Print

Mál nr. 475/2009

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Þriðjudaginn 25

 

Þriðjudaginn 25. ágúst 2009.

Nr. 475/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson, lögreglustjóri)

gegn

X

(Oddgeir Einarsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. ágúst 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. ágúst 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. sama mánaðar kl. 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og henni verði ekki gert að sæta einangrun.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 21. ágúst 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 28. ágúst 2009 kl. 16:00. Þá er þess einnig krafist að tilhögun gæsluvarðhalsins verði samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að hinn 13. ágúst sl., um kl. 12:35, hafi kærða verið handtekinn, ásamt sambýlismanni sínum, A, við verslunina Y að [...] í Reykjavík.  Í fórumkærðu hafi fundist skartgripir sem stolið hafi verið úr íbúðarhúsnæði að Z í Reykjavík þann 8. ágúst sl.

Í framhaldi hafi lögreglan gert húsleit á heimili kærða að Þ í Kópavogi, þar sem hald hafi verið lagt á mikið magn skartgripa, myndavéla og annarra muna sem lögreglan telji víst að sé þýfi (sjá nánar meðfylgjandi húsleitarskýrslu og myndir).

Á meðal þeirra muna sem fundust á heimili kærða var þýfi sem rekja megi til eftirfarandi þjófnaðarmála:

i)innbrot í íbúðarhúsnæði að Æ í Reykjavík, sjá mál nr. 007-2009-48965, sem framið var 12. ágúst sl.

ii)innbrot í íbúðarhúsnæði að Ö í Reykjavík, sjá mál nr. 007-2009-15507, sem framið var 14. mars sl.

iii)innbrot í bifreið sem stóð við hús nr. [...] að Holtagerði í Kópavogi, sjá mál nr. 007-2009-44660, sem framið var 21. júlí sl.

iv)innbrot í íbúðarhúsnæði að U í Garðabæ, sjá mál nr. 007-2009-46547, sem framið var 31. júlí sl.

v)innbrot í í bifreið sem stóð við Ú í Kópavogi, sjá mál nr. 007-2009-50155, sem framið var um 15. júlí sl.

vi)innbrot í bifreið sem stóð við V í Kópavogi, sjá mál nr. 007-2009-50033, sem framið var 15. júlí sl.

Kærða hafi hjá lögreglu neitað aðild sinni að ofangreindum málum. Hún hafi skyrt frá því að sambýlismaður hennar, meðkærði A, hafi komið með umrædda muni á heimili hennar og hafi hún móttekið suma þeirra sem gjöf úr hans handi.

Í gærkvöld hafi lögreglan gert húsleit að R í Kópavogi, en þar búi C og D, sem báðir sæti nú gæsluvarðhaldi, grunaðir um stórfelld þjófnaðarbrot og að tengjast skipulagðri brotastarfsemi. Við húsleitina hafi fundist mikið þýfi. 

Meðal þeirra muna sem lagt hafi verið hald á hafi verið  þýfi úr innbroti að Z í Reykjavík (mál 007-2009-48170) og innbroti í U í Garðabæ (mál 007-2009-46547). Það sé því ljóst að kærða X,, tengist umræddum C og D.

Hér sé um að ræða umfangsmikla rannsókn á fjölmörgum innbrotum, víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum dögum og vikum.  Lögreglan hafi lagt hald á gífurlegt magn muna, sem ætla megi að séu þýfi, og vinni nú hörðum höndum að því að rekja slóð hins meinta þýfis.  En eins og kunnugt sé hafi lögreglu borist fjölmargar tilkynningar um innbrot inn á heimili fólks að undanförnu.  Þá liggi fyrir að lögreglan leiti samlanda kærðu, B, sem meðkærði A segist hafa fengið skartgripina hjá.

Umræddur B sé talin tengjast hópi manna sem séu virkir aðilar í innbrotum hér á höfuðborgarsvæðinu og lögregla hafi kortlagt, sjá nánar meðfylgjandi skýringarmynd.

Í haldi lögreglu séu nú fimm einstaklingar, sem allir séu grunaðir um sameiginlega aðild að skipulögðum innbrotum inn á heimili fólks.  Í málinu liggi m.a. fyrir upplýsingar frá Interpol um að kærði sé þar á skrá um að hafa tekið við og varslað þýfi þar í landi.

Fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærða hafi framið verknað sem varði allt að 6 ára fangelsisrefsingu. Rannsókn máls þessa sé á viðkvæmu stigi og ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi en meðal annars eigi eftir að yfirheyra sakborninga frekar eftir því sem rannsókn málanna miði áfram og þau skýrist frekar, svo og að hafa upp á öðrum sakborningum og rekja slóð hins meinta þýfis.

Rannsókn málsins sé á viðkvæmu stigi og því afar brýnt að kærði fái ekki tækifæri til að torvelda henni, s.s. með því að koma undan munum, hafa áhrif á aðra samseka eða vitni.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a liðar 1. mgr. 95. gr.. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga

Það er mat dómsins að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærða kunni að verða uppvís að broti er varðar gæti allt að sex ára fangelsi, ef sannast.

Umfangmikil rannsókn lögreglu á fjölmörgum innbrotum er á viðkvæmu stigi. Þegar litið er til alls framanritaðs telur dómurinn að uppfyllt séu skilyrði a liðar 1. mgr. 95.  gr. 88/2008 til að verða við kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald og er hún tekin til greina eins og hún er sett fram. Þá er með sömu rökum fallist á að kærði sæti einangrun skv. b lið 1. mgr. 99. gr. laganna.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærða, X, skal sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 28. ágúst 2009 kl. 16:00.

Kærða skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.