Print

Mál nr. 665/2015

Lykilorð
  • Kærumál
  • Brotaþoli
  • Réttargæslumaður

                                     

Miðvikudaginn 7. október 2015.

Nr. 665/2015.

Ákæruvaldið

(enginn)

gegn

X

(enginn)

Kærumál. Brotaþoli. Réttargæslumaður.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A og B var synjað um skipun réttargæslumanns.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Hjónin A og B skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 26. september 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 24. september 2015 þar sem þeim var synjað um skipun réttargæslumanns. Kæruheimild er í e. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þess er krafist að lagt verði fyrir héraðsdómara að skipa hjónunum tiltekinn lögmann sem réttargæslumann og að þeim verði dæmdur kærumálskostnaður.

Hvorki sóknaraðili né varnaraðili hafa látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál á hendur varnaraðila þar sem honum var meðal annars gefið að sök brot gegn 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa valdið umferðarslysi þar sem C lést, en hún var dóttir hjónanna. Við þingfestingu málsins var sótt þing af hálfu þeirra og þess krafist að þeim yrði skipaður réttargæslumaður. Með hinum kærða úrskurði var þeirri kröfu hafnað.

Samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laga nr. 88/2008 er brotaþoli sá maður sem kveðst hafa orðið fyrir misgerð af völdum afbrots. Enn fremur sá maður sem telur sig hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af refsiverðri háttsemi, enda hafi hún beinst að honum sjálfum. Eins og fram kemur í lögskýringargögnum verður gagnályktað frá ákvæðinu á þann veg að aðrir en þeir, sem afbrot hefur beinlínis beinst að, verða ekki taldir brotaþolar í skilningi laganna, svo sem nánustu aðstandendur brotaþola. Samkvæmt þessu standa ekki skilyrði til að hjónunum verði skipaður réttargæslumaður. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.  

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 24. september 2015.

Mál þetta, sem þingfest var 3. september sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, þann 19. maí 2015, á hendur X, kt. [...], til heimilis að [...], [...],

“fyrir hegningar- og umferðarlagabrot:

með því að hafa, sunnudaginn 4. ágúst 2013, ekið bifreiðinni [...], án þess að hafa gild ökuréttindi, austur [...] við [...] í [...], þar sem ákærði ók fram úr bifreiðinni [...] án nægilegrar aðgæslu og án þess þá að aka aftur inn á rétta akgrein[sic.] um leið og unnt var án hættu og óþæginda, með allt að 124 km hraða á klukkustund þar sem leyfður hámarkshraði var 90 km á klukkustund, of hratt miðað við aðstæður þannig að ákærði hafði ekki fullt vald á bifreiðinni sem lenti með hægri hjólbarða bifreiðarinnar utan bundins slitlags örskömmu eftir að framangreindum framúrakstri lauk, þannig að bifreiðin fór þvert yfir báðar akreinar vegarins, valt og staðnæmdist á hvolfi utan vegar í hrauni þar sem eldur kviknaði í bifreiðinni; allt með þeim afleiðingum að tveir farþegar sem sátu í aftursæti bifreiðarinnar; D, fædd [...] 1998, og C, fædd [...] 1997, köstuðust út úr bifreiðinni og hlutu alvarlega áverka á heila og létust á vettvangi og E, kt. [...] farþegi í framsæti bifreiðarinnar hlaut brot á úlnlið, opið sár á höfði og mar á lunga.

Teljast brot ákærða varða við 215. gr. og 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og 1. mgr. 4. gr., 3. mgr. 20. gr., 1. mgr. 36. gr., 2. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Í ákæru er lýst svohljóðandi einkaréttarkröfu:

„Af hálfu Ingibjargar Ólafar Vilhjálmsdóttur hdl. er, f.h. A og B sem eru foreldrar C fædd [...] 1997, krafist skaða- og miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 5.000.000, auk vaxta af fjárhæðinni skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 4. ágúst 2013, þar til mánuður er liðinn frá því að ákærða var kynnt bótakrafan, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags sbr. 9. gr. sömu laga.“

Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins en vegna hans sótti þing Bragi Björnsson hdl. og var hann skipaður verjandi ákærða að hans ósk. Við þingfestingu var og mætt af hálfu foreldra brotaþola og þess krafist að Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir hdl. yrði skipuð réttargæslumaður þeirra. Verjandi ákærða upplýsti að ákærði óskaði eftir fresti til að kynna sér gögn málsins, og var málinu frestað til fyrirtöku til fimmtudagsins 24. september sl., þar sem yrði meðal annars tekin afstaða til kröfu brotaþola. Engin andmæli komu fram um kröfu brotaþola við fyrirtöku málsins þann dag. Var það þó mat dómara að ekki væru skilyrði til að fallast á kröfu foreldra brotaþola, og var henni hafnað með bókun í þingbók, sbr. 1. mgr. 181. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var þá krafist úrskurðar um kröfuna af hálfu foreldra brotaþola.

Um málsatvik vísast til ákæru. Í ákæru er og lýst afleiðingum háttsemi þeirrar sem ákærða er gefin að sök. Kemur þar fram að tveir brotaþolar hafi látist á vettvangi, og einn hlotið brot á úlnlið, opið sár á höfði og mar á lunga. Er þessi lýsing í samræmi við framlögð gögn.

                Samkvæmt 1. mgr. 42. gr., sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 88/2008, skal dómari að uppfylltum þar tilgreindum skilyrðum, skipa brotaþola réttargæslumann að hans ósk, ef mál varðar brot gegn XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, líkt og til háttar í máli þessu. Er það skilyrði fyrir skipun réttargæslumanns samkvæmt ákvæðinu að ætla megi að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins eða að brotið hafi verið gegn honum af einhverjum sem honum er nákominn. Þá er það skilyrði fyrir skipun réttargæslumanns samkvæmt ákvæðinu að brotaþoli hafi þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til þess að gæta hagsmuna sinna í málinu.

                Í máli þessu er um brot gegn XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að ræða og verulegt tjón varð á líkama brotaþola af völdum brotsins. Teljast því skilyrði 2. mgr. 42. gr. laga nr. 88/2008 uppfyllt til þess að skipa brotaþola réttargæslumann í málinu. Hins vegar er einkaréttarkrafa í málinu sett fram af hálfu foreldra brotaþola þar sem brotaþola sjálfum er, eðli máls samkvæmt, ekki til að dreifa í málinu. Í 1. mgr. 39. gr. laga um meðferð sakamála nr 88/2008 kemur fram að brotaþoli sé sá maður sem kveðst hafa orðið fyrir misgerð af völdum afbrots. Enn fremur sá aðili sem telur sig hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af refsiverðri háttsemi, enda hafi hún beinst að honum sjálfum, eða lögaðila sem sagður er hafa beðið slíkt tjón. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008 kemur fram að frá framangreindu ákvæði megi gagnálykta á þann veg að aðrir en þeir, sem afbrot hefur beinlínis beinst að verði ekki taldir brotaþolar í skilningi laganna, og sérstaklega nefndir í því sambandi, eru nánustu aðstandendur þess sem brot hefur beinst gegn. Með lögum nr. 36/1999 um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, var 44. gr. b. bætt inn í lög nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sem lög nr. 88/2008 um meðferð sakamála leystu af hólmi. 41. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er efnislega eins og 44. gr. b. fyrrnefndra laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Í almennum athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 36/1999, kemur fram að meginmarkmið með frumvarpinu hafi verið að styrkja réttarstöðu brotaþola og hugtakið brotaþolar er þar skilgreint sem þeir einstaklingar sem hafa verið þolendur afbrota eða misgert hefur verið við.

Þar sem einkaréttarkrafa í málinu er ekki sett fram af brotaþola, í skilningi laganna, brestur heimild til að skipa í því réttargæslumann.

Að öllu framangreindu virtu ber að hafna kröfu foreldra brotaþola um skipun réttargæslumanns.

Kristján Óðinn Unnarsson, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hafnað er kröfu A og B, um að Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir hdl. verði skipuð réttargæslumaður þeirra.

                                                                                              .