Print

Mál nr. 717/2015

Lykilorð
  • Kærumál
  • Afhending gagna
  • Verjandi

                               

Mánudaginn 26. október 2015.

Nr. 717/2015.

Lögreglustjórinn á Austurlandi

(Helgi Jensson fulltrúi)

gegn

X

(Gísli M. Auðbergsson hrl.)

Kærumál. Afhending gagna. Verjandi.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að fá aðgang að öllum fyrirliggjandi gögnum í nánar tilgreindu máli vegna erlendra rannsóknarhagsmuna, sbr. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. október 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 8. október 2015, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að sóknaraðili afhendi verjanda hans afrit af öllum fyrirliggjandi gögnum í nánar tilgreindu máli. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að fallist verði á framangreinda kröfu hans, en til vara að sóknaraðila verði sett mörk að því er varðar þann tíma sem hann getur haldið gögnum frá verjanda varnaraðila.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands fimmtudaginn 8. október 2015.

                Með beiðni, sem barst héraðsdómi 1. október sl., hefur sóknaraðili, X, krafist þess að með úrskurði verði lagt fyrir varnaraðila, Lögreglustjórann á Austurlandi að; aðallega, afhenda Gísla M. Auðbergssyni hrl. skipuðum verjanda sóknaraðila, afrit af öllum fyrirliggjandi málsgögnum í lögreglumálinu nr. 317-2015-[...]. Til vara, afhenda téðum verjanda öll þau gögn sem lágu fyrir hjá lögreglu um hádegi þann 9. september 2015 og þau gögn sem ekki falla undir undanþágu 2. ml. 1. mgr. 37. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88 frá 2008. Til þrautavara, að gefa téðum verjanda kost á að kynna sér öll fyrirliggjandi málsgögn.

                Í þinghaldi 5. október sl. lýsti fulltrúi lögreglustjóra því yfir að verjanda yrðu afhent ljósrit allra rannsóknargagna um kl. 16 þann sama dag, að þeim gögnum undanskildum sem tilheyrðu V. kafla á skjalaskrá lögreglunnar og ber heitið „Rannsóknarbeiðnir, erlend stjórnvöld og stofnanir“, en þau gögn vildi lögregla ekki afhenda að svo stöddu. Var þá bókað um að ágreiningur aðila lyti einungis að framangreindum gögnum. Krefst fulltrúi lögreglustjóra þess að kröfu verjanda um aðgang að þessum gögnum verði hafnað. Var málið tekið til úrskurðar um ágreininginn eftir að verjandanum og fulltrúa lögreglustjóra hafði gefist kostur á að tjá sig um málefnið.

                Í kröfu sóknaraðila kemur fram að embætti lögreglustjórans á Austurlandi, hafi til rannsóknar lögreglumálið nr. 317-2015-[...], sem varði ætlað fíkniefnabrot þar sem sóknaraðili sé einn kærðu og hafi Gísli M. Auðbergsson hrl. verið skipaður verjandi hans á rannsóknarstigi.

                Sakarefnið sé það að sóknaraðili eigi, við komu hans ásamt sambýliskonu sinni með [...] til [...] þann 8. september síðastliðinn, að hafa flutt með sér til landsins verulegt magn fíkniefna. Hinn 9. september síðastliðinn hafi  sóknaraðili verið úrskurðaður í 14 daga gæsluvarðhald, með úrskurði Héraðsdóms Austurlands í málinu nr. R-[...]/2015. Gæsluvarðhaldið hafi verið framlengt með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness til 7. október næstkomandi. Sá úrskurður hafi gengið til Hæstaréttar og verið staðfestur með dómi réttarins í máli nr. [...]/2015.

                Á þessu tímabili hafi sóknaraðili tvívegis verið yfirheyrður af lögreglu, fyrst þann 8. september og síðan þann 16. september.

Verjandi sóknaraðila hafi margítrekað farið fram á það við fulltrúa lögreglustjóra, rannsóknarlögreglumann og aðstoðarsaksóknara að fá afrit af gögnum málsins. Hafi verjanda tekist að fá afrit af framburðarskýrslum sóknaraðila sjálfs, en að öðru leyti hafi verjanda verið neitað um að sjá gögn eða fá afrit af gögnum.

                Ljóst sé að talsvert hljóti að vera orðið til af gögnum hjá lögreglu, svo sem framburðarskýrslur af sambýliskonu sóknaraðila, skýrslur tæknideildar lögreglu um greiningu og vigtun fíkniefna, skýrslur tæknideildar um rannsókn á húsbíl sakbornings og um rannsókn á fingraförum/lífsýnum á umbúðum efnanna, símagögn vegna síma beggja kærðu, skýrsla tollgæslunnar og gögn um samskipti við lögreglu í [...] og [...].

                Mikilvægt sé fyrir hagsmunagæslu sóknaraðila að fá afrit eða annan aðgang að öllum gögnum málsins. Samkvæmt 37. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé það skýr meginregla að verjandi eigi rétt á afriti eða aðgangi að öllum gögnum, enda um mikilsverð mannréttindi að ræða að sökunautur geti gætt hagsmuna sinna í sakamáli. Sú undantekning sé þó gerð í 1. mgr. ákvæðisins að lögregla geti haldið gögnum frá verjanda í allt að þrjár vikur frá því að þau urðu til sé það talið skaða rannsókn málsins.

                Aðalkrafan sé byggð á því að ekki sé fyrir hendi nein hætta á að það geti skaðað rannsókn málsins þó verjandi fái afrit allra gagna og að þess vegna beri að afhenda verjanda öll gögn.

                Varakrafan sé tvíþætt og byggist annars vegar á því að verjandi eigi samkvæmt téðri 37. gr. fortakslausan rétt á aðgangi að öllum þeim gögnum sem orðin eru þriggja vikna eða eldri í höndum lögreglu og hins vegar á því að verjandi eigi auk þess rétt á afriti af þeim gögnum yngri en þriggja vikna sem dómurinn meti að ekki séu þess eðlis að það geti skaðað rannsóknina að afhenda þau.

                Þrautavarakrafan byggi á því að sé um það að ræða að einhver gögn séu ekki afritanleg, þá verði verjanda að minnsta kosti gefinn kostur á að kynna sér þau. Þetta gæti til dæmis átt við um hljóðupptökur af framburðum.

                Til stuðnings kröfum sóknaraðila sé vísað til 37. gr. laga nr. 88/2008 og varðandi heimild til að skjóta málinu til úrlausnar héraðsdóms til 2. mgr. 102. gr. nefndra laga.

                Af hálfu varnaraðila, lögreglustjórans á Austurlandi, var við munnlegan málflutning á því byggt að verði verjanda sóknaraðila veittur aðgangur að þeim gögnum sem ágreiningur aðila einskorðast nú við geti það skaðað rannsóknarhagsmuni erlendra yfirvalda. Um heimild til þess að takmarka aðgang verjanda að gögnum í framangreindu skyni sé vísað til 3. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008.

                Niðurstaða:

                Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er kveðið á um rétt verjanda til að fá, jafnskjótt og unnt er, afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í málinu. Þó er lögreglu heimilt að neita verjanda um aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum í allt að þrjár vikur frá því að þau urðu til eða komust í vörslur hennar ef hún telur að það geti skaðað rannsókn málsins. Af sömu ástæðu er lögreglu heimilt að neita verjanda um afrit af einstökum skjölum meðan á rannsókn máls stendur.

                Synjun varnaraðila um að veita verjanda sóknaraðila aðgang að þeim gögnum er hér um ræðir og ágreiningur aðila einskorðast nú við, þ.e. gögnum í V. kafla rannsóknargagna málsins, hefur ekki verið byggð á því að framangreindur tímafrestur eigi við, auk þess sem ljóst er af gögnunum sjálfum að fresturinn er þegar liðinn hvað hluta þeirra snertir og rennur út í dag hvað önnur snertir. Ennfremur hefur varnaraðili ekki freistað þess að fá frest samkvæmt 1. mgr. framlengdan með því úrræði sem um getur í 2. mgr. sömu lagagreinar.

                Krafa varnaraðila um að kröfu sóknaraðila verði hafnað byggist einvörðungu á ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar þar sem kveðið er á um heimild til þess að synja verjanda um aðgang að einstökum skjölum og öðrum gögnum meðan á rannsókn máls stendur ef „samskipti við yfirvöld í öðrum ríkjum standa því í vegi“. Byggir varnaraðili á því að rannsóknarhagsmunir erlendra lögregluyfirvalda standi til þess að leynd verði haldið um þær upplýsingar sem fram koma í rannsóknarbeiðnum íslenskra lögregluyfirvalda og er að finna í V. kafla rannsóknargagna málsins.

                Framangreindu ákvæði var aukið við 3. mgr. 37. gr. við meðferð allsherjarnefndar Alþingis á frumvarpi því er varð að lögum nr. 88/2008, með þeim rökstuðningi að aðgangur sakbornings að skjölum og öðrum gögnum á rannsóknarstigi væri almennt greiðari hér á landi en í mörgum nágrannalöndum okkar og að borið hefði við að erlend yfirvöld væru treg til að láta lögreglu og öðrum rannsóknaraðilum í té slík gögn af ótta við að greiðari aðgangur sakborninga hér á landi að þeim kynni að skaða þarlenda rannsóknarhagsmuni. Að virtum lögskýringargögnum og rannsóknargögnum málsins, og þótt túlka verði heimild sem þessa þröngt, er það álit dómsins að varnaraðili hafi sýnt nægilega fram á að erlendum rannsóknarhagsmunum sem ákvæði þessu er ætlað að vernda kunni að verða stefnt í hættu verði verjanda sóknaraðila veittur aðgangur að umræddum gögnum meðan á rannsókn málsins stendur. Að því gættu og ljósi þess að verjandi sóknaraðila mun nú hafa fengið aðgang að öllum öðrum rannsóknargögnum málsins, sem og því að takmörkun á grundvelli þessarar heimildar á einungis við á rannsóknarstigi máls, verður fallist á að þeir erlendu rannsóknarhagsmunir sem tilvitnuðu ákvæði 3. mgr. 37. gr. er ætlað að vernda vegi þyngra en réttindi sóknaraðila eins og hér stendur á.

                Samkvæmt framanrituðu verður fallist á kröfu varnaraðila og er öllum kröfum sóknaraðila um aðgang að þeim gögnum sem hér um ræðir, og er nú að finna í V. kafla rannsóknargagna málsins, meðan á rannsókn málsins stendur, því hafnað.

                Hildur Briem héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Hafnað er öllum kröfum sóknaraðila, X, um að fá aðgang að gögnum sem nú er að finna í V. kafla rannsóknargagna í lögreglumálinu nr. 317-2015-[...], meðan á rannsókn málsins stendur.