Print

Mál nr. 639/2012

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

                                     

Mánudaginn 8. október 2012.

Nr. 639/2012.

 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

Z

(Sigurður Logi Jóhannesson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að Z skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðu 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. október 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. október 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 11. október 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. október 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að Z, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 11. október 2012 kl. 16. Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að hann hafi nú til rannsóknar mál þar sem meðlimir á vegum vélhjólagengisins A séu undir rökstuddum grun um fyrirhugaða innrás á heimili tilgreindra lögreglumanna, með það fyrir augum að valda þeim og fjölskyldum þeirra líkamstjóni.

Í gærkvöldi hafi lögregla framkvæmt í þágu rannsóknar málsins húsleitir á heimilum og dvalarstöðum manna sem taldir eru tengjast samtökunum, jafnframt sem lögreglan hafi gert leit í húsnæði A. Samtals hafi sextán einstaklingar verið handteknir, þ. á m. kærði, sem þá hafi verið staddur í félagsheimili samtakanna.

Í skýrslutökum hjá lögreglu í dag hafi kærði neitað að svara spurningum lögreglu. Rannsókn málsins sé á algjöru frumstigi, en það liggi þó fyrir áreiðanlegar upplýsingar um fyrirætlan meðlima samtakanna um að ráðast á lögreglumenn og fjölskyldur þeirra, sbr.  upplýsingaskýrslu í rannsóknargögnum málsins. Sömuleiðis liggi fyrir í málinu tölvu­samskipti milli meðlima samtakanna, þar sem sé að finna nöfn tilgreindra lögreglumanna, jafnframt sem verið sé að skipuleggja árás á þá. Um þetta sé nánar vísað til  upplýsingaskýrslu í gögnum málsins. Ekki hafi reynst unnt að bera umrædd gögn undir kærða.

Rannsókn málsins sé á mjög viðkvæmu stigi. Það liggi nú fyrir lögreglu að taka frekari skýrslur af sakborningum og vitnum. Þá sé nauðsynlegt að vinna úr þeim tölvugögnum sem tengjast málinu og bera undir sakborninga. Það sé því afar brýnt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi þannig að hann fái ekki svigrúm til að torvelda rannsóknina eða spilla henni á nokkurn hátt, s.s. með því að hafa áhrif á aðra sakborninga eða vitni, eða koma undan gögnum sem sönnunargildi hafa.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamálamála, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins, einkum upplýsinga sem fundust um tiltekna lögreglumenn er lögregla hafði afskipti af kærða og tveimur öðrum sakborningum, X og Y, er kærði undir rökstuddum grun um aðild að fyrirhugaðri árás á lögreglumenn og fjölskyldur þeirra. Getur meint brot varðað fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, s.s. með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa samband við samseka. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfur lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, Z, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 11. október 2012, kl. 16:00.

Kærða er gert að vera í einangrun meðan á gæslu stendur.