- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Miðvikudaginn 12. ágúst 2009. |
Nr. 446/2009. |
Ákæruvaldið (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X(Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. ágúst 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. ágúst 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 7. september 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 10. ágúst 2009.
Árið 2009, mánudaginn 10. ágúst, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Sigrúnu Guðmundsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að dómurinn úrskurði að X kt. [...], til að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til mánudagsins 7. september 2009 kl. 16:00.
Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júlí sl. nr. 334/2009 hafi ákærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag til kl. 16 á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, og hafi sá úrskurður verið staðfestur með dómi Hæstaréttar frá 15. júlí 2009 nr. 395/2009. Áður hafi ákærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli fyrrgreindra lagaákvæði í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. 298/2009, úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-278/2009 og dómi Hæstaréttar frá 22. júní nr. 337/2009 og úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-234/2009.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi unnið að rannsóknum mála þar sem ákærði hafi verið grunaður um auðgunarbrot. Flest þessara mála hafi átt sér stað með skömmu millibili líkt og megi sjá í kröfugerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 1. og 15. júní sl. vegna gæsluvarðhalds ákærða. Rannsókn málanna sé lokið og hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefið út tvær ákærur á hendur ákærða vegna þriggja þjófnaðarbrota, auk fíkniefnalagabrots og ríkissaksóknari hafi gefið út ákæru á hendur ákærða vegna fólskulegs ráns, húsbrots og frelsissviptingar, sjá ákæru ríkissaksóknara dagssetta 13. júlí 2009.
Auk þessa máls sem ríkissaksóknari hafi nú höfðað gegn ákærða hafi þegar verið gefin út ákæra af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á hendur ákærða X þann 12. maí sl. og sé ákæran til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Er hann þar ákærður fyrir þjófnað í félagi við annan aðila að kvöldi mánudagsins 13. október 2008 með því að hafa brotist inn í verslunina Tölvutækni við Hamraborg í Kópavogi og stolið þaðan tveimur fartölvum og þá sé ákærði einnig ákærður fyrir fíkniefnalagabrot fyrir að hafa haft í vörslum sínum 0,44 g af amfetamíni.
Þann 13. júlí hafi verið gefin út önnur ákæra af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á hendur ákærða vegna þjófnaðarbrota sem ákærði hafi verið staðinn að einungis tveimur sólarhringum eftir að ákærða hafi verið sleppt úr gæsluvarðhaldi vegna ránsmálsins sem ríkissaksóknari hafi nú ákært ákærða fyrir. Í síðari ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sé ákærða gefið að sök að hafa brotist inn í tvö íbúðarhúsnæði í Hafnarfirði sunnudaginn 31. maí og stolið þaðan ýmsum munum.
Með vísan til framangreinds og brotaferils ákærða sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan málum hans sé ekki lokið.
Ætluð brot sem ríkissaksóknari og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafa nú ákært ákærða fyrir varða við 2. mgr. 226., 231., 244. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæða 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana og fíkniefni nr. 65/1974, en brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga getur varðað allt að 16 ára fangelsi.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Kærði er undir sterkum grun um að hafa framið brot sem geta varðað við 217., 226., 244. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er fallist á með lögreglu að líkur séu á því að kærði muni halda brotastarfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan málum hans sé ekki lokið.
Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna og c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tekin til greina, þó þannig að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og krafist er og fram kemur í úrskurðarorði, en ekki þykir ástæða til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til mánudagsins 7. september 2009 kl. 16:00.