Print

Mál nr. 750/2014

Lykilorð
  • Kærumál
  • Nálgunarbann

Þriðjudaginn 25. nóvember 2014

Nr. 750/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl.)

Kærumál. Nálgunarbann.

Staðfest var ákvörðun L um að X skyldi sæta nálgunarbanni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. nóvember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. nóvember 2014 þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 13. sama mánaðar um að varnaraðili skuli sæta nálgunarbanni eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, sbr. 1. gr. laga nr. 39/2012. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að nálgunarbannið taki ekki til sonar hans, en að því frágengnu að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími. Í öllum tilvikum krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. nóvember 2014.

Með kröfu, dagsettri 14. nóvember sl., sem barst dóminum sama dag, hefur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 13. nóvember sl. þess efnis að X skuli sæta nálgunarbanni í 6 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A kt. [...] og sonar þeirra B kt. [...], að [...] í [...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus. Jafnframt sé lagt bann við því að X veiti A og B eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfu lögreglustjóra verði hafnað.

Í greinargerð með kröfunni segir að þann 12. nóvember sl. hafi A leitað til lögreglu og óskað eftir nálgunarbanni á hendur X, barnsföður sínum og fyrrum sambýlismanni. Hafi A sagst óttast X en hann hafi meðan á sambúð þeirra stóð og eftir það beitt hana ofbeldi og verið með hótanir við hana. Hafi A skýrt lögreglu frá því að undanfarði hafi X verið að fylgjast með henni og birtast fyrir utan heimili hennar. Hafi A sagt að hún og X ættu eitt barn saman en hún væri með forsjá yfir barninu en umgengnismál væri í ferli hjá sýslumanni.

Þau mál og bókanir sem liggi til grundvallar ákvörðun lögreglustjóra séu eftirfarandi:

,,Mál 007-2014-[...] frá 18. júlí 2014 þar lagði A fram kæru á hendur X fyrir að ryðjast inn á heimili hennar viku áður og ráðast á hana, ógna henni með skærum, hóta að drekkja henni og neyða hana til þess að fróa sér. Á sama tíma skýrði A einnig frá ofbeldi sem hún var fyrir af hálfu X 3. júlí 2010 sem stutt er vottorði frá slysadeild en þar kemur fram að A hafi leitað á slysadeild eftir ofbeldi af hálfu sambýlismanns síns og hafi greinst með maráverka víðsvegar um líkama og rifbrot. X neitar að hafa beitt A nokkru líkamlegu ofbeldi.

Mál 007-2014-[...] frá 22.10.2014 en þar er bókað að A sé mætt á lögreglustöð til að tilkynna áreiti frá fyrrum unnusta sínum X. X hafi sent henni skilaboð um að hann væri ekki ánægður með að hún væri að hitta annan mann. Það gerði hann ekki hamingjusaman og því fengi hún ekki að vera hamingjusöm og hann muni gera allt til að stoppa það. Í framhaldi hafi hann mætt heim til vinnufélaga A, C sem hafi ekki verið heima og því ræddi X við föður C um samband hans við A.

X viðurkenndi í skýrslutöku hjá lögreglu að hafa farið að heimili C og rætt við föður hans vegna sambands C við A.

Mál 007-2014-[...] og [...] frá 26.10.2014: Fært til bókar að A tilkynni um að X, hafi verið að ónáða hana. Hefði hann nú verið fyrir utan húsið hennar og hringdi bjöllu og þá hefði hún séð hann ganga um svalirnar fyrir framan húsið hennar. Þegar lögregla kom á vettvang var X farinn. X kvaðst ekki kannast við að hafa verið utan við húsnæði A umrætt sinn.

Mál 007-2014-[...] frá 27.10.2014 þá tilkynnti A um að X hafi komið á leikskólann [...] til þess að ná í barn þeirra B en honum sé það ekki heimilt. X kannaðist við að hafa reynt að sækja barnið en þá hafi komið í ljós að hann var ekki með forsjá þess og var því ekki heimilt að taka barnið af leikskóla án samþykkis A.

Mál 007-2014-[...] frá 29.10.2014 Þar lagði A fram kæru á hendur X fyrir hótanir og húsbrot. Skýrði A frá því að þann 28.10.2014 hafi X komið að heimili hennar og B sonur þeirra farið til dyra. X hafi ýtt hurðinni upp og komið inn óboðinn og hafi viljað tala við hana. A kvaðst hafa sagt honum að hún vildi tala við hann á stigaganginum en hann hafi ekki viljað það. X hafi byrjað að ræða drenginn þeirra en síðan farið að spyrja hvort hún væri að hitta einhvern. Hún kvaðst hafa sagt honum að láta þann mann í friði. X hafi þá farið að hlægja og sagst ætla að stúta vini hennar. A kvaðst tilkynna hann til lögreglu, en hann hafi þá sagt henni að þegja annars gæfi hann henni á kjaftinn. A kvaðst þá hafa orðin hrædd og ekkert sagt annað en biðja hann að fara úr íbúðinni. Hann hafi ekki farið fyrr en eftir 20-30 mínútur þrátt fyrir að hún hafi gert honum grein fyrir því að hann væri ekki velkominn. X viðurkennir að hafa komið heim til A umrætt sinn en hann hafi aðeins viljað hitta son þeirra og ræða hann við A.

Mál 007-2014-[...] frá 29.10.2014 þar óskar A eftir aðstoð að heimili sínu vegna X sem kominn er inn á sameign hússins og hamast á hurð íbúðar hennar. Að sögn A hafði X elt hana þegar hún var að koma frá lögreglustöð eftir að hafa gefið skýrslu vegna fyrri mála þeirra. A sagði að X hefði komst á stigaganginn og staðið við hurð hennar og verið að berja hurðina og reyna að fá hana til að opna. Þegar lögregla kom á vettvang var X farinn en A sjáanlega í miklu uppnámi. X sagði að A hefði líklega beðið hann að koma umrætt sinn til að sækja dót sem hann átti hjá henni. Kannaðist ekki við málið að öðru leyti.

Mál 007-2014-[...] frá 11.11.2014 þá tilkynnir A um að X hafi numið á brott barn þeirra án hennar leyfis. A sagði að X hefði birst fyrir utan blokkina þegar hún var að fara með B á leikskólann. Bar hún að X hefði hrifsað af sér drenginn og sagt henni að hún myndi aldrei sjá hann aftur. Hann hafi síðan ekið á brott. Stuttu seinna birtist hann með drenginn á leikskólann og skildi hann þar eftir hjá starfsmönnum og sagði að A hefði sent sig með drenginn. X viðurkennir að hafa tekið drenginn af móðurinni og farið með hann í leikskólann en neitar að hafa haft í hótunum um að hún myndi ekki sjá barnið aftur.“

Þá séu meðal gagna málsins útprentanir á samskiptum X og A þar sem fram komi að X sé að missa alla þolinmæði, að hann hafi engu að tapa og að hann hafi hug á að nauðga brotaþola.

Í ljósi ofangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt að því leyti að hætta sé á að X muni halda áfram að raska friði A og sonar þeirra í skilningi ákvæðisins njóti hann fulls athafnafrelsis. Sé ekki talið sennilegt að friðhelgi þeirra verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa. Sé ítrekað að krafan nái fram að ganga.

Af hálfu lögreglunnar hafa verið lögð fram afrit rannsóknargagna sem eru tilefni ákvörðunar lögreglustjóra 13. nóvember sl. um að varnaraðili skuli sæta nálgunarbanni. Fallist er á með lögreglustjóra að framlögð gögn beri með sér að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa raskað friði brotaþola á þann hátt að heimilt sé, til að vernda friðhelgi hennar, að banna varnaraðili að nálgast brotaþola. Meðal gagna málsins eru skilaboð sem eru hótanir í garð brotaþola og ennfremur lögregluskýrslur sem gefa eindregið til kynna að að varnaraðili hafi ofsótt brotaþola. Gögn málsins benda til þess að hætta sé á að varnaraðili haldi áfram að brjóta gegn brotaþola. Þá verður jafnframt tekið undir það mat lögreglustjóra að ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði verndað með öðrum hætti en að varnaraðili sæti nálgunarbanni. Varnaraðili hefur í tvígang beint háttsemi sinni að syni aðila, B, og verður því einnig fallist á nálgunarbann gegn honum. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af gögnum málsins er fallist á með lögreglustjóra að fullnægt sé skilyrðum a og b liðar 4. gr. laga númer 85/2011 um heimild til að beita varnaraðili nálgunarbanni, enda er ekki sennilegt að friðhelgi brotaþola verði verndað á annan hátt, sbr. 6. gr. sömu laga. Ekki þykir efni til að marka nálgunarbanni skemmri tíma en hér er ákveðið.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl, og réttargæslumanns brotaþola, Kolbrúnar Garðarsdóttur hdl., ákveðst 125.500 krónur til hvors um sig.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ.

 Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 13. nóvember 2014 um að X skuli sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A og sonar þeirra B að [...] í [...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus. Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili veiti A og B eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl, og réttargæslumanns brotaþola, Kolbrúnar Garðarsdóttur hdl., ákveðst 125.500 krónur til hvors um sig.