Print

Mál nr. 289/2013

Lykilorð
  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Hraðakstur
  • Akstur sviptur ökurétti
  • Fíkniefnalagabrot
  • Reynslulausn

                                              

Fimmtudaginn 14. nóvember 2013.

Nr. 289/2013.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

Vilhjálmi Vilhjálmssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hraðakstur. Akstur sviptur ökurétti. Fíkniefnalagabrot. Reynslulausn.

V var sakfelldur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Við ákvörðun refsingar var m.a. litið til sakarferils V og þess að með brotunum rauf hann reynslulausn sem honum hafði verið veitt. Var refsing hans ákveðin fangelsi í eitt og hálft ár auk þess sem honum var gert að sæta sviptingu ökuréttar ævilangt og þola upptöku ávana- og fíkniefna.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. apríl 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.

Mál þetta varðar ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum 17. desember 2012 sem er skipt niður í fimmtán ákæruliði. Við þingfestingu málsins í héraði 30. janúar 2013 játaði ákærði sök varðandi aðra háttsemi en greinir í V. ákærulið og að hluta þá háttsemi sem greinir í VII. og XV. ákærulið. Ákærði neitaði að fíkniefni þau sem fundust í vörslum hans samkvæmt ákærulið VII hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og féll ákæruvaldið frá sakargiftum að því leyti. Þá féll ákæruvaldið frá ákæru samkvæmt ákærulið XV um að ákærði hafi ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna og þar með gerst brotlegur við 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987. Eftir þessar breytingar á ákærunni játaði ákærði sök samkvæmt þessum ákæruliðum. Í þinghaldi 13. febrúar 2013 féll ákæruvaldið síðan frá ákæru samkvæmt ákærulið V.

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði meðal annars sakfelldur fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa haft í vörslum sínum óþekktar töflur. Ekki liggur fyrir í málinu að töflur þessar innihaldi ávana- og fíkniefni, en samkvæmt 2. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni er varsla og meðferð ávana- og fíkniefna sem talin eru upp í 6. gr. laganna óheimil og refsiverð, sbr. 5. gr. laganna. Verður ákærði því sýknaður af ákæru fyrir það brot. Að framangreindu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða.

Í máli þessu hefur ákærði verið sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa í þrettán nánar tilgreind skipti á tímabilinu 27. febrúar til 20. október 2012 ekið bifreiðum sviptur ökurétti, þar af átta sinnum undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þá hefur hann verið sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreið langt yfir hámarkshraða, akstur gegn rauðu ljósi og að hafa, eftir að hafa ekið á kyrrstæða bifreið, yfirgefið vettvang án þess að gera viðvart um óhappið. Enn fremur hefur hann verið sakfelldur fyrir að hafa í tvígang haft í vörslum sínum ávana- og fíkniefni.

Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann dæmdur fyrir líkamsárás 2004 og 2007. Þá var hann á dæmdur 2006 og 2009 fyrir fíkniefnabrot. Með viðurlagaákvörðun 2008 var ákærða gerð sekt fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga og sviptur ökurétti í 12 mánuði frá 3. júlí 2008. Á árinu 2010 var ákærði dæmdur fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga og brot á lögum um ávana- og fíkniefni og sviptur ökurétti ævilangt frá 12. ágúst 2010. Á árinu 2011 var hann dæmdur fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni og brot á vopnalögum. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 13. júní 2012 var ákærða gerð sekt fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Fjögur brot ákærða samkvæmt ákæru voru framin á tímabilinu 27. febrúar til 26. maí 2012 og því áður áður en fyrrnefndur dómur gekk. Samkvæmt framansögðu verður refsing ákærða ákveðin með hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærða var veitt reynslulausn 28. desember 2011 í 2 ár á eftirstöðvum 280 daga fangelsisrefsingar. Með brotum sínum hefur ákærði rofið skilyrði reynslulausnarinnar. Ber því að ákveða refsingu í einu lagi með hliðsjón af þeirri fangelsisrefsingu, sem óafplánuð er samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir að aka þrettán sinnum sviptur ökurétti, þar af í átta skipti undir áhrifum ávana- og fíkniefna, hraðakstur, akstur gegn rauðu ljósi, yfirgefa árekstursvettvang og í tvígang fyrir vörslur ávana- og fíkniefna. Brotin framdi ákærði á tæplega átta mánaða tímabili. Að þessu virtu og í ljósi sakarferils ákærða verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um um refsingu hans. Þá verður staðfest niðurstaða dómsins um upptöku, sviptingu ökuréttar og sakarkostnað.

Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 215.237 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 1. mars 2013.

Mál þetta, sem þingfest var 9. janúar 2012 og dómtekið 13. febrúar sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri 17. desember 2012, á hendur Vilhjálmi Vilhjálmssyni, kt. [...], Heiðargarði 5, 230 Reykjanesbæ,

I.                (007-2012-...)

„Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, mánudaginn 27. febrúar 2012, ekið bifreiðinni RE800, norður Gullinbrú, að Fjallkonuvegi, Reykjavík, sviptur ökuréttindum ævilangt, á 98 kílómetra hraða á klukkustund, að teknu tilliti til vikmarka, þar sem leyfður hámarkshraði er 60 kílómetrar á klukkustund.

Telst háttsemi þessi varða við 1., sbr. 3., mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

II.              (008-2012-...)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, sunnudaginn 8. apríl 2012, ekið bifreiðinni VO147, vestur Reykjanesbraut, þaðan frá Stekk og til hægri austur Njarðarbraut og inn á bifreiðastæði við verslun Toyota, Njarðarbraut 17, Reykjanesbæ, sviptur ökuréttindum ævilangt og undir áhrifum ávana- og fíkniefna (Amfetamín í blóði mældist 100 ng/ml).

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

III.           (008-2012-...)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, föstudaginn 20. apríl 2012, ekið bifreiðinni VO147, inn á bifreiðastæði og að bensíndælum við bensínstöðina Básinn, við Vatnsnesveg, Reykjanesbæ, sviptur ökuréttindum ævilangt og undir áhrifum ávana- og fíkniefna (Amfetamín í blóði mældist 130 ng/ml).

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

IV.            (007-2012-...)

A.

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, laugardaginn 26. maí 2012, ekið bifreiðinni VO147, eftir Vesturlandsvegi við Lágafell, inn á Langatanga og loks inn á athafnasvæði Olís, Reykjavík, sviptur ökuréttindum ævilangt og undir áhrifum ávana- og fíkniefna (Amfetamín í blóði mældist 290 ng/ml).

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

B.

Fyrir fíkniefnalagabrot, fyrir að hafa, á sama tíma og greinir í ákærulið A., haft í vörslum sínum, 6,36 g af amfetamíni, 0,95 g af Ecstasy og 4 bláar miðjuskiptar töflur af óþekktri tegund, er lögregla fann falin í sígarettupakka sem geymdur var í hólfi við ökumannssæti bifreiðarinnar, í kjölfar þess að lögregla framkvæmdi leit í bifreiðinni á vettvangi.

Telst háttsemi þessi varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

V.               (008-2012-...)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, mánudaginn 28. maí 2012, ekið bifreiðinni VO147, vestur Grófina og inn á bifreiðastæði við Grófina 10, Reykjanesbæ, þar sem ákærði stöðvaði bifreiðina og fór út úr bifreiðinni, sviptur ökuréttindum ævilangt og undir áhrifum ávana- og fíkniefna (Amfetamín í blóði mældist 225 ng/ml).

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

VI.            (008-2012-...)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, fimmtudaginn 14. júní 2012, ekið bifreiðinni VO147, austur Vesturgötu og þaðan norður inn á Hringbraut, gegn rauðu ljósi, uns ákærði stöðvaði bifreiðina við Grófina, Reykjanesbæ, sviptur ökuréttindum ævilangt og undir áhrifum ávana- og fíkniefna (Amfetamín í blóði mældist 105 ng/ml og MDMA í blóði mældist 80 ng/ml).

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 5. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

VII.         (007-2012-...)

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, sunnudaginn 17. júní, haft í vörslum sínum, til sölu og dreifingar, samtals 30,84 g af amfetamíni, er lögregla fann í peysuvasa ákærða, við framkvæmd öryggisleitar á ákærða í kjölfar þess að höfð voru afskipti af honum þar sem hann lá áfengisdauður á Reykjavíkurvegi við Arnarhraun, Hafnarfirði.

Telst háttsemi þessi varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

VIII.       (008-2012-...)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, miðvikudaginn 4. júlí 2012, ekið bifreiðinni VO147, austur Suðurstrandarveg, skammt austan við Selatanga, sviptur ökuréttindum ævilangt og undir áhrifum ávana- og fíkniefna (Amfetamín í blóði mældist 75 ng/ml).

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

IX.            (007-2012-...)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, sunnudaginn 22. júlí 2012, ekið bifreiðinni VO147, austur Reykjanesbraut, til móts við Straumsvík, sviptur ökuréttindum ævilangt.

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

X.                   (007-2012-...)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, þriðjudaginn 24. júlí 2012, ekið bifreiðinni VO147, austur Vesturvör og þaðan inn á Kársnesbraut, uns ákærði stöðvaði bifreiðina til móts við Kársnesbraut 71, Kópavogi, sviptur ökuréttindum ævilangt.

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

XI.         (007-2012-...)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, aðfaranótt mánudagsins 30. júlí 2012, ekið bifreiðinni VO147, vestur Nesvör og þaðan inn á Hafnarbraut til suðurs uns ákærði stöðvaði bifreiðina við Hafnarbraut 11, Kópavogi, sviptur ökuréttindum ævilangt og undir áhrifum ávana- og fíkniefna (Amfetamín í blóði mældist 205 ng/ml, kókaín í blóði mældist 30 ng/ml og tetrahýdrókannabínól í blóði mældist 1,4 ng/ml).

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

XII.         (007-2012-...)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, laugardaginn 11. ágúst 2012, ekið bifreiðinni IX970, austur Hvaleyrarbraut, Hafnarfirði, sviptur ökuréttindum ævilangt.

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

XIII.       (008-2012-...)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, miðvikudaginn 3. október 2012, ekið bifreiðinni VO147, austur Vesturbraut, Reykjanesbæ, uns ákærði stöðvaði bifreiðina við Vesturbraut 6, Reykjanesbæ, sviptur ökuréttindum ævilangt og undir áhrifum ávana- og fíkniefna (Amfetamín í blóði mældist 235 ng/ml).

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

XIV.    (008-2012-...)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, fimmtudaginn 11. október 2012, ekið bifreiðinni VO147, vestur Reykjanesbraut, áleiðis til Reykjanesbæjar, uns ákærði stöðvaði bifreiðina við Stapabraut, Reykjanesbæ, sviptur ökuréttindum ævilangt og undir áhrifum ávana- og fíkniefna (Amfetamín í blóði mældist 320 ng/ml).

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

XV.          (008-2012-...)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, laugardaginn 20. október 2012, ekið bifreiðinni NU942, suður Hringbraut, Reykjanesbæ, sviptur ökuréttindum ævilangt og undir áhrifum ávana- og fíkniefna (Amfetamín í blóði mældist 320 ng/ml). Er ákærði kom akandi að gatnamótum Hringbrautar og Aðalgötu, missti ákærði stjórn á bifreiðinni NU942 með þeim afleiðingum að bifreiðin skall framan á bifreiðinni [...] sem var kyrrstæð við gatnamót Hringbrautar og Aðalgötu. Í kjölfar þess að ökumaður bifreiðarinnar [...] óskaði eftir aðstoð lögreglu hljóp ákærði af vettvangi án þess að nema staðar og gera viðvart um óhappið og án þess að skýra frá nafni sínu og heimilisfangi.

Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 10. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Þess er einnig krafist að ákærði verði dæmdur til sviptingar ökuréttar, skv. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006, og að gerð verði upptæk framangreind 37,20 g af amfetamíni, 0,95 g af Ecstasy og 4 bláar miðjuskiptar töflur af óþekktri tegund, samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997 og 68/2001, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglug. nr. 233/2001.“

Ákærði kom fyrir dóminn 30. janúar sl., ásamt skipuðum verjanda sínum, og játaði þá háttsemi sem lýst er í ákæruliðum I, II, III, IV-A og -B, VI, VII, VIII, IX, X, XI, XII, XIII og XIV. Þá samþykkti hann kröfu um upptöku. Við fyrirtöku þann 13. febrúar sl. féll ákæruvaldið frá ákærulið V og þeirri háttsemi að ákærði hafi, í ákærulið VII, haft umrædd fíkniefni til sölu- og dreifingar.

Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga nr. 88/2008 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun refsingar. Ákærði krafðist vægustu refsingar. Játning ákærða er í samræmi við önnur gögn málsins og verður hann því sakfelldur fyrir brot sín. Háttsemin er í ákæru réttilega færð til refsiákvæða.

Í málinu liggur fyrir matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði. Kemur þar fram að magn THC í sýnum var lítið eða á bilinu 9,5 til 14 mg/g eftir þurrkun sýnanna.  

Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að ákærði játaði brot sitt greiðlega fyrir lögreglu og fyrir dóminum. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum sjö sinnum verið gerð refsing frá árinu 2004. Þau brot sem hafa áhrif við ákvörðun refsingar nú er dómur frá 9. febrúar 2006, en þá var ákærði dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir brot gegn 173a gr. almennra hegningarlaga. Þann 3. júlí 2008 gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga og var sviptur ökurétti í tólf mánuði frá 3. júlí 2008. Þann 17. desember 2009 var ákærði dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga og 2., sbr. 5., gr. laga um ávana- og fíkniefni. Þann 9. júlí 2010 var ákærði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og 1. og 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga auk 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga og var sviptur ökurétti ævilangt frá 12. ágúst 2010 og þann 20. október 2011 var ákærði dæmdur í eins mánaðar fangelsi fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni svo og vopnalagabrot. Ákærði fékk reynslulausn á dómi frá 9. febrúar 2006 á 240 dögum þann 13. júlí 2007 í tvö ár. Ákærði rauf þá reynslulausn 27. mars 2008 og lauk afplánun 22. nóvember 2008.

Ákærði fékk aftur reynslulausn 28. desember 2011 í tvö ár á eftirstöðvum refsingar, 280 dögum. Dómar frá 9. júlí 2010 og 20. október 2011 eru hegningarauki við fyrri dóm þannig að ákærði rauf ekki reynslulausn með þeim brotum. Með brotum þeim sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir nú rauf hann reynslulausn sem honum var veitt 28. desember 2011 á eftirstöðvum refsingar, 280 dögum. Ber að dæma reynslulausnina upp nú með hliðsjón af 65. gr. laga 49/2005, sbr. 60. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði hefur með brotum sínum nú verið sakfelldur fyrir að aka þrettán sinnum sviptur ökurétti frá 27. febrúar 2012 til 20. október 2012. Er hér um tólftu ítrekun að ræða. Þá hefur ákærði verið sakfelldur fyrir átta brot gegn 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987 og þar af fjórum sinnum með mikið magn fíkniefna í blóði. Áður hafði ákærði verið sakfelldur í tvígang fyrir fíkniefnaakstur. Er hér um níu ítrekanir að ræða. Þá hefur ákærði verið sakfelldur fyrir að hafa í tvígang haft í vörslum sínum samtals 37,20 g af amfetamíni, 0,95 g af Ecstasy og óþekktar  töflur. Er þar um endurtekin brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni að ræða. Ákærði á sér engar málsbætur.

Með vísan til 72. gr. laga nr. 19/1940 og dómaframkvæmdar er refsing ákærða ákveðin fangelsi í eitt og hálft ár. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna. Þá skal ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá uppkvaðningu dóms þessa.

Ákærði mótmælti því að hann yrði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar þar sem hluti sakarkostnaðar er vegna rannsóknar á kannabínóíðum sem ekki hafi verið ákært fyrir. Við skoðun á matsgerðum hefur efnið THC fundist í þvagi ákærða í öllum tilfellum sem það var rannsakað utan einu sinni. Verður ákærði ekki dæmdur til greiðslu á þeim kostnaði. Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað sem hlaust af málinu, sem er samkvæmt yfirliti 1.012.654 krónur. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 261.040 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Vilhjálmur Vilhjálmsson, kt. [...], skal sæta fangelsi í eitt og hálft ár.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá uppkvaðningu dóms þessa.

                Ákærði skal sæta upptöku á 37,20 g af amfetamíni, 0,95 g af Ecstasy og fjórum bláum töflum af óþekktri tegund.

                Ákærði greiði sakarkostnað, samtals 1.273.694 krónur, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 261.040 krónur.