- Kærumál
- Flýtimeðferð
|
Miðvikudaginn 17. desember 2014 |
Nr. 800/2014 |
Ásdís
Jenna Ástudóttir Ástráðsdóttir (Daníel Isebarn Ágústsson hrl.) gegn Háskólanum
í Reykjavík ehf. og íslenska
ríkinu (enginn) |
Kærumál. Flýtimeðferð.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu Á um að mál
sem hún hugðist höfða á hendur R ehf. og Í sætti flýtimeðferð.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. desember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2014 þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um flýtimeðferð í máli hennar á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að gefa út réttarstefnu til flýtimeðferðar í málinu.
Varnaraðilar hafa ekki átt þess kost að láta málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins hóf sóknaraðili nám við lagadeild varnaraðilans Háskólans í Reykjavík ehf. haustið 2013. Í samningi sem þessir málsaðilar undirrituðu 24. júní það ár um BA nám og námsframvindu sóknaraðila sagði meðal annars: „Komi til kostnaðar vegna táknmálstúlkaþjónustu mun Háskólinn í Reykjavík ekki standa straum af þeim kostnaði.“ Nokkru síðar spurðist Félag heyrnarlausra fyrir um það, fyrir hönd sóknaraðila, hvort rétt væri skilið að varnaraðilinn greiddi ekki fyrir þjónustu táknmálstúlka sem heyrnarlausir eða heyrnarskertir nemendur þyrftu á að halda vegna náms við skólann. Í svarbréfi varnaraðilans 11. október 2013 var tekið fram að hann hefði ekki tök á að greiða fyrir slíka þjónustu án aðkomu hins opinbera og hefði mennta- og menningarmálaráðuneytið hafnað ósk um að kosta þá þjónustu fyrir sóknaraðila. Í kjölfarið kærði Félag heyrnarlausra, vegna sóknaraðila, þessa synjun varnaraðilans á að greiða túlkaþjónustu til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema, en nefndin vísaði kærunni frá þar sem ágreiningsefnið félli ekki undir valdsvið hennar. Þá kærði félagið, vegna sóknaraðila, synjunina til mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem vísaði kærunni sömuleiðis frá á þeim grundvelli að hin kærða ákvörðun sætti ekki kæru til ráðuneytisins sem æðra stjórnvalds.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hyggst sóknaraðili með fyrirhugaðri málsókn á hendur varnaraðilum krefjast þess aðallega að viðurkennt verði að þeim sé skylt að veita henni „táknmálstúlkaþjónustu að kostnaðarlausu ... í námi hennar við lagadeild Háskólans í Reykjavík“, en til vara að sú ákvörðun, „sem fram kemur í samningi 24. júní 2013 og bréfi 11. október 2013“ um að veita henni ekki slíka þjónustu að kostnaðarlausu, verði dæmd ólögmæt. Jafnframt kveðst sóknaraðili ætla að krefjast þess að varnaraðilum verði gert að greiða henni nánar greinda fjárhæð sem nemi útlögðum kostnaði hennar vegna þjónustunnar auk miskabóta.
II
Í beiðni sóknaraðila um að málið sæti flýtimeðferð eftir XIX. kafla laga nr. 91/1991 segir að varnaraðilar hafi tekið ákvörðun um að synja henni um rétt til að fá aðstoð túlks við háskólanám sitt. Í báðum tilvikum sé um að ræða athöfn stjórnvalda.
Samkvæmt 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 er það meðal annars gert að skilyrði fyrir því að einkamál sæti flýtimeðferð að sá, sem óskar eftir því, hyggist höfða mál vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds. Til stjórnvalda teljast fyrst og fremst stofnanir ríkis og sveitarfélaga, en einnig geta þar fallið undir aðrir, svo sem einkahlutafélög, ef þeim hefur verið fengin opinber stjórnsýsla í hendur með lögum eða á grundvelli lagaheimildar. Þótt varnaraðilinn Háskólinn í Reykjavík ehf. hafi gert þjónustusamning við mennta- og menningarmálaráðuneytið um kennslu og rannsóknir á grundvelli laga nr. 63/2006 um háskóla hefur hann ekki með höndum stjórnsýslu í þágu varnaraðilans íslenska ríkisins og telst því ekki stjórnvald í merkingu 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991. Sökum þess að ekki liggur fyrir formleg synjun annars en fyrrgreinda varnaraðilans um að veita sóknaraðila þjónustu táknmálstúlka við háskólanám, henni að kostnaðarlausu, varðar fyrirhuguð málshöfðun hennar hvorki ákvörðun né athöfn stjórnvalds, svo sem áskilið er í umræddu lagaákvæði. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24.
nóvember 2014.
I
Með
bréfi, dagsettu 18. nóvember 2014, fór Daníel I. Ágústsson hrl. þess á leit við
dóminn að mál sem umbjóðandi hans, Ásdís Jenna Ástudóttir Ástráðsdóttir,
Breiðahvarfi 7 í Kópavogi, hyggst höfða á hendur Háskólanum í Reykjavík ehf.,
Menntavegi 1 í Reykjavík og íslenska ríkinu, Laugavegi 116 í Reykjavík, sæti
flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð
einkamála. Ef ekki yrði fallist á flýtimeðferð var þess krafist að kveðinn yrði
upp úrskurður þar um, sbr. 3. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991.
Samkvæmt
bréfi lögmannsins varðar málið ágreining aðila um hvort, og þá hvorum, stefndu
sé skylt að veita stefnanda táknmálstúlkaþjónustu að kostnaðarlausu í öllum
kennslustundum, bæði í fyrirlestra- og umræðutímum, í námi hennar við lagadeild
Háskólans í Reykjavík.
II
Samkvæmt
stefnu hyggst stefnandi aðallega gera þá dómkröfu að viðurkennt verði að
stefndu sé skylt að veita henni táknmálstúlkaþjónustu að kostnaðarlausu í öllum
kennslustundum, bæði í fyrirlestra- og umræðutímum, í námi hennar við lagadeild
Háskólans í Reykjavík. Til vara krefst stefnandi þess að ákvörðun stefndu, sem
fram komi í samningi 24. júní 2013 og bréfi 11. október 2013, um að veita
stefnanda ekki táknmálstúlkaþjónustu að kostnaðarlausu í öllum kennslustundum,
bæði í fyrirlestra- og umræðutímum, í námi hennar við lagadeild Háskólans í
Reykjavík, verði dæmd ólögmæt. Í báðum tilvikum krefst stefnandi skaða- og
miskabóta, auk málskostnaðar.
Í
1. mgr. 123. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 segir að aðili, sem
hyggist höfða mál vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds eða verkfalls,
verkbanns eða annarra aðgerða sem tengjast vinnudeilu og ella færi eftir
almennum reglum laganna, geti óskað eftir því að málið sæti meðferð eftir
ákvæðum þessa kafla ef brýn þörf er á skjótri úrlausn, enda hafi hún almenna
þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni hans. Við mat á því hvenær brýn þörf sé á
skjótri úrlausn dómstóla og hvenær úrlausn hafi almenna þýðingu eða varði stórfellda
hagsmuni verður að líta til atvika hverju sinni.
Ekki
verður séð að aðalkrafa stefnanda lúti að ákvörðun eða athöfn stjórnvalds í
skilningi ofannefnds ákvæðis. Hið sama á við um kröfu stefnanda um skaða- og
miskabætur. Geta þessar kröfur þannig ekki myndað grundvöll fyrir flýtimeðferð
samkvæmt XIX. kafla laga um meðferð einkamála.
Í
varakröfu stefnanda er vikið að því sem stefnandi telur vera ákvörðun stefndu
um að veita sér ekki táknmálstúlkaþjónustu að kostnaðarlausu. Hafi ákvörðunin
annars vegar komið fram í samningi sem stefnandi gerði við stefnda, Háskólann í
Reykjavík, 24. júní 2013 um nám sitt í lögfræði, og hins vegar í bréfi sem
forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík ritaði Félagi Heyrnarlausra 11.
október 2013. Verður ekki annað séð en sömu málsástæður búi að baki
varakröfunni og aðalkröfunni. Þrátt fyrir að stefndi, Háskólinn í Reykjavík,
sem er einkahlutafélag en ekki stjórnvald í skilningi áðurnefndrar 123. gr.
laga um meðferð einkamála, hafi í báðum tilvikum tilkynnt stefnanda um hina
meintu ákvörðun verður ekki annað ráðið af varakröfu stefnanda en að hann telji
stefnda, íslenska ríkið, einnig hafa tekið umrædda ákvörðun.
Við
mat á því hvort uppfyllt sé það skilyrði 123. gr. laga um meðferð einkamála að
brýn þörf sé á skjótri úrlausn er rétt að líta til þess að ákvörðun sú sem
stefnandi telur stefndu hafa tekið var tekin í júní 2013, eða um einu ári og
fimm mánuðum áður en beiðni um flýtimeðferð var borin fram við dóminn. Þá
liggur fyrir í gögnum málsins að stefnandi
hefur gert hlé á námi sínu. Að þessu virtu, en einnig með hliðsjón af
dómi Hæstaréttar 17. desember 2013 í máli nr. 779/2013, telst stefnandi ekki
hafa svo brýna þörf á skjótri úrlausn málsins að réttlætt geti flýtimeðferð
samkvæmt XIX. kafla laga um meðferð einkamála. Beiðninni er því hafnað og
synjað um útgáfu stefnu í málinu.
Ingimundur
Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað
er beiðni um flýtimeðferð í fyrirhuguðu dómsmáli Ásdísar Jennu Ástudóttur
Ástráðsdóttur gegn Háskólanum í Reykjavík ehf. og íslenska ríkinu og synjað um
útgáfu stefnu í málinu.