Print

Mál nr. 746/2009

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Mánudaginn 21

 

Mánudaginn 21. desember 2009.

Nr. 746/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(enginn)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.      

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.  

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. janúar 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 15. janúar 2010 kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. nóvember 2009 og dómi Hæstaréttar frá 26. nóvember 2009 hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag kl. 16, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Kærði sé grunaður um tilraun til manndráps með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 15. nóvember sl., farið grímuklæddur og vopnaður haglabyssu að heimili brotaþola, A, bankað á dyrnar og, er brotaþoli hafi opnaði dyrnar, rekið hlaupið í enni hans og síðan skotið úr haglabyssunni á útidyr og rúðu en brotaþoli hafi náð að loka dyrunum. Kærði hafi ekki hikað við að skjóta þótt langlíklegast væri að brotaþoli væri innan við hurðina og honum hafi því mátt vera ljóst að líftjón gæti hlotist af atlögunni.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi unnið að rannsókn málsins á undanförnum vikum og sé henni nú lokið og hafi málið verið sent til ríkissaksóknara til ákvörðunar um saksókn.

Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt enda sé kærði sterklega grunaður um að hafa framið afbrot sem varða geti allt að ævilöngu fangelsi og brotið í eðli sínu svo svívirðilegt að almannahagsmunir krefjist þess að hann sæti gæsluvarðhaldi. Það sé og mat Hæstaréttar að lagaskilyrðum sé fullnægt í þessu máli. Með vísan til framangreinds sé það mat lögreglu að nauðsynlegt sé að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan máli þessu er ekki lokið. 

Ætlað brot sem til rannsóknar sé telst varða við 211., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en slíkt brot geti varðað allt að ævilöngu fangelsi.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

                Samkvæmt nefndri grein sakamálalaga má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef sterkur grunur leikur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum geti varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Í rannsóknargögnunum kemur fram, eins og að framan var rakið úr greinargerð lögreglustjóra, að kærði kom að heimili brotaþola vopnaður haglabyssu. Hann rak hlaupið í enni brotaþola og skaut síðan á útidyr og rúðu eftir að brotaþola hafði tekist að loka hurðinni. Lögreglumenn fundu fimm tóm skothylki fyrir utan húsið. Með vísun til þessa er fallist á það með lögreglustjóra að sterkur grunur leiki á að kærði hafi framið brot er varðað geti 10 ára fangelsi. Þá er og fallist á að það séu hagsmunir almennings að maður, sem er svo sterklega grunaður um alvarlegan verknað, gangi ekki laus meðan máli hans er ólokið. Ríkissaksóknari hefur nú mál hans til meðferðar. Samkvæmt öllu framanrituðu er fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

X, kt. [..] skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 15. janúar 2010 kl. 16:00.