Print

Mál nr. 175/2009

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

       

Föstudaginn 17. apríl 2009.

Nr. 175/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

 

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. apríl 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 11. maí 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykja­víkur úrskurði að kærða, X, kt. [...],[...], Reykjavík, verði gert að sæta gæsluvarðahaldi allt til mánudagsins 11. maí 2009, kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kærði hafi verið handtekinn í gærmorgun í kjölfar þess að lögregla hafi haft af honum afskipti þar sem hann hafi verið grunaður um þjófnað fyrr um morguninn en á honum hafi fundist farsími sem tilkynntur hafi verið stolinn. Kærði hafi margsinnis komið við sögu lögreglu og sé nú grunaður um sjö innbrot og þjófnaði frá því síðasta fimmtudag, þann 9. apríl sl. Kærði hafi hlotið fjöldamarga fangelsisdóma fyrir samskonar brot. Þykir að mati lögreglu ljóst að kærði hafi einbeittan brotavilja og virðist ekkert lát vera á brotastarfsemi hans. Eftirfarandi mál séu til rannsóknar hjá embættinu og munu líklega öll sæta ákærumeðferð á næstunni:

“007-2009-21152

Þann 10. apríl sl. var tilkynnt um innbrot og þjófnað úr hótelherbergi á Fosshóteli við Rauðarárstíg í Reykjavík. Mun þjófnaðurinn hafa átt sér stað á tímabilinu kl. 11:40 – 12:05 þann 9. apríl sl. Úr herberginu var stolið svörtum Nokia farsíma og þremur greiðslukortum. Við skoðun á upptökum úr eftirlitsmyndavélum þekktu lögreglumenn kærða, þar sem hann sást á herbergjagangi og sást fara inn í herbergi á hótelinu á sama tíma og þjófnaðurinn átti sér stað. Kærði hefur viðurkennt í skýrslutöku að hafa farið inn í umrætt herbergi og stolið þaðan framangreindum síma og greiðslukortum.

007-2009-21181

Að kvöldi fimmtudagsins 9. apríl sl. var lögregla kölluð að Y 31, Reykjavík, en þar var húsráðandi með mann í haldi sem hafði brotist inn til hans. Er lögregla kom á vettvang kvaðst húsráðandi hafa sleppt manninum en að hann væri ekki komin langt frá vettvangi. Kvað hann manninn hafa verið búinn að taka vasaljós sem hann átti en að hann teldi hann ekki hafa tekið fleiri muni. Á bak við bifreið við Y 30 fundu lögreglumenn kærða. Við leit á kærða fundust ýmsir munir, m.a. stafræn myndavél, armband, tvennir eyrnalokkar, tvö hálsmen, gleraugnahulstur með pennum og gamalt armbandsúr. Við skýrslutöku kvaðst kærði hafa farið inn í húsið við Y 31 til að hlýja sér. Þá gat hann ekki gefið neinar skýringar á þeim munum sem fundust í fórum hans. Við skýrslutöku í morgun, þann 13. apríl, viðurkenndi kærði að hafa farið inn í húsið við Y 31.

007-2009-21256

Þann 10. apríl sl. fékk lögregla tilkynningu um innbrot í húsnæði Bændasamtakanna á 3. hæð í húsnæði Hótel Sögu við Hagatorg í Reykjavík. Þar hafði verið farið inn um miðdyr á skrifstofu samtakanna og stolið fartölvu. Þá lágu vínflöskur á borði í húsnæðinu. Ætlaður innbrotstími er á milli kl. 17:00 og 20:00 þann 9. apríl sl.

Fartölvan fannst í plastpoka fyrir utan Y 29, Reykjavík kl. 23:33 þann 9. apríl sl. Kærði hafði þá skömmu áður verið handtekinn vegna gruns um innbrot að Y 31, Reykjavík. Er kærði grunaður um innbrotið í húsnæði Bændasamtakanna að kvöldi 9. apríl sl. og að hafa skilið fartölvuna eftir á þeim stað er hún fannst er hann varð lögreglu var í þeirri von að hann yrði ekki tengdur við innbrotið. Við skýrslutöku í morgun, þann 13. apríl, viðurkenndi kærði að hafa farið inn á Hótel Sögu og tekið þaðan 3-4 flöskur af áfengi og fartölvu. Hann kveðst hafa skilið framangreinda muni eftir í plastpoka fyrir utan Y 29, þar sem þeir fundust síðar um kvöldið.

007-2009-21559

Að morgni 12. apríl sl. fékk lögregla tilkynningu um þjófnað á Hótel 1919 við Pósthússtræti 2, Reykjavík. Kvaðst starfsmaður veitingastaðarins hafa mætt til vinnu um morguninn og lagt veski sitt á bak við barborðið. Skömmu síðar veitti hún því athygli að það lá á hliðinni og var þá búið að stela þaðan greiðslukortum, kr. 8.000 í reiðufé og Sony Ericsson farsíma. Kvaðst starfsmaðurinn hafa veitt einum manni athygli og lýsti honum sem meðalháum, klæddum svörtum jakka og svörtum buxum með úfið hár.

Síðar um morguninn veittu lögreglumenn kærða athygli og svaraði hann til lýsingar grunuðum aðila í máli þessu. Aðspurður kvaðst kærði ekki hafa verið nálægt hótelinu á umræddum tíma en við leit á honum fannst m.a. framangreindur farsími.

Við skýrslutöku í morgun, þann 13. apríl, viðurkenndi kærði að hafa stolið framangreindum munum, en kveður þó að aðeins hafi verið kr. 3.000 í reiðufé í veskinu. Þá kveðst hann hafa stolið áfengisflösku af barnum á sama tíma.

007-2009-21593

Er lögregla hafði afskipti af kærða vegna m. 007-2009-21559 fundust á honum pappírar og lyfjaglas með nafni A, ásamt sjónauka. Var haft samband við A og kom þá í ljós að framangreindir munir höfðu verið í bifreiðinni [...] og hafði verið farið inn í hana þar sem hún stóð í bifreiðastæði við Z 11, Reykjavík og framangreindum munum stolið úr hanskahólfi bifreiðarinnar. Er kærði því grunaður um að hafa farið inn í framangreinda bifreið aðfaranótt eða að morgni 12. apríl sl.

Við skýrslutöku í morgun, þann 13. apríl, viðurkenndi kærði að hafa farið inn í bifreiðina og stolið framangreindum munum.

007-2009-21594

Er lögregla hafði afskipti af kærða vegna m. 007-2009-21159 fannst á honum afsal fyrir bifreiðinni [...] og sólgleraugu. Var haft samband við eiganda [...] og kom þá í ljós að framangreindir munir höfðu verið í bifreiðinni [...] og hafði verið farið inn í hana þar sem hún stóð í bifreiðastæði við Z 15, Reykjavík og framangreindum munum stolið úr bifreiðinni. Er kærði því grunaður um að hafa farið inn í framangreinda bifreið aðfaranótt eða að morgni 12. apríl sl.

Við skýrslutöku í morgun, þann 13. apríl, viðurkenndi kærði að hafa farið inn í bifreiðina og stolið framangreindum munum.

007-2009-21567

Að morgni 12. apríl sl. fékk lögregla tilkynningu um að brotist hefði verið inn í þvottahús í kjallara að Þ 14, Reykjavík um nóttina. Þaðan var stolið einkennisskyrtum merktum Securitas, tveimur fartölvum, annarri af gerðinni Fujitsu Simens og hinni af gerðinni Toshiba. Aðspurð kváðust húsráðendur gruna X, þar sem þau höfðu rekið hann út úr sameigninni um kl. 21:30 fyrr um kvöldið þar sem hann hafði verið að snuðra en hann gaf þeim þá skýringu að hann hefði verið að týna ánamaðka. Innangengt er í þvottahúsið úr sameigninni.

Við skýrslutöku í morgun, þann 13. apríl, viðurkenndi kærði að hafa brotist inn í húsið við Þ 14 og stolið þaðan tveimur fartölvum.”

Kærði eigi langan sakaferil að baki og hefur margsinnis hlotið fangelsisdóma fyrir þjófnaði og innbrot. Að því er varðar þjófnað á greiðslukortum í framangreindum tilvikum þá liggi ekki ljóst fyrir á þessu stigi málanna hvort kærði hafi notað þau og þar með svikið út vörur eða þjónustu eftir atvikum. Er kærði hafi verið handtekinn í gærmorgun hafi hann verið kominn í nýjan fatnað og leikur grunur á að hann hafi stolið fötunum, en sé þar m.a. um að ræða buxur sem séu eins og öryggisverðir nota. Þá hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu höfðað sakamál á hendur kærða fyrir þjófnaði, eignaspjöll og húsbrot framin á árinu 2008, en því máli sé ekki lokið fyrir dómi. 

Með vísan til framangreinds og ferils kærða telur lögregla yfirgnæfandi líkur á því að kærði muni halda brotastarfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sæta dómsmeðferð.

Sakarefni málsins sé talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu geti varðað fangelsi allt að 6 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Kærði mótmælir kröfunni og segir að málsatvikin réttlæti á engan hátt að hann sé látinn sæta gæsluvarðhaldi.

Fyrir liggur að kærði er grunaður um níu þjófnaðarbrot að undanförnu.  Hann á að baki langan sakarferil allt frá því að hann hlaut 8 mánaða skilorðsbundið fangelsi í desember 1969.  Þá liggur það fyrir að hér fyrir dóminum er ódæmt mál á hann þar er hann ákærður fyrir fjögur þjófnaðarbrot, eignaspjöll og húsbrot á síðasta ári. Dómarinn álítur að nauðsynlegt sé vegna almannahagsmuna, og með vísan til c lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og lögreglustjórinn hefur krafist og í úrskurðarorði greinir.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðahaldi allt til mánudagsins 11. maí 2009, kl. 16.00.