- Vinnusamningur
- Trúnaðarskylda
|
Fimmtudaginn 16. febrúar 2006. |
Nr. 347/2005. |
Vestmannaeyjabær(Björgvin Þorsteinsson hrl.) gegn Ólafi Ólafssyni (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Vinnusamningur. Trúnaðarskylda.
Aðilar deildu um hvort Ó hafi fyrirgert rétti sínum til fjögurra mánaða biðlauna úr hendi V vegna þeirrar háttsemi sinnar að hafa, þegar leið að starfslokum hans hjá V, eytt miklum fjölda tölvugagna af heimasvæði sínu í borðtölvu og af harða diski fartölvu sem hann hafði til afnota í starfi sínu. Fram var komið að tekist hafði að endurheimta mikinn fjölda skjala, sem eytt hafði verið, en ekki lágu fyrir glöggar upplýsingar um efni þessara skjala. Ó kvaðst eingöngu hafa eytt persónulegum skjölum og skjölum sem engu skiptu fyrir starfsemi V, auk þess sem hann hafi gætt þess að öll gögn sem einhverja þýðingu gæti haft væru vistuð bréflega í skjalasafni V. Talið var, að V hafi verið í lófa lagið að hrekja þessar staðhæfingar Ó með því að gera frekari grein fyrir efni þeirra skjala sem tókst að endurheimta, en það hafi hann ekki gert, auk þess sem hann hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna hátterni Ó. Var V því gert að greiða Ó fjárhæð sem nam fjögurra mánaða biðlaunum hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. ágúst 2005. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í máli þessu er deilt um hvort stefndi hafi fyrirgert rétti sínum til fjögurra mánaða biðlauna úr hendi áfrýjanda vegna þeirrar háttsemi sinnar að hafa þegar leið að starfslokum hans hjá áfrýjanda eytt miklum fjölda tölvugagna af heimasvæði sínu í borðtölvu og af harða diski fartölvu sem hann hafði til afnota í starfi sínu.
Fram er komið í málinu að við leit kerfisfræðings í tölvukerfi áfrýjanda skömmu eftir starfslok stefnda tókst að endurheimta mikinn fjölda skjala, sem eytt hafði verið. Ekki er upplýst hvers konar gögn það voru ef frá er talinn listi yfir 226 skjalanna sem ágreiningslaust er að lutu að starfsemi áfrýjanda. Hins vegar liggja ekki fyrir glöggar upplýsingar um efni þessara skjala. Stefndi heldur því fram að meðal þeirra tölvugagna sem hann eyddi hafi verið persónuleg skjöl hans, tölvupóstur og gögn sem ekki áttu erindi til annarra. Þá hafi hann eingöngu eytt skjölum sem engu skiptu fyrir starfsemi áfrýjanda og gætt þess vandlega að öll gögn sem einhverja þýðingu gætu haft væru vistuð bréflega á viðeigandi stað í skjalasafni áfrýjanda. Áfrýjanda var í lófa lagið að hrekja þessar staðhæfingar stefnda með því að gera frekari grein fyrir efni þeirra skjala sem tókst að endurheimta, en það gerði áfrýjandi ekki. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 9. maí 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 13. apríl s.l., er höfðað með stefnu birtri 4. ágúst s.l.
Stefnandi er Ólafur Ólafsson, kt. 140255-4089, Illugagötu 58, Vestmannaeyjum.
Stefndi er Vestmannaeyjabær, kt. 690269-0159, Ráðhúsinu, Vestmannaeyjum.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.900.924 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 468.208 krónum frá 1. desember 2003 til 1. janúar 2004, af 936.416 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2004, af 1.418.670 krónum frá þeim degi til 1. mars 2004 og af 1.900.924 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins.
Málavextir.
Stefnandi er tæknifræðingur að mennt og hóf hann störf hjá Vestmannaeyjabæ sem bæjartæknifræðingur 16. maí 1989. Snemma sumars 2003 urðu breytingar á meirihlutasamstarfi í bæjarstjórn Vestmannaeyja og í kjölfar þess var bæjarstjóra sagt upp störfum og nýr meirihluti ákvað að gera ýmsar skipulagsbreytingar á stjórn bæjarfélagsins. Þáttur í þeim breytingum var m.a. að starf stefnanda var lagt niður og var honum tilkynnt formlega um það með bréfi bæjarstjóra 30. júlí sama ár. Var honum um leið boðið annað starf hjá bæjarfélaginu en í bréfinu kemur fram að ekki liggi fyrir starfslýsing fyrir það starf. Með bréfi til bæjarstjóra tilkynnti lögmaður stefnanda að stefnandi vildi ekki taka nýja starfið að sér og liti svo á að búið væri að ákveða að niðurlagning á starfi hans kæmi til framkvæmda frá og með 1. september sama ár. Var tekið fram að stefnandi liti svo á að hann ætti frá og með þeim degi rétt til biðlauna. Ekki er ágreiningur milli aðila um að stefnandi ætti rétt til biðlauna í 6 mánuði frá og með fyrrgreindri dagsetningu, en eftir að stefndi hafði greitt stefnanda biðlaun í tvo mánuði felldi hann niður launagreiðslur til hans á þeim grundvelli að stefnandi hefði brotið af sér gagnvart stefnda um það leyti sem dró að starfslokum hans. Stefndi heldur því fram að í októbermánuði sama ár hefðu nýir starfsmenn stefnda orðið þess áskynja að stefnandi hefði skömmu fyrir starfslok kerfisbundið eytt öllum gögnum af heimasvæði sínu í borðtölvu þeirri sem hann vann við á skrifstofu sinni. Þá hefði stefnandi frá ársbyrjun 2003 þar til hann lauk störfum unnið við fartölvu í eigu stefnda og hafi engin gögn vegna þeirrar vinnu fundist á tölvutæku formi. Stefndi óskaði skýringa frá stefnanda og í bréfi lögmanns hans til stefnda kemur fram að stefnandi hafi „tekið til í borðtölvunni” áður en hann hætti störfum. Þá kemur fram í bréfinu að mjög lítið hafi verið af gögnum í fartölvunni og það sem máli skipti fyrir stefnda hafi verið vistað undir viðkomandi stofnun og síðan eytt úr tölvunni. Stefndi lýsti þeirri skoðun sinni í bréfi til stefnanda að það væri ekki starfsmanna að ákveða hvað teljist mikilvæg gögn sem heimilt sé að eyða. Stefndi segir að með notkun forrits, sem sérstaklega hafi verið notað til að finna gögn sem hafi verið eytt, hafi tekist að endurheimta gögn þau sem eytt hafi verið úr umræddri borðtölvu, en þau hafi öll verið eldri en frá árinu 2003. Hafi þannig tekist að endurheimta alls 226 skjöl. Var óskað eftir því við stefnanda að hann upplýsti hvar þau gögn væru sem vistuð hefðu verið annars staðar á sameiginlegu neti stefnda. Stefndi segir engin svör hafa borist en með bréfi dagsettu 24. mars 2004 hafi verið sendur tölvudiskur þar sem fram kom að þar væru gögn sem stefnandi hefði afritað af tölvu sinni og haft með sér við starfslokin sakir misskilnings. Stefndi segist hafa yfirfarið diskinn og komist að því að á honum hafi engin gögn verið yngri en frá árinu 2001. Stefndi mun hafa skorað á stefnanda að skila öllum þeim gögnum sem hann hefði í fórum sínum en stefndi segir stefnanda engan áhuga hafa haft á að upplýsa nánar um þau gögn sem stefndi telur enn vanta.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á þeirri meginreglu íslensks samninga- og kröfuréttar að gerða samninga beri að efna. Enginn ágreiningur hafi verið milli aðila um skyldu stefnda til að greiða stefnanda biðlaun, en stefndi hafi hins vegar haldið launagreiðslunum síðustu fjóra mánuði biðlaunatímans vegna alls óskyldra hluta. Stefnandi telur gagnkröfur stefnda á hendur sér með öllu órökstuddar og fráleitt að heimilt sé að beita slíku til skuldajafnaðar við launakröfur.
Ekki er tölulegur ágreiningur milli aðila en stefnandi gerir kröfu um biðlaun í fjóra mánuði eða mánuðina nóvember 2003 til febrúar 2004. Er krafan þannig sundurliðuð að föst laun fyrir nóvember og desember 2003 séu 278.335 krónur, föst yfirvinna 144.525 krónur, orlof á fasta yfirvinnu 18.846 krónur og bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda, 6%, 26.502 krónur. Samsvarandi tölur fyrir mánuðina janúar og febrúar 2004 eru 3% hærri vegna launahækkunar 1. janúar það ár. Heildarkrafa stefnanda er því 1.900.924 krónur.
Stefnandi reisir vaxtakröfu á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og krefst dráttarvaxta frá gjalddaga hverrrar launagreiðslu. Málskostnaðarkrafa er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir á því að það framferði stefnanda að eyða tölvugögnum úr borðtölvu og fartölvu sé mjög alvarlegt brot á grundvallarreglum vinnuréttarins. Byggir stefndi á því að stefnandi hafi með ráðningarsamningi dagsettum 20. júní 1989 gengist undir ákveðnar skyldur jafnframt því að öðlast ákveðin réttindi, en í samningnum er svohljóðandi ákvæði: „Um réttindi og skyldur launþegans fer eftir lögum og reglum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eftir því sem við getur átt, nema annað sé ákveðið í samþykktum bæjarstjórnar og að svo miklu leyti sem öðruvísi er ekki fyrir mælt í samningi þessum og með tilliti til þess að hér er um ráðningu að ræða. Sama gildir um mat á því hvort starfsmaðurinn telst hafa vanefnt samninginn.”
Stefndi byggir á því að um sé að ræða tvíhliða samningssamband milli aðila. Stefndi samþykki m.a. að greiða stefnanda umsamin laun meðan stefnandi uppfyllir sínar skyldur. Með því að eyða gögnum úr tölvum sem voru í eigu stefnda og stefnandi hafði vistað starfs síns vegna, hafi stefnandi brotið alvarlega gegn m.a. trúnaðarskyldu sinni og sýnt af sér vítaverða vanrækslu og brot á hlýðniskyldum, en þessar reglur séu allar hluti af grundvallarreglum vinnu- og samningaréttarins. Hafi brotið verið alvarlegt og brotið allar forsendur fyrir áframhaldandi greiðslum stefnda á umsömdum biðlaunum. Segist stefndi því byggja á reglum um brostnar forsendur.
Stefndi byggir á því að þrátt fyrir að tekist hafi að endurheimta skjöl sé brot stefnanda fullframið við eyðingu skjalanna án heimildar. Þá bendir stefndi á að engin gögn í tölvutæku formi hafi fundist frá árinu 2003, en stefnandi hafi unnið u.þ.b. 8 mánuði það ár fyrir stefnda. Hafi stefnandi ekki orðið við áskorunum að afhenda gögnin eða upplýsa hvar þau sé að finna. Stefndi mótmælir því að það sé stefnanda að ákveða hvaða gögnum honum beri að eyða og hvaða gögn honum beri að geyma fyrir stefnda. Sé ljóst að mat þetta liggi ekki hjá stefnanda, sérstaklega ekki á því tímamarki þegar ljóst sé að hann sé að láta af störfum. Stefndi segist engan veginn geta sætt sig við slíkt framferði, enda væri með því verið að samþykkja að starfsmönnum væri heimilt að eyða öllum gögnum úr vinnutölvu sinni þegar störfum þeirra lyki. Telur stefndi slíkt óásættanlegt og í algjörri mótsögn við grundvallarreglur vinnuréttar um gagnkvæmar skyldur og réttindi atvinnurekanda og launþega. Með því að eyða umræddum gögnum hafi stefnandi brotið gegn samningsskyldum sínum og fyrirgert réttindum sínum til launa.
Stefndi byggir á grundvallarreglum vinnuréttarins sem og samningaréttar og vísar sérstaklega til reglna um brostnar forsendur. Þá er byggt á lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en tekið fram að þau lög gildi ekki um starfsmenn sveitarfélaga. Málskostnaðarkrafa er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða.
Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi að engar reglur hafi verið til hjá stefnda um meðferð tölvugagna og kvaðst hann aldrei hafa fengið nein fyrirmæli um vistun gagna. Þá taldi hann sig ekki bera ábyrgð á afritun gagna og engin fyrirmæli hafa fengið þar að lútandi. Hann kvaðst hafa tekið til í tölvunum við starfslok sín og hafi þar verið um ýmis persónuleg gögn að ræða auk uppkasta að ýmsum verkefnum sem hann hafi unnið við.
Í málinu er ekki um það ágreiningur að stefnandi átti rétt á biðlaunum í sex mánuði og voru honum greidd full biðlaun fyrir mánuðina september og október 2003 en greiðslur til hans voru síðan felldar niður þar sem stefndi taldi stefnanda hafa fyrirgert rétti sínum til frekari biðlauna með fyrrgreindri eyðingu tölvugagna. Stefnandi krefur stefnda um biðlaun þá fjóra mánuði sem eftir standa og er ekki tölulegur ágreiningur um kröfu stefnanda. Stefndi byggir á því að það framferði stefnanda að eyða tölvugögnum sé mjög alvarlegt brot á grundvallarreglum vinnuréttarins og leiði reglur um brostnar forsendur til þess að honum sé heimilt að fella niður frekari greiðslur til stefnanda.
Í máli þessu er nægilega upplýst að stefnandi eyddi gögnum úr tölvum í eigu stefnda sem hann hafði aðgang að í starfi sínu sem bæjartæknifræðingur. Hefur stefnandi borið því við að hann hafi verið að „taka til”, eins og hann komst að orði, vegna starfsloka sinna. Hafi þar aðallega verið um að ræða persónuleg gögn og uppköst að verkefnum sem hann vann að. Verður að telja það ámælisverða háttsemi af hálfu stefnanda að hafa ekki haft samráð við stefnda um starfslok sín að þessu leyti. Stefndi hefur á hinn bóginn engin gögn lagt fram um það hvort þessi tiltekt stefnanda hafi valdið honum fjárhagstjóni og þá hefur komið í ljós að tekist hefur að endurheimta hluta þeirra skjala sem stefnandi eyddi. Hins vegar er nægilega upplýst að framferði stefnanda olli stefnda umtalsverðum óþægindum. Það er engu að síður álit dómsins að þessi háttsemi stefnanda hefði ekki heimilað stefnda fyrirvaralausa brottvikningu hans. Verður því ekki fallist á að stefnda hafi verið heimilt að fella niður biðlaunagreiðslur til stefnanda. Þar sem ekki er tölulegur ágreiningur milli aðilia verða kröfur stefnanda því teknar til greina. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Vestmannaeyjabær, greiði stefnanda, Ólafi Ólafssyni, 1.900.924 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 468.208 krónum frá 1. desember 2003 til 1. janúar 2004, af 936.416 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2004, af 1.418.670 krónum frá þeim degi til 1. mars 2004 og af 1.900.924 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.