Print

Mál nr. 216/2009

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Þriðjudaginn 5

 

Þriðjudaginn 5. maí 2009.

Nr. 216/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Kristján B. Thorlacius hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. maí kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                  

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur að X, kt. [...], [...], Reykjavík, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 8. maí 2009 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að kl. 5:39 þann 2. maí 2009 hafi lögregla fengið tilkynningu um að fara að Bústaðavegi, á aðrein að Hafnarfjarðarvegi vegna slyss þar sem stúlka hafi fleygt sér út úr bifreið á ferð. Hafi stúlkan, A, verið færð slysadeild og vinur hennar B farið með henni.

Á vettvangi hafi verið rætt við vitnið C, leigubílstjóra, sem tjáði lögreglu að hann hefði tekið A og vin hennar, B upp í bifreið sína við Hlöllabáta í miðbæ Reykjavíkur. Hafi A verið grátandi og í miklu uppnámi. Heyrði hann hana segja að henni hefði verið nauðgað af tveimur mönnum. Hún hafi svo kastað sér út úr bifreiðinni á Bústaðavegi. Lögregla hafi farið á slysdeild og rætt við brotaþola, A, og B félaga hennar.

Hafi brotaþoli verið í miklu tilfinningalegu áfalli og átt erfitt með að greina heildstætt frá. Kvað hún að henni hefði verið nauðgað í jeppabifreið nálægt Kola­portinu. Hún hafi hitt annan manninn inn á skemmtistað og farið með honum í jeppabifreið skammt frá. Þegar hún hafi svo viljað  fara út úr bifreiðinni þá hafi maðurinn læst hurðinni og neitað að hleypa henni út. Hann hefði haldið henni og sagt að hún yrði að bíða eftir bróðir hans kæmi. Hefði hann svo byrjað að kyssa hana en hún barist um og reynt að losa sig. Hún hefði svo náð að opna bílinn og komist út en maðurinn þá dregið hana með hálstaki inn í bifreiðina aftur. Skömmu síðar hafi bróðir hans komið og nánar aðspurð hafi hún sagt báða mennina hafa haft samfarir við hana inni í bifreiðinni gegn hennar vilja. Kvaðst hún hafa þekkt mennina um tíma. Þeir væru spænskumælandi bræður sem ynnu á skemmtistaðnum Y á [...]. Væru þeir af erlendu bergi brotnir og hún teldi að þeir væru bræður. Hafi hún lýst þeim sem latneskum þéttholda karlmönnum um fertugt.

B hafi tjáð lögreglu að hann og brotaþoli hefðu verið úti að skemmta sér saman í miðbænum. Þau hefðu orðið viðskila og hann leitað að henni í skamman tíma. Hann hefði hringt í hana um klukkan 4:45 en hún ekki svarað. Klukkan 5:15 hefði hann svo fengið frá smáskilaboð þar staðið:“Hjálp“. Hann hafi hringt í hana örskömmu síðar og þá hafi hún svarað og sagst vera við Hlöllabáta. Er hann hafi komið þangað hafi hún setið á jörðinni þar sem var verið að hugga hana. Þegar hann hafi spurt hana hvað hefði komið fyrir hafi hún strax svarað að sér hefði verið nauðgað í bifreið af tveimur mönnum. Þau hafi svo farið saman í leigubíl þar sem brotaþoli hafi orðið sífellt æstari uns hún kastaði sér út úr bílnum.

Lögregla hafi farið í kjölfarið á Y og fljótlega tekið eftir kærða, X, og meðkærða, D þar inni. Hafi þeir strax verið skildir að og handteknir í þágu rannsóknar málsins og fluttir á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem þeir hafi verið vistaðir.

Kærði hafi í skýrslutöku hjá lögreglu borið að hafa haft afskipti af stúlku sem hafi sofið áfengisdauða inn í salerni á skemmtistaðnum Z þar sem hann vinni. Stúlkan hafi þekkt hann sem dyravörð af Y og beðið hann að aka sér heim. Hafi hann fylgt henni að bílnum sínum sem lagt hafi verið í stæði við Tollhúsið. Hann hafi ætlað að leyfa henni að bíða þar þangað til hann væri búinn að vinna. Þau hafi sest í aftursætið. Hún hefði grátið og liðið illa. Hann hefði klappað henni. Hann hefði svo þurft að fara að vinna. Stúlkan hefði þá farið úr bílnum og gengið á brott og hann ekki séð meira af henni. Hann hefði síðan náð í bróður sinn á Y um kl. 06:30 þar sem hann sé að vinna sem dyravörður og skömmu síðar hafi þeir verið handteknir af lögreglunni. Kærði neiti því að hafa haft kynmök síðastliðinn sólarhring.

Meðkærði hafi í skýrslutöku hjá lögreglu neitað sök og borið að hann tengist ekkert málinu. Segist hann hafa verið að vinna á Y alla nóttina.

Brotaþoli hafi lagt fram kæru á hendur kærða og meðkærða þann 2. maí 2009 þar sem hún staðfesti framburð sinn af slysadeild. Beri hún að kærði og meðkærði hafi báðir nauðgað sér. Hún hefði reynt að berjast  um í fyrstu en svo gefist upp. Segi hún að eftir að hún hafi komist út úr bílnum hefðu þeir kallað á eftir henni að hún væri mella á spænsku. Vitni hafi verið til staðar. Brotaþoli eigi eftir að fara í nánari læknisskoðun á slysadeild en hún hafi verið í of miklu uppnámi til að klára skoðunina morguninn 2. maí 2009

Fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem varði allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins sé á frumstigi og telji lögreglustjórinn ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, m.a. eigi eftir að yfirheyra kærða og meðkærða aftur, og sé brýnt að þeir geti ekki haft áhrif á hvorn annan með því að ræða saman. Jafnframt eigi eftir að taka skýrslur af vitnum, finna hugsanlega fleiri vitni og myndbönd úr eftirlits­myndavélum. Mál þetta sé því enn á það viðkvæmu stigi að hætt sé við því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus

Ætluð brot teljist varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá verði ekki hjá því litið að um mjög grófa atlögu tveggja manna gegn brotaþola sé að ræða, sem framin hafi verið á sársaukafullan og meiðandi hátt. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr.  laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Með vísan til þess sem fram kemur í greinargerð lögreglustjóra og þess sem rannsóknargögn bera með sér er fallist á að kærði sé undir rökstuddum grun um að framið verknað sem geti varðað allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi og er fallist á að kærði geti torveldað rannsókn málsins með því að koma undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á vitni eða samseka, gangi hann laus. Er því fallist á kröfu um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá er með sömu rökum fallist á að kærði sæti einangrun skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæslu­varð­haldi, allt til föstudagsins 8. maí 2009 kl. 16:00.

Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.