- Kærumál
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Föstudaginn 13. desember 2013. |
|
Nr. 776/2013. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi) gegn X (Hólmgeir El. Flosason hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. desember 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram allt til miðvikudagsins 8. janúar 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að vægari úrræðum verði beitt.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði leikur rökstuddur grunur á að varnaraðili hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Varnaraðili er erlendur ríkisborgari og virðist hann samkvæmt gögnum málsins ekki hafa nein tengsl við Ísland eða þá sem hér eru búsettir. Samkvæmt því má ætla að hann muni reyna að komast úr landi eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn ef hann verður látinn laus. Af þessum sökum er fullnægt skilyrðum til að úrskurða varnaraðila áfram í gæsluvarðhald á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, en eins og atvikum er háttað verður ekki talið að nærvera hans verði tryggð með öðrum og vægari úrræðum. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. desember 2013.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að X, fd. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. janúar 2014, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að lögreglunni hafi borist tilkynning frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar skömmu eftir hádegi þann 29. október 2013, um að kærði hafi verið tekinn til nánari skoðunar af tollvörðum og í farangri hans hafi fundist glerflaska sem kærði tjáði tollvörðum að væri rauðvínsflaska er innihéldi rauðvín. Er tollverðir hugðust skoða flöskuna betur kastaði kærði henni í gólfið með þeim afleiðingum að flaskan brotnaði og vökvi flöskunnar flaut um gólf. Gaus upp mikil lykt af vökvanum sem ekki virtist vera rauðvín. Var ákveðið að kalla til slökkvilið við hreinsun og sýni tekin af vökvanum til frekari rannsóknar hjá rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum við Háskóla Íslands. Var niðurstaða greiningarinnar sú að vökvinn innihélt metamfetamín og væri þ.a.l. svokallaður afmetamínbasi. Telur lögregla að basinn hafi verið ætlaður til framleiðslu á amfetamíni hér á landi.
Þá kemur fram að samkvæmt lögreglu hafi kærði verið afar ósamvinnuþýður við yfirheyrslur í málinu. Hafi kærði m.a. haldið því fram að hann hafi verið mjög stressaður er tollverðir ræddu við hann í framangreint skipti. Hann hafi reiðst snögglega og hent flöskunni í gólfið. Hafi kærði ekki getað gefið frekari skýringar á háttsemi sinni nema að hann kunni að hafa verið í andlegu ójafnvægi. Kærði hafi að sama skapi neitað því að hafa flutt fíkniefni hingað til lands eða að hann hafi verið meðvitaður um að hann hafi haft fíkniefni í fórum sínum. Kærði hafi verið missaga í framburði sínum varðandi það hvenær hann komst yfir flöskuna sem hann braut. Þannig hafi kærði m.a. greint frá því í viðræðum við tollverði að hann hefði sjálfur keypt flöskuna fyrir 6 mánuðum síðan. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði aftur á móti greint frá því að hann hefði keypt flöskuna í búð í byrjun október. Við skýrslutöku þann 8. nóvember staðfesti kærði þann framburð sinn. Hafi kærði jafnframt greint frá því við skýrslutökuna þann 8. nóvember s.l. að hann hafi átt að afhenda flöskuna manni hér á landi sem hann kunni engin deili á. Í staðinn fyrir að afhenda flöskuna til þessa aðila hafi hann átt að fá vinnu hér á landi. Þetta hafi maður sem hann hafi kynnst í líkamsræktarstöð í heimabæ sínum boðið honum að gera, þ.e.a.s. að kaupa flöskuna og afhenda hana manni hér á landi. Vísað er nánar til rannsóknargagna málsins.
Þá segir ennfremur að rannsókn máls sé á lokastigi. Kærði hafi neitað sök og sagt að í flöskunni væri léttvín, rauðvín. Lögregla hafi ekki náð að hafa upp á ætluðum samverkamönnum kærða þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Að mati lögreglu sé framburður kærða afar ótrúverðugur og hafi hann ekki verið samvinnuþýður. Hafi staðfesting borist frá pólskum og dönskum löggæsluyfirvöldum um að hann hafi sakarferil í þeim löndum og sé þekktur þar. Kærði hafi hins vegar greint frá því að honum sé ekki kunnugt um að hann eigi sér sakaferil í heimalandi sínu eða annarsstaðar. Kærði sé erlendur ríkisborgari sem virðist ekki hafa nein tengsl við land og þjóð en hann stundi hvorki atvinnu hér né eigi hann fjölskyldu eða vini hér á landi. Af þessum sökum telji lögregla hættu á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hann laus meðan mál hans er til meðferðar hjá lögreglu. Af þessum sökum telur lögregla að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, um gæsluvarðhald, sé fullnægt í málinu. Vísast í þessu skyni einnig til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 595/2011.
Þá telji lögregla að vökvinn sem fannst í fórum kærða hafi verið ætlaður til framleiðslu fíkniefna hér á landi sem átt hafi að fara í sölu og dreifingu hér á landi. Þá telji lögregla einnig, miðað við það magn vökvans til framleiðslu fíkniefna kunni ætluð háttsemi kærða að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Með vísan til alls framangreinds, b- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, 173. gr.a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins miðvikudagsins 8. janúar 2013, kl. 16:00.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst aðallega að henni verði hafnað og til vara að vægari úrræðum verði beitt. Sækjandi og verjandi tjáðu sig um kröfur sínar og lögðu málið í úrskurð að því loknu.
Eins og rakið hefur verið kom kærði með eins lítra flösku til landsins sem reyndist innihalda sterkan amfetamínbasa sem ætlaður er til framleiðslu fíkniefna og þá væntanlega í sölu-og dreifingarskyni. Með hliðsjón af ofangreindu telur dómurinn líkur á að brot hans, verði sekt sönnuð, varði við 173. gr. a laga nr. 19/1940 svo og lög nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Er rannsókn lögreglu á lokastigi og verður sent ríkissaksóknara á næstu dögum. Þá verður tekið undir það með lögreglu að frásögn kærða um tilgang ferðar hans til landsins er ótrúverðugur. Telur dómurinn líkur á því að kærði muni koma sér úr landi eða leynast eða með öðrum hætti koma sér undan málsókn þar sem hann hefur engin tengsl við landið og því skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, fullnægt. Ekki þykir tilefni til að taka varakröfur kærða til greina.
Með vísan til þessa er krafa lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi til 8. janúar 2014, kl. 16:00 tekin til greina.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. janúar 2014, kl. 16:00.