Print

Mál nr. 294/2004

Lykilorð
  • Eignarréttur
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi

Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. desember 2004.

Nr. 294/2004.

Afþreyingarfélagið ehf.

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Fjallamönnum ehf.

(Ólafur Sigurgeirsson hrl.

  Stefán Bj. Gunnlaugsson hdl.)

 

Eignarréttur. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.

A, sem kvaðst samkvæmt leigusamningi hafa einkarétt á ferðaþjónustu á nánar afmörkuðu landsvæði, krafðist þess fyrir dómi að viðurkenndur yrði réttur hans til að banna F á gildistíma leigusamningsins nánar tilgreind afnot af og umferð á umræddu landsvæði. Vegna ýmissa annmarka á kröfugerð A og reifun málsins, var óhjákvæmilegt að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi, sbr. meðal annars d. og e. lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 18. maí 2004. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 30. júní 2004 og áfrýjaði hann öðru sinni 13. júlí sama ár samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Endanlegar kröfur áfrýjanda eru þær aðallega að viðurkenndur verði réttur hans til að banna stefnda á gildistíma leigusamnings áfrýjanda við Hálsahrepp og Reykholtsdalshrepp, nú sjálfseignarstofnunina Arnarvatnsheiði og Geitland, öll afnot af og alla umferð um landsvæði, sem afmarkast af Hafursfelli að norðan með beinni línu í Geitlandsgíg, síðan með beinni línu vestan við gíginn 100 m neðan við brú á Geitá, þaðan eftir Geitá til upptaka hennar og loks þar sem vatnaskil ráða á Langjökli í Hafursfell. Til vara krefst áfrýjandi þess að viðurkenndur verði réttur hans til að banna stefnda á gildistíma áðurnefnds samnings umferð um einkaveg áfrýjanda frá skála hans að brún Langjökuls, svo og að slá upp búðum og koma upp aðstöðu, þjónustumiðstöð eða annars konar miðstöð fyrir starfsemi stefnda á landsvæðinu, sem um ræðir í aðalkröfu. Að þessu frágengnu krefst áfrýjandi þess að viðurkenndur verði réttur hans til að banna stefnda á gildistíma samningsins umferð um einkaveg áfrýjanda frá skála hans að brún Langjökuls. Í öllum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur. Hann krefst einnig málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins gerðu Hálsahreppur og Reykholtsdalshreppur sem eigendur Geitlands yfirlýsingu 28. maí 1973 um að Langjökli hf. væri veitt „einkaleyfi á hvers kyns þjónustu og rekstri viðkomandi ferðamönnum á téðu svæði, þ.m.t. fullt leyfi til brúargerðar á Geitá og vegagerðar að jökulbrún.“ Yfirlýsingu þessari var þinglýst 18. júní 1973. Hrepparnir og Langjökull hf. gerðu síðan samning 10. desember sama ár, þar sem félagið tók á leigu landsvæði, sem afmarkað var á sama hátt og greinir í aðalkröfu áfrýjanda. Sagði í samningnum að leigugjald væri ekkert, svo og að félaginu væri án sérstaks endurgjalds heimilt að gera þau mannvirki, sem þörf væri á vegna starfsemi þess, þar á meðal vegi. Skyldi samningurinn gilda til 50 ára og honum sagt upp með 10 ára fyrirvara, en ella væri hann framlengdur til 10 ára. Samningi þessum var þinglýst 24. janúar 1974. Aftur gerðu hrepparnir samning 24. ágúst 1993 við Langjökul hf. um leigu sama landsvæðis. Þar var félaginu veittur réttur til að reka ferðaþjónustu á landinu jafnframt því að leigusalar skuldbundu sig til að veita ekki öðrum heimild til slíks reksturs á sama svæði eða við það. Var félaginu sem fyrr heimilað að gera á landinu mannvirki vegna starfsemi sinnar, en áskilið var að framkvæmdir yrðu að lúta reglum Náttúruverndarráðs og lögum, sem gildi um það, auk skipulagslaga og byggingarreglugerðar. Sagði í samningnum að hann væri gerður til 10 ára, en endurskoða ætti ákvæði hans á þriggja ára fresti. Yrði að segja honum upp með eins árs fyrirvara, en að öðrum kosti teldist hann framlengdur til næstu 5 ára. Ekki átti félagið að greiða leigu fyrir landið fyrstu 10 árin, en þetta skyldi endurskoðað eftir þann tíma. Tekið var fram í samningnum að með gerð hans féllu úr gildi yfirlýsingin 28. maí 1973 og leigusamningurinn 10. desember sama ár. Ekki verður séð af gögnum málsins hvort þessum nýja samningi hafi verið þinglýst, en jarðanefnd samþykkti hann 26. ágúst 1993.

Hinn 1. desember 1993 var gefin út ákæra á hendur tveimur mönnum fyrir að hafa gert tilraun til brots gegn ákvæðum 2. gr., sbr. 37. gr. þágildandi laga nr. 33/1966 um fuglaveiðar og fuglafriðun og 24. gr., sbr. 37. gr. þágildandi laga nr. 47/1971 um náttúruvernd, með því að hafa á tilteknum degi ætlað „til fuglaveiða í Geitlandi, Borgarfirði, sem er friðland“. Með dómi Hæstaréttar í dómasafni 1994, bls. 2227, voru ákærðu sýknaðir vegna vafa um hvernig eignarrétti Hálsahrepps og Reykholtsdalshrepps að landinu væri háttað.

Sveitarstjórnir síðastnefndra hreppa héldu sameiginlegan fund 2. apríl 1998, þar sem samþykkt var að afhenda „eignarlönd“ þeirra, Arnarvatnsheiði og Geitland, til sjálfseignarstofnunar, sem kennd var við þau landsvæði. Var tekið fram í 2. mgr. 11. gr. skipulagsskrár fyrir stofnunina, sem staðfest var af dóms- og kirkjumálaráðherra 4. júní 1998 og birt í B-deild Stjórnartíðinda sem auglýsing nr. 329/1998, að sveitarstjórnirnar hafi ákveðið að höfða mál til viðurkenningar á beinum eignarrétti hreppanna að Geitlandi og myndu þeir bera allan kostnað af því. Ekki verður séð af gögnum málsins hvort af því hafi orðið.

Með bréfi 22. maí 2002 beindu Íslenskar ævintýraferðir ehf., sem kváðust hafa í júní 2001 tekið við rekstri Langjökuls hf. og réttindum þess félags samkvæmt áðurnefndum samningi frá 24. ágúst 1993, þeim tilmælum til stefnda að hann virti einkarétt, sem félaginu hafi með samningnum verið veittur til að reka ferðaþjónustu á landinu, sem hann tók til, en gegn þessu hafi stefndi brotið með því að leggja þar bifreiðum og vélsleðum og skipuleggja ferðir á Langjökul. Þessu erindi svaraði stefndi með bréfi 24. maí 2002, þar sem þeirri skoðun var lýst að leigusamningurinn 24. ágúst 1993 væri „markleysa“ frá því að áðurnefndur dómur Hæstaréttar gekk 3. nóvember 1994, enda væri hér um þjóðlendu að ræða. Myndi stefndi halda áfram starfsemi sinni með því að hafa færanlega aðstöðu og aka um merktar slóðir utan við snjó og jökul á þessu landsvæði. Þessu var mótmælt af Íslenskum ævintýraferðum ehf. í bréfi til stefnda 31. maí 2002 og jafnframt af sjálfseignarstofnuninni Arnarvatnsheiði og Geitland, sem í bréfi 14. júní 2002 gat þess meðal annars að hún hafi vegna afstöðu stefnda óskað eftir því við óbyggðanefnd að hún tæki landsvæði þetta til meðferðar samkvæmt heimild í 9. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

Áfrýjandi mun í byrjun árs 2003 hafa komið í stað Íslenskra ævintýraferða ehf. sem leigutaki samkvæmt samningnum frá 24. ágúst 1993 með samþykki sjálfseignarstofnunarinnar Arnarvatnsheiði og Geitland sem leigusala. Leitaði áfrýjandi eftir því við sýslumanninn í Borgarnesi 11. júní 2003 að lagt yrði lögbann við nánar tiltekinni nýtingu stefnda á landsvæðinu, sem um ræðir í máli þessu. Því hafnaði sýslumaður 24. sama mánaðar og höfðaði þá áfrýjandi málið 6. nóvember 2003.

II.

Í héraðsdómsstefnu, áfrýjunarstefnu og greinargerð fyrir Hæstarétti lýsti áfrýjandi mörkum landsvæðisins, sem aðalkrafa hans og varakrafa taka til, á þann hátt að það réðist að norðan af Hafursfelli með beinni línu í Geitlandsgíg, síðan af beinni línu vestan við gíginn 100 m neðan við brú á Geitá og þaðan eftir vatnaskilum á Langjökli í Hafursfell. Af samanburði við önnur gögn málsins, þar sem greint er frá mörkum landsins, er augljóst að fallið hefur niður í dómkröfum áfrýjanda að geta þess að frá umræddri brú ætti Geitá að ráða merkjum til upptaka hennar, en þaðan vatnaskil á jöklinum að Hafursfelli. Áður en málið var munnlega flutt fyrir Hæstarétti kom áfrýjandi á framfæri leiðréttingu á kröfugerð sinni að þessu leyti, en fram að því virðast þessi mistök hvergi hafa komið til athugunar undir rekstri málsins. Geta þau að þessu virtu ekki leitt ein til þess að málinu verði nú vísað frá héraðsdómi.

Um afmörkun landsins, sem aðalkrafa og varakrafa áfrýjanda varða, er á hinn bóginn til þess að líta að sú tilgreining að vatnaskil ráði merkjum frá upptökum Geitár til Hafursfells er ekki nægilega ákveðin, auk þess sem ekki verður séð hvernig hún getur samrýmst framlögðum uppdrætti í málinu. Þá hefur áfrýjandi byggt á því að hann leiði frá landeiganda rétt sinn sem leigutaki, en stefndi hefur andmælt því að landið, sem aðalkrafa og varakrafa áfrýjanda taka til, verði talið eiga undir Geitland, sem hann vefengir jafnframt að sé háð beinum eignarrétti. Um mörk Geitlands liggur aðeins fyrir í málinu lýsing í landamerkjabréfi fyrir Hraunsás, Húsafell og Geitland, sem áfrýjandi lagði fyrst fram í Hæstarétti, en í bréfi þessu, sem virðist hafa verið þinglesið 7. júní 1898, segir að „Geitland er land alt millum Geitár og Hvítár, að undanteknu Torfabæli.“ Í málatilbúnaði áfrýjanda hefur hvorki verið gerð grein fyrir legu landsins, sem umræddar kröfur hans lúta að, með tilliti til þessarar merkjalýsingar né fyrir því hvernig ráðið verði af henni eða öðrum gögnum málsins að Sjálfseignarstofnunin Arnarvatnsheiði og Geitland eigi land, sem náð getur allt til vatnaskila á Langjökli. Brestur því verulega á að þessi atriði hafi verið nægilega reifuð af hendi áfrýjanda.

Í aðalkröfu krefst áfrýjandi dóms um rétt sinn til að banna stefnda  „öll afnot af og alla umferð um” landsvæðið, sem um ræðir í málinu. Ekkert er fram komið um að land þetta sé að einhverju leyti ræktað eða afgirt. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd er almenningi heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Í 14. gr. laganna er kveðið á um heimild manna til að fara gangandi um og dveljast á óræktuðu landi án sérstakrar heimildar landeiganda og í 1. mgr. 17. gr. til að fara um vegi á vélknúnum ökutækjum, svo og utan vega á snjó og jöklum. Í auglýsingu nr. 283/1988 um friðlýsingu Geitlands í Borgarfirði er einnig tekið fram að öllum sé heimil för um friðlandið, enda sé góðrar umgengni gætt. Í aðalkröfu áfrýjanda er ekki tiltekið frekar en áður segir hvers eðlis þau afnot séu eða sú umferð, sem hann krefst heimildar til að banna stefnda. Eftir orðalagi kröfunnar beinist hún þannig meðal annars að því að banna stefnda athafnir, sem mönnum eru almennt frjálsar á óræktuðum svæðum í eignarlöndum annarra eftir framangreindum lagaákvæðum, svo og í Geitlandi eftir reglum um friðlýsingu þess lands. Samkvæmt þessu er aðalkrafa áfrýjanda svo almenn og óafmörkuð að ekki er fært að fella efnisdóm á hana.

Áfrýjandi leitar með öllum kröfum sínum dóms um rétt sinn til að leggja bann við nánar tilteknum athöfnum stefnda á gildistíma leigusamnings frá 24. ágúst 1993. Leigusamningur þessi var til tíu ára og gildistími hans því á enda þegar mál þetta var höfðað. Ekki hefur komið fram í málinu hvort leigutíminn hafi framlengst á þann hátt, sem um ræddi í fyrrnefndu ákvæði samningsins. Eru forsendur fyrir dómkröfum áfrýjanda því vanreifaðar að þessu leyti.

Í varakröfu krefst áfrýjandi þess meðal annars að viðurkenndur verði réttur hans til að banna stefnda „umferð um einkaveg áfrýjanda, sem liggur frá skála áfrýjanda að jökulbrún Langjökuls”. Þrautavarakrafa hans beinist að því sama einvörðungu. Í málinu liggur ekkert fyrir um staðsetningu þess skála áfrýjanda, sem hér um ræðir. Þá eru litlar sem engar upplýsingar í málinu um legu og lengd vegarins, sem þessar kröfur varða, hvort aðrir vegir kunni að vera á landinu, hver hafi gert veginn og haldið honum við, hvort Vegagerðin hafi litið á hann sem einkaveg, hvort hann sé merktur sem slíkur og hvort hann hafi verið opinn almenningi til umferðar. Er því ekki unnt að fella efnisdóm á þessar kröfur áfrýjanda.

Vegna þeirra annmarka á kröfugerð áfrýjanda og reifun málsins, sem að framan greinir, er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi, sbr. meðal annars d. og e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi, sem gerði kröfu um frávísun málsins í héraði, gagnáfrýjaði ekki til að leita endurskoðunar á úrskurði héraðsdómara, þar sem þeirri kröfu var hafnað, eða þeirri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að fella niður málskostnað. Að því gættu er rétt að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 6. maí sl., er höfðað 6. nóvember 2003 af Af­þreyingar­­félaginu ehf., kt. 470103-2720, Tunguhálsi 8, Reykjavík, á hendur Fjallamönnum ehf., kt. 430696-3199, Síðumúla 8, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkenndur verði réttur hans til að banna stefnda á gildistíma landleigusamnings stefnanda og Hálsahrepps og Reykholtsdals­hrepps, nú Sjálfs­eignar­stofnunar um Arnarvatnsheiði og Geitland, öll afnot af og alla umferð um landsvæði sem afmarkast af Hafursfelli að norðan og með línu úr Hafursfelli þaðan sem styst er úr því í Geitlandsgíg og beint vestan við gíginn 100 metrum neðan við brú á Geitá og þaðan þar sem vatnaskil ráði á Langjökli að Hafursfelli. Til vara er þess krafist að viðurkenndur verði réttur stefnanda til að banna stefnda á gildistíma sama landleigusamnings umferð um einkaveg stefnanda, sem liggur frá skála stefnanda að jökulbrún Langjökuls, og banna stefnda á gildistíma samningsins að slá upp búðum, koma upp aðstöðu, þjónustumiðstöð eða annars konar miðstöð fyrir starfsemi sína á sama landsvæði og lýst er í aðalkröfu stefnanda. Til þrautavara er þess krafist að viðurkenndur verði réttur stefnanda til að banna stefnda á gildistíma leigu­samningsins umferð um einkaveg stefnanda sem liggur frá skála stefnanda að jökulbrún Langjökuls. Í öllum tilvikum krefst stefnandi máls­kostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt mati dómsins.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda. Í greinargerð stefnda var krafist frávísunar á öllum kröfum stefnanda en frávísunarkröfunni var hafnað með úrskurði dómsins 2. apríl sl.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Með leigusamningi 24. ágúst 1993 tók Langjökull hf. á leigu af Hálsahreppi og Reyk­holtsdalshreppi þann hluta Geitlands sem tilgreindur er í kröfugerð stefnanda. Með samningnum var leigutaka veittur réttur til reksturs ferða­þjónustu á leigulandinu. Samningurinn var samþykktur á fundi jarðanefndar Borgarfjarðarsýslu 26. ágúst sama ár. Áður höfðu hrepparnir veitt Langjökli hf. einkaleyfi á hvers kyns þjónustu og rekstri fyrir ferðamenn á Geitlandi, þar með talið fullt leyfi til brúargerðar á Geitá og vegagerðar að jökulbrún, eins og fram kemur í yfirlýsingu 28. maí 1973. Lagður hefur verið fram landleigusamningur frá 10. desember sama ár þar sem sömu hreppar leigja Langjökli hf. umrætt svæði. Í samningnum kemur jafnframt fram að Langjökull hf. hafi látið byggja brú yfir Geitá þá um sumarið. Á fundi byggingarnefndar 28. febrúar 1994 var samþykkt umsókn Langjökuls hf. til að reisa þrjú hús á landinu. Með skipulagsskrá nr. 329/1998 fyrir Sjálfseignarstofnunina Arnarvatnsheiði og Geitland lagði Reykholts­hreppur fram 2/3 hluta og Hálsahreppur 1/3 hluta Arnarvatnsheiðar í Hvítár­síðu­hreppi og Geitlands í Hálsahreppi til sjálfseignarstofnunarinnar.

Langjökull hf. hefur leigt út snjóvél­sleða til ferða á Langjökul og rekið aðra ferða­þjónustu, en stefnandi tók við rekstrinum á árinu 2003 með samþykki Sjálfs­eignar­stofnunar um Arnarvatnsheiði og Geitland. Í málinu er deilt um heimildir stefnanda til að banna stefnda þær athafnir sem lýst er í kröfugerð stefnanda. Stefnandi heldur því fram að landið sem um ræðir sé eignarland leigusalans og hafi stefnandi því með leigusamningnum öðlast rétt til að banna stefnda umræddar athafnir á því. Þessu er mótmælt af hálfu stefnda sem heldur því fram að Geitland sé þjóðlenda og því hafi stefnandi ekki öðlast þann rétt sem hann telji sig eiga, enda sé öllum af þeim sökum heimil umferð um svæðið og þar megi leggja ökutækjum, að minnsta kosti í tak­markaðan tíma.

Málsástæður og lagarök stefnanda 

Stefnandi vísar til þess að hann selji afþreyingarferðir í ferðaþjónustu með sér­staka áherslu á jöklaferðir, ferðir á sérútbúnum farartækjum, vélsleðaferðir, fljóta­siglingar og aðrar ferðir á snjó og vatni. Stefndi reki alhliða ferðaskrifstofu og ferða­þjónustu, meðal annars sams konar þjónustu og stefnandi bjóði upp á. Með leigu­samningi 24. ágúst 1993 hafi Langjökull hf. tekið á leigu af landeigendum þann hluta Geit­­lands sem lýst er í kröfugerð stefnanda. Í júní 2001 hafi Íslenskar ævintýraferðir hf. yfirtekið rekstur Langjökuls hf. og réttindi samkvæmt samningnum, en stefnandi hafi síðan keypt ýmsar eignir og réttindi Íslenskra ævintýraferða hf. með kaupsamningi í janúar 2003. Stefnandi hafi á sama tíma yfirtekið réttindi og skyldur samkvæmt samningnum sem leigutaki með samþykki Sjálfs­eignarstofnunar um Arnar­vatns­heiði og Geitland. Réttindi sem áður hafi tilheyrt Langjökli hf. tilheyrðu því stefnanda nú, þar með talið fasteignir og önnur mannvirki á landinu.

Samningurinn veiti stefnanda einkarétt til reksturs ferðaþjónustu á leigulandinu, enda hafi leigusalar skuldbundið sig til að veita ekki öðrum aðilum heimild til reksturs skyldrar starfsemi á eða við hið leigða svæði sem leigusalar hafi umráð yfir. Stefnandi hafi allt frá árinu 1973 rekið ferðaþjónustu á jöklinum og meðal annars kostað brúarbyggingu yfir Geitá. Stefnandi hafi einnig lagt 7,5 km langan veg ofan við skála sinn að jökul­röndinni og sé sá vegur einkavegur, en Vegagerðin hafi hvorki komið að viðhaldi hans né lagningu. Stefnandi hafi þannig lagt ómælda fjármuni í starfsemi sína og þau vegamannvirki sem hann hafi staðið fyrir.

Undanfarið hafi stefndi ekki virt einkarétt stefnanda samkvæmt leigu­samningnum, en stefndi, eða hópar á hans vegum, hafi án alls samráðs við stefnanda staðsett rútur og lagt bifreiðum og snjósleðum á landsvæði sem landleigu­samningurinn taki til. Stefndi hafi nýtt í heimildarleysi landsvæði stefnanda þannig að hann hafi í raun slegið þar upp búðum eða vistarverum til lengri eða skemmri tíma og notað sem bækistöðvar eða til undirbúnings fyrir ferðir sínar eða sem aðstöðu fyrir rekstur sinn. Stefnandi hafi á grundvelli sérstaks samnings þar um kostað uppsetningu á svæðinu, en nýting stefnda og viðskiptavina hans á því sé algerlega heimildarlaus og í óþökk stefnanda. Með bréfi 22. maí 2002 hafi stefnandi krafist þess að stefndi léti af heimildar­lausri notkun á umræddu landsvæði. Með bréfi 24. maí sama ár hafi stefndi hafnað að verða við kröfum stefnanda. Í júní 2003 hafi stefnandi krafist þess að lagt yrði lögbann á alla umferð og aðra nýtingu stefnda á þeim hluta Geitlands sem landleigu­samningur taki til. Sýslumaður hafi hafnað því með bréfi 24. júní sama ár með þeim rökum að forráðamönnum stefnanda eða fyrirrennurum hans hafi verið mögu­legt að snúa sér til dómstóla í framhaldi af bréfaskiptum í maí 2002 og því myndu réttindi stefnanda ekki fara forgörðum þó að stefnandi þyrfti að bíða dóms um þau. Málssókn stefnanda sé því óhjákvæmileg.

Stefnandi byggi á landleigusamningi sínum við Hálsahrepp og Reykholtsdals­hrepp, en sá samningur veiti stefnanda einkarétt til reksturs ferða­þjónustu á leigu­landinu. Leigusamningnum hafi verið þinglýst athugasemdalaust. Leigu­salar hafi virt landleigusamninginn og ekki veitt öðrum heimild til reksturs á landinu. Samkvæmt samningnum hafi stefnandi ótvíræðan einkarétt til umrædds landsvæðis og öll notkun stefnda á því sé þar af leiðandi með öllu heimildarlaus. Stefndi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi nokkurn rétt til nokkurra nota á svæðinu, en heimildarlaus notkun stefnda á því brjóti gegn 4. gr. landleigusamningsins. Eignaraðild leigusala, þ.e. Hálsahrepps og Reykholtsdalshrepps, nú Sjálfseignar­stofnunar um Arnarvatnsheiði og Geitland, sé óvéfengjanleg og hafi þessir aðilar haft allan rétt til að ráðstafa réttindum yfir landsvæðinu líkt og gert hafi verið í landleigusamningnum. Stefnandi vísi í því sambandi til þinglýstra heimilda og afsals landeigenda frá 27. maí 1926. Notkun landeigenda hefði auk þess verið eins og um beinan eignarrétt hafi verið að ræða í langan tíma.  

Mannvirki sem standi á landinu séu einkaeign stefnanda og byggð af honum, en stefnandi hafi reist þar hús, byggt brú og lagt vegi. Þessi mannvirki lúti umráðarétti stefnanda að öllu leyti. Stefnandi hafi ávallt fengið öll tilskilin leyfi og heimildir til að reisa þessi mannvirki. Á árinu 1986 hafi Reykholtsdals- og Hálsahreppur beitt sér fyrir friðlýsingu Geitlands og hafi fullt samráð verið haft um alla mannvirkjagerð og skipulag við hreppsnefnd Hálsahrepps, Náttúruverndarráð og fleiri opinbera aðila. Notkun stefnda á einkavegi stefnanda valdi því að umferð um veginn verði mun erfiðari en ella. Stefnandi hafi kostað til ómældum tíma, fyrirhöfn og fjármunum í að koma upp þeirri aðstöðu og mannvirkjum sem standi á leigulandi hans. Þessa aðstöðu nýti stefndi í heimildarleysi án þess að greiða fyrir notin en stefndi eigi ekkert tilkall til landsvæðisins. Hin heimildarlausa notkun stefnda sé í beinni samkeppni við stefnanda en í henni felist brot gegn 20. gr. samkeppnislaga sem fjalli um ólögmæta viðskipta­hætti. Stefndi sé með ólögmætri háttsemi sinni að fénýta sér eignir stefnanda, landsvæði og réttindi hans að öðru leyti, sem stefnandi hafi einkarétt að, allt án heimildar stefnanda.

Þrátt fyrir dóm Hæstaréttar 3. nóvember 1994 í máli nr. 247/1994 telji hrepparnir engan vafa leika á um eignaraðild sína að Geitlandi. Þar hafi verið um að ræða sakamál um meint brot gegn lögum um fuglaveiði og fuglafriðun nr. 33/1966. Þrátt fyrir sýknu í málinu hafi á engan hátt verið skorið úr um það að ekki væri fyrir hendi eignarréttur að landinu, en í málinu hafi ekki verið nægjanlega sýnt fram á það af ákæruvaldinu til að sakfella.

Landsvæði sé þinglesin eign þeirra sem stefndi leiði rétt sinn frá. Þar að auki hefðu þeir hefðað öll landsréttindi á þessu svæði, sbr. lög um hefð nr. 46/1905. Eignarhald leigusalans og notkun stefnanda á landsvæðinu hafa verið athugasemda­laus um áratugi. Óbyggðanefnd, sem starfi samkvæmt lögum nr. 58/1998 um þjóð­lendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóð­lendna og afrétta, hafi ekki úrskurðað að umrætt landsvæði sé þjóðlenda. Þangað til svo kynni hugsanlega að verða verði því ekki haldið fram að landsvæðið sé þjóðlenda. Íslenska ríkið hafi engar kröfur gert til svæðisins, hvorki að það sé þjóð­lenda né nokkuð annað.

Málsástæður og lagarök stefnda

Sýknukrafa stefnda er byggð á því að umrætt landsvæði sé þjóðlenda enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á að það sé eignarland. Samkvæmt lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta nr. 58/1998 skiptist allt land í eignarland og þjóðlendu. Hæstiréttur hafi með dómi í máli nr. 247/1994 staðfest að Geitland sé ekki eignarland. Engin ný gögn hafi komið fram sem hnekki þeirri niður­stöðu. Auk þess hafi sambærilegir afréttir og Geitland verið úrskurðaðir þjóðlendur af óbyggða­nefnd. Aldrei hafi jöklar verið úrskurðaðir eignarland en um það bil helmingur landsins sem hér um ræði séu Langjökull og Geitlandsjökull. Þá hafi eignar­heimildum Hálsahrepps ekki verið þinglýst og Geitland sé ekki skráð í fasteignabókum.

Um umferðarrétt og tiltekin afnot af landi gildi reglur náttúruverndarlaga nr. 44/1999. Samkvæmt þeim sé meginreglan sú að almenningi sé heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Annað gildi um girt eignarland en þar sé eiganda eða rétthafa heimilt að takmarka eða banna umferð og dvöl með merkingum við hlið og göngustíga. Þótt bannað sé að aka vélknúnum ökutækjum utan vega sé heimilt að aka þeim á jöklum og utan vega á snjó utan þéttbýlis. Geitland sé hvorki ræktað land né girt eignarland. Ekki sé heldur markvisst að fá dóm fyrir því að stefnandi megi banna stefnda akstur eftir veginum, þar sem náttúruverndarlög heimili utanvegaakstur á snjó, sem svæðið sé þakið mestan tíma ársins.

Stefndi vísi enn fremur til ákvæða vegalaga nr. 45/1994. Samkvæmt þeim skiptist vegir annars vegar í þjóðvegi (stofnvegi, tengivegi, safnvegi og landsvegi), en þeir séu ætlaðir almenningi til frjálsrar umferðar, og hins vegar í almenna vegi og einkavegi. Almennir vegir séu þeir vegir sem ekki flokkist sem þjóðvegir en séu í eigu opinberra aðila og ætlaðir almenningi til frjálsrar umferðar. Einkavegir séu vegir sem ekki teljist þjóðvegir og séu þeir kostaðir af einstaklingum, fyrirtækjum og opinberum aðilum. Meginreglan sé sú að vegir séu opnir almennri umferð. Því verði einkavegur að vera merktur sem slíkur svo almenningur megi ekki nota hann. Hafi einkavegur verið gerður samkvæmt einhverju leyfi eða kostaður af opinberum aðilum verði að virða umferðarrétt annarra. Loks megi enginn hafa afnot af þjóðlendu fyrir sjálfan sig samkvæmt 3. gr. þjóðlendulaga og því geti einkavegur aldrei verið í þjóðlendu. Í málið vanti þannig rökstuðning og gögn um að vegurinn uppfylli skilyrði laga til að vera einkavegur, eins og stefnandi haldi fram og byggi dómkröfur á. Umræddur vegur frá Kaldadal, yfir Geitá og upp í Langjökul sé hvorki lokaður né merktur sem einka­vegur. Hér sé um að ræða fjölfarna leið, sem almenningur noti, vetur, sumar, vor og haust, enda vegurinn auglýst leið fyrir ferðamenn. Á vegakorti á dskj. nr. 20 sé umræddur vegur merktur sem landsvegur upp í jökulrætur og sé umferð um hann því heimil.

Krafa stefnda um sýknu á aðalkröfu stefnanda sé byggð á því að umrætt land sé allt þjóðlenda en enginn megi hafa þjóðlendu fyrir sjálfan sig. Umferð um svæðið sé því heimil og enn fremur sé stefnda heimilt að leggja ökutækjum í að minnsta kosti einn mánuð á sama stað án sérstaks leyfis, en til hliðsjónar vísi hann í því sambandi til 71. gr. byggingareglugerðar nr. 441/1998.

Krafa stefnda um sýknu af varakröfu stefnanda sé einnig byggð á því að um þjóð­lendu sé að ræða og þar geti ekki verið einkavegur. Auk þess hafi Vegagerðin flokkað veginn, sem stefnandi telji einkaveg, sem landsveg. Aldrei hafi vakað fyrir stefnda að slá upp búðum, koma upp aðstöðu, þjónustumiðstöð eða annars konar miðstöð fyrir starfsemi sína á umræddu landsvæði og sé varakrafa stefnanda um það því fráleit. Stefndi hafi aldrei gert annað og ætli ekki að gera annað en það sem hann geti gert án leyfis sveitarstjórnar og forsætisráðherra í þjóðlendu, þ.e. að nýta umferðarrétt um svæðið, slá upp tjöldum og leggja ökutækjum. Vélsleðunum leggi hann við jökulinn og öðrum farartækjum sé lagt eftir aðstæðum hverju sinni en jökulröndin sé breytileg. Stefndi hafi enga opna starfsstöð á svæðinu en starfsstöð hans sé í Reykjavík.   

Hvað varði þrautavarakröfu stefnanda mótmæli stefndi að um einkaveg sé að ræða frá skála að jökulbrún. Jökullinn og svæðið frá jaðri hans að skálum stefnanda sé þjóðlenda, öllum opin til umferðar og afnota í samræmi við framangreindar lagareglur.

Tilvísun stefnanda til 20. gr. samkeppnislaga sé mótmælt. Þvert á móti sé andstætt samkeppnislögum að hindra frjálsa samkeppni með ofríki og yfirgangi, eins og stefnandi hafi sýnt stefnda með margháttuðum afskiptum, bréfum, lögbannsbeiðni og málssókn.

Mótmælt sé að stefnandi hafi unnið til hefðar á landinu, en eigandalaust svæði væri ekki hægt að hefða. Einnig hafi með gildistöku þjóðlendulaga nr. 58/1998 verið tekin af öll tvímæli um að eftir gildistöku þeirra væri ekki hægt að hefða þjóðlendu, en gildistaka laganna ryfi hefðartíma, væri um hann að ræða.

Niðurstaða

Kröfugerð stefnanda er byggð á því að hann hafi tekið á leigu af landeigendum, Hálsahreppi og Reykholtsdalshreppi, landsvæðið sem um ræðir og er innan Geit­lands, en með því hafi hann heimild til að banna stefnda þær athafnir sem lýst er í kröfu­gerðinni. Mótmælt er af hálfu stefnda að um eignarland sé að ræða og því hafi stefnandi ekki öðlast framangreindar heimildir. Stefnandi telur engan vafa leika á um eignarréttindi hreppanna að Geitlandi og vísar í því sambandi meðal annars til afsals dóms- og kirkjumálaráðherra frá 27. maí 1926, þar sem Hálsahreppi er selt og afsalað afréttarlandinu Geitlandi með öllum gögnum og gæðum en gætt hafi verið allra fyrirmæla laga frá 16. nóvember 1907 um sölu kirkjujarða. Í dómi Hæstaréttar frá 3. nóvember 1994 í máli nr. 247/1994 segir að í kjölfar landnáms virtist Geitland hafa verið fullkomið eignarland. Þegar litið sé hins vegar til elstu heimilda um rétt Rekholtskirkju að Geitlandi virtist það hins vegar vafa undirorpið, hvort landið sé eignarland þar sem tekið sé fram í þeim heimildum að skógur fylgi landi. Heimildir ríkisins til að afsala Hálsahreppi Geitlandi séu leiddar af rétti Reykholtskirkju til landsins, og leiki þannig vafi á því hvort það sé eign sem háð sé beinum eignarrétti. Ekki verði ráðið af afsalinu frá 27. maí 1926, hvort Geitland teljist þar afréttur eða eignarland. Af öðrum gögnum málsins verði heldur ekki ráðið hvort Hálsahreppur og Reykholtsdalshreppur eigi bein eignarréttindi að Geitlandi eða einvörðungu beitarrétt eða önnur afnotaréttindi. Með þessu taldi rétturinn vafa leika á um það, hvernig eignarrétti hreppanna að Geitlandi væri háttað. Stefnandi hefur ekki lagt fram í málinu önnur gögn um eignarheimildir að Geitlandi en þau sem ráða má af ofangreindum dómi Hæstaréttar að hafi legið fyrir við úrlausn málsins fyrir réttinum. Ekki verður heldur talið að stefnandi hafi fært nægar sönnur fyrir því að hrepparnir hafi haft óslitið eignarhald á landinu þannig að þeir hafi öðlast eignarrétt að því fyrir hefð, enda hefur stefnandi ekki lýst því í málatilbúnaði sínum hvernig hinu óslitna eignarhaldi þeirra hafi verið háttað að öðru leyti en því að eignarhald leigusala og notkun stefnanda á landsvæðinu hafi verið athugasemdalaus um áratugi. Af stefnda hálfu hefur komið fram að vegurinn frá Kaldadal upp að Langjökli sé fjölfarinn og ætlaður almenningi en því er ómótmælt af hálfu stefnanda. Í 2. gr. skipulagsskrár fyrir Sjálfs­eignar­stofnunina Arnarvatnsheiði og Geitland nr. 329/1998 eru eignir hennar taldar meðal annarra Geitland sem hafi verið eign Reykholtsdalshrepps og Hálsahrepps þegar eignirnar voru afhentar stofnuninni. Þá segir í 11. gr. skipulags­skrárinnar að sveitar­stjórnir hreppanna hafi ákveðið að höfða mál til viðurkenningar á beinum eignarrétti þeirra yfir Geitlandi og beri þær kostnað af málaferlunum. Í bréfi lögmanns Íslenskra ævintýraferða 31. maí 2002 til stefnda kemur fram að hrepparnir muni í samræmi við heimild í 9. gr. laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignar­landa, þjóðlendna og afrétta nr. 58/1998 óska eftir staðfestingu óbyggðanefndar á beinum eignarrétti hreppanna að Geitlandi. Með vísan til þessa verður ekki fallist á að stefnandi hafi fært nægar sönnur fyrir eignarrétti hreppanna að Geitlandi og verður því að telja það atriði ósannað í málinu.

Þrátt fyrir að stefnanda hafi ekki tekist að færa fram fullnægjandi sönnun í málinu fyrir eignarétti Hálsahrepps og Reykholtsdalshrepps að Geitlandi liggur ekki fyrir með fullnægjandi hætti hvort Geitland verði talið eignarland. Samkvæmt 7. gr. laga um þjóðlendur nr. 58/1998 er hlutverk óbyggða­nefndar að kanna og skera úr um hvaða land teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda. Einnig er hlutverk nefndarinnar samkvæmt sömu lagagrein að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna. Óbyggðanefnd ber samkvæmt 8. gr. sömu laga að taka að eigin frum­kvæði til með­ferðar og úrskurða um málefni sem undir hana heyra. Nefndin tekur ákveðin landsvæði fyrir hverju sinni og skal stefnt að því að nefndin hafi lokið verkinu fyrir árið 2007 eins og segir í sömu lagagrein. Nefnin hefur frumkvæði að því að afla heimilda og gagna um eignar- og afnotaréttindi yfir því landsvæði sem til meðferðar er og framkvæma rannsóknir og athuganir um staðreyndir og lagaatriði sem þýðingu hafa fyrir niðurstöðu í einstökum málum, sbr. 4. mgr. 10. gr. sömu laga. Óbyggða­nefnd hefur ekki tekið til meðferðar landsvæðið sem hér um ræðir. Af framangreindu má ráða að síðar geti komið upp þær aðstæður að Geitland verði með úrskurði óbyggðanefndar annaðhvort talið eignarland eða að tiltekin eignarréttindi nái til þess þrátt fyrir að landið verði talið þjóðlenda. Úrlausn óbyggðanefndar kann því að hafa áhrif á réttarstöðu málsaðila með tilliti til sakarefnisins, hvort notkun stefnda á svæðinu verði talin ólögmæt svo og á skilgreiningar á rétti stefnanda sem allar kröfur hans í málinu eru byggðar á. Verður því að telja ótímabært að dæma nú um kröfur stefnanda í málinu. Ber með vísan til þess svo og til 2. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að sýkna stefnda að svo stöddu af kröfum stefnanda í málinu.

Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála að máls­kostnaður falli niður.

Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndu, Fjallamenn ehf., eru sýknaðir að svo stöddu af kröfum stefnanda, Afþreyingarfélagsins hf., í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.