- Kærumál
- Réttarfarssekt
- Frávísun frá Hæstarétti
Fimmtudaginn 25. febrúar 2010. |
|
Nr. 90/2010. |
Ákæruvaldið (Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn Andra Ólafssyni og Breka Logasyni (Einar Þór Sverrisson hrl.) |
Kærumál. Réttarfarssekt. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Ákæruvaldið krafðist þess að A og B fréttamönnum yrði gerð réttarfarssekt fyrir að skýra opinberlega frá því sem gerðist í lokuðu þinghaldi án leyfis dómara. Talið var að samkvæmt 1. mgr. 222. gr. laga nr. 88/2008 ákveði dómari sektir samkvæmt reglum XXXV. kafla laganna af sjálfsdáðum. Ákveði hann að leggja á réttarfarssekt geri hann það með úrskurði sem sæti kæru til Hæstaréttar samkvæmt y. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008. Ekki sé í lögum gert ráð fyrir að málsaðili geri kröfu um réttarfarssekt. Skorti því lagaskilyrði fyrir að hinn kærði úrskurður væri kveðinn upp. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. febrúar 2010 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. febrúar 2010 í máli ákæruvaldsins gegn Darius Tomasevskis, Deividas Sarapinas, Gediminas Lisauskas, Sarunas Urniezius, Tadas Jasnauskas og Sigurjóni G. Halldórssyni þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðilum skyldi gerð réttarfarssekt. Ætla verður að sóknaraðili styðji kæru sína við y. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að varnaraðilum verði gerð réttarfarssekt.
Varnaraðilar krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en að því frágengnu að varnaraðilum verði gerð eins „væg refsing“ og lög leyfa. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.
Samkvæmt 1. mgr. 222. gr. laga nr. 88/2008 ákveður dómari sektir samkvæmt reglum XXXV. kafla laganna af sjálfsdáðum. Ákveði hann að leggja á réttarfarssekt gerir hann það með úrskurði sem sæta myndi kæru til Hæstaréttar samkvæmt y. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008. Ekki er í lögum gert ráð fyrir að málsaðili geri kröfu um réttarfarssekt. Skorti því lagaskilyrði fyrir að hinn kærði úrskurður yrði kveðinn upp og verður kærumáli þessu vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
ÚrskurðurHéraðsdóms Reykjaness 12. febrúar2010.
Héraðsdómi Reykjaness barst 29. janúar 2010 krafa ríkissaksóknara um að Andra Ólafssyni og Breka Logasyni fréttamönnum yrði gerð réttarfarssekt í málinu nr. S-1064/2009.
Krafa sóknaraðila er reist á 1. og 3. mgr. 223. gr. laga nr. 88/2008 um sakamál og ennfremur er vísað til a liðar 1. mgr. 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 um ábyrgð varnaraðila á flutningi útvarpsefnis.
Varnaraðilar mótmæla kröfunni og krefjast þess aðallega að henni verði hafnað, til vara að varnaraðilar verði víttir þar sem brot sé smávægilegt, sbr. 4. mgr. 223. gr. laga nr. 88/2008, en til þrautavara að þeim verði gerð eins lág réttarfarssekt og mögulegt er. Málskostnaðar er krafist að skaðlausu.
I.
Í greinargerð sóknaraðila kemur m.a. fram að hinn 11. janúar 2010 hafi verið þingfest í Héraðsdómi Reykjaness ákæra á hendur sex mönnum fyrir mansal. Samkvæmt úrskurði dómsins þann dag hafi þinghöld í málinu verið lokuð með vísan til a liðar 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008. Fréttastjóri Stöðvar 2, Óskar Hrafn Þorvaldsson, hafi kært úrskurðinn til Hæstaréttar sem hafi vísað málinu frá með dómi uppkveðnum 18. janúar 2010 í málinu nr. 32/2010. Aðalmeðferð hafi farið fram 25. og 26. janúar sl. og verið frestað til framhalds aðalmeðferðar til 9. febrúar 2010.
Sóknaraðili telur að Fréttastofa Stöðvar 2 hafi ítrekað brotið gegn banni 2. mgr. 11. gr. sakamálalaga í fréttaflutningi sínum af málinu með því að skýra opinberlega frá því sem gerst hafði í hinum lokuðu þinghöldum án leyfis dómara. Annars vegar sé um að ræða frétt sem varnaraðili Andri Ólafsson hafi flutt að kvöldi þriðjudagsins 26. janúar sl. undir yfirskriftinni: „Réttarhöldin í mansalsmálinu tóku óvænta stefnu í gær.“ Þar hafi m.a. komið fram að brotaþoli hafi skýrt frá því að hún hafi þurft að hafa samræði við tvo sakborninga í málinu. Hins vegar sé um að ræða frétt sem Breki Logason hafi flutt að kvöldi miðvikudagsins 27. janúar sl. undir yfirskriftinni: „Mansalsmál: Sönnunargögnum ábótavant“. Í þessari frétt hafi m.a. komið fram að brotaþolinn hafi sakað tvo ákærðu um að hafa neytt brotaþola til munnmaka. Skýrt hafi komið fram í upphafi umræddrar fréttar að þinghöld í málinu væru lokuð almenningi og fjölmiðlum.
Í greinargerð varnaraðila kemur m.a. fram að byggt sé á því að ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga nr. 88/2008 vísi til þeirra sem viðstaddir hafi verið lokuð þinghöld en ekki til annarra. Fyrir liggi í málinu að einhver úr hópi þeirra sem sóttu þing hafi brotið framangreint ákvæði. Sá aðili sé óþekktur en varnaraðilar hafi hins vegar ekki brotið gegn reglunni, enda hafi þeir ekki setið umrætt þing. Þá telja varnaraðilar að 2. mgr. 11. gr. sakamálalaga sé sambærileg lagareglu 2. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í 1. mgr. þess ákvæðis sé kveðið á um þagnarskyldu þeirra sem taldir séu upp í greininni. Í 2. mgr. segi að sá sem veiti viðtöku upplýsingum af því tagi sem um geti í 1. mgr. sé bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir.
Verði talið að varnaraðilar hafi brotið gegn 2. mgr. 11. gr. sakamálalaga er á því byggt að ekki sé til staðar sektarheimild varðandi varnaraðila. Heimild til beitingar réttarfarssektar sé í 223. gr. laganna. Sú heimild nái þó samkvæmt orðalagi ákvæðisins einungis til þeirra sem hlýði ekki fyrirskipun dómara sem miði að því að halda uppi reglu á dómþingi eða komi þar hneykslanlega eða ósæmilega fram. Lagaheimild sé því ekki til staðar til að beita varnaraðila réttarfarssektum í málinu eða a.m.k. sé hún svo óskýr að hún geti ekki leitt til refsikenndra viðurlaga. Bresti því lagaskilyrði til að taka kröfu sóknaraðila til greina.
II.
Í 2. mgr. 11. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 segir að óheimilt sé að skýra frá því sem gerist í lokuðu þinghaldi án leyfis dómara. Eins og áður sagði var búið að loka þinghaldi samkvæmt 10. gr. laganna og hvíldi því þagnarskylda á þeim sem sóttu þing og voru viðstaddir aðalmeðferð málsins. Ákvæði um réttarfarssektir eru í XXXV. kafla laganna. Segir þar í 1. mgr. 223. gr. að ákveða megi sekt á hendur ákæranda, verjanda eða réttargæslumanni m.a. vegna brots á banni samkvæmt 11. gr. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar má ákveða sekt á hendur öðrum er gefa skýrslu fyrir dómi m.a. fyrir brot á banni samkvæmt 11. gr. laganna. Í 3. mgr., en á henni byggir sóknaraðili kröfu sína, segir að ákveða megi sekt á hendur öðrum en framan greinir m.a. fyrir að brjóta bann samkvæmt 11. gr.
Það er álit dómsins að skýra eigi ákvæði 3. mgr. 223. gr. laga nr. 88/2008 þröngt um mat á því hvort framangreind háttsemi varnaraðila, sem ekki voru viðstaddir aðalmeðferð, sæti viðurlögum. Verður ekki talið að viðtakendum upplýsinga, sem þagnarskylda hefur með ólögmætum hætti verið aflétt af, verði gert að gæta slíkrar þagnarskyldu að viðlagðri refsingu. Niðurstaða málsins er því sú að varnaraðilar hafi ekki brotið gegn banni samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 88/2008, heldur eigi framangreind ákvæði sakamálalaga einungis við þá sem sitja lokað þinghald.
Málsvarnarlaun talsmanns varnaraðila, Einars Þórs Sverrissonar hrl., 70.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðast úr ríkissjóði.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Hafnað er kröfu ríkissaksóknara um að varnaraðilar, Andri Ólafsson og Breki Logason, sæti réttarfarssektum.
Málsvarnarlaun talsmanns varnaraðila, Einars Þórs Sverrissonar hrl., 70.000 krónur, greiðast úr ríkissjóði.