Print

Mál nr. 573/2017

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra (Agnes Björk Blöndal fulltrúi)
gegn
X (Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Frávísun frá héraðsdómi
Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þar sem upplýst var að X hafi verið látinn laus var ljóst að það ástand sem leiddi af hinum kærða úrskurði var þegar um garð gengið og var málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. september 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 8. september 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. september 2017 klukkan 15 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Af hálfu sóknaraðila hefur verið staðfest að varnaraðili hafi verið látinn laus fyrr í dag. Samkvæmt því er ljóst, að það ástand, sem leitt hefur af hinum kærða úrskurði, er þegar um garð gengið. Málinu verður því vísað frá Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

                                                        

                                                             

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 8. september 2017

Sóknaraðili, lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, krefst þess að varnaraðila, X, kt. [...], til heimilis að [...], Akureyri, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. september 2017, til kl. 15:00 og að hann sæti einangrun í varðhaldinu.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað, en til vara að varðhaldi verði markaður skemmri tími og kröfu um einangrun hafnað.

Samkvæmt greinargerð og gögnum rannsakar sóknaraðili líkamsárás, frelsis­sviptingu, hótanir og rán sem á að hafa átt sér stað á Akureyri aðfaranótt þriðjudagsins 5. september sl. Síðdegis þann sama dag barst lögreglu ábending um að maður að nafni A væri innlagður á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri og að hann hefði orðið fyrir líkamsárás. Fram kom að brotaþoli væri mikið slasaður, með áverka í andliti og á höfði, en einnig hefði hann áverka á höndum líkt og hann hefði verið bundinn. Síðdegis þann sama dag fóru lögreglumenn og hittu brotaþola á slysadeildinni. Í skýrslu þeirra kemur fram að sjá hafi mátt áverka á andliti, hálsi og höfði brotaþola og einnig áverka á höndum sem samrýmdust þeirri frásögn hans að hann hefði verið bundinn með plastböndum. Þá hafi mátt sjá blóðbletti á fatnaði brotaþola. Hann hafi greint frá því að hann hefði sætt barsmíðum alla nóttina á núverandi aðsetri barnsmóður sinnar. Núverandi unnusti hennar hefði stjórnað því hvað gert hefði verið við hann.

Þá segir að brotaþoli hafi greint frá því að atburðarásin hefði hafist í miðbæ Akureyrar aðfaranótt þriðjudagsins 5. september sl. Hafi hann nafngreint konu, B, sem hafi farið með hann heim til vinar síns. Skömmu síðar hafi C komið á vettvang. Sá hafi því næst hringt í einhvern og skömmu síðar D og óþekktur maður komið á vettvang, ráðist á brotaþola og flutt hann frá þessari íbúð og í [...]. Þar hafi brotaþoli verið fjötraður. Af brotaþola hafi verið tekið veski með kortum, skilríkjum og peningum, farsími og yfirhöfn. Því næst hafi hann verið færður í kjallara hússins. Þar hafi D, X og sá óþekkti gengið í skrokk á honum til skiptis. Fleiri hafi tekið þátt í atlögunni. Honum hafi verið hótað að fjölskyldu hans yrði gert mein ef hann segði frá. Að lokum hafi hann verið fluttur með sömu bifreið og áður, og settur út á nánar greindum stað. Þaðan hafi hann gengið að sjúkrahúsinu.

Þá segir að brotaþoli geri sér ekki grein fyrir tímasetningum atlögunnar, en að skemmtistaðir hefðu verið lokaðir þegar atburðarásin hafi byrjað. Þeim sé lokað klukkan 01:00. Brotaþoli hafi komið á sjúkrahús klukkan 09:30. Þá hafi komið fram hjá starfsfólki sjúkrahússins að margir séu búnir að reyna að hafa samband við brotaþola og að menn hafi sést á gangi í kringum húsið. Einnig hafi komið fram að einhverjir hefðu reynt að villa á sér heimildir til að freista þess að ná tali af brotaþola.

Sóknaraðili segir rannsókn málsins vera á frumstigi og ekki hafi unnist tími til að gera allar þær ráðstafanir í þágu hennar sem til þurfi svo að sakargögn spillist ekki. Um sé að ræða allt að sjö sakborninga sem sakaðir séu um að hafa gengið fram með skipulögðum hætti og veitt brotaþola þá áverka sem í sjúkraskrá greini, en þar sé lýst áverkum á andliti og höfði, og í ljós hafi komið brot á fjórum rifbeinum og hryggjarlið. Einnig megi sjá á myndum sem teknar hafi verið af áverkum brotaþola ummerki um að hann hafi verið bundinn á höndum. Fjórir menn hafi verið handteknir í þágu rannsóknar málsins. Byrjað sé að taka skýrslur og frekari skýrslutökur séu fyrirhugaðar. Ljóst sé að það skaði rannsókn málsins mjög ef sakborningar gangi lausir á meðan grunnrannsókn standi yfir. Þyki þannig brýnt að vernda rann­sóknarhagsmuni á þessu viðkvæma stigi málsins. Sé því talið að uppfyllt sé skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um rökstuddan grun um að varnaraðili hafi framið verknað sem fangelsisrefsing liggur við. Auk þess krefjist rannsóknarhagsmunir þess að varnaraðila verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Með tilliti til þess er að framan greini svo og vegna alvarleika meintra brota sé nauðsynlegt að krefjast þess að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Til rannsóknar séu ætluð brot gegn 1. mgr. 218. gr., 226. gr., 233. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a- og d-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 99. gr. sömu laga hvað varðar kröfu um einangrun.

Svo sem fram kemur hér að framan er rannsókn þessa máls á frumstigi. Fyrir liggur að brotaþoli hefur sætt áverkum og frásögn hans fyrir lögreglu um það hvar það gerðist og hverjir voru að verki. Þessi frásögn er að mati dómsins nægileg til að beina rökstuddum grun að varnaraðila um að hafa átt umtalsverðan hlut að máli. Ekki hafa verið færð nægileg rök fyrir því að öryggi brotaþola sé ógnað gangi varnaraðili laus, sbr. d-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, en fallist verður á það með sóknaraðila að rannsóknin geti spillst af völdum varnaraðila, gangi hann laus á þessu stigi hennar. Eru þannig uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Verður krafa sóknaraðila því tekin til greina. Er ekki ástæða til að marka varðhaldi skemmri tíma en krafist er. Þá verður að fallast á að nauðsynlegt sé að varnaraðili sæti einangrun í varðhaldinu.

Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. september nk., klukkan 15:00 og einangrun í varðhaldinu.