Print

Mál nr. 378/1999

Lykilorð
  • Banki
  • Opinberir starfsmenn
  • Biðlaun
  • Aðild

Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. mars 2000.

Nr. 378/1999.

Gunnbjörn Þór Ingvarsson

(Sveinn Sveinsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Jón G. Tómasson hrl.)

 

Bankar. Opinberir starfsmenn. Biðlaunaréttur. Aðild.

G var starfsmaður Landsbanka Íslands (LÍ) þegar lög nr. 50/1997 um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands voru staðfest. Samkvæmt 8. gr. laganna skyldu allir starfsmenn LÍ eiga kost á sambærilegu starfi hjá LÍ hf. við yfirtöku hlutafélagsins á ríkisbankanum og njóta sömu réttinda og þeir höfðu samkvæmt kjarasamningi og/eða ráðningarsamningi. Tilkynnti LÍ starfsfólki að starfslok hjá LÍ yrðu 31. desember 1997. G hafnaði boði um starf hjá LÍ hf. Taldi hann að ekki væri um sambærilegt starf að ræða, þar sem hann myndi ekki lengur njóta réttinda ríkisstarfsmanna. Höfðaði hann mál gegn íslenska ríkinu og krafðist greiðslu biðlauna. Talið var að ákvæði laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hefði áður gilt um starfsmenn ríkisviðskiptabanka, nema öðruvísi hefði verið mælt í lögum og ákvörðunum settum af bankaráðum með heimild í lögum. Hefði biðlaunaréttur samkvæmt 14. gr. laganna því fylgt þeim störfum. Um biðlaunaréttinn giltu nú lög nr. 70/1996, og samkvæmt 34. gr. þeirra laga væri rétturinn háður því að viðkomandi hefði ekki hafnað sambærilegu starfi á vegum ríkisins eða annars staðar. Þar sem ríkissjóður hefði lagt allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar hvors ríkisviðskiptabanka um sig til hlutafélaganna, hefði LÍ hf. yfirtekið allar skuldbindingar LÍ. Því hefði G átt að beina kröfu sinni um biðlaunagreiðslu til LÍ hf. Þegar af þeirri ástæðu var íslenska ríkið því sýknað af kröfum G, með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 24. september 1999. Hann gerir þær dómkröfur, að stefndi verði dæmdur til greiðslu biðlauna, aukagreiðslna orlofsuppbótar og desemberuppbótar, samtals að fjárhæð 882.253 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 svo sem hér segir: Af 200.137 krónum frá 1. janúar 1998 til 1. febrúar sama ár, af 400.274 krónum frá þeim degi til 1. mars sama ár, af 600.411 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 679.214 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 744.538 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár en af 882.253 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi hóf áfrýjandi störf hjá Landsbanka Íslands í apríl 1988. Með bréfi bankastjórnar 27. júní 1997 var honum kynnt efni laga nr. 50/1997 um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands.  Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna skyldi Landsbanki Íslands hf. taka við rekstri og starfsemi Landsbanka Íslands hinn 1. janúar 1998, og var áfrýjanda gefinn kostur á sambærilegu starfi hjá hlutafélaginu frá þeim tíma, sbr. 8. gr. laganna. Í bréfinu var jafnframt tekið fram, að það fæli í sér tilkynningu um starfslok áfrýjanda hjá Landsbanka Íslands 31. desember 1997, óháð því hvort hann kysi að taka við starfi hjá hlutafélaginu eða ekki.

Áfrýjandi hafnaði boði bankans um starf í hinum nýja banka. Hann taldi, að ekki væri um sambærilegt starf að ræða og hann hafði gegnt í Landsbanka Íslands, þar sem hann myndi ekki lengur njóta réttinda ríkisstarfsmanna, og krefur hann stefnda um greiðslu biðlauna. Nú liggur fyrir dómur Hæstaréttar frá 3. febrúar síðastliðnum í máli nr. 357/1999, þar sem því er slegið föstu, að ákvæði laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hefðu áður gilt um starfsmenn ríkisviðskiptabankanna nema öðruvísi hefði verið mælt í lögum og ákvörðunum settum af bankaráðunum með heimild í lögum. Varð niðurstaðan því sú, að biðlaunaréttur samkvæmt 14. gr. laganna hefði fylgt þeim störfum. Um biðlaunaréttinn gilda nú ákvæði 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða og 34. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 10. gr. laga nr. 50/1997, en samkvæmt því er biðlaunarétturinn háður því að viðkomandi hafi ekki hafnað sambærilegu starfi á vegum ríkisins eða annars aðila.

II.

Ríkissjóður lagði allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar hvors ríkisviðskiptabanka um sig til hlutafélaganna, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 50/1997. Hlutafélagsbankinn tók yfir allar skuldbindingar Landsbanka Íslands, ekki aðeins samkvæmt kjarasamningum og ráðningarsamningum heldur einnig samkvæmt lögum. Áfrýjanda bar því að beina kröfu sinni um greiðslu biðlauna til Landsbanka Íslands hf., en forveri hans var launagreiðandi áfrýjanda. Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfu áfrýjanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður niðurstaða héraðsdóms því staðfest.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.

D ó m s o r ð :

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Gunnbjörn Þór Ingvarsson, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 1999.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 19. maí  sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Gunnbirni Þór Ingvarssyni, kt. 070262-2909, Sólheimum 8, Reykjavík, með stefnu birtri 8. september 1998 á hendur Geir H. Haarde fjármálaráðherra, kt. 080451-4749, með starfsstöð í fjármálaráðuneytinu, Arnarhváli, Reykjavík, og Finni Ingólfssyni viðskiptaráðherra, kt. 080854-3829, með starfsstöð í viðskiptaráðuneytinu, báðum fyrir hönd íslenska ríkisins.

 

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda biðlaun, bifreiðastyrk, aukagreiðslur, orlofsuppbót og desemberuppbót, samtals að fjárhæð kr. 1.423.461, með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, sem reiknist af fjárhæðum og eftir tímabilum sem hér segir:

frá 1/1 '98 af kr.214.017

frá 1/2'98 af kr.428.034

frá 1/3 '98 af kr.642.051

frá 1/4'98 af kr.856.068

frá 1/5 '98 af kr.1.070.085

frá 1/6 '98 af  kr.  1.423.461 til greiðsludags.

 

Til vara er krafizt greiðslu skaðabóta að sömu fjárhæð og með sömu dráttarvöxtum og greinir í aðalkröfu.

Þá er þess krafizt, að dæmt verði, að dráttavextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 01.01.1999.

Þá er krafizt málskostnaðar að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.

 

Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda og dæmdur málskostnaðar úr hendi hans að mati réttarins.

 

II.

Málavextir:

Með lögum nr. 50 frá 22. maí 1997 var ákveðið að stofna hlutafélag um Lands­banka Íslands annars vegar og Búnaðarbanka Íslands hins vegar.  Hlutverk hluta­félaganna skyldi vera að hafa á hendi þá starfsemi, sem viðskiptabönkum er heimil samkvæmt lögum, þ.e. sama hlutverk og ríkisviðskiptabankarnir tveir höfðu áður haft.

Samkvæmt 8. gr. laganna skyldu starfsmenn bankanna tveggja, sem tóku laun samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenskra bankamanna eða annarra stéttar­félaga, eiga kost á sambærilegu starfi hjá viðkomandi hlutafélagabanka og þeir höfðu áður gegnt hjá ríkisviðskiptabönkunum.  Starfsmenn skyldu jafnframt njóta sömu réttinda og þeir höfðu samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum.

Í 10. gr. laganna var kveðið á um biðlaunarétt, sem kynni að hafa fylgt störfum í ríkisviðskiptabönkunum, en um þann rétt skyldu þá gilda ákvæði laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Samkvæmt 34. gr. laga nr. 70/1996, sbr. 5. mgr. í ákvæði til bráðabirgða, er réttur til biðlauna starfsmanna ríkisins háður því, að starfsmaðurinn hafi ekki hafnað öðru sambærilegu starfi, óháð því, hvort það sé á vegum ríkisins eða annars aðila.  Jafnframt segir í 2. mgr. 34. gr. laganna, að taki maður, er nýtur biðlaunagreiðslu, við starfi í þjónustu ríkisins eða annars aðila, áður en biðlaunatími er á enda, skuli bið­launagreiðsla falla niður, ef launin, sem nýja starfinu fylgi, eru jöfn eða hærri en þau laun, sem starfsmaðurinn áður naut, en séu þau lægri, skuli greiða launamismun til loka tímabilsins.

Stefnandi réðst til Landsbanka Íslands þann 13. apríl 1988, en hafði áður starfað þar í nokkra mánuði í senn á árunum 1981-1985.  Með bréfi bankastjórnar Landsbanka Íslands, dagsettu 27. júní 1997, var stefnanda kynnt efni framangreindrar lagasetningar nr. 50/1997.  Einnig var honum tilkynnt um starfslok sín hjá Landsbanka Íslands hinn 31. desember 1997, óháð því, hvort hann tæki við sambærilegu starfi hjá hlutafélaginu.  Tekið er fram í bréfinu, að tilkynningin sé send þannig, að hún berist áður en uppsagnarfrestur stefnanda samkvæmt kjarasamningi byrji að líða vegna þáverandi starfa hans.

Stefnandi tók þá ákvörðun að þiggja ekki boð bankans um starf í hinum nýja banka.  Byggði hann ákvörðun sína m.a. á því, að ekki væri verið að bjóða sama starf með sömu réttindum og hann hefði haft í Landsbanka Íslands.  Hann sendi því ekki inn til starfmannasviðs þá sérstöku tilkynningu, sem gert var ráð fyrir, að verðandi starfsmenn hlutafélagabankans útfylltu, en þess í stað tilkynnti hann sérstaklega, að hann myndi ekki þiggja starfið í hinum nýja banka.

Stefnandi lét af störfum í Landsbanka Íslands þann 31. desember 1997. 

Stefnandi gerði um það fyrirspurn hjá stefnda fyrir starfslokin, hvort hann ætti rétt til greiðslu biðlauna á grundvelli 14. gr. laga nr. 38/1954, sbr. lög nr. 70/1996, en fékk þau svör, að um greiðslu biðlauna yrði ekki að ræða af hálfu bankans.

 

III.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að hann eigi, sem starfsmaður Landsbanka Íslands, skilyrðislausan rétt til að fá greidd biðlaun, þar sem honum hafi ekki verið boðið sambærilegt starf og hann hafi haft, þegar starf hans hjá Landsbanka Íslands var lagt niður.  Starfsmenn Landsbanka Íslands falli undir lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna nr. 38/1954, sbr. lög nr. 70/1996.   Í 14. gr. laga nr. 38/1954 og í 34. gr. laga nr. 70/1996 sé gert ráð fyrir, að starfsmenn, sem lögin taki til, eigi rétt á 12 mánaða biðlaunum, hafi þeir unnið í 15 ár eða lengur hjá ríkinu.  Falli hann undir þau tímamörk, þar sem hann hafði unnið í yfir 20 ár hjá Landsbanka Íslands, þegar honum var sagt þar upp störfum. 

Stefnandi vísi til þess, að starf það, sem honum hafi verið boðið, hafi verið hjá hlutafélagabanka, en starf hjá hlutafélagi útiloki, að réttur starfsmanna fari eftir lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna nr. 38/1954, sbr. lög nr. 70/1996.  Það eitt, að hið nýja starf sé ekki hjá ríkinu og því fylgi þar af leiðandi m.a. ekki biðlaunaréttur, geri það að verkum, að starf það, sem boðið hafi verið, geti aldrei orðið sambærilegt hinu fyrra starfi.

Stefnandi bendi á, að skv. 10. gr. laga nr. 50/1997 um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. sé tekið fram, að um biðlaunarétt, sem kunni að fylgja störfum í ríkisviðskiptabönkum, fari eftir ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.  Þau lög hafi tekið við af lögum nr. 38/1954 með takmörkunum, sem stefnandi telji, að brjóti í bága við 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 um friðhelgi eignarréttarins.

Stefnandi undirstriki sérstaklega, að við fastráðningu í starf hjá Landsbanka Íslands fyrir tæpum 10 árum hafi hann eignazt biðlaunarétt í 6 mánuði, færi svo að starf hans yrði lagt niður.  Hér sé um að ræða eignarrétt, sem verði ekki af honum tekinn eða hann skertur með þeim hætti, sem fram komi í lögum nr. 70/1996.

Varðandi takmörkunina þá brjóti hún einnig gegn jafnræðisreglu stjórnar­skrárinnar og þeim alþjóðasáttmálum um mannréttindavernd, sem Ísland sé aðili að, einkum 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 1. mgr. 2. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Þær takmarkanir og skerðingar, sem stefnandi vísi til, að lögin nr. 70/1996  hafi í för með sér frá lögum 38/1954, snúist m.a. um það ákvæði 34. gr. laganna, að biðlaunagreiðslur samkvæmt greininni skuli falla niður, ef laun þau, er nýja starfinu fylgi, séu jöfn eða hærri en þau, er hann naut í fyrra starfi.

Útilokað sé, að þessi áunni biðlaunaréttur verði tekinn af stefnanda með breytingu á lögum 38/1954 á þann hátt, sem gert sé með lögum nr. 70/1996.

Þá vísi stefnandi til þess, að í reglum um biðlaun sé hvergi að finna kröfur þess efnis, að sá, sem biðlauna eigi að njóta, sýni fram á, að hann hafi leitað eftir starfi annars staðar, hvorki hjá ríki né hjá öðrum.  Hann telji sig einnig eiga fullan rétt til greiðslu biðlauna, þó svo að hann stundi nám í stað vinnu.   

Hann telji sig hafa fulla þörf á að leita sér endurmenntunar í einhvern tíma, hann sé 36 ára gamall, og hann hafi á sinni starfsævi ekki unnið önnur störf en hjá stefnda, eða samtals í tæp 10 ár.

Stefnandi kveðst mótmæla staðhæfingum þess efnis, að sá hluti biðlauna­tímans, sem notaður sé til öflunar endurmenntunar, dragist frá biðlaunatímanum eða sé þess valdandi, að engin biðlaun eigi að greiðast.

Stefnandi bendi á, að tilgangur biðlauna hafi fyrst og fremst verið sá að tryggja launþeganum ríflegan uppsagnarfrest til að hann gæti betur tekizt á við breyttar aðstæður.  Á síðari árum hafi kröfur vinnumarkaðarins verið allt aðrar en áður.  Nú séu gerðar þær kröfur, að væntanlegir starfsmenn hafi aflað sér sjálfir tiltekinnar menntunar og fræðslu.  Starfsmanni, sem nær alla sína starfsævi hafi starfað hjá sama vinnuveitanda, sé nauðsynlegt að endurhæfa sig til að vera fær um að takast á við ný störf.

Að því er lúti að varakröfu, eigi stefnandi bótakröfu á hendur stefnda, sem sé jafnhá biðlaunum, þar sem biðlaunarétturinn njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, fari svo, að hann teljist hafa verið sviptur biðlaunarétti sínum með 34. gr. l. nr. 70/1996.  Engin almenningsþörf hafi kallað á sviptinguna.  Ákvæði þessu verði því ekki beitt, án þess að fullar bætur komi í stað biðlaunanna.  Lagagreinin brjóti einnig í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og alþjóðsáttmála sem Ísland eigi aðild að.

Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi m.a. til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 90/1996, þar sem rétturinn hafi skýrt kveðið á um, að “biðlaunaréttur sé fyrir hendi við niðurlagningu stöðu, þótt sá starfi, er stöðunni fylgdi, verði áfram ræktur á vegum annars aðila en ríkisins”.  Í dóminum komi einnig skýrt fram það álit Hæstaréttar, að þótt laun og viðfangsefni í hinni nýju stöðu séu hin sömu og í hinni eldri, verði nýja staðan ekki talin sambærileg hinni fyrri, ef um hin sérstöku réttindi samkvæmt lögum nr. 38/1954 sé ekki að ræða í nýju stöðunni.

 

Kröfufjárhæð.

Kröfufjárhæð stefnanda sé þannig fundin, að byggt sé á launum þeim, sem hann hafi haft fyrir síðasta unna mánuðinn, þ.e. desember 1997.  Á þá fjárhæð sé bætt 4% grunnkaupshækkun, sem varð þann 1. janúar 1998.  Stefnandi hafi, auk mánaðar­legra launagreiðslna, fengið greidda ársuppbót í desember ár hvert, sem svaraði til einna mánaðarlauna (13. mánuður), orlofsframlag, orlofsuppbót, bifreiðastyrk og aukagreiðslu.  Stefnufjárhæðin sé þannig samansett:

Grunnlaun í 6 mánuði (kr. 178.197)

kr. 1.069.182

Ársuppbót (13. mán.)+orlof

kr. 100.717

Orlofsframlag

kr. 34.642

Orlofsuppbót

kr. 4.000

Bifreiðastyrkur (6 x 23.880)

kr. 143.280

Aukagreiðsla (6 x 11.940)

kr.71.640

Samtals

kr. 1.423.461

 

Lagarök.

Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi m.a. til laga 38/1954 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sbr. lög nr. 70/1996, og til laga nr. 50/1997 um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. 

Um vaxtakröfur sínar vísar stefnandi til ákvæða III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.  Um málskostnaðarkröfu vísar stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Við ákvörðun málskostnaðar beri að taka tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt á málflutningsþóknun. 

 

Málsástæður stefnda:

Stefndi kveður stefnanda fyrst hafa beint kröfu sinni um greiðslu biðlauna til Landsbanka Íslands hf., sbr. bréf lögmanns hans frá 12. marz 1998, dskj. nr. 5. Málið höfði stefnandi hins vegar á hendur íslenzka ríkinu, en kröfu hafi ekki verið beint að því, áður en til málshöfðunar kom.  Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 50/1997 hafi ríkissjóður lagt allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar hvors ríkisviðskipta­bankans um sig til hluta­félaganna.  Virðist stefnandi og hafa verið þeirrar skoðunar, að hugsanlegur biðlauna­réttur hans væri á hendur hlutafélagabankanum, sbr. hér einnig ákvæði 2. gr. laga nr. 77/1993 um réttarstöðu manna við aðilaskipti að fyrirtækjum.  Samkvæmt þessu sé kröfu stefnanda ranglega beint gegn íslenzka ríkinu.   Beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Stefnandi virðist í málatilbúnaði sínum ekki gera greinarmun á Landsbanka Íslands hf. og íslenzka ríkinu.  Auk þess að beina biðlaunakröfu sinni fyrst að hlutafélagabankanum, en stefna síðan íslenska ríkinu, mótmæli stefnandi t.d. í 7. mgr. á bls. 4 í stefnu röksemdarfærslu, sem komi fram í bréfi lögmanns Landsbanka Íslands hf. á dskj. nr. 6.

Stefnandi byggi á því, að staða hans hjá Landsbanka Íslands hafi verið lögð niður frá og með 1. janúar 1998.  Af hálfu stefnda sé því mótmælt, að störf starfs­manna Landsbanka Íslands hafi verið lögð niður.  Störf stefnanda og annarra starfs­manna Landsbanka Íslands séu áfram til í óbreyttu formi.  Við breytingu á eignarformi bankans hafi stefnanda með lögum verið tryggður forgangur til þess starfs, sem hann hafði gegnt.  Landsbanki Íslands hafi, samkvæmt áður gildandi lagaákvæðum, verið sjálfstæð stofnun, sem laut sérstakri stjórn og hafi svo einnig verið eftir formbreytinguna, sem gerð var með lögum nr. 50/1997 um stofnun hlutafélaga um ríkisviðskipta­bankana.

Þrátt fyrir túlkun dómstóla á ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954 hafi tilgangur biðlaunareglunnar verið sá, að tryggja embættismönnum framfærslu, þegar svo stóð á, að staða þeirra var ekki lengur til, og þeir voru án vinnu af ástæðu, sem ekki varðaði þá sjálfa.  Sé fullvíst, að löggjafinn hafi ekki séð fyrir sér á þeim tíma, að formbreyting á eignarhaldi á stofnun eða fyrirtæki í eigu ríkisins væri talin jafngilda niðurlagningu á stöðu, eða að orð laganna yrðu skýrð á þann veg, enda hafi biðlaunarétti verið ætlað að samsvara ríflegum uppsagnarfresti, þegar uppsagnarfresti væri ekki til að dreifa.  Þessu til áréttingar vísi stefndi til athugasemda með frumvarpi að lögum nr. 70/1996, þar sem segi um ákvæði 34. gr., að "sá háttur að maður fái biðlaun greidd ofan á venjuleg laun, t.d. fyrir það eitt að ríkisstofnun er gerð að hlutafélagi eða starfið fært frá ríki til sveitarfélaga, svo sem 14. gr. laga nr. 38/1954 hefur verið skýrð, samrýmist engan veginn nútímavið­horfum".  Stefndi hafni þeirri málsástæðu stefnanda, að starf hans hjá Landsbanka Íslands hafi verið lagt niður í skilningi 14. gr. laga nr. 38/1954.

Stefndi haldi því enn fremur fram, að biðlaunaréttur samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954 hafi ekki fylgt starfi stefnanda hjá Landsbanka Íslands.  Eðlisrök mæli gegn því, að starfsmenn ríkisviðskiptabankanna séu taldir til starfsmanna ríkisins í skilningi starfsmannalaganna.  Sé í því sambandi bent á, að ákvarðanir um ráðningu, ráðningar­tíma og uppsögn, svo og um laun og önnur starfskjör bankamanna, hafi ekki farið eftir sömu reglum og gilt hafi á hverjum tíma um opinbera starfsmenn.

Landsbanki Íslands hafi verið sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins, en undir sérstakri stjórn, sbr. hér ákvæði l. gr. laga nr. 10/1928.  Samkvæmt 45. gr. laganna hafi fram­kvæmdar­stjórnin almennt ráðið starfsmenn bankans og sagt þeim upp.   Þar hafi jafnframt sagt, að starfsmenn bankans skyldu ráðnir með þriggja mánaða uppsagnarfresti.  Samsvarandi ákvæði hafi verið í 41. gr. laga um Landsbanka Íslands nr. 63/1957.  Samkvæmt 13. gr. laga um Landsbanka Íslands nr. 11/1961 hafi starfsmenn bankans almennt verið ráðnir af bankastjórninni, sem jafnframt hafði heimild til að segja þeim upp starfi.  Banka­stjórnina hafi skipað þrír bankastjórar, ráðnir af bankaráði, sem skipað var fimm mönnum kjörnum af Alþingi.  Um ráðningu starfsmanna ríkisins hafi hins vegar gilt ákvæði 2. gr. laga nr. 38/1954.

Sá háttur á ráðningu bankastarfsmanna, sem hér sé lýst, verði ekki skýrður svo, að bankastjórninni hafi verið veitt umboð til að ráða starfsmenn með þeim réttar­áhrifum, að þeir féllu undir ákvæði laga nr. 38/1954.  Til hliðsjónar bendi stefndi á dóm Hæstaréttar frá 1. október 1998 í málinu nr. 39/1998.

Fyrir setningu laga nr. 34/1977 um kjarasamninga banka í eigu ríkisins hafi gilt reglugerð um störf og launakjör starfsmanna bankanna, jafnt ríkisbankanna sem hluta­félagabankanna, sbr. reglugerð frá apríl 1974.  Reglugerð þessi hafi verið sett og undirrituð af formönnum bankaráða allra bankanna, átta að tölu, jafnt hlutafélaga­banka sem banka í eigu ríkisins.  Í reglugerðinni hafi verið ákvæði, m.a. um launaflokka, launafjárhæðir og ýmis kjaraatriði, sem eftir setningu laga nr. 55/1962 höfðu verið í kjarasamningum opinberra starfsmanna eða í reglugerðum, sem settar voru samkvæmt heimild í 17. gr. laga nr. 38/1954.

Ákvörðun um launakjör bankamanna hafi aldrei verið tekin með launalögum, svo sem gilt hafi um opinbera starfsmenn fram að setningu laga nr. 55/1962.  Bankamenn hafi ekki fallið undir ákvæði laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna.  Þeir hafi ekki fallið undir kjaradóm eða kjaranefnd.  Stefnandi hafi tekið laun samkvæmt kjarasamningi bankamanna, sem gerður var á milli samninganefndar bankanna, fyrir hönd banka og sparisjóða annars vegar, og Sambands íslenzkra bankamanna hins vegar.  Ríkið eigi enga beina aðild að þessum samningi, sbr. lög nr. 34/1977, sbr. hins vegar 2. gr. laga nr. 55/1962, 2. gr. laga nr. 46/1973, 3. gr. laga nr. 29/1976 og 3. gr. laga nr. 94/1986 þess efnis, að fjármálaráðherra fari með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð og framkvæmd kjara­samninga opinberra starfsmanna, en heildarsamtök eða stéttarfélög starfsmanna ríkisins fari með fyrirsvar ríkisstarfsmanna.  Um þetta efni séu leiðbeinandi dómar Hæstaréttar frá 29. marz 1990 í málinu nr. 283/1988 og frá 16. nóvember 1995 í málinu nr. 504/1993.

Kjarasamningar bankamanna annars vegar og opinberra starfsmanna hins vegar séu, auk þess að vera ólíkir að formi, um margt ólíkir að efni.  Til dæmis séu í kjarasamningi bankamanna ákvæði um veikindi og fæðingarorlof, sbr. hins vegar reglugerðir nr. 410/1989 og 411/1989 um fæðingarorlof og veikindaforföll starfsmanna ríkisins.  Að auki séu ákvæði í kjarasamningi bankamanna um uppsagnarfrest allt að 6 mánuðum, sem ekki séu í kjarasamningi opinberra starfsmanna.

Sérstakur eftirlaunasjóður handa starfsmönnum Landsbankans "ekkjum þeirra og ómegð" hafi verið stofnaður samkvæmt ákvæði 49. gr. laga nr. 10/1928, og stefnandi hafi verið félagi í þeim sjóði, en ekki í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Í þessu sambandi sé einnig bent á lög nr. 97/1974 um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum ríkisstofnana.  Lögin hafi ekki verið túlkuð á þann veg, að þau taki til ríkisviðskiptabankanna, þótt tilgangurinn með setningu þeirra hafi verið að veita aðhald í starfsmannahaldi ríkisins og ríkisstofnana.  Ríkisviðskipta­bankar hafi aldrei leitað úrskurðar varðandi starfsmenn eða starfsmannafjölda, sbr. 6. gr. laganna.

Stefndi telji öll framangreind rök hníga til þess, að stefnandi hafi ekki notið biðlauna­réttar á grundvelli 14. gr. laga nr. 38/1954.  Hann hafi ekki verið starfsmaður ríkisins í skilningi laganna.

Stefndi hafni þeirri túlkun stefnanda, að hugsanleg niðurfelling biðlaunaréttar feli í sér, að ekki hafi verið um sambærilegt starf að ræða, sem stefnanda stóð til boða hjá hlutafélaga­bankanum, við það starf, sem stefnandi gegndi í ríkisviðskipta­bankanum.  Af 1. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996 leiði, að biðlaunaréttur sé ekki til staðar, ef viðkomandi hafni sambærilegu starfi, óháð því, hvort það sé á vegum ríkisins eða annars aðila.  Með þessu ákvæði sé dómstólatúlkun á hugtakinu "sambæri­legu starfi" breytt.  Tilvísun 10. gr. laga nr. 50/1997 til ákvæða laga nr. 70/1996 feli þetta beinlínis í sér.  Mat löggjafans hafi verið, að um sambærilegt starf væri að ræða hjá hlutafélagabönkunum samkvæmt l. mgr. 8. gr. laga nr. 50/1997, þótt biðlaunaréttur, sem kynni að hafa fylgt störfum í ríkisviðskiptabönkunum, væri ekki lengur fyrir hendi vegna ákvæða 34. gr., sbr. 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, í lögum nr. 70/1996.

Stefndi telji engu breyta í þessu efni, hvernig 14. gr. laga nr. 38/1954 hafi verið túlkuð af dómstólum, en þau lög hafi fallið úr gildi 1. júlí 1996, sbr. 55. gr. laga nr. 70/1996.  Túlkun dómstóla á lögum nr. 38/1954 hafi því engin áhrif á sakarefnið og verði ekki beitt um réttarstöðu stefnanda eftir þann tíma, er lög nr. 70/1996 tóku gildi.  Málssókn, sem byggi á efni og ákvæðum laga, sem ekki séu lengur í gildi og hafi ekki verið í gildi, þegar atvik það, sem stefnandi byggi mál sitt á, kom til, sé óraunhæf.  Málssóknin styðjist ekki við gildandi réttarheimild og beri því að sýkna, einnig af þeirri ástæðu.

Stefndi hafni því, að réttur til launa við niðurlagningu stöðu eftir þeim reglum sem áður giltu, þ.e. samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954, hafi notið verndar 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, eða geti talist eign í skilningi þess ákvæðis.  Réttur til launa við niðurlagningu stöðu hafi verið bundinn við atvik, sem ekki vörðuðu starfsmanninn sjálfan og geti því ekki talizt eign í skilningi eignarréttar, eða fjármunaréttindi, varin sem slík af ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar.   Biðlaunaréttur hafi verið háður óvissu skilyrði um niðurlagningu stöðu og ekki verið afmarkaður sem eign í skilningi fjár­munaréttar, enda hafi biðlaunarétti í öndverðu verið ætlað það hlutverk að samsvara ríflegum uppsagnarfresti embættismanna, sem skipaðir voru eða ráðnir ótímabundið, án sérstakra ákvæða um gagnkvæman uppsagnarfrest.  Hafi verið talið, að löggjafanum sé heimilt að afnema gildandi lagareglur eða breyta, og þar með réttindum, sem stofnað hafði verið til með lögum, þ.m.t. rétti til biðlauna.  Telji stefndi ekki efni til að breyta mati löggjafans á því, hvernig fari um biðlaunarétt starfsmanna ríkisins, en með breytingu þeirri, sem gerð var með lögum nr. 70/1996, hafi vilji löggjafans verið sá að færa biðlaunarétt að því leyti, sem hann myndi gilda, til nútímalegra viðhorfs.  Í þessu sam­bandi sé bent á, að réttur til launa við niðurlagningu stöðu hafi ekki orðið virkur vegna framlaga eða iðgjalda af neinu tagi, og hafi engin fjármunaréttindi, tengd 14. gr. laga nr. 38/1954, verið skráð, haldið sérgreindum eða þannig, að menn hafi getað hagnýtt sér þau.  Gildi þá einu, hvort tekið sé mið af rétti til launa við niðurlagningu á stöðu eftir lögum nr. 38/1954 eða ákvæðum laga nr. 70/1996.

Sú regla, sem í gildi var samkvæmt ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, að launa­greiðslur hjá ríkinu á biðlaunatíma skuli koma til frádráttar biðlaunum, sé til marks um þann skilning við setningu ákvæðisins, að um sé að ræða bætur, sem eigi að sæta frádrætti vegna launatekna frá ríkinu á sama tíma.  Þótt launatekjur frá öðrum aðila en ríkinu hafi ekki komið til frádráttar samkvæmt ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, sé fráleitt að telja, að það hafi skapað starfsmönnum ríkisins einhver réttindi, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Verði ekki séð, að ákvæði stjórnarskrárinnar standi því í vegi, að með lagabreytingu sé ákveðið, að frádrátturinn nái til allra launa í nýju starfi, óháð því, hver launagreiðandinn sé.

Jafnvel þótt talið verði, að réttur til launa við niðurlagningu stöðu hafi notið eignar­réttarverndar stjórnarskrár, hafi löggjafanum verið heimilt að breyta réttindunum með almennum lögum.  Verði talið, að með lögum nr. 70/1996 hafi falizt skerðing á eign, hafi verið um að ræða almenna og málefnalega breytingu, sem ekki kom sérstaklega niður á einstökum aðilum eða afmörkuðum hópum ríkisstarfsmanna, og sem menn verði að þola bótalaust.  Hafi 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 70/1996 ekki falið í sér sviptingu réttar til launa vegna niðurlagningar á stöðu, heldur breytingu á þeim rétti, sem teljist vera sanngjörn og málefnaleg.   Haldi stefndi því fram, að lögin hafi haft almennt gildi og jafnræðis hafi verið gætt við setningu þeirra, og horfi hinar breyttu reglur um bótarétt vegna niðurlagningar stöðu eins við öllum ríkisstarfsmönnum, hvort heldur sem þeir falli beint undir 34. gr. laganna eða undir 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða.  Af dómi Hæstaréttar 1992, bls. 1962, megi draga þá ályktun, að skerðing umsaminna kjararéttinda sé heimil með einfaldri lagasetningu, án bóta, enda sé jafnræðis gætt.  Sama sjónarmið hljóti fremur að gilda um lögbundin réttindi.  Stefnandi hafi ekki verið sviptur biðlaunarétti, hafi hann haft slíkan rétt, heldur hafi hann ekki uppfyllt lagaskilyrði til greiðslu biðlauna samkvæmt því lagaákvæði, sem í gildi var, þegar hann kaus að hætta í starfi.

Stefndi telji einnig, að líta verði svo á, að þótt talið verði, að biðlaunaréttur hafi notið verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, komi í raun fullt verð fyrir þá breytingu með því, að ríkisstarfsmönnum, er þörf hafi á biðlaunum vegna niðurlagningar stöðu af þeirri ástæðu, að þeir hafi ekki þá þegar aflað sér nýs starfs með jafnháum eða hærri launum, sé tryggður réttur til launa í 6 mánuði eða 12 eftir atvikum.

Um þetta efni vísi stefndi einnig til dóma Hæstaréttar frá 9. maí 1997 í málunum nr. 447 og 448/1996.

Þann 1. janúar 1998 hafi gilt um hugsanlegan rétt stefnanda til biðlauna 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, sbr. 2. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996, sbr. það sem áður segi um efni þessara ákvæða.  Í málinu krefji stefnandi um greiðslu fjárhæðar, sem sam­svari launum í 12 mánuði frá 1. janúar 1998 að telja.

Upplýst sé, að stefnandi hafi hafnað starfinu, sem honum var boðið hjá Landsbanka Íslands hf., og hafi meintur biðlaunaréttur hans þegar af þeirri ástæðu fallið niður. 

Á dskj. nr. 6, sem stefnandi hafi lagt fram, segi m.a., að forstöðumaður erlendra viðskipta hafi haft milligöngu um að útvega stefnanda starf við erlendan banka, og sé ekki vitað annað, en að stefnandi hafi verið þar við störf eftir áramótin 1998.

Í stefnu sé réttilega tekið fram, að tilgangur með reglu 14. gr. laga nr. 38/1954 um greiðslu biðlauna hafi fyrst og fremst verið sá að tryggja starfsmanni ríflegan upp­sagnarfrest, til að hann gæti betur tekizt á við breyttar aðstæður.  Stefnanda hafi verið tilkynnt um starfslok hjá Landsbanka Íslands með rúmlega 6 mánaða fyrirvara, en samkvæmt dómum Hæstaréttar (1995 bls. 2342 og 1996 bls. 4045) teljist uppsagnar­frestur til biðlaunatímans.  Frá biðlaunum beri því að draga launagreiðslur á uppsagnar­fresti.  Á umræddu 6 mánaða tímabili, frá 1. júlí 1997 til ársloka það ár, hafi stefnandi notið launagreiðslna frá Landsbanka Íslands og hafi á þeim tíma haft alla möguleika á að leita sér að nýju starfi, hafi hann ekki kosið að halda áfram í starfi sínu hjá hlutafélaga­bankanum.  Hvernig sem á málið sé litið, virðist þannig ljóst, að stefnandi geti ekki átt rétt til greiðslu biðlauna þann tíma, sem hann fékk óskertar launagreiðslur á 6 mánaða uppsagnarfresti, sem teljist til biðlaunatímans.

Þótt það hafi tæpast beina þýðingu í þessu máli, sé bent á, að í útboði hlutafjár í Landsbanka Íslands hf., sem fram fór í októbermánuði 1998, hafi starfsmönnum verið boðið að skrá sig fyrir hlutabréfum á hagstæðu gengi.  Þeim, sem höfðu verið í starfi árið 1997, hafi einnig verið boðin aðild að þessum kjörum.  Ákvörðun um þessa tilhögun hafi verið tekin við undirbúning að setningu laga nr. 50/1997, en kappkostað hafi verið að hafa um laga­setninguna gott samstarf við starfsmenn bankanna.

Að því er varði einstaka kröfuliði í stefnu, sé til vara gerð athugasemd við, að ársuppbót, orlofsframlag og orlofsuppbót séu reiknuð út frá 12 mánaða biðlaunatíma og mótmælt kröfu um greiðslu orlofs á svonefnda ársuppbót, sbr. dóm Hæstaréttar frá 29. mars 1990.  Kröfu um upphafstíma dráttarvaxta sé sérstaklega mótmælt.

 

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Ágreiningur aðila snýst um það, hvort stefnandi hafi notið réttarstöðu opinberra starfsmanna skv. l. nr. 38/1954, sbr. l. nr. 70/1996, sem starfsmaður Landsbanka Íslands, aðild stefnda, hvort stefnandi eigi rétt til biðlauna eða skaðabóta úr hendi stefndu og ef svo er, til hvaða greiðslna sá réttur nái.

Fram til þess að lög nr. 38/1954 tóku gildi, voru engin heildarlög til hér á landi um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.  Með setningu laganna var því fengin mikilvæg réttarbót fyrir alla opinbera starfsmenn.  Hins vegar skera lögin ekki úr um það á óyggjandi hátt, hverjir skuli teljast opinberir starfsmenn.  Í 1. gr. laganna segir svo:  "Lög þessi taka til hvers manns, sem er skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins með föstum launum, meðan hann gegnir starfanum, enda verði starf hans talið aðalstarf."  Hvergi í lögum er tekið skýrt á því, hvort starfsmenn ríkisbankanna falli undir starfsmannalögin.

Einn af höfundum frumvarpsins til laga nr. 38/1954, Gunnar Thoroddsen, ritaði grein í Úlfljót, tímarit laganema, í október 1954, þar sem hann segir svo m.a.:  "Lögin taka til starfsmanna í þjónustu ríkisins, hvort sem er á sviði framkvæmdavalds, dómstóla eða Alþingis; einnig til starfsmanna við stofnanir ríkisins, t.d. Pósts og síma ……., Landsbanka Íslands, Búnaðarbanka Íslands."  Af þessum orðum verður ráðið, að það hafi verið ætlan höfunda frumvarpsins, að starfsmenn ríkisbankanna skyldu falla undir lögin.  Telja verður og, að eðlisrök mæli með því, að orðin "í þjónustu ríkisins" í 1. gr. starfsmannalaganna eigi ekki einungis við um þá, sem starfa og taka laun hjá hinum eiginlega ríkissjóði, heldur einnig þá, sem starfa hjá hinum ýmsu ríkisstofnunum, þ.á m. ríkisbönkunum, og hefði þurft að taka það skýrt fram í lögunum, hefði svo ekki átt að vera.  Hæstiréttur hefur og komizt að þeirri niðurstöðu í nokkrum dómum sínum, að starfsmannalögin taki til starfsmanna ríkisbankanna, sbr. t.d. Hrd. 1974:660.  Stefnandi telst því hafa verið ríkisstarfsmaður í skilningi l. nr. 38/1954.  Naut hann því verndar þeirra laga varðandi ráðningarkjör sín með fullri ábyrgð ríkissjóðs.  Er kröfum stefnanda því réttilega beint að stefnda, ríkissjóði.

Aðila greinir á um það, hvort starf það, sem stefnandi hafði með höndum hjá Landsbanka Íslands, hafi verið lagt niður með stofnun Landsbanka Íslands hf.

Samkvæmt bréfi Landsbanka Íslands, þar sem stefnanda er tilkynnt um stofnun hlutafélags um bankann, er ljóst, að skilningur bankans var sá, að starfið væri lagt niður.  Verður það m.a. ráðið af orðalagi bréfsins, þar sem segir, að starfsmönnum bankans sé gefinn kostur á "sambærilegu starfi hjá Landsbanka Íslands hf. …" og "sambærilegu starfi hjá hinum nýja hlutafélagabanka ….".  Enn fremur er talað um starfslok stefnanda hjá Landsbanka Íslands, óháð því, hvort hann kjósi að taka við starfi hjá Landsbanka Íslands hf.  Þykir bréfið því taka af öll tvímæli um það, að starf stefnanda var lagt niður við rekstrarformsbreytinguna.

Samkvæmt 14. gr. l. nr. 38/1954 átti opinber starfsmaður rétt til biðlauna við niðurlagningu stöðu, enda hafi hann ekki hafnað sambærilegri stöðu á vegum ríkisins.  Lög þessi voru numin úr gildi með l. nr. 70/1996.  Ákvæði um biðlaunarétt er að finna í 34. gr. þeirra laga, en þar er embættismanni, við niðurlagningu embættis, tryggður réttur til óbreyttra launakjara, er embættinu fylgdu, enda hafi hann þá ekki hafnað öðru sambærilegu starfi, óháð því, hvort það er á vegum ríksins eða annars aðila.  Í bráðabirgðaákvæði með sömu lögum er mælt fyrir um bætur til handa öðrum starfsmönnum, sem ekki eru embættismenn, við niðurlagningu stöðu, og er jafnframt vísað til 34. gr. laganna.  Stefnandi heldur því fram, að síðargreind lagaákvæði brjóti í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar, en biðlaunaréttur sá, sem hann naut samkvæmt l. nr. 38/1954 hafi verið eignarréttur, sem ekki verði af honum tekinn eða skertur með þeim hætti, sem fram kemur í l. nr. 70/1996.  Sú skerðing, sem stefnandi vísar til er í 2. mgr. 34. gr. l. nr. 70/1997 og lýtur að því, að biðlaunagreiðslur skuli falla niður, ef laun þau, er nýja starfinu fylgja, séu jöfn eða hærri en þau, er hann naut í fyrra starfi.  Ætla verður, að stefnandi eigi þarna við laun í nýju starfi, sem ekki er á vegum ríkisins, enda var í eldri lögunum sambærilegt ákvæði, sem takmarkaðist þó eingöngu við starf í þjónustu ríkisins.

Þeim skilningi stefnanda er hafnað, að biðlaunaréttur samkvæmt 14. gr. l. nr. 38/1954 hafi talizt eign í skilningi eignarréttar og notið verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Biðlaunarétturinn var ekki afmarkaður sem eign í skilningi fjármunaréttar og var háður óvissu skilyrði um niðurlagningu stöðu.  Þá tengdist þessi réttur ekki framlögum frá starfsmanni, t.d. í formi iðgjalda.  Verður að telja, að löggjafanum hafi verið heimilt að breyta þessum réttindum, enda tryggja hin nýju lagaákvæði, að starfsmaður njóti launakjara við niðurlagningu stöðu í ekki skemmri tíma en samkvæmt eldra ákvæði, en girða hins vegar fyrir þá stöðu, sem upp gat komið, að starfsmaður gat notið tvöfaldra launa um lengri eða skemmri tíma og þannig hagnazt umtalsvert á því, að staða hans var lögð niður.  Telja verður, að umdeild breyting á biðlaunarétti hafi verið málefnaleg og almenn og ekki snert sérstaklega einstaka aðila eða fámennan, afmarkaðan hóp ríkisstarfsmanna.  Þá sýnist fyllsta jafnræðis hafa verið gætt við setningu þeirra.  Er því ekki fallizt á, að stefnandi eigi bótarétt vegna skerðingarinnar.

Kemur þá til álita að skoða, hvort stefnandi hafi átt rétt til greiðslna, sambærilegra þeim launakjörum, sem hann hafði, þegar hann lét af störfum, samkvæmt 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis l. nr. 70/1997, sbr. 34. gr. sömu laga.  Stefnandi hefur að vísu hafnað þessum ákvæðum laganna á þeim forsendum, að þau brjóti í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, og hefur ekki byggt málssókn sína á þeim.  Með því, að þeim skilningi hans hefur verið hafnað hér að framan, ber að líta svo á, að krafa hans og málsástæður rúmist innan þessa ákvæðis, eigi að síður.

Í áðurgreindu bréfi Landsbanka Íslands, þar sem stefnanda er tilkynnt um starfslok sín hjá bankanum, er honum jafnframt boðið starf á vegum hins nýja hlutafélagabanka.  Hann heldur því fram, að það eitt, að það starf sé ekki hjá ríkinu, leiði til þess, að því fylgi ekki biðlaunaréttur, sem geri það að verkum, að starfið geti aldrei orðið sambærilegt hinu fyrra starfi. 

Í 8. gr. laga nr. 50/1997 um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands segir, að allir starfsmenn Landsbanka Íslands, sem taka laun samkvæmt kjarasamningum Sambands íslenzkra bankamanna eða kjarasamningum annarra stéttarfélaga, eigi kost á sambærilegu starfi hjá Landsbanka Íslands hf. við yfirtöku hlutafélagsins á bankanum og enn fremur, að taki maður, sem gegnir starfi hjá Landsbanka Íslands við starfi hjá Landsbanka Íslands hf., skuli hann njóta sömu réttinda og hann hafði samkvæmt kjarasamningum og/eða ráðningarsamningum.  Í 10. gr. sömu laga segir enn fremur svo:  "Um biðlaunarétt sem kann að hafa fylgt störfum í ríkisviðskiptabönkunum, gilda ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins."  Samkvæmt þessu verður ekki séð, að starfskjör stefnanda hefðu orðið önnur eða lakari en þau, sem hann naut samkvæmt l. nr. 70/1996, meðan hann starfaði við Landsbanka Íslands.  Hann telst því hafa hafnað öðru sambærilegu starfi og á því ekki rétt til biðlauna eða bóta samkvæmt 34. gr., sbr. 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis l. nr. 70/1997.

Varakrafa stefnanda er byggð á því, að hann eigi rétt til skaðabóta á þeim grundvelli, að biðlaunaréttur hans hafi notið verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Með vísan til þess, sem að framan er rakið, er þessari kröfu hafnað og ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt, að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndi, íslenzka ríkið, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Gunnbjörns Þórs Ingvarssonar, í máli þessu.

Aðilar bera hvor sinn kostnað af málinu.