Print

Mál nr. 637/2017

Bragi Andrésson (Gísli Guðni Hall lögmaður)
gegn
Sveitarfélaginu Ölfusi (Víðir Smári Petersen lögmaður)
og gagnsök
Lykilorð
  • Brottrekstur úr starfi
  • Ráðningarsamningur
  • Skaðabætur
  • Miskabætur
Reifun

B var vikið úr starfi sem stuðningsfulltrúa á sambýli sem Ö rak í kjölfar atviks sem átti sér stað milli B og eins íbúa sambýlisins. Deildu aðilar um lögmæti brottvikningarinnar og hvort B ætti rétt á skaða- og miskabótum úr hendi Ö. Héraðsdómur taldi að Ö hefði brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga með því að láta ekki fara fram fullnægjandi rannsókn á atvikinu og þeim ávirðingum sem á B voru bornar áður en honum var vikið fyrirvaralaust úr starfi. Hefði brottvikning hans því verið ólögmæt. Dómurinn taldi hins vegar ósannað að B hefði orðið fyrir tjóni vegna brottvikningarinnar, en dæmdi Ö til að greiða honum miskabætur. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að málsmeðferð Ö hefði verið í andstöðu við 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá taldi rétturinn að B ætti rétt á skaðabótum úr hendi Ö vegna þessa sem voru hæfilega metnar 2.000.000 krónur, auk miskabóta sem ákveðnar voru 500.000 krónur. Var Ö því gert að greiða B samtals 2.500.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. október 2017. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 12.682.396 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. maí 2016 til 30. júní sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 15. desember 2017. Hann krefst sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Málavöxtum og málsástæðum aðila er skilmerkilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Fallist er á með héraðsdómi að ekki hafi farið fram fullnægjandi rannsókn af hálfu gagnáfrýjanda á þeim ávirðingum sem bornar voru á aðaláfrýjanda í atvikalýsingu samstarfskonu hans og lagðar voru til grundvallar í bréfi gagnáfrýjanda 8. apríl 2016, þar sem aðaláfrýjanda var tilkynnt að til athugunar væri að víkja honum úr starfi. Sömuleiðis er fallist á að ekki hafi farið fram fullnægjandi rannsókn á því hvort ætluð háttsemi aðaláfrýjanda hafi falið í sér svo alvarlegt brot á starfsskyldum hans að það réttlætti riftun ráðningarsamnings samkvæmt ákvæðum kjarasamnings þar um eða hvort áframhaldandi viðvera aðaláfrýjanda á vinnustað myndi valda skaða fyrir starfsemina, aðra starfsmenn eða vistmenn í skilningi samningsins. Var hvoru tveggja þó lagt til grundvallar þeirri ákvörðun gagnáfrýjanda að víkja aðaláfrýjanda fyrirvaralaust frá störfum 27. maí 2016. Var málsmeðferð gagnáfrýjanda að þessu leyti í andstöðu við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar af þeirri ástæðu verður staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að brottvikning aðaláfrýjanda úr starfi umrætt sinn hafi verið ólögmæt.

Vegna hinnar ólögmætu ákvörðunar á aðaláfrýjandi rétt á bótum úr hendi gagnáfrýjanda. Í samræmi við dómaframkvæmd verða bætur honum til handa ákveðnar að álitum, að teknu tilliti til aldurs hans, menntunar, launatekna, atvinnumöguleika og atvika að öðru leyti. Verður í þeim efnum meðal annars að líta til þess að aðaláfrýjandi var ráðinn ótímabundið til starfa með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti og að honum voru greidd laun á meðan á tímabundinni brottvikningu hans stóð og í tvo mánuði eftir að honum hafði endanlega verið vikið úr starfi. Verður jafnframt að taka tillit til þess að aðaláfrýjandi var 67 ára að aldri á þeim tíma, en ágreiningslaust er að hann hafði sinnt starfi sínu átölulaust fram að því. Að þessu virtu og þegar litið er til starfsreynslu og menntunar aðaláfrýjanda, svo og meðaltals mánaðarlauna hans fyrir starfslok og tekna hans fyrir og eftir brottvikninguna, eru bætur vegna fjártjóns hans hæfilega metnar 2.000.000 krónur.

Aðaláfrýjandi hafði um árabil gegnt starfi sínu hjá gagnáfrýjanda allt þar til hann sætti brottvikningu umrætt sinn. Voru þær ávirðingar sem á aðaláfrýjanda voru bornar, og lágu til grundvallar hinni ólögmætu brottvikningu hans, alvarlegar og meiðandi í hans garð og til þess fallnar að valda honum álitshnekki. Á aðaláfrýjandi rétt til miskabóta af þessum sökum samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og verða þær ákveðnar 500.000 krónur.

Samkvæmt framansögðu verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 2.500.000 krónur með vöxtum eins og krafist er, en upphafsdegi þeirra hefur ekki verið andmælt.

Eftir úrslitum málsins verður gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Sveitarfélagið Ölfus, greiði aðaláfrýjanda, Braga Andréssyni, 2.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 27. maí 2016 til 30. júní sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 2.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 7. júlí 2017.

            Mál þetta, sem dómtekið var þann 9. júní sl., er höfðað af Braga Andréssyni, kennitala [...], til heimilis að Hjalladæl 13, Sveitarfélaginu Árborg, gegn Sveitarfélaginu Ölfusi, kennitala [...], Hafnarbergi 1, Þorlákshöfn, með stefnu birtri 26. október 2016.

            Dómkröfur stefnanda eru:

1.       Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 14.192.396 með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 27. maí 2016 til 31. júní 2016, með dráttarvöxtum samkvæmt  1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

2.       Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

            Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulegar. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.  

Málavextir

Helstu málavextir samkvæmt gögnum málsins eru þeir að stefnandi hóf þann 1. september 2004 störf sem stuðningsfulltrúi á sambýli sem stefndi rekur fyrir fatlaða einstaklinga á Selvogsbraut 1 í Þorlákshöfn. Upphaflegur ráðningarsamningur stefnanda var við Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Suðurlandi, en á þeim tíma heyrði málaflokkurinn undir ríkið. Við yfirfærslu málaflokksins til sveitarfélaganna, þann 1. janúar 2011, var komið á ráðningarsambandi milli stefnanda og stefnda með gerð viðauka við ráðningasamning stefnanda, dags. 23. desember 2010. Íbúar sambýlisins munu vera sex og starfsmenn í 7,26 stöðugildum, en sambýlið er rekið á grundvelli laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992.

Tildrög máls þessa má rekja til samskipta milli stefnanda og A, eins íbúa sambýlisins, en atvikið mun hafa átt sér stað að kvöldi 9. september 2015. Í kjölfar atburðarins var þann 21. desember sama ár gefin út ákæra á hendur stefnanda fyrir líkamsárás sem ákærði var sýknaður af með dómi Héraðsdóms Suðurlands, uppkveðnum 10. maí 2016. Meðal gagna málsins er skjal sem ber heitið „Minnispunktar ef upp kemur krísa“ undirritað af Berglindi Hallmarsdóttur og Jóhönnu H. Óskarsdóttur, starfsmönnum á áðurnefndu sambýli og fyrrverandi samstarfsmönnum stefnanda, þar sem lýst er atvikum að kvöldi 9. september 2015 þegar stefnandi hafði í starfi sínu á sambýlinu afskipti af áðurnefndri A. Í niðurlagi skjalsins kemur fram að Berglind og Jóhanna hafi kallað til forstöðumann sambýlisins, Steinunni E. Þorsteinsdóttur og liggur fyrir í málinu að hún mun hafa áminnt stefnanda munnlega vegna atviksins að morgni 10. september 2015. Þá segir í málavaxtalýsingu í stefnu að eftir að yfirmanni stefnanda varð kunnugt um að atvikið hafði verið kært til lögreglu hafi stefndi tilkynnti stefnanda að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi stefnanda á meðan málið væri til rannsóknar eða fyrir dómstólum. Í málavaxtalýsingu í greinargerð stefnda segir að stefndi hafi tilkynnt stefnanda, þegar lögreglurannsókn hófst, að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi stefnanda á meðan málið væri til rannsóknar. Fyrir liggur að stefnandi fékk greidd laun frá stefnda þann tíma sem hann var í leyfi.

Með bréfi dags. 8. apríl 2016, sem Steinunn E. Þorsteinsdóttir forstöðumaður sambýlisins undirritar, er stefnanda tilkynnt að til skoðunar væri hvort tilefni væri til að segja stefnanda fyrirvaralaust upp störfum. Í bréfinu segir. „Hér með tilkynnist að til skoðunar er hvort tilefni sé til að segja þér fyrirvaralaust upp störfum vegna háttsemi sem samræmist ekki starfsskyldum þínum. Áframhaldandi viðvera þín á vinnustaðnum er talin geta skaða starfsemina.“ Þá segir í bréfinu að tilefnið sé áðurnefnt atvik 9. september 2015. Í bréfinu er tilefnið tilgreint með eftirfarandi hætti: „Þann 9. september 2015 átti sér stað atburður í íbúð [...] á Selvogsbraut. Íbúi (sem er kvenkyns), búsettur í annarri íbúð á Selvogsbraut 1, er inni hjá [...] og kemur starfsmaður og biður hana að opna. Íbúi skellir á starfsmann, starfsmaður opnar þá dyrnar og er íbúi mjög æstur og orðljótur. Þú ert vitni að þessu og samkvæmt atburðarskýrslu rýkur þú til með miklum látum - þú og íbúi öskrið hvort á annað og þú rekur íbúa út úr íbúð [...] og inn í sína íbúð. Íbúi er hávær, orðljót og reið og fer að tína til dótið sitt. Þú stendur yfir henni og öskrar á hana sem endar á því að þú rífur í íbúa hendir henni í gólfið og sparkar í bakið á henni að sögn starfsmanns sem varð vitni að atburðinum. Í atburðaskýrslu kemur fram að þú segist hafa ýtt í hana með fætinum þar sem hún var liggjandi á gólfinu. Þegar starfsmaður sér þessi viðbrögð þín gengur hann að þér og stoppar þig af segir að nú sé komið gott og vel það. Starfsmaður segir þér að fara sem þú gerir. Tveir starfsmenn (konur) hjálpa íbúa á fætur. Íbúa og starfsfólki er mikið brugðið. Annar starfsmaður hjálpar íbúa inn til sín og hinn starfsmaðurinn sinnir öðrum íbúum. Þú fórst eftir þetta inn í starfsmannaaðstöðu. Starfsmaður kemur þar til þín og spyr hvað þú hafir verið að gera og af hverju þú hafir sparkað í íbúa og látið svona. Þú segist hafa ýtt til hennar og sagðir: „Það þarf að venja hana af frekjunni.“ Íbúi fór til læknis og fékk áverkavottorð þar sem fram kemur eftirfarandi: „Hún er með nokkuð mar á vinstra handbaki [sic] 3x3 cm að stærð á upphandlegg vinstri um 4x7 cm að stærð. Einnig með smá marbletti á hægri handlegg stærstur um 1x1 cm á stutt distald við olnboga. Yfirborðsáverkar á báðum hnjám. Sár á vinstri hné og mar um 4x4 cm. Marblettir á hægra hné um 3x2 cm á stærð veit medialt við hnéskel. Kvartar ekki yfir öðrum einkennum eða verkjum.“

                Íbúi kærði atburðinn í framhaldi til lögreglunnar. Þér var tjáð af hálfu vinnuveitanda að ekki yrði óskað eftir vinnuframlagi þínu meðan málið væri í lögreglurannsókn. Eins og þér er kunnugt var málið rannsakað af lögreglu sem endaði með ákæru og bíður nú aðalmeðferðar hjá dómstólum.“

Í lok bréfsins er stefnanda gefinn kostur á að tjá sig um málið annað hvort á fundi með þremur yfirmönnum stefnda að viðstöddum trúnaðarmanni, eða skriflega óski hann þess. Þá er stefnanda bent á að honum sé heimilt að hafa trúnaðarmann með á framangreindan fund.

Með bréfi dags. 27. apríl 2016, sem Gunnsteinn Ómarsson, bæjarstjóri, undirritar, er vísað til fyrri samskipta vegna málsins. Þá segir: „Sveitarfélagið Ölfus ítrekar fyrra erindi, dags. 8. apríl sl., og þá frumniðurstöðu að háttsemi starfsmannsins hafi verið alvarlegt frávik frá starfsskyldum. Sveitarfélagið telur niðurstöðu þess sakamáls sem rekið er gegn starfsmanninum engin áhrif hafa á þá afstöðu sveitarfélagsins.“ Í lok bréfsins var nýr fundartími tilkynntur auk þess sem vakin var athygli stefnanda á því að honum stæði einnig til boða að tjá sig skriflega um málið eigi síðar en 6. maí sama ár. Það gerði stefnandi með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 9. maí 2016. Í bréfinu var fyrirhugaðri fyrirvaralausri uppsögn stefnanda mótmælt og meðal annars vísað til þess að beðið væri dóms Héraðsdóms Suðurlands í sakamáli gegn ákærða vegna sama atviks og vísað hafi verið til í áðurnefndu bréfi stefnda frá 8. apríl 2016. Þá segir í málavaxtalýsingu í stefnu að stefnandi hafi óskað eftir því að skila inn ítarlegri andmælum gegn fyrirhugaðri ákvörðun, ef stefndi teldi sér heimilt að taka ákvörðun í málinu.

Það var síðan með bréfi, dags. 27. maí 2016, undirritað af áðurnefndum bæjarstjóra stefnda sem stefnanda var tilkynnt um fyrirvaralausa frávikningu úr starfi með vísan til bréfs stefnda til stefnanda, dags. 8. apríl 2016, vegna háttsemi stefnda gagnvart íbúa sambýlisins þann 9. september 2015. Kemur fram að stefndi hafi móttekið andmælabréf stefnanda dags. 9. maí 2016 og að tekin hafi verið afstaða til þeirra sjónarmiða sem þar komi fram. Í bréfinu er rakin ákvæði 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og gr. 11.1.6.1 í kjarasamningi aðila. Síðan segir: „Hér skal það áréttað að í riftun ráðningarsamningsins felst ekki ásökun um refsiverða háttsemi líkt og haldið er fram í andamælabréfi dags. 9. maí 2016. Byggir riftun samningsins á alvarlegu broti gegn starfsskyldum þínum og á hún sér stoð í framangreindum kjarasamningi. Þá skal það áréttað að sveitarfélagið átti ekki frumkvæði að refsimáli vegna atburðarins og er hér um að ræða tvö aðskilin mál; annars vegar refsimál og hins vegar brot á starfsskyldum sem heimilar fyrirvaralausa frávikningu úr starfi. Niðurstaða refsimálsins er óháð niðurstöðu sveitarfélagsins um brot á starfsskyldum. Þá ber einnig að geta þess að sönnunarstaða er önnur þegar um er að ræða refsimál, enda ríkari sönnunarkröfur gerðar í refsimálum, sbr. t.d. Hrd. 1997, bls. 490 (mál nr. 110/1996). Þá gat starfsmaður ekki haft réttmætar væntingar til þess að honum yrði ekki vikið fyrirvaralaust úr starfi í ljósi allra aðstæðna þessa máls, jafnvel þó strax í kjölfar atburðarins hafi ekki verið talin ástæða til að bregðast við með öðrum hætti en áminningu.“ Þá er í bréfinu vísað til atvikaskráningar vegna atburðarins 9. september 2015, læknisvottorðs og fram kemur það mat stefnda að viðbrögð stefnanda hafi bæði í orði og athöfum verið úr hófi. Þá segir: „Var þér strax veitt áminning í kjölfar atburðarins, sem ekki var sérstaklega andmælt af þinni hálfu, og í kjölfarið fór af stað rannsókn hjá lögreglu eftir kæru íbúans á atvikinu. Á meðan hafði sveitarfélagið í skoðun hvort segja ætti þér upp störfum vegna atburðarins. Ekki var óskað eftir vinnuframlagi þínu á meðan á rannsókn lögreglu og skoðun sveitarfélagsins stóð yfir. Skoðun sveitarfélagsins hefur leitt í ljós að umrætt atvik sé þess eðlis að áframhaldandi viðvera þín á vinnustaðnum sé til þess falin að skaða starfsemina. Um er að ræða alvarlegt atvik sem samrýmist ekki starfsskyldum þínum. Starfsmenn þjónustuíbúða verða við allar aðstæður að geta sinnt starfi sínu af yfirvegun, án þess að hræða, ógna eða veitast að íbúum, sama í hvaða ástandi íbúar kunna að vera. Er atvikið því þess eðlis að óhjákvæmilegt er að víkja þér fyrirvaralaust úr starfi og tekur sú ákvörðun gildi við dagsetningu bréfs þessa.“

Þá liggur fyrir að með bréfi dags. 6. september 2016 krafðist stefndi þess að stefnandi endurgreiddi stefnda ofgreidd laun að fjárhæð 551.657 krónur. Kemur fram að stefndi hafi orðið þess áskynja að þrátt fyrir riftun ráðningarsamnings, sem samkvæmt bréfi bæjarstjóra tók gildi við dagsetningu bréfsins, þ.e. 27. maí 2016, hafi stefnandi fyrir mistök fengið greidd laun við útborgun launa 1. júlí og 1. ágúst 2016.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi krefst skaða- og miskabóta úr hendi stefnda með vísan til þess að riftun stefnda á ráðningarsamningi stefnanda hafi verið ólögmæt. Stefnandi hafi orðið fyrir tjóni í form tekjumissis enda hafi hann ekki getað aflað sér sambærilegs starfs. Einnig verði að ætla að stefnandi hafi takmarkaða möguleika á að afla sér sambærilegs starfs í framtíðinni þegar litið sé til aldurs, búsetu, starfsreynslu og menntunar hans. Samkvæmt þessu séu skilyrði sakarreglunnar um ólögmæti, tjón og orsakatengsl uppfyllt í máli þessu.

                Stefnandi byggir á því að ákvörðun stefnda um lausn stefnanda frá störfum hafi verið stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verði ákvörðunin því að vera í samræmi við skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttar, auk þess sem kjarasamningur milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og SFR hafi gilt um ráðningarsamband aðila. Samkvæmt kjarasamningunum skal uppsögn byggjast á málefnalegum ástæðum, sbr. grein 11.1.6.1. Þá sé heimild stefnda til að víkja starfsmanni fyrirvaralaust úr starfi jafnframt bundin við þau tilvik þegar starfsmaður verið uppvís um „gróft brot í starfi“ og að áframhaldandi viðvera hans á staðnum valdi „skaða fyrir starfsemina, aðra starfsmenn eða viðskiptavini.“ Vísar stefnandi til þess að hvorugt hafi átt við í tilviki stefnanda.

                Stefnandi byggir dómkröfu sína á því í fyrsta lagi að hann hafi ekki orðið  orðið uppvís að „grófu broti“ í starfi sem sé skilyrði fyrirvaralausrar riftunar á ráðningarsambandi. Stefnandi mótmælir að orðræða hans eða athafnir umrætt sinn hafi verið of harkalegar og vísar stefnandi í því sambandi til langrar starfsreynslu og þess að hann viti hvernig eigi að bregðast við vissum kringumstæðum. Hafnar stefnandi því að hann hafi öskrað á íbúanna, hent honum í gólfið eða sparkað í bak hans og vísar stefnandi í því sambandi til dóms Héraðsdóms Suðurlands frá 10. maí 2016. Þá hafnar stefnandi því að íbúinn hafi fengið áverka umrætt sinn af völdum stefnanda enda hafi komið fram í framburði Jóhönnu Hólmfríðar Óskarsdóttur í áðurnefndum dómi, að umræddur íbúi hafi verið með „lélegar fætur“ og „dettin“. Hafnar stefnandi því að umrætt atvik hafi réttlætt riftun á ráðningarsamningi stefnanda.

                Stefnandi byggir dómkröfu sína í öðru lagi á því að stefndi hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993, enda hafi riftunin verið byggð á framburði samstarfsmanns stefnanda sem ekki hafi verið vitni að atvikinu og atvikaskráning umrædds starfsmanns hafi aldrei verið borin undir stefnanda. Auk þess hafi stefndi ákveðið að bíða ekki eftir niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands og þá hafi enginn á vegum stefnda verið viðstaddur aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn stefnanda.

                Stefnandi byggir dómkröfu sína í þriðja lagi á því að ákvörðun stefnda um riftun ráðningarsamningsins hafi byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum og þar með brotið gegn ólögfestri réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins og grein 11.1.6.1 í kjarasamningi stefnanda. Stefndi hafi tekið ákvörðun um að áminna vegna umrædds atviks og engin skilyrði hafi verið fyrir hendi til að afturkalla þá ákvörðun, sbr. 25. gr. laga nr. 37/1993. Jafnframt hafi stefndi tekið ákvörðun um að senda stefnanda í leyfi meðan mál hans var til rannsóknar hjá viðeigandi stjórnvöldum en engar nýjar upplýsingar hafi legið fyrir þegar ráðningarsamningnum hafi verið rift. Því hafi verið um geðþóttaákvörðun að ræða og um leið brot gegn réttmætisreglunni og áðurnefndrar 25. gr.

                Loks byggir stefnandi dómkröfu sína á því að ákvörðun stefnda hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Stefnandi, sem hafi verið með langa starfsreynslu og aldrei verið áminntur vegna starfa sinni, hafi eingöngu verið að sinna sínu starfi umrætt sinn. Stefndi hefði því getað áminnt stefnanda, ekki síst í ljósi þess að hann hafi verið sýknaður af tilhæfulausri ákæru.

                Við mat á fjártjóni stefnanda verði til þess að líta að stefnandi naut lögfestra og ólögfestra réttinda stjórnsýsluréttar. Því hafi stefnandi mátt vænta þess að halda starfi sínu til venjulegra starfsloka opinbers starfsmanns svo lengi sem starfseminni yrði haldið áfram á vegum stefnda og stefnandi ekki gerst brotlegur í starfi. Einnig verði við mat á fjártjóni stefnanda að líta til aldurs hans, starfsreynslu, menntunar og búsetu. Atvinnumöguleikar 67 ára manns í Þorlákshöfn og nágrenni séu því miður fáir með tilliti til starfsreynslu og menntunar stefnanda. Stefnandi hafi að baki 25 ára starfsreynslu við umönnun fatlaðra en ákvörðun stefnda um riftun hafi leitt til þess að atvinnumöguleikar stefnanda á þessu sviði séu mjög takmarkaðir, nánast útilokaðir. Þannig svari skaðabótakrafa stefnanda til fjártjóns vegna tvöfaldra árslauna stefnanda, samtals kr. 12.692.396. Miðað sé við 6.346.198 króna árslaun stefnanda árið 2015. Krafan sé sett fram á hefðbundinn hátt en samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar beri að ákvarða fjártjónsbætur að álitum með tilliti til allra atvika með það að leiðarljósi að tjónþoli fái bætt sitt tjón.

                Stefnandi geri kröfu um 1.500.000 krónur í miskabætur með vísan til b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Vísar stefnandi til þess að riftunin og hvernig að henni hafi verið staðið hafi falið í sér meingerð gegn æru og persónu stefnanda enda hafi engar málaefnalegar ástæður verið að baki ákvörðuninni. Út á við hafi riftunin borið þess merki að stefnandi hafi gerst sekur um refsiverðan verknað þrátt fyrir að hafa verið sýknaður í héraðsdómi af tilhæfulausri ákæru. Að því virtu hversu alvarlega hafi verið vegið að starfsheiðri stefnanda sé krafan hófleg.

                Um dráttarvexti er vísað til III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Upphafsdagur vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna miðist við þá dagsetningu þegar ráðningarsamningi stefnanda hafi verið rift og dráttarvaxtakrafa miðist við 3. mgr. 5. gr. laganna en stefndi hafi verið upplýstur um ólögmæti riftunarinnar með tölvupósti 31. maí 2016. Um málskostnað vísar stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá sé stefnandi ekki virðisaukaskattsskyldur og eigi hann því ekki frádráttarrétt við greiðslu virðisaukaskatts.

Málsástæður og lagarök stefnda

Til stuðnings kröfu sinni um sýknu sem og réttar stefnda til að segja stefnanda upp starfi með bréfi 27. maí 2016, vísar stefndi til gr. 11.16.1 í kjalsamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og SFR, þ.e. að heimilt sé að segja upp starfsmanni séu fyrir því málefnalegar ástæður sem og ef starfsmaður verði uppvís að grófu broti í starfi enda valdi viðvera hans á vinnustað áframhaldandi skaða fyrir starfsemina, aðra starfsmenn eða viðskiptavini. Hagi þannig til skuli víkja starfsmanni úr starfi fyrirvaralaust. Telur stefndi að áðurnefnt ákvæði eigi ekki síst við í þeim tilvikum þegar sýna þurfi tillitssemi gagnvart öðrum starfsmönnum eða viðskiptavinum/skjólstæðingum stefnda.

Stefndi telur uppsögnina hafa verið málefnalega sem og að stefnandi hafi orðið uppvís að grófu broti í starfi og að áframhaldandi vera hans hefði valdið skaða fyrir starfsemina, aðra starfsmenn og skjólstæðinga sambýlisins. Í þessu sambandi skipti það engu þótt stefnandi hafi verið sýknaður af ákæru um líkamsárás enda hafi þar verið um sakamál að ræða þar sem gerðar séu mun ríkari sönnunarkröfur en í einkamálum. Byggir stefndi á því að stefnandi hafi brotið gegn starfsskyldum sínum með grófum hætti enda verði að hafa í huga að starf með fötluðum sé viðkvæmt starf sem krefst oft náins sambands milli starfsmanns og skjólstæðings sem verði að byggja á gagnkvæmri virðingu og trausti, sbr. og lög nr. 59/1992 og reglugerðir settar með stoð í þeim lögum. Að mati stefnda hafi stefnandi gengið alltof langt þegar komið hafi að því að fá íbúann til að gegna fyrirmælum hans. Í starfi eins og stefnandi hafi sinnt eigi aldrei að ganga eins langt í starfi og stefnandi hafi gert og vísar stefndi í því sambandi til þeirra áverka sem lýst sé í læknisvottorði sem gefið hafi verið út eftir rannsókn læknis á íbúanum. Þá vísar stefndi til þess að hvað teljist sannað um framangreind atriði geti líklega oltið nokkuð á munnlegum skýrslum fyrir dómi.  

Stefndi kveður framangreinda háttsemi stefnanda hafa leitt til þess að rofinn hafi verið trúnaður og traust milli hans og íbúans og eðli málsins samkvæmt  einnig grafið undan trausti sem aðrir skjólstæðingar sambýlisins verði að geta haft til starfsmanna. Sama gildi um traust og trúverðugleika stefnanda gagnvart samstarfs- og yfirmönnum sínum. Því hafi verið einsýnt að áframhaldandi viðvera stefnanda á vinnustaðnum hefði komið til með að skaða starfsemina, aðra stafsmenn og íbúa sambýlisins. Þá hafi tíminn og reynslan leitt í ljós að stefnandi hafi ekki getað átt afturkvæmt, enda ljóst að verulegt vantraust hafi ríkt enn í hans garð, jafnvel þótt margir mánuðir væru liðnir frá umræddu atviki. Einnig hefði það valdið verulegum álitshnekki út á við, t.d. gagnvart vandamönnum skjólstæðinganna og öðrum íbúum sveitarfélagsins, ef starfsmaður sem hefði valdið skjólstæðingum sínum áverkum gæti hafið störf að nýju. Því hafi stefnda verið skylt samkvæmt áðurnefndri grein kjarasamningsins að segja stefnanda upp störfum. Í öllu falli hafi honum verið það heimilt þar sem uppsögnin byggði á málefnalegum ástæðum. Þá sé einnig á því byggt að háttsemi stefnanda hafi, með vísan til framangreindra sjónarmiða, falið í sér verulega vanefnd á ráðningarsamningi aðila sem hafi heimilað stefnda að rifta samningnum.

Stefndi hafnar því að hafa brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins. Atvik máls hafi verið fremur einföld, um hafi verið að ræða afmarkaðan atburð sem vitni hafi verið að. Stefndi hafi vandað til verka við að upplýsa málið og hafi m.a. óskað eftir sjónarmiðum stefnanda sem hann hafi komið á framfæri skriflega með bréfi, dags. 9. maí 2016, og hafi þau verið skoðuð áður en endanleg ákvörðun um brottreksturinn hafi verið tekin 27. maí sama ár. Stefndi hafnar því að brottvikningin hafi eingöngu byggst á framburði starfsmanns sem ekki hafi orðið vitni að atvikinu enda óumdeilt að Berglind Hallmarsdóttir hafi verið vitni að atvikum og hafi fyrst og fremst verið horft til framburðar hennar við mat á tilefni brottvikningar. Eðli málsins samkvæmt hafi brottvikningin einnig verið byggð á framburði A sem brotaþola.

Þá er því hafnað sem röngu að stefnanda hafi verið sagt upp áður en dómur Héraðsdóms Suðurlands lá fyrir. Hið rétta sé að dómur hafi verið uppkveðinn 10. maí 2016 en stefnanda ekki sagt upp störfum fyrr en 27. sama mánaðar. Þá hafnar stefndi því að það hafi þýðingu hvort stefndi hafi verið viðstaddur aðalmeðferð málsins eða ekki, enda hafi brottvikningin ekki verið grundvölluð á niðurstöðu sakamálsins heldur á háttsemi stefnanda og broti hans á starfsskyldum sínum.

Stefndi hafnar því einnig að hafa brotið gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins enda eigi þau sjónarmið sem legið hafi til grundvallar uppsögninni stoð í kjarasamningi aðila og ákvörðunin því grundvölluð á málefnalegum forsendum. Einnig hafi verið gætt að andmælarétti stefnanda sem hafi ekki getað haft réttmætar væntingar til þess að honum yrði ekki vikið úr starfi í ljósi allra aðstæðna málsins, jafnvel þótt strax í kjölfar atviksins hafi ekki verið talin ástæða til þess að bregðast við með öðrum hætti en með áminningu. Í þessu sambandi sé til þess að líta að stefnandi hafi verið sendur í leyfi meðan á lögreglurannsókn stóð og því hafi honum hlotið að vera ljóst að háttsemi hans hefði getað haft frekari og alvarlegri afleiðingar í för með sér en áminningu. Það að víkja stefnanda úr starfi hafi ekki falið í sér afturköllun á endanlegri stjórnvaldsákvörðun, eins og stefnandi haldi fram.

Stefndi hafnar því að hafa brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Í samræmi við þau sjónarmið sem að framan hafi verið rakið hafi ekki komið til greina að ljúka málum með þeim hætti að veita stefnanda aðeins áminningu. Um hafi verið að ræða gróft brot á starfskyldum og hafi því, eins og atvikum hafi verið háttað, beinlínis verið skylda stefnda gagnvart skjólstæðingum sínum og öðrum starfmönnum að segja stefnanda upp með vísan til áðurnefndrar greinar kjarasamnings aðila.

Jafnvel þótt fallist verði á það með stefnanda að óheimilt hafi verið að segja honum upp störfum byggir stefndi á því að stefnanda hafi ekki tekist að sanna að hann hafi orðið fyrir nokkru fjárhagstjóni vegna uppsagnarinnar. Hafa verði í huga að starfsöryggi stefnanda sætti takmörkunum eins og annarra starfsmanna hjá opinberum aðilum enda hefði t.d. verið hægt að segja stefnanda upp störfum ef fækka hefði átt starfsmönnum vegna hagræðingar.

Stefndi kveður það vekja furðu að krefjast bóta tvö ár fram í tímann en málið hafi verið höfðað 26. október 2016, aðeins fimm mánuðum eftir að stefnanda var sagt upp störfum, auk þess sem stefnandi hafi notið launa allt þar til í ágúst 2016. Því hafi meint tjón stefnanda við málshöfðun ekki getað numið nema í mesta lagi tveggja mánaða launagreiðslum (1. september og 1.október 2016). Krafa stefnanda taki hins vegar að langstærstum hluta til meints tjóns til framtíðar litið. Vegna þess vakni sú spurning hvort ekki sé rétt af þeim sökum að vísa málinum frá dómi samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991. Ljóst sé að stefnandi geti á næstu tveimur árum takmarkað meint tjón sitt verulega með því að fá sér annað starf. Skorar stefndi á stefnanda að leggja fram gögn því til sönnunar að hann hafi sinnt skyldum sínum um að takmarka tjón sitt að þessu leyti. Ella verði óhjákvæmilega að sýkna stefnda.

Varðandi varakröfu vísar stefndi til þess að verði það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna ólögmætrar uppsagnar verði að lækka fjárhæð kröfunnar verulega. Minnir stefndi á að dómstólar hafi í málum sem þessu einkum dæmt bætur að álitum og komi því ekki til greina að fallast á kröfu stefnanda eins og hún sé sett fram. Jafnframt vísar stefndi til áðurnefndra sjónarmiða um starfsöryggi stefnanda, að meint fjárhagstjón hans taki að langstærstum hluta til óráðinnar framtíðar og skyldu stefnanda til að takmarka meint tjón sitt. Með vísan til framangreindra sjónarmiða geti stefnandi aldrei fengið hærri bætur en sem nemi sex mánaðar uppsagnarfresti og því aldrei hærri en 2.020.050 krónur, þ.e. 336.675 x 6. Þar sem stefnandi hafi nú þegar fengið greidd laun, án vinnuframlags, sem nema miklu hærri fjárhæð, hafi hann ekki orðið fyrir neinu tjóni, sbr. nánari útreikning sem  rakinn er í greinargerð.

Í öllu falli sé ótækt að miða bótakröfuna við meðallaun ársins 2016, sem samkvæmt stefndu eigi að vera 6.346.198 krónur, enda geti tjón stefnanda aldrei numið hærri fjárhæð en umsömdum grunnlaunum. Samkvæmt síðustu tveimur launaseðlum hafi grunnlaun stefnanda verið 336.675 krónur. Bótakrafa vegna næstu tveggja ára geti því aldrei numið hærri fjárhæð en 8.073.000 [sic] krónum, þ.e. 336.675 x 24. Því til frádráttar hljóti að koma greiðslur sem stefndi innti af hendi til stefnanda á meðan hann hafi verið í leyfi vegna lögreglurannsóknarinnar, en á þeim tíma hafi stefnandi ekkert vinnuframlag innt af hendi. Nánar tiltekið hafi verið um að ræða eftirfarandi greiðslur:

1.       1. október 2015                                         596.296 krónur.

2.       1. nóvember 2015                                     442.830 krónur.

3.       1. desember 2015                                      521.459 krónur.

4.       Áramótaútborgun                                     467.799 krónur.

5.       1. febrúar 2016                                          482.086 krónur.

6.       1. mars 2016                                              471.220 krónur

7.       1. apríl 2016                                               444.945 krónur.

8.       1. maí 2016                                539.926 krónur.

9.       1. júní 2016                                485.160 krónur.

Samtals kr.                                                         4.451.721

Einnig hljóti að koma til frádráttar á grundvelli almennra reglna um skuldajöfnuð þær greiðslur sem stefndi innti af hendi til stefnanda í tvo mánuði eftir uppsögnina, samtals að fjárhæð 832.757 krónur, enda hafi stefnanda hlotið að vera ljóst að um mistök hafi verið að ræða þar sem búið hafi verið að rifta ráðningarsamningi hans. Skaðabótakrafa stefnanda geti því aldrei numið hærri fjárhæð en 2.788.522 krónum, þ.e. 8.073.000–4.451.721–832.757 krónur.

         Þá hafnar stefndi því að lagaskilyrði séu til að fallast á miskabótakröfu stefnanda. Staðið hafi verið að uppsögn með eðlilegum hætti og stefnanda gefinn kostur á að koma á framfæri andmælum. Stefndi hafnar því alfarið að riftunin beri þess merki að stefnandi hafi gerst sekur um refsiverðan verknað. Ljóst sé að stefnandi hafi verið sýknaður af ákærunni og hafi uppsögnin ekki verið grundvölluð á niðurstöðu umrædds dómsmáls.

         Um lagarök að öðru leyti vísar stefndi til meginreglna starfsmannaréttar og meginreglna samninga- og kröfuréttarins, þ.m.t. um riftun samninga. Kröfu um málskostnað styður stefndi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Forsendur og niðurstaða

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur stefnandi, Bragi Andrésson, og vitnin Berglind Hallmarsdóttir, starfsmaður á sambýlinu að Selvogsbraut 1, og Steinunn Emilía Þorsteinsdóttir, þroskaþjálfi og forstöðumaður sambýlisins.

            Ekki er fallist á það með stefnda að málatilbúnaður stefnanda leiði til þess að máli þessu verði vísað frá dómi án kröfu.  

            Aðila málsins greinir á um brottvikningu stefnanda úr starfi stuðningsfulltrúa á sambýli fyrir fatlaða í Þorlákshöfn sem tilkynnt var stefnanda með bréfi dags. 27. maí 2016. Stefnandi vísar til þess að riftun stefnda á ráðningarsamningi stefnanda hafi verið ólögmæt og krefst skaða- og miskabóta úr hendi stefnda, sem hafnar öllum kröfum stefnanda.  

Í 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, segir að um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga fari eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og ákvæðum ráðningarsamninga. Ákvæðið kom inn með lögum nr. 45/1998, en í eldri sveitarstjórnarlögum var vísað til þess að starfsmenn sveitarfélaga hefðu réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sbr. lög nr. 38/1954. Framangreint ákvæði sveitarstjórnarlaga hefur verið túlkað svo, að einstök réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga í vinnuréttarlegum skilningi, séu í grundvallaratriðum ekki lögbundin, heldur taki mið af kjarasamningum og ráðningarsamningum eins og þeir eru á hverjum tíma. Hins vegar hefur 57. gr. einnig verið túlkuð svo að sveitarstjórnir geti ekki samið um frávik frá grundvallarreglum stjórnsýsluréttar hvort sem er í kjarasamningum eða ráðningarsamningum. Þá hefur verið á því byggt að veigamiklar ákvarðanir stjórnvalda, s.s. við uppsögn starfsmanna sveitarfélaga teljist stjórnvaldsákvarðanir í skilningi 1. gr. stjórnsýslulaga, þannig að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga gildi við uppsögn starfsmanna sveitarfélaga. Samkvæmt þessu bar stefnda við undirbúning og ákvörðun um brottvikningu stefnanda úr starfi að fara að stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

            Óumdeilt er að umrædda brottvikningu stefnanda úr starfi megi rekja til atviks sem átti sér stað að kvöldi 9. september 2015 er stefnandi var við störf á sambýlinu að Selvogsbraut 1. Fyrir dómi lýsti stefnandi atvikum þannig að hann hafi verið að fá íbúa sambýlisins, A, til að fara yfir í hennar eigin íbúð. A hafi verið í sófa og hann reynt að fá hana til að standa upp, en hún hafi brugðist ókvæða við þegar samstarfsmaður stefnanda, Berglind, hafi komið inn. Hafnaði stefnandi því að hafa veist að a með því að rífa í hönd hennar, kasta henni í gólfið og sparka í hana, en stefnandi kvaðst hafa sett fótinn í A, þ.e. ýtt aðeins við henni með hnénu, og talið að við það myndi hún standa upp. Staðfesti stefnandi þann framburð sinn sem fram kemur í dómi Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. S-464/2015, sem höfðað var gegn honum fyrir líkamsárás gegn a, þ.e. að a hafi látið sig falla á fjóra fætur og hann þá ýtt við henni með hnénu. Stefnandi kvað A hafa hækkað róminn. Það hafi hann einnig gert í samræmi við það sem honum hafi verið kennt, þ.e. að ef raddstyrkur sjúklings væri 5-6 þá ætti raddstyrkur starfsmanns að vera 6-7. 

            Vitnið Berglind Hallmarsdóttir, starfsmaður á sambýlinu, kom fyrir dóm og lýsti atvikinu í frjálsri frásögn þannig að þegar stefnandi hafi verið að fá A til að yfirgefa íbúðina, hafi hann rifið í a, þar sem hún hafi setið í sófa í stofunni, þannig að hún hafi dottið á gólfið, borð hafi þeyst til og kanna full af vatni fallið á gólfið. A hafi legið emjandi, grenjandi og öskrandi og hafi stefnandi þá reitt upp hönd gegn A og sett fótinn í hana. Við það kvaðst vitnið hafa gengið á milli.  Stefnandi og A hafi bæði verið mjög hávær og stefnandi mjög reiður. Eftir atvikið kvaðst vitnið hafi rætt við stefnanda í eldhúsi sambýlisins og spurt af hverju hann hafi sparkað í A. Stefnandi hafi þá sagt orðrétt, „ég sparkaði ekki í hana, ég sett fótinn í hana [...].“ Kvaðst vitnið ekki hafa séð betur en að stefnandi hafi sparkað  í a, en vegna framangreinds svars stefnanda verði hún að trúa að svo hafi ekki verið.  

            Meðal gagna málsins er skýrsla eða atvikalýsing, sem vitnið Berglind staðfesti fyrir dómi að hafa ritaði eigin hendi daginn eftir atvikið, en blaðið ber heitið „Minnispunktar ef upp kemur krísa“, svokallað „krísublað“. Kom fram í skýrslu vitnisins Steinunnar Emelíu Þorsteinsdóttur, forstöðumanns sambýlisins, fyrir dómi að slík minnisblöð/atvikalýsing væru notuð ef upp kæmu atvik milli íbúa sambýlisins innbyrðis og/eða milli íbúa og starfsmanna. Atvikalýsingin er undirrituð af framangreindri Berglindi og Jóhönnu H. Óskarsdóttur sem einnig var við störf á sambýlinu umrætt kvöld. Fyrir dómi var borinn undir vitnið Berglindi eftirfarandi texti í áðurnefndri atvikalýsingu: „- endar á að rífa í [...] [A, innskot dómara] henda henni á gólfið og að því ég best sá sparka í bakið – sagði sjálfur ég ýtti í hana liggjandi á gólfinu með fætinum.“ Einnig var borinn undir vitnið texti úr samantekt lögreglu af skýrslutöku af Berglindi sem vitni í lögreglurannsókn, sem fyrir liggur að hófst á umræddu atviki þann 11. september 2015, en þar segir: „Þetta hafi gerst mjög hratt, þau hafi verið að rífast og hvort hún leit eitthvað fram á ganginn þegar hún hafi litið til baka er það næsta sem hún sá hvar [A, innskot dómara] lenti á gólfinu og Bragi haldið áfram að þusa og Bragi lyft löppinni sem henni sýndist að Bragi hafi látið í [...].“ Þá var eftirfarandi samantekt lögreglu af síðari yfirheyrslu yfir Berglindi þann 23. nóvember 2015 einnig borin undir vitnið: „Aðspurð í hvor [sic] hendina [sic] Bragi hafi tekið sagðist Berglind ekki vera viss á þessari stundu, hún sagðist hafa staðið í hurðagættinni og horft bæði fram á gang og inn í íbúðina og þetta hafi verið atvik sem hún átti ekki von á.“ Vitnið var í framhaldinu innt eftir því hvort hún gæti staðfest  texta þann úr atvikalýsingu vitnisins sem vísað var til hér að framan innan tilvitnunarmerkja. Því svaraði vitnið þannig: „Sko, þegar ég lít inn þá er hann [stefnandi] með hendurnar á henni, hún er að detta, og [...] nei, ekki henda, hann henti henni ekki á gólfið, en hann reif í hana, hún fer í gólfið, nei ekki hent.“ Þá kvaðst vitnið á öllum stigum málsins hafa sagt að stefnandi hafi sparkað í A, hún hafi ekki séð betur. Ítrekað aðspurð hvort hún hafi séð stefnanda sparka í A, svaraði vitnið. „Sá hann setja fótinn í hana, hvort hann sparkaði, ég sá ekki hvort, þegar þú sparkar það er tvennt ólíkt, þú átt hvorugt að gera.“ Ítrekaði vitnið að stefnandi hafi sagt sér að hann hafi sett fótinn í A og því trúi vitnið. Fram kom í skýrslu vitnisins Steinunnar fyrir dómi að A búi við mikla andlega fötlun. Þá eigi hún erfitt með hreyfingar og sé bæði slæm í baki og fótum. Vitnið var innt eftir því hvort oft þyrfti að toga í A til að fá hana til að hlýða, eins og fram hafi komið í framburði Jóhönnu, starfsmanns sambýlisins, í áðurnefndum dómi Héraðsdóms Suðurlands í sakamálinu gegn stefnanda. Kvað vitnið Steinunn að oft þurfi „að beina A“ eins og vitnið orðaði það, en það eigi ekki að toga í hana.

            Í máli þessu eru ekki aðrir til frásagnar um samskipti stefnanda og íbúans A að kvöldi 9. september 2015 en stefnandi og vitnið Berglind Hallmarsdóttir. Framburður þeirra hefur verið rakinn hér að framan. Að mati dómsins ber nokkuð í milli í lýsingum stefnanda og vitnisins Berglindar um hið ætlaða grófa brot ákærða í starfi. Auk þess er framburður vitnisins Berglindar í máli þessu nokkuð á annan veg en hin skriflega atvikalýsing vitnisins í áðurnefndu krísublaði. Er það og mat dómsins að vitnið hafi gert heldur minna úr þætti stefnanda í framburði sínum í máli þessu en í hinni skriflegu atvikalýsingu, dags. 10. september 2015. Einnig bendir framburður vitnisins hjá lögreglu, sem kynntur var vitninu sérstaklega, til þess að vitnið hafi ekki verið í þeirri aðstöðu að sjá nákvæmlega hvað átti sér stað í umræddum samskiptum stefnanda og A. Að öllu framangreindu virtu hefur stefnda að mati dómsins ekki tekist að sanna að atvik í samskiptum stefnanda og A hafi verið með þeim hætti sem greinir í atvikalýsingu vitnisins Berglindar frá 10. september 2015. Þá er til þess að líta að með dómi Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. S-464/2015, var ekki talið sannað hvort A hafi látið sig detta á gólfið eða stefnandi þrifið í hönd hennar með þeim afleiðingum að hún féll á gólfið, en framangreindur dómur hefur fullt sönnunargildi um framangreint atriði þar til hið gagnstæða sannast, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

            Stefnandi vísar til þess að málsmeðferð stefnda við brottvikningu stefnanda úr starfi hafi falið í sér brot gegn rannsóknar- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.  Þá vísaði lögmaður stefnanda til þess í munnlegum málflutningi við aðalmeðferð málsins að í bréfi hans til bæjarstjóra stefnda, dags. 9. maí 2016, hafi verið gerður áskilnaður um ítarlegri andmæli gegn hinni fyrirhuguðu ákvörðun, teldi stefndi sér heimilt að taka ákvörðun um lok á ráðningarsambandi stefnanda, en að framangreindu var vikið í málavaxtalýsingu í stefnu. Þar sem svo hafi ekki verið gert hafi stefndi einnig brotið andmælarétt gagnvart stefnanda. Þessu hafnaði lögmaður stefnda í munnlegum málflutningi sem of seint framkominni málsástæðu. 

            Kemur þá í fyrsta lagi til skoðunar hvort stefndi hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga eins og stefnandi heldur fram en í því fellst að stefnda bar að eigin frumkvæði að upplýsa málsatvik nægilega áður en ákvörðun var tekin um brottvikningu stefnanda úr starfi. Stefndi byggir málatilbúnað sinn meðal annars á því að sýknudómur Héraðsdóms Suðurlands í málinu nr. S-464/2015 hafi ekkert að gera með það mat stefnda að stefnandi hafi brotið gróflega gegn starfsskyldum sínum í samskiptum við A að kvöldi 9. september 2015. Vísar stefndi til þess að hann byggi þá ákvörðun sína að víkja stefnanda frá störfum vegna grófs brots í starfi fyrst og fremst á atvikaskráningu vitnisins Berglindar og framburði A sjálfrar. 

            Í framburði vitnisins Steinunnar kom fram að í samráði við Maríu, yfirmann vitnisins, hafi verið ákveðið, eftir að lögreglurannsóknin hófst, að afþakka vinnuframlag stefnanda. Vitnið Steinunn var innt eftir því fyrir dómi hvort fram hafi farið rannsókn af hálfu stefnda á hinu umrædda atviki að kvöldi 9. september 2015. Kvaðst vitnið, sem eins og áður segir var á þeim tíma yfirmaður sambýlisins, hafa rætt við starfsmenn sem voru á vakt í umrætt sinn og lögreglu. Engin gögn liggja frammi í málinu um framangreinda rannsókn stefnda. Hins vegar kvaðst vitnið ekkert hafa komið að málinu eftir að hún sendi stefnanda áðurnefnt bréf dags. 8. apríl 2017. Þá hafi hún á tímabilinu frá 11. september 2015 til 8. apríl 2016, rætt við Maríu yfirmann sinn um hvað hægt væri að gera í málinu enda hafi vantað starfsmann á sambýlið og erfitt hafi verið að ráða í afleysingar. Þetta hafi verið óljóst hjá þeim í fyrstu en niðurstaðan hafi verið sú að senda stefnda umrætt bréf 8. apríl 2016. A hafi verið hrædd sem og heimilismenn og ekki hafi verið vilji af hálfu vitnisins eða yfirmanns hennar að stefnandi kæmi aftur til starfa.

            Eins og áður greinir byggði stefndi þá ákvörðun sína að víkja stefnanda úr starfi meðal annars á atvikaskráningu vitnisins Berglindar, dags. 10. september 2015, sem vitnið staðfesti fyrir dómi að hafa ritað eigin hendi. Kemur framangreint skýrlega fram í bréfi forstöðumanns sambýlisins, vitnisins Steinunnar, til stefnanda, dags. 8. apríl 2016. Í bréfinu er stefnanda tilkynnt að til skoðunar sé hvort tilefni sé til að segja honum fyrirvaralaust upp störfum vegna háttsemi sem ekki hafi samræmst starfsskyldum hans og tekið er fram að áframhaldandi viðvera hans á vinnustaðnum sé talin geta skaðað starfsemina. Þá segir að tilefnið sé atvik í samskiptum milli stefnanda og A að kvöldi 9. september 2015 og ráða má af efni bréfsins að byggt hafi verið á atvikalýsingu vitnisins Berglindar þó þess sé ekki getið sérstaklaga. Meðal annars er tilefni skoðunar á hvort víkja eigi stefnanda úr starfi þannig lýst í bréfinu: „Þú stendur yfir henni [A, innskot dómara] og öskrar á hana sem endar á því að þú rífur í íbúa hendir henni í gólfið og sparkar í bakið á henni að sögn starfsmanns sem varð vitni að atburðinum“. Við samanburð á framangreindum texta og texta atvikalýsingar vitnisins Berglindar má sjá að forstöðumaðurinn og vitnið Steinunn, hefur valið að geta þess ekki sem fram kemur í atvikalýsingunni, þ.e. að ritari þess, vitnið Berglind, setur fyrirvara varðandi ætlað spark í bak A með orðunum „að því ég best sá“. Í bréfi forstöðumannsins er athygli stefnda vakin á rétti hans til að tjá sig munnlega á fundi með yfirmönnum sveitarfélagsins, að viðstöddum fulltrúa stéttarfélags, eða bréflega. Hins vegar er í bréfinu ekki vísað til viðeigandi ákvæðis í kjarasamningi aðila. Í andmælabréfi stefnanda, dags. 9. maí 2016, var því meðal annars haldið fram að ósamræmi væri milli atvikalýsingar vitnisins Berglindar og framburðar hennar hjá lögreglu skömmu eftir atvikið. Verður ekki ráðið af bréfi stefnda til stefnanda, dags. 27. maí 2016, og framlögðum gögnum málsins að stefndi  hafi, eftir móttöku andmælabréfs stefnanda, dags. 9. maí 2016, látið fara fram frekari athugun á hinu umrædda atviki 9. september 2015. 

            Að öllu framansögðu virtu og með vísan til framburðar vitnisins Steinunnar er fallist á það með stefnanda að stefndi hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga með því að afla ekki að eigin frumkvæði nægilegra upplýsinga um þær ávirðingar sem bornar voru á stefnanda í atvikalýsingu vitnisins Berglindar áður en ákvörðun var tekin um að víkja stefnanda úr starfi. Með því braut stefndi gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

            Vitnin Berglind og Steinunn tjáðu sig um líðan íbúans A og ástandið á vinnustaðnum eftir atvikið að kvöldi 9. september 2015 í skýrslugjöf fyrir dómi. Kemur framburður þeirra til skoðunar við mat á því hvort uppfyllt hafi verið skilyrði 4. mgr. gr. 11.1.6.1 í kjarasamningi aðila um að áframhaldandi viðvera stefnanda á vinnustaðnum hefði valdið skaða fyrir starfsemina, aðra starfsmenn eða viðskiptavini. Vitnið Berglind kvað A hafa kvartað eftir atvikið og hafi hún verið mjög æst og óróleg og sé það enn. Lýsti vitnið þeirri skoðun sinni að ef stefnandi hefði komið aftur til starfa „hefði þurft að vinna hressilega í málinu“, eins og vitnið orðaði það. Í framburði vitnisins Steinunnar kom ítrekað fram að A væri enn hrædd vegna þessa atviks og liði illa eftir það og hafi það strax komið í ljós. Kvað vitnið ekki hægt að hafa starfsmann í vinnu sem íbúar sambýlisins væru hræddir við. Kom einnig fram það álit vitnisins að samkvæmt atvikalýsingu vitnisins Berglindar og lýsingum A, sem vitnið kvað hafa greint frá atburðarásinni í hlutum, hafi stefnandi gengið of langt í umrætt sinn. Hann hefði átt að leyfa A að róast og vinna úr sínum málum. A sé stundum lengi að standa upp og það verði að gefa henni tækifæri. 

            Vitnin Berglind og Steinunn lýstu fyrir dómi, eins og að framan greinir, slæmri líðan íbúans A og hræðslu eftir atvikið. Vitnið Steinunn var sérstaklega spurð hvort unnið hefði verið með A í kjölfar atviksins. Kvað vitnið svo ekki hafa verið. „A hafi ekki farið til sálfræðings né neitt svoleiðis, bara haldið sínum geðlækni“, eins og vitnið orðaði það. Hún hafi fengið að ræða atvikið eins og hún hafi viljað og hafi það stundum komið fyrir. Hins vegar staðfesti vitnið að A hafi í einhver skipti hringt í stefnanda eftir atvikið. Á sama hátt og stefnda bar að afla upplýsinga og staðreyna þær upplýsingar sem fyrir lágu um atvik að baki samskiptum stefnanda og A, bar stefnda að afla gagna þeirri fullyrðingu sinni til stuðnings að áframhaldandi viðvera stefnanda á vinnustaðnum myndi hafa skaðleg áhrif á starfsemi sambýlisins, íbúa þess og aðra starfsmenn. Þeirri rannsóknaskyldu, sem var sérstaklega brýn þar sem um var að ræða íþyngjandi ákvörðun gagnvart stefnanda, sinnti stefndi ekki á fullnægjandi hátt að mati dómsins.

            Varðandi það hvort stefndi hafi brotið meðalhófsreglu stjórnsýslulaga er til þess að líta að samkvæmt framburði vitnisins Berglindar ræddu hún og Jóhanna, samstarfsmaður hennar, við vitnið Steinunni á heimili Jóhönnu eftir vinnu að kvöldi 9. september 2015 og lýstu atvikum. Tók vitnið Berglind fram að þær hafi verið miður sín eftir atvikið. Vitnið Steinunn kvaðst í framhaldinu hafa boðað stefnanda til sín morguninn eftir og rætt við hann um atvikið, þ.e. samskipti hans við A. Komið hafi fram hjá stefnanda það mat hans að hann hafi ekkert gert af sér. Samkvæmt því sem fram kemur í niðurlagi atvikalýsingar vitnisins Berglindar má ráða að blaðið hafi ekki verið afhent vitninu Steinunni fyrr en eftir að Steinunn ræddi við stefnanda að morgni 10. september 2015. Í niðurlagi atvikalýsingarinnar segir: „Bergl. og Jóhanna kalla Steinunni forstöðumann til Jóhönnu – segja allt af létta – Steinunn talar við Braga og lætur áminningu duga.“ Er það og í samræmi við framburð vitnisins Berglindar fyrir dómi, en vitnið kvaðst hafa fengið þær upplýsingar hjá Steinunni að hún hafi áminnt stefnanda og til stæði að stefnandi kæmi aftur til vinnu. Kvaðst vitninu ekki hafa fundist það ásættanlegt. Vitnið Steinunn staðfesti að í umræddu viðtali við stefnanda að morgni 10. september 2015 hafi hún áminnt hann munnlega fyrir að ganga svona hart að A eins og vitnið orðaði það. Stefnandi staðfesti framangreint í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi. Kvað hann að rætt hafi verið um að fara hægar í sakirnar við að stoppa íbúana af. Samkvæmt þessu verður ekki annað ráðið en það hafi verið mat þáverandi yfirmanns stefnanda, vitnisins Steinunnar, eftir viðræður við vitnið Berglindi og Jóhönnu, að umrætt atvik í samskiptum stefnanda við A hafi ekki kallað á frekari aðgerðir af hálfu stefnda en munnlega áminningu. Hins vegar er ljóst af gögnum málsins, skýrslu stefnanda og framburði vitnisins Steinunnar að umrædd áminning var ekki í samræmi við fyrirmæli kjarasamnings aðila, sbr. gr. 11.1.6.2. Það er mat dómsins að með framangreindri málsmeðferð og þeim langa tíma sem leið frá því að vinnuframlag stefnanda var afþakkað þangað til stefnanda var tilkynnt að til skoðunar væri að víkja honum úr starfi, eða tæpir sjö mánuðir, án þess að nokkur rannsókn hafi átt sér stað á umræddu atviki af hálfu stefnda, hafi stefnanda verið gefnar væntingar um að hann ætti afturkvæmt í starf sitt þegar niðurstaða Héraðsdóms Suðurlands lægi fyrir. Þykir málsmeðferð stefnda að þessu leyti ekki í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. 

            Dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð stefnda allt frá því yfirmaður hans boðaði hann til viðtals að morgni 10. september 2015 þar til stefnanda var tilkynnt um að honum væri vikið úr starfi með vísan til 4. mgr. gr. 11.1.6.1 í kjarasamningi aðila, hafi farið í bága við málsmeðferðareglur stjórnsýslulaga og ákvæði kjarasamnings aðila. Uppsögnin var reist á lýsingu samstarfsmanns stefnanda á atvikum milli stefnanda og íbúa sambýlisins án þess að þær hafi verið kannaðar nægilega, auk þess sem við málsmeðferðina var ekki gætt meðalhófs.

            Stefnandi krefst skaðabóta vegna hinnar ólögmætu brottvikningar úr starfi vegna fjártjóns er svari til tvöfaldra árslauna hans hjá stefnda og miðar fjárhæðina við heildarlaun stefnanda árið 2015, eða 6.346.198 krónur. Samkvæmt framlögðum launaseðlum stefnanda á árinu 2015 voru útborguð heildarlaun hans að meðaltali tæpar 322.000 krónur á mánuði. Vísar stefndi til þess að við mat á fjártjóni stefnanda verði að líta til þess atvinnumöguleikar 67 ára manns í Þorlákshöfn og nágrenni séu fáir þegar litið sé til starfsreynslu og menntunar stefnanda, en stefnandi hafi mátt vænta þess að hann héldi starfi sínu til venjulegra starfsloka svo lengi sem starfsemin yrði áfram á hendi stefnda og stefnandi gerðist ekki brotlegur í starfi. Stefnandi upplýsti í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hafi frá 1. apríl 2016, þegar hann varð 67 ára, þegið greiðslur frá Tryggingarstofnun ríkisins og lífeyrissjóði og að hafa síðast fengið 329.000 krónur útborgaðar. Engin gögn liggja frammi í málinu varðandi framangreindar greiðslur eða réttindi stefnanda að þessu leyti. Stefndi hefur mótmælt tölulegum útreikningum stefnanda og vísar meðal annars til þess að verði fallist á það með stefnanda að stefnda hafi verið óheimilt að segja honum upp störfum, eins og það er orðað í stefnu, hafi stefnanda ekki tekist að sanna að hann hafi orðið fyrir nokkru fjárhagslegu tjóni vegna uppsagnarinnar. Með vísan til framritaðs er fallist á það með stefnda að stefnandi hafi ekki sannað fjártjón sitt.

            Stefnandi styður miskabótakröfu sína við b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Fyrir liggur að stefnandi var sýknaður af broti gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þ.e. líkamsárás gegn íbúa sambýlisins, með dómi Héraðsdóms Suðurlands 10. maí 2016. Að þeim dómi gengnum mátti stefnandi hafa væntingar til þess að hann héldi starfi sínu sérstaklega í ljósi athugasemda sem fram komu í andmælabréfi hans um réttmæti atvikalýsingar vitnisins Berglindar sem stefndi vísaði til í bréfi sínu dags. 8. apríl 2016 og þess að stefndi aflaði ekki nægilegra upplýsinga um þær ávirðingar sem bornar voru á stefnanda í atvikalýsingu samstarfsmanns hans. Eins og rakið hefur verið hér að framan var ákvörðun stefnda um brottvikningu stefnanda úr starfi ólögmæt og til þess fallin að valda stefnanda miklum álitshnekki og andlegri vanlíðan. Að mati dómsins þykja miskabætur til handa stefnanda hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Bera bæturnar vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 27. maí 2016 til 30. júní 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, en þann dag var liðinn mánuður frá því stefnandi sendi stefnda tölvupóst þar sem fram komu upplýsingar sem nægilegar voru til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. 

            Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað og telst hann hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Hilmar Gunnarsson hdl., en af hálfu stefnda flutti Víðir Smári Petersen hrl., málið.

Dóm þennan kvað upp Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Sveitarfélagið Ölfus, greiði stefnanda, Braga Andréssyni, 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. maí 2016 til 30. júní 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludag.

Stefndi greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.