- Refsivist
- Fangelsi
- Agaviðurlög
- Miskabætur
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
- Gjafsókn
|
Fimmtudaginn 1. febrúar 2001. |
Nr. 271/2000. |
Jón Andri Júlíusson(Hilmar Ingimundarson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Refsivist. Fangelsi. Agaviðurlög. Miskabætur. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi. Gjafsókn.
J, refsifangi í fangelsinu að Litla-Hrauni, var látinn sæta agaviðurlögum eftir að 21 g af hassi fannst við leit í klefa hans. Lögreglunni á Selfossi var gert viðvart eftir að fíkniefnin fundust og var í framhaldinu höfðað opinbert mál á hendur J. J var sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í málinu og var dómi héraðsdóms ekki áfrýjað. Stefndi J þá íslenska ríkinu og krafðist miskabóta. Byggði hann á því að hann hefði ranglega verið látinn sæta viðurlögum fyrir ætlað agabrot sem hann hefði síðan verið sýknaður af með dómi í opinberu máli. Þar sem ákvörðun um agaviðurlög hafði hvorki verið tekin í tengslum við rannsókn eða meðferð opinbers máls né á grundvelli slíkrar rannsóknar, og stoð fyrir henni var ekki sótt til laga nr. 19/1991, var ekki talið að XXI. kafli þeirra gæti tekið til kröfu um bætur vegna þeirra. Var málsókn J, sem eingöngu var studd við ákvæði XXI. kafla laga nr. 19/1991, því ekki talin reist á viðhlítandi lagagrunni. Af þeim sökum og þar sem reifun J á sakarefni var í ýmsum atriðum áfátt var málinu sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júlí 2000. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér aðallega 2.000.000 krónur, en til vara lægri fjárhæð, með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 9. júlí 1998 til 12. ágúst 1999, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.
I.
Málið á rætur að rekja til þess að í fangelsinu að Litla-Hrauni var að kvöldi 8. júlí 1998 gerð leit í fangaklefa áfrýjanda, en hann var þá að afplána refsidóm. Við leitina fannst um 21 g af hassi. Varðstjóri við fangelsið tók af þessu tilefni skýrslu af áfrýjanda daginn eftir. Aðspurður um hvar hann hafi fengið þessi fíkniefni kvaðst áfrýjandi ekki geta tjáð sig um það. Hann neitaði eindregið að hafa átt þau og sagðist ekki geta svarað hverjum þau tilheyrðu. Í lok skýrslunnar var áfrýjandi spurður hvort hann vildi tjá sig frekar um málið. Hann svaraði því með eftirfarandi orðum: „Ég vil benda á að ég vissi ekki hvað mikið magn um var að ræða, ég hélt að þetta væru 10 grömm eins og ég sagði Jóhannesi og Don í gær þegar þeir töluðu við mig.“ Mennirnir, sem áfrýjandi nafngreindi í tilvitnuðum orðum, voru deildarstjóri og öryggisfulltrúi við fangelsið, en þeir önnuðust leitina í fangaklefanum. Síðar þennan dag var áfrýjanda birt ákvörðun forstöðumanns fangelsisins um agaviðurlög. Í henni voru framangreind atvik rakin í stuttu máli og síðan vísað til þess að í húsreglum fyrir fanga á Litla-Hrauni, sem væru þeim öllum aðgengilegar, kæmi meðal annars fram að þeim væri óheimilt að afla sér, veita viðtöku eða aðstoða aðra fanga við að komast yfir hvað eina, sem bannað væri að nota í fangelsinu, svo sem áfengi, lyf, fíkniefni, áhöld og verkfæri, en brot á þessu varði agaviðurlögum. Ljóst þætti að áfrýjandi hefði brotið gegn þessu ákvæði með því að hafa umrædd fíkniefni í klefa sínum. Á þessum grunni var ákveðið að áfrýjandi skyldi sæta agaviðurlögum samkvæmt 31. gr. laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist, sbr. 2. gr. laga nr. 31/1991 og 4. gr. laga nr. 123/1997. Fólust viðurlögin í einangrunarvist frá 9. til 23. júlí 1998, þar sem aðgangur fengist ekki að sjónvarpi, sviptingu helmings vinnulauna eða dagpeninga frá 9. júlí til 7. ágúst sama árs og síma-, bréfa- og sendingabanni á sama tímabili, auk þess sem áfrýjandi skyldi frá 9. júlí til 6. október 1998 aðeins mega fá heimsókn einu sinni í viku, eina klukkustund í senn, „án snertingar í sérstöku heimsóknarherbergi í öryggisálmu fangelsisins.“ Óumdeilt er að áfrýjanda var við birtingu þessarar ákvörðunar kynnt heimild sín til að kæra hana til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Það gerði hann ekki og lét viðurlögin yfir sig ganga.
Fyrir liggur í málinu að í framhaldi af birtingu ákvörðunarinnar um agaviðurlög tilkynnti deildarstjóri við fangelsið að Litla-Hrauni lögreglunni á Selfossi um fund fíkniefna í fangaklefa áfrýjanda. Sama kvöld tók lögreglan skýrslu af áfrýjanda, sem kvaðst þar ekki geta tjáð sig um þetta atvik, hann hvorki ætti fíkniefnin né vissi hver ætti þau og vildi ekkert frekar segja um sakarefnið. Tók lögreglan fíkniefnin í sínar vörslur. Opinbert mál var höfðað á hendur áfrýjanda með ákæru 30. nóvember 1998 fyrir fíkniefnalagabrot, sem hann var borinn sökum um að hafa drýgt með því að hafa 8. júlí sama árs haft í vörslum sínum 20,8 g af hassi í nánar tilgreindum fangaklefa í fangelsinu að Litla-Hrauni. Undir rekstri þess máls gaf áfrýjandi skýrslu fyrir dómi, þar sem hann meðal annars neitaði allri vitneskju um fíkniefnin, sem hann taldi að einhver samfangi hans hlyti að hafa falið í fangaklefanum. Í dómi Héraðsdóms Suðurlands 19. febrúar 1999 var áfrýjandi sýknaður í málinu, þar sem ekki þótti alveg unnt að útiloka að fíkniefnunum hafi verið komið fyrir í klefa hans, en þar með væri ekki „komin fram alveg lögfull sönnun fyrir sekt hans“, eins og sagði í forsendum dómsins. Þessum dómi var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.
II.
Áfrýjandi höfðaði mál þetta með héraðsdómsstefnu 12. ágúst 1999 til heimtu miskabóta ásamt vöxtum og málskostnaði. Í henni sagði eftirfarandi um málsástæður og lagarök fyrir kröfu áfrýjanda um miskabætur: „Mál þetta er höfðað á grundvelli XXI. kafla l. nr. 19/1991 og er krafa stefnanda um bætur fyrir miska, þar sem hann er ranglega látinn sæta viðurlögum (refsingu) fyrir meint agabrot, sem hann er síðan sýknaður af með dómi í opinberu máli. Vísast í þessu efni aðallega til 175. gr. og 177. gr. l. nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.“
Áfrýjandi sætti áðurnefndum agaviðurlögum við afplánun refsidóms í fangelsinu að Litla-Hrauni, en um þau tók forstöðumaður fangelsisins stjórnvaldsákvörðun á grundvelli 31. gr. laga nr. 48/1988 með áorðnum breytingum. Þótt ætluð háttsemi áfrýjanda, sem varð tilefni viðurlaganna, hefði getað varðað refsingu, var ákvörðunin um þau hvorki tekin í tengslum við rannsókn eða meðferð opinbers máls né á grundvelli slíkrar rannsóknar. Stoð fyrir ákvörðuninni var heldur ekki sótt til laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þegar af þeirri ástæðu geta ákvæði XXI. kafla þeirra laga, eins og þeim hefur verið breytt með lögum nr. 82/1998 og 36/1999, ekki tekið til kröfu um bætur vegna þessara agaviðurlaga, hvorki beint né með lögjöfnun. Að þessu gættu er málsókn áfrýjanda, sem eins og áður greinir er eingöngu studd við ákvæði XXI. kafla laga nr. 19/1991, ekki reist á viðhlítandi lagagrunni. Málatilbúnaður hans er að auki háður þeim annmarka að reifun sakarefnisins er í ýmsum atriðum áfátt. Vegna þessa verður ekki komist hjá að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi, en rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Málinu er vísað frá héraðsdómi.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda, Jóns Andra Júlíussonar, skal vera óraskað. Allur gjafsóknarkostnaður hans fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 150.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. apríl 2000.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 5. apríl sl., er höfðað með stefnu, sem árituð er um birtingu 12. ágúst sl.
Stefnandi er Jón Andri Júlíusson, kt. 220375-3669, Maríubakka 26, Reykjavík.
Stefndi er íslenska ríkið og er dóms- og fjármálaráðherrum stefnt fyrir þess hönd.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 9. júlí 1998 til stefnubirtingardags en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál en stefnanda var veitt gjafsókn með bréfi dómsmálaráðuneytisins 20. september sl.
Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
II
Málavextir eru þeir að á árinu 1998 var stefnandi í afplánun í fangelsinu á Litla- Hrauni. Samkvæmt gögnum frá fangelsinu vaknaði sá grunur síðdegis 8. júlí 1998 að stefnandi hefði fíkniefni í klefa sínum. Fangelsisyfirvöld ákváðu að leita í klefanum og við þá leit fannst 21,1 g af efni, sem við prófun reyndist vera kannabis. Í skýrslum fangavarða kemur fram að stefnandi hafi viðurkennt fyrir þeim að hafa verið með fíkniefni í klefa sínum, undir rúmdýnu. Fangaverðir tóku skýrslu af kærða 9. júlí og þá neitaði hann því að hafa átt þetta efni.
Eftir að fangaverðir höfðu leitað í klefa stefnanda og tekið af honum skýrslu, eins og að framan er rakið, var honum gert að sæta agaviðurlögum í fangelsinu. Þau fólust í því í fyrsta lagi að hann var einangraður í 15 daga, frá og með 9. júlí til 23. júlí 1998, en á meðan einangrun varir hafði stefnandi ekki aðgang að sjónvarpi. Í öðru lagi var hann sviptur vinnulaunum/dagpeningum að hálfu í 30 daga frá og með 9. júlí. Í þriðja lagi var hann í síma- bréfa- og sendingabanni í 30 daga frá og með sama tíma og loks áttu heimsóknir til stefnanda að fara fram án snertingar í sérstöku heimsóknarherbergi í öryggisálmu fangelsisins á tímabilinu frá og með 9. júlí til og með 6. október. Tímalengd og tíðni heimsókna var 1 klst einu sinni í viku. Ákvörðun um þessi agaviðurlög var birt stefnanda síðdegis 9. júlí og honum jafnframt skýrt frá því að hann gæti kært ákvörðunina til dómsmálaráðuneytisins. Stefnandi sætti sig við þessa ákvörðun og tók út að fullu þau viðurlög sem lögð voru á hann með henni.
Málinu var vísað til lögreglunnar á Selfossi, sem yfirheyrði kærða 9. júlí síðdegis og ítrekaði hann þá að hann neitaði að eiga kannabisefnið.
Sýslumaðurinn á Selfossi gaf út ákæru á hendur stefnanda 30. nóvember 1998 þar sem honum var gefið að sök brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa í vörslu sinni 20,8 g af hassi í klefa sínum í fangelsinu á Litla Hrauni. Dómur gekk í máli þessu 19. febrúar 1999 og var ákærði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um bætur fyrir að hafa verið látinn sæta þessum agaviðurlögum að ósekju. Stefndi hefur hafnað því að stefnanda beri bætur.
III
Stefnandi byggir miskabótakröfu sína á því að hann hafi verið látinn sæta viðurlögum að ósekju og þau hafi verið sér sérstaklega þungbær. Þetta eigi einkum við um einangrunarvistunina svo og takmörkun á heimsóknum til hans. Stefnandi kveðst vera fjölskyldumaður og eiga 2 börn með konu sinni.
Stefnandi byggir málssókn sína á XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Vísar hann í því efni sérstaklega til 175. og 177. gr. laganna. Hann byggir auk þess á því að hann hafi ranglega verið látinn sæta viðurlögum fyrir meint agabrot, sem hann hafi síðar verið sýknaður af með dómi í opinberu máli.
IV
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi réttilega verið látinn sæta agaviðurlögum í samræmi við ákvæði 31. gr. laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist. Agaviðurlögin hafi verið stjórnvaldsákvörðun og hún hafi verið tekin af þar til bærum yfirvöldum. Bendir stefndi á að grundvöllur hennar hafi verið sá að hass hafi fundist í klefa stefnanda, eins og rakið var, og hann hafi játað við óformlega yfirheyrslu tveggja starfsmanna fangelsisins að hann hefði haft fíkniefni inni í klefa sínum. Ákvörðuninni um agaviðurlögin hafi í engu verið áfátt, hvorki að efni til eða formi. Samkvæmt reglum fangelsisins sé óheimilt að hafa fíkniefni undir höndum og brot á þessum reglum varði agaviðurlögum. Ákvörðunin um þau hafi verið tekin á formlegan hátt og hún birt stefnanda með því að ákvörðunarorðið hafi verið lesið yfir honum og honum afhent afrit af ákvörðuninni. Þá hafi honum verið gerð grein fyrir að hægt væri að kæra ákvörðunina til dómsmálaráðuneytisins en það hafi stefnandi ekki gert. Málsmeðferð fangelsisyfirvalda hafi verið í samræmi við ákvæði laga um fangelsi og fangavist svo og í samræmi við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.
Stefndi heldur því fram að rétt hafi verið að láta stefnanda sæta agaviðurlögum enda hafi hann framið brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, ákvæðum laga um fangelsi og fangavist, svo og reglum fangelsisins. Hér hafi verið um ólögmætt framferði af hálfu stefnanda að ræða og breyti engu um það þótt hann hafi verið sýknaður af ákæru síðar. Stefndi kveður sýknudóminn reistan á 45. gr. laganna um meðferð opinberra mála og telur að dómurinn hafi ekki talið alveg nægar sönnur hafa verið færðar fram fyrir sekt stefnanda, þótt líkur væru til hennar. Ekkert sé því til fyrirstöðu að beitt sé bæði agaviðurlögum og refsingu fyrir sama brotið.
Stefndi byggir á því að stefnanda hafi verið leiðbeint um kæruheimild til dómsmálaráðuneytisins vegna ákvörðunarinnar en stefnandi hafi ekki kært hana. Telur stefndi að þetta verði að skilja sem svo að stefnandi hafi talið sig verðskulda viðurlögin og talið litlar líkur á að þeim yrði breytt af hálfu ráðuneytisins. Þá bendir stefndi á að agaviðurlög séu úrræði sem fangelsisyfirvöldum séu heimil að lögum til þess að halda uppi aga og reglu í fangelsum. Oft þurfi að beita þessum viðurlögum án mikils dráttar svo þau komi að gagni. Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi höfðað mál sitt á grundvelli XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála og vísi þar einkum til 175. og 177. gr. þeirra. Stefndi bendir á að agaviðurlög eigi ekki undir nefndan kafla laganna, sem kveði á um bótarétt sakaðra manna. Þar sé fjallað um rannsóknaraðgerðir í þágu opinbers máls en agaviðurlög í fangelsum geti ekki átt þar undir. 175 gr. geti ekki átt við þar sem undan ákvæðinu sé dregin refsivist, sem frelsisskerðing.
Verði hins vegar talið að bótakrafa stefnanda geti eftir eðli sínu oltið á ákvæðum nefnds kafla laganna um meðferð opinberra mála, mótmælir stefndi því að skilyrði ákvæða kaflans séu uppfyllt. Í fyrsta lagi byggir stefndi á því að miða beri lagaskil við það er agaviðurlög voru ákveðin og stefnandi sætti þeim. Það hafi verið áður en lög nr. 36/1999, um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, tóku gildi 1. maí 1999. Ekki sé uppfyllt það skilyrði b. liðar 1. mgr. 175. gr. þágildandi laga um að fremur megi telja stefnanda hafa verið saklausan af vörslum fíkniefna í klefa sínum en að hann hafi verðskuldað agaviðurlögin. Skilyrði a. liðar 1. mgr. 175. gr. eru heldur ekki uppfyllt þar sem stefnandi hafi orðið uppvís að ólögmætu framferði með vörslu fíkniefna í klefa sínum, svo sem hann hafi játað fyrir fangavörðum.
Verði hins vegar talið að úrlausn málsins velti á lögunum um meðferð opinberra mála, svo sem þeim var breytt með framangreindum lögum nr. 36/1999, vísast til 175. gr. þeirra, svo breyttri með því að fella beri bætur niður þar sem stefnandi hafi valdið og stuðlað að ákvörðun um agaviðurlögin. Þá er einnig byggt á því að lögmæt skilyrði hafi verið til agaviðurlaga sem tilefni hafi verið til að beita. Þær hafi ekki verið framkvæmdar á hættulegan, særandi, eða móðgandi hátt og því séu skilyrði 176. gr. sömu laga ekki uppfyllt.
Þá byggir stefndi enn fremur á því að ákvæði 177. gr. laganna um meðferð opinberra mála geti ekki stutt bótakröfuna. Stefnandi hafi ekki sætt saklaus refsingu í skilningi þessa ákvæðis heldur agaviðurlögum á meðan hann afplánaði refsingu samkvæmt dómi. Hugtakið refsing í því ákvæði verður ekki skilið öðru vísi en að þar sé átt við refsingu samkvæmt dómi, en ekki agaviðurlög.
Loks bendir stefndi á að við meðferð máls þessa hjá fangelsisyfirvöldum hafi andmælareglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verði gætt, svo og hafi rannsóknarregla sömu laga verið virt.
V
Stefnandi kveður mál þetta höfðað á grundvelli XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Af málsástæðum hans má þó ljóst vera að hann er ekki að sækja bætur sem sakborningur, er hefur verið látinn sæta einhverju því, sem þessi kafli laganna fjallar um. Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir því að fangaverðir fundu rúmlega 20 grömm af hassi í fangaklefa stefnanda á Litla-Hrauni í júlí 1998 og í framhaldi af því lögðu fangelsisyfirvöld á hann agaviðurlög, sem hann tók út að fullu. Stefnandi neitaði sök og var sýknaður af ákæru, eins og rakið var. Í þessu máli er stefnandi að krefja stefnda um miskabætur vegna agaviðurlaganna, sem hann telur að hafi verið lögð á hann saklausan. Þrátt fyrir að lagagrundvöllur stefnunnar mætti vera skýrari eru ekki efni til að vísa málinu frá dómi, enda kröfugerðin ákveðin og málsástæður að fullu ljósar.
Það voru tveir fangaverðir sem leituðu í klefa stefnanda og fundu hassið. Gerðu þeir skýrslu um leitina, sem þeir hafa staðfest fyrir dómi. Eftir leitina var rætt við stefnanda og samkvæmt skýrslu annars fangavarðanna, sem hann hefur staðfest fyrir dómi, viðurkenndi stefnandi að hafa verið með fíkniefni undir rúmdýnu í klefa sínum. Í framburði fangavarðanna fyrir dómi kom fram að stefnandi viðurkenndi, að þeim báðum áheyrandi, að hafa verið með fíkniefni í klefa sínum en taldi að um helmingi minna magn hefði verið að ræða.
Daginn eftir að hassið fannst var stefnandi formlega yfirheyrður af varðstjóra í fangelsinu. Hann var fyrst spurður hvar hann hefði fengið efnið sem var undir rúmdýnunni og kvaðst hann ekki geta tjáð sig um það. Hann var þá spurður hvort hann ætti efnið en hann neitaði því. Aðspurður hver ætti efnið kvaðst hann ekki geta svarað því. Í lokin var hann spurður hvort hann vildi frekar tjá sig um málið og þá svaraði hann, eins og segir orðrétt í skýrslunni: "Ég vil benda á að ég vissi ekki hvað mikið magn um var að ræða, ég hélt að þetta væru 10 grömm," eins og hann kvaðst hafa sagt fangavörðunum, sem leituðu í klefa hans.
Síðar sama dag var stefnandi yfirheyrður af lögreglunni og neitaði þá að eiga efnið og kvaðst ekki geta tjáð sig um hver væri eigandi þess.
Forstöðumaður fangelsisins á Litla-Hrauni tók ákvörðun um agaviðurlögin eftir að varðstjórinn hafði yfirheyrt stefnanda og var hún birt honum áður en hann var yfirheyrður af lögreglunni. Stefnanda var gerð grein fyrir að hægt væri að kæra ákvörðunina til dómsmálaráðuneytisins en hann undi henni og tók viðurlögin út að fullu, eins og áður sagði.
Fyrir dómi bar stefnandi að hann hefði hvorki átt né vitað af umræddum fíkniefnum, sem fundust í klefa hans. Hann kvað fangaverði hafa rætt við sig eftir leitina en hann hafi ekki viðurkennt fyrir þeim að hafa átt efnin. Hann kvaðst hafa sagt að hann hafi haldið að efnismagnið væri minna til að fá vægari viðurlög. Hafi hann þá haft í huga að það kæmu sér ekki eins illa fyrir fjölskyldu hans. Stefnandi kvaðst ekki hafi kært viðurlagaákvörðunina til dómsmálaráðuneytisins þar eð hann hafi talið það tilgangslaust og vísaði þar til fyrri reynslu sinnar af slíkum kærum.
Það er brot á lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 að hafa hass undir höndum og var þess sérstaklega getið í húsreglum, er giltu í fangelsinu á þessum tíma. Hér að framan var gerð grein fyrir viðbrögðum stefnanda við því er fangaverðir fundu hass í klefa hans, svo og skýringum hans á þeim viðbrögðum, er hann gaf fyrir dómi.
Samkvæmt 31. gr. laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist, sbr. lög nr. 123/1997, má forstöðumaður fangelsis ákveða að fangi, sem brýtur reglur fangelsisins, skuli beittur agaviðurlögum. Agaviðurlögin, sem lögð voru á stefnanda voru samkvæmt þessari lagagrein og honum var birt ákvörðun um þau á lögformlegan hátt og jafnframt gerð grein fyrir að hægt væri að kæra ákvörðunina til dómsmálaráðuneytisins.
Þegar virt eru viðbrögð stefnanda við hassfundinum í klefa hans, viðurkenning hans fyrir tveimur fangavörðum um að eiga hassið, svo og óákveðinn framburður hans hjá varðstjóra fangelsisins, er það er niðurstaða dómsins að forstöðumanni fangelsisins hafi verið rétt, eins og á stóð, að leggja umrædd agaviðurlög á stefnanda. Þá er þess einnig að geta að stefnandi undi þeim og kærði þau ekki til dómsmálaráðuneytisins. Framangreindar skýringar hans fyrir dómi eru ótrúverðugar, svo og skýringar hans á framburði hans hjá fangavörðum. Af þessu leiðir að stefnandi á ekki rétt á miskabótum úr hendi stefnda og breytir sýknudómur Héraðsdóms Suðurlands engu í því sambandi. Í niðurstöðu dómsins segir reyndar að vitnisburður fangavarðar þyki "renna stoðum undir sekt ákærða, en á það er að líta að ákærði játaði á sig sök fyrir vitninu við óformlega yfirheyrslu og hefur frásögn vitnisins af henni því minna vægi, þó ekki þyki alveg hægt að líta fram hjá henni. Sömuleiðis þykir viðurkenning ákærða á því að hann hafi borið við skýrslutöku í fangelsinu að hann hafi ekki vitað um hve mikið magn af fíkniefnum var að ræða, renna stoðum undir sekt hans. Hins vegar er á það að líta að skýrslutakan í fangelsinu var óformleg og ákærði hefur gefið skýringu á framburði sínum þó ekki þyki hún trúverðug. Þrátt fyrir framangreint og þar sem ekki þykir alveg hægt að útiloka að fíkniefnunum hafi verið komið fyrir í klefa ákærða þykir ekki vera komin fram alveg lögfull sönnun fyrir sekt hans. Verður ákærði því sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu."
Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi því sýknaður af miskabótakröfu stefnanda en rétt þykir að málskostnaður þeirra á milli falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hans, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greiddur úr ríkissjóði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnanda, Jóns Andra Júlíussonar. Málskostnaður fellur niður en gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er þóknun lögmanns hans, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greiddur úr ríkissjóði.