Print

Mál nr. 780/2014

Lykilorð
  • Virðisaukaskattur
  • Skilorð
  • Sekt
  • Vararefsing

Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 15. október 2015.

Nr. 780/2014.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Jóni Ebba Halldórssyni og

Salvari Finnboga Guðmundssyni

(Guðbjarni Eggertsson hrl.)

Virðisaukaskattur. Skilorð. Sekt. Vararefsing.

J, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður F ehf., og S, daglegur stjórnandi F ehf. með prókúru, voru sakfelldir fyrir brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 framin í rekstri félagsins með því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum og virðisaukaskatti á nánar tilgreindum tímabilum. Fyrir lá að vanskil vegna A hluta ákæru höfðu verið gerð upp að fullu. Taldi Hæstiréttur hins vegar ekki koma til greina að beita ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 til að fara niður úr fésektarlágmarki vegna þeirra tímabila sem þar um ræddi þar sem virðisaukaskattskýrslum vegna þeirra hefði ekki verið skilað fyrr en eftir að rannsókn hófst á skattskilum J og S. Var refsing J og S hvors um sig ákveðin fangelsi í 3 mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Var þeim auk þess gert að greiða hvor um sig 20.400.000 krónur í sekt í ríkissjóð en sæta ella fangelsi í 9 mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. nóvember 2014 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.

Ákærðu krefjast refsimildunar.

I

Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum ákærðu og einkahlutafélagsins Jóns og Salvars fasteignafélags hófst 21. júní 2012. Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi eru ákærðu, ásamt einkahlutafélaginu Jóni og Salvari fasteignafélagi, gefin að sök í A hluta ákæru, meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri einkahlutfélagsins með því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum vegna uppgjörstímabilanna janúar til febrúar rekstrarárið 2010 til og með nóvember til desember rekstrarárið 2011. Þá er ákærðu gefið að sök að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í starfseminni vegna uppgjörstímabilanna janúar til febrúar til og með september til október rekstrarárið 2010 og janúar til febrúar til og með nóvember til desember rekstrarárið 2011, samtals að fjárhæð 11.814.349 krónur.

Ákærðu eru í B hluta ákæru gefin að sök meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri einkahlutafélagsins Jóns og Salvars, með því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum vegna uppgjörstímabilanna janúar til febrúar til og með nóvember til desember rekstrarárið 2011. Einnig er þeim gefið að sök að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í starfseminni vegna framangreindra uppgjörstímabila, samtals að fjárhæð 8.592.282 krónur.

Háttsemi samkvæmt báðum ákæruliðum var heimfærð undir 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, svo og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hinum áfrýjaða dómi var einkahlutafélagið Jón og Salvar fasteignafélag sýknað af ofangreindri háttsemi og var þeirri niðurstöðu ekki áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins.

II

Fyrir liggur að vanskil samkvæmt A hluta ákæru hafa að fullu verið gerð upp með greiðslum á árunum 2012 til 2013 og jafnframt er ágreiningslaust að virðisaukaskattskýrslum vegna þeirra virðisaukaskattskila sem þar um ræðir var skilað eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst. Reisa ákærðu kröfu sína um mildun refsingar á því að þar sem svo hátti til að vanskil hafi verið gerð upp samkvæmt A hluta ákæru og virðisaukaskattskýrslum skilað verði fésektarlágmarki 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 ekki beitt við ákvörðun refsingar þeirra.

Eins og að framan var rakið var ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum vegna umræddra tímabila fyrr en eftir að rannsókn hófst á skattskilum ákærðu hjá skattyfirvöldum. Kemur þegar af þeirri ástæðu ekki til greina að beita ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 til að fara niður úr fésektarlágmarki vegna þessara tímabila, sbr. dóm Hæstaréttar 3. mars 2011 í máli nr. 71/2010.

Ógreiddar eru 8.592.282 krónur samkvæmt B hluta ákæru. Að því gættu og að virtum þeim brotum sem ákærðu hafa verið sakfelldir fyrir verða þau heimfærð til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, en í ljósi atvika málsins verður refsing ákærðu ákveðin fangelsi í 3 mánuði, sem bundin verður skilorði eins og í dómsorði greinir. Þá verður staðfest ákvæði hins áfrýjaða dóms um sektarrefsingu ákærðu, en vararefsing er ákveðin eins og nánar greinir í dómsorði

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað ákærðu verður staðfest.

Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærðu, Jón Ebbi Halldórsson og Salvar Finnbogi Guðmundsson, sæti hvor um sig fangelsi í 3 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar þeirra og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi þeir almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærðu greiði hvor um sig 20.400.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 9 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærðu greiði óskipt allan áfrýjunarkostnað málsins, 518.281 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra fyrir Hæstarétti, Guðbjarna Eggertssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. október 2014.

Mál þetta, sem þingfest var 14. mars 2014 og dómtekið 22. september sl., er höfðað með ákæru embættis sérstaks saksóknara, skv. lögum nr. 135/2008, útgefinni 20. febrúar 2014 á hendur Jóni Ebba Halldórssyni, kt. [...], Lindarvaði 21, Reykjavík, Salvari Finnboga Guðmundssyni, kt. [...], Ísalind 5, Kópavogi og einkahlutafélaginu Jóni og Salvari fasteignafélagi, kt. 700171-0199, Smiðjuvegi 44, Kópavogi fyrirsvarsmaður Jón Ebbi Halldórsson, kt. [...].

A.

Á hendur ákærðu Jóni Ebba, Salvari Finnboga og einkahlutafélaginu Jóni og Salvari fasteignafélagi, kt. 700171-0199, fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, framin í rekstri einkahlutafélagsins, sem ákærði Jón Ebbi var framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í og Salvar Finnbogi daglegur stjórnandi með prókúru, með því að hafa eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna janúar – febrúar rekstrarárið 2010 til og með nóvember - desember rekstrarárið 2011 og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í starfseminni, vegna uppgjörstímabilanna janúar – febrúar til og með september – október rekstrarárið 2010 og janúar – febrúar til og með nóvember – desember rekstrarárið 2011, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 11.814.349, sem sundurliðast sem hér greinir:  

Árið 2010

janúar – febrúar                                         kr.   1.172.935

mars – apríl                                                 kr.   1.349.162

maí - júní                                                     kr.   2.432.927

júlí – ágúst                                                   kr.      331.431

september – október                                  kr.   1.505.307  

                                                                       kr.   6.791.762

Árið 2011

janúar – febrúar                                         kr.        53.335

mars – apríl                                                 kr.   1.864.707

maí - júní                                                     kr.        27.982

júlí – ágúst                                                   kr.        94.757

september – október                                  kr.   2.085.834  

nóvember – desember                               kr.      895.972

                                                                       kr.   5.022.587

Samtals                                             kr. 11.814.349        

B.

Á hendur ákærðu Jóni Ebba og Salvari Finnboga fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, framin í rekstri einkahlutafélagsins Jón og Salvar, kt. 540194-2709, sem ákærði Jón Ebbi var framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í og Salvar Finnbogi stjórnarformaður og daglegur stjórnandi með prókúru, með því að hafa eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabilanna janúar – febrúar til og með nóvember - desember rekstrarárið 2011 og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í starfseminni, vegna framangreindra uppgjörstímabila, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 8.592.282, sem sundurliðast sem hér greinir:  

janúar – febrúar                                         kr.      981.999

mars – apríl                                                 kr.      995.410

maí - júní                                                     kr.      952.505

júlí – ágúst                                                   kr.   1.069.929

september – október                                  kr.   2.289.379  

nóvember – desember                               kr.   2.303.060

                                                                       kr.   8.592.282

Framangreind brot ákærðu Jóns Ebba og Salvars Finnboga samkvæmt A og B – lið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005.

Framangreind brot ákærða Jón og Salvar fasteignafélag ehf. samkvæmt B – lið ákæru teljast varða við 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt að því er varðar 1 tölulið B – liðar ákæru, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Fram kom við aðalmeðferð málsins að mistök hafi átt sér stað við gerð ákæru á þann hátt að ákærði Salvar sé ekki stjórnarformaður félagsins Jón og Salvar ehf. skv. B lið ákæru, heldur stjórnarmaður félagins Jón og Salvar fasteignafélag ehf. skv. A lið ákæru.

Við fyrirtöku málsins þann 11. apríl 2014, viðurkenndi ákærði, Jón Ebbi Halldórsson, skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í B. lið ákæru en neitaði sök í A. lið. Í sömu fyrirtöku neitaði ákærði Salvar Finnbogi Guðmundsson, að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í A. og B. lið ákæru. 

Af hálfu ákærðu er krafist sýknu af ákærulið A en til vara og um ákærulið B að þeim verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er þess krafist að allur sakarkostnaður, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun skipaðra verjanda ákærðu, verði greiddur úr ríkissjóði

I

Málsatvik eru þau að skattrannsóknarstjóri ríkisins sendi mál ákærðu til embættis sérstaks saksóknara þann 31. október 2013 til rannsóknar á meintum brotum á ákvæðum laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Segir í bréfi skattrannsóknarstjóra að tilefni rannsóknarinnar hafi verið athugun embættisins á bókhaldi og virðisaukaskattskilum skattaaðilans, Jóns og Salvars fasteignafélags ehf. hvað varðar A. lið ákæru og Jón og Salvars ehf. hvað varðar B. lið ákæru. Hafi rannsóknin annars vegar leitt í ljós að ákærðu, Jón Ebbi, Salvar Finnbogi og Jón og Salvar fasteignafélags ehf. hafi vanrækt að standa skil á virðisaukaskattskýrslum vegna allra uppgjörstímabila rekstraráranna 2010 og 2011 og þar með vanrækt að standa innheimtumanni ríkissjóðs skil á greiðslum vegna þeirra þó virðisaukaskattskýrslum vegna beggja ára hafi verið skilað eftir að rannsókn hófst. Hins vegar að ákærðu Jón Ebbi og Salvar Finnbogi hafi sem fyrirsvarsmenn Jóns og Salvars ehf. vanrækt að skila inn virðisaukaskattskýrslum og standa innheimtumanni skil á greiðslu vegna allra uppgjörstímabila rekstrarársins 2011. Hafi skattrannsóknarstjóri tilkynnt fyrirsvarsmönum um fyrirhugaða ákvarðanatöku um refsimeðferð í málinu og gefið þeim kost á því að tjá sig um hana. Úrskurður ríkisskattstjóra um endurákvörðun hjá Jóni og Salvari fasteignafélagi ehf. var dagsettur 15. október 2013. Ekki var um samsvarandi úrskurð að ræða hjá Jóni og Salvari ehf. þar sem félagið hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Fram kom í skýrslutöku hjá lögreglu þann 16. janúar 2014 haft eftir ákærða Jóni Ebba, að hann og Salvar Finnbogi hafi sameiginlega borið ábyrgð á rekstri Jóns og Salvars fasteignafélags ehf. og Jóns og Salvars ehf. en Salvar hafi séð um daglega fjármálastjórn og samskipti við bókara.

Fram kom í skýrslutöku hjá lögreglu þann 9. janúar 2014 haft eftir ákærða Salvari Finnboga, að hann og Jón Ebbi hafi sameiginlega borið ábyrgð á rekstri Jóns og Salvars fasteignafélags ehf. og Jóns og Salvars ehf.

II

Verður nú rakinn framburður ákærðu fyrir dómi.

Fyrir dómi bar ákærði Jón Ebbi Halldórsson aðspurður um tengsl hans við félagið Jón og Salvar fasteignafélag ehf. sem um getur í A. lið ákærunnar að hann sé framkvæmdarstjóri félagsins og eigandi að hálfu og einnig hafi hann verið stjórnarmaður félagsins. Aðspurður um stjórnarfundi félagsins kom fram að ekki hafi verið um reglulega stjórnarfundi að ræða og engar fundargerðir. Hann hafi ekki kynnt sér sérstaklega hvaða skyldur féllu undir það að vera stjórnarmaður í einkahlutafélagi. Daglegum rekstri hafi verið háttað með þeim hætti að hann hafi verið í útivinnunni og hafi séð um þann þátt. Að öðru leyti vísaði hann til þeirra skýrsla sem teknar hafi verið við rannsókn málsins. Ástæðan fyrir því að dregist hefði að gera skil á virðisaukaskattskýrslum hafi verið vegna anna bókarans en að skattinum hafi verið skilað á réttum tíma og að um inneign hafi verið að ræða.

Fyrir dómi bar ákærði Jón Ebbi Halldórsson aðspurður um daglegan rekstur Jóns og Salvars ehf. sem um getur í B. lið ákærunnar að honum hafi verið háttað með sama hætti og um geti í ákærulið A, að hann hafi verið í útivinnunni. Salvar hafi séð um greiðslu reikninga en hann hafi sjálfur einnig komið að fjármálum félagsins. Hann hafi vitað um þungan rekstur félagsins og vanskil á virðisaukaskattinum en ekki vitað um fjárhæðir í því sambandi. Að öðru leyti vísaði hann til þeirra skýrsla sem teknar hafi verið við rannsókn málsins.

Fyrir dómi bar ákærði Salvar Finnbogi Guðmundsson aðspurður um tengsl hans við félagið Jón og Salvar fasteignafélag ehf. sem um getur í A. lið ákærunnar að hann sé stjórnarformaður félagsins og eigandi að hálfu. Aðspurður um stjórnarfundi félagsins kom fram að ekki hafi verið um formlega stjórnarfundi að ræða og engar fundargerðir. Fram kom að hafi ekki kynnt sér sérstaklega hvaða skyldur féllu undir það að vera stjórnarmaður í einkahlutafélagi en að hann gerði sér nokkurn vegin ljósar þær skyldur. Daglegum rekstri hafi verið háttað með þeim hætti að hann hafi verið gjaldkeri en að öðru leyti unnið lítið við það. Um ástæður þess að ekki var skilað virðisaukaskattskýrslum vísaði ákærði til þeirra skýrsla sem teknar hafi verið við rannsókn málsins. Það hafi verið erfiðleikar í rekstrinum, en ekki hafi verið neinn ásetningur í því sambandi. Hann hljóti að bera ábyrgð á þessu enn ekki sé hægt að greiða ef peningar eru ekki til staðar.

Fyrir dómi bar ákærði Salvar Finnbogi Guðmundsson aðspurður um tengsl hans við félagið Jón og Salvar ehf. sem um getur í B. lið ákærunnar að hann hafi átt hlut í því félagi og verið varamaður í stjórn en einnig verið prókúruhafi. Daglegri stjórn hafi verið háttað með sama hætti og fram hafi komið um ákærulið A. Um ástæðu þess að virðisaukaskattskýrslum og greiðslum hafi ekki verið skilað vísaði hann til skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara.

Fram kom hjá Salvari Finnboga að ástæða fjárhagsörðuleika félaganna hafi verið sú að haustið 2008 hafi þeir haft mikið undir í framkvæmdum. [...] hafi þá krafist þess að þeir myndi selja allt frá sér sem þeir hafi gert fyrir mjög lágar upphæðir á þessum tíma og hafi það verið gert vegna þrýstings frá bankanum. Þeir hafi hins vegar setið uppi með miklar skuldir. Jón og Salvar ehf. hafi farið í þrot og hafi þeir bent skiptastjóra á það að félagið hafi átt útistandi kröfu á bankann vegna óleiðréttra gengislána og hafi þeim reiknast til að félagið ætti um 30-40 milljónir þar inni. Eftir þessum kröfum hafi hins vegar ekki verið gengið. Ástæða þess að skýrslum hafi verið skilað seint hafi verið vegna veikinda hjá bókara félagsins. Öllum skýrslum hafi síðan verið skilað og reynt að greiða allan virðisaukaskatt, meðal annars með því að eiginkona hans hafi tekið lán upp á fimm milljónir en það hafi ekki dugað til.

A kom sem vitni fyrir dóminn og bar aðspurð um tengsl hennar við Jón og Salvar fasteignafélag ehf. að hafa starfað sem verktaki og hafi séð um bókhald félagsins. Spurð um daglegan rekstur kom fram að Salvar hafi séð um fjármálahliðina en að hún hafi verið í samskiptum bæði við Salvar og Jón eftir því hvaða svið samskiptin áttu undir. Sömu tengsl hafi verið við félagið Jón og Salvar ehf. Aðspurð taldi vitnið að ákærðu hafi verið fórnarlömb hrunsins og að [...] hafi gengið mjög hart fram í innheimtu gagnvart félögunum.

III

Í máli ákærðu kom fram að sýkna ætti ákærðu af A. lið ákærunnar, enda væri orðalag ákærunnar rangt. Ranglega kæmi fram að þeir hafi eigi staðið skil á virðisaukaskattskýrslum og eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti. Það rétta væri að bæði hefði skýrslum verið skilað og virðisaukaskattur hafi verið greiddur þegar ákæra var gefin út. Staðreynt er í málinu að eigi var skilað inn virðisaukaskattskýrslum á lögmætum tíma né var virðisaukaskattur greiddur á lögmætum tíma. Eins og rakið er síðar í niðurstöðu dómsins skiptir það verulegu máli hvort virðisaukaskattskýrslum var skilað á lögmætum tíma eða ekki. Er það því mat dómsins að þrátt fyrir þetta orðalag í ákæru þykir mega leggja dóm á A. lið ákærunnar, enda verður ekki séð að vörn hafi verið áfátt af þessum sökum, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ákærði Salvar Finnbogi var stjórnarformaður félagsins Jón og Salvar fasteignafélag ehf., eigandi að hálfu og auk þess hafði hann prókúruumboð og var gjaldkeri félagsins. Um félagið Jón og Salvar ehf. bar Salvar að hann hafi átt hlut í því félagi og verið varamaður í stjórn en hafi einnig verið prókúruhafi og gjaldkeri. Ákærði Salvar Finnbogi hafði það verkefni með höndum að greiða reikninga og gjöld félaganna. Ákærði Jón Ebbi bar að hann væri framkvæmdarstjóri félagsins Jón og Salvar fasteignafélag ehf., eigandi að hálfu og einnig hafi hann verið stjórnarmaður félagsins. Daglegum rekstri hafi verið háttað með þeim hætti að hann hafi verið í útivinnunni en Salvar séð um fjármálahliðina. Aðspurður um aðkomu hans að félaginu Jón og Salvar ehf. bar hann að því hafi verið háttað með sama hætti og í félaginu Jón og Salvar fasteignafélag ehf.

Af framburði ákærðu fyrir dómi verður ekki annað ætlað en þeir hafi báðir tekið ákvarðanir um fjárhagsmálefni félagsins þó ákærði Jón Ebbi hafi ekki fylgst með stöðu fjármála frá degi til dags en var þrátt fyrir það framkvæmdarstjóri félaganna. Er það mat dómsins að báðir ákærðu hafi haft með daglegan rekstur beggja félaga að gera, ákærði Salvar sem stjórnarmaður, prókúruhafi og gjaldkeri og ákærði Jón Ebbi sem framkvæmdarstjóri og prókúruhafi og beri þeir sem slíkir ábyrgð á starfsemi félagsins, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.

Ákærðu lögðu áherslu á í málflutningi sínum að þeir hafi greitt upp öll vanskil í virðisaukaskatti hjá félaginu Jóni og Salvari fasteignafélag ehf. Af gögnum málsins má sjá að öllum virðisaukaskattskýrslum félagsins var skilað fyrir árin 2010 og 2011. Þá var einnig búið að greiða vangoldinn skilaskyldan virðisaukaskatt þann 6. janúar 2014 eða áður en ákæra var gefin út. Með vísan til þessa var það mat ákærðu að ekki ættu við ákvæði um fésektarlágmark sem fram kæmu í 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, eins og þeim ákvæðum var breytt með lögum nr. 134/2005.

Í greinargerð með nefndum lögum nr. 134/2005 kemur meðal annars fram: „Frumvarpið felur eftir sem áður í sér að lágmarksfésekt við tilteknum skattalagabrotum, sem nú eru að lágmarki tvöföld vangoldin skattfjárhæð, eigi ekki við þegar um vanskil á vörslufé er að ræða en gjaldandi hefur skilað skilagrein á réttum tíma“. Forsenda þess að heimilt sé að fara niður fyrir fésektarlágmark 40. gr. laga um virðisaukaskatt er því sú að skýrslum hafi verið skilað á réttum tíma. Af gögnum málsins má sjá að virðisaukaskattskýrslum var ekki skilað á lögmætum tíma þó svo að þær hafi komið fram áður en ákæra var gefin út. Með vísan til þessa er ekki heimilt að beita ákvæðum 40. gr. laga um virðisaukaskatt eins og þeirri grein var breytt með ákvæðum 3. gr. laga nr. 134/2005 á þann hátt að fara niður fyrir tvöfalt fésektarlágmark, þrátt fyrir að ákærðu hafi verið búnir að greiða upp öll vanskil sem um getur í ákærulið A., eins og sjá má meðal annars í dómi Hæstaréttar frá 3. mars 2011 í málinu nr. 71/2010.

Ákærðu lögðu fram yfirlit þess efnis að virðisaukaskattur hafi verið ofgreiddur hjá félaginu Jóni og Salvari fasteignafélagi ehf., ef miðað væri við greiðslur inn á höfuðstól virðisaukaskattskuldar þess félags. Þannig bæri að líta á allar innborganir inn á vexti, álag og kostnað þess félags, inn á þau tímabila sem ákært væri fyrir, sem ofgreiðslu sem ætti að koma ákærðu til góða í máli þessu. Með þessum hætti var gert ráð fyrir því að ákærðu hafi ofgreitt 4.154.645 krónur. Þessa ofgreiðslu bæri að líta á sem innborgun inn á virðisaukaskattskuld hjá félaginu Jóni og Salvari ehf., fyrst inn á elsta tímabil skuldar, janúar – febrúar 2011 og svo áfram þannig að eftir standi aðeins skuld á tímabili september – október 2011, 2.134.577 krónur og tímabili nóvember – desember 2011, 2.303.060 krónur eða samtals 4.437.637 krónur. Beri dómnum aðeins að horfa til vangreidds virðisaukaskatts eins og hann standi eftir framangreinda innborgun en sú fjárhæð sem eftir standi geti engan vegin með vísan til dómafordæma Hæstaréttar talist meiriháttar.

Í gögnum málsins er ekki að finna neinar upplýsingar um innborganir inn á virðisaukaskattskuld félagsins Jón og Salvar ehf. Ekki er á það fallist með ákærðu að greiðslur umfram höfuðstól virðisaukaskatts hjá félaginu Jón og Salvar fasteignafélag ehf. beri að líta á sem greiðslur inn virðisaukaskattskuld félagsins Jón og Salvar ehf. sem rekið var á annarri kennitölu og telst sjálfstætt félag í þeim skilningi. Félagið Jón og Salvar ehf. mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta þann 11. október 2012 en umræddar greiðslur til félagsins Jón og Salvar fasteignafélag ehf. munu samkvæmt gögnum málsins hafa verið greiddar á tímabilinu 27. mars 2012 til 14. október 2013 og eru því greiddar að hluta til eftir úrskurðardag félagsins Jón og Salvar ehf. Þá ber til þess að horfa að þó svo að fallist væri á þessa kröfu ákærðu þá myndi það ekki breyta forsendum málsins um fésektarlágmark. Eins og rakið var að framan þá breyta innborganir inn á vanskil sem gerðar eru áður en ákæra er gefin út engu um fésektarlágmark 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nema skýrslum hafi verið skilað inn á lögmæltum tíma. Virðisaukaskattskýrslum þeim sem um getur í B. lið ákæru var ekki skilað inn á lögmæltum tíma og því er ekki heimilt að fara niður fyrir tvöfalt fésektarlágmark samkvæmt því sem að framan greinir.

Ekki voru gerðar athugasemdir við þær fjárhæðir sem um getur í ákæru. Verður út frá því gengið að ákærðu hafi gerst sekir um vanskil á skýrslum og þeim fjárhæðum sem í ákæru greinir á lögmætum tíma, annars vegar samkvæmt A. lið ákæru, 11.814.349 krónur og samkvæmt B. ákæru 8.592.282 krónur eða samtals 20.406.631 krónur. Á það er fallist með ákæruvaldinu að brot ákærðu hafi verið framið af stórkostlegu hirðuleysi og hafi verið fullframið í skilningi 40. gr. laga um virðisaukaskatt þegar skýrslum var ekki skilað á réttum tíma og greiðsla var ekki innt af hendi á réttum tíma. Sú fjárhæð sem um getur í ákæru er meiriháttar í skilningi 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærðu eru því réttilega heimfærð undir 1. mgr. 262. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt virðisaukaskatt nr. 50/1998 eins og í ákæru greinir.

Í ákæru þessa máls er einkahlutafélagið Jón og Salvar fasteignafélag ehf. meðákært. Við fyrirtöku málsins þann 14. mars 2014 leiðrétti ákæruvaldið ákæruskjalið á þann hátt að ranglega hafi verið vísað til B. liðar ákæru, vísa hefði átt til A. liðar ákæru. Við aðalmeðferð málsins var á engan hátt leitast við að gera grein fyrir á hvern hátt ákvæði 8. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 ættu við um ákærða eða refsiþátt félagsins að öðru leyti. Er félagið Jón og Salvar fasteignafélag ehf. því sýknað af ákæru.

IV

Ákærði Jón Ebbi Halldórsson er fæddur í apríl árið 1958. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum aldrei verið gerð refsing áður. Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að brot ákærða telst stórfellt og er það virt honum til refsiþyngingar Ákærði hefur játað hluta af brotum sínum og skýrt hreinskilningslega frá atvikum málsins og þá hefur verið greiddur verulegur hluti þeirra gjalda sem ákært er fyrir. Ekki hefur annað verið leitt í ljós en að skýrslur hafi verið efnislega réttar og bókhald félaganna verið í góðu lagi. Verður það metið ákærða til málsbóta. Með vísan til framangreinds og til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða nú hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi sem verður bundin skilorði eins og í dómsorði segir.

Ákærði Salvar Finnbogi Guðmundsson er fæddur í desember árið 1957. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum aldrei verið gerð refsing áður. Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að brot ákærða telst stórfellt og er það virt honum til refsiþyngingar Ákærði hefur skýrt hreinskilningslega frá atvikum málsins og þá hefur verið greiddur verulegur hluti þeirra gjalda sem ákært er fyrir. Ekki hefur annað verið leitt í ljós en að skýrslur hafi verið efnislega réttar og bókhald félaganna verið í góðu lagi. Verður það metið ákærða til málsbóta. Með vísan til framangreinds og til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða nú hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi sem verður bundin skilorði eins og í dómsorði segir.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 með árorðnum breytingum, skal fésekt nema að lágmarki tvöfaldri skattfjárhæðinni og allt að tífaldri. Í málinu hefur að mati dómsins ekki verið sýnt fram á skilyrði til þess að farið verði niður fyrir það fésektarlágmark sem kveðið er á um í téðu ákvæði. Ákærðu verða samhliða skilorðsbundinni refsivist, dæmdir til greiðslu sektar sem nemur tvöfaldri þeirri fjárhæð sem vangreidd var eða  samtals 40.813.262 krónum og verður þeirri sektarfjárhæð skipt niður á ákærðu eins og venja er í dómaframkvæmd.

Ákærði Jón Ebbi Halldórsson skal greiða 20.400.000 krónur sem greiðist innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, um vararefsingu fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir. 

Ákærði Salvar Finnbogi Guðmundsson skal greiða 20.400.000 krónur sem greiðist innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, um vararefsingu fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir. 

V

Með vísan til 219. gr. laga nr. 88/2008 verður Jóni Ebba Halldórssyni gert að greiða þóknun skipaðs verjanda síns Steins S. Finnbogasonar hdl., 240.960 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Með vísan til 219. gr. laga nr. 88/2008 verður Salvari Finnboga Guðmundssyni gert að greiða þóknun skipaðs verjanda síns Guðbjarna Eggertssonar hrl., 240.960  krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins hvað varðar ákærða Jón og Salvar fasteignafélag ehf. ber skv. 217. gr. l. 88/2008, að ákveða að sakarkostnaður vegna málsins verði lagður á ríkissjóð, sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir dóminum Guðbjarna Eggertssonar hrl, sem eru ákveðin eins og í dómsorði greinir að meðtöldum virðisaukaskatti.  

Ekki leiddi annan sakarkostnað af máli þessu.

Af hálfu ákæruvalds flutti mál þetta Sigríður Svava Sigurgeirsdóttir saksóknarfulltrúi.

Bogi Hjálmtýsson, héraðsdómari dæmir mál þetta.

D ó m s o r ð :

Ákærði Jón Ebbi Halldórsson, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði Jón Ebbi Halldórsson greiði 20.400.000 króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 270 daga.

Ákærði Jón Ebbi Halldórsson greiði allan sakarkostnað, sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Steins S. Finnbogasonar héraðsdómslögmanns sem þykja hæfileg 240.960 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði Salvar Finnbogi Guðmundsson, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði Salvar Finnbogi Guðmundsson greiði 20.400.000 króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 270 daga.

Ákærði Salvar Finnbogi Guðmundsson greiði allan sakarkostnað málsins sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir dóminum, Guðbjarna Eggertssyni hæstaréttarlögmanni, sem þykja hæfileg 240.960 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Jón og Salvar fasteignafélag ehf. er sýknað af ákæru.

Ríkissjóður greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Jóns og Salvars fateignafélags ehf. fyrir dóminum, Guðbjarna Eggertssyni hæstaréttarlögmanni, sem þykja hæfilega ákveðin 75.300 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.