Print

Mál nr. 616/2006

Lykilorð
  • Líkamsárás
  • Miskabætur

Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. maí 2007.

Nr. 616/2006.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

Elmari Frey Ásbjörnssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Líkamsárás. Miskabætur.

E var sakfelldur fyrir að hafa ráðist á X í anddyri nafngreinds hótels og skallað hann í andlitið með þeim afleiðingum að X hlaut hrufl og mar á enni. Jafnframt var E sakfelldur fyrir að hafa í beinu framhaldi fellt Y í jörðina fyrir utan hótelið og ítrekað sparkað í hann liggjandi með þeim afleiðingum meðal annars að Y hlaut liðhlaup á vinstri öxl. Þóttu báðar líkamsárásir varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með brotum sínum rauf E skilyrði reynslulausnar sem hann hafði fengið af 5 mánaða eftirstöðvum refsingar samkvæmt eldri dómi. Refsing E var ákveðin fangelsi í 8 mánuði. Þá var E dæmdur til að greiða Y miskabætur, útlagðan sjúkrakostnað og bætur vegna lögmannsaðstoðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 2. nóvember 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu en þyngingar á refsingu. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða Y 557.003 krónur í skaðabætur.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu Y verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð. 

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða samkvæmt báðum köflum ákæru. Áverkavottorð 3. júní 2006 staðfestir að Y hafi hlotið liðhlaup á vinstri öxl, en engin önnur læknisfræðileg gögn hafa verið lögð fram um frekari afleiðingar þessa áverka, að undanskilinni áætlun sjúkraþjálfara um meðferðarþörf. Í ljósi þessa þykir brot ákærða samkvæmt II. kafla ákæru varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en að öðru leyti verður heimfærsla til refsiákvæðis staðfest.

Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms var ákærði dæmdur 18. apríl 2007 til fjögurra mánaða fangelsisvistar fyrir nytjastuld og akstur sviptur ökurétti. Hann hefur tvisvar áður, 30 ágúst 2001 og 16. janúar 2002, verið dæmdur fyrir líkamsárás sem heimfærð var undir 217. gr. almennra hegningarlaga. Þegar litið er til þessa, hliðsjón höfð af breytingu á heimfærslu brots ákærða samkvæmt II. kafla ákæru og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti, er refsing ákærða rétt ákveðin í hinum áfrýjaða dómi.

Miskabótakrafa þykir ekki vera vanreifuð þannig að vísa beri henni frá dómi, en eins og háttað er þeim gögnum sem hún er studd við verður niðurstaða héraðsdóms þar um staðfest. Einnig verður staðfest niðurstaða um útlagðan sjúkrakostnað og bætur vegna lögmannsaðstoðar svo og vexti af dæmdri fjárhæð enda hefur ákærði ekki mótmælt þeim.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málflutningslaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Elmar Freyr Ásbjörnsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 203.684 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 3. október 2006.

Mál þetta höfðaði sýslumaðurinn á Akranesi með ákæru 3. ágúst 2006 á hendur ákærða, Elmari Frey Ásbjörnssyni, kt. 190682-4129, Sandabraut 17 á Akranesi. Málið var dómtekið 18. september sama ár.

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða „fyrir eftirgreindar líkamsárásir fyrir utan og á Hótel Barbró, Kirkjubraut 11, Akranesi, að kvöldi laugardagsins 3. júní 2006, með því að hafa:

I.

Ráðist á X [kennitala] og skallað hann í andlitið með þeim afleiðingum að X hlaut mar og hrufl á enni.

Telst brot þetta varða við 217. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110 gr. laga nr. 82/1998.

II.

Ráðist á Y [kennitala], hent honum nokkrum sinnum utan í vegg og slegið hann nokkur hnefahögg í öxl þannig að hann féll við og að hafa sparkað nokkrum sinnum í Y þar sem hann lá með þeim afleiðingum að Y fór úr lið á vinstri öxl og hlaut yfirborðsáverka á höfði og hendi.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 111. gr. laga nr. 82/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Í ákæru er einnig höfð uppi skaðabótakrafa sem Y gerir á hendur ákærða. Krefst Y þess að ákærða verði gert að greiða sér 947.516 krónur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi hinn 4. júní 2006 til 27. júní sama ár, en dráttarvaxta samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. laganna.

Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af refsikröfu og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Jafnframt krefst ákærði þess að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð. Til vara er gerð krafa um vægustu refsingu sem lög frekast leyfa og að bótakrafa verði lækkuð.

I.

Laugardaginn 3. júní 2006, um kl. 23.30, barst lögreglu beiðni um aðstoð frá Hótel Barbró við Kirkjubraut 11. Þegar lögreglumenn komu á vettvang hittu þeir ákærða fyrir utandyra. Í frumskýrslu lögreglu segir að við útidyrnar, sem voru læstar, hafi verið brotinn blómapottur.

Á vettvangi gaf sig fram við lögreglu X og sagði að ákærði hefði veist að sér og Y. Kom fram hjá X að Y hefði forðað sér undan ákærða á hlaupum en hann sjálfur hefði náð að læsa útidyrum Hótelsins. Einnig kom fram hjá X að Lionshreyfingin hefði tekið Hótelið á leigu yfir helgina vegna þings hreyfingarinnar sem haldið var í bænum, en hann og Y hefðu tekið að sér dyravörslu á Hótelinu.

Lögregla ræddi einnig við ákærða og segir í frumskýrslu lögreglu að hann hafi sýnilega verið nokkuð ölvaður. Hjá ákærða kom fram að hann hefði ætlað að ná í dót sitt sem hann taldi vera inni á hótelherbergi er hann hefði haft á leigu. Eftir að ákærði hafði rætt við lögreglu var hann frjáls ferða sinna.

Í kjölfar atburða leitaði Y sér aðhlynningar á slysadeild Sjúkrahúss Akraness. Í áverkavottorði frá 15. júní 2006 segir svo:

„Lýsing Y:

Var við vinnu sem dyravörður á Hótel Barbró í kvöld þegar ungur maður réðst á hann í anddyrinu, kýldi hann endurtekið og sparkaði í hann um allan líkamann. Henti honum einnig utan í vegg og niður á jörðina. Við það lenti hann illa á vinstri öxlinni og hefur fundið mikið til í henni síðan. Missti meðvitund. Segist hafa drukkið einn bjór um kvöldið.

Skoðun:

Það finnst áfengislykt af honum og virkar vægt ölvaður en gefur annars góða og skýra sögu. Við skoðun á vinstri öxl finnst greinilegur stallur neðan við acromion vinstra megin og mikil þreyfieymsli þarna, grunsamlegt fyrir luxation. Getur ekki hreyft axlarliðinn vegna sárauka, passivar hreyfingar einnig gríðarlega sársaukafullar. Við skoðun á höfði sést grunnt nýlegt fleiður parietalt hægra megin, ca. 2x3 cm að stærð. Nýlegt fleiður thenart í vinstri lófa, um 1 cm í þvermál. Ekki greinast aðrir áverkar við skoðun.

Rannsóknir:

Röntgenmynd af vinstri öxlinni staðfestir fremra liðhlaup þar. Ekki að sjá brot.

....“

II.

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði tvívegis umrætt kvöld komið við á Hótel Barbró eftir að hafa orðið þar mannaferða var. Kvaðst ákærði hafa átt þar dót frá því hann leigði herbergi á Hótelinu en ákærði sagðist lengi hafa beðið þess að geta nálgast þessar eigur sínar. Í fyrra sinnið sem ákærði kom við á Hótelinu sagðist hann hafa rætt við Y og látið hann vita um erindi sitt. Einnig kvaðst ákærði hafa sagt Y að hann væri væntanlegur aftur síðar um kvöldið.

Um klukkustund síðar þegar ákærði kom í síðara sinnið við á Hótelinu sagði hann að Y og X hefðu verið búnir að fá sér í glas og verið með skæting við sig. Ákærði lýsti framhaldinu þannig að Y og X hefðu neitað sér að ná í dótið og ætlað að henda sér út. Í því skyni sagði ákærði að þeir hefðu rifið í sig og verið að draga sig út þegar ákærði tók á móti og dró þá út með sér. Kvaðst ákærði síðan hafa hrist Y og lagt hann á jörðina. Eftir það hefði ekki komið til frekari átaka en Y hefði hlaupið á brott. Ákærði taldi sennilegast að Y hefði farið úr axlarlið þegar hann lenti á jörðinni. Þó tók ákærði fram að hann hefði ekki lent harkalega. Þá þvertók ákærði fyrir að hafa veitt Y hnefahögg eða sparkað í hann liggjandi.

Ákærði kannaðist ekki við að hafa í umrætt sinn skallað X. Í öllu falli sagðist ákærði ekki hafa gert X neitt af ásettu ráði en hugsanlega rekist eitthvað í hann. Þá neitaði ákærði að hafa brotið blómaker fyrir utan Hótelið.

Aðspurður sagði ákærði að hann hefði ekki verið undir áhrifum áfengis. Einnig tók ákærði fram að allt málið hefði verið blásið upp og meira gert úr en efni væru til.

III.

             Vitnið Y bar fyrir dómi að þetta kvöld hefði hann verið að störfum sem dyravörður á Hótelinu í sjálfboðavinnu fyrir Lionshreyfinguna. Vitnið lýsti því að ákærði hefði komið og sagt að hann ætti dót inni á einu herbergi Hótelsins. Vitnið kvaðst þá hafa sagt ákærða að ekki væri hægt að hleypa honum inn á herbergi eða aðhafast nokkuð af þessu tilefni þá um kvöldið. Hins vegar kvaðst vitnið hafa sagt ákærða að koma síðar og ræða við þá sem hefðu með Hótelið að gera. Við svo búið sagði vitnið að ákærði hefði farið en hann hefði komið aftur á Hótelið síðar um kvöldið þegar liðið var að miðnætti og ítrekað ósk sína. Vitnið kvaðst þá hafa sagt ákærða að útilokað væri að hleypa ókunnugum manni inn á hótelherbergi sem væri í útleigu. Framhaldinu lýsti Y þannig að ákærði hefði ætlað að rjúka upp stiga og inn á herbergishæð en vitnið kvaðst þá hafa beðið ákærða að koma til baka. Í þessu hefði borið að X, sem átti að leysa vitnið af og taka við dyravörslu. Ákærði hefði síðan fylgt þeim niður stigann og að útidyrum, án þess að nokkuð hefði verið tekið á honum, en þá hefði eins og runnið á hann æði. Nánar lýsti vitnið atburðum þannig að ákærði hefði fyrst skallað X í ennið en síðan þrifið vitnið út og hent því utan í vegg og sparkað fæturna undan vitninu tvívegis þannig að það féll í götuna. Einnig sagði Y að ákærði hefði sparkað í sig liggjandi í götunni en að lokum sagðist vitnið hafa forðað sér á hlaupum. Aðspurður gat Y ekki fullyrt hvort ákærði hefði slegið hann áður en vitnið féll í götuna. Einnig gat Y ekki lýst því nákvæmlega hvenær í þessum átökum hann fór úr axlarlið. Um afleiðingarnar sagði Y að þær gætu orðið varanlegar því hætt væri við að hann færi aftur úr lið og óvíst væri hvort hann fengi fullan mátt í handlegginn. Einnig sagðist vitnið finna fyrir andlegum óþægindum sem lýstu sér í ótta.

             Vitnið X greindi þannig frá atburðum fyrir dómi að hann hefði komið skömmu fyrir miðnætti til að leysa Y af við dyragæslu á Hótelinu. Ákærði hefði þá verið staddur á Hótelinu þeirra erinda að fá dót sitt sem hann taldi þar að finna. Vitnið sagði að ákærði hefði verið beðinn að fara, enda væri þetta málefni óviðkomandi þeim sem þá höfðu Hótelið allt á leigu. Framhaldinu lýsti X þannig að ákærði hefði þokast átakalaust með þeim Y að útidyrum en þá hefði ákærði skallað vitnið í ennið. X kvaðst hafa hrasað við og vankast lítillega en þegar X var að rísa á fætur kvaðst hann hafa séð ákærða vera að sparka í Y liggjandi í götunni. Taldi X að ákærði hefði að minnsta kosti sparkað þrívegis í Y en aðspurt gat vitnið ekki fullyrt hvort ákærði veitti Y högg með höndum. Þessu næst kvaðst X hafa náð að trufla ákærða en við það hefði Y lagt á flótta. Vitnið kvaðst hins vegar hafa náð að læsa útidyrum Hótelsins. Ákærði hefði þá brotið blómaker við innganginn og árangurslaust reynt að brjóta rúðu í útidyrum. Að lokum hefði lögregla komið og fjarlægt ákærða. Um afleiðingar árásarinnar sagði X að hann hefði fengið kúlu og mar á ennið án skinnsprettu. Einnig sagðist X hafa fundið til andlegra ónota í kjölfar atburða. Honum hefði brugðið mikið og útivið að kvöldlagi fyndi vitnið fyrir því að vera á varðbergi.

             Lögreglumennirnir A, B og C, sem komu á vettvang í kjölfar atburða, gáfu allir skýrslu fyrir dómi. A sagði að X hefði verið mikið skelkaður og rauður á enni. Einnig kom fram hjá nöfnunum tveimur að X hefði verið með hrufl eða skrámu á enni.

IV.

             Þegar ákærði var fyrst yfirheyrður fyrir dómi neitaði hann að hafa í umrætt sinn ráðist á X með því að skalla hann í andlitið. Eftir að ákærði hafði hlýtt á vitni bera fyrir dómi hélt hann fast við þann framburð en vildi þó ekki útiloka að hann hefði rekist í X. Um atlöguna að Y kannaðist ákærði við að hafa hrist hann og lagt niður í jörðina fyrir utan Hótel Barbró. Hann neitaði hins vegar að hafa slegið Y eða sparkað í hann liggjandi. Einnig sagði ákærði sennilegast að Y hefði farið úr axlarlið þegar hann lenti á jörðinni, en tók þó fram að hann hefði ekki lent harkalega. Að áliti dómsins er þessi frásögn ákærða ótrúverðug þegar hún er metin í ljósi þeirra áverka sem Y hlaut. Að því gættu og þegar skýrsla ákærða er virt í heild sinni ber hún þess ríkan blæ að ákærði vilji eftir fremsta megni gera sem minnst úr sínum hlut um þær sakir sem á hann eru bornar. 

             Vitnið X hefur fullyrt fyrir dómi að ákærði hafi í anddyri Hótelsins skallað sig í ennið. Vitnið Y hefur einnig borið á sama veg fyrir dómi. Þessi samhljóða framburður fær einnig nokkra stoð í vætti þeirra þriggja lögreglumanna sem komu á vettvang í kjölfar atburða, en þeir hafa allir lýst því fyrir dómi að X hafi verið með áverka á enni. Samkvæmt þessu þykir sannað gegn neitun ákærða að hann hafi ráðist á X og skallað hann í andlitið með þeim afleiðingum að X hlaut hrufl og mar á enni. Með þessu hefur ákærði gerst sekur um líkamsárás gagnvart X en brotið varðar við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

             Vitnið Y sagði fyrir dómi að ákærði hefði þegar út var komið hent sér í vegg en Y gat hins vegar ekki fullyrt hvort ákærði hefði slegið hann áður en vitnið féll í götuna. Vitnið X gat ekki lýst atlögu ákærða að Y áður en hann féll í götuna. Að þessu gættu þykir ekki sannað gegn neitun ákærða að hann hafi slegið Y eða hent honum nokkrum sinnum í vegg og slegið hann nokkur hnefahögg í öxl, eins og ákærða er gefið að sök í ákæru. Á hinn bóginn hefur ákærði kannast við að hafa fellt Y í jörðina. Jafnframt er sannað með samhljóða framburði Y og X að ákærði hafi ítrekað sparkað í Y þar sem hann lá á jörðinni. Afleiðingar líkamsárásarinnar voru meðal annars þær að Y fór úr axlarlið. Með hliðsjón af þeim áverkum verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, með áorðnum breytingum.

             Þau ofbeldisbrot sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir framdi hann í beinu framhaldi. Með hliðsjón af því að brotin beinast að tveimur mönnum ber að tiltaka refsingu ákærða eftir þeim reglum sem gilda um brotasamsteypu, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga.

              Samkvæmt sakavottorði á ákærði nokkurn sakaferil að baki, en hann hefur á árunum 2000 til 2006 hlotið níu dóma og gengist undir fjórar lögreglustjórasáttir vegna brota á almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Í eitt skipti hefur ákærði verið sakfelldur fyrir ofbeldisbrot, en hann hlaut dóm 30. ágúst 2001 fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Var það brot framið 17. nóvember 2001 en þá var ákærði 19 ára að aldri. Hinn 1. nóvember 2004 hlaut ákærði dóm fyrir gripdeild og fíkniefnabrot. Var refsing ákveðin 10 mánaða fangelsi, en með þeim dómi var jafnframt dæmd með refsing samkvæmt fyrri skilorðsdómum frá árunum 2004 og 2002. Hinn 7. júlí 2005 var ákærða veitt reynslulausn í 1 ár af 5 mánaða eftirstöðvum þeirrar refsingar. Í kjölfarið hlaut ákærði dóma 21. nóvember 2005 og 23. maí 2006 fyrir brot gegn umferðarlögum. Með þeim dómum var ákærði dæmdur í samtals 4 mánaða fangelsi. Var sú refsing ákveðin án nokkurs tillits til óafplánaðar refsingar vegna reynslulausnar.

             Með þeim brotum sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir í þessu máli hefur hann rofið skilyrði reynslulausnar frá 7. júlí 2005. Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsingar, nr. 49/2005, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga, ber að taka þá refsingu upp og dæma með þeirri refsingu sem ákærði hlýtur fyrir þau brot sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir. Í því tilliti breytir engu, svo sem hreyft var við vörn málsins, þótt ekki hafi verið haggað við reynslulausn með dómum vegna annarra brota.

             Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að líkamsárás ákærða gegn báðum mönnunum var fólskuleg og tilefnislaus, enda gat ákærði með engu móti vænst þess að þeir gætu sinnt því erindi sem ákærði átti á Hótelið. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af öðru því sem hér hefur verið rakið þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 8 mánaða fangelsi.

V.

Af hálfu brotaþola Y er í ákæru höfð uppi skaðabótakrafa á hendur ákærða. Brotaþoli sundurliðar kröfuna þannig:

                Þjáningabætur                                kr.                                22.890

                Launatap                                kr.                                326.043

                Sjúkrakostnaður                                kr.                                49.779

                Miskabætur                                kr.                                500.000

                Lögmannsaðstoð                                kr.                                48.804

                                                kr.                                947.516

Brotaþoli heldur því fram að hann hafi verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, og gerir kröfu um þjáningarbætur án rúmlegu í 21 dag. Með hliðsjón af þeim áverkum sem brotaþoli hlaut er ljóst að hann hefur öðlast rétt til þjáningarbóta. Á hinn bóginn nýtur ekki við læknisfræðilegra gagna í málinu um hve lengi hann var óvinnufær. Verður því að vísa þessum kröfulið frá dómi.

Brotaþoli heldur því fram að hann hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni þar sem hann hafi misst úr vinnu frá 5. júní 2005 til 28. sama mánaðar. Til stuðnings kröfu um bætur fyrir það tjón vísar brotaþoli til 2. gr. laga nr. 50/1993. Í skýrslu brotaþola fyrir dómi kom fram að vinnuveitandi hans ætti eftir að taka afstöðu til þess hvort brotaþoli fengi að einhverju leyti greidd laun fyrir það tímabil sem hann var frá vinnu. Meðan þetta hefur ekki endanlega verið leitt til lykta verður ekki dæmt um þennan kröfulið og er honum vísað frá dómi.

Brotaþoli krefst bóta vegna útlagðs sjúkrakostnaðar samkvæmt reikningum samtals að fjárhæð 8.199 krónur. Með vísan til 1. mgr. 1. gr. laga nr. 50/1993 verður þessi kröfuliður tekin til greina. Jafnframt gerir brotaþoli kröfu um að fá bættan kostnað vegna sjúkraþjálfunar og hefur lagt fram lauslega áætlun yfir þann kostnað. Á þeim grundvelli verður ekki dæmt um þann kröfulið og er honum vísað frá dómi.

Þá krefst brotaþoli miskabóta úr hendi ákærða og vísar til 26. gr. laga nr. 50/1993 til stuðnings þeirri kröfu. Bendir brotaþoli á að hann hafi orðið fyrir þjáningum, eymslum og ama vegna árásarinnar. Hann hafi nær stöðugan verk sem trufli svefn auk þess sem brotaþoli glími við andleg óþægindi í kjölfar árásarinnar. Með atlögunni hlaut brotaþoli miska og á hann því rétt á bótum úr hendi ákærða samkvæmt nefndu ákvæði skaðabótalaga. Í ljósi atvika þykja þessar bætur hæfilega ákveðnar 200.000 krónur.

Loks verður tekin til greina krafa brotaþola um bætur vegna lögmannsaðstoðar en fjárhæð þess kröfuliðar þykir hæfileg í kröfugerð brotaþola.

Samkvæmt framansögðu verður ákærða gert að greiða brotaþola bætur samtals að fjárhæð 257.003 krónur. Ber sú fjárhæð vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 4. júní 2006 til 17. ágúst sama ár en þann dag var mánuður liðinn frá því brotaþoli lagði fram skriflega bótakröfu sína hjá lögreglu. Frá þeim tíma til greiðsludags ber fjárhæðin dráttarvexti, sbr. 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. sömu laga.

VI.

             Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, verður ákærði dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar samkvæmt yfirliti lögreglu um sakarkostnað og ákvörðun dómsins um málsvarnarlaun verjanda að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða útlagðan ferðakostnað verjanda.

             Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

             Ákærði, Elmar Freyr Ásbjörnsson, sæti fangelsi í 8 mánuði.

             Ákærði greiði Y 257.003 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 4. júní 2006 til 17. ágúst sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

             Ákærði greiði 167.375 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar, hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.