Print

Mál nr. 128/2017

Lögreglustjórinn á Suðurlandi (Grímur Hergeirsson hdl.)
gegn
X (Torfi Ragnar Sigurðsson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Davíð Þór Björgvinsson og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. febrúar 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 17. febrúar 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 17. mars 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að honum verði gert að sæta vægara úrræði.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili undir sterkum grun um kynferðisbrot gagnvart tveimur konum með stuttu millibili að morgni 13. febrúar 2017. Getur brot hans í báðum tilvikum varðað allt að 16 ára fangelsi samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá eru brotin þess eðlis að ætla má gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Að þessu virtu er fullnægt skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi eins og krafist er. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 17. febrúar 2017 2017.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur krafist þess að X, kt. [...], til lögheimilis að [...], [...], og dvalarstað að [...], [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 föstudaginn 17. mars n.k.

Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað, en krefst þess til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Í kröfu lögreglustjórans kemur fram að lögreglan á Suðurlandi hafi nú til rannsóknar þrjú ætluð brot X gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hin meintu brot hafi verið framin á Hótel [...] undir morgun mánudaginn 13. febrúar sl., með skömmu millibili og beinist gegn þrem konum, A, kt. [...], B, kt. [...], og C, kt. [...]. Allar þrjár hafi þær verið gestir á Hótel [...] umrædda nótt og verið sofandi hver á sínu hótelherbergi þegar hin ætluðu brot hafi verið framin.

Klukkan 07:10 mánudaginn 13. febrúar sl. hafi lögreglu borist tilkynning um að konu hefði verið nauðgað á Hótel [...] við [...] á [...]. Nokkrum mínútum síðar hafi lögregla verið komin á vettvang og hitt þar fyrst fyrir starfsmenn hótelsins. Strax hafi þá komið í ljós að grunur væri uppi um að tveimur konum hefði verið nauðgað þá skömmu áður þar sem þær hafi sofið í herbergjum sínum nr. [...] og [...] á hótelinu. Samkvæmt upplýsingum hótelstarfsfólks hafi veitingastaðirnir [...] og [...] í Reykjavík staðið fyrir sameiginlegri árshátíð starfsfólks síns þarna á hótelinu kvöldið áður og fram á nótt. Hluti árshátíðargestanna hafi gist á hótelinu um nóttina. Vitni sem lögregla hafi hitt fyrir á vettvangi hafi vísað lögreglu á X sem geranda í báðum brotunum. Hann hafi verið handtekinn kl. 07:24 á gangi framan við herbergi nr. 207. Tvö vitni sem lögregla hafi rætt við á vettvangi hafi sagst hafa séð kærða koma út af baðherbergi sem sé inni á herbergi nr. [...] þá skömmu áður, en vitnin hafi þá verið komin inn á herbergið til að hlúa að öðrum brotaþolanum sem hafi verið þar inni í miklu uppnámi. Kærði hafi aðspurður ekki getað gefið trúverðuga skýringu á ferðum sínum inni á herberginu.

Lögregla hafi stuttlega haft tal af brotaþolunum tveimur á vettvangi. A, hafi verið í miklu uppnámi þannig að hún hafi fengið róandi sprautu hjá sjúkraliði á vettvangi. Mjög erfitt hafi reynst að ræða við A sökum geðshræringar en hún hafi þó getað greint lögreglu frá því að hún hafi verið í fasta svefni í rúmi sínu á herbergi nr. [...] þegar hún hafi vaknað við að ókunnur maður væri að hafa samfarir við hana í rúminu. Hún hafi náð að ýta manninum af sér í framhaldinu.

B hafi verið í talsverðu uppnámi en greint lögreglu frá því að hún hafi verið sofandi í rúmi á herbergi [...]. Hún hafi fundið að einhver hafi verið að snerta á henni lærið en ekki gert sér grein fyrir því hvað væri i gangi. Hún hafi síðan vaknað og áttað sig á því að maður hafi verið að hafa við hana samfarir og talið að það hefði staðið yfir í um tvær mínútur er hún hafi áttað sig og náð í framhaldinu að hrinda manninum af sér. Maðurinn hafi þá yfirgefið herbergið. B hafi bent á kærða á vettvangi sem gerandann.

Við líkamsleit sem gerð hafi verið á kærða í kjölfar handtöku hafi fundist svartar kvenmannsnærbuxur í vinstri brjóstvasa hans. Grunur leiki á að annar brotaþolanna eigi umræddar nærbuxur þar sem þær komi heim og saman við lýsingu brotaþolans á nærbuxum sem hún hafi klæðst þegar hún hafi lagst til svefns á hótelherberginu. Hún hafi svo verið nakin þegar hún hafi vaknað upp við að maður hafi verið að hafa við hana samfarir og ekki fundið nærbuxurnar eftir það.

Kærði hafi í yfirheyrslu hjá lögreglu kannast við að hafa farið inn á bæði herbergin sem um ræði á Hótel [...] undir morgun og haft samræði við konurnar sem þar voru. Hann hafi talið að samræðið væri með samþykki kvennanna en þegar þær hafi sagt honum að hætta hafi hann strax hætt. Hann hafi neitað að um nauðgun hafi verið að ræða, þetta hafi líklega bara verið misskilningur.

Að kröfu lögreglustjóra hafi kærða með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands, dags. [...]. febrúar 2017 í málinu nr. R-[...]/2017, verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 allt til kl. 16:00 föstudaginn 17. febrúar 2017.

Síðdegis þriðjudaginn 14. febrúar sl. hafi svo þriðji brotaþolinn, C, haft samband við lögreglu og kvaðst vilja kæra kærða fyrir kynferðisbrot sem hafi átt sér stað á herbergi nr. [...] á Hótel [...] undir morgun sl. mánudag. Í kæruskýrslu hjá lögreglu hafi C greint frá því að hún hafi verið sofandi í rúmi í umræddu herbergi, undir sæng, þegar hún hafi vaknað upp við það að einhver hafi verið að káfa á innanverðu læri hennar og rassi, innanklæða, undir sænginni. hafi hún séð að þar hafi kærði verið að verki en hún hafi sagst þekkja hann þar sem þau væru að vinna á sama veitingastað. Vitni sem einnig hafi sofið í sama herbergi hafi vaknað upp og hafi staðfest við lögreglu að kærði hafi verið þar að verki.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu í gær 16. febrúar hafi kærði ítrekað að hann hefði fengið samþykki kvennanna tveggja áður en hann hafi haft við þær samræði. Þær hafi svo báðar dregið samþykkið til baka og hann þá hætt og haft sig á brott. Hann hafi sagst hafa haft munnmök við aðra konuna og samfarir við hina. Varðandi kæru C hafi kærði kannast við að hafa farið inn í herbergið hjá henni en hann hafi neitað að hafa káfað á henni innan klæða. Hann hafi einungis verið að leita að tóbaki þar inni.

Vitnið D, vaktstjóri á [...] og yfirmaður kærða, hafi greint frá því við yfirheyrslu hjá lögreglu að hann hefði sérstaklega rætt við kærða fyrir árshátíðina og beðið kærða að fara varlega í neyslu áfengis. Ástæðan hafi verið sú að vitnið hafi áður orðið þess áskynja að kærði ætti til að tapa stjórn á hvötum sínum þegar hann er undir áhrifum.

Að mati lögreglu teljist, þrátt fyrir neitun kærða, sterkur rökstuddur grunur kominn fram um að hann hafi gerst sekur um öll hin þrjú ætluðu brot. Það mat byggi á því að kærði hafi verið handtekinn á vettvangi síðasta brotsins, þ.e. við herbergi nr. [...], strax í kjölfar tilkynningar til lögreglu. Þá staðfesti framburður vitna að kærði hafi verið inni á herbergi nr. [...], herbergi brotaþolans A, þegar vitnin hafi komið þar inn. Brotaþolinn B hafi staðfest við lögreglu á vettvangi að kærði væri sá sem hefði brotið gegn henni inni á herbergi [...] þá skömmu áður. Þriðji brotaþolinn, C, hafi borið að hún þekki kærða og að hann hafi káfað á henni innan klæða inni á herbergi [...], auk þess sem vitni hafi þekkt hann á vettvangi. Þá verði einnig að líta til þess að kærði hafi sjálfur í framburði hjá lögreglu sagt að hann hafi farið inn á þrjú herbergi umrætt sinn og að hann hafi haft kynferðismök við tvær konur. Framburður hans um að kynferðismökin hafi verið með samþykki brotaþolanna og hann síðan látið af háttsemi sinni þegar þær hafi beðið hann um að hætta sé aftur á móti afar ótrúverðugur og í algjörri andstöðu við framburði brotaþolanna sjálfra og viðbrögð þeirra í kjölfarið. Hið sama eigi við hvað varðar framburð kærða um að hann hafi verið að leita að tóbakinu sínu uppi í rúmi þriðja brotaþolans, herbergi [...], og þess vegna hafi hann verið með hendurnar undir sæng brotaþolans.

Í málinu séu til rannsóknar þrjú aðskilin tilvik, hvert um sig ætluð brot kærða gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Tvö hinna ætluðu brota varði við 2. mgr. 194. gr. laganna og hið þriðja við 199. gr. laganna. Um sé að ræða mjög alvarlegar sakargiftir enda hafi löggjafinn ákveðið að við brotum gegn 194. gr. skuli liggja fangelsisrefsing eigi skemmri en eitt ár og allt að sextán árum.

Að mati lögreglustjóra sé kærði eins og áður segi undir sterkum rökstuddum grun um að hafa undir morgun mánudaginn 13. febrúar sl., með skömmu millibili á Hótel [...], nauðgað tveimur konum sem þá hafi verið í fasta svefni. Auk þess hafi hann brotið kynferðislega gegn þriðju konunni, sem einnig hafi þá verið í fasta svefni, með því að strjúka henni innan klæða um læri og rass. Um sérlega ófyrirleitin og fólskuleg brot sé að ræða þar sem kærði að því er virðist hafi gengið inn á herbergi, valin af handahófi, og brotið gegn varnarlausum konunum inni á herbergjum þeirra. Ætluð brot kærða varði allt að 16 ára fangelsi. Lögreglustjóri telji að þau brot sem hér um ræði séu þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Óforsvaranlegt sé að kærði gangi laus þegar sterkur grunur leiki á að hann hafi framið svo alvarleg brot sem honum séu gefin að sök. Að mat lögreglu sé kærði hættulegur umhverfi sínu og brotin þess eðlis að það stríði gegn réttarvitund almennings að hann gangi laus meðan mál hans eru til meðferðar. Hvað þetta varðar vísar lögreglustjóri sérstaklega til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 854/2015.

Með vísan til alls framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sé þess farið á leit að framangreind krafa um gæsluvarðhald nái fram að ganga. Ekki sé gerð krafa um að kærða verði með úrskurði gert að sæta einangrun eða öðrum takmörkunum í gæsluvarðhaldinu nái krafa þessi fram að ganga.

Forsendur og niðurstaða

Samkvæmt því sem að framan greinir og að virtum rannsóknargögnum verður fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir sterkum rökstuddum grun um brot gegn 194. gr. og 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en við brotum sem hann er grunaður um liggur fangelsisrefsing, ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum samkvæmt nefndu ákvæði 194. gr. laganna.

Þá verður fallist á það með lögreglustjóra að eins og atvikum er háttað í málinu sbr. það sem að framan segir, séu uppfyllt skilyrði til þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi og að ætla megi að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og 1. mgr. 95. gr. laganna. 

Ber því að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en lengd gæsluvarðhaldsins þykir í hóf stillt.

                Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 17. mars 2017 kl. 16:00.