtt sé til landmótunar séu ekki framkvæmdir í skilningi 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga. Því sé ekki um að ræða deiliskipulagsskylda framkvæmd.
Stefndi kveður landnotkun á umdeildu svæði vera í samræmi við aðalskipulag og hafnar því að jarðvegslosun sú sem farið hafi fram á Hólmsheiði fari í bága við aðalskipulag Reykjavíkur 1996-2016 og 2001-2024. Losun jarðvegs á svæðinu hafi upphaflega verið heimiluð á grundvelli aðalskipulagsins 1996-2016 og hafi borgarráð samþykkt hinn 3. apríl 2001 ákveðin skilyrði um losun og hafi mörk losunarsvæðis verið ákvörðuð. Ekki hafi verið forsendur til að skilgreina efnislosunina sérstaklega í aðalskipulagi, þar sem ekki sé tilgreindur sérstakur landnotkunarflokkur fyrir slíka starfsemi í skipulagsreglugerð. Enn fremur hafi verið litið til þess að losun jarðvegs væri ekki ósamrýmanleg framtíðarnýtingu svæðisins sem skógræktar- og útivistarsvæðis. Ekki hafi verið gerðar grundvallarbreytingar á stefnumörkun um Hólmsheiðina og austurheiðar með staðfestingu aðalskipulagsins 2001-2024 og svæðisskipulagsins 2001-2024, í janúar 2003. Fyrri samþykktir um losun jarðvegs á svæðinu hafi því staðið óbreyttar. Svæðin hafi áfram verið hugsuð til almennrar útivistar, frístundaiðju og skógræktar. Í aðal- og svæðisskipulaginu 2001-2024 hafi hins vegar verið sett fram ítarlegri stefna um þróun svæðisins og græni trefillinn svokallaður formlega skilgreindur.
Það liggi í skilgreiningu græna trefilsins og opinna svæða til útivistarskógræktar að ræktun og umbreyting lands muni ávallt eiga sér stað. Losun ómengaðs jarðvegs, sem sé mótaður og ræktaður upp í samræmi við framtíðarmarkmið um nýtingu svæðisins til útivistar, teljist því ekki til nýtingar sem gangi í berhögg við langtíma stefnumörkun um þróun græna trefilsins. Það sé því ófært að telja þá framkvæmd í ósamræmi við langtímastefnu um þróun svæðisins sem útivistar- og skógræktarsvæðis, ekki síst í ljósi þess að sett séu tímamörk á nýtingu svæðisins sem séu vel innan marka skipulagstímabils umræddra skipulagsáætlana. Á grundvelli þessa hafi verið sett fram deiliskipulag um frekari losun á svæðinu seinni hluta árs 2007, sem stefnandi vísi ítrekað til í málatilbúnaði sínum, þar sem fyrri skilyrði um losun hafi verið ítrekuð og sett fram skýrari framtíðarsýn á frágang svæðisins að losuninni lokinni. Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi með úrskurði sínum 24. júlí 2008 fellt úr gildi ákvörðun borgarráðs um samþykkt deiliskipulagsins, á grundvelli þess að stefna deiliskipulagsins samræmdist ekki fyrirliggjandi stefnumörkun aðal‐ og svæðisskipulags um Hólmsheiðina og græna trefilinn. Ekki hafi verið tekin afstaða til þess hvort losun jarðvegs á svæðinu, fram til þessa, hafi verið ólögmæt, enda hafi ekki legið ljóst fyrir með hvaða hætti ætti að meðhöndla efnislosun í skipulagsáætlunum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.
Úrskurðarnefndin hafi þó talið að umrædd jarðvegslosun væri um margt sambærileg og efnisvinnsla hvað varði umhverfisáhrif, án þess að skýra það hvort slíkur samjöfnuður gæti átt almennt við um losun jarðvegs og efnistöku, óháð umfangi og staðháttum. Til að mynda eigi jarðvegslosun til uppgræðslu lítið sameiginlegt með efnistöku á ósnortnum svæðum.
Stefndi mótmælir því alfarið að olíumengaður jarðvegur sem hafi tímabundið verið unninn á svæðinu sé þar enn. Olíumengaður jarðvegur hafi verið fjarlægður og sé ekki notaður til landmótunarinnar. Stefndi hafnar því alfarið að vinnslan hafi skilið eftir mengun af nokkru tagi enda ekkert í gögnum málsins sem styðji þá staðhæfingu stefnanda.
Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að gengið hafi verið gegn grenndarrétti stefnanda eða friðhelgi hans skert með losun jarðvegs á Hólmsheiði meðal annars með því að hagnýtingarmöguleikar stefnanda séu skertir frá því sem fyrir var. Allar tilvísanir stefnanda um framtíðaráforma, meðal annars um byggingu nýs sumarhúss og boranir eftir ómenguðu vatni, séu afar óljósar og alls óvíst hvort af þeim verði. Staðhæfingar um að tímabundin jarðvegslosun sem eigi sér stað í órafjarlægð frá lóðarmörkum stefnanda skerði hagnýtingarmöguleika hans séu með öllu órökstuddar. Þá hafi stefnandi ekki keypti landareign sína fyrr en löngu eftir að losun hófst á svæðinu. Engir grenndarhagsmunir hafi því verið skertir sem fyrir hafi verið í öndverðu.
Þá kveður stefndi kröfu um að viðurkenndur verði réttur stefnanda til skaðabóta með öllu órökstudda og hafi enginn réttur til skaðabóta skapast. Í stefnu sé um þessa kröfu í fyrsta lagi vísað til 33. gr. skipulags- og byggingarlaga. Ákvæðið kveði á um rétt til skaðabóta þegar gildistaka skipulags valdi því að verðmæti fasteignar lækki, nýtingarmöguleikar hennar skerðist eða að hún muni rýrna svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður. Frá því stefnandi keypti landareign sína hafi engin skipulagsáætlun tekið gildi sem mögulega gæti uppfyllt þau skilyrði fyrir skaðabótum sem ákvæðið kveði á um. Af málatilbúnaði stefnanda verði þvert á móti ekki annað séð en að einna helst sé byggt á því að stefnda hafi borið að hlutast til um frekari skipulagningu svæðisins. Stefndi hafni því að skilyrði fyrir skaðabótum á grundvelli 33. gr. skipulags- og byggingarlaga séu fyrir hendi.
Þá rökstyðji stefnandi kröfu sína um viðurkenningu skaðabótaskyldu með vísan til almennra reglna skaðabótaréttarins utan samninga. Sé engin tilraun gerð til þess í stefnu að rökstyðja kröfuna frekar eða þann bótagrundvöll sem byggt sé á. Verði ekki betur séð en að stefnandi byggi allt í senn á sakarreglu, reglum um hlutlæga bótaábyrgð, vinnuveitendaábyrgð, sakarlíkindareglu o.s.frv. Sé stefnda ómögulegt að taka til varna um þennan þátt kröfugerðar stefnanda, en hann vísar til þess sem að framan sé rakið. Stefndi telji að sú jarðvegslosun sem nú fari fram á Hólmsheiði sé með öllu lögmæt og af henni leiði ekkert tjón fyrir stefnanda enda geri hann enga tilraun til að útlista hvert hitt meinta tjón gæti verið. Hafi stefndi á engan hátt sannað að hann hafi orðið fyrir tjóni og enn síður að tjónið megi rekja til háttsemi stefnda. Séu kröfur stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu ósannaðar og órökstuddar.
Stefndi byggir málatilbúnað sinn meðal annars á reglum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, reglugerð um mat á umhverfisáhrifum nr. 1123/2005, lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 og almennum reglum skaðabótaréttarins. Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
V
Stefndi vakti máls á því í upphafi aðalmeðferðar málsins að hann teldi að vísa ætti máli þessu frá án kröfu þar sem stefnandi hefði ekki lengur hagsmuni af því að fá leyst úr dómkröfum sínum. Vísaði stefndi að þessu leyti til þess að nú hafi samþykkt borgarráðs frá 3. apríl 2001 verið felld úr gildi með nýjum skipulagsheimildum.
Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur aðili, sem hefur lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands, leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar í þeim efnum. Eins og fram er komið krefst stefnandi þess að samþykkt borgarráðs 3. apríl 2001 um samþykki varðandi losunarstað á Hólmsheiði fyrir jarðvegsefni verði felld úr gildi og að viðurkennt verði að jarðvegslosunin sé ólögmæt. Eins og rakið er að framan samþykkti borgarráð Reykjavíkur, á fundi sínum 25. mars 2010, deiliskipulag fyrir Hólmsheiði vegna afmörkunar á svæði til jarðvegsfyllingar fyrir tímabundna losun á ómenguðum jarðvegi og með auglýsingu skipulagsstjóra Reykjavíkurborgar sama dag öðlaðist skipulagið þegar gildi. Er því ljóst að samþykkt borgarráðs frá 3. apríl 2001 sem krafist er að verði ógilt er ekki lengur í gildi þar sem önnur samþykkt borgarráðs frá 25. mars 2010 hefur tekið við af henni. Myndi dómur um ógildingu samþykktarinnar frá 3. apríl 2001 því engu breyta um réttarstöðu málsaðila nú og hefur stefnandi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn um kröfu þessa. Þykir því ekki verða hjá því komist að vísa kröfunni frá dómi.
Stefnandi krefst þess í öðru lagi að viðurkennt verði að jarðvegslosun á Hólmsheiði á grundvelli framangreindar samþykktar frá 3. apríl 2001 sé ólögmæt. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 verða dómstólar ekki krafðir álits um lögfræðileg efni eða hvort tiltekið atvik hafi gerst nema að því leyti sem nauðsynlegt er til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli. Viðurkenningarkrafa stefnanda að þessu leyti er í andstöðu við framangreint lagaákvæði og verður því að vísa henni frá dómi sem slíkri en hún getur þó komið til skoðunar sem málsástæða varðandi aðrar kröfur stefnanda.
Krafa stefnanda um að stefnda verði gert skylt að stöðva jarðvegslosun á Hólmsheiði byggist á því að umrædd jarðvegslosun sem byggir á samþykkt borgarráðs frá 3. apríl 2001 sé ólögmæt. Með vísan til þess að hin umdeilda samþykkt hefur verið felld úr gildi með nýrri samþykkt, fer jarðvegslosun á Hólmsheiði ekki lengur fram á grundvelli samþykktarinnar frá 3. apríl 2001. Þegar af þeirri ástæðu hefur stefnandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn um þessa kröfu frekar en kröfunni um að samþykkt borgarráðs frá 3. apríl 2001 verði felld úr gildi og verður því ekki hjá því komist að vísa henni einnig frá dómi.
Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda. Á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til viðurkenningar á skaðabótaábyrgð. Óhjákvæmilegt skilyrði slíkrar málsóknar er þó að stefnandi sýni fram á að hann hafi beðið tjón og hvert tjónið sé, þ.e. í hverju það sé fólgið þótt ákvörðun bótafjárhæðar sé látin bíða, og á hvern hátt tjónið hafi orsakast af þeim atvikum sem talin eru hafa valdið bótaábyrgð.
Af málatilbúnaði stefnanda má ráða að hann telji sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þess að sumarhúsalóð hans sé ónothæf vegna mengunar, jarðrasks, hávaða, foks jarðefna og breytingar á ásýnd lands og fjallasýn. Hafi þannig möguleikar forsvarsmanns stefnanda og fjölskyldu hans til að nýta sumarbústað félagsins skerst auk þess sem friðhelgi og grenndarréttur stefnanda hafi skerst. Sú almenna lýsing stefnanda á meintu tjóni er ekki studd haldbærum gögnum og hefur á engan hátt verið bætt úr því undir rekstri málsins. Er þannig í kröfugerð stefnanda með engu móti afmarkað í hverju tjón hans er fólgið eða á hvern hátt hið meinta tjón verði rakið til þeirra atvika sem talin eru hafa valdið bótaábyrgð, þ. e. hvort hin umdeilda samþykkt hafi með ólögmætum hætti valdið stefnanda tjóni. Að þessu leyti er kröfugerð stefnanda svo óljós og ónákvæm og ekki í samræmi við ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað og verður því þegar af þeirri ástæðu að vísa kröfunni frá dómi.
Að öllu framanrituðu virtu verður máli þessu vísað frá dómi án kröfu.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að fella málskostnað niður.
Af hálfu stefnanda flutti málið Guðbjarni Eggertsson hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Ingi B. Poulsen hdl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu.
Málskostnaður fellur niður.